Hæstiréttur íslands
Mál nr. 213/2002
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 17. október 2002. |
|
Nr. 213/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Daníel Sæmundssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Upptaka.
D var ákærður fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, með því að hafa átt 3,72 grömm af kókaíni og ætlað þau til söludreifingar. Fundust fíkniefnin við húsleit hjá D auk peninga sem gerðir voru upptækir með héraðsdómi. Í skýrslu lögreglumanns sem kom á vettvang var meðal annars skráð eftir D að hann neytti ekki fíkniefna, en stundaði hins vegar sölu þeirra til þess að koma sér úr skuldum. Fyrir dómi kannaðist D við að hafa átt fíkniefnin og ætlað þau til eigin nota en neitaði því að hafa ætlað þau til söludreifingar. Ekki var talið að ómerking héraðsdóms gæti komið til af því einu að héraðsdómur hafi ekki verið fjölskipaður í málinu líkt og D hafði haldið fram. Þá var talið, með vísan til 48. gr. laga um meðferð opinberra mála, að sakfelling D yrði ekki reist á því sem skráð hafði verið eftir honum í lögregluskýrslu nema önnur gögn styddu nægilega þann framburð. Í því efni breytti engu þótt lögreglumennirnir hafi komið fyrir dóm og skýrt frá viðræðum sínum við D. Þóttu ýmis gögn hafa veitt vísbendingu um að D hafi selt fíkniefni, svo sem vog sem einnig hafði fundist við húsleit, auk fjölda lítilla plastpoka. Með vísan til alls þessa og þess magns fíkniefna sem um var að ræða þótti þó ekki nægilega sannað að D hafi ætlað fíkniefnin til sölu að hluta, né að þeir peningar sem voru gerðir upptækir með héraðsdómi hafi verið andvirði sölu fíkniefna. Var D dæmdur til greiðslu 200.000 króna sektar í ríkissjóðs og til að sæta upptöku á fíkniefnunum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að fallið er frá kröfu um upptöku á tölvuvog, plastpokum og svokölluðum íblöndunarefnum.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur. Til vara krefst hann þess að refsing hans verði milduð og kröfu ákæruvaldsins um upptöku 66.000 króna í reiðufé verði hafnað.
I.
Krafa ákærða um ómerkingu er á því reist að héraðsdómari hafi átt að kveðja tvo héraðsdómara til setu í dóm með sér þar sem ákærði hafi neitað að fíkniefni þau, sem mál þetta snýst um, hafi verið ætluð til söludreifingar og því ljóst að niðurstaða málsins um sakargiftir myndi að verulegu leyti ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði er heimilt að skipa þrjá dómara til setu í héraðsdómi, þegar ákærði neitar sök og dómari telur sýnt að niðurstaða máls kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Dómara er ekki skylt heldur heimilt eftir ákvæði þessu að taka með sér tvo aðra héraðsdómara til setu í dómi. Ómerking héraðsdóms getur ekki komið til af því einu að héraðsdómur hafi ekki verið fjölskipaður. Verður því ekki fallist á þessa kröfu ákærða.
II.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi bárust lögreglunni í Hafnarfirði upplýsingar um sölu og neyslu fíkniefna að Suðurvangi 7, Hafnarfirði. Fóru tveir lögreglumenn þangað að kvöldi 3. október 2001 til þess að kanna hvort upplýsingar þessar ættu við rök að styðjast. Við húsleit í herbergi ákærða framvísaði hann fíkniefnum þeim sem mál þetta snýst um. Við vigtun reyndist magn þeirra vera 3,72 grömm. Voru efnin geymd í fjórum plastpokum í mittisveski ákærða ásamt 81.000 krónum í seðlum. Við húsleitina fannst einnig tölvuvog, mikið magn af plastpokum ásamt áhöldum til neyslu fíkniefna og hvítt efni, sem ekki reyndist unnt að efnagreina. Lögregla gerði ennfremur leit í bifreið ákærða og fann þar 35.000 krónur í seðlum, box með nokkrum litlum plastpokum og fimm bréfmiða, sem á voru rituð nöfn og peningaupphæðir. Að lokinni húsleit handtók lögregla ákærða og lagði meðal annars hald á fíkniefnin, peningana, tölvuvogina og ofangreint efni, sem talið var að nota ætti til að drýgja fíkniefni. Í skýrslu Steindórs Inga Erlingssonar lögreglumanns 8. október 2001 um komu lögreglu á vettvang var meðal annars skráð eftir ákærða að hann neytti ekki fíkniefna, en stundaði hins vegar sölu þeirra til þess að koma sér úr skuldum. Ákærði ritaði ekki nafn sitt undir skýrslu þessa.
