Hæstiréttur íslands

Mál nr. 365/2000


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Þjáningarbætur
  • Vinnuslys
  • Lögreglumaður
  • Hlutlæg ábyrgð


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. mars 2001.

Nr. 365/2000.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

gegn

Adolf Steinssyni

(Gylfi Thorlacius hrl.)

 

Skaðabætur. Þjáningabætur. Vinnuslys. Lögreglumenn. Hlutlæg ábyrgð.

A slasaðist á öxl í starfi sínu sem lögreglumaður er hann hrasaði við að lyfta líki af börum upp á vagn. Lagt var til grundvallar að A hefði skrikað fótur í blóði. Var talið að A ætti rétt til bóta úr hendi Í á grundvelli hlutlægrar bótareglu 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Ekki var fallist á að A hefði sýnt óaðgæslu og firrt sig með því bótarétti. Ósannað var hins vegar talið að A hefði verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á nánar tilgreindu tímabili og var kröfu hans um þjáningabætur á því tímabili hafnað. Krafa hans var að nokkru leyti tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. september 2000. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að dæmd fjárhæð verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum látinn niður falla.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Atvik málsins urðu að morgni 13. apríl 1998 í húsnæði við Hjarðartún í Ólafsvík, þar sem starfrækt er líkhús og lítil kapella. Lögreglumennirnir stefndi og Lárus Ragnar Einarsson höfðu sama morgun flutt þangað lík manns, sem hafði þá skömmu áður látist í umferðarslysi. Unnu þeir við að ganga frá líkinu til flutnings og er lýst í héraðsdómi hvernig þeir stóðu að verki við að færa það af börum á gólfinu í svokallaðan líkpoka og síðan upp á sérstakan vagn, sem er 85 sentimetra hár. Við það að lyfta líkinu upp á vagninn rann stefndi til í blóði á gólfinu með þeim afleiðingum að hann hlaut meiðsl á öxl, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Krefur hann áfrýjanda um skaðabætur af þessu tilefni. Áfrýjandi krefst sýknu með vísan til þess að ekki verði öðru um kennt en vanrækslu og vangæslu stefnda, sem hann verði sjálfur að bera ábyrgð á.

Stefndi og áðurnefndur Lárus eru einir til frásagnar um aðstæður, er þeir unnu verk sitt í líkhúsinu. Í skýrslu Lárusar fyrir dómi kom fram að stefnda hafi skrikað fótur er þeir lyftu líkinu og að hann hafi augljóslega meiðst við þetta. Eftir að líkið hafði verið fært upp á vagninn hafi komið í ljós blóð á gólfinu, þar sem líkpokinn hafði áður verið. Taldi hann blóðið hafa runnið af börunum og undir pokann eða að honum og að þeir hafi ekki tekið eftir því fyrr en líkpokinn var kominn upp á vagninn. Hafi stefndi sennilega sett fótinn örlítið undir pokann er þeir lyftu til að ná sem bestri stöðu við átakið og þá runnið til með fyrrgreindum afleiðingum. Blóðið á gólfinu hafi ekki verið mikið, en þó nóg til þess að stefnda hafi skrikað fótur. Lýsti hann því jafnframt svo að þegar þeir lyftu hafi þeir ekki horft niður fyrir sig heldur hvor á annan til að verða samtaka. Lýsing stefnda sjálfs á aðdraganda óhappsins var mjög á sama veg og Lárusar.

Engin efni eru til að vefengja að meiðsl stefnda hafi borið að með þeim hætti, sem þarna er lýst. Áfrýjandi ber bótaskyldu gagnvart stefnda á grundvelli hlutlægrar bótareglu 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Verður ekki fallist á að stefndi hafi sýnt óaðgæslu og firrt sig með því bótarétti, hvorki að öllu leyti né nokkru.

II.

