Hæstiréttur íslands
Mál nr. 615/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Skýrslugjöf
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. september 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2016 þar sem brotaþola var gert að koma fyrir dóm við aðalmeðferð máls sóknaraðila gegn varnaraðila og gefa skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili og brotaþoli krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með hliðsjón af þeim gögnum sem gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði um andlegt ástand brotaþola verður ekki fallist á að fyrir hendi séu þær aðstæður að heilsu hennar verði stofnað í hættu komi hún á ný fyrir dóm til skýrslugjafar. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2016
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 18. júlí 2016, á hendur X, kennitala [...],[...] í [...], með dvalarstað að fangelsinu Litla-Hrauni, „fyrir neðangreind hegningarlagabrot gegn eiginkonu sinni B og stjúpdætrum sínum C og A framin í Reykjavík svo sem hér greinir:
A
Brot gegn eiginkonu sinni, B, kennitala [...], framin á heimili þeirra að [...] nema að því er varðar ákærulið 4:
- Nauðgun, með því að hafa á tímabilinu frá mars 2010 til mars 2016, ítrekað eða allt að nokkrum sinnum í viku, þvingað B til að fróa honum með hótunum og annars konar ólögmætri nauðung, en ákærði hótaði því að stunda kynlíf með A og C, dætrum B, eða henda þeim út af heimilinu, ef hún sinnti honum ekki kynferðislega.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
- Nauðgun, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. september 2014, þvingað B til að setjast klofvega ofan á sig og hafa samræði við sig um leggöng með hótunum og annars konar ólögmætri nauðung og ekki látið af háttseminni þótt hún bæði hann ítrekað að hætta. Ákærði hótaði því meðal annars að stunda kynlíf með A, dóttur B, ef hún ekki stundaði kynlíf með honum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
- Hótun og kynferðisleg áreitni, með því að hafa sunnudaginn 6. mars 2016, hótað að taka B með valdi og hafa mök við hana í endaþarm í kjölfar þess að hún neitað honum um kynlíf.
Telst þetta varða við 233. gr. og 199. gr. almennra hegningarlaga.
- Brot á nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 7. mars til 22. mars 2016 sent B 18 smáskilaboð og hringt í allt að 566 skipti í heimasíma hennar þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana með ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá 7. mars 2016 og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...] sem staðfestur var af Hæstarétti.
Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga.
- Stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 1-3 ítrekað móðgað og smánað B.
Telst þetta varða við 233. gr. b almennra hegningarlaga.
B
Brot gegn stjúpdóttur sinni, C, kennitala [...]:
- Kynferðisleg áreitni, með því að hafa ítrekað á árunum 2012-2014 sent C smáskilaboð þar sem ákærði viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð.
Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga.
- Kynferðisleg áreitni og hótanir, með því að hafa á tímabilinu 6. mars til 21. maí 2016 sent C 59 smáskilaboð þar sem ákærði viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð auk þess sem 28 af smáskilaboðunum innihéldu jafnframt hótanir um kynferðisbrot sem voru til þess fallnar að vekja hjá C ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.
Telst þetta varða við 199. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.
- Hótanir, með því að hafa á tímabilinu 28. mars til 29. maí 2016 sent C 94 smáskilaboð með hótunum um líkamsmeiðingar, líflát og eignarspjöll og voru skilaboðin til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og annarra.
Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga.
- Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 7. mars til 1. júní 2016 sent C 425 smáskilaboð og hringt allt að 330 sinnum í hana, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við C með ákvörðunum lögreglustjóra frá 7. mars, 4. apríl og 2. maí 2016 og úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. [...], [...]og [...] sem staðfestir voru af Hæstarétti og einnig með ákvörðun lögreglustjóra frá 30. maí 2016 sem birt var fyrir ákærða að kvöldi sama dags.
- Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa þriðjudaginn 31. maí 2016 farið inn í anddyrið á stigaganginum að [...] þrátt fyrir að honum væri samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá deginum áður og birt var honum sama dag, bannað að koma á eða í námunda við heimilið á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins.
Teljast brot sem lýst er í ákæruliðum 9 og 10 varða við 232. gr. almennra hegningarlaga.
- Stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 6-8 og að auki með því að senda C 48 smáskilaboð á tímabilinu 30. mars til 18. maí 2016, ítrekað móðgað og smánað C.
Telst þetta varða við 233. gr. b almennra hegningarlaga.
C
Brot gegn stjúpdóttur sinni, A, kennitala [...]:
- Kynferðisleg áreitni og hótanir, með því að hafa á tímabilinu 29. mars til 21. maí 2016 sent A 17 smáskilaboð þar sem hann viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð auk þess sem 14 af skilaboðunum innihéldu jafnframt hótanir um kynferðisbrot sem voru til þess fallnar að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.
