Hæstiréttur íslands
Mál nr. 70/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Samaðild
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 13. janúar 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gaf Laxárdalshreppur út afsal 11. september 1990 til varnaraðila fyrir jörðinni Ljárskógum. Hreppurinn mun hafa átt aðild að varnaraðila sem eigandi jarðarinnar Fjósa, en á þeim grunni virðist sem hreppurinn hafi talið sig eftir afsalið njóta réttinda yfir 8,99% hlut í Ljárskógum. Gaf hreppurinn út afsal til varnaraðila á árinu 1994 fyrir þessum ætlaða eignarhluta sínum í Ljárskógum. Það sama gerðu eigendur jarðarinnar Hrappsstaða á árinu 2004 að því er varðar 8,488% hlut í Ljárskógum. Þessum ætluðu eignarhlutum í Ljárskógum vegna Fjósa og Hrappsstaða ráðstafaði varnaraðili síðan 1994 og 2004 til þeirra félagsmanna sinna sem vildu leysa þá til sín, en meðal þeirra voru í fyrra skiptið sóknaraðilar allir eða þeir sem þau leiða rétt sinn frá og í síðara skiptið hluti þeirra. Á grundvelli allra þessara ráðstafana krefjast sóknaraðilar viðurkenningar á því í máli þessu að þau séu hvert um sig eigendur að tilteknum hlut í Ljárskógum, svo og að varnaraðila verði gert að gefa út til þeirra afsöl fyrir þeim hlutum.
Varnaraðili er einn þinglýstur eigandi Ljárskóga og getur því upp á sitt eindæmi fullnægt þeim kröfum sem að honum er beint. Hann nýtur hvorki með félagsmönnum sínum óskiptra réttinda yfir Ljárskógum né ber hann með þeim óskipta skyldu vegna jarðarinnar sem leitt gæti til þess að þörf væri á samaðild þeirra allra samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 að máli vegna eignarréttar yfir henni. Er því engin nauðsyn á því að sóknaraðilar beini máli þessu að öðrum félagsmönnum varnaraðila samhliða honum. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar eru ekki efni til að telja að annmarkar séu á kröfugerð sóknaraðila sem varðað geti frávísun málsins frá héraðsdómi. Samkvæmt þessu verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Veiðifélag Laxdæla, greiði sóknaraðilum, Bjarna Hermannssyni, Harald Óskari Haraldssyni, Jóhönnu Lilju Einarsdóttur, Jóni Ægissyni, Jónínu Einarsdóttur, Ólöfu Björgu Einarsdóttur, Skúla Einarssyni, Svanborgu Þuríði Einarsdóttur, Unnsteini Kristni Hermannssyni og Valdísi Einarsdóttur, hverju fyrir sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 13. janúar 2016.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 16. desember sl., er höfðað með stefnu birtri 12. júní 2013. Stefnendur eru Skúli Einarsson, Melshúsum, Álftanesi, Jónína Einarsdóttir, Tjarnargötu 16, Reykjavík, Jóhanna Lilja Einarsdóttir, Jóruseli 11, Reykjavík, Valdís Einarsdóttir, Lambeyrum, Búðardal, Ólöf Björg Einarsdóttir, Heiðarbæ 1, Selfossi, Svanborg Þuríður Einarsdóttir og Jón Ægisson Gillastöðum 2, Búðardal, Harald Óskar Haraldsson, Svarfhóli, Búðardal, Bjarni Hermannsson og Unnsteinn Kristinn Hermannsson, Leiðólfsstöðum, Búðardal. Stefndi er Veiðifélag Laxdæla, Þrándargili l, Búðardal.