Stefndi sundurliðar kröfugerð sína eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Mótmælir áfrýjandi kröfulið hans um þjáningabætur þar eð hann sé of hár. Telur hann ekki skilyrði fyrir hendi til að dæma stefnda þjáningabætur fyrir tímabilið 14. apríl til 13. maí 1998 og eigi sá liður kröfugerðar að lækka um 24.300 krónur. Áfrýjandi vefengir ekki tölulega aðra kröfuliði stefnda.

Stefndi hélt áfram störfum á nefndu tímabili eftir óhappið 13. apríl 1998. Hefur hann skýrt svo frá að nokkru eftir þetta hafi líðan hans versnað er hann þurfti að handtaka mann, sem veitti mótspyrnu, en ekki er nánar fram komið hvenær það var. Hefur stefndi ekki skotið viðhlítandi stoðum undir kröfu sína um þjáningabætur með því að hann hafi á umræddu tímabili verið veikur í merkingu 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður krafa hans því lækkuð að þessu leyti eins og áfrýjandi krefst. Verður krafa stefnda tekin til greina að öðru leyti.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Adolf Steinssyni, 1.711.453 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. nóvember 1999 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2000.

                Mál þetta sem dómtekið var þann 31. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi er höfðað með stefnu birtri 15. desember sl. af Adolf Steinssyni, kt. 010942-4549,  Holtabrún 8 Snæfellsbæ, á hendur Sólveigu Pétursdóttur dóms- og kirkjumálaráðherra, kt. 110352-2479 og Geir H. Haarde fjármálaráðherra, kt. 080451­4749, f.h. íslenska ríkisins, kt. 540269-6459, til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hann varð fyrir í starfi sínu sem lögreglumaður.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða 1.742.940 krónur auk dráttarvaxta frá 13. nóvember 1999 til greiðsludags.  Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.  Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

Yfirlit um ágreiningsefni og málsatvik.

                Stefnandi slasaðist við að lyfta líkpoka af gólfi upp á borðvagn. Slysið varð með þeim hætti að hann rann til í blóði er hann spyrnti við til að lyfta pokanum. Deilt er um skaðabótaábyrgð stefnda vegna atviksins, eigin sök stefnanda og um rétt til þjáningarbóta án rúmlegu samkvæmt skaðabótalögum.

                Málsatvik eru eftirfarandi. Stefnandi er varðstjóri í lögreglu Snæfells- og Hnappadalssýslu með aðsetur á Ólafsvík.  Hann hefur um 30 ára starfsreynslu. Þegar atvikið átti sér stað að morgni mánudagsins 13. apríl 1998 hafði hann, ásamt vitninu Lárusi Ragnari, verið á vakt frá því kl. 13.00 deginum áður. Þriðji lögreglumaðurinn, Björn Jónsson, hafði unnið frá miðnætti, en dansleikur var á sunnudagskvöldið. Tilkynnt var um alvarlegt umferðarslys undir Ólafsvíkurenni þegar þeir voru í þann mund að ljúka vinnu eftir nóttina. Tveir menn höfðu slasast og var annar ekki með lífsmarki. Reyndu lögreglumennirnir lífgunartilraunir þar til læknir kom á staðinn og úrskurðaði manninn látinn. Er vinnu á vettvangi lauk var hinn látni settur á börur og fluttur í líkhús staðarins. Börurnar eru gerðar úr dúk og hægt að brjóta þær saman. Þegar í líkhúsið kom settu þeir börurnar á borðvagn (ambúlant). Vagninn er á hjólum og um 85 cm hár. Lögreglumennirnir fóru síðan á lögreglustöðina til að ganga frá og fá sér kaffi, en síðan fóru stefnandi og vitnið Lárus Ragnar aftur í líkhúsið til þess að ganga frá líkinu til flutnings með því að setja það í líkpoka, en þeir væntu þess að það yrði sent suður til krufningar svo sem venja er þegar voveiflegt dauðsfall verður.

