Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2004


Lykilorð

  • Rannsókn sakamáls
  • Miskabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005.

Nr. 370/2004.

Markus Stephan Klinger

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Rannsókn opinbers máls. Miskabætur. Gjafsókn.

M krafðist bóta úr hendi Í fyrir handtöku, meingerð gegn æru og gæsluvarðhald, sem hann sætti frá 31. október 1999 til 3. nóvember sama ár, vegna gruns um aðild að fjárdrætti í verslun. Talið var að fullnægt hafi verið lagaskilyrðum um handtöku og gæsluvarðhald M og að honum hafi ekki verið haldið lengur en nauðsyn bar til. Honum yrðu því ekki dæmdar bætur vegna þessa. Aftur á móti var talið að rannsókn málsins hafi ekki verið haldið áfram með eðlilegum hraða. Hafi dráttur á meðferð þess verið óhóflegur og yrði ekki skýrður með manneklu hjá embætti lögreglustjóra. Þóttu bætur til M hæfilega ákveðnar að álitum 500.000 kr.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 6. september 2004. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.738.500 krónur með dráttarvöxtum af 1.500.000 krónum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1999 til 1. janúar 2000 og af 1.738.500 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir báðum dómstigum, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í máli þessu sækir áfrýjandi um bætur fyrir handtöku, meingerð gegn æru og gæsluvarðhald, sem hann sætti frá 31. október 1999 til 3. nóvember sama ár, vegna gruns um aðild að fjárdrætti hjá gleraugnaverslun Hagkaupa, Augun okkar ehf. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2002 var áfrýjandi sýknaður og var þeim dómi ekki áfrýjað. Reisir áfrýjandi kröfu sína á 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála svo og meginreglum skaðabótaréttar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta niðurstöðu hans um að fullnægt hafi verið skilyrðum 1. mgr. 97. gr. og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um handtöku og gæsluvarðhald ákærða og að honum hafi ekki verið haldið lengur en nauðsyn bar til. Verða áfrýjanda ekki dæmdar bætur á grundvelli 176. gr. laganna, sbr. 175. gr.

II.

Eins og nánar er lýst í héraðsdómi barst lögreglustjóranum í Reykjavík kæra 18. október 1999 frá eigendum verslunarinnar Augun okkar ehf. vegna gruns um að áfrýjandi væri sekur um aðild að fjárdrætti. Eftir að kæra var lögð fram barst lögreglu óstaðfest árshlutauppgjör 24. október 1999 ásamt gögnum úr birgðabókhaldi og gögnum um staðgreiðslusölu. Dagana 28. og 29. október voru teknar skýrslur af fjórum starfsmönnum verslunarinnar og tveimur öðrum vitnum. Skýrsla var tekin af áfrýjanda hjá lögreglunni í Reykjavík 30. október 1999. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann dag var heimiluð leit í versluninni Sjón, sem var að hluta í eigu áfrýjanda, svo og handtaka áfrýjanda. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 1999 var áfrýjanda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 5. nóvember. Dagana 1., 2. og 3. nóvember voru teknar skýrslur af tveimur vitnum svo og áfrýjanda og öðrum grunuðum, og var áfrýjanda sleppt úr gæsluvarðhaldi að því loknu.

Með bréfum 25. janúar 2000 og 29. janúar 2002 til lögreglustjórans í Reykjavík óskaði lögmaður áfrýjanda eftir upplýsingum um gang rannsóknarinnar og hvenær vænta mætti að henni lyki. Engin svör bárust við þessum fyrirspurnum. Ákæra var gefin út 19. mars 2002 og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí sama ár var áfrýjandi sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.

Af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík er því haldið fram, að mannekla hjá lögreglu hafi valdið því hve málið dróst á langinn. Lögreglumaður sá, sem annaðist rannsókn þess hafi farið til starfa í Bosníu og verið þar í 9 mánuði og málið beðið á meðan.

Áfrýjandi lá undir grun um refsiverðan verknað allt frá því að hann var handtekinn 30. október 1999 þar til sýknudómur var kveðinn upp 24. maí 2002, eða í meira en 30 mánuði.  Rannsókn málsins var ekki haldið áfram með eðlilegum hraða. Þessi dráttur á meðferð þess er óhóflegur og verður ekki skýrður með manneklu hjá embætti lögreglustjóra.  Ber að dæma áfrýjanda bætur vegna þessa. Áfrýjandi krefst bóta vegna skerðingar tekna hjá versluninni Sjón. Krafa sú er að engu leyti rökstudd og verður hún ekki tekin til greina. Stefndi verður aftur á móti dæmdur til að bæta áfrýjanda miska vegna þessa óhæfilega dráttar, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, en meta verður þennan drátt sem brot á friði og æru hans. Þykja bætur þessar hæfilega ákveðnar að álitum 500.000 krónur með vöxtum frá birtingu stefnu í héraði 22. nóvember 2002.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóm er staðfest.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun talsmanns hans, 350.000 krónur.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Markus Stephan Klinger, 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2002 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun talsmanns hans, 350.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2004.

Mál þetta var höfðað 21. nóvember 2002 og var dómtekið 16. janúar sl.  Málið var tekið til endurflutnings hinn 12. maí sl. og dómtekið að nýju.            

Stefnandi er Markus Stephan Klinger, Kórsölum 1, Kópavogi.

Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.

Dómkröfur

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.738.500 krónur ásamt dráttarvöxtum af 1.500.000 krónum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1999 til 1. janúar 2000, en sömu vöxtum af 1.738.500 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Af hálfu stefnanda er þó viðurkennt að til frádráttar kröfum hans komi greiðsla samkvæmt dómi í málinu E-16809/002: Markus Stephan Klinger gegn Augunum okkar ehf. 434.370 krónur.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum hæfilegan málskostnað að mati dómsins auk lögmælts virðisaukaskatts eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, allt samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.

