Hæstiréttur íslands
Mál nr. 410/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 30. ágúst 2013. |
|
Nr. 410/2013.
|
Brynjar Ragnarsson (sjálfur) gegn sýslumanninum í Hafnarfirði (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli B, sem leitaði úrlausnar um gildi nauðungarsölu, var vísað frá héraðsdómi, en tilkynning B til héraðsdóms var ekki talin uppfylla áskilnað 2. tölul. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. maí 2013, þar sem máli sóknaraðila var vísað frá dómi. Sóknaraðili kveður kæruheimild vera í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar á grundvelli kröfu sóknaraðila í máli E-109, merkt nr. K5, og sem héraðsdómur breytti í svokallað Z-mál, nú númer Z-1/2013 en hún hljóðar svo: „Að dómari felli úr gildi nauðungarsölubeiðni og eða ógildi nauðungarsölu gerðarbeiðenda hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði, á eign stefnanda að Vesturvangi 8 í Hafnarfirði, stefnanda að skaðlausu, og með tilvísun í K4, enda ljóst að eitt lánanna (V3) er ólöglegt skv. úrskurði Hæstaréttar, og endanlegur og löglegur útreikningur hefur ekki enn fengist frá stefndu, sem og að réttmætur vafi og réttaróvissa ríkir um lögmæti útreikninga hinna þriggja lánanna (V1, V2 og V4), en skv. áliti lögfróðra manna og sérfræðings í Evrópurétti, teljast þeir ólöglegir og okur. Einnig er vísað til annarra krafna, fari svo að hinir stefndu nái fullnustugjörð á eign stefnanda.“ Þá gerir sóknaraðili kröfu um að honum verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður. Til vara „og ef Hæstiréttur vill fjalla efnislega um málið“, er þess krafist að „fullnustuaðgerð embættis Sýslumannsins í Hafnarfirði verði dæmd ólögmæt, sóknaraðila að skaðlausu.“ Að því frágengnu krefst sóknaraðili þess að „fullnustuaðgerð embættis Sýslumannsins í Hafnarfirði verði dæmd ógild með öllu, sóknaraðila að skaðlausu.“
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram barst héraðsdómi bréf sóknaraðila 28. mars 2013 vegna nauðungarsölu 1. mars 2013 á fasteign sem þá var í eigu sóknaraðila. Í bréfinu var vísað til 81. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og tekið fram að eftirfarandi væri krafist fyrir héraðsdómara: „Vísað er til kröfulýsingar nr. K5 í fyrirliggjandi Stefnu, auk Varakröfu-1, auk viðeigandi tilvísana í aðrar kröfur, lagarök og áskilnað.“ Með bréfinu fylgdi meðal annars skjal sem bar yfirskriftina „Stefna“ en það mun hafa verið lagt fram við fyrirtöku málsins hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Í skjalinu eru fjölmargar kröfur gerðar og eru tvær þeirra tilgreindar sem „K5“ og „Varakrafa-1“.
Í 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 kemur fram að í tilkynningu til héraðsdóms um að leitað sé úrlausnar um gildi nauðungarsölu skuli koma fram hvers sé krafist fyrir héraðsdómara. Tilkynning sóknaraðila til héraðsdóms fullnægði ekki þessum áskilnaði. Með bréfi héraðsdómara 14. júní 2013 til réttarins var upplýst að áður en sóknaraðili lagði fram erindi það sem um er fjallað í úrskurðinum, hafi honum sem ólöglærðum verið leiðbeint um formhlið máls, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna til hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. maí 2013.
Hinn 28. mars 2013 var móttekið í Héraðsdómi Reykjaness bréf Brynjars Ragnarssonar, Vesturvangi 8, Hafnarfirði, sem ber yfirskriftina „Stefnuviðauki-árétting“, dagsett sama dag. Í bréfinu er vísað til nauðungarsölu nr. 036-2012-0398 á fasteigninni að Vesturvangi 8 í Hafnarfirði, sem fram hafi farið á eigninni sjálfri föstudaginn 1. mars 2013. Málinu var úthlutað til undirritaðs dómara 19. apríl 2013.