Samkvæmt framburði stefnanda og vitnisins Lárusar Ragnars báru þeir sig þannig að við verkið að þeir tóku börurnar með manninum af vagninum og settu þær á gólfið, lögðu líkpokann á gólfið á milli baranna og vagnsins og færðu manninn yfir í pokann.  Síðan ætluðu þeir að lyfta pokanum upp á vagninn en höfðu það ekki í fyrstu tilraun.  Var pokinn þungur, á að giska 100 kg, og maðurinn ekki stirðnaður þannig að hann seig niður í miðju og urðu þeir því að lyfta honum talsvert hærra en ella til að ná pokanum upp á vagninn. Hélt stefnandi undir þyngri endann. Í annarri tilrauninni skrikaði stefnanda fótur og meiddist í öxl við slynk sem kom á hann við það, en engu að síður tókst þeim að koma pokanum upp á vagninn. Í ljós kom að blóð hafði runnið undir líkpokann þar sem hann lá á gólfinu, væntanlega af börunum við flutning líksins, og telja stefnandi og vitnið Lárus Ragnar ljóst að stefnandi hafi stigið í blóð er hann leitaði spyrnu. Vitnið Lárus lýsti því svo að hann hefði heyrt hljóð eins og þegar njóli brotnar og hefði stefnandi greinilega fundið mikið til.

Stefnandi og vitnið báru báðir að þegar þeir komu í líkhúsið til þess að færa líkið í líkpokann þá hafi gólfið verið hreint að öðru leyti en því að dálítið blóð hafði dropað á gólfið af vagninum við höfuð mannsins, en þetta hefði ekki skapað neina hættu enda vagninn færanlegur. Það hefði hins vegar verið talsvert blóð í börunum, væntanlega úr höfði mannsins. Þeir báru báðir að þeir hefðu ekki veitt því eftirtekt að neitt blóð færi á gólfið þegar þeir fluttu hann af börunum í pokann, það hefði leynst undir pokanum og þegar stefnandi leitaði spyrnu til að lyfta pokanum í annað sinn hefði hann sett fótinn inn undir pokann. Þykir verða að leggja framburð stefnanda og vitnisins Lárusar Ragnars til grundvallar um þetta atriði. Upplýst er að eitthvað dróst að senda manninn og að þrif fóru fram á staðnum og á líkinu næsta dag hinn 14. apríl kl. 11.30 samkvæmt dagbók lögreglu.

                Stefnandi málsins, Adolf L. Steinsson, og vitnið, Lárus Ragnar Einarsson, gáfu skýrslu fyrir dóminum, fór yfirheyrslan fram í síma.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi kveðst hafa leitað til læknis í Ólafsvík eftir slysið þar sem hann hafi haft töluverða verki í öxlinni. Í fyrstu hafi verið talið að hann hefði tognað illa á öxl og hafi hann verið meðhöndlaður samkvæmt því, gefin sterasprauta í öxlina og sendur heim með verkjalyf. Hafi hann verið áfram undir læknishendi á lyfjum og í sprautum. Hann hafi áfram sinnt starfi sínu sem lögreglumaður þrátt fyrir að hann ætti erfitt með það vegna mikilla verkja. Kvaðst hann varla hafa getað snúið stýri. Nokkru eftir slysið hafi hann þurft að beita sér við að handtaka mann sem veitt hafi viðnám, við það hafi verkurinn í öxlinni versnað og hafi þá verið ljóst að hann gæti ekki sinnt starfi sínu á öruggan hátt vegna meiðslanna. Varðandi meiðslin sjálf hafi þetta atvik hins vegar ekki skipt máli. Hinn 19. maí 1998 hafi hann leitað til Brynjólfs Y. Jónssonar bæklunarlæknis. Við skoðun hafi komið í ljós að slitnað hafi sin í öxl sem lagfæra þurfti með aðgerð sem var gerð hinn 29. júní 1998. Hann hafi verið rúmliggjandi í fjóra daga eftir aðgerðina og verið áfram undir læknishendi og í sjúkraþjálfun fram á vetur. Hann hafi tekið aftur til starfa hinn 14. janúar 1999 en hafi átt erfitt með að beita sér að fullu þar sem hann verði að hlífa vinstri hendinni og hái áverkinn honum bæði í leik og starfi. Kveðst hann eiga erfitt með að beita sér að fullu sem lögreglumaður, lyfta þungu og vinna upp fyrir sig auk þess sem hann verði að hlífa sér við ýmiss konar álagsstörfum. Þá megi reikna með að hann geti ekki í framtíðinni sinnt líkamlegri vinnu eins og hann hefði getað að óbreyttu.