Málavextir     

 Hinn 18. október 1999 barst lögreglustjóranum í Reykjavík kæra forsvarsmanna Augnanna okkar, ehf., Skeifunni 15, Reykjavík, vegna gruns um fjárdrátt og tryggingasvik starfsmanna verslunarinnar.  Grunur kærenda beindist aðallega að stefnanda og Martin Sischka, sem starfað höfðu sem sjónglerjafræðingar í versluninni en ráku jafnframt gleraugnabúðina Sjón, Laugavegi 62, Reykjavík.  Eftir að kæra var lögð fram barst lögreglu óstaðfest árshlutauppgjör pr. 24. október 1999 fyrir verslunina Augun okkar ehf. ásamt gögnum úr birgðabókhaldi verslunarinnar allt tímabilið og gögnum um staðgreiðslusölu 25. ágúst til 30. september.  Samkvæmt óundirritaðri úttektinni, sem byggðist á vöru­talningu og afstemmingu staðgreiðslusölu var talið að óþekkt rýrnun birgða næmi 6.412.693 krónum og að óskýrður mismunur á staðgreiðslusöluuppgjöri næmi 218.430 krónum.  Nokkrar lögregluskýrslur voru teknar af starfsmönnum kæranda og fleirum 28. og 29. október 1999.

Hinn 30. október 1999 var lögð fram krafa um húsleit og handtöku stefnanda sem Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á samdægurs.  Í kjölfarið fór síðan fram leit og var lagt hald á vörur sem taldar voru eign kæranda.  Þá var lagt hald á 7 möppur með skjölum úr bókhaldi fyrir verslun kærðu og 1 möppu með gögnum frá verslun kæranda. Stefnandi var síðan handtekinn.

Hinn 31. október 1999 var gerð krafa um gæsluvarðhald yfir stefnanda.  Féllst Héraðsdómur á kröfu lögreglunnar og úrskurðaði um gæsluvarðhald til 5. nóvember 1999 á grundvelli a-liðar l. mgr. 103. gr. oml. og var stefnandi vistaður á Litla­-Hrauni. 

Á meðan stefnandi var í gæsluvarðhaldi hélt lögreglan áfram rannsókn málsins. Stefnanda var síðan sleppt úr haldi 3. nóvember 1999, kl. 1900 eftir yfirheyrslur hjá lögreglunni í Reykjavík.  Talið var að gögn málsins myndu leiða til sakfellingar og var höfðað opinbert mál á hendur stefnanda með ákæru útgefinni 19. mars 2002.  Stefnandi var hins vegar sýknaður í Héraðsdómi með dómi, dags. 24. maí 2002.

Mál þetta var síðan höfðað og stefna lögð fram hinn 3. desember 2002.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Í máli þessu krefst stefnandi skaðabóta fyrir ólögmæta handtöku, meingerð gegn æru, setu í gæsluvarðhaldi án sakar og annars miska.  Reisir hann kröfur sínar á ákvæðum 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991.  Er því haldið fram að ekki hafi réttilega verið staðið að rannsókn málsins af hálfu lögregluyfirvalda og stefnandi hafi að ósekju setið í gæsluvarðhaldi.

Stefnandi sé austurrískur ríkisborgari, sjóntækjafræðingur að mennt, sem hafi búið hér og starfað í faggrein sinni í u.þ.b. áratug, er þeir atburðir gerðust sem mál þetta fjalli um.  Á umræddum tíma hafi hann starfað hjá gleraugnaversluninni Augunum okkar ehf. í verslun Hagkaupa hf., Skeifunni 15, Reykjavík.

Á vormánuðum 1999 hafi stefnandi keypt sig inn í rekstur gleraugna­verslunarinnar Sjónar við Laugaveg í Reykjavík.  Meðal eigenda þar hafi verið S og V, en sá síðarnefndi hafi verið  framkvæmdastjóri fyrirtækisins og eini starfsmaðurinn í fullu starfi.  S hafi starfað hjá Augunum okkar ehf. á þessum tíma en V hafi verið ráðinn til Augnanna okkar ehf. eftir að kæra var lögð fram á stefnanda.

Stefnandi kveður stjórnendum Augnanna okkar ehf. hafa verið kunnugt um eignaraðild hans að versluninni Sjón og að hann starfaði þar að hluta, alllöngu áður en rannsókn hófst á hendur stefnanda.

Hinn 18. október 1999 hafi lögmaður Baugs hf. óskað eftir því við lögreglustjórann í Reykjavík, að fram færi opinber rannsókn á meintum fjárdrætti stefnanda og fleiri manna í gleraugnabúð Hagkaupa hf., Skeifunni 15, Reykjavík, sem rekin hafi verið undir nafninu Augun okkar ehf.  Fram hafi verið tekið að grunur beindist að stefnanda og þremur mönnum öðrum, en aðallega þó að stefnanda og öðrum sjóntækjafræðingi.

Sagt hafi verið í kærunni, að hluti vörulagers í eigu Augnanna okkar ehf. væri talinn hafa verið tekinn úr versluninni og fluttur í verslunina Sjón að Laugavegi 62 í Reykjavík.  Meðal grunaðra samkvæmt kærunni hafi verið S, en tekið hafi verið fram að grunur beindist lítillega að honum.

Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 30. október, hafi verið gerð krafa um húsleit í versluninni Sjón, Laugavegi 62, Reykjavík, í eigu Sjáumst ehf., kt. 450599-3499, og krafa um handtöku stefnanda og annars manns úr hópi kærðu.  Hvorki hafi lögreglan beint afskiptum sínum að meðkærða, S, né vitninu V, sem báðir höfðu átt aðild að rekstri Sjónar, áður en stefnandi kom þar við sögu.  Hafi þeir jafnframt báðir verið í starfi á vegum kæranda og báðir hafi viðurkennt, samkvæmt lögregluskýrslum, fyrir útgáfu gæsluvarðhalds- og húsleitarkröfu lögreglustjóra, að hafa framið hjá Augunum okkar ehf. samskonar brot og stefnandi hafi ranglega verið grunaður um og sætti hastarlegum rannsóknaraðgerðum lögreglu fyrir.

Í beiðni lögreglustjóra hafi verið tilekið, eftir upplýsingum frá kæranda, að óútskýrð væri rýrnun vörubirgða að verðmæti 6.412.693 krónur og mismunur í staðgreiðsluuppgjöri, 25. ágúst til 30. september 1999, næmi 218.430 krónum.  M.a. hafi sagt í bréfi lögreglustjóra, að fyrir lægi "rökstuddur grunur um umfangsmikinn fjárdrátt kærðu og að í versluninni Sjón, Laugavegi 62, séu nú á boðstólum vörur, sem kærðu hafi stolið úr gleraugnaverslun Hagkaupa, Skeifunni 15."

Með bréfi lögreglustjóra dags. 31. október 1999 hafi verið gerð krafa um að stefnandi yrði settur í gæsluvarðhald.  Sé þar vitnað til sömu fjárhæða og fyrr geti og svipaðra raka.

Í bréfi þessu segi m.a.: "Í gær lagði lögreglan hald á meginhluta virks vörulagers verslunarinnar Sjónar.  Við fyrstu athugun virðist stór hluti hans vera vörur sem Hagkaup hf. hefur umboð fyrir og sem hafa ekki verið seldar í aðrar verslanir."

Á framangreindum málatilbúnaði lögreglunnar, byggðum á gagnrýnislausri meðtöku hennar á upplýsingum frá kæranda, sem síðar hafi reynst rangar, kvað dómari upp úrskurð um handtöku tveggja kærðu, húsleitarheimild í húsakynnum verslunar­innar Sjónar og að stefnandi skyldi sæta gæsluvarðhaldi.

Við áframhaldandi rannsókn málsins hafi síðan komið í ljós að bókhald kæranda hafi verið í slíkum ólestri og óreiðu að lítið eða ekkert hafi verið á því byggjandi.  Sé þess getið í niður­stöðum Héraðsdóms.  Sömuleiðis hafi stefnandi verið borinn röngum sökum.

Liggi þannig fyrir að stefnanda hafi að ófyrirsynju og vegna gáleysis rannsóknar­­aðila verið haldið í gæsluvarðhaldi, húsleit framkvæmd hjá verslun hans og mestur hluti virks lagers verslunar hans verið haldlagður.

Hinn 31. október 1999 hafi lögreglan gert leit í versluninni Sjón og haldlagt 47 tölusettar vörutegundir, sem talið var að kæmu frá verslun kæranda.  Viðstaddir leitina hafi verið S og tveir menn aðrir frá kæranda.  Við húsleitina hafi nefndur S og félagar hans opnað þar skúffur og hirslur og hafi bent lögreglu á þá vöru sem kærandi hafi talið frá sér komna.  Hafi lögreglan í flestu farið að ábendingum þessara fulltrúa kæranda, þótt a.m.k. einn þeirra lægi undir grun í málinu samkvæmt kæru og ljóst væri orðið, af fyrirliggjandi lögregluskýrslum, að þeir S og V gætu sjálfir verið sekir um verknaðinn.  Við leitina hafi einnig verið lagt hald á bókhaldsgögn, sem höfðu að geyma vörukaupareikninga fyrir verslunina Sjón.

Nokkru af vörunni hafi síðan verið skilað aftur þegar fyrir hafi legið, af vörukaupanótum verslunarinnar Sjónar ehf., að þær væru óumdeilanlega eign þeirrar verslunar.  Afganginum af hinum haldlagða vörulager Sjónar hafi ekki enn verið skilað þótt fyrir liggi að Sjón sé réttur eigandi.  Undir rekstri málsins hafi komið fram að kærandi hafi fengið vörurnar afhentar og að hann væri búinn að farga þeim.

Með úrskurði uppkveðnum 31. október 1999, eftir húsleitina, hafi stefnanda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 5. nóvember 1999 í þágu rannsóknar lögreglu.  Úrskurðurinn hafi samstundis verið kærður til Hæstaréttar Íslands og greinargerð skilað til réttarins þann 1. nóvember 1999.  Síðdegis þann 3. nóvember 1999 hafi stefnandi verið látinn laus og því ekki komið til þess að Hæstiréttur dæmdi um réttmæti úrskurðarins.

Stefnandi hafi verið eini Austurríkismaðurinn sem starfaði hér á landi sem sjóntækjafræðingur.  Aðrir erlendir sjóntækjafræðingar hérlendis hafi yfirleitt verið þýskir.  Fjölmiðlar hafi virst hafa mjög greiðan aðgang að fréttaefni um málið og um deili á stefnanda.  Hafi aðgerða lögreglu óspart verið getið í fjölmiðlum og þar jafnframt tekið fram að annar sjóntækjafræðinganna væri austurrískur, sem jafngilti nafngreiningu stefnanda vegna sérstöðu hans.

Samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda við Augun okkar ehf. frá 1997 hafi hann notið þar góðra launakjara.  Umsamin byrjunarlaun hans hafi verið 210.000 krónur á mánuði, föst laun, auk yfirvinnu og umsaminna ábatagreiðslna.  Í júní 1999 hafi síðan verið samið að nýju um launakjör hans og starfshlutfall hans lækkað, enda hafi hann þá að nokkru verið farinn að starfa hjá versluninni Sjón.  Við þetta hafi föst laun stefnanda hjá Augunum okkar lækkað niður í 150.000 krónur á mánuði.  Hins vegar hafi hann þá einnig notið launa hjá fyrirtæki sínu Sjón frá sama tíma.

Þegar lögreglurannsóknin var hafin hafi stefnanda með símskeyti, dags. 11. nóvember 1999, fyrirvaralaust verið vikið úr starfi hjá Augunum okkar ehf. og hann jafnframt sviptur launum og starfstengdum launakjörum.  Hafi stefnandi ekki enn fengið uppgjör launa sinna þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þar um, sbr. tvær bréflegar synjanir Augnanna okkar ehf., dags. 20. janúar 2000 og 3. október. 2002.

Með sama hætti hafi hann orðið fyrir tekjumissi í starfa sínum hjá verslun Sjáumst ehf., Sjón, enda hafi rekstur þeirrar verslunar stöðvast að mestu meðan hann sat í gæsluvarð­haldi og forsendur tekjuöflunar verslunarinnar verið brostnar til lengri tíma, þar sem stór hluti vörulagers verslunarinnar hafi verið haldlagður og einungis hluta hans skilað allnokkru síðar, en hinum hlutanum hafi enn ekki verið skilað, þótt fyrir liggi að fyrirtæki stefnanda hafi verið réttur eigandi stærsta hluta þeirrar vöru sem fjarlægð hafi verið úr versluninni.

Rannsókn málsins hjá lögreglu hafi síðan legið lengi niðri þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir um framvindu hennar.  Málið hafi loks verið endurvakið með ákæruskjali útgefnu 19. mars 2002 og hafi það nokkru síðar verið þingfest sem héraðsdómsmál nr. S-853/2002.  Stefnandi hafi neitað sök.  Hann hafi síðan verið sýknaður alfarið með dómi uppkveðnum 24. maí 2002.  Hafi þeim dómi ekki verið áfrýjað.

Á meðan stefnandi var sviptur frelsi hafi hann hvorki notið launa hjá fyrirtæki kæranda né sínu eigin, enda hafi hann ekki, við þessar aðstæður, getað innt af hendi mótframlag sitt, sína eigin vinnu.  Hann hafi ekki eftir það notið tekna frá fyrirtæki kæranda.

Hjá eigin fyrirtæki, verslun Sjáumst ehf., Sjón, Laugavegi 62, Reykjavík, hafi hann notið lítilla sem engra tekna lengi vel, enda hafi tekjur félagsins orðið nánast engar við aðgerðir lögreglu.  Hafi þar blasað við langvarandi taprekstur meðan unnið hafi verið að enduruppbyggingu verslunarinnar og öflunar nýrrar vöru í stað þess vörulagers verslunarinnar er fjarlægður hafði verið og aldrei skilað.  Þá hafi þurft að vinna af versluninni og stefnanda það óorð, sem komið hafi verið á með rannsókninni.

Stefnandi hafi þannig legið undir grun um fjárdrátt í tæp tvö og hálft ár, frá 30. október 1999 og til 24. maí 2002.  Ekkert réttlætti í raun þennan seinagang, þótt rannsóknar- og ákæruvald hafi afsakað seinagang sinn með manneklu.  Þessi seinagangur hafi m.a. valdið því að stefnandi hafi ekki á þessum tíma haft aðstöðu til að láta reyna á fyrir dómi rétt sinn til launagreiðslna frá kæranda sem og önnur brýn réttindi hans og fyrirtækis hans.

Stefnandi hafi á engan hátt verið valdur að eða stuðlað að því að hann sætti þeim aðgerðum sem lögreglan hafi beitt hann og hann telji vera óforsvaranlegar.  Þvert á móti hafi hann aðstoðað eftir mætti við að upplýsa málið.

Hann telji rannsóknaraðila hafa verið ósjálfstæðan og hlutdrægan í störfum sínum og látið um of stjórnast af kæranda, sem hafi borið á hann rangar sakir.  Í þessu efni bendi stefnandi á að húsleitinni hafi að verulegu leyti verið stjórnað af mönnum á vegum kæranda, sem sjálfir hafi átt eða áttu aðild að rekstri verslunarinnar Sjónar og hefðu með réttu átt að fá sömu meðferð frá ríkisvaldinu og stefnandi.  Þessi vinnubrögð hafi verið afar sérkennileg að því er áðurnefndan S varðaði, sem í upphafi hafi verið nefndur meðal grunaðra í kærubréfi, en einnig varðandi V.

Stefnandi kveðst gera kröfur til ítrustu skaðabóta úr hendi ríkisins og reisir kröfur sínar á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991, einkum greinum 175 og 176.  Kröfur stefnanda taki bæði til fjártjóns og miska.

Fjártjón stefnanda sé í því fólgið að hann hafi ekki, vegna framangreindra málsatvika, fengið greidd laun þau er honum bar frá Augunum okkar hf.  Ekki hafi heldur verið greidd launatengd gjöld í hans þágu frá fyrirtækinu.  Greiðslum sé enn synjað af hálfu atvinnurekandans og sé ekki fyrirséð að greiðsla verði fram knúin.

Þar sem stefnandi hafi verið saklaus dreginn inn í lögreglurannsóknina, vegna gálausra og óforsvaranlegra vinnubragða rannsóknaraðila, telji stefnandi að leggja beri ábyrgð á fjártjóninu á ríkissjóð, enda beri ríkissjóður alla ábyrgð og áhættu á tjóni er hljótist af beitingu lögregluvalds í tilvikum sem þessum.

Stefnandi hafi einnig orðið saklaus þolandi að mikilli mannorðsskerðingu, þjáningum og öðrum miska vegna hinna gálausu athafna lögreglunnar, sem og af langvarandi sinnuleysi sama aðila um að leggja málið fyrir dóm.  Áður sé lýst sérstöðu stefnanda sem eina austurríska sjóntækjafræðingsins í störfum hérlendis.

Þannig hafi margháttaður fréttaflutningur bitnað beint á honum sem nafngreindur væri.  Telur stefnandi ekki vafa leika á því að fréttaefnið hafi að mestu eða öllu leyti verið frá rannsóknaraðila komið, enda beri sumar fréttirnar það beinlínis með sér að vera komnar frá aðila sem hefði heildarsýn á rannsóknina.

Stefnandi reisir kröfur sínar á meginreglum skaðabótaréttar svo og á XXI. kafla oml. nr. 19/1991 um bætur handa sakborningi.  Þá vísar stefnandi til mannréttinda­ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Krafa um málskostnað er reist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 og á stefnandi lögboðinn rétt til gjafsóknar skv. 178. gr. oml. nr. 19/1991.

Sundurliðun fjárkröfu

Fjártjón

Bótakrafa stefnanda vegna launamissis hjá Augunum okkar ehf. sundurliðist þannig að gerð sé bótakrafa fyrir laun nóvember 1999, 150.000 krónur, en samkvæmt ráðningar­samningi skyldi uppsögn miðast við mánaðamót.  Þá sé gerð krafa um bætur fyrir laun í uppsagnarfresti í þrjá mánuði.  Samtals nemi bótakrafan því 600.000 krónum auk 6% framlags í lífeyrissjóð, 36.000 krónur.  Til frádráttar kröfunni komi laun sem stefnandi hafi haft annars staðar frá á umræddu tímabili, samtals 279.694 krónur.

Bótakrafa stefnanda fyrir skerðingu tekna hjá versluninni Sjón miðist við 75.000  krónur á mánuði í þrjá mánuði, nóvember 1999 til janúar 2000, samtals 225.000 krónur. auk 6% framlags í lífeyrissjóð, samtals 13.500 krónur.  Alls nemur þessi kröfuliður 238.500 krónum.

Sé dráttarvaxta af þeirri fjárhæð krafist frá 1. janúar 2000.

Miski

Stefnandi krefst því bóta fyrir ólögmæta handtöku, meingerð gegn æru, setu í gæsluvarðhaldi án sakar og annars miska, sem hann metur samtals á 1.500.000 kr.

