Hæstiréttur íslands
Mál nr. 504/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Fimmtudaginn 25. júlí 2013. |
|
|
Nr. 504/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 7. ágúst 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt sakavottorði varnaraðila hefur hann allt frá árinu 1995 margsinnis verið dæmdur fyrir ýmis brot gegn almennum hegningarlögum, aðallega auðgunarbrot, auk umferðarlagabrota og brota gegn fíkniefnalöggjöfinni. Með ákæru 18. júní 2013, sem þingfest var 1. júlí sama ár, voru varnaraðila gefin að sök fimm þjófnaðarbrot, auk nytjastuldar og umferðarlagabrots, framin á tímabilinu 18. mars til 16. maí 2013. Þá er varnaraðili undir rökstuddum grun um þjófnaðar- og gripdeildarbrot 10. júní og 26. júní 2013 og 15. júlí, 19. júlí og 23. júlí sama ár, auk aksturs undir áhrifum fíkniefna 10. maí, 31. maí og 14. júlí 2013. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 24. júlí 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. ágúst nk. kl. 16.
Í greinargerð kemur fram að Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi borist tilkynning frá starfsmanni Byko, Smiðjuvegi, Kópavogi, kl. 14:13, í gær þess efnis að kærði hefi komið inn í verslunina og tekið til vörur og sett í svartan ruslapoka. Hann hafi síðan gengið út um neyðarútgang með pokann ásamt tösku með borvél. Þegar starfsmaður Byko hafi kallað til hans hafi hann misst töskuna en tekist að aka á brott með vörurnar á bifreiðinni [...] en sú bifreið hafi áður verið tilkynnt stolin (mál nr. 007-2013-[...]).
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið að rannsóknum mála þar sem kærði sé grunaður um fjölmörg auðgunarbrot, nytjastuld og umferðarlagabrot á tímabilinu 18 mars til 16. maí sl. Nú sé rannsókn málanna lokið og hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefið út ákæru, 18. júní sl., á hendur kærða, sem hafi verið þingfest, 1. júlí sl., í héraðsdómi Reykjavíkur að kærða fjarstöddum en honum hafi verið birt ákæran, 25. júní sl.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað að tjá sig að mestu en sagst ekki sekur um nytjastuld.
Auk þessa máls sé kærði sterklega grunaður um aðild að eftirfarandi brotum sem framin hafi verið á tímabilinu 31. maí til dagsins í gær:
Mál nr. 007-2013-[...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 19. júlí brotist inn í veitingastaðinn Tokyo í Glæsibæ í Reykjavík, með því að brjóta upp festingu á glugga og hafa farið þar inn og stolið þaðan reiðufé úr sjóðsskúffu.
Mál nr. 007-2013-[...]
Kærði sé grunaður um gripdeild, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 15. júlí í verslun Olís við Gullinbrú í Reykjavík tekið þaðan sígarettupakka, gosflösku og sælgæti að óþekktu verðmæti og yfirgefið verslunina án þess að hafa greitt fyrir vörurnar.
Mál nr. 007-2013-[...]
Kærði sé grunaður um umferðarlagabrot með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 14. júlí, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (blóðsýni í rannsókn), sviptur ökuréttindum norður Suðurver að Stigahlíð í Reykjavík, vestur Hamrahlíð að Háuhlíð, þar sem lögregla hafi stöðvað akstur hans. Kærði játi sök.
Mál nr. 007-2013-[...]
Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa, 26. júní sl, í verslun Krónunnar, Reykjavíkurvegi 50 í Hafnarfirði, í félagi við annan mann, stolið matvörum að verðmæti kr. 12.383. Myndbandsupptaka liggi fyrir af þjófnaðinum. Kærði neiti að tjá sig.
Mál nr. 007-2013-[...]
Kærði sé grunaður um þjófnað og tilraun til þjófnaðar, með því að hafa í tvígang, 10. júní sl, í verslun Bónus í Ögurhvarfi í Kópavogi, stolið matvörum að verðmæti kr. 26.348. Myndbandsupptaka liggi fyrir af þjófnaðinum. Kærði neiti að tjá sig.
Mál nr. 007-2013-[...]
Kærði sé grunaður um umferðarlagabrot með því að hafa föstudaginn 31. maí, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 205 ng/ml), sviptur ökuréttindum um Ástún að Grænatúni í Kópavogi, þar sem akstri hafi lokið og lögregla haft afskipti af honum.
Mál nr. 007-2013-[...]
Kærði sé grunaður um umferðarlagabrot með því að hafa að kvöldi föstudagsins 10. maí, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 145 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði 2,6 ng/ml), sviptur ökuréttindum um Stekkjarbakka til norðurs að bifreiðastæði við Mjódd þar sem lögregla hafi stöðvað akstur hans.
Kærði eigi að baki langan sakarferil og hafi hlotið fjölmarga dóma fyrir auðgunarbrot eins og meðfylgjandi sakavottorð sýni.
Við rannsókn mála kærða hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu fíkniefna og án atvinnu og megi ætla að hann fjármagni fíkniefnaneyslu sína með afbrotum.
Með vísan til framangreinds og brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Fyrir liggur að lögreglan hefur til meðferðar mál á hendur kærða vegna gruns um fjölmörg auðgunarbrot, nytjastuld og umferðarlagabrot framin í maí, júní og júlí sl. Rannsókn málanna sem kærði er grunaður um á síðustu dögum er ekki lokið en við skýrslutöku hjá lögreglu hefur kærði neitað að tjá sig að mestu en hefur ekki neitað brotunum. Kærði hefur verið í mikilli neyslu fíkniefna og er án atvinnu. Er kærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Að auki er til þess að líta að þrátt fyrir að ákæra hafi veri gefin út 18. júní sl. vegna brota framinna á tímabilinu 18 mars til 16. maí sl. hefur kærði ekki hætt brotastarfsemi. Í því ljósi og með hliðsjón af brotum þeim sem kærði er undir sterkum grun um að hafa framið á síðastliðnum vikum verður að ætla að hann muni halda áfram brotum gangi hann laus. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt. Hins vegar þykir, vegna eðlis brotanna eðlilegt að marka varðhaldinu skemmri tíma. Verður því krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald kærða tekin til greina að hluta eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingiríður Lúðvíksdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærða X, kt. [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. ágúst nk. kl. 16.00.