Dómkröfur stefnenda í stefnu eru eftirfarandi:
„Stefnendur gera þær kröfur að viðurkennt verði með dómi, eignartilkall þeirra til jarðarinnar Ljárskóga, lnr. 137576, Dalabyggð, og að stefnda, Veiðifélagi Laxdæla, verði gert skylt með dómi að gefa út afsal til stefnenda, fyrir hlutdeild þeirra í jörðinni, þ.e. í hlutfalli við arð- og eignarhlutaskrá Veiðifélags Laxdæla, vegna Ljárskóga, dagsettri 8. apríl 1993, með þeim breytingum sem á henni urðu með afsali Laxárdalshrepps, dagsettu 31. maí 1994, og með afsali eigenda Hrappsstaða, dagsettu 10. maí 2004.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Skúla Einarssonar, kt. [...], Melshúsum, 225 Álftanesi, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jónínu Einarsdóttur, kt. 110954-4339, Tjarnargötu 16, 101 Reykjavík, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jóhönnu Lilju Einarsdóttur, kt. [...], Jóruseli 11, 109 Reykjavík, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Valdísar Einarsdóttur, kt. [...], Lambeyrum, 371 Búðardal, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Ólafar Bjargar Einarsdóttur, kt. [...], Heiðarbæ 1, 801 Selfossi, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Svanborgar Þuríðar Einarsdóttur, kt. [...], Gillastöðum 2, 371 Búðardal, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jóns Ægissonar, kt. [...], Gillastöðum 2, 371 Búðardal, fyrir 4,19900% hlut í jörðinni Ljárskógum og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Haralds Óskars Haraldssonar, kt. [...], Svarfhóli, 371 Búðardal, fyrir 8,23800 % hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Bjarna Hermannssonar, kt. [...], Leiðólfsstöðum, 371 Búðardal, fyrir 2,27200% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Unnsteins Kristins Hermannssonar, kt. [...], Leiðólfsstöðum, 371 Búðardal, fyrir 2,27200% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.“
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar samkvæmt mati dómsins úr hendi stefnda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnendur verði dæmdir óskipt til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.
Með úrskurði dómsins hinn 4. júní 2014 var fallist á kröfu stefnda um að vísa máli þessu frá dómi. Var í rökstuðningi dómsins vísað til þess að stefna í málinu væri í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Úrskurður þessi var hins vegar ómerktur með dómi Hæstaréttar hinn 25. ágúst 2014, í málinu nr. 451/2014, og málinu vísað heim í hérað, þar sem ekki hefði verið gætt að ákv. d- og e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við samningu hans.
Í upphafi málflutnings um frávísunarkröfu stefnda hinn 16. desember sl. lagði lögmaður stefnenda fram yfirlýsingu um breytingu á dómkröfum þeirra og eru endanlegar dómkröfur stefnenda nú eftirfarandi:
„Stefnendur gera þær kröfur að viðurkennt verði með dómi, eignartilkall þeirra til jarðarinnar Ljárskóga, lnr. 137576, Dalabyggð, og að stefnda, Veiðifélagi Laxdæla, verði gert skylt með dómi að gefa út afsal til stefnenda, fyrir hlutdeild þeirra í jörðinni, þ.e. í hlutfalli við arð- og eignarhlutaskrá Veiðifélags Laxdæla, vegna Ljárskóga, dagsettri 8. apríl 1993, með þeim breytingum sem á henni urðu með afsali Laxárdalshrepps, dagsettu 31. maí 1994, og með afsali eigenda Hrappsstaða, dagsettu 10. maí 2004.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Skúla Einarssonar, kt. [...], Melshúsum, 225 Álftanesi, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jónínu Einarsdóttur, kt. [...], Tjarnargötu 16, 101 Reykjavík, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jóhönnu Lilju Einarsdóttur, kt. [...], Jóruseli 11, 109 Reykjavík, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Valdísar Einarsdóttur, kt. [...], Lambeyrum, 371 Búðardal, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Ólafar Bjargar Einarsdóttur, kt. [...], Heiðarbæ 1, 801 Selfossi, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Svanborgar Þuríðar Einarsdóttur, kt. [...], Gillastöðum 2, 371 Búðardal, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jóns Ægissonar, kt. [...], Gillastöðum 2, 371 Búðardal, fyrir 4,19900% hlut í jörðinni Ljárskógum og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Haralds Óskars Haraldssonar kt. [...], Svarfhóli, 371 Búðardal, fyrir 8,23800% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Bjarna Hermannssonar, kt. [...], Leiðólfsstöðum, 371 Búðardal, fyrir 2,27200% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Unnsteins Kristins Hermannssonar, kt. [...], Leiðólfsstöðum, 371 Búðardal, fyrir 2,27200% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.“
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar samkvæmt mati dómsins úr hendi stefnda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnda er því andmælt að þessi breyting á kröfugerð stefnenda fái að komast að í málinu, enda breyti hún grundvelli málsins að verulegu leyti.
II.
