Hæstiréttur íslands

Mál nr. 364/2006


Lykilorð

  • Sjúkrahús
  • Læknir
  • Læknaráð
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2007.

Nr. 364/2006.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.

 Jón Sigurðsson hdl.)

gegn

Richardt Svendsen

(Stefán Geir Þórisson hrl.

 Stefán Ólafsson hdl.)

 

Sjúkrahús. Læknar. Læknaráð. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi. Gjafsókn.

 

R, sem þjáðist af slitgigt, krafði Í um bætur vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna mistaka við framkvæmd læknisaðgerðar. Í Hæstarétti var staðfest niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, um að saknæmt gáleysi hefði verið sýnt við meðferð R sem Í bæri fébótaábyrgð á. Hins vegar var talið ljóst að það tjón, sem R taldi sig hafa orðið fyrir vegna mistaka í aðgerðinni og metið hafði verið af dómkvöddum matsmönnum, væri tímabundið og fælist í því að ekki hefði tekist að draga úr verkjum hans og fresta stærri aðgerðum um þau ár sem vonir stóðu til. Var því ekki talið að R hefði sýnt fram á að mistök starfsmanna Í hefðu leitt til varanlegs tjóns hans. Aftur á móti var fallist á með héraðsdómi að greind mistök hefðu leitt til þess að R hefði hlotið tímabundið atvinnutjón og þjáningar, auk tjóns vegna útlagðs kostnaðar og var skaðabótaskylda vegna þessa felld á Í. Þar sem R hafði ekki lagt fram fullnægjandi gögn fyrir tjóni sínu samkvæmt þessum kröfuliðum var ekki talið unnt að leggja dóm á bótakröfu hans. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2006 og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnda og honum dæmdur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafan verði lækkuð og málskostnaður þá felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hann nýtur á báðum dómstigum.

I.

Samkvæmt gögnum málsins hafði stefndi þjáðst af slitgigt í vinstra hné og leitaði til bæklunarlæknis. Var ákveðið að hann færi í svokallaða álagsöxulréttingaraðgerð, sem draga myndi úr verkjum hans. Slíkri aðgerð mun vera ætlað að breyta álagi á hnélið þannig að það komi meira á utanvert hné þar sem brjósk sé yfirleitt heillegra, en brjóskskemmdir byrji oftast innanvert í hné. Aðgerðin lækni ekki heldur breyti álagi á hnéð með framangreindum hætti. Stefndi var settur á biðlista fyrir aðgerðina í júní 1998 til þess „að rétta upp skekkju sem var um það bil 10° inn á við (hjólbeinóttur).“ Í febrúar 1999 var komið að því að stefndi færi í aðgerðina en hann slasaðist við vinnu 17. þess mánaðar og snerist á vinstra hné. Ákveðið var að fresta aðgerðinni og var hún gerð 22. júní sama ár af öðrum bæklunarlækni en stefndi hafði upphaflega leitað til. Í henni var sköflungur vinstri fótar tekinn í sundur neðan við hnélið og síðan settur ytri festingarrammi á fótinn með réttiskrúfum, sem skyldi snúið til að rétta legginn smám saman. Annaðist stefndi sjálfur snúning skrúfanna í tækinu. Gert var ráð fyrir fjórtán snúningum, einum heilum snúningi á dag og lauk áætlaðri réttingu 12. júlí. Röntgenmyndir, sem þá voru teknar, sýndu 2,5 gráðu útskekkju í stað innskekkju sem stefnt hafði verið að. Var því ákveðið að skrúfa fimm hringi til viðbótar eða 5 gráður og var því lokið 19. júlí. Röntgenmyndir sýndu þá svipaða eða meiri útskekkju en sést hafði 12. sama mánaðar, gagnstætt því sem ætlað var. Sérfræðingur, sem skoðaði stefnda 19. júlí, mat ástand fótarins svo að réttingin væri orðin fullnægjandi og að frekari snúningar á skrúfunum þjónuðu ekki tilgangi. Lauk meðferðinni þar með og greri beinið í þeirri stöðu.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi taldi stefndi sig enga bót hafa fengið meina sinna við þessa aðgerð og að verkir í fætinum hefðu aukist fremur en hitt. Reisir hann kröfu sína á hendur áfrýjanda á því að mistök hafi átt sér stað við framkvæmd aðgerðarinnar, eftirmeðferð og upplýsingagjöf fyrir aðgerð. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir gögnum, sem fyrir liggja í málinu, þar á meðal álitsgerð landlæknis 10. maí 2001, álitsgerð nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu 7. maí 2002, matsgerð tveggja dómkvaddra lækna 21. september 2004 og umsögn læknaráðs 11. mars 2005.

II.

Í fyrrnefndri matsgerð dómkvaddra manna var komist að þeirri niðurstöðu að samkvæmt gögnum málsins hefði snúningi verið hætt of snemma og áður en áætlaðri réttingu á fótlegg stefnda hafði verið náð. Það sé að líkindum stærsta ástæðan fyrir því að aðgerðin hafi ekki skilað nægjanlegum árangri. Matsmenn mátu og afleiðingar hinna ætluðu mistaka.

Etir að mat hinna dómkvöddu manna lá fyrir leitaði áfrýjandi umsagnar læknaráðs varðandi spurningar þær sem raktar eru í héraðsdómi. Í umsögn  læknaráðs 11. mars 2005 segir að rétt hafi verið staðið að vali aðgerðar fyrir stefnda, en beiting réttingatækja hafi ekki verið rétt. Markmið réttingarinnar hafi verið að ná 2,5 gráðu innskekkju, en öxulstefnan hafi reynst vera 2,5 gráður í útskekkju eftir að réttingu var lokið. Ekki hafi verið staðið eðlilega að verki þegar ákveðið var að hætta frekari réttingu á hnjáliðnum. Með klínísku mati hafi læknar stefnda talið að hnéð væri komið í rétta stöðu, en röntgenmyndir hafi aftur á móti sýnt 2,5 gráðu útskekkju, þannig að ósamræmi hafi verið milli klínísks mats og röntgenmats. Læknaráð taldi þó að þetta hafi hvorki haft áhrif á framhald veikinda stefnda né á varanlega örorku hans þar sem beinskurður heppnist ekki í 10-20% tilvika á þann hátt að hann minnki verki sjúklings. Í þessu tilfelli hafi beinskurðurinn gróið með ágætum en ekki hægt á gangi sjúkdómsins eins og stefnt hafi verið að. Verði því ekki sagt að aðgerðin sem slík hafi valdið varanlegri örorku. Minnki verkir ekki eins og stefnt sé að sé sjúklingi boðið upp á gerviliðsaðgerð og sú hafi orðið raunin hér. Álit læknaráðs var að ekki sé unnt að rekja varanlega örorku stefnda til beinskurðarins, heldur sé orsök hennar slitgigt. Læknisaðgerðir vegna slitgigtar beinist að því að hægja á gangi sjúkdómsins og draga úr sársauka, en ekki hafi fundist lækning til þess að stöðva sjúkdóminn.

Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, hefur komist að sömu meginniðurstöðu og dómkvaddir matsmenn um að ekki hafi verið rétt staðið að þeirri ákvörðun 19. júlí 1999 að hætta snúningsmeðferð. Niðurstaða héraðsdóms var sú að saknæmt gáleysi hefði verið sýnt við meðferð stefnda á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, sem áfrýjandi beri fébótaábyrgð á. Þessu mati hefur ekki verið hnekkt fyrir Hæstarétti og verður að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti.

III.

Í matsgerð dómkvaddra manna er því ekki lýst að mistök við læknisaðgerðina hafi leitt til varanlegrar örorku stefnda. Í matsgerðinni segir meðal annars að „hætt var of snemma snúningi (skekkingu) og að það sé að líkindum stærsta ástæða fyrir því að aðgerðin skilaði ekki nægjanlegum árangri. Fleiri ástæður koma einnig til greina, svo sem blæðing eftir aðgerðina, einnig var um að ræða óvenju langvarandi stirðleika og verk eftir aðgerðina.“ Í matsgerð er bent á að ekki megi reikna með fullum langvarandi árangri eða bata eftir svona aðgerð, sem er verkjameðferð, framkvæmd til að „kaupa tíma“ og seinka stærri aðgerðum í nokkur ár. Þyki yfirleitt góðum árangri náð ef óþægindi sjúklings minnka að því marki að fresta megi í 10 til 15 ár að fara í stærri aðgerð, svo sem gerviliðsaðgerð.

Af framansögðu er ljóst að það tjón, sem stefndi telur sig hafa orðið fyrir vegna mistaka í aðgerðinni og metið hefur verið af dómkvöddum matsmönnum, er tímabundið og felst í því að ekki hafi tekist að draga úr verkjum stefnda og fresta stærri aðgerðum um þau ár, sem vonir stóðu til. Fær það jafnframt stoð í umsögn læknaráðs sem gerð var grein fyrir að framan. Hefur stefndi því ekki sýnt fram á að mistök starfsmanna áfrýjanda hafi leitt til varanlegs tjóns hans, hvorki vegna varanlegrar örorku né varanlegs miska.

Hins vegar verður að fallast á með héraðsdómi að greind mistök hafi leitt til þess að stefndi hafi hlotið tímabundið atvinnutjón og þjáningar, auk tjóns vegna útlagðs kostnaðar. Hvílir á áfrýjanda að sanna að stefndi hefði allt að einu orðið fyrir þessu tjóni ef engin mistök hefðu verið gerð við læknismeðferðina. Áfrýjanda hefur ekki tekist sú sönnun. Verður því að fella skaðabótaskyldu á hann vegna þess tjóns stefnda sem ekki er vegna varanlegrar örorku og miska.

Krafa stefnda vegna tímabundins atvinnutjóns og þjáninga er reist á mati hinna dómkvöddu matsmanna. Krafa stefnda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns er nánar tiltekið á því reist að hann hafi verið með öllu óvinnufær frá 22. október 1999 til 7. júní 2002, en þá hafi ekki verið að vænta frekari bata. Krafa stefnda um þjáningabætur er miðuð við sama tímabil. Ekki verður ráðið af matsgerð hvers vegna miðað er við þetta tímabil og skortir allan rökstuðning fyrir því að óvinnufærni og þjáningar stefnda á tímabilinu megi rekja til framangreindra mistaka sem áfrýjandi ber fébótaábyrgð á. Þá verður ekki ráðið af þeim gögnum sem stefndi hefur lagt fram vegna útlagðs kostnaðar að hann megi rekja til umræddra mistaka frekar en annarra afleiðinga sjúkdóms hans eða vinnuslyss, sem hann varð fyrir 17. febrúar 1999. Hefur stefndi því ekki lagt fram fullnægjandi gögn fyrir tjóni sínu samkvæmt þessum kröfuliðum. Þar sem grundvöllur bótakröfu stefnda vegna þess tjóns sem áfrýjandi er talinn bera ábyrgð á hefur ekki verið lagður með þeim hætti að dómur verði á hana felldur verður að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Um gjafsóknarkostnað stefnda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, Richardts Svendsen, í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, samtals 1.000.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2006.

Mál þetta var höfðað 30. september 2005 og dómtekið 16. f.m.

Stefnandi er Richardt Svendsen, Suðurhólum 24, Reykjavík.

Stefndi er Landspítali-háskólasjúkrahús, Eiríksgötu 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.263.774 krónur ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 3.968.361 krónu frá 22. júní 1999 til 7. júní 2002, en af 6.263.774  krónum frá þeim degi til 13. nóvember 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnandi fékk gjafsóknarleyfi 24. janúar 2003.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I

Stefnandi varð fyrir vinnuslysi þann 17. febrúar 1999 þegar hann féll af palli bíls og fékk snúningsáverka á vinstra hné.  Leitaði hann samdægurs til læknis vegna áverkanna.  Fyrir slysið hafði stefnandi verið greindur með byrjandi slitgigt innan til í hnénu.  Við hnéspeglun 1994 kom í ljós að liðþófi var rifinn og slit byrjað að myndast í liðnum.  Vegna þessa var stefnandi til meðferðar hjá Brynjólfi Jónssyni bæklunarlækni sem hafði þ. 15. júní 1998 sett stefnanda á biðlista fyrir svokallaða “álagsöxulréttingaraðgerð” á vinstra ganglim, þ.e.a.s. að fyrirhugað var að rétta upp skekkju, sem var um það bil 10° inn á við.  Þegar slysið varð var komið að stefnanda að fara í aðgerðina en talið var rétt að láta hnéð jafna sig og bíða með aðgerðina.  Fljótlega eftir slysið kom í ljós að stefnandi var með þrengingar á kransæðum og þann 22. mars 1999 var framkvæmd blásningsaðgerð.

