Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing
  • Aðild
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Þriðjudaginn 27

 

Þriðjudaginn 27. maí 2003.

Nr. 187/2003.

Sigurður Ó. Helgason

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

gegn

sýslumanninum í Reykjavík

(enginn)

 

Kærumál. Þinglýsing. Aðild. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Eftir að sýslumaður hafði ákveðið að stöðva nauðungarsölu á hluta fasteignar í eigu J, sem farið hafði fram að beiðni S, óskaði lögmaður J eftir því haustið 2002, að J látinni, að fjárnám það sem legið hafði nauðungarsölunni til grundvallar, yrði afmáð úr fasteignabók. Við því varð sýslumaður í október 2002 en S varð þetta fyrst ljóst í lok desember sama árs og óskaði eftir því í upphafi árs 2003 að fallið yrði frá því að afmá réttindi hans. Þeirri málaleitan svaraði sýslumaður ekki fyrr en 28. mars sama árs með því að árétta fyrri ákvörðun sína. Var litið svo á að sýslumaður hafi ekki gagnvart S tekið endanlega ákvörðun um þetta efni fyrr en 28. mars 2003 og því hafi S borið ákvörðunina undir héraðsdóm innan fjögurra vikna frests 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga. Voru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi, eins og gert hafði verið með hinum kærða úrskurði. Þá var talið að nauðsyn hafi borið til að sá sem erindið, sem var tilefni ákvörðunar sýslumanns, var borið fram fyrir, yrði aðili að dómsmáli um réttmæti ákvörðunarinnar, en með öllu hafi verið ástæðulaust að líta á sýslumanninn í Reykjavík sem aðila að málinu. Var hinn kærði úrskurður því ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2003, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila varðandi þinglýsingu nánar tiltekinna réttinda hans yfir fasteigninni Engjaseli 85 í Reykjavík í fasteignabók varnaraðila. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gerði sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnám 5. ágúst 1998 að kröfu sóknaraðila hjá Ævari S. Hjartarsyni á grundvelli skuldabréfs að fjárhæð 2.334.500 krónur, sem gefið var út til handhafa 19. júní 1997 af GMÞ Bílaverkstæðinu hf. og tryggt með sjálfskuldarábyrgð Ævars og annars nafngreinds manns. Fjárnámið var gert í eignarhluta Ævars í fyrrnefndri fasteign að Engjaseli 85, en hann mun þá hafa verið þinglýstur eigandi íbúðar þar á 2. hæð til vinstri í óskiptri sameign með Jóhönnu Rannveigu Skaftadóttur og hvort þeirra talist eigandi að helmingshlut í íbúðinni. Munu þau Ævar og Jóhanna áður hafa verið í hjúskap, en gert samning 19. nóvember 1997 vegna hjónaskilnaðar, þar sem hafi verið kveðið á um að íbúðin kæmi öll í hlut Jóhönnu. Þessum réttindum hennar mun hins vegar ekki hafa verið þinglýst fyrr en 6. október 1998, en fjárnámi sóknaraðila var þinglýst sama dag og það var gert. Sóknaraðili krafðist 18. nóvember 2000 nauðungarsölu á eignarhlutanum á grundvelli fjárnámsins. Aðgerðum við nauðungarsöluna mun ítrekað hafa verið frestað, en með bréfi til sýslumannsins í Reykjavík 23. desember 2001 krafðist Jóhanna þess að hún yrði felld niður vegna nánar tiltekinna annmarka á réttindum sóknaraðila. Sýslumaður tók nauðungarsöluna fyrir 29. janúar 2002 og ákvað þá að stöðva hana.

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila lést Jóhanna Rannveig Skaftadóttir vorið 2002. Að fenginn staðfestingu Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2002 um að sóknaraðili hafi ekki leitað úrlausnar dómsins um framangreinda ákvörðun sýslumanns 29. janúar sama árs hafi lögmaður, sem áður gætti hagsmuna Jóhönnu varðandi nauðungarsöluna, óskað eftir því að fjárnám sóknaraðila frá 5. ágúst 1998 yrði afmáð úr fasteignabók. Við því hafi varnaraðili orðið 24. október 2002, en sóknaraðili kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um það í lok desember sama árs, enda hafi varnaraðili ekki sent honum neinar tilkynningar af þessu tilefni. Sóknaraðili leitaði með bréfi 7. janúar 2003 eftir því við varnaraðila að hann „leiðrétti ofangreind mistök á þann hátt að eydd verði útstrikun fjárnámsins úr veðmálabókum.“ Því hafnaði varnaraðili með bréfi 28. mars 2003. Í framhaldi af því beindi sóknaraðili máli þessu til Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl sama árs. Héraðsdómari þingfesti það 5. maí 2003 og fór með það sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila einum, en í sama þinghaldi, sem ekki var sótt af hálfu aðilanna, var kveðinn upp hinn kærði úrskurður um að málinu væri vísað frá dómi.

II.

Eins og áður greinir ber sóknaraðili því við í málinu að sér hafi ekki verið tilkynnt að leitað hafi verið eftir því við varnaraðila í september eða október 2002 að réttindi hans samkvæmt fyrrnefndu fjárnámi 5. ágúst 1998 yrðu afmáð úr fasteignabók eða að varnaraðili hafi orðið við því 24. október 2002. Þetta hafi honum fyrst orðið ljóst af öðrum sökum í lok desember á því ári. Þessum staðhæfingum sóknaraðila hefur ekki verið hnekkt. Sóknaraðili óskaði sem fyrr segir eftir því við varnaraðila 7. janúar 2003 að fallið yrði frá því að afmá réttindi hans. Þeirri málaleitan svaraði varnaraðili ekki fyrr en 28. mars sama árs með því að árétta fyrri ákvörðun sína. Með því að varnaraðili hafði ekki á fyrri stigum gefið sóknaraðila kost á að tjá sig um fram komna kröfu um að réttindi hans yrðu afmáð úr fasteignabók verður að líta svo á að varnaraðili hafi ekki gagnvart sóknaraðila tekið endanlega ákvörðun um þetta efni fyrr en síðastgreindan dag, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 3. september 2002 í máli nr. 347/2002. Sóknaraðili bar þannig ákvörðun varnaraðila undir héraðsdóm innan þess fjögurra vikna frests, sem um ræðir í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga með áorðnum breytingum. Voru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi, eins og gert var með hinum kærða úrskurði.

Svo sem áður er getið mun varnaraðili hafa tekið ákvörðunina, sem málið varðar, í tilefni af erindi, sem honum hafði borist frá lögmanni, sem hafði í tengslum við nauðungarsölu gætt hagsmuna þinglýsts eiganda íbúðarinnar að Engjaseli 85. Nauðsyn bar til að sá, sem þetta erindi var borið fram fyrir, yrði aðili að dómsmáli um réttmæti þessarar ákvörðunar, sbr. 4. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga með áorðnum breytingum, en með öllu var ástæðulaust að líta á sýslumanninn í Reykjavík sem aðila að málinu. Með því að héraðsdómari hefur ekki gætt að þessu er óhjákvæmilegt að ómerkja sjálfkrafa hinn kærða úrskurð og meðferð málsins frá og með þinghaldi 5. maí 2003, svo og að heimvísa málinu til löglegrar meðferðar.

Sóknaraðili verður að bera kostnað sinn af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur ásamt meðferð málsins fyrir héraðsdómi frá og með þinghaldi 5. maí 2003. Málinu er vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2003.

                Með bréfi, sem dagsett er 11. apríl 2003, krefst Sigurður O. Helgason, kt. 200721-4979, St. Vincent/Grenadines, dómsúrskurðar um rétt hans þess efnis að sýslumannsembættinu í Reykjavík verði gert skylt að þinglýsa á ný fjárnámi frá 5. ágúst 1998 á 5. veðrétt eignarinnar Engjasel 85, mhl. 0201 í Reykjavík sem sýslumaður aflétti 24. október 2002.  Þá er þess krafist að úrskurðað verði um rétt Sigurðar til að fá greiddan kostnað vegna máls þessa.

                Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur ekki óskað eftir að senda héraðsdómara athugsemdir sínar um málefnið.

Að sögn sóknaraðila eru helstu málsatvik þau að 19. júní 1997 undirritaði Ævar S. Hjartarson sjálfsskuldarábyrgð á skuldabréf að fjárhæð 2.334.500 kr.  Skuldari var tilgreindur GMÞ bílaverkstæði hf. er síðar fékk heitið GMÞ Hummer bílaumboðið ehf., en félagið var að hluta til í eigu Ævars.  Vanskil urðu á greiðslum skuldabréfsins og var bréfið sent í lögfræðilega innheimtu.

Þann 5. ágúst 1998 var fjárnám gert í 50% eignarhluta Ævars í 4. herb. íbúð v/Engjasel 85, mhl. 0201 í Reykjavík til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfinu.  Fjárnáminu var þinglýst á 5. veðrétt í eignarhlutanum.  Hinn hluti eignarinnar var skráður í eigu fyrrverandi eiginkonu Ævars, Jóhönnu Rannveigar Skaftadóttur.

Af hálfu skuldara var óskað eftir því við kröfuhafa að fá að koma kröfunni í skil gegn því að skuldari legði fram nýtt veð.  Það gekk hins vegar ekki eftir.  Og 22. desember 1998 féllst kröfuhafi á að gera breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins vegna greiðsluerfiðleikanna þannig að í stað 11 jafnra afborgana á 3 mánaða fresti voru eftirstöðvarnar, 2.667.857 kr., færðar til greiðslu á 12 jöfnum afborgunum á 3 mánaða fresti með fyrstu greiðsla 1. mars 1999.  Tekið var skýrt fram við aðila að fjárnámi yrði ekki aflétt fyrr en skuldin væri að fullu greidd enda vildi kröfuhafi ekki gera stöðu sína lakari.  Á skuldbreytingarskjali var fjárnámsins hins vegar ekki getið sérstaklega enda ekki talin þörf á því.  Ákvæði skuldabréfsins áttu að öðru leyti að vera óbreytt.

Skuldabréfið fór aftur í vanskil og var krafan gjaldfelld 1. júní 1999.  Nauðungarsölubeiðni var send sýslumanninum í Reykjavík 18. janúar 2000 á grundvelli fjárnámsins.  Á þessum tíma hafði skilnaðarsamningi milli Ævars og Jóhönnu verið þinglýst en eignin hafði komið í hennar hlut.  Vegna alvarlegra veikinda Jóhönnu, en hún hafði greinst með krabbamein, var fallist á að fresta byrjun uppboðs ítrekað.

Þann 29. janúar 2002 tók sýslumaðurinn í Reykjavík fyrir nauðungarsöluna vegna framkominna mótmæla lögmanns gerðarþola gegn nauðungarsölu á fasteigninni.  Gegn mótmælum gerðarbeiðanda komst fulltrúi sýslumanns að þeirri niðurstöðu að nauðungarsalan skyldi stöðvuð.  Á þessum tíma lá gerðarþoli Jóhanna fyrir dauðanum.  Vegna mannúðarsjónarmiða þótti ekki tækt að halda máli áfram á þessu stigi og var ákveðið að fresta öllum aðgerðum þar til afdrif Jóhönnu yrðu ljós.  Þetta var bæði lögmanni hennar svo og fulltrúa sýslumanns ljóst.  Jóhanna lést svo á vordögum 2002.  Þegar um mitt sumar 2002 var ákveðið að taka upp málið og var ítrekað reynt að hafa samband við lögmann gerðarþola, Óskar Norðmann, sem og fulltrúa sýslumanns, en án árangurs.

Á grundvelli þess að Héraðsdómur Reykjavíkur hafði 5. september 2002 lýst því yfir að ákvörðun sýslumanns um stöðvun nauðungarsölu hefði ekki verið skotið til héraðsdóms óskaði lögmaður gerðarþola eftir því við sýslumannsembættið í Reykjavík að fjárnámið yrði afmáð úr veðmálabókum af eignarhluta nr. 0201 í Engjaseli 85, Reykjavík.  Sýslumannsembættið féllst á þessa beiðni og var fjárnáminu aflýst af eigninni þann 24. október 2002.

Í lok desember 2002 varð lögmanni gerðabeiðanda fyrst ljóst að fjárnáminu hafði verið aflýst af eign.  Engin boð höfði verið send um að það stæði til.  Með bréfinu 7. janúar 2003 var þess óskað að sýslumaður leiðrétti augljós mistök með heimild í 1. mgr. 27. gr. og 39. gr. laga nr. 39/1978.  Sýslumannsembættið hafnaði beiðninni með vísun til 1. mgr. 38. gr. laga nr. 39/1978.

Sóknaraðili byggir á því að fjárnámið hafi verið tryggt með 5. veðrétti í eigninni Engjaseli 85, mhl. 0201 í Reykjavík og hafi sýslumannsembættið í Reykjavík ekki haft heimild til að afmá fjárnámið af þessum veðrétti.  Krafan er liggur að baki fjárnáminu hafði ekki verið að fullu greidd, kröfuhafi hafi ekki gefið kröfuna eftir þótt skilmálum bréfsins hafi verið breytt til hagræðis fyrir skuldarann.  Auk þessa verði eignarhafti eigi aflýst skv. 39. gr. laga nr. 39/1978 fyrr en þinglýst er sönnun fyrir brottfalli þess eða skjal afhent með yfirlýsingu rétthafa um að því megi aflýsa.  Í bréfi sínu frá 28. mars sl. vísi sýslumaður til ákvæða 1. mgr. 38. gr. laga nr. 39/1978 er heimili honum að afmá eignarhöft á eignum að eigin frumkvæði.  Samkvæmt skýru orðalagi 38. gr. beri sýslumanni, ákveði þinglýsingarstjóri að afmá eignarhöft, að senda rétthafa sérstaka tilkynningu um væntanlega afmáningu, svo að rétthafa sé kostur að varna því að áhrif þinglýsingar eyðist.  Slík tilkynning hafi ekki verið send sóknaraðila og því ljóst með vísan til 38. gr. laga nr. 39/1978 og 13. gr. laga nr. 37/1993 að brotið hafi verið gegn andmælarétti sóknaraðila.

Niðurstaða:  Í bréfi sóknaraðila til dómsins er greint frá því að lögmanni sóknaraðila hafi í lok desember 2002 orðið ljóst að umræddu fjárnámi hafði verið aflýst.  Beiðni sóknaraðila um úrskurð vegna ágreinings um þessa ákvörðun þinglýsingarstjóra var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. apríl 2002.  Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1978, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 6/1992, bar sóknaraðila að bera ákvörðun þinglýsingarstjóra um umrædda aflýsingu undir dóm áður en fjórar vikur voru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana.

                Samkvæmt framangreindu verður málinu vísað frá dómi.

                Páll Þorsteinsson kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.