Stefndi er veiðifélag um lax- og silungsveiði á vatnasvæði Laxár í Dölum í Dalasýslu. Eiga 28 jarðir aðild að félaginu og nær félagssvæði þess til eftirtalinna jarða samkvæmt samþykktum félagsins, dags. 1. nóvember 2007: Fjósar, Hrappsstaðir, Hjarðarholt, Spágilsstaðir, Goddastaðir, Lambastaðir, Gillastaðir I-II, Sámsstaðir I, II, III, Hamrar, Svalhöfði, Sólheimar I-II, Pálssel, Dönustaðir og Lambeyrar, Gröf, Svarfhóll og Engihlíð, Þrándargil, Leiðólfsstaðir, Hornsstaðir, Höskuldsstaðir, Sauðhús, Saurar, Ás.
Hinn 28. júlí 1987 var haldinn fundur í félaginu til að fjalla um bréf hreppsnefndar Laxárdalshrepps (nú Dalabyggð), dags. 24. sama mánaðar, þar sem stefnda var gefinn frestur til að svara því hvort hann óskaði eftir því að kaupa jörðina Ljárskóga af hreppnum ef hreppurinn myndi neyta forkaupsréttar vegna jarðarinnar. Á umræddum fundi var eftirfarandi tillaga samþykkt einróma af öllum landeigendum: „Almennur fundur Veiðifélags Laxár í Dölum haldinn í Dalabúð þann 28.07 ´87 heimilar stjórn félagsins að festa kaup á jörðinni Ljárskógum í Laxárdalshrepp með þeim skilmálum sem getið er í bréfi hreppsnefndar 24.7. ´87“. Einnig var á fundinum samþykkt að veita stjórn félagsins umboð til að taka lán fyrir hluta af kaupverðinu, auk þess sem stjórninni var falið að öðru leyti að útvega fjármagn til kaupanna.
Hinn 11. september 1990 gaf Laxárdalshreppur út afsal til stefnda fyrir jörðinni Ljárskógum. Í afsalinu kemur fram að jörðin hafi verið afhent kaupanda 1. september 1987. Eftir að stefndi hafði eignast jörðina var útbúin sérstök arðskrá félagsins vegna jarðarinnar.
Þegar Laxárdalshreppur ráðstafaði jörðinni Ljárskógum til stefnda átti sveitarfélagið aðild að veiðifélaginu sem eigandi jarðarinnar Fjósa. Í samræmi við það fékk hreppurinn hlutdeild í arðskrá vegna jarðarinnar Ljárskóga eftir að sú jörð komst í eigu veiðifélagsins og nam sú hlutdeild 8,99%. Hinn 31. maí 1994 gaf hreppurinn út afsal til veiðifélagsins fyrir þessum 8,99% hlut jarðarinnar Fjósa í Ljárskógum, þrátt fyrir að stefndi væri þá þegar þinglýstur eigandi allrar jarðarinnar Ljárskóga, og hækkaði hlutur annarra félagsmanna stefnda í arðskránni sem svaraði til þess. Kom fram í afsalinu að hreppurinn hefði eignast hlutinn „sem aðili að Veiðifélagi Laxdæla, samkvæmt afsalsbréfi útgefnu 11. september 1990“. Þennan eignarhlut endurseldi stefndi síðan til þeirra félagsmanna sem hann vildu kaupa og mun arðskrá Ljárskóga hafa verið breytt í samræmi við þetta, til hækkunar fyrir viðkomandi félagsmenn. Voru stefnendur, eða þeir aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, meðal þeirra sem keyptu þennan hlut.
Ný arðskrá samkvæmt yfirmatsgerð, sem breytti arðskrárhlutföllum félagsmanna, tók gildi fyrir hið stefnda félag 1. janúar 1998.
Eigendur jarðarinnar Hrappsstaða seldu ætlaðan hlut sinn í jörðinni Ljárskógum, svokallaðan Hrappsstaðahlut, til stefnda hinn 10. maí 2004. Á sama veg og gert var með hinn svokallaða Fjósahluta árið 1994 endurseldi stefndi síðan þeim félögum sem hann vildu kaupa og var hluti stefnenda, og/eða fyrirrennarar þeirra, meðal þeirra sem keyptu. Hluturinn var talinn vera 8,488% og kom fram í afsalinu að eigendurnir hefðu eignast hlutinn „sem aðilar að Veiðifélagi Laxdæla samkvæmt afsalsbréfi útgefnu 11. september 1990“.