Þann 22. júní 1999 var síðan gerð réttingaraðgerð á Landspítalanum í Fossvogi af Stefáni Carlssyni, bæklunarlækni á bæklunardeild þar sem Brynjólfur Jónsson var í sumarleyfi.

Aðgerðin var í því fólgin að sköflungurinn var tekinn í sundur rétt neðan við hnéliðinn og síðan var settur ytri festingarrammi með réttiskrúfum.  Síðan skyldi skrúfum snúið til að rétta legginn smám saman af.  Gert var ráð fyrir einum heilum snúningi á dag sem skipt var niður í fjögur skipti enda réttingin sársauka­full.  Útskekkjuhorn (varus) var 10° fyrir aðgerð og var ráðgert að breyta því um 14° eða yfir í 4° innskekkju (valgus).  Rétt um sex dögum eftir aðgerð var byrjað að snúa réttingartækinu, sem stefnandi annaðist sjálfur, og lauk áætlaðri réttingu þann 12. júlí 1999 en þá höfðu fjórtán snúningar verið snúnir.  Eftir skoðun á röntgenmyndum, sem voru þá teknar af aðgerðarsvæðinu og sýndu 2,5° útskekkju (varus),  taldi Ólafur Ingimarsson, aðstoðarlæknir á bæklunardeild, að skrúfa þyrfti fimm hringi til viðbótar eða um 5°.  Því var lokið 19. júlí 1999 og höfðu þá nítján snúningar verið snúnir.  Myndir sýndu hins vegar  3° úthorn (varus) í stað 2,5° innhorns (valgus).  Ólafur Ingimarsson kallaði til Yngva Ólafs­son, sérfræðing í  bæklunarlækningum sem ákvað að snúningum skyldi hætt og greri beinið í þeirri stöðu.   Við tók sjúkraþjálfun sem bar ekki tilætlaðan árangur.  Réttingartækin voru fjarlægð 15. september 1999.  Stefnandi var með verulega verki og óþægindi allt haustið og þann 4. nóvember 1999 gerði Stefán Carlsson liðspeglun og kom þá í ljós minniháttar liðþófarifa, auk slitsins, og voru gerðar viðeigandi ráðstafanir vegna þess og þjálfunarmeðferð haldið áfram.  Stefnandi leitaði á ný til Brynjólfs Jónssonar eftir að Stefán Carlsson hafði látið uppi að hann gæti ekki gert meira fyrir hann.  Röntgenmyndir teknar þann 18. febrúar 2000 bentu til að liðbrjóst væri nær horfið innan til í liðnum og að rétting var aðeins 3° inn á við en ekki út á við eins og til var ætlast.  Í framhaldi af þessu og vegna mikilla einkenna var ákveðið að setja gervilið í hnéð og var hálfgerviliðsaðgerð framkvæmd 6. nóvember 2000.  Í vottorði Brynjólfs Jónssonar, dags. 10. október 2001 segir:  “. . .eftir þessa aðgerð var gangur frekar brösóttur.  Richardt hafði töluvert mikla verki fyrir neðan hnéð og hann var með sársauka við gang og frekar lélega hreyfingu.  Þann 05.03.2001 var gerð mobilisering á hnénu í svæfingu og var hreyft úr 90° í 110° og fór hann í stífar sjúkraþjálfunaræfingar á eftir.  Richardt hefur verið óvinnufær frá vinnu sinni sem sendibílstjóri en hann mun eitthvað hafa reynt að aka leigubifreið en hann hefur þó átt erfitt með að beita fótinn álagi, til dæmis við að aka beinskiptri bifreið, bera, ganga lengri vegalengdir og að ganga í stigum.  Það ástand hefur haldist óbreytt fram á haustið 2001.  Ef ástandið skánar ekki fljótlega og vinnufærni eykst og verkir og sársauki minnka er fyrirhugað að skipta um gervilið, taka hálfliðinn í burtu og setja heilan gervilið. .    Heilgerviliðsaðgerð var framkvæmd  22. nóvember 2001.

II

Með bréfi 24. maí 2000 fór stefnandi þess á leit við landlækni að hann hlutaðist til um rannsókn á því hvort mistök hafi átt sér stað við læknisaðgerð, sem hann hafi gengist undir þ. 22. júní 1999 og/eða við eftirfarandi meðferð, sem leitt hafi til heilsufarsskerðingar fyrir hann, hvort heldur er tímabundið eða til fram­búðar.

Niðurstaða álitsgerðar landlæknis frá 10. maí 2001 er svofelld:  “Telja verður að ábending aðgerðar hafi verið rétt en hún er þó einungis tímabundin lausn og verður að miða væntingar við það.  Allmiklar slitbreytingar voru komnar fram þegar aðgerðin er gerð og kann það að hafa haft áhrif á árangur hennar.  Réttingin sem stefnt var að náðist ekki miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir en ekki er ljóst hvernig á því stóð.  Hins vegar bera læknar Richardts ábyrgð á því hvernig til tókst.  Það verður hins vegar vart rakið til mistaka fremur til vangár eða slysni.  Hins vegar er óvíst að endanleg niðurstaða hefði orðið önnur jafnvel þó full rétting hefði tekist þar sem slitbreytingar voru þegar talsverðar.”

Í kjölfar niðurstöðu landlæknis var kvörtun send til nefndar um ágreinings­mál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu.  Niðurstaða hennar kemur fram í álitsgerð, dags. 7. maí 2002:  “Ekki er unnt að fullyrða að mistök hafi orðið við aðgerð og umönnum álitsbeiðanda þrátt fyrir að árangur af meðferðinni hafi ekki orðið eins og til stóð.  Telja verður ámælisvert að starfsmenn spítalans fylltu ekki út eyðublað um þær upplýsingar sem álitsbeiðandi fékk fyrir aðgerðina.”