III.
Ákærða er gefið að sök að hafa átt þau fíkniefni sem mál þetta snýst um og ætlað þau til söludreifingar. Hann var yfirheyrður hjá lögreglu nóttina eftir handtöku og fyrir dómi við fyrirtöku málsins 21. desember 2001 og aðalmeðferð þess 26. febrúar 2002.
Fyrir dómi kannaðist ákærði við að hafa átt fíkniefnin og ætlað þau til eigin nota en neitaði því að hafa ætlað þau til söludreifingar. Hann kvaðst hafa neytt fíkniefna á þeim tíma sem mál þetta kom upp, en vera hættur neyslu þeirra. Kannaðist hann einnig við að hafa átt peningana ásamt öðru, sem hald var lagt á. Hann hafi notað tölvuvogina og plastpokana til að kanna „hvort það væri verið að svindla“ á sér. Hann kvaðst hafa sett peningana í mittisveskið þar sem til hafi staðið að borga hluta húsaleigu og „svo var útborgunardagur líka, þetta var allt um mánaðamót og ég setti þetta í eina kássu þarna.“ Sagði ákærði að peningarnir sem fundust í bifreiðinni hafi verið að hluta til laun hans hjá Karthöllinni. Nánar spurður af verjanda sínum hvar hann hafi fengið peningana, sem hald var lagt á, sagði ákærði að þeir hafi verið greiðsla upp í leigu frá vinum sem leigðu með honum og laun frá Karthöllinni og Gallabuxnabúðinni. Við fyrirtöku málsins 21. desember 2001 skýrði ákærði svo frá að hann hafi verið með 32.500 krónur í peningum frá nafngreindum samleigjanda sínum, og lagði í því sambandi fram húsaleigusamning 31. mars 2001 milli leigusala annars vegar og hins vegar ákærða og þriggja annarra manna. Þá lagði hann fram yfirlýsingu annars meðleigjanda um að hann hafi afhent ákærða 35.000 krónur fyrir húsaleigu. Auk þess lagði hann fram greiðslukvittun Karthallarinnar 2. október 2001 vegna fyrirframgreiddra launa sinna að fjárhæð 50.000 krónur. Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu að viðstöddum þáverandi verjanda sínum. Í lögregluskýrslunni er haft eftir honum að fíkniefnin hafi að hluta verið ætluð til eigin neyslu, sem hann hafi fjármagnað með sölu fíkniefna. Hluti þeirra peninga, sem fundust í mittisveskinu væru ágóði hans af sölu fíkniefna, eða 30.000 krónur, en afgangurinn væri laun. Vigtina hafi hann notað til að vigta kókaín en plastpokana til að setja í skammta af fíkniefnum. Aðspurður um miðana fimm, sem fundust í bifreið hans, svaraði hann því að þetta væru „skuldalistar“ yfir það fólk sem hann skuldaði meðal annars vegna kaupa hans á fíkniefnum.
IV.