Á félagsfundi í hinu stefnda félagi hinn 26. apríl 2011 var samþykkt heimild til stjórnar þess að afsala jörðinni Ljárskógum til félagsmanna í stefnda. Heimildin var sögð ná til þess að afsala jörðinni til félagsmanna í sömu hlutföllum og eignin hefði upphaflega verið keypt, ásamt þeim breytingum sem síðan hefðu átt sér stað með eignarhluta í viðskiptum milli félagsmanna. Næðist ekki fullt samkomulag milli félagsmanna um þá leið væri stjórn félagsins heimilt að þinglýsa beitarkvöð fyrir félagsmenn á jörðina Ljárskóga og bjóða jörðina síðan til sölu á almennum markaði. Tveir landeigendur höfnuðu tillögunni og fimm sátu hjá.
Fram kemur í greinargerð stefnda að þar sem ekki hefði náðst samþykki allra félagsmanna fyrir tillögunni hefði orðið ljóst að fyrri hluti hennar myndi ekki ná fram að ganga, enda hefði hann verið bundinn þeim fyrirvara að fullt samkomulag væri meðal félagsmanna um að afsala jörðinni með þeim hætti sem mælt hefði verið fyrir um í tillögunni. Í ljósi þess, og að teknu tilliti til lögfræðiálita, hefði það verið niðurstaða stjórnar stefnda að fara ætti með Ljárskóga í arðskrárhlutfalli eins og aðrar eignir félagsins í bókum þess og að hætt yrði að halda hina sérstöku arðskrá fyrir hluta félagsmanna. Þannig hefðu sölurnar á svokölluðum Fjósahlut og Hrappsstaðahlut á árunum 1994 og 2004 falið í sér vanheimild, þar sem seljendurnir hefðu ekki verið lögformlegir eigendur hinna seldu eignarhluta. Í framhaldi af því hafi upphaflegir seljendur Fjósahluts og Hrappsstaðahluts ákveðið að endurgreiða öllum þeim sem reitt hefðu fjármuni af hendi vegna umræddra gerninga. Flestir hefðu tekið við þeim greiðslum án athugasemda og fyrirvara, þ. á m. nokkrir stefnenda, en einnig hefði hluti stefnenda neitað að taka við þeim.
Með bréfi lögmanns stefnenda til stefnda, dags. 25. mars 2013, var þess farið á leit að félagið viðurkenndi eignarhlutdeild stefnenda í jörðinni Ljárskógum og að afsal yrði í kjölfarið gefið út til þeirra í hlutfalli við arð og eignarhlutaskrá. Með bréfi lögmanna stefnda, dags. 23. apríl 2013, var lýst þeirri afstöðu stefnda að félagið væri eigandi jarðarinnar Ljárskóga, en ekki einstakir félagsmenn eða félagsmenn allir persónulega, og að færsla í sérstaka arðskrá og/eða önnur atvik er vörðuðu meðferð eignarhalds hennar skapaði ekki eignarréttindi til handa félagsmönnum persónulega.
III.
Stefnendur byggja kröfu sína á ákvörðun sem tekin hafi verið á aðalfundi hjá stefnda hinn 28. júlí 1987. Ákvörðun þessi, sem stefnendur telji bindandi samning gagnvart stefnda, hafi verið þess efnis að ákveðinn hópur aðila innan vébanda stefnda hafi keypt fasteignina Ljárskóga með atbeina stefnda, en stefndi skyldi síðar afsala til þeirra hlutdeild í jörðinni í samræmi við það sem þeir legðu til kaupanna. Hafi kaupverð Ljárskóga verið innt af hendi með þeim hætti að þeir sem tekið hafi þátt í kaupunum hafi heimilað stefnda að ráðstafa arðgreiðslum, sem þeir fengju frá stefnda, til kaupanna. Þetta hafi verið gert í samræmi við arð- og eignarhlutaskrá um Ljárskóga, dags. 8. apríl 1993. Téðri skrá hafi verið þinglýst hinn 14. júní 1994 á jörðina Ljárskóga, og liggi hún til grundvallar kröfu stefnenda. Skráin hafi tekið breytingum í samræmi við innbyrðis eigendaskipti að eignarhlutunum, svo sem vegna kaupa hluta stefnenda á svokölluðum Fjósahlut og Hrappsstaðahlut. Þeir hlutar hafi áður verið í eigu eigenda jarðeignanna Fjósa og Hrappsstaða, líkt og nöfn þeirra gefi til kynna. Stefnendur, eða þeir sem þeir leiði rétt sinn frá, hafi innt kaupverð Ljárskóga af hendi með ráðstöfun arðgreiðslna sinna. Á grundvelli almennra reglna fjármunaréttar beri þeim því réttur til að fá afsal fyrir eigninni.
Stefnendur vísa og til þess að í 6. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sé með skýrum hætti tekið fram að sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyri þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eigi og í arðskrárhlutfalli. Samkvæmt því fari ekki á milli mála að stefnda beri að afsala hlut úr jörðinni Ljárskógum, sem sé utan umdæmis veiðifélagsins, til stefnenda í samræmi við hlutdeild þeirra í kaupunum, í samræmi við arð- og eignarhlutaskrá Ljárskóga, eins og hún hafi verið gerð árið 1987, með þeim breytingum sem hafa á henni orðið fram til ársins 2012.
Stefnendur telja, að sú ákvörðun stjórnar stefnda að endurgreiða svokallaðan „Fjósahluta“, og breyting á arð- og eignarhlutaskrá í samræmi við það, sé ekki aðeins brot á samþykkt stefnda frá 28. júlí 1987 heldur fari hún einnig þvert gegn fyrirmælum laga nr. 61/2006. Þessi ákvörðun stjórnar stefnda sé því ekki bindandi fyrir stefnendur.
IV.
Stefndi vísar til þess til stuðnings frávísunarkröfu sinni að óumdeilt sé í málinu að stefndi sé skráður eigandi Ljárskóga og hafi svo verið frá því að jörðin var keypt á árinu 1987. Hafi jafnframt verið staðfest í dómi Hæstaréttar, í málinu nr. 209/2010, að jörðin sé eign stefnda en ekki einstakra félagsmanna í veiðifélaginu. Þá sé jafnframt óumdeilt að á sínum tíma hafi verið haldin sérstök arðskrá fyrir jörðina Ljárskóga og að félagsmenn þar hafi verið tilgreindir sem eigendur tiltekins prósentuhluta jarðarinnar í hlutfalli við framlög sín í upphafi og á síðari tímamörkum. Kröfugerð stefnenda sé ekki sú að hin sérstaka arðskrá haldi gildi heldur að stefnendur verði beinir eigendur að tilteknum hluta jarðarinnar og að stefndi gefi út afsal þeim til handa. Að mati stefnda sé þessi kröfugerð ótæk fyrir dómi. Þannig sé í fyrsta lagi ljóst að hlutur stefnenda í arðskrá stefnda sé samtals um 14,51% (2,8725+(0,1731*6)+(2,555*2)+5,49). Ef kröfugerð stefnenda nái fram að ganga muni þeir verða beinir eigendur samtals um 25,8775% eignarhluta í Ljárskógum (8,238+4,199+(2,272*2)+(1,48275*6)), sem leiði óhjákvæmilega til þess að stefndi verði eigandi 74,1225% (100-25,8775) jarðarinnar á móti stefnendum. Stefnendur, sem eigi 14,51% arðskrárhlut í stefnda, muni því til viðbótar eiga óbeint í gegnum stefnda um 10,76% í Ljárskógum (14,51% af 74,1225%). Stefnendur hafi því í raun hagað málatilbúnaði sínum með þeim hætti að þeir muni eiga, með beinum og óbeinum hætti, tæplega 37% hlut í Ljárskógum verði fallist á kröfur þeirra. Ljóst sé að það sé ekki tilgangur málsóknar stefnenda að þau eignist svo stóran hluta í jörðinni. Þvert á móti sé tilgangurinn sá að stefnendur eignist 25,8775% hlut í jörðinni, í samræmi við töflu sem sé í stefnu. Málatilbúnaður stefnenda sé því illa ígrundaður og kröfugerð þeirra ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt með málsókninni. Stefna sé því í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í öðru lagi sé ljóst að málshöfðun stefnenda hafi ekki einungis áhrif á stefnda heldur einnig óhjákvæmilega á alla félagsmenn hans. Í því sambandi megi sérstaklega nefna að Dalabyggð, Svavar Jensson og Alvilda Þóra Elísdóttir hafi ekki verið aðilar að hinni sérstöku arðskrá vegna Ljárskóga vegna sölu þeirra á meintum hlut sínum í jörðinni á sínum tíma. Stefndi hafi nú lagt af hina sérstöku arðskrá fyrir Ljárskóga og fari með þessa eign sína í samræmi við fyrirmæli laga um lax- og silungsveiði. Hafi Dalabyggð, Svavar og Alvilda ákveðið að endurgreiða öllum þeim sem reitt hefðu af hendi fjármuni vegna umræddra gerninga. Margir stefnendur hafi móttekið greiðslur frá þeim án fyrirvara og án þess að hreyfa við andmælum. Þá hafi Alvilda og Svavar geymslugreitt stefnendunum Jóni Ægissyni og Bjarna Hermannssyni, sem ekki hafi viljað taka við greiðslunum, og þar með uppfyllt greiðsluskyldu sína gagnvart þeim í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 9/1978 um geymslufé. Ljóst sé að Dalabyggð, Svavar og Alvilda hafi verulegra og sérstakra hagsmuna að gæta vegna þessa máls og að nauðsynlegt sé að þeim sé gefinn kostur á að verjast dómkröfum stefnenda. Þannig sé enda ljóst að ef Dalabyggð, Svavar og Alvilda ættu aðild að málinu gætu þau komið að þeirri kröfu að ekki ætti að fallast á kröfur stefnenda nema gegn endurgreiðslu þeirra fjármuna sem margir stefnendur hafi nú þegar móttekið fyrirvaralaust og án athugasemda. Þá sé enn fremur ljóst að verði dómkröfur stefnenda teknar til greina muni þær hafa þau áhrif að hlutur stefnda, og þar með hlutdeild allra félagsmanna hans í jörðinni Ljárskógum, muni minnka. Málatilbúnaður stefnenda sé því þannig úr garði gerður að réttarfarsnauðsyn standi til þess að gefa öllum félagsmönnum stefnda kost á að láta málið til sín taka. Skilyrði séu því til samaðildar skv. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem skilyrði hafi verið til samaðildar í málinu, en stefnendur hafi einungis stefnt stefnda en ekki félagsmönnum hans, verði ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.
V.
Stefnendur styðja mótmæli sín við frávísunarkröfu stefnda í fyrsta lagi við það að með breytingu þeirri og viðbót við upphaflega kröfugerð þeirra í stefnu, sem lögð hafi verið fram við upphaf málflutnings um þennan þátt málsins, hafi verið komið til móts við athugasemdir stefnda í greinargerð um að kröfugerðin í stefnu væri ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum sem að væri stefnt með málsókninni. Með þessari breytingu, sem sé í samræmi við málflutningsyfirlýsingu sem gefin hafi verið við fyrri málflutning um frávísunarkröfu stefnda hér fyrir dómi, hafi í raun verið dregið úr kröfugerðinni án þess að í nokkru væri breytt grundvelli málsins.
Stefnendur vísa og til þess að engin þörf hafi verið á því að stefna öllum félagsmönnum stefnda. Mál þetta snúi einungis að stefnda. Hann sé einn þinglýstur eigandi Ljárskóga og geti því einn uppfyllt dómkröfur stefnenda. Þá sé því mótmælt að endurgreiðslur til stefnenda skipti einhverju máli í þessu tilliti.
VI.
Eins og áður hefur verið rakið gerðu stefnendur, við upphaf málflutnings um þennan þátt málsins, þá breytingu á dómkröfum sínum í stefnu að við þær bættist „gegn yfirlýsingu frá stefnendum um að þeir eigi ekkert frekara eignatilkall til jarðarinnar Ljárskóga sem aðilar að veiðifélagi Laxdæla“. Eftir þessa breytingu krefjast því stefnendur þess að viðurkennt verði með dómi eignartilkall þeirra til jarðarinnar Ljárskóga og að stefnda verði gert skylt að gefa út afsal til hvers og eins þeirra í samræmi við tilgreinda eignarhlutdeild hvers og eins í jörðinni, gegn yfirlýsingu frá stefnendum um að þeir eigi ekkert frekara eignartilkall til Ljárskóga sem aðilar að stefnda. Viðurkenndu stefnendur með þessari breytingu þá staðhæfingu stefnda í greinargerð að upphafleg kröfugerð þeirra í stefnu væri ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum sem þeir stefndu að með málsókn sinni og að ef þær yrðu teknar til greina myndu þeir eiga, beint eða óbeint vegna aðildar sinnar að stefnda, stærri hlut í jörðinni en yfirlýst markmið þeirra hefði verið með málsókninni. Verður að telja, eins og hér háttar, að breyting þessi sé í raun stefnda til hagsbóta og megi hún því komast að í málinu, með gagnályktun frá 3. ml. 1. mr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með hliðsjón af því verður ekki fallist á með stefnda að stefna sé í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun málsins frá dómi jafnframt á því að réttarfarsnauðsyn standi til þess, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, að öðrum félagsmönnum í hinu stefnda félagi sé gefinn kostur á að láta málið til sín taka. Fram er komið að mál þetta á rætur að rekja til ágreiningsins innan hins stefnda félags í tengslum við og í kjölfar kaupa þess á jörðinni Ljárskógum. Voru kaupin fjármögnuð að hluta með arðgreiðslum frá stefnda til einstakra félagsmanna, en stefnendur halda því fram að sú undantekning hafi verið þar á að eigendur Lambeyra, Sigríður Skúladóttir og Einar V. Ólafsson, hafi einnig fjármagnað hlut eigenda jarðarinnar Dönustaða vegna þessa. Hafi hin sérstaka arðskrá sem í kjölfarið var gerð fyrir Ljárskóga endurspeglað þessi framlög. Halda stefnendur því fram að það hafi verið almennur skilningur þeirra aðila sem stóðu að umræddum kaupum á jörðinni að henni yrði fljótlega í kjölfarið afsalað til hvers og eins þeirra í samræmi við þessa arðskrá, en það hafi hins vegar ekki gengið eftir. Miðar kröfugerð þeirra nú að því að staðfest verði með dómi að þeir eigi beinan eignarrétt að jörðinni í samræmi við framlag sitt. Inn í þennan ágreining kemur svo að eigendur tveggja jarða í hinu stefnda félagi, jarðanna Fjósa og Hrappsstaða, seldu á sínum tíma, eins og rakið hefur verið, ætlaðan eignarhlut sinn í Ljárskógum til stefnda sem seldi þá síðan áfram til nokkurra félagsmanna, þ. á. m. nokkurra stefnenda. Upphaflegir seljendur þessara „eignarhluta“ ákváðu að endurgreiða öllum þeim sem reitt hefðu af hendi fjármuni vegna þessara gerninga og tók hluti félagsmanna, þ. á m. hluti stefnenda, við þeim án athugasemda, en hluti stefnendanna neitaði hins vegar að taka við þessum greiðslum eða gáfu ekki nauðsynlegar upplýsingar í því skyni. Þrátt fyrir þetta lúta endanlegar dómkröfur stefnenda að því að viðurkenndur verði tilgreindur eignarréttur hvers þeirra að jörðinni Ljárskógum og að stefnda verði gert skylt að gefa út afsal til hvers og eins þeirra, í hlutfalli við hlutdeild þeirra í hinni sérstöku arðskrá Ljárskóga, eftir að tekið hefði verið tillit til breytinga sem á henni hefðu orðið í kjölfar framangreindra sölugerninga um svokallaðan Fjósahlut og svokallaðan Hrappsstaðahlut.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að fallast á það með stefnda að jafnvel þótt stefndi sé einn þinglýstur eigandi jarðarinnar Ljárskóga þá verði að líta til þess að ágreiningur í máli þessu getur haft bein áhrif á hlutdeild annarra félagsmanna hins stefnda félags í jörðinni Ljárskógum en stefnenda máls þessa. Sérstaklega sýnist nauðsyn bera til þess að eigendur jarðanna Fjósa og Hrappsstaða geti tekið til varna gegn dómkröfum stefnenda. Þar sem stefnendur hafa einungis stefnt stefnda í máli þessu en ekki félagsmönnum hans verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi, með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda 800.000 krónur í málskostnað.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan, en hann tók við rekstri málsins er hann var skipaður dómstjóri 1. mars 2015.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Skúli Einarsson, Jónína Einarsdóttir, Jóhanna Lilja Einarsdóttir, Valdís Einarsdóttir, Ólöf Björg Einarsdóttir, Svanborg Þuríður Einarsdóttir, Jón Ægisson, Harald Óskar Haraldsson, Bjarni Hermannsson og Unnsteinn Kristinn Hermannsson, greiði stefnda, Veiðifélagi Laxdæla, 800.000 krónur í málskostnað.