Við meðferð nefndar um ágreiningsmál beindi hún spurningum til Halldórs Jónssonar, yfirlæknis á bæklunarskurðdeild stefnda.  Í skýrslu yfirlæknisins, dags. 27. október 2001, segir m.a.:  “Það vekur athygli af hverju röntgenrannsókn var ekki endurtekin þar sem niðurstaða hennar orkaði tvímælis en var afgerandi fyrir tímalengd meðferðarinnar.  Í samráði við sérfræðing óskyldan vandamálinu en sem tók afgerandi afstöðu í málinu var meðferðinni hins vegar hætt og beininu frá þeim tíma leyft að gróa.”  Svörin eru síðan sem hér segir:

“1)  Telur álitsbeiðandi að hann hafi ekki fengið réttar upplýsingar um hvaða væntingar hann mátti gera eftir aðgerðina?

SVAR:  Það er ekki síður mikilvægt að sjúklingur beri fram spurningar um hvað sé að, hvernig sé hægt að leysa vandamálið og í hverju aðgerð felist ef slíkt kemur til greina eins og að læknir upplýsi sjúkling um tilgagn, gang og eftirmála fyrir­hugaðrar valaðgerðar.  Í fyrirliggjandi sjúkragögnum Richardts er aðeins unnt að staðfesta að Richardt hafi verið undirbúinn fyrir aðgerð af Ólafi Ingimarssyni deildarlækni.  Samkvæmt verklagsreglum er það þannig á ábyrgð  Ólafs að tryggja það að Richardt hafi verið búinn að skilja hvað vandamálið væri, hvað aðgerðin gengi út á og hverju mætti búast við eftir á.  Viðeigandi eyðublað er hins vegar óútfyllt. . .

2)   Að mistök hafi orðið við umönnum hans eftir aðgerðina.

SVAR:  Samkvæmt fyrirliggjandi sjúkragögnum fylgdi Ólafur Ingimarsson deildarlæknir Richardt mjög samviskusamlega eftir.  Hins vegar kom upp óvissa við eftirlit þann 19.07.1999 þegar gerð var burðarásmæling til að meta hvort búið var að skrúfa nægilega mikið til að leiðrétta varus skekkjuna.  Í samráði við mjög reyndan bæklunarsérfræðing var tekin sú ákvörðun að hætta leiðréttingunni og láta beinið gróa.  Við næsta eftirlit þann 15.09.1999 sem var þá í fyrsta sinn hjá aðgerðarlækni Richardts kemur ekki annað fram en að allir hlutir séu í góðu lagi þrátt fyrir það sem á undan var gengið  Þetta er þannig ekki rétt fullyrðing.

3)  Að óeðlilega langt hafi liðið frá því að aðgerðin var framkvæmd uns læknir sá er framkvæmdi hana skoðaði álitsbeiðanda.

SVAR:  Stefán sá Richardt fyrst 15.09.1999 eða tæplega þremur mán. eftir aðgerðina.  Við þá heimsókn kemur ekki fram nein óánægja Richardts í garð Stefáns.  Við næstu heimsókn þann 29.09.1999 kemur Richardt vegna kvartana frá hnénu, hann getur ekki beygt það nægilega.  Honum er vísað á stofu úti í bæ eftir mánuð og gerir hann það án frekari athugasemda.  Af þessu verður ekki annað sagt en að hér sé aðeins viðveru Stefáns áfátt eftir aðgerðina.  Við skoðun á viðveru­skráningu Stefáns hjá LSH þá var hann hér við störf í 2 vikur eftir umrædda aðgerð eða til loka mánaðarins.  Hann var svo í lögboðnu fríi allan júlí og ágúst mánuð svo og fyrstu vikuna í september.  Það má þannig deila um hvort gera eigi aðgerð sem þessa rétt áður en farið er í langt frí og eftirláta öðrum sérfræðingi svo mikilvægt eftirlit eða ekki.  Það kemur hins vegar ekki fram hver sá hefði átt að vera.  Ólafur Ingimarsson er deildarlæknir og hefur greinilega borið hitann og þungann af starfi sérfræðingsins en hann getur ekki talist ábyrgur fyrir sjúklingi sem slíkur.  Þessi óeðlilega tímalengd er því alfarið í höndum sérfræðings en hann hætti störfum við stofnunina stuttu seinna eða 31.12.1999.”

Með bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 29. nóvember 2004, leitaði það – einhliða- umsagnar læknaráð vegna málsins.  Fara spurningar ráðuneytisins og svör læknaráðs hér á eftir:

“1.  Telur læknaráð að rétt hafi verið staðið að val aðgerðar þegar Richardt var skorinn þann 22. júní 1999?

SVAR:  Já, rétt var staðið að vali á aðgerð. . .

2.  Telur læknaráð að beiting réttingatækja við beinhlutunaraðgerðina hafi verið rétt?

SVAR:  Nei.  Markmið réttingarinnar var að ná 2,5 gráðu valgus stöðu en öxul­stefnan reyndist vera 2,5 gráður í varus eftir að réttingu var lokið.  Ekki sést af gögnum að kannað hafi verið í aðgerðinni hvort hægt væri að rétta öxulskekkjuna svo mikið sem áætlað var.  Einnig er ljóst að ekki var gerður beinskurður á fibula né heldur kemur það fram að það hafi verið hugleitt hvort þess þyrfti.  Bæði þessi atriði eru tekin fram í leiðbeiningum með notkun tækjanna og í kennslubókum í bæklunarskurðlækningum.

3.  Telur læknaráð að eðlilega hafi verið staðið að verki þegar ákveðið var að hætta frekari réttingu á hnjáliðnum?

SVAR:  Nei.   Með klínísku mati töldu læknar Richardts að hnéð væri komið í valgus.  Hefði það reynst rétt hefði verið eðlilegt að hætta réttingunni.  Röntgen­myndir sýndu aftur á móti 2,5 gráðu varus stöðu þannig að ósamræmi var milli klínísks mats og röntgenmatsins.  Ekki kemur fram í sjúkraskrá að læknarnir hafi velt því fyrir sér hvað gæti hafa orsakað það að rétting náðist ekki, svo sem því hvort beinskurðurinn hafi gróið, að staðsetning tækisins hafi ekki leyft frekari réttingu eða hvort fibulan hafi haldið á móti.

4.  Ef svo er ekki, telur læknaráð að það hafi haft áhrif á framhald veikinda Richardts og hafi haft áhrif á varanlega örorku hans?