Við mat á framburði ákærða og sakfellingu hefur héraðsdómari meðal annars vísað til þess sem haft er eftir ákærða í skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu og frumskýrslu lögreglu 8. október 2001 um sölu sína á fíkniefnum og vættis tveggja lögreglumanna fyrir dómi um þá frásögn. Ákærði telur þau ummæli sem eftir honum eru höfð í síðargreindu skýrslunni röng og mótmælir framburði lögreglumannanna. Hann hefur játað að hafa átt þau fíkniefni sem mál þetta snýst um og viðurkennt að hann hafi neytt fíkniefna, þar á meðal kókaíns, á þeim tíma sem hann var handtekinn. Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur framburður ákærða verið á reiki um það hvort hann hafi ætlað fíkniefnin að einhverju leyti til sölu og hvort hluti þeirra peninga sem lögregla lagði hald á hafi verið afrakstur sölu fíkniefna. Hefur ákærði fyrir dómi horfið frá fyrri játningu sinni fyrir lögreglu um að hann hafi ætlað hluta efnanna til sölu. Sakfelling ákærða verður ekki reist á því sem skráð er eftir honum í lögregluskýrslu nema önnur gögn styðji nægilega þann framburð, enda skal dómur reistur á þeim sönnunargögnum sem fram eru færð við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991. Í því efni breytir engu þótt lögreglumennirnir hafi komið fyrir dóm og skýrt frá viðræðum sínum við ákærða. Við húsleitina í herbergi ákærða og bifreið hans fannst meðal annars vog, fjöldi lítilla plastpoka og efni sem líklegt er að ætluð hafi verið til að blanda fíkniefni með auk miða með fjárhæðum og nöfnum ýmissa manna. Veita þessi gögn vísbendingu um að ákærði hafi selt fíkniefni. Hins vegar ber að líta til þess að aðeins var lagt hald á 3,72 grömm af kókaíni við húsleit hjá ákærða og hann aðeins sakaður um að hafa átt og ætlað það magn til sölu. Hefur hann fullyrt að á þeim tíma sem hald var lagt á efnin hafi hann neytt kókaíns. Þegar þetta er virt og annað það sem að framan greinir þykir gegn eindreginni neitun ákærða og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 hvorki komin fram alveg nægileg sönnun fyrir því að ákærði hafi ætlað fíkniefnin til sölu að hluta né að þeir peningar sem voru gerðir upptækir með héraðsdómi hafi verið andvirði sölu fíkniefna. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða að öðru leyti en því að hann verður sýknaður af þeirri háttsemi að hafa ætlað hluta fíkniefnanna til sölu. Eftir þessari niðurstöðu eru ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku 3,72 gramma af kókaíni staðfest, en kröfu ákæruvalds um upptöku 66.000 króna hafnað.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu sem hér skiptir máli. Þykir hún hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt í ríkissjóð, sem skal greiða innan 4 vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 30 daga. Ákærði verður dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 225.000 krónur, en helming sakarkostnaðar skal greiða úr ríkissjóði. Við ákvörðun málsvarnarlauna og skiptingu sakarkostnaðar hefur verið tekið tillit til þess að aðalmeðferð málsins í héraði fór tvívegis fram af ástæðum sem ákærða verður ekki um kennt.
Dómsorð:
Ákærði, Daníel Sæmundsson, greiði 200.000 króna sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 30 daga.
Ákærði sæti upptöku á 3,72 grömmum af kókaíni.
Ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 225.000 krónur, en helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. mars 2002.
Mál þetta er með ákæru útgefinni 28. nóvember sl. höfðað gegn Daníel Sæmundssyni, kt. 110579-4469, Hjallabyggð 5, Suðureyri, Ísafjarðarbæ ,,fyrir brot gegn lögum um ávana-og fíkniefni, með því að hafa átt fíkniefni sem ætlað var til söludreifingar, alls 3,72 grömm af kókaíni í mittisveski sem ákærði vísaði lögreglu á og geymt var í hillu í fataskáp í herbergi ákærða um klukkan 22, miðvikudagskvöldið 3. október 2001 og fann að auki tölvuvog, mikið magn lítilla plastpoka og 15,31 grömm af óþekktu íblöndunarefni, sem ákærði notaði við vigtun, blöndun og pökkun fíkniefnanna, auk 29 óþekktra blárra taflna, sogrör, 2 glös, 116.000 kr. í reiðufé, þar af voru 81.000 kr. í sama mittisveski og áðurnefnd fíkniefni en 35.000 kr. í hólfi í mælaborði í bifreið ákærða, OO-714, auk 5 skuldalista vegna fíkniefnaviðskipta sem lögregla fann við leit undir gúmmímottu í bifreið ákærða.