Dráttarvaxta er krafist af þeirri fjárhæð frá 1. nóvember 1999.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir kröfur sínar á því að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir handtöku stefnanda og vísar til 97. gr. laga nr. 19/1991.  Við handtöku stefnanda hafi atvik máls verið þannig að borist hafi kæra frá forsvarsmönnum verslunarinnar Augun okkar ehf. þar sem óskað hafi verið opinberrar rannsóknar á ætluðum fjárdrætti úr versluninni og tryggingasvikum því tengdu.  Stefnandi hafi verið meðal þeirra kærðu ásamt Martin Sischka og undirmönnum.  Í kærunni hafi m.a. komið fram að vörur hefðu horfið úr versluninni og talsvert af vörunum hefðu komið fram í versluninni Sjón að Laugavegi 62 í Reykjavík, en sú verslun væri að hluta í eigu stefnanda.  Þá hafi hinir kærðu verið grunaðir um að hafa dregið sér fé og fleira, eins og komi fram í kæru.  Lögreglan hafi óskað eftir því að starfsmenn kæranda gerðu úttekt á birgðabókhaldi verslunarinnar frá áramótunum 1998/1999 og staðgreiðslubókhaldi frá 25. ágúst 1999.  Samkvæmt staðgreiðsluuppgjöri verslunar­innar hafi komið fram óútskýrð rýrnun vörubirgða að verðmæti 6.412.693 krónur.

Mismunur á staðgreiðsluuppgjöri 25. ágúst til 30. september hafi verið 218.430 krónur auk þess sem fjöldi kreditnóta hafi fundist sem ýmist engar eða ófullkomnar skýringar hafi verið á.  Lögreglan hafi hafist handa og tekið skýrslur af starfsmönnum verslunarinnar og fleirum, sbr. dskj. 4-5 og 22-25.  Hafi þar m.a. komið fram að starfsmenn hefðu orðið þess varir að stefnandi og fleiri hafi stolið peningum úr sjóðsvél verslunarinnar nokkuð reglubundið.  Þá hafi starfsmenn áttað sig á því að verslun stefnanda, Sjón, hafi verið með til sölu vörur sem stolið hafi verið úr Augunum okkar.  Áður en handtakan hafi farið fram hafi lögreglan gert húsleit í verslun stefnanda og hafi þar verið lagt hald á hluta vörulagers en hluti hans hafi verið vörur sem Hagkaup hafi haft umboð fyrir og ekki hafi verið seldar í aðrar verslanir.  Þá hafi verið 46 pakkar af sjónglerjum merktum af starfsmönnum Hagkaups og hafi virst samræmi í því sem starfsmenn Hagkaups söknuðu úr sinni verslun.  Þá hafi verið lagt hald á mikið af bókhaldsgögnum. Við þessar aðstæður hafi stefnandi verið handtekinn.  Því er haldið fram af hálfu stefnda að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir handtökunni.  Ótvírætt sé að stefnandi hafi legið undir rökstuddum grun um brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga.

Lögmælt skilyrði hafi einnig verið fyrir gæsluvarðhaldi stefnanda, enda úrskurðað um það af Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 31. október 1999.  Krafa um gæsluvarðhald hafi byggst á þeim rökum sem tilgreind séu í kröfu um gæsluvarðhald. 

Eins og framan sé rakið hafi verið lagt hald á hluta vörulagers og 8 möppur af bókhaldsgögnum sem hafi þurft að rannsaka enn frekar.  Í kröfu lögreglunnar komi einnig fram að mikils ósamræmis hafi gætt í framburðum stefnanda og Martins Sischka.  Þá hafi þurft að yfirheyra fleiri vitni.  Því sé haldið fram að fullkomlega hafi verið nauðsynlegt að hneppa stefnanda í gæsluvarðhald þar sem grunur hafi verið um umfangsmikinn fjárdrátt og málið hafi verið nokkuð umfangsmikið. 

Héraðs­dómur hafi fallist á gæsluvarðhald til 5. nóvember 1999 en stefnanda hafi ekki verið haldið lengur í gæsluvarðhaldi en nauðsyn bar til og var honum sleppt 3. nóvember 1999 þannig að stefnanda hafi verið sleppt strax og tækt þótti.  Gæsluvarðhaldið hafi því fyllilega verið lögmætt.

Þá sé því hafnað að stefnandi eigi rétt til bóta vegna ætlaðs miska vegna fjölmiðlaumfjöllunar.  Slík umfjöllun sé ekki á ábyrgð ríkissjóðs.  Þá sé því mótmælt að um langvarandi sinnuleysi hafi verið að ræða hjá lögreglunni að leggja málið fyrir dómstóla auk þess sem slíkt varði ekki bótaábyrgð samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Stefndi telur að ekki séu uppfyllt skilyrði XXI. kafla laga nr. 91/1991 til greiðslu bóta og því beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.  Í kaflanum séu tæmandi talin þau tilvik sem geti orðið grundvöllur bóta, en þar sé mælt fyrir um heimild en ekki skyldu.  Af hálfu stefnanda er vísað til 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991 en því sé hafnað af hálfu stefnda að skilyrðum þeirra ákvæða sé fullnægt.  Aðrar tilvitnanir til lagaheimildar veiti stefnanda ekki ríkari rétt til bóta en mælt sé fyrir um í XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála.

Til vara sé gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda og að máls­kostnaður verði felldur niður.  Bótakrafa sem sett sé fram vegna launamissis hjá Augunum okkar ehf. eigi ekki við rök að styðjast gagnvart stefnda.  Stefndi, íslenska ríkið, beri ekki ábyrgð á uppsögninni á ráðningarsamningnum.  Eins og fram komi í gögnum málsins hafi stefnandi beint launakröfu sinni til bærs aðila og ekki sé útséð hvort hún fáist greidd frá honum.  Þá sé mótmælt bótakröfu vegna skerðingar tekna hjá versluninni Sjón.  Krafan sé alveg órökstudd.  Vandséð sé hvernig þriggja daga gæsluvarðhald geti orsakað þriggja mánaða launatap.  Þá sé útreikningi bótakröfu að fjárhæð 874.500 krónur mótmælt.  Framlögð sundurliðun stemmi ekki við niðurstöðutölu.  Miskabótakrafan sé ekki í neinu samræmi við dómvenju í sambærilegum málum.  Þá sé vöxtum og upphafstíma vaxta mótmælt og vísað til laga nr. 25/1987 m.s.br. og 38/2001.

Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991 má m.a. taka til greina kröfu um bætur ef sakborningur hefur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum dómi.  Má þó fella niður bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.

Samkvæmt 176. gr. sömu laga má dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annrra aðgerða sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, sbr. 177. gr. laganna.  Skilyrði bótagreiðslu eru þau að lögmæt skilyrði hafi brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

Eins og áður greinir krefst stefnandi í máli þessu bóta fyrir handtöku, sem hann telur hafa verið ólögmæta, meingerð gegn æru, setu í gæsluvarðhaldi án sakar og annars miska.