Atli Þór Ólason dr. med. hafi metið afleiðingar slyssins fyrir stefnanda í örorkumati dagsettu 10. júní 1999 og komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt til þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga í fjóra daga vegna rúmlegu en í 195 daga án rúmlegu.  Að varanlegur miski hans væri 7% og varanleg örorka 7%.

Með bréfi dagsettu 13. október 1999 hafi íslenska ríkið verið krafið um skaðabætur vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir, en bótakröfu hafi verið hafnað. Stefnandi hefur leiðrétt dómkröfur í samræmi við athugasemdir stefnda sem síðar greinir og sundurliðast endanlegar dómkröfur hans þannig:

Bætur fyrir þjáningar vegna rúmlegu skv. 3. gr. skbl. (4 x kr. 1.500)             kr                    6.000.-.

Bætur fyrir þjáningar án rúmlegu skv. 3. gr. skbl. (195 x kr. 810)                  kr                 157.950.-.

Bætur fyrir 7% varanlegan miska skv. 4. gr.. (4.615.850)                                kr.               323.110.-

Bætur fyrir varanlega örorku skv. 5. og 6. gr. skbl.(3.699.752x10x7%)         kr.            2.589.826.-

Frádráttur skv. 9. gr. skbl. 40%                                                                          kr.          (1.035.930.-)

Vextir skv. 16. gr. skbl.                                                                                        kr.                 64.629.-

Greiðslur til frádráttar                                                                                          kr.            (362.645.-)

Samtals                                                                                                                  kr.            1.742.940.-

auk útlagðs kostnaðar, málskostnaðar og virðisaukaskatts.

                Við útreikning krafna sé miðað við vísitölu apríl 1998 sem hafi verið 182,70 stig og vísitölu október 1999 sem hafi verið 191,80. Við útreikning á tjóni vegna varanlegrar örorku sé miðað við upplýsingar ríkisbókhalds um tekjur 1. maí 1997 til 30. apríl 1998 (2.257.347 + 1.067.386) kr. 3.324.733, að viðbættu 6% álagi vegna lífeyrissjóðs kr. 199.484, eða samtals kr. 3.524.217. Framreiknað miðað við framangreinda vísitölu kr. 3.699.753. Framangreindar skýringar dómkrafna taka mið af eftirgreindum athugasemdum stefnda varðandi tölulega framsetningu.

Slysið hafi fyrst verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins í ágúst 1998 eða rúmlega fjórum mánuðum eftir að það átti sér stað og engin rannsókn hafi farið fram á því. Stefnandi kveðst þó þegar hafa tilkynnt yfirmanni sínum um atburðinn.

                Með bréfi dagsettu 19. október 1999 hafi ríkislögmaður f.h. ríkissjóðs hafnað bótaábyrgð vegna tjóns stefnanda á þeim forsendum að um væri að ræða óhappatilvik eða eigin gáleysi. Kveðst stefnandi með engu móti geta sætt sig við þau málalok og hafi honum því verið nauðugur einn kostur að höfða mál þetta til heimtu bóta.

                Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á því að hann eigi samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og ákvæðum skaðabótalaga rétt til bóta vegna afleiðinga áverkans. Hann hafi hlotið meiðslin við skyldustörf sín sem lögreglumaður í þjónustu íslenska ríkisins. Starfsaðstaða sú sem honum hafi verið gert að starfa við hafi verið þannig að hann hafi orðið, við framkvæmd starfsins, að beita sér með óeðlilegum hætti til að ná þeim árangri sem krafist var. Ríkissjóði beri sem vinnuveitanda að sjá til þess að vinnuaðstaða starfsmanna sinna sé þannig úr garði gerð að þeir geti sinnt skyldum sínum á öruggan og ábyrgan hátt án þess að stofna sér í hættu eða þurfa að beita sér með óeðlilegum hætti.