Framangreint brot ákærða telst varða við ákvæði 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985 og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 og auglýsingu nr. 232/2001 um bann við vörslu og meðferð ávana- og fíkniefnis.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að ofangreind fíkniefni sem og 116.000 krónur í reiðufé, ásamt áðurgreindum munum sem lögregla lagði hald á við umrædda húsleit og leit í bifreiðinni OO-714, verði gerð upptæk samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001."
Af hálfu ákærða er haldið uppi vörnum í málinu og gerðar þær kröfur að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið. Þess er krafist að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins um upptöku á peningum að fjárhæð 116.000 krónur. Þá krefst hann þess að allur kostnaður sakarinnar þar með talin hæfileg málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hans hrl. Hilmars Ingimundarsonar verði greidd úr ríkissjóði.
Málavextir.
Lögreglunni í Hafnarfirði hafði allt frá því í júní 2001 fengið ábendingar um að þar í bæ væri drengur, sem kallaður væri Danni og væri umfangsmikill í sölu fíkniefna. Fram kom að Danni þessi væri 18-25 ára að aldri, mjög sólbrúnn og með hringa í andliti. Hann var sagður vera utan af landi, en ekki vitað hvaðan og hann æki á dökkri WW Polo bifreið. Þessar upplýsingar nægðu ekki til að lögreglan gæti staðsett manninn og gengið úr skugga um hver hann væri. Þann 1. október 2001 bárust lögreglunni svo upplýsingar um að mikil sala og neysla fíkniefna færi fram í húsi við Suðurvang 7 í Hafnarfirði og að þar væri maður, sem kallaður væri Danni, sem væri með ræktun á kannabisplöntum í risi hússins.
Tveir lögreglumenn fóru svo miðvikudagskvöldið 3. október að Suðurvangi 7, Hafnarfirði til þess að kanna hvort upplýsingar gætu staðist. Þeir hittu þar fyrir Hans Inga Þorvaldsson og unnustu hans og kom þar fram að Hans Ingi hafði allt húsið á leigu, en leigði m.a. út frá sér þrjú herbergi á efri hæð hússins með aðgang að baðherbergi. Eitt herbergjanna þar leigði ákærður Daníel. Lögreglan leitaði í öllu húsinu eftir að hafa fengið til þess heimild leigutaka og fannst ekkert sem talið var tengjast sölu eða neyslu fíkniefna nema í herbergi ákærða. Þar í skókassa í einu horni herbergisins var tölvuvog og mikið magn af tómum plastpokum ásamt áhöldum til neyslu fíkniefna og glerkrukku með hvítu efni em ekki var þá vitað hvað væri. Ákærður sem var viðstaddur leitina var beðinn að gera grein fyrir þessum hlutum og tjáði þá lögreglmönnunum að hann notaði þá til þess að vigta fíkniefni, blanda þeim út og pakka þeim. Ákærður var af lögreglu inntur eftir því hvort hann myndi vilja framvísa einhverjum fíkniefnum og benti hann þá á hillu í fataskáp, þar sem hann sagði vera um 4-5 grömm af kókaíni í mittisveski og reyndist það rétt. Í veskinu voru og seðlar að upphæð 81.000 krónur. Við þessa leit í fataskápnum fannst og mikið magn af ónotuðum plastpokum, hvítt efni vafið inn í sellófón um 10 gr að þyngd og 29 bláar töflur. Ákærður tjáði lögreglumönnunum að hvíta efnið væri líklega íblöndunarefni, en vissi ekki hvers konar töflur þetta væru, en hann hefði fengi þær hjá kunningja sínum. Lögreglumennirnir kváðu ákærða hafa tjáð þeim að hann neytti ekki fíkniefna en hins vegar stundaði hann sölu þeirra til að koma sér út úr skuldafeni sem hann hefði stofnað til. Peningana sem voru í mittisveskinu væru að hluta ágóði af fíkniefnasölu en að hluta til laun. Megnið af ágóðanum sem hann hefði haft af fíkniefnasölunni hefði samt farið til greiðslu skulda.
