Print

Mál nr. 205/2009

Lykilorð
  • Ávana- og fíkniefni

Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. desember 2009.

Nr. 205/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari

gegn

Arkadiusz Maciej Latkowski

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni.

A var sakfelldur fyrir vörslur og meðferð á 1.162,23 g af marihuana í félagi við tvo aðra menn. Hafði A farið ásamt samverkamönnum sínum að K í Kópavogi til að taka á móti sendingu frá Póllandi sem innihélt matvæli og lögleg efni þar sem fíkniefnunum hafði verið skipt út af lögreglu án vitneskju þeirra. Samkvæmt sakavottorði A hafði hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi hér á landi en átti þó nokkurn brotaferil að baki samkvæmt skrá Interpol. Við ákvörðun refsingar var litið til magns fíkniefnanna og þess að brotið var framið í félagi við aðra, sbr. 2. gr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Var A dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi en ekki þótti unnt, sökum alvarleika brotsins að skilorðsbinda refsinguna.

                       

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða verði staðfest en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Framburður ákærða, meðákærðu og vitna í héraði er rækilega rakinn í hinum áfrýjaða dómi og er ekki ástæða til að vefengja mat dómsins um sekt ákærða. Verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur vísan til forsendna hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Arkadiusz Maciej Latkowski, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 238.951 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. apríl 2009.

                Mál þetta, sem dómtekið var 12. mars 2009, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 30. desember 2008 á hendur A, kt. og heimilisfang [...], Arkadiusz Maciej Latkowski, kt. 250280-4169, Grjótagötu 5, Reykjavík, og B, kt. og heimilisfang [...], fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, sem hér nánar greinir:

1.                Gegn ákærðu öllum, fyrir vörslur og meðferð á 1.162,23 g af maríhúana, sem ákærðu mátti vera ljóst að ætluð væru til sölu hér á landi, en fíkniefnunum sem voru send í pakka, viðtökunúmer EE071762822PL, ásamt matvælum til Íslands frá Póllandi, á nafngreindan einstakling að K í Kópavogi sem ekki vænti sendingar, var skipt út af lögreglu fyrir lögleg efni án vitneskju ákærðu. Pakkinn var afhentur skráðum móttakanda að K, í Kópavogi þann 6. október 2008, þangað sem ákærðu komu saman á bifreiðinni RO-048, þar sem ákærði B gerði tilraun til að fá pakkann afhentan utan við K áður en hann var afhentur skráðum móttakanda, en ákærði B átt að fá greiddar kr. 20.000 fyrir að móttaka pakkann. Eftir að pakkinn var afhentur skráðum móttakanda fékk ákærði A pakkann afhentan frá honum í stigaganginum að K og afhenti ákærða B pakkann aftan við K. Þaðan fóru ákærðu allir á brott á bifreiðinni RO-048, ákærði Arkadiusz ökumaður, hinir ákærðu farþegar, auk eins óþekkts aðila og óku á brott með pakkann að Álfatúni 37 í Kópavogi, þar sem ákærði Arkadiusz reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum og hinn óþekkti aðili komst undan lögreglu á hlaupum.

                Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.

                2.                Gegn ákærða A, með því að hafa fimmtudaginn 9. október 2008 haft í vörslum sínum í tösku að Rauðarárstíg 34 í Reykjavík, 196,87 g af hassi og 1,01 g af amfetamíni.

                Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, að því er varðar vörslur á hassi, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 að því er varðar vörslur á amfetamíni.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Þá er gerð krafa um upptöku á framangreindum fíkniefnum, sem hald var lagt á, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Við aðalmeðferð málsins var þess jafnframt krafist að ákærðu yrðu dæmdir til að greiða allan sakarkostnað.

                Ákærði A krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins skv. 1. tölulið ákæru. Til vara er þess krafist að ákærða verði einungis gerð vægasta refsing sem lög frekast leyfa. Einnig er þess krafist að gæsluvarðhald komi til frádráttar dæmdri refsingu. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna.

                Af hálfu ákærða Arkadiusz Latkowski er aðallega krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að ákærða verði einungis gerð vægasta refsing sem lög frekast leyfa og að gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar dæmdri refsingu. Verjandi gerir kröfu um hæfileg málsvarnarlaun sér til handa.

                Ákærði B krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að ákærða verði einungis gerð vægasta refsing sem lög frekast leyfa og að gæsluvarðhald komi í stað dæmdrar refsingar. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna og þess er krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

I.

                Hinn 3. október 2008 fannst við reglubundið eftirlit tollstjórans í Reykjavík póstsending sem talin var innihalda fíkniefni. Póstsendingin var í brúnum pappakassa og innihélt sex niðursuðudósir, þar af fimm sem virtust innihalda niðursoðna ávexti og ein með kjötbúðingi, fjögur stór súkkulaðistykki, tvo kaffipakka, sjö túnfiskdósir og þrjár kökur. Lögreglan fór með pakkann á lögreglustöðina við Hverfisgötu til frekari rannsóknar. Þegar dósirnar voru opnaðar fundust ætluð fíkniefni, maríhúana og amfetamín. Ákveðið var að bera sendingu út eftir að ætluð fíkniefni höfðu verið fjarlægð og var hlustunar- og staðsetningarbúnaður settur í sendinguna. Skráður móttakandi pakkans var C, K , Kópavogi.

                Í skýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 27. október 2008, kemur fram að sendingin hafi verið afhent hinn 6. október af lögreglumanni klæddum einkennis­fatnaði Póstsins og á bifreið Póstsins. Er lögreglumaðurinn hafi stigið út úr bifreiðinni við K hafi komið þar að ungur maður og spurt hvort hann væri með pakka fyrir C og lögreglumaðurinn sagt svo vera. Hafi maðurinn þá viljað fá að veita pakkanum viðtöku þar sem hann þekki C og lögreglumaðurinn svarað því til að hann yrði að afhenda C sjálfum pakkann. Hafi maðurinn þá sagst ætla að hringja í C. Í þann mund hafi tveir menn komið að gangandi frá bifreið sem var lagt aðeins ofar í bifreiðastæðinu og annar þeirra sagst heita C. Lögreglumaðurinn og þessir tveir menn sem hefðu komið gangandi hafi farið inn í anddyrið, en sá sem hafði fyrst beðið um pakkann beðið fyrir utan. Hafi C framvísað ökuskírteini og kvittað fyrir móttöku pakkans. Lögreglumaðurinn hafi svo ekið á brott.

                Í lögregluskýrslu, dag. 6. október 2008, kemur fram að þegar sendingin hafi verið afhent við K hafi lögreglumenn veitt því athygli að tveir aðilar stóðu við gatnamót K og Á og virtust fylgjast með umferð um K. Þessir tveir aðilar hafi hitt tvo aðra aðila, sem komu út með sendinguna frá K, við gatnamótin og gengið niður Á. Bifreiðinni RO-048 hafi svo verið ekið af stað frá . Þegar lögreglumenn hafi farið á eftir bifreiðinni hafi þeir veitt því athygli að aðilar í aftursæti bifreiðarinnar hafi farið að fylgjast með þeim. Eftir að þeir hafi veitt lögreglumönnunum athygli hafi hraði bifreiðarinnar verið aukinn og bifreiðinni verið ekið á 90 km hraða niður Á. Eftirförin hafi endað í Á sem er botngata. Þegar bifreiðin hafi verið stöðvuð hafi tveir aðilar hlaupið út úr henni. Annar aðilinn hafi hlaupið í vestur eftir gangstíg og hann ekki náðst, en lögreglumenn hefðu gengið úr skugga um að tveir aðilar í aftursæti bifreiðarinnar kæmust ekki á brott. Þá hafi lögreglumaður hlaupið á eftir ökumanni bifreiðarinnar upp Á og kallað á eftir honum að stansa og lögreglan væri á eftir honum. Maðurinn hafi hins vegar ekki stansað og haldið áfram að hlaupa. Hafi hann farið á milli húsa og hlaupið þvert yfir Á og inn í garð við Á 20. Hafi lögreglumaðurinn farið á eftir honum inn í garðinn og ákveðið að taka upp kylfu ef til átaka kæmi. Lögreglumaðurinn hafi náð að stökkva á manninn, náð tökum á honum og lagt hann í jörðina. Hafi lögreglumaðurinn lagst ofan á manninn og sagt honum að hann væri handtekinn, en maðurinn hafi reynt að berjast og koma í veg fyrir það að lögreglumaðurinn næði tökum á höndum hans. Eftir skamma stund hafi maðurinn gefist upp og verið settur í handjárn. Maður þessi reyndist vera ákærði Arkadiusz. Mennirnir í aftursæti bifreiðarinnar reyndust vera ákærði A og ákærði B. Voru þeir allir handteknir. Þá var C jafnframt handtekinn um kvöldið sama dag.

                Í málinu liggur fyrir skýrsla tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgar­svæðinu þar sem fram kemur að við litaprófun hafi 1.162,23 grömm af haldlögðum efnum reynst vera maríhúana. Tæknideildin sendi efnasýni af meintu amfetamíni sem haldlagt var, 481,73 grömm, til Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Í matsgerð rannsóknastofunnar, dags. 3. nóvember 2008, kemur fram að ætlað amfetamín hafi verið a-fenýletýlamín, sem sé náskylt amfetamíni að gerð en hafi ekki sömu verkun.

                Í lögregluskýrslu frá 6. október 2008 segir að C hafi við yfirheyrslu hjá lögreglu greint frá því að hann hafi fengið hringingu frá aðila sem hann þekki, ákærða A, sem hafi sagt að hann þyrfti að hitta hann heima hjá honum eftir 10 mínútur. Hann hafi farið og beðið eftir ákærða sem hafi birst skömmu síðar. Þeir hafi spjallað og póstbílinn komið þarna að. Ákærði hafi þá beðið hann um að koma með sér og póstburðarmanninum í anddyrið og sagt að hann hafi óvart látið senda á hann pakka sem hann þurfi að taka á móti. Ákærði hafi nokkrum vikum áður beðið um að fá að senda á hann pakka gegn greiðslu. Hann kvaðst ekki hafa þorað annað en að kvitta fyrir pakkann og láta ákærða fá hann.

                Hinn 7. október 2008 var ákærði A yfirheyrður hjá lögreglu að viðstöddum verjanda hans. Inntur eftir því hvaða aðilar hefðu verið með honum er hann var handtekinn daginn áður sagði hann að það hefðu verið meðákærði B og síðan tveir aðrir aðilar. Hann þekki bara annan þeirra og hann heiti „Marzek“, sem sé frá Póllandi. Sá sem hefði ekið bifreiðinni hafi verið Marzek og vinur hans verið hægra megin. Ákærði kvaðst hafa komið í bifreiðina á Rauðarárstíg, en þá hafi verið í bifreiðinni Marzek og vinur hans. Þeir sem hefðu verið í bifreiðinni þegar hún fór frá K hafi verið, auk ákærða, meðákærði B, Marzek og vinur hans. Um ástæðu þess að þeir fóru í K sagði ákærði að Marzek hafi viljað fara þangað, en einhver hefði sent sendingu til vinar ákærða fyrir mistök. Marzek hafi viljað fá ákærða til að tala við vininn um að fá sendinguna og láta meðákærða B fá hana. Þess vegna hafi ákærði tekið pakkann og látið meðákærða B hafa hann. Ákærði kvaðst hafa setið í aftursæti bifreiðarinnar ásamt meðákærða B þegar þeir óku frá K, Marzek verið ökumaður og vinur hans verið í farþegasætinu frammi í. Það hafi verið Marzek og vinur hans sem hafi hlaupið í burtu þegar bifreiðin var stöðvuð við Á. Ákærði sagði að maðurinn frá póstinum hefði afhent C pakkann í stigagangi hússins í K og ákærði tekið við honum og látið meðákærða B fá pakkann bakdyramegin. Þeir hefðu svo gengið í kringum húsið að bifreiðinni og meðákærði B sett pakkann í skottið og bifreiðinni verið ekið af stað. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um þessa sendingu fyrr en hann kom í bifreiðina við Rauðarárstíg og ekki haft hugmynd um hvað væri í pakkanum. Ákærði sagði jafnframt að þegar hann var staddur fyrir utan K og meðákærði B fór á móti bílnum til að taka á móti pakkanum hafi ákærði staðið við hlið C og þeir talað saman. Þá hafi Marzek hringt í ákærða og sagt honum að tala við C og segja honum að það hafi orðið mistök og að C ætti að taka á móti pakkanum. C hafi átt að ná í pakkann og ákærði svo að taka pakkann og láta meðákærða B hafa pakkann. Inntur eftir því hvort ákærði hefði áður rætt við B um að móttaka sendingu með fíkniefnum sagði ákærði að Marzek hefði rætt það við hann. Ákærði og C hefðu rætt það, en ákærði sagt nei. Um ástæðu þess að ákærði tók þátt í þessari atburðarás sagði ákærði að hann skuldaði Marzek pening og hann hafi ekki viljað gera hann reiðan. Þess vegna hafi ákærði gert það sem Marzek bað um.

                Ákærði A var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 14. október 2008 og kvaðst hann ekki vilja breyta eða bæta við fyrri framburð sinn. Ákærði var spurður um atvik og tengsl sín við meðákærðu. Ákærði var m.a. spurður nánar út í framburð sinn hjá lögreglu 7. október um að hann og C hefðu nokkru áður rætt um að móttaka sendingu sem átti að innihalda fíkniefni. Sagði ákærði þá að ekki hafi verið talað um að það ættu að vera fíkniefni í sendingunni en þeir hefðu getið sér þess til að sendingin innihéldi fíkniefni. Aðspurður um fyrri framburð sinn, um að það hafi verið „Maciej“ sem hefði rætt um slíka sendingu, neitaði ákærði að svara.

                Ákærði A var yfirheyrður aftur hjá lögreglu 21. október 2