                Þá beri ríkissjóði samkvæmt ótvíræðu orðalagi 30. gr. laga 90/1996 um lögreglumenn að bæta þeim líkamstjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Ríkissjóður beri þannig ríkari bótaábyrgð samkvæmt lögum en vinnuveitendur almennt og sé höfnun stefnda á bótakröfu ekki í samræmi við ákvæði greinarinnar.

                Við munnlegan málflutning féll stefnandi frá málsástæðu byggðri á bótaábyrgð húseiganda þar sem upplýst var að ríkið væri ekki eigandi húsnæðisins.

Vísað er ólögfestra reglan skaðabótaréttarins um bótaskyldu vinnuveitanda og húsráðanda vegna tjóns sem rekja megi til ófullnægjandi frágangs og aðstöðu á vinnustað. Þá er vísað til ákvæða laga um lögreglumenn nr. 90/1996, sérstaklega 30. greinar.

Um fjárhæð og útreikning bótakröfu er vísað til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. greinar einkamálalaga og um virðisaukaskatt er vísað til laga 50/1988, en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og er honum því nauðsynlegt að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

                Málsástæður og lagarök stefndu.

Af hálfu stefnda er kröfum stefnanda eindregið vísað á bug með eftirfarandi rökum. 

Kröfum stefnanda reistum á meintum skyldum húsráðanda verði ekki beint að stefnda. Ríkissjóður sé hvorki eigandi húsnæðisins né sé rekstur líkhúss og kapellu sem starfrækt sé í bílskúr að Hjarðartúni 4-6 á vegum ríkisins. Húsnæðið hafi verið selt Snæfellsbæ á árinu 1994.  Rekstur í því húsnæði sé alfarið á vegum Snæfellsbæjar en kapella og líkhús sé á vegum kirkjugarðsstjórnar, sbr. lög nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Í málavaxtalýsingu í stefnu og kröfubréfi frá 13. október 1999 sé gefið í skyn að hæð líkvagnsins hafi kallað á óeðlilega líkamsbeitingu. Það sé engum gögnum stutt að hæð líkvagnsins hafi verið frábrugðin því sem almennt gerist né að slysið verði til slíks rakið. Er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu.

Slys stefnanda verði rakið til þess að honum hafi skrikað fótur í blóðpolli. Samkvæmt framlögðum lögregluskýrslum hafi mikið blóð verið á gólfinu er stefnandi og Lárus Einarsson lögreglumaður hafi ráðist í að færa hinn látna upp á vagn í líkhúsinu. Stefnandi, sem sé varðstjóri í lögreglunni, hafi farið með yfirstjórn verksins og borið ábyrgð á að framkvæmd þess væri með þeim hætti að ekki skapaðist óþarfa hætta. Framkvæmd verksins hafi hvorki krafist skjótra viðbragða né verði sérstök áhætta er fylgi lögreglustarfi almennt, tengd við að færa lík upp á líkvagn. Af lögregluskýrslum og bókun í dagbók verði ráðið, að þrátt fyrir mikið blóð á gólfinu og vitneskju hans um það, hafi stefnandi ekki hirt um það að láta hreinsa gólfið, áður en gengið hafi verið til verksins.

Ljóst sé að slysið verði því hvorki rakið til mistaka samstarfsmanna hans né annarrar áhættu er ríkissjóður beri ábyrgð á gagnvart honum.  Verði slysið ekki rakið til annars en vanrækslu og vangæslu stefnanda sjálfs en hvorki almennar skaðabótareglur né ákvæði 30. gr. lögreglulaga veiti lögreglumönnum bótarétt vegna tjóns er þeir sjálfir eigi sök á.