Ákærður var í framhaldi af þessu handtekinn grunaður um fíkniefnamisferli og var færður á lögreglustöðina í Hafnarfirði og þangað var og færð bifreið hans OO-714 og þar framkvæmdi lögreglan leit í henni með leyfi ákærða.
Við leitina fundust á gólfi bifreiðarinnar framan við bílstjórasætið undir gúmmímottu 5 bréfmiðar, sem á voru skrifuð nöfn og peningaupphæðir og sagði ákærður að þetta væri niðurstöður stigagjafar úr Gokart keppni, sem hann væri að halda utan um. Lögreglan taldi þetta skuldalista vegna fíkniefnaviðskipta og lagði hald á þá sem og svart box með 6 tómum litlum plastpokum sem fundust milli framsætanna og 35.000 krónur í seðlum sem fundust í hólfi í mælaborði og var talinn ágóði af fíkniefnasölu.
Eftir leit í vistaverum leigjenda var fengið leyfi til að leita í risi hússins og kom í ljós að þar hafði verið útbúin aðstaða til ræktunar á kannabisplöntum og voru þar til staðar ýmsar leiðbeiningar um ræktunina og fleira sem tengist henni, en engin merki voru um að ræktunin hefði farið fram.
Við skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir kannaðist ákærður við að eiga kókaínefni þau, sem fundust við leitina á herberginu, en kvaðst nú hafa ætlað þau að hluta til eigin neyslu en hann fjármagnaði og neysluna með því að selja fíkniefni. Hin efnin sem fundust við leitina kvað hann vera mjólkursykur og önnur efni til íblöndunar. Hann kannaðist nú ekki við að stunda fíkniefnasölu til að greiða skuldir og að mestur hluti ágóðans, sem hann hefði áður haft af fíkniefnasölu hefði farið til greiðslu þeirra. Af þeim peningum, sem voru í mittisveskinu sem fannst í herbergi hans hafi 30.000 krónur verið ágóði af fíkniefnasölu en afgangurinn 51.000 krónur hafi verið laun. Hann kvaðst eiga peningana sem fundust í bifreið hans og væru þeir ekki ágóði af fíkniefnasölu. Hann kvað plastpokana sem fundust í íbúð hans hafa verið til þess að setja í skammta af kókaíni o.fl. Hann kvað miðana 5 með nöfnum og tölum á sem fundust í bifreið hans, vera skuldalista yfir það sem hann skuldi fólki og væru þetta skuldir vegna kaupa hans á fíkniefnum, en ekki skuldalista vegna sölu hans á fíkniefnum. Hann vildi ekki upplýsa hvaða fólk þetta væri sem hann skuldaði og tilgreindir væru á listanum og taldi sér lífshættu búna ef hann gerði það.
Hann kvaðst aðallega hitta fólk á skemmtistöðum, þar sem hann seldi því fíkniefni og þá einungis kókaín og notaði hann fyrst og fremst veitingastaðinn Kaffi Thomsen. Hann kvaðst selja grammið á 8.000 krónur. Fram kom hjá honum að hann hafi verið í neyslu fíkniefna í 4 ár, en sala hans á fíkniefnum hafi varað í mesta lagi 3-4 mánuði. Hann kvað tölvuvogina sem fannst í herbergi hans hafa verið notaða til vigtunar á kókaíni. Hann afsalaði sér haldlögðum fíkniefnum og áhöldum þeim tengdum til lögreglu til eyðingar sem og afsalaði hann sér þeim 30.000 krónum sem hann kvað ágóða af fíkniefnasölu. Hann kannaðist ekki við að hafa staðið fyrir ræktun á kannabisplöntum í risi eða ætlað að gera það.