Með kæru, dags. 18. október 1999, var af hálfu Baugs hf. óskað opinberrar rannsóknar á meintum fjárdrætti úr gleraugnabúð Hagkaups í Skeifunni15, Reykjavík og tryggingasvikum því tengdu.  Kærðir aðilar voru starfsfólk verslunarinnar en tekið fram að grunur beindist aðallega að Markusi Stephan Klinger, Martin Sischka, Hrefnu Steingrímsdóttur og ennfremur lítillega að S.

Á þessum tíma voru Martin og Markus eigendur verslunarinnar Sjónar á Laugavegi 62, jafnframt því að vera starfsmenn Augnanna okkar sem var í eigu Hagkaups.

Hinn 30. október 1999 var af hálfu Lögreglustjórans í Reykjavík lögð fram krafa um heimild til leitar í versluninni Sjón, Laugavegi 62, sem var í eigu Sjáumst ehf.  Jafnframt var gerð krafa um að gefin yrði út handtökuskipun á stefnanda og Martin Sischka.  Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að verið sé að rannsaka ætluð brot kærðu gegn 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og megi ætla að í framangreindu húsnæði sé að finna vörur sem kærðu hafi stolið úr gleraugnaverslun Hagkaups, Skeifunni 15, Reykjavík.  Kærðu séu sjóntækjafræðingar og hafi frá mars 1999 rekið verslunina Sjón að Laugavegi 62 samhliða störfum sínum í verslun kæranda.  Auk þess reki þeir heildverslunina E.G. Ólafsson ehf. sem selji gleraugnavörur til beggja verslananna.  Segir jafnframt í kærunni að starfsmenn Hagkaups hafi gert úttekt á birgðabókhaldi verslunarinnar frá áramótum 1999 og staðgreiðslubókhaldi frá 25. ágúst s.á.  Samkvæmt úttektinni, sem byggst hafi á vörutalningu og afstemmingu á staðgreiðsluuppgjöri verslunarinnar, hafi komið í ljós óútskýrð rýrnun vörubirgða að verðmæti 6.412.693 krónur.  Mismunur á staðgreiðsluuppgjöri frá 25. ágúst til 30. september 1999 hafi verið 218.430 krónur auk þess sem í bókhaldi hafi fundist fjöldi kreditnótna sem ýmist engin eða ófullkomnar skýringar liggi fyrir um.

Í kröfu lögreglustjóra segir að tveir starfsmenn gleraugnaverslunar Hagkaups hafi skýrt svo frá hjá lögreglu að fljótlega eftir að þeir hófu störf hafi þeir orðið þess varir að kærðu hafi stolið peningum úr sjóðsvél verslunarinnar.  Þá hafi annar þeirra borið að hann hafi fljótlega áttað sig á því er hann hóf störf, um mánaðarmótin október/nóvember 1998, að í versluninni Sjón væri til mikið magn af vörum, sem stolið hefði verið úr verslun Hagkaups.  Hafa umræddar lögregluskýrslur verið lagðar fram í máli þessu en þar er um að ræða yfirheyrslur yfir V og S. 

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 30. október 1999 var leit heimiluð í versluninni Sjón og heimilað að handtaka stefnanda og Martin Sischka.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar um handlagningu var lagt hald á ýmsar vörur í versluninni sem taldar voru komnar úr versluninni Augun okkar.  Ber skýrslan með sér að viðstaddir haldlagningu voru S, Gunnar Henrik Gunnarsson og V sem m.a. báru kennsl á vörur úr versluninni Augunum okkar.

Hinn 31. október 1999 var lögð fram krafa í Héraðsdómi Reykjavíkur um að stefnanda yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 5. nóvember s.á.  Á dómþinginu upplýsti fulltrúi lögreglustjóra að eftir væri að yfirheyra frekar S sem grunaður hafi verið um aðild að málinu og einnig Kolbein Pétursson sem tengist málinu.  Kærði mótmælti kröfu um gæsluvarðhald á þeim grunni að skilyrðum a. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 væri ekki fullnægt og benti á að búið væri að gera húsleit og leggja hald á stóran hluta virks vörulagers verslunarinnar Sjónar.  Þá væri búið að taka skýrslu af kærðu í málinu.  Hann mótmælti því sem hann kallaði “einkarannsókn” eigenda verslunarinnar Augnanna okkar og gerði sérstaka athugasemd við það að S, sem einnig var grunaður um aðild að málinu, hafi komið að þeirri rannsókn.

Í greinargerð lögreglunnar til dómsins kemur fram að S og V, báðir fyrrum meðeigendur kærða að versluninni Sjón og samstarfsmenn hans í gleraugnaverslun Hagkaups, hafi borið um það hjá lögreglu að kærði og Martin Sischka hafi tekið ófrjálsri hendi peninga úr sjóðsvél gleraugnaverslunar Hagkaups, Augnanna okkar. Einnig hafi þeir orðið þess áskynja að mikið magn af vörum hafi horfið úr gleraugnaverslun Hagkaups og verið seldar í versluninni Sjón.  Hafi þeir jafnframt borðið að sjóngler sem lent hafi í vatnstjóni í versluninni Augunum okkar hafi verið tekin ófrjálsri hendi og seld í versluninni Sjón.  Kærði hafi viðurkennt að sjóngler þessi hafi komið í verslunina Sjón en þeim hafi verið hent sem ónýtum í gleraugnaverslun Hagkaups.  Þá hafi kærði borið að Martin Sischka panti mikið af augnlinsum fyrir verslunina Augun okkar og fái þá alltaf eitthvað af prufulinsum í kaupbæti.  Þessar prufulinsur hafi Martin komið með í verslunina Sjón nokkrum dögum fyrir húsleitina og því hafi þær verið hluti af hinum haldlagða lager.  Segir í greinargerð lögreglu að þetta þyki renna stoðum undir framburð S og V hjá lögreglu.  Framburður kærða um að Kolbeinn Pétursson, sem reki heildverslunina E.G. Ólafsson heildverslun, hafi selt versluninni Sjón vörur án þess að gefa út reikning fyrir vörunum vegna velvilja í garð Sjónar þyki ótrúverðugur.  Þá er í greinargerðinni vísað til framburðar Svölu Steinu Ásbjörnsdóttur, aðalbókara Hagkaupa, að á þeim tíma sem stefnandi og Martin Sischka sáu um rekstur Augnanna okkar hafi útgefnar kreditnótur verið miklu fleiri en eðlilegt geti talist.