Samkvæmt framangreindu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á sýknukröfu er þess krafist til vara að bótakröfur stefnanda verði stórkostlega lækkaðar.  Í því sambandi sé vísað til eigin sakar stefnanda er ætti að leiða til þess að honum yrði gert að bera tjón sitt að mestu leyti sjálfur, sbr. umfjöllun hér að framan.

Þá er útreikningi er liggi til grundvallar kröfum stefnanda mótmælt sem of háum.  Hvorki verði ráðið af stefnu né kröfubréfi frá 13. október 1999 hvaða vísitölur liggi til grundvallar útreiknuðum kröfum.  Tímabili þjáningarbóta án rúmlegu er mótmælt sem of löngu, en ekki verði annað ráðið af gögnum en stefnandi hafi sinnt starfi sínu tímabilið 14. apríl til 13. maí.  Samkvæmt reifun í stefnu sé útreikningur vegna varanlegrar örorku miðaður við að tekjur á tímabilinu maí til desember 1997 hafi numið 2.308.706 krónum og sé það grundvallað á meðaltekjum á árinu 1997. Samkvæmt útskrift úr ríkisbókhaldi hafi tekjur hins vegar verið lægri á þessu tímabili eða 2.257.347 krónur.  Í samræmi við framangreint sé útreiknuðum vöxtum jafnframt mótmælt sem allt of háum. Upphafstíma dráttarvaxta sé mótmælt.

                Niðurstaða.

Verk það sem stefnandi vann í umrætt sinn telst ótvírætt vera á verksviði lögreglu og ekkert liggur fyrir í málinu sem bendir til að lögreglumennirnir hafi unnið andstætt fyrirmælum lögreglustjóra eða staðið óeðlilega að verkinu. Við mat á framgöngu þeirra verður einnig að hafa í huga að verk sem þetta er bæði andlega og líkamlega erfitt og að lögreglumennirnir voru búnir að vinna samfellt í hátt í sólarhring þegar atvikið varð. Samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skal ríkissjóður bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Stefnandi var við starf sitt sem lögreglumaður þegar hann slasaðist og ber stefndi þegar af þeirri ástæðu bótaábyrgð.

Ekki er fallist á að sannað sé að slysið verði rakið til vanrækslu eða gáleysis stefnanda sjálfs. Í því sambandi er sérstaklega vísað til framburðar stefnanda og vitnisins Lárusar Ragnars um það að ekki hafi verið nema örlítið blóð á gólfinu þegar þeir komu og hafi það ekki truflað verk þeirra. Er það mat dómsins að leggja verði til grundvallar framburð þeirra um að þeir hafi ekki orðið þess varir að blóð lak á gólfið. Við mat á aðgæsluskyldu þykir verða að líta til eðlis verksins og langs vinnutíma. Blóð það sem nefnt er í dagbók lögreglu og stefndi vísar til er lýsing á aðstæðum daginn eftir.

Með vottorði læknanna Ágústs Arnar Sverrissonar, Einars Kr. Þórhallssonar og Brynjólfs Y. Jónssonar og örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis er staðfest að stefnandi hlaut við slysið rifu á axlarvöðvum vinstri axlar (ruptura rotator cuff áverka með sliti). Talið var í fyrstu að hann hefði hlotið slæma tognun, var hann meðhöndlaður með sprautum og verkjalyfjum og þraukaði áfram í vinnu, ljóst varð við ryskingar um tveimur vikum síðar að hann réði ekki við lögreglustarfið. Í læknisvottorði Ágústs Arnar Sverrissonar frá 21. maí 1998 segir “[h]efur Adólf verið í raun óvinnufær frá 13. apríl og er óvíst hvenær hann getur snúið til vinnu aftur” og í áverkavottorði Brynjólfs Y. Jónssonar frá 26. febrúar 1999 segir “[ó]vinnufær lengi bæði fyrir og eftir aðgerð.” Skuggaefnisrannsókn sem gerð var 19. maí 1998 leiddi í ljós hvers eðlis meiðslin voru og var gerð aðgerð hinn 29. júní s.á. Árangur hennar er sagður ásættanlegur. Aðspurður fyrir dóminum um líðan sína í dag kvað stefnandi hana þokkalega, hann hefði ekki stöðuga verki en vissi af þessu. Niðurstaða örorkumats Atla Þórs Ólasonar læknis frá 10. júní 1999 er að stefnandi hafi hlotið við slysið varanlegan miska og hefðbundna læknisfræðilega örorku 7% og varanlega örorku 7%.  Þjáningarbætur skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eru metnar 4 dagar rúmliggjandi og batnandi án þess að vera rúmliggjandi frá 13. apríl 1998 til 1. nóvember 1998.

Deilt er um kröfu stefnanda um þjáningarbætur án rúmlegu í 195 daga eða frá slysi til þess dags er hann var talinn vinnufær að nýju. Um þjáningabætur hér gildir 3. gr laga nr. 50/1993 eins og hún var fyrir orðalagsbreytingu sem gerð var með lögum nr. 37/1999, 2. gr.  Í 1. mgr. 3. gr. segir: “Greiða skal þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar til ekki er að vænta frekari bata . . . fyrir hvern dag sem tjónþoli er veikur án þess að vera rúmliggjandi.”  Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 50/1993 segir m.a. um 3. gr. “Þjáningabætur eru fégjald fyrir þjáningar í kjölfar líkamstjóns.  Bætur greiðast aðeins fyrir tiltekið tímabil, þ.e. þar til ekki er að vænta þess að tjónþoli hljóti frekari bata.  Samkvæmt frumvarpinu er almennt ekki heimilt að dæma þjáningabætur, nema tjónþoli sé veikur.”

Stefnandi sinnti störfum sínum í nokkurn tíma eftir slysið með vaktahvíldum þrátt fyrir meiðslin og vanlíðan vegna þeirra. Er ekki ástæða til að vefengja að hann hafi í raun unnið umfram getu enda var fyrst talið að um tognun væri að ræða sem myndi ganga yfir. Hafa verður í huga eðli starfs þess sem hann vinnur, sem er lögregluvarðstjóri á landsbyggðarstöð, og þær kröfur sem menn í slíkum störfum gera gjarnan til sjálfs sín um vinnuskil. Í umsögnum lækna og örorkumati kemur fram að hann hafi í raun verið óvinnufær frá slysdegi. Við mat á því hvort tjónþoli sé veikur í skilningi 3. gr. laga nr. 50/1994 verður einkum byggt á læknisfræðilegu mati og gögnum um læknisfræðilega meðferð á tímabilinu. Þegar litið er til eðlis meiðsla stefnanda, þess að upplýst þykir að hann hafi í raun unnið umfram getu fyrst eftir slysið og verið á verkjalyfjum og í sprautum og til mats lækna, þá þykir hann eiga rétt á þjáningabótum án rúmlegu frá slysdegi til þess tíma er hann telst vinnufær svo sem krafist er.

Stefnandi hefur bætt úr þeim tölulegu athugasemdum sem fram komu af hálfu stefnda og koma þær leiðréttingar fram í endanlegri kröfugerð að öðru leyti en því að vextir samkvæmt 16. gr. skbl. eru ofreiknaðir þar sem ekki var tekið tillit til innborgana, en leiðréttir nema þeir kr. 61.989. Stefndi hefur mótmælt hækkun þessa liðar frá upphaflegri stefnukröfu en þar nam hann kr. 57.442. Kröfur stefnanda eru því teknar til greina að frádregnum kr. 7.187 sem er mismunur upphaflegrar og endanlegrar vaxtakröfu skv. 16. gr. skbl. eða með kr. 1.735.753 auk dráttarvaxta svo sem krafist er.

Stefndi skal greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst kr. 375.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Dóm þennan kvað upp Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Adolf Steinssyni, kr. 1.735.753 auk dráttarvaxta frá 13. nóvember 1999 til greiðsludags og kr. 373.000 í málskostnað.

                                                                                Hjördís Hákonardóttir