SVAR:  Nei, beinskurður heppnast ekki í 10-20% tilfella á þann hátt að hann minnki verki sjúklings.  Í þessu tilfelli greri beinskurðurinn með ágætum en hægði ekki á gangi sjúkdómsins eins og stefnt var að.  Verður því ekki sagt að aðgerðin sem slík hafi valdið varanlegri örorku.  Ef verkir minnka ekki eins og stefnt er að eftir beinskurðaðgerð þá er sjúklingi boðið upp á gerviliðsaðgerð.  Það var raunin í þessu tilfelli.

5.  Ef svo er, að hve miklu leyti má telja að varanleg örorka sé afleiðing beinhlutunaraðgerðar?

SVAR:  Ekki er hægt að rekja varanlega örorku til beinskurðarins en orsök varan­legrar örorku þessa sjúklings er slitgigt.  Læknisaðgerðir vegna slitgigtar beinast að því að hægja á gangi sjúkdómsins og draga úr sársauka en ekki hefur fundist óbrigðul lækning til þess að stöðva sjúkdóminn.”

Að beiðni stefnanda voru bæklunarskurðlæknarnir Guðni Arinbjarnar og Ari H. Ólafsson dómkvaddir þ. 12. september 2003 til að meta eftirfarandi þætti og láta í ljós um þá skriflegt og rökstutt álit: 

I    Hvort tilhlýðilega hafi verið staðið að aðgerðum og meðferð sem matsbeiðandi fékk hjá matsþolum, Landspítala Háskólasjúkrahúsi og Stefáni Carlssyni, eftir slys á vinstra hné þann 17.02.1999.  Nánar tiltekið er óskað álits matsmanna um eftirfarandi:

 1.1 Hvort tilhlýðilega hafi verið staðið að upplýsingagjöf til matsbeiðanda um líkur á bata.

1.2  Hvort réttilega hafi verið staðið að beinhlutunaraðgerð er framkvæmd var  þann 22.06.1999.

 1.3 Hvort réttilega hafi verið staðið að umönnun, eftirliti og eftirmeðferð þ.m.t. hvort snúningi  hafi verið hætt of snemma eftir aðgerðina.

1.4      Hver er líklegasta ástæða þess að aðgerðin skilaði ekki árangri.

1.5      Hvort aðgerðin og sú meðferð sem matsbeiðandi fékk teljist að öðru leyti forsvaranleg. 

II   Þá er óskað eftir að matsmenn meti afleiðingar hinna ætluðu mistaka skv. skaða­bótarlögum, nr. 50/1993.  Nánar tiltekið er óskað álits matsmanna um eftirfarandi:

2.1.                                                                          Hvert sé tímabundið atvinnutjón matsbeiðanda skv. 2. gr. Skbl., nr. 50/1993.

2.2.                                                                            Hversu lengi matsbeiðandi eigi rétt á þjáningabótum skv. 3. gr. Skbl., nr. 50/1993.

2.3.                                                                            Hver varanlegur miski matsbeiðanda sé á grundvelli 4. gr. Skbl., nr. 50/1993.

2.4.                                                                            Hver varanleg örorka matsveiðanda sé á grundvelli 5. gr. Skbl., nr. 50/1993.

2.5.                                                                            Hvenær ekki var að vænta frekari bata (stöðugleikatímapunktur).”

Matsgerð, sem matsmaðurinn Ari H. Ólafsson staðfesti fyrir dóminum, er dagsett 21. september 2004.  Í niðurlagi hennar segir:

“Við mat á tímabundnu atvinnutjóni er ljóst að Richardt verður af verulegum tekjum og óvinnufær í langan tíma vegna aðgerðanna sem komu í kjölfar áverkans og telja matsmenn eðlilegt að miða atvinnutjónið við þann tíma er einkenni eða aðgerðum er hætt og ástandið er komið í endanlegt form eftir síðustu aðgerð og miðast þetta því við júní  2002.

Rétt þykir að setja upphaf þjáningabóta 4 mánuðum eftir beinhlutunar­aðgerðina sem matsmenn telja hæfilegan tíma óvinnufærni eftir slíka aðgerð.

Við (svo) mat á lokapunkti þjáningabóta miðast við þann tíma þegar Richardt hefur náð sér eins og best verður á kosið, hálfu ári eftir síðustu (heilliðs-)aðgerð á hnénu og ekki er að vænta frekari breytinga á ástandinu.

Við mat á varanlegum miska er ljóst að hann er þó nokkur og Richardt hefur verulega skerta getu til athafna daglegs lífs.  Matsmenn reyna að á ætla varanlegan miska annars vegar eftir vel heppnaða beinhlutunaraðgerð og telja hann nokkurn og hins vegar er lagt mat á núverandi ástand Richardts.

Við mat á varanlegri örorku er ljóst að þó nokkur skerðing er á tekjuöflunargetu Richardts.  Hann hefur sinnt tjónstakmörkunarskyldu sinni, er að reyna nýtt nám og er að vinna eins og hann getur við leigubílaakstur.  Enn reyna matsmenn að áætla varanlega örorku, annars vegar eftir vel heppnaða beinhlutunar­aðgerð og hins vegar stöðu mála skoðunardaginn, þá er miðað er við ástand hnéliðar sem er illa “funkerandi” eftir heilgerviliðsaðgerð, með verulegum verkjum og hreyfiskerðingu.

Niðurstaða:

I.1.. . . Aðspurður um upplýsingagjöf fyrir aðgerð segir Richardt eftirfarandi:  “Þegar Brynjólfur Jónsson ákvað að skekkingaraðgerð skyldi gerð á hnénu sagði hann mér að ég mundi fá bækling um aðgerðina á deildinni og að um 6 mánuðum eftir aðgerð væri ég orðinn góður”.  Richardt segir ennfremur að Stefán Carlsson sem gerði aðgerðina hafi ekki upplýst hann neitt um möguleika á bata, hvorki um árangur aðgerðar né batavon.  Richardt upplýsir matsmenn um að hann hafi aldrei séð bæklinginn sem hann átti að fá um aðgerðina.

Matsmenn telja ljóst að þegar um er að ræða ofannefnda aðgerð verði að koma til sérstaklega góðar upplýsingar um áhættu aðgerðar og batahorfur.  Vitað er að umrædd aðgerð er ekki örugg m.t.t. bata ef hún læknar ekki brjósk­skemmdir en er ætluð til þess að draga úr verkjum og almennt álit að  hún sé til þess vel fallin að seinka líklegri gerviliðsaðgerð sem til muni koma síðar.