Í úrskurði héraðsdómara segir að með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins þyki fram kominn rökstuddur grunur um að kærði, stefnandi máls þessa, hafi  framið verknað sem fangelsisrefsing sé lögð við.  Gögn málsins bendi til að kærði hafi dregið sér umtalsvert fé.  Kærði hafi neitað sök og mikils ósamræmis gæti í framburði kærða og Martins Sischka sem einnig sé grunaður um aðild að málinu, einkum um eignarhald og rekstur verslunarinnar Sjónar.  Féllst héraðsdómari á kröfu lögreglunnar í Reykjavík og var stefnandi úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. nóvember 1999.

Hinn 3. nóvember 1999 var stefnandi leystur úr gæsluvarðhaldi og segir í bréfi lögreglu­­­­stjórans í Reykjavík til Fangelsismálastofnunar ríkisins að rannsóknar­hagsmunir þeir sem gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hafi byggst á séu ekki lengur fyrir hendi.

Með ákæruskjali, dags. 19. mars 2002, var mál höfðað á hendur stefnanda og Martin Sischka.  Voru þeir báður ákærðir fyrir að hafa dregið sér af lager verslunarinnar Augun okkar ehf. vörur að verðmæti 1.076.983 krónur en Martin auk þess fyrir að hafa dregið sér fé, 50.000 krónur, úr sjóðsvélum verslunarinnar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 24. maí 2002, var stefnandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins þar sem ekki hafði verið sýnt fram á þátt hans í umræddum brotum.

Eins og áður greinir voru samkvæmt kæru til Lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 18. október 1999, stefnandi og þrír aðrir starfsmenn Augnanna okkar ehf. grunaðir um að draga sér fé úr versluninni.  Í kjölfar kærunnar var Gunnar Henrik B. Gunnarsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Augnanna okkar ehf., yfirheyrður hjá lögreglu.  Bar hann að tveir starfsmenn væru sterklega grunaðir um stórfelldan fjárdrátt úr versluninni Augunum okkar ehf.  Bar hann m.a. að tveir starfsmenn verslunarinnar hafi sl. sjö mánuði verið grunaðir um stórfelldan fjárdrátt úr versluninni.  Hann hafi tekið þá ákvörðun að merkja ákveðna vörutegund í versluninni til þess að athuga hvort þær vörur sem merktar hefðu verið færu í verslunina Sjáumst að Laugavegi 62, en eigendur þeirrar verslunar væru jafnframt starfsmenn Augnanna okkar ehf.  Það hafi svo verið sannreynt.

S, starfsmaður Augnanna okkar, bar m.a. hjá lögreglu að fljótlega eftir að hann hóf störf hafi hann orðið þess áskynja að stefnandi og Martin Sischka hafi verið að stela peningum úr sjóðsvélinni.  Hann hafi sem starfsmaður haft það hlutverk að sjá um lokauppgjör í lok hvers dags og hafi hann veitt því athygli við uppgjör að það vantaði í sjóðinn.  Þá hafi hann fljótlega áttað sig á því að vörur úr versluninni Augunum okkar ehf. voru seldar í versluninni Sjón á Laugavegi og séð að þeir Martin og stefnandi hafi hreinlega verið að stela vörum frá Hagkaup.  Bar S að hann hefði verið notaður um nokkurt skeið til að flytja flytja vörur á milli verslana en hann hafi ekki borið hag af því sjálfur og ekki af fúsum vilja tekið þátt í þessum þjófnaði, fjársvikum eða fjárdrætti.  Hafi hann gert Gunnari Gunnarssyni grein fyrir ástandinu í versluninni um leið og Gunnar tók til starfa sem verslunarstjóri.

V starfaði hjá Augunum okkar frá janúar 1998 til janúar 1999.  Hafi hann á þeim tíma haft vissar grunsemdir um að stefnandi og Martin hafi tekið ófrjálsri hendi peninga úr sjóðskassanum.  Þessar grunsemdir hans hafi vaknað við það að þegar þeir komu úr söluferð utan af landi  hafi hann ekki mátt koma nálægt uppgjöri varðandi söluferðina og blátt bann lagt við því.  Stefnandi og Martin hafi alfarið séð um að ganga frá því í sjóðsvélina.  V bar að hann sem starfsmaður hafi séð um lokauppgjör í lok hvers dags og hafi hann veitt því athygli að tómt rugl hafi verið á sjóðsvélinni þar sem bæði hafi vantað í sjóðinn og eins hafi verið dæmi um að of mikið fé hafi verið í kassanum.  Í mars eða apríl 1999 hafi Martin og stefnandi boðið honum vinnu í verslun þeirra.  Kvaðst hann hafa séð um daglegan rekstur verslunarinnar á Laugavegi.  Hann kvaðst fljótlega hafa áttað sig á því að vörur í gleraugnaverslun Hagkaups voru seldar í versluninni Sjón á Laugavegi.  Hann hafi ósjálfrátt tekið þátt í þessum þjófnaði þeirra þrátt fyrir að hann hafi ekki verið ánægður með það og lýst vanþóknun sinni á þessu fyrirkomulagi og bent á að þeir þyrftu að reka þetta eins og alvöru fyrirtæki.  Í um tvo mánuði hafi gengið svo til að gleraugu sem pöntuð voru í versluninni á Laugavegi hafi farið inn í Hagkaup til stefnanda þar sem smíðuð hafi verið gler í þau.  Að því búnu hafi hann eða S sótt gleraugun til baka eða þá að stefnandi hafi komið með þau til baka.

Svala Steina Ásbjörnsdóttir, aðalbókari Hagkaups, bar m.a. hjá lögreglu að hún hafi, sem aðalbókari, tekið eftir því að kassauppgjör skiluðu sér seint frá versluninni auk fleiri þátta sem vakið hafi grunsemdir hennar um að ekki væri allt með felldu.