Telst þetta varða við 199. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.
- Hótanir, með því að hafa á tímabilinu 11. apríl til 1. júní 2016 sent A 74 smáskilaboð með hótunum um líkamsmeiðingar, líflát og eignarspjöll og voru hótanirnar til þess fallnar að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og annarra.
Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga.
- Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 7. mars til 1. júní 2016 sent A 184 smáskilaboð og hringt allt að 107 sinnum í hana, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við A með ákvörðunum lögreglustjóra frá 7. mars, 4. apríl og 2. maí 2016 og úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. [...],[...]og [...] sem staðfestir voru í Hæstarétti og einnig með ákvörðun lögreglustjóra frá 30. maí 2016 sem birt var fyrir ákærða að kvöldi sama dags.
- Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa þriðjudaginn 31. maí 2016 farið inn í anddyrið á stigaganginum að [...] þrátt fyrir að honum væri samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá deginum áður og birt var honum sama dag, bannað að koma á eða í námunda við heimilið á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins.
Teljast brot sem lýst er í ákæruliðum 14 og 15 varða við 232. gr. almennra hegningarlaga.
- Stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 12 og 13 og að auki með því að senda A 34 smáskilaboð á tímabilinu 10. apríl til 8. maí 2016, ítrekað móðgað og smánað A.
Telst þetta varða við 233. gr. b almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Þá eru í ákærunni tilgreindar einkaréttarkröfur brotaþola.
Við þingfestingu málsins þann 28. júlí sl. krafðist verjandi þess að brotaþolinn A kæmi fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins þótt hún hefði þegar gefið skýrslu fyrir dóminum. Kröfunni var andmælt af sækjanda og réttargæslumanni brotaþolans. Við fyrirtöku málsins í dag var lagt fram tölvuskeyti frá stuðningsfulltrúa brotaþolans. Var málflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna og hún að því loknu tekin til úrskurðar.
Við rannsókn málsins var tekin skýrsla af brotaþola A fyrir dómi með heimild í c-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Skýrslutakan fór fram þann 24. júní sl. að viðstöddum verjanda ákærða. Brotaþoli gaf einnig skýrslu fyrir lögreglu 6. mars og 30. maí sl.
Samkvæmt 111. gr. laga nr. 88/2008 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Dómara er þó heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða önnur vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 59. og 106. gr. laganna. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.
Brotaþolinn A er fædd árið 1990 og er því 26 ára. Samkvæmt læknisvottorði vegna umsóknar um örorkubætur, dags. 9. apríl 2014, sem fylgdi beiðni um skýrslutöku fyrir dómi, er brotaþoli töluvert þroskaheft og persónuleikaröskuð. Hún hefur sjúkdómsgreiningarnar mental retardation, persistent mood disorder, personal history of self harm, félagsfælni og kvíðaröskun. Samkvæmt vottorðinu er aðalvandi hennar vitsmunaleg skerðing og viðvarandi andleg vanlíðan með kvíða, þunglyndi og persónuleikaröskun. Hún hefur af þessum sökum ekki verið fær um að stunda neina vinnu á vinnumarkaði án verulegs stuðnings. Samkvæmt tölvuskeyti frá stuðningsfulltrúa hennar, dags. 30. ágúst sl., kemst brotaþoli í mikið uppnám þegar hún ræðir mál ákærða og á erfitt með að skilja af hverju hann lætur þær mæðgurnar ekki í friði. Það sé mat stuðningsfulltrúans að brotaþoli muni eiga mjög erfitt með að koma aftur fyrir dóm og einnig eiga erfitt með að skilja af hverju hún þurfi að koma aftur fyrir dóminn. Af framangreindu verður ekki ráðið að ástand brotaþola sé þannig að hún eigi þess ekki kost, í skilningi 111. gr. laga nr. 88/2008, að koma aftur fyrir dóminn. Þá þykir undantekning 3. málsliðar 2. mgr. 111. gr. ekki geta átt við um brotaþolann. Verður því að fallast á kröfu verjanda um að brotaþolinn A komi aftur fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Til þess er hins vegar að líta að brotaþoli getur skorast undan því að gefa skýrslu með vísan til c-liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 og þess að réttargæslumaður brotaþola hefur boðað að þess verði krafist, að fengnum frekari gögnum, að ákærði víki úr dómsal komi til þess að hún þurfi að koma fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Fallist er á kröfu ákærða, X, um að A komi fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gefi vitnaskýrslu.