Ákærður hefur hér fyrir dómi breytt nokkuð framburði sínum hjá lögreglu og einnig þeim sem hafður er eftir honum af lögreglu á vettvangi. Hann sagðist nú vera í neyslu fíkniefna og í öllum efnum. Hann kvaðst hafa notað tölvuvogina til að kanna hvort að verið væri að svindla á honum við fíkniefnakaup en kannaðist nú ekki við að hafa notað vogina til að vigta fíkniefni sem hann hefði blandað íblöndunarefni og pakkað til sölu. Hann kvað peningana sem voru í mittisveskinu hafa átt að fara til greiðslu húsaleigu og verið að hluta frá meðleigjendum og hann geymt þá eða hent þeim í veskið. Hann kannaðist nú ekki við að hluti af þessum peningum væri ágóði af sölu fíkniefna. Hann kvaðst nú vera í lyftingum og væru bláu töflurnar vítamíntöflur sem hann tæki inn vegna þess og hvíta duftið væri kreatinefni, sem hann notaði vegna þess, en ekki íblöndunarefni fyrir fíkniefni. Hann kannaðist nú ekki við að hann hafi stundað fíkniefnasölu til að koma sér út úr skuldafeni og neitaði að hafa játað því að megnið af hagnaði hans af fíkniefnasölu væri þegar farin til að greiða upp skuldir. Hann kvað nú þá 5 bréfmiða sem fundust í bifreið hans hafa verið skuldalista vegna alls konar skulda hans þar á meðal fíkniefnaskulda. Hann kvað peningana sem voru geymdir í hólfi í mælaborði bifreiðar hans sennilega hafa verið útborguð laun.
Þau efni sem lögregla lagði hald á voru send tæknideild lögreglunnar í Reykjavík til litaprófunar og af þeim reyndist vera 3,72 gr af kókaíni en um önnur efni komu ekki fram hverrar tegundar þau voru. Á bréfmiðunum 5, sem ákærður nefndi skuldalista voru tilgreindar upphæðir samtals 1.346.000 krónur.
Steindór Ingi Erlingsson, rannsóknarlögreglumaður bar vitni í málinu. Vitnið staðfesti að hafa staðið að framangreindri húsleit að Suðurvangi 7, Hafnarfirði ásamt Margeiri Sveinssyni, rannsóknarlögreglumanni og hún hefði farið fram eins og lýst er í lögregluskýrslu þess og rakið er hér að framan. Það kvað ákærða hafa sagt það, sem haft er eftir honum í lögregluskýrslunni og honum verið kynnt réttarstaða sakaðs manns áður en hann var spurður. Það kvaðst og hafa tekið sjálfstæða skýrslu af ákærða 4. október sl. að viðstöddum tilnefndum réttargæslumanni og hann þá gefið þá skýrslu sem höfð er eftir honum þar í dómskjali nr. 2.1, bls. 1-3. Vitnið kvað kreatin henta mjög vel til blöndunar við kókaín þar sem væri krystallað eins og kókaín.
Margeir Sveinsson, rannsóknarlögreglumaður bar og vitni í málinu. Það kvað hafa komið fram hjá ákærða við húsleitina að hann væri einungis að selja fíkniefni, en hann væri ekki sjálfur í neyslu þeirra. Vitnið staðfesti að þau efni sem voru haldlögð hefðu fundist við leitina og hvar þau fundust, sem er í samræmi við það sem fram kemur í lögregluskýrslu og rakið er hér að framan. Það kvað aðallega Steindór og ákærða hafa rætt um þau efni sem fundust þar á meðal tölvuvogina og til hvers hún hafi verið notuð og kvaðst þá ekki muna nákvæmlega hvað þeim hafi farið á milli. Það kvaðst heldur ekki muna hvaða skýringar ákærður hafi gefið á þeim peningum sem fundust í mittisveskinu. Það hafði ekki veirð við leitina í bifreið ákærða og það hafði ekki verið viðstatt skýrslutöku af ákærða á lögreglustöð.
Niðurstöður.
Ákærður hefur verið mjög óstöðugur í framburði sínum og verður að meta hann í ljósi þess samræmis sem gætir um það sem haft er eftir honum við húsleitina og í hinni sjálstæðu skýrslu hans hjá lögreglu að viðstöddum verjanda hans áður en honum var sleppt úr haldi.