Fyrir liggur að starfsmenn Hagkaups gerðu úttekt á birgðabókhaldi verslunarinnar frá áramótum 1999 og staðgreiðslubókhaldi frá 25. ágúst s.á.  Var niðurstaða samkvæmt þeirri úttekt að fram kom óútskýrð rýrnun vörubirgða að verðmæti 6.412.693 krónur.  Í umsögn Lögreglustjórans í Reykjavík til dómsmálaráðuneytisins vegna máls þessa segir að eftir úttektina hafi lögreglu borist bréf Stefáns Hilmarssonar, löggilts endurskoðanda, þar sem hann hafi greint frá því að óþekkt vörurýrnun á vörubirgðum verslunarinnar hafi numið 4.071.558 krónum yfir greint tímabil.  Jafnframt segir í umsögninni að tveir starfsmenn kæranda hafi merkt um 300 pakka af sjónlinsum í verslun kæranda vegna grunsemda um að í verslun kærðu væru seldar vörur frá kæranda.  Tveimur til þremur dögum seinna  hafi fimm af þessum pökkum verið seldir viðskiptamanni í versluninni Sjón á Laugavegi.

Húsleit fór fram í versluninni Sjón eins og áður greinir.  Var leitin framkvæmd af tveimur rannsóknarlögreglumönnum og lögreglufulltrúa.  Stefnandi var viðstaddur svo og framkvæmdastjóri kæranda, Gunnar H. Gunnarsson, sem vísaði á vörur sem taldar voru tilkomnar úr gleraugnaversluninni Augunum okkar ásamt tveimur starfsmönnum þeirrar verslunar, þeim S og V.  Í skýrslu lögreglu um húsleit segir að við húsleitina hafi fundist vörur sem taldar séu úr gleraugnaversluninni Augunum okkar og bókhaldsgögn sem meðal annars varði verslunina Augun okkar.  Það sem meðal annars hafi fundist í versluninni hafi verið sjóngler sem einungis eigi að vera til í Augunum okkar að sögn þeirra sem kæruna leggja fram.

Fyrir liggur að stefnandi var einn af eigendum verslunarinnar Sjón á Laugveginum og rak þá verslun jafnframt því að vera starfsmaður Augnanna okkar.  Við húsleitina fundust vörur og bókhaldsgögn í versluninni Sjón sem talin voru tilheyra versluninni Augunum okkar.  Telja verður að þessi staðreynd hafi  stutt þær fullyrðingar er komu fram í kæru og beindust m.a. að stefnanda, sem einum af eigendum verslunarinnar Sjón.  Við þessar aðstæður var stefnandi handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald í 5 daga.  Féllst dómari á að fram væri kominn rökstuddur grunur um að hann hefði framið verknað sem fangelsisrefsing liggur við.  

Í greinargerð lögreglu með kröfunni kom fram að rannsókn málsins væri á frumstigi, ósamræmis hefði gætt í framburði stefnanda og Martins Sischka sem einnig var grunaður um aðild að málinu.  Þá kom fram í kröfu lögreglunnar að eftir væri að yfirfara og rannsaka haldlagðan lager verslunarinnar og bera undir grunuðu og eftir væri að yfirheyra Kolbein Pétursson.  Hætta var talin á því að stefnandi gæti torveldað rannsóknina fengi hann að fara frjáls ferða sinna og var fallist á kröfu um gæsluvarðhald yfir stefnanda.

Af gögnum málsins verður ráðið að grunur hafi á frumstigi aðallega beinst að stefnanda og Martin Sischka og þá ekki fremur að Martin en að stefnanda.  Var ákæra síðar gefin út á hendur þeim en ekki á hendur öðrum starfsmönnum Augnanna okkar.  Við húsleit í versluninni Sjón, sem Martin og stefnandi voru báðir eigendur að, fundust vörur sem taldar voru úr gleraugnaversluninni Augunum okkar og bókhaldsgögn sem meðal annars vörðuðu verslunina Augun okkar.  Var við húsleitina stuðst við upplýsingar frá starfsmönnum kæranda og var stór hluti lagers verslunarinnar haldlagður.  Enda þótt deila megi um hvort eðlilegt hafi verið að S væri viðstaddur leit í versluninni Sjón, þar sem grunur beindist lítillega að honum, eins og áður er fram komið, þykir ekkert komið fram er bendi til að nærvera hans hafi með einhverjum hætti skaðað starf lögreglunnar við húsleitina.

Þegar framanritað er virt verður að fallast á það að rökstuddur grunur hafi leikið á því að stefnandi og Martin hafi átt þátt í refsiverðum verknaði og nauðsyn hafi borið til handtökunnar til þess að koma í veg fyrir að sakargögnum væri spillt.  Telja verður því að skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið fyrir hendi og lögreglu hafi verið heimilt að handtaka stefnanda.

Stefnandi var úrskurðaður í gæsluvarðhald 31. október 1999 til 5. nóvember s.á.  Lögregluskýrsla var tekin af Kolbeini Péturssyni 1. nóvember 1999.  Samkvæmt skjalaskrá lögreglunnar vegna rannsóknarinnar var stefnandi yfirheyrður 3. nóvember 1999, Martin Sischka 2. og 3. nóvember 1999 og S 3. nóvember 1999, eins og boðað var er krafa um gæsluvarðhald var sett fram.  Fyrir liggur að stefnandi var leystur úr gæsluvarðhaldi þegar boðaðar yfirheyrslur höfðu farið fram eða 3. nóvember 1999.

Telja verður að rannsókn málsins hafi verið fram haldið með eðlilegum hætti þá daga sem stefnandi sat í gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að þeir framburðir og gögn er fyrir lágu hafi gefið lögreglu tilefni til þess að grípa til þeirra rannsóknaraðgerða er lögregla greip til gagnvart stefnanda.  Nægilegt tilefni hafi verið til þeirra aðgerða og lögmæt skilyrði hafi verið fyrir hendi til þess að framkvæma rannsóknina með þeim hætti sem gert var.  Enda þótt ekkert bendi til að stefnandi hafi stuðlað að því að gripið var til umræddra aðgerða, sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991, verður að líta til þess að á umræddum tíma voru allar aðstæður kærðu, Martins og stefnanda, svo samtvinnaðar að ekki verður séð að unnt hafi verið að útiloka aðild stefnanda að málinu. 

Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að rannsóknaraðferðir hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.  Þá þykir heldur ekki sýnt fram á að stefnanda hafi verið haldið lengur í gæsluvarðhaldi en nauðsynlegt getur talist vegna rannsóknarinnar.

Þegar allt framanritað er virt þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að stefndi hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda og ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Björns Ólafs Hallgrímssonar hrl., 350.000 krónur, og 3.600 krónur vegna aksturs, samtals 353.600, krónur greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Markusar Stephan Klinger.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Björns Ólafs Hallgrímssonar hrl., 350.000 krónur, og 3.600 krónur vegna aksturs, samtals 353.600 krónur greiðist úr ríkissjóði.