Matsmenn telja ljóst að ekki hafi verið um að ræða fullnægjandi upplýsingagjöf til sjúklings fyrir aðgerðina.

I.2.. . . Matsmenn telja að samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að réttilega hafi verið staðið að aðgerðinni sem framkvæmd var 22. júní 1999.  Aðgerðin er framkvæmd af vönum skurðlækni og tæknilega rétt útfærð.

I.3. . . Í gögnum málsins kemur fram að um hafi verið að ræða eftirlit og eftirmeðferð á vegum yngri lækna, ekki aðgerðalæknisins fyrstu mánuðina.  Matsmenn telja þetta óheppilegt en alls ekki óvenjulegt þar ekki er óalgengt að sérfræðingar fái yngri lækna sér til aðstoðar við aðgerðaeftirlit og eftirmeðferð og í þessu tilfelli var um reyndan unglækni að ræða.

Samkvæmt gögnum málsins kemur fram að snúningi þ.e. skekkingu á fótlegg er hætt of snemma áður en áætlaðri réttingu er náð.

I.4.. . . Algengasta ástæða þess að aðgerðir sem þessar skili ekki nægjanlegum árangri er sú að ekki næst nægjanleg leiðrétting á burðarásstefnu ganglimsins og samkvæmt gögnum málsins er ljóst að snúningi var í þessu tilfelli hætt of snemma, þ.e. áður en nægjanleg rétting/leiðrétting hafði fengist.

Matsmenn telja ljóst að hætt var of snemma snúningi (skekkingu) og að það sé að líkindum stærsta ástæða fyrir því að aðgerðin skilaði ekki nægjanlegum árangri.  Fleiri ástæður koma einnig til greina, svo sem blæðing eftir aðgerðina, einnig var um að ræða óvenju langvarandi stirðleika og verk eftir aðgerðina.

Matsmenn benda á að ekki er hægt að reikna með 100% langvarandi árangri eða bata eftir svona aðgerð sem er verkjameðferð, framkvæmd til að “kaupa tíma” og seinka stærri aðgerðum, svo sem gerviliðsaðgerð í nokkur ár.  Þykir yfirleitt góður árangur ef óþægindi sjúklings minnka að því marki að hægt sé að “kaupa” um það bil 10-15 ár uns farið er í stærri aðgerðir s.s. gerviliðsaðgerð.

I.5.. . . Samkvæmt gögnum málsins um aðdraganda beinhlutunaraðgerðarinnar telja matsmenn ábendingu hennar rétta.

Í gögnum málsins kemur fram að erfiðlega gekk að fá hnéliðinn í gang til hreyfingar eftir aðgerðina.  Framkvæmd var liðspeglun og síðna hálfgervi­liðsaðgerð sem að lokum endar í heil-gerviliðsaðgerð.

Matsmenn telja þennan gang mála forsvaranlegan, þó vilja matsmenn benda á, að ekki eru allir sammála um að hálfgerviliðsaðgerð sé heppilegur kostur eftir beinhlutunaraðgerð, mögulega réttara að fara beint í heilgerviliðsaðgerð.

Niðurstaða:

II. Afleiðingar hinna ætluðu mistaka skv. Skaðabótalögum nr. 50/1993.

Matsmenn velja hér að leggja fram matsorð í tveimur hlutum annars vegar hvert ástandið væri miðað við að tjónþoli hefði náð sér fyllilega eftir vel heppnaða beinhlutunaraðgerð ( I ) og hins vegar hver staðan er raunverulega miðað við skoð­unar­dag ( II ).

Matsmenn vilja taka fram að hér verður að styðjast að hluta til við “hefðbundnar afleiðingar” eins og reynsla matsmanna og kunnátta gefur tilefni til að áætla.

( I ) Matsorð miðað við góðan árangur beinhlutunaraðgerðar.

1) Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. Skbl., nr. 50/1993

Ekkert

2) Þjáningarbætur skv. 3. gr. Skbl. nr. 50/1993

Ekkert

3) Varanlegur miski skv. 4. gr. Skbl., nr. 50/1993

10%

4) Varanleg örorka skv. 5. gr. Skbl., nr. 50/1993

10%

5) Stöðugleikapunktur

Enginn

 ( II )  Matsorð miðað við raunverulegt ástand tjónþola skoðunardag

1) Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. Skbl., nr. 50/1993

22/10 1999 – 7/6 2002

2) Þjáningabætur skv. 3. gr. Skbl., 50/1993

22/10 1999 – 7/6 2002

(þar af rúmliggjandi 2 vikur)

3) Varanlegur miski skv. 4. gr. Skbl., nr. 50/1993

20%

4) Varanleg örorka skv. 5. gr. Skbl., nr. 50/1993

25%

5) Stöðugleikapunktur

7/6 2002”

Þá liggur frammi matsgerð Guðjóns Baldurssonar læknis, dags. 25. júní 2002, sem hann vann að beiðni stefnanda og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. á varanlegri, læknisfræðilegri örorku stefnanda og tímabundinni örorku vegna vinnuslyssins 17. febrúar 1999.  Niðurstaðan er sú að tímabundin örorka sé frá 17. febrúar 1999 til 7. júní 2002 og varanleg læknisfræðileg örorka 20%.

     Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 13. október 2004, til ríkislögmanns var sett fram bótakrafa á grundvelli matsgerðar og skaðabótalaga, samtals að upphæð 4.746.830 krónur.  Með svarbréfi 14. apríl 2004 var bótaskyldu hafnað.

III

A

Af hálfu stefnanda er skaðabótaábyrgð stefnda reist á almennum reglum íslensks réttar um skaðabótaskyldu, þ.á m. sakarreglunni og húsbóndaábyrgðar­reglunni.  Stefnandi hafi frá upphafi litið svo á að ætluð mistök hafi orðið við þá meðferð sem hann hafi undirgengist á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, nú Landspítala-háskólasjúkrahúsi.  Á því er byggt að alvarleg mistök hafi átt sér stað við framkvæmd aðgerðar, eftirmeðferð og upplýsingagjöf.  Um það er vísað til læknisfræðilegra gagna málsins en einkum til niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna sem staðfesti að mistök hafi átt sér stað af starfsmönnum stefnda við upplýsingagjöf og eftirmeðferð aðgerðar, sbr. þar sem segi annars vegar:  “. . . Matsmenn telja ljóst að ekki hafi verið um að ræða fullnægjandi upplýsingagjöf til sjúklings fyrir aðgerðina . . .” og hins vegar:  . . .”Matsmenn telja ljóst að hætt var of snemma snúningi (skekkingu) og að það sé að líkindum stærsta ástæða fyrir því að aðgerðin skilaði ekki nægjanlegum árangri . . .” 

Umkrafin bótafjárhæð vegna afleiðinga hinna ætluðu læknamistaka er reist á mati hinna dómkvöddu matsmanna.  Í matinu sé annars vegar lagt mat á hverjar hefðu verið líklegar afleiðingar slyssins eða aðgerðarinnar miðað við góðan árangur og hins vegar hvert hafi verið raunverulegt ástand stefnanda.  Þessi leið sé nauðsynleg til að greina á milli þeirrar örorku sem rekja megi til slyssins sjálfs og hinnar sem rekja megi til afleiðinga læknamistakanna.

Krafa stefnanda sundurliðast þannig:

1. Annað fjártjón..............................................................kr.         200.000

2. Tímabundið atvinnutjón..............................................kr.      2.268.451

3. Þjáningabætur..............................................................kr.           961.310

4.Bætur vegna varanlegs miska.....................................kr.         538.600-

 5.Bætur vegna varanlegrar örorku................................kr.      2.295.413

                                                    Samtals       kr.     6.263.774

Krafist er 4,5% vaxta frá 22. október 1999 til 13. nóvember 2004 en dráttarvaxta frá þeim degi en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að kröfubréf, dags. 13. október 2004, hafi verið sent lögmanni stefnda.

B

Af hálfu stefnda er því mótmælt að rekja megi tjón stefnanda til læknamistaka við framkvæmd aðgerðar, eftirmeðferð og upplýsingagjafar til stefnanda á Landspítala-háskólasjúkrahúsi vegna vandamála sem leiddu til aðgerðar á hné hans á árinu 1999.  Byggir stefndi sýknukröfu á því að ósannað sé að aðgerðin og eftirmeðferðin hafi leitt til núverandi örorku stefnanda og tjóns að öðru leyti. Jafnframt er á því byggt að stefnandi hafi fyrirfram vitað hvers eðlis aðgerðin og eftirmeðferðin hafi verið, sem hann hafi sætt, enda hafi aðgerðin verið ákveðin þegar árið 1998 eftir langvarandi vandamál stefnanda vegna slitgigtar.  Vísað er til álitsgerða landlæknis, nefndar um ágreiningsmál og læknaráðs og matsgerðar dómkvaddra matsmanna.  Í öllum tilvikum sé talið að ákvörðun um aðgerð hafi verið eðlileg og að hún hafi verið framkvæmd á eðlilegan hátt.  Varðandi eftirmeðferðina komi hins vegar fram að réttingin hafi ekki tekist sem skyldi miðað við það markmið sem að var stefnt.   Hvergi séu þó skilgreind mistök, einungis að óljóst sé hvers vegna upphaflegt markmið náðist ekki.  Í álitsgerðum landlæknis og nefndar um ágreiningsmál sé sérstaklega tekið fram að ekki sé hægt að fullyrða að mistök hafi átt sér stað.

Af hálfu stefnda er tölulegri kröfugerð stefnanda mótmælt, annars vegar á þeirri forsendu að bótaskylda sé ósönnuð og hins vegar á þeim grundvelli að ekkert mat liggi fyrir um ætlað tjón stefnanda vegna læknisaðgerðar á spítala stefnda.  Í matsbeiðni stefnanda hafi verið óskað eftir áliti matsmanna á afleiðingum hinna ætluðu mistaka.  Þetta hafi matsmenn ekki framkvæmt en ákveðið að meta annars vegar raunverulegt ástand stefnanda miðað við skoðunardag og hins vegar ástand hans viðað við svokallaðan góðan árangur beinhlutunaraðgerðar.  Í raun liggi ekki fyrir neitt mat á ætluðum mistökum vegna læknismeðferðar stefnanda enda hafi matsmenn ekki sjálfir skilgreint nein mistök.

IV

Ósannað er að stefnanda hafi verið veittar upplýsingar um eðli þeirrar aðgerðar sem hann gekkst undir hjá stefnda eða hvaða væntingar hann mætti gera til árangurs.  Tjón stefnanda verður hins vegar ekki rakið til þessa.  Að auki skal tekið fram að ætla hefði mátt að Brynjólfur Jónsson bæklunarlæknir, sem hafði haft stefnanda til meðferðar, hefði veitt stefnanda nauðsynlegar upplýsingar en fyrirhugað hafði verið að hann framkvæmdi beinhlutunaraðgerðina en Stefán Carlsson “hljóp í skarðið” vegna sumarleyfis Brynjólfs.

Engar vísbendingar eru um annað en að beinhlutunaraðgerðin hafi tekist vel.  Að henni lokinni var hins vegar nauðsynlegur þáttur læknisaðgerðarinnar að við tæki ferli réttingar með festingarramma og réttiskrúfum eins og lýst hefur verið og telja má vafasamt að flokka til eftirmeðferðar.

Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er megingagn við úrlausn málsins og hefur henni ekki verið hnekkt.  Fallist er á niðurstöður matsins og þá aðferð mats­manna, sem eðlilega og rökrétta, að meta afleiðingar hinna ætluðu mistaka á þann hátt að meta annars vegar áætlaðar afleiðingar eftir vel heppnaða aðgerð og hins vegar raunverulega niðurstöðu eftir þá aðgerð sem stefnandi gekkst undir.

Matsmenn fullyrða ekki að mistök hafi verið gerð en hins vegar telja þeir ljóst “að hætt var of snemma snúningi (skekkingu) og að það sé að líkindum stærsta ástæða fyrir því að aðgerðin skilaði ekki nægjanlegum árangri.”

Tilætlaðri réttingu var ekki náð, eins og fram kom af röntgenmyndatöku, þegar Yngvi Ólafsson ákvað þann 19. júlí 1999 að snúningum skyldi hætt og greri beinið síðan í hinni röngu stöðu.