Í bréfinu segir að Héraðsdómi Reykjaness hafi áður borist stefna með kröfugerð og ítarlegri greinargerð um málsatvik, er varði m.a. úrlausn um gildi nauðungarsölu. Er á bréfinu að skilja málið sé áréttað með bréfinu og er vísað til 81. gr. laga um nauðungarsölu. Þá segir að málið hafi verið þingfest á dómþingi miðvikudaginn 6. febrúar sl. og er vísað til kröfulýsingar „nr. K5 og Varakröfu-1, auk tilvísana í í aðrar kröfur, lagarök og áskilnað“, eins og það er orðað í bréfinu. Í bréfinu er tilgreint hverjir séu aðilar þess máls, þ.e Brynjar Ragnarsson sem stefnandi, en stefndu séu nánar tilgreindir fjórir einstaklingar, auk Íslandsbanka hf., Íbúðalánasjóðs, Umboðsmanns skuldara og Sýslumannsins í Hafnarfirði.
Í bréfinu er tilkynnt með vísan til 81. gr. að um sé að ræða nauðungarsölu á fasteigninni að Vesturvangi 8, Hafnarfirði. Ennfremur að fyrra uppboð á eigninni hafi farið fram á skrifstofu sýslumanns 5. febrúar 2013, en síðara uppboð á eigninni sjálfri 1. mars 2013. Aðilar málsins eru sagðir vera Íslandsbanki hf., Íbúðalánasjóður og Sýslumaðurinn í Hafnarfirði. Þá segir að á staðfestu endurriti sýslumanns komi fram að fulltrúi frá Hafnarfjarðarbæ hafi verið viðstaddur uppboðið, en hann hafi ekki kynnt sig.
Loks segir eftirfarandi undir tölulið 3 á bls. 2 í bréfinu:
„Hvers er krafist fyrir héraðsdómara: Vísað er til kröfulýsingar nr. K5 í fyrirliggjandi Stefnu, auk Varakröfu-1, auk viðeigandi tilvísana í aðrar kröfur, lagarök og áskilnað.“
Með beiðninni fylgdi skjal merkt Brynjari Ragnarssyni, sem ber yfirskriftina „Drög að ákæru“, en þar eru gerð að umtalsefni valdheimildir sýslumanna, mannréttindabrot á Íslandi og alþjóðaskuldbindingar Íslands. Þá ber einn kaflinn yfirskriftina „heildarmyndin“ og er þar að finna upptalningu á 14 einstaklingum og sjö stofnunum og nefndum auk íslenska ríkisins, sem séu „nefnd til ákærunnar“ eins og það er orðað. Að lokum er þar að finna kafla sem ber yfirskriftina „Aðgerðaráætlun-tillaga til ráðherra.“
Með bréfinu fylgdi staðfest endurrit gagna, sem lögð voru fram við áðurgreinda nauðungarsölu, sem og endurrit úr gerðabók sýslumanns, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í gögnum þessum kemur fram að uppboði á framangreindri eign lauk samkvæmt V. kafla laganna þriðjudaginn 1. mars 2013 og var eignin slegin hæstbjóðanda, Íslandsbanka hf.
Framangreint erindi barst héraðsdómi innan fjögurra vikna frá lokum uppboðs á fyrrgreindri fasteign, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Í 1. mgr. 81. gr. sömu laga segir að sá sem leiti úrlausnar um gildi nauðungarsölu skuli tilkynna það héraðsdómara skriflega. Í tilkynningunni skuli koma fram um hvaða nauðungarsölu sé að ræða, hvenær hún fór fram, hvers konar ráðstöfun hafi átt sér stað og á hverju, og hverjir verði taldir aðilar að málinu skv. 3. mgr. 82. gr. Þá skal koma fram hvers sé krafist fyrir héraðsdómara og á hvaða málsástæðum og lagarökum kröfur séu reistar.
Í áðurgreindu bréfi er um dómkröfur, málsástæður og lagarök vísað til „kröfulýsingar nr. K5 í fyrirliggjandi Stefnu, auk Varakröfu-1, auk viðeigandi tilvísana í aðrar kröfur, lagarök og áskilnað.“ Í bréfinu kemur því ekki fram hvers er krafist fyrir dóminum eða á hvaða málsástæðum og lagarökum byggt er á. Er því með öllu óljóst í hvaða skyni sóknaraðili leitar úrlausnar héraðsdóms og þá er óljóst að hverjum hann beinir erindi sínu.
Með vísan til framangreinds uppfyllir tilkynningin ekki skilyrði 1. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og ber því með vísan til 82. gr. sömu laga að vísa málinu frá dómi án þess að kveðja til aðila þess eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi.
Úrskurðinn kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi.