Hæstiréttur íslands
Mál nr. 218/2016
Lykilorð
- Fjárnám
- Veðleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Fyrning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. mars 2016. Þau krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að þau verði sýknuð af kröfu stefnda. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi reisa áfrýjendur á því að stefndi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfu sína, þar sem hann eigi enga fjárkröfu til að leita tryggingar á, enda hafi allar slíkar kröfur á hendur skuldaranum, Árna Pálssyni, fyrnst á tveimur árum eftir lok skipta á þrotabúi hans. Þau hafi verið 6. september 2011 og þess vegna hafi krafan fyrnst sama dag á árinu 2013. Kröfu þessari til stuðnings vísa áfrýjendur til 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndi kveður í þessu felast nýja málsástæðu, sem hann andmælir að tekið verði tillit til. Álitaefni um hvort stefndi eigi ófyrnda fjárkröfu á hendur Árna, sem honum verði heimilað að gera fjárnám fyrir, lúta að efnisatriðum máls og verða tekin til úrlausnar á þeim grundvelli. Verður kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi því hafnað.
II
Samkvæmt gögnum málsins keypti fyrrgreindur Árni Pálsson, bróðir áfrýjenda, húsið að Lækjarbraut 3, sem nú er í Rangárþingi ytra, með kaupsamningi 28. september 1993. Seljendur voru foreldrar hans og var umsamið kaupverð 4.300.000 krónur, sem greiða skyldi með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með sex peningagreiðslum, samtals 2.300.000 krónur, í öðru lagi með yfirtöku áhvílandi veðskuldar að fjárhæð 311.640 krónur og í þriðja lagi með útgáfu skuldabréfs, sem tryggt skyldi með veði í hinni seldu eign, að fjárhæð 1.688.360 krónur og átti það að greiðast með tíu afborgunum, tveimur á ári, í fyrsta sinn 1. janúar 1995. Kaupsamningnum var þinglýst í beinu framhaldi af gerð hans.
Árni mun á árinu 2001 hafa stofnað tékkareikning, sem fékk númerið 353, við útibú Landsbanka Íslands hf. á Hvolsvelli, og fengið heimild til þess að yfirdraga reikninginn. Árni gaf út tryggingarbréf 3. apríl 2006 til bankans að höfuðstól 5.000.000 krónur, sem taka skyldi breytingum til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölunni 252,3. Það skyldi vera til tryggingar á skilvísri greiðslu á ,,öllum skuldum og fjárskuldbindingum“ hans við bankann. Tryggingarbréfinu var þinglýst á 2. veðrétt á húsinu Lækjarbraut 3 og samþykkti faðir áfrýjanda veðsetninguna sem þinglýstur eigandi þess, en hann var þá 70 ára að aldri. Áfrýjandi heldur því fram að þess hafi hvorki verið gætt að meta greiðslugetu Árna né kynna fyrir föður hans þann rétt sem hann átti til upplýsinga og leiðbeininga samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Það samkomulag var á milli stjórnvalda annars vegar og Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, sem Landsbanki Íslands hf. var þá aðili að, Sambands íslenskra sparisjóða og Neytendasamtakanna hins vegar. Samkomulagið átti einnig við þegar maður veitti leyfi til þess að fasteign hans yrði veðsett til tryggingar skuld annars manns.
Faðir Árna og áfrýjenda lést 9. desember 2008 og fengu erfingjar hans leyfi til einkaskipta á dánarbúinu. Árni gerði 29. sama mánaðar samkomulag við dánarbúið um að kaupsamningi hans við hinn látna og móður Árna frá 28. september 1993 um húsið að Lækjarbrekku 3 skyldi ganga til baka, þar sem kaupverð þess hefði aldrei verið greitt, og að fasteignin gengi til dánarbúsins. Í samkomulaginu sagði meðal annars: ,,Á eigninni hvílir tryggingarbréf frá Landsbanka Íslands hf. upphaflega að fjárhæð kr. 5.000.000,-. Aðilar eru sammála um að tryggingarbréfið fái að hvíla áfram á eigninni. Kaupandi skuldbindur sig til að aflétta öðrum óviðkomandi veðum.“ Undir þetta samkomulag rituðu Árni og allir áfrýjendur. Skiptum á dánarbúinu lauk 18. febrúar 2009. Nokkru síðar afsalaði Árni eignarhluta sínum í húsinu að Lækjarbraut 3 til systur sinnar, áfrýjandans Ragnheiðar. Bú Árna var svo tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 16. júní 2009. Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi er stefndi nú réttur kröfuhafi vegna þeirrar skuldar sem Árni stofnaði til með því að yfirdraga áðurnefndan tékkareikning. Stefndi lýsti nokkrum kröfum í þrotabúið, meðal annars kröfu að fjárhæð 10.570.307 krónur vegna yfirdráttar á tékkareikningi númer 353 við eitt útibúa hans. Skiptastjóri þrotabúsins tók ekki afstöðu til almennra krafna sem lýst var í þrotabúið og lauk skiptum 6. september 2011 án þess að nokkuð fengist greitt upp í lýstar kröfur. Stefndi höfðaði málið í héraði með stefnu sem birt var dagana 8. til 10. desember 2014 og krafðist þess að sér yrði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfinu til tryggingar kröfu að fjárhæð 8.374.950 krónur á hendur Árna vegna yfirdráttarins.
III
Sýknukröfu sína reisa áfrýjendur meðal annars á því að ógilda beri loforð um veðsetningu samkvæmt tryggingarbréfinu frá 3. apríl 2006. Þau telja að það fari í bága við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að stefndi beri fyrir sig loforð föður þeirra, Páls Helgasonar, um að veita veðleyfi. Ástæður þess kveða þau vera að vanrækt hafi verið sú skylda að gæta réttinda Páls samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem áður greinir, auk þess sem borið hafi að gæta sérstaklega að upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu við Pál sökum aldurs hans. Þau telja það engu breyta þótt í tryggingarbréfinu hafi verið skilmáli um að veðsali hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar fyrir skuldum annarra.
Svo sem áður er fram komið samþykktu áfrýjendur og Árni Pálsson, þegar samið var um að kaup hans á Lækjarbraut 3 skyldu ganga til baka, að tryggingarbréfið mætti áfram hvíla á fasteigninni. Samkomulaginu var þinglýst. Í því felst yfirlýsing þeirra, sem það gerðu, um að þau gangist undir þá skuldbindingu sem tryggingarbréfið felur í sér fyrir eiganda fasteignarinnar. Þegar af þeirri ástæðu geta framangreind atvik sem urðu þegar upphaflegt loforð um veðleyfi í fasteigninni var gefið ekki staðið því í vegi að stefndi beri veðleyfið fyrir sig gagnvart áfrýjendum. Í því efni skiptir ekki máli þótt yfirlýsingu um efni samkomulagsins að þessu leyti hafi ekki verið beint sérstaklega til stefnda.
Þá byggja áfrýjendur sýknukröfu sína á því að þar sem ritað hafi verið undir tryggingarbréfið 3. apríl 2006 hafi ábyrgðin, sem í því fólst, fallið úr gildi 3. apríl 2010. Í greinargerð þeirra í héraði sagði að frá því tímamarki hafi ,,ekki verið unnt að ganga að skuld skv. yfirdrætti á grundvelli tryggingarbréfsins, skv. skýru orðalagi 6. gr. samkomulagsins.“ Óljóst er hvert inntak þessarar málsástæðu er, en að því leyti sem hún felur í sér að veðréttindi samkvæmt tryggingarbréfinu eigi að falla niður, fjórum árum eftir útgáfu þess vegna fyrningar, verður henni hafnað.
Ennfremur bera áfrýjendur fyrir sig, verði ekki fallist á síðastgreinda málsástæðu þeirra, að ,,3. apríl 2010 hafi fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmönnum byrjað að líða“ eins og komist var að orði í greinargerðinni. Þar sagði jafnframt að samkvæmt meginreglu 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist kröfur á fjórum árum. Krafa stefnda hafi því verið fyrnd 3. apríl 2014, meira en hálfu ári áður en málið var höfðað í héraði. Fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur einnig vísað til 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, eins og þeirri grein var breytt með 1. gr. laga nr. 142/2010, til stuðnings því að krafan sé niður fallin vegna fyrningar. Af hálfu stefnda var því lýst yfir að röksemdum um að regla þessarar málsgreinar ætti við hefði verið lýst af áfrýjanda við flutning málsins í héraði, en um hana hafi ekki verið fjallað í héraðsdómi. Um sé að ræða nýja málsástæðu, sem ekki eigi að komast að fyrir Hæstarétti.
Fjárkrafa stefnda er ekki á hendur áfrýjendum, enda eru þau ekki í ábyrgð fyrir kröfunni þótt þau hafi samþykkt, er þau eignuðust fasteignina Lækjarbraut 3, að veð í henni til tryggingar kröfum stefnda á hendur skuldaranum mætti standa. Málsástæða áfrýjenda, sem hér um ræðir, er um að fjárkrafa stefnda sem hann teflir fram í málinu sé niður fallin vegna fyrningar. Henni til stuðnings vísuðu þau í héraðsgreinargerð um lögfræðileg rök til 3. gr. laga nr. 150/2007, en við munnlegan málflutning í héraði og hér fyrir dómi einnig til 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 svo sem þeim hefur verið breytt. Í greinargerðinni vísuðu áfrýjendur einnig til þess að stefndi hefði ekki sýnt fram á að krafa hans á hendur skuldaranum væri fyrir hendi. Að teknu tilliti til alls þessa standa ákvæði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því ekki í vegi að tekið sé til úrlausnar hvort fjárkrafan sé niður fallin samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.
Hvorki er ljóst af kröfulýsingu stefnda í þrotabú Árna Pálssonar né öðrum gögnum málsins hvenær krafan stofnaðist. Yfirlit um færslur á tékkareikning hafa ekki verið lagðar fram í málinu að öðru leyti en því að fram kemur hver staða reikningsins var um mitt ár 2009, meðal annars að 9. júní það ár hafi krafan verið 10.570.307 krónur, en það er sama fjárhæð og stefndi lýsti við gjaldþrotaskipti á búi Árna. Engin gögn í málinu styðja að krafan hafi stofnast fyrir 31. desember 2007 og verður því að leggja til grundvallar að um fyrningu hennar gildi almennt reglur laga nr. 150/2007, sbr. 28. gr. þeirra. Samkvæmt 3. gr. laganna fyrnast kröfuréttindi á fjórum árum. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. sömu laga er fyrningu slitið þegar kröfu er lýst við gjaldþrotaskipti á búi skuldara innan kröfulýsingarfrests. Samkvæmt því sleit stefndi fyrningu kröfunnar 7. september 2009 er hann lýsti kröfum sínum, meðal annars þeirri sem mál þetta varðar, í þrotabú skuldarans. Í 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 er að finna sérreglu, sem var eins og áður greinir breytt með 1. gr. laga nr. 142/2010, sem tóku gildi 29. desember 2010. Eftir þá breytingu gildir sú regla að ef kröfu hefur verið lýst við gjaldþrotaskipti og ekki fengist greidd við þau, sé fyrningu slitið gagnvart þrotamanni og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi er skiptum lauk. Samkvæmt upphafsákvæði 2. gr. laga nr. 142/2010 taka lögin til krafna við gjaldþrotaskipti sem ólokið var þegar þau öðluðust gildi. Skiptum lauk sem fyrr segir á þrotabúi Árna 6. september 2011. Samkvæmt framangreindu hófst þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur, sem lauk á sama degi 2013. Þann dag féll fjárkrafa sú er málið varðar niður fyrir fyrningu. Verður því fallist á með áfrýjendum að krafa stefnda hafi verið fyrnd er málið var höfðað í desember 2014. Af þeim sökum verða þeir sýknaðir af kröfu stefnda.
Eftir 1. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefndi áfrýjendum sameiginlega málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Anna Lára Pálsdóttir, Jóhanna Ósk Pálsdóttir, Ragnheiður Pálsdóttir og Þorbjörn Helgi Pálsson, eru sýkn af kröfu stefnda, Landsbankans hf.
Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi, 1.500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2015.
I.
Mál þetta var höfðað með stefnum birtum þann 8., 9. og 10. desember 2014 og var dómtekið þann 24. nóvember 2015.
Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík, en stefndu eru Þorbjörn Helgi Pálsson, Lækjarbraut 6, Hellu, Anna Lára Pálsdóttir, Öldugötu 44, Hafnarfirði, Ragnheiður Pálsdóttir, Hvítadal, Búðardal og Jóhanna Ósk Pálsdóttir, Lóurima 14, Selfossi.
Eru dómkröfur stefnanda þær að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám í veðrétti sem stefnandi á í eignarhlutum stefndu í fasteigninni Lækjarbraut 3, Rangárþingi ytra, fnr. 219-74921, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0182-63-18204, útg. 3. apríl 2006, til tryggingar skuld Árna Pálssonar, við stefnanda, samkvæmt yfirdrætti á tékkareikningi nr. 0182-26-353, fyrir samtals 8.374.950 krónum. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda, auk málskostnaðar.
II.
Atvik málsins eru þau að þann 28. september 2001 stofnaði Árni Pálsson kt. [...], tékkareikning við útibú stefnanda á Hvolsvelli með yfirdráttarheimild. Yfirdráttarheimildin rann út og var uppsöfnuð skuld ekki greidd. Reikningnum var því lokað í kjölfarið.
Bú Árna Pálssonar var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum þann 16. júní 2009. Á úrskurðardegi var staða tékkareikningsins neikvæð um 10.570.307 krónur. Stefnandi lýsti kröfum í þrotabúið. Engar eignir fundust í búinu og lauk skiptum á því þann 6. september 2011.
Til tryggingar greiðslu allra skulda og fjárskuldbindinga sinna við stefnanda þar með töldum yfirdrætti á tékkareikningi gaf Árni út tryggingarbréf sem dagsett er 3. apríl 2006 upphaflega að fjárhæð 5.000.000 króna, verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs. Í 4. tölul. bréfsins var tiltekið að félli skuldin í gjalddaga væri veðhafa heimilt að nýta sér veðtryggingu sína samkvæmt tryggingabréfinu og láta selja hið veðsetta nauðungarsölu til lúkningar skuldinni að undgengnum dómi, sátt eða fjárnámi. Í 10. tölul. bréfsins var mælt fyrir um að með undirritun sinni á tryggingarbréfið staðfesti veðsali, sem ekki væri útgefandi, að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Ritaði Árni Pálsson undir bréfið sem útgefandi en Páll Helgason sem þinglýstur eigandi. Samkvæmt bréfinu var fasteignin að Lækjarbraut 3, Rangárþingi ytra sett að veði. Var bréfið móttekið til þinglýsingar þann 28. apríl 2006.
Páll Helgason og Jófríður Ragnarsdóttir, seldu syni sínum Árna Pálssyni fasteignina Lækjarbraut 3, Rauðalæk, Holtahreppi, samkvæmt kaupsamningi, dags. 28. september 1993. Var söluverðið fasteignarinnar 4.300.000 krónur og skyldi það greiðast með útgáfu skuldabréfs að fjárhæð 1.688.360 krónur og með sex greiðslum samtals að fjárhæð 2.300.000 krónur á tímabilinu 15. október 1993 til 1. október 1994. Var kaupsamningnum þinglýst þann 30. september 1993. Fasteignin var afhent kaupanda 1. desember 1993. Ekki var gefið út afsal vegna eignarinnar.
Með samkomulagi um riftun, dags. 29. desember 2008, sem gert var á milli dánarbús Páls Helgasonar og Árna Pálssonar, ákváðu samningsaðilar að rifta áðurgreindum kaupsamningi sem gerður var á milli Páls Helgasonar og Árna Pálssonar um fasteignina að Lækjarbraut 3. Í samkomulaginu segir að Aðilar eru sammála um að ofangreindur kaupsamningur falli niður og gengi til baka þar sem kaupverð eignarinnar hafi ekki verið greitt. Eignarhald fasteignarinnar gengur að nýju til Páls Helgasonar (dánarbús) og falla þar með eignarréttindi kaupanda niður. Þá var tekið fram í samkomulaginu að Á eigninni hvílir tryggingabréf frá Landsbanka Íslands hf. upphaflega að fjárhæð kr. 5.000.000. Aðilar eru sammála um að tryggingarbréfið fái að hvíla áfram á eigninni. Kaupandi skuldbindur sig til að aflétta öðrum óviðkomandi veðum. Rituðu stefndu í máli þessu auk Árna Pálssonar undir samkomulagið. Var skjalið móttekið til þinglýsingar þann 31. desember 2008.
Með afsali, dags. 1. mars 2009, afsalaði Árni Pálsson 20% eignarhluta sínum í fasteigninni sem honum hlotnaðist við skipti á dánarbúi föður hans, til Ragnheiðar Pálsdóttur. Var skjalið móttekið til þinglýsingar þann 2. mars 2009 og innfært í þinglýsingarbók með þeirri athugasemd þinglýsingarstjóra að áhvílandi tryggingarbréf á 1. veðrétti á Lækjarbraut 3 væri ekki getið í afsalinu.
Samkvæmt framangreindu voru þinglýstir eigendur að Lækjarbraut 3, frá og með 1. mars 2009, stefndu í máli þessu þau Þorbjörn Helgi Pálsson, Anna Lára Pálsdóttir, Ragnheiður Pálsdóttir og Jóhanna Ósk Pálsdóttir. Var þeim hverju um sig sent innheimtubréf, dags. 17. febrúar 2011 og 17. október 2014, þar sem fram komu upplýsingar um fjárhæð tryggingarbréfsins sem væri tryggt með veði í fasteigninni að Lækjarbraut 3 og upplýsingar um að bréfið tryggði m.a. yfirdrátt á tékkareikningi Árna Pálssonar og að gjaldfallin yfirdráttarskuldin næmi 12.907.478 krónum. Uppreiknuð staða tryggingarbréfsins með verðbótum þann 20. nóvember 2014 var 8.374.950 krónur.
Með tölvubréfum lögmanns stefndu til Landsbanka Íslands í árslok 2014, var óskað upplýsinga um lán Árna Pálssonar og veðsetninguna sem veitt hafi verið í umræddri fasteign, auk þess sem óskað var upplýsinga um hvort greiðslumat hefði verið gert á Árna. Í svari stefnanda, dags. 29. desember 2014 kemur kemur fram að tryggingarbréfið hafi verið sett til tryggingar öllum skuldum Árna við stefnanda. Árni hafi verið eigandi Lækjarbrautar 3, samkvæmt upplýsingum fasteignamats ríkisins, en hann hafi keypt fasteignina árið 1993. Því hafi ekki verið um að ræða lánsveð þegar tryggingarbréfinu var þinglýst á fasteignina árið 2006. Af þeim sökum hafi engar skyldur hvílt á bankanum til þess að greiðslumeta Árna við útgáfu tryggingarbréfsins. Í desember 2008 hafi Árni og aðrir erfingjar gert með sér samkomulag um að rifta kaupsamningi um fasteignina frá árinu 1993. Aðilar samkomulagsins hafi verið sammála um að tryggingarbréfið fengi að hvíla áfram á eigninni auk þess sem fram komi í 7. tölul. tryggingarbréfsins að veðsetningin standi óhögguð þrátt fyrir að eigendaskipti verði á hinu veðsetta. Tók stefnandi fram að riftun kaupsamnings tveimur árum eftir þinglýsingu tryggingabréfsins á fasteignina hafi ekki áhrif á gildi veðsetningarinnar að mati bankans. Þá hafi núverandi eigendur fengið áramótayfirlit frá stefnanda þar sem fram komi að þau séu nú í ábyrgð fyrir umræddu tryggingarbréfi.
Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra í þb. Árna Pálssonar, skilaði stefnandi kröfulýsingu í búið, en þar sem sýnt þótti að ekkert fengist greitt upp í almennar kröfur tók skiptastjórinn ekki afstöðu til almennra krafna.
Hvað aðild Landsbankans hf. varðar þá tók Fjármálaeftirlitið (FME), með heimild í 100. gr. a. í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. [...], til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. [...], (nú Landsbankinn hf., kt. [...]) er dagsett þann 9.10.2008.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að kröfur hans á hendur Árna Pálssyni njóti veðréttar í fasteigninni að Lækjarbraut 3 á grundvelli tryggingarbréfs stefnanda. Árni Pálsson sé skuldari samkvæmt áðurgreindum tékkareikningi hjá stefnda, en ekki sé unnt að höfða mál í héraði gegn þrotabúinu samkvæmt 116. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi hafi ekki tryggt sér aðfararhæfa kröfu á hendur Árna Pálssyni áður en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Af þeim sökum sé stefnanda nauðsynlegt að fá dóm um að honum sé heimilað fjárnám í fasteign stefndu að því marki sem veðtryggingin taki til dómkröfunnar samkvæmt ákvæðum tryggingarbréfsins sem hvílir á eignarhluta stefndu í fasteigninni að Lækjarbraut 3. Bréfið sé allsherjarveð og því sé ekki unnt að fara beint í aðför samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 eða beiðast nauðungarsölu samkvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 á grundvelli þess.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu telja að veðsetning samkvæmt tryggingarbréfinu sé ógild sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og óskráðum meginreglum samningaréttar. Ástæðan sé sú að forveri stefnanda hafi ekki framkvæmt greiðslumat á lántakandanum Árna Pálssyni, áður en Páll Helgason veðsetti fasteign sína til tryggingar skuldum Árna við Landsbankann. Á forvera stefnanda sem stefnandi leiði rétt sinn af, hafi hvílt fortakslaus skylda til greiðslumats, sbr. 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, dags. 1. nóvember 2001. Í þessu hafi einnig falist brot gegn þágildandi 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og gegn þágildandi 4. og 6. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Þá sé ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera fyrir sig samþykki þáverandi eiganda fasteignarinnar að Lækjarbraut 3, fyrir veðsetningu fasteignarinnar til greiðslu skuldar Árna Pálssonar. Þá hafi þáverandi eigandi fasteignarinnar ekki verið upplýstur um í hverju veðsetningin væri fólgin. Stefndi vísar til 6. gr. fyrrgreinds samkomulags sem mælir fyrir um að sé veð sett til tryggingar yfirdráttarheimild tékkareiknings skuli ábyrgðin miðast við tiltekna hámarksfjárhæð, auk þess sem slíkt veð skuli ekki gilda lengur en fjögur ár frá útgáfudegi. Ábyrgðin sem hafi falist í veðsetningunni sé því fyrir löngu búin að missa gildi sitt. Þá vísa stefndu til eldra samkomulags frá 1998 um að fjármálafyrirtækjum beri að miða við að aldur ábyrgðamanna sé ekki hærri en 70 ár.
Stefndu telja samkvæmt framansögðu að ábyrgðin samkvæmt tryggingarbréfinu hafi runnið úr gildi þann 3. apríl 2010 miðað við að ritað hafi verið undir það hinn 3. apríl 2006. Telja stefndu að frá þeim tíma hafi ekki verið unnt að ganga að skuld samkvæmt yfirdrætti á grundvelli tryggingarbréfsins samkvæmt 6. gr. samkomulagsins. Verði ekki fallist á þá málsástæðu er byggt á því að þann 3. apríl 2010 hafi fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmönnum byrjað að líða. Samkvæmt meginreglu 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist kröfur á fjórum árum. Samkvæmt því hafi krafan verið fyrnd þann 3. apríl 2014. Mál þetta hafi verið höfðað með birtingu stefnu þann 9. desember 2014, en þá hafi krafan verið fyrnd. Beri því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu stefnanda. Að virtu öllu framangreindu telja stefndu að veðsetningin samkvæmt tryggingarbréfinu sé ógild, sbr. 36. gr., laga nr. 7/1936.
Stefndu mótmæla þeirri afstöðu stefnanda að ekki hafi verið þörf á að greiðslumeta Árna Pálsson þar sem hann hafi verið eigandi hinnar veðsettu fasteignar á þeim tíma sem veðsetningin fór fram. Samningurinn hafi verið gerður árið 1993. Árni hafi ekki greitt neina af þeim sex kaupsamningsgreiðslum sem samningurinn mæli fyrir um. Af þeim sökum hafi ekki verið gefið út afsal eða þinglýst afsali vegna kaupanna. Þau hafi einfaldlega aldrei orðið að veruleika vegna verulegra vanefnda kaupanda. Árni hafi því glatað þeim skilyrta eignarrétti sem hann hafði á grundvelli kaupsamningsins. Með athafnaleysi sínu hafi hann í raun fallið frá rétti sínum samkvæmt kaupsamningnum. Þar sem kaupandi hafi ekki fylgt skilmálum um að kaupa eignina og þar með að greiða kaupverðið hafi skuldbinding seljanda til að selja fasteignina fallið úr gildi í síðasta lagi þann 1. október 1994, þegar síðasta kaupsamningsgreiðsla hafi átt að berast.
Stefnanda hafi mátt vera það ljóst að Árni Pálsson hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar með því að skoða veðbandayfirlit hennar þar sem fram komi að þinglýstum kaupsamningi frá 28. september 1993 hafi ekki verið fylgt eftir og ekkert afsal gefið út síðan þá. Þá hafi stefnandi óskað eftir því við þinglýstan eiganda, Pál Helgason, að hann skrifaði undir tryggingarbréfið sem þinglýstur eigandi. Þá hafi verið mælt fyrir um í tryggingarbréfinu að veðsali, Páll Helgason væri ekki útgefandi tryggingarbréfsins, og að í því fælist yfirlýsing stefnanda um að Árni Pálsson hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar. Með því hafi komið fram afstaða stefnanda til þess hver hafi verið réttarstaða Páls Helgasonar og þar með einnig Árna Pálssonar, þ.e. að Árni hafi verið útgefandi tryggingabréfsins og Páll Helgason veðsali. Þá hafi eftirfarandi lögskipti staðfest þetta. Stefndu væru ekki eigendur fasteignarinnar að Lækjarbraut 3 ef þau hefðu fengið fasteignina sem erfingjar eftir að Páll Helgason féll frá. Að sama skapi, ef Árni Pálsson hefði verið eigandi Lækjarbrautar 3, þá hefði verið tekin afstaða til kröfulýsingar NBI hf. í þrotabú Árna Pálssonar þar sem kröfu samkvæmt yfirdrætti bankareiknings nr. 353 hafi verið lýst sem veðkröfu tryggðri með veði í fasteigninni Lækjarbraut 3. Svo hafi ekki verið gert og skiptum á búinu lokið samkvæmt 155. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Telja stefndu að Páll Helgason hafi verið fullgildur eigandi fasteignarinnar þar sem kaupandi Árni Pálsson hafi ekki efnt sinn þátt kaupsamningsins.
Stefndu telja að stefnandi geti ekki krafist aðfarar gegn þeim fyrir kröfu á hendur þriðja manni. Stefndu hafi engar upplýsingar um hvort krafa stefnanda sé fyrir hendi eða ekki og hverrar fjárhæðar hún sé. Stefnandi hafi ekki lagt fram neina samninga eða aðrar gildar heimildir sem sýni með óyggjandi hætti að hann eigi þá kröfu á hendur lántaka sem hann kveður sig eiga. Krafa stefnanda sé á grundvelli yfirdráttarheimildar en ekki skuldabréfs og því ekki ljóst hvort krafan sé fyrir hendi á milli stefnanda og skuldara. Stefndu geti ekki verið aðilar að slíku máli. Þeir geti ekki tekið til varna um lögskipti sem þeir hafi ekki hugmynd um. Vísa stefndu til 3. gr. aðfararlaga. Ákvæðið gildi ekki um tryggingarbréf. Þá telja stefndu að krafa stefnanda sé ekki nægjanlega skýr og tilvísun til lagaheimilda ófullnægjandi. Stefnandi vísi ekki til þess á hvaða aðfararheimild hann byggi kröfu sína um fjárnám inn í veðrétt fasteignar stefndu. Ekki sé vísað til laga nr. 90/1989 um aðför eða þeirra laga til stuðnings kröfu stefnanda. Aðeins sé vísað til tryggingarbréfsins sem heimildarskjals og skilmálum tékkareiknings og hvorki vísað til nánar tiltekins töluliðs 1. gr. aðfararlaga eða 3. gr. sömu laga.
IV.
Niðurstaða
Árni Pálsson varð eigandi fasteignarinnar að Lækjarbraut 3, Rauðalæk, Holtahreppi samkvæmt kaupsamningi, dags. 28. september 1993. Var söluverð eignarinnar 4.300.000 krónur sem skyldi greiðast með útgáfu skuldabréfs og sex nánar tilgreindum greiðslum. Var kaupsamningnum þinglýst þann 30. september 1993 og afhendingardagur var þann 1. desember s.á. Ekki var þó gefið út afsal vegna eignarinnar. Fram kemur í greinargerð stefndu að kaupsamningurinn hafi ekki verið efndur og með samkomulagi 29. desember 2008 milli dánarbús Páls Helgasonar og Árna hafi verið ákveðið að rifta honum, m.a. með þeim skilyrðum að umrætt tryggingarbréf fengi að hvíla áfram á eigninni. Samkomulagið var móttekið til þinglýsingar 31. desember 2008.
Þann 3. apríl 2006, gaf Árni Pálsson út tryggingarbréf, þar sem fyrrgreind fasteign var veðsett stefnanda, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Árna Pálssonar við stefnanda nú eða síðar, hvort sem þær eru samkvæmt víxlum, lánssamningum, skuldabréfum, „yfirdrætti á tékkareikningi“ o.fl. Var hin veðsetta fasteign sett að veði fyrir allt að 5.000.000 króna, bundið við vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 249,7.
Í máli þessu er deilt um hvort krafa stefnanda á hendur Árna Pálssyni vegna skuldar hans samkvæmt yfirdrætti á tékkareikningi að fjárhæð 8.374.950 krónur njóti veðtryggingar í áðurgreindu tryggingarbréfi en ekki er deilt um fjárhæð umræddrar kröfu.
Stefndu byggja kröfu sýna um sýknu á því að veðsetning fasteignarinnar sé ógild, þar sem ekki hafi verið framkvæmt greiðslumat á Árna Pálssyni áður en Páll Helgason heitinn, faðir Árna, veitti leyfi sitt til veðsetningar fasteignarinnar, en stefndu telja að Páll hafi verið eigandi fasteignarinnar að Lækjarbraut 3, á þeim tíma sem veðsetningin fór fram. Er sú afstaða stefndu reist á því að eignarréttur að fasteigninni samkvæmt kaupsamningnum frá árinu 1993, hafi ekki farið til Árna Pálssonar þar sem Árni hafi ekki greitt Páli umsamið kaupverð samkvæmt kaupsamningnum. Af þeim sökum hafi ekki verið gefið út afsal vegna kaupanna. Árni hafi því glatað skilyrtum eignarrétti sem hann átti á grundvelli kaupsamningsins enda hafi samningnum að lokum verið rift á árinu 2008. Í þessu sambandi vísa stefndu til 2. gr. samkomulags samtaka banka og verðbréfafyrirtækja o.fl. um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, þar sem mælt er fyrir um gildissvið samkomulagsins. Þar komi fram að samkomulagið taki til allra skuldaábyrgða, þ.e. sjálfskuldarábyrgða og einfaldra ábyrgða, á skuldabréfalánum, víxlum og öðrum skuldaskjölum, á yfirdráttarheimildum á tékkareikningum o.fl. Þá taki samkomulagið einnig til þess er einstaklingur hefur gefið út leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings.
Þegar umrædd fasteign að Lækjarbraut 3, var sett að veði með fyrrgreindu tryggingarbréfi á árinu 2006, var skuldari samkvæmt bréfinu, Árni Pálsson, jafnframt skráður eigandi fasteignarinnar á grundvelli þinglýsts kaupsamnings. Undirritun Páls Helgasonar á tryggingarbréfið sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar breytir ekki þeirri staðreynd að Árni Pálsson var þinglýstur eigandi fasteignarinnar á þeim tíma sem tryggingarbréfið var gefið út þótt ráðagerð kunni að hafa verið uppi á þessum tíma um að eignaraðild Árna ætti að ganga til baka. Í ljósi þess telur dómurinn að reglur um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá árinu 2001 sem settar voru til verndar ábyrgðarmönnum þegar veð í eigu annars einstaklings eru sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu, hafi ekki gilt um greinda veðsetningu. Því er hafnað þeirri málsástæðu stefndu að ógilda beri veðsetningu á þeim grundvelli að greiðslumat á skuldara hafi ekki farið fram áður en fasteignin var veðsett. Af því leiðir einnig að önnur ákvæði samkomulagsins koma ekki til frekari skoðunar.
Stefndu byggja sýknukröfu sína einnig á því að krafa stefnanda hafi verið fyrnd gagnvart ábyrgðarmönnum þann 3. apríl 2014, með vísan til meginreglu 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Á þeim tíma sem tryggingarbréfið var undirritað þann 3. apríl 2006, giltu lög nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 4. gr. þeirra laga fyrndust lán sem hér um ræðir á 10 árum. Eins og fyrr er rakið var hér ekki um að ræða ábyrgðarskuldbindingu til tryggingar fjárhagsskuldbindingu annars skuldara. Af þessu leiðir að krafa stefnanda á hendur stefndu er ófyrnd við birtingu stefnu á árinu 2014 en stefndu tóku við öllum þeim réttindum og skyldum sem fasteigninni fylgdu með samkomulagi um riftun þann 29. desember 2008 eins og fyrr er lýst.
Stefndu telja að þau geti ekki verið aðilar að máli þar sem ekki sé ljóst hvort krafa sé fyrir hendi á milli stefnanda og skuldara, sbr. 3. gr. aðfararlaga. Samkvæmt dómaframkvæmd hefur verið talið heimilt að höfða mál á hendur eiganda veðs og krefjast dóms um þann rétt til þess að fá gert fjárnám fyrir peningakröfunni í veðinu. Er því hafnað þessari málsástæðu stefndu.
Samkvæmt texta sínum veitir umrætt tryggingarbréf stefnanda veðrétt fyrir yfirdrætti á tékkareikningi útgefanda. Með vísan til þessa og þess er að framan greinir er fallist á kröfu stefnanda um að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám í veðrétti sem stefnandi á í eignarhlutum stefndu í fasteigninni Lækjarbraut 3, Rangárþingi ytra, fnr. 219-74921, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0182-63-18204, útg. 3. apríl 2006, til tryggingar skuld Árna Pálssonar, við stefnanda, samkvæmt yfirdrætti á tékkareikningi nr. 0182-26-353, fyrir samtals 8.374.950 krónum.
Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefndu sameiginlega að greiða stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefnanda, Landsbankanum hf., er heimilað að gera fjárnám í veðrétti sem stefnandi á í eignarhlutum stefndu, Þorbjarnar Helga Pálssonar, Önnu Láru Pálsdóttur, Ragnheiðar Pálsdóttur og Jóhönnu Óskar Pálsdóttur, í fasteigninni Lækjarbraut 3, Rangárþingi ytra, fnr. 219-74921, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0182-63-18204, útg. 3. apríl 2006, til tryggingar skuld Árna Pálssonar við stefnanda samkvæmt yfirdrætti á tékkareikningi nr. 0182-26-353, fyrir samtals 8.374.950 krónum.
Stefndu ber að greiða stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.