Vitnið Yngvi Ólafsson bar við aðalmeðferð málsins að Ólafur Ingimarsson aðstoðarlæknir, sem hefði fylgt stefnanda eftir í fjarveru Stefáns Carlssonar, hefði tvívegis kallað á sig til ráðuneytis við meðferð stefnanda.  Í fyrra sinnið, 12. júlí 1999, hefði hann tekið ákvörðun um að snúningum skyldi haldið áfram í fimm daga þótt þeirri aðgerð hefði átt að vera lokið samkvæmt upphaflegri áætlun.  Í síðara skiptið, 19. júlí, hafi röntgenmyndataka sýnt nær sömu niðurstöðu sem fyrr (í raun lítið eitt lakari-innskot dómsins).  Fram hafi komið í viðtali við stefnanda að hann hefði ekki rétt alveg úr hnénu þegar röntgenskoðunin var framkvæmd.  Það eitt og sér geti skýrt það hver vegna ekki hafði orðið nein breyting á milli þessara tveggja rannsókna.  Hann kvaðst hafa tekið ákvörðun um að snúningum skyldi hætt.  Sú ákvörðun hafi byggst á því að hann hafi skoðað stefnanda,  þ.e. á “klínískri” skoðun með stefnanda fyrir framan hann.   Hann hafi talið það mat sitt vera afgerandi að réttingin væri fullnægjandi.

Það er álit hinna sérfróðu meðdómenda að ekki hafi verið rétt staðið að framan­greindri ákvörðun 19. júlí 1999 um að hætta snúningsmeðferð.  Röntgen­myndataka var ekki endurtekin til að fullvissa sig um að fyrri niðurstaða væri rétt.  Hefði svo reynst vera hefði verið rétt að reyna að gera sér grein fyrir hvers vegna fimm daga viðbótarsnúningar skiluðu engu.  Í því sambandi hefði mátt athuga hvort sperrileggur (fibula) hefði getað haft áhrif, þ.e. hvort hann veitti viðnám gegn frekari réttingu.  Hér er einnig vísað í álit læknaráðs um að þegar aðgerð var framkvæmd hefði þurft að athuga áhrif sperrileggs.

Við læknismeðferðina var samkvæmt þessu sýnt saknæmt gáleysi og ber stefndi fébótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.

Fyrsti kröfuliður stefnanda byggist á áætlun en við aðalmeðferð málsins voru lögð fram greiðsluskjöl, sem varða hann, samtals að upphæð 102.547 krónur, og verður kröfuliðurinn tekinn til greina með þeirra fjárhæð. 

Aðrir kröfuliðir sæta ekki rökstuddum andmælum af hálfu stefnda um niðurstöður eða forsendur útreikninga, eftir því sem sýnt er fram á í stefnu en einkum er byggt á niðurstöðum hinna dómkvöddu matsmanna.  Verður að fullu á þá fallist með vísun til þess sem hér verður greint:

Um 2. kröfulið:

Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal greiða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá því tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt.  Hinir dómkvöddu matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði verið 100% óvinnufær frá 22.10.1999 fram til 7.6.2002, eða í 31,5 mánuð, en þá hafi ekki verið að vænta frekari bata.  Til grundvallar bótafjárhæð er tekið mið af meðaltekjum stefnanda síðasta hálfa almanaksárið áður en hann lenti í slysi í febrúar 1999 eða 140.866 krónur á mánuði en viðmiðunartekjur lækka í 126.779 krónur þar sem rekja má 10% örorku stefnanda til slyssins sjálfs.  Tímabundið atvinnutjón stefnanda nemur samkvæmt framangreindu 3.993.538 (31,5 x 126.779) krónum.  Til frádráttar koma greiðslur á tímabili óvinnufærni, skv. staðgreiðsluskrá, 1.725.087 krónur.  Samtals  2.268.451 (3.993.538 – 1.725.087) króna.

Um 3. kröfulið:

Krafa stefnanda um þjáningabætur er reist á 3. gr. skaðabótalaga og reiknast fyrir sama tímabil og stefnandi var óvinnufær, þ.e.a.s. frá 22.10.1999 fram til 7.6.2002.  Fyrir hvern dag reiknast 1.840 krónur er stefnandi var rúmliggjandi og 990 krónur fyrir hvern dag er hann var veikur án þess að vera rúmliggjandi.   Fjárhæðir eru uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í október 2004 (4652 stig), sbr. 15. gr. skaðabótalaga.      

14   x  1.840  =   25.760

945 x     990  = 935.550 

Um 4. kröfulið:

Krafa stefnanda um miskabætur byggist á 4. gr. skaðabótalaga og mati hinna dómkvöddu matsmanna á því að varanlegur miski stefnanda vegna læknamistakanna sé 10%.  Fjárhæð bótanna tekur mið af grunnfjárhæðinni 4.000.000 krónum uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í október 2004 (4652 stig), sbr. 15. gr.skaðabótalaga.

10% af 5.386.000 krónum =538.600 krónur.

Um 5. kröfulið:

Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku byggist á ákvæðum 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. einkum 2. mgr. 7. gr. þeirra laga, en tekjur stefnanda hækkuðu verulega ári fyrir slysið.  Miðað er við meðaltekju stefnanda síðustu sex mánuði ársins 1998 líkt og við ákvörðun bóta vegna tímabundinnar örorku, 140.866 krónur eða 1.690.392 krónur á ársgrundvelli.  Þá er tekið tillit til 6% framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs og hækkunar launavísitölu til þess tíma er upphaf varanlegrar örorku miðast við (226,3).  Uppreiknuð laun eru margfölduð með stuðli samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga (6.932) og metinni varanlegri örorku (15%).      1.690.392 x 1.06 / 184,0 x 226,3 = 2.203.7382.

2.203.738 x 6,944 x 15% =2.295.413    

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda 6.166.321 (102.547+2.268.451+961.310+538.600+2.295.413) krónu  með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 750.000 krónur.  Umfram þetta hefur ekki, eins og hér stendur á, þýðingu að í dómsorði sé kveðið á um greiðslu málskostnaðar sem samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að fella á stefnda.

Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Hjördís Jónsdóttir endurhæfingarlæknir og Sigurjón Sigurðsson bæklunar­skurðlæknir.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Landspítali-háskólasjúkrahús, greiði stefnanda, Richardt Svendsen, 6.166.321 krónu með 4,5% ársvöxtum frá 22. október 1999 til 13. nóvember 2004 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 750.000 krónur.