Framburður hans fyrir dómi verður að taka með fyrirvara en hann ber þess merki, að ákærður er að fegra hlut sinn. Þannig minnist ákærði ekki á það við frumrannsókn málsins, að hann væri í lyftingum og hvíta efnið væri kreatin efni, sem hann notaði við þær og verður ekki séð að hann hafi haft ástæðu til að halda þessu leyndu og hann hefur með engum hætti sýnt fram á, að hann hafi þá stundað þessa íþrótt. Þá er engin eðlileg skýring fyrir því, að ákærður skýrði ekki frá því strax, að hluti peninganna sem fundust hjá honum við húsleitina og við leitina í bifreið hans væru peningar, sem hann hefði tekið við frá meðleigjendum til greiðslu húsaleigu og er ónóg sönnun komin fram um að svo hafi verið.
Með vætti vitnanna sem og framburði ákærða verður að telja sannað, að hann stundaði fíkniefnasölu, en öll gögn málsins hníga og að því, svo sem af því að við húsleitina finnst tölvuvog ásamt íblöndunarefnum til að blanda saman við fíkniefni til söludreifingar og hæfilegar umbúðir til að pakka þeim í, sem og voru í bifreið ákærða, sem er til merkis um að þar var og gengið frá efnum til sölu. Hins vegar verður ekki byggt á því, að ákærður hafi eingöngu verið í fíkniefnasölu, heldur verður að taka mark á þeim framburði hans að hann hafi og verið í neyslu fíkniefna og að salan hafi að einhverju leyti miðast við að fjármagna eigin neyslu. Ekki er til að dreifa nægum gögnum um hversu umfangsmikil söludreifing ákærða var, en við rannsókn málsins hefur ekki tekist að upplýsa hvort svonefndir skuldalistar gefa eitthvað til kynna um umfang sölustarfsemi ákærða, en ekki tókst að tengja þargreind nöfn neinni ákveðinni persónu, sem að taka hefði mátt af skýrslu til að sannreyna ætluð viðskipti ákærða með fíkniefni, en töluverðar líkur eru á að á listunum séu nöfn yfir þá sem skulda ákærða vegna fíkniefnasölu, en mikið af þeim eru gælunöfn sem líklegast eiga við kaupendur. Ákærður hefur frá upphafi haldið því fram, að um 50.000 krónur af haldlögðum peningum hafi verið laun til hans og hefur hann lagt kvittun frá Karthöllinni Borgartúni þar um og er við það miðað, að það geti verið rétt, en að 66.000 krónur séu tilkomnar vegna sölu ákærða á fíkniefnum. Það þykir því ljóst í málinu að þau 3,72 gr. af kókaíni sem haldlögð voru í málinu hafi að nokkru leyti verið ætluð til sölu og að ákærður hafi örugglega selt kókaín fyrir 66.000 krónur eða um 8 gr. m/v að ákærður seldi grammið á 8000 krónur. Ekkert liggur fyrir um styrkleika, en miðað við söluverðið sé 8000 krónur per gramm má ætla það töluvert mikið útþynnt. Hefur ákærður með þessu atferli gerst brotlegur við þau refsilagaákvæði sem tilgreind eru í ákæru.
Refsing ákærða þykir með hliðsjón af þessu hæfilega ákveðin 600.000 krónur í sekt og komi 60 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna frá birtingu dóms þessa.
Samkvæmt 6. gr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 ber að gera upptæk haldlögð 3.72 gr. af kókaíni, haldlagða tölvuvog og plastpoka auk 15,31 gr. af íblöndunarefni. Þá er upptækt gert 66.000 krónur í peningum, sem er ólöglegur ágóði af sölu ákærða á fíkniefnum.
Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hans hrl. Hilmars Ingimundarsonar, sem ákveðast 80.000 krónur.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Ákærður, Daníel Sæmundsson, greiði 600.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 60 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna frá birtingu dóms þessa.
Ákærður sæti upptöku á 3,72 gr. af kókaíni og 66.000 krónum í reiðufé.
Ákærður greiði allan kostnað sakarinnar þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hrl. Hilmars Ingimundarsonar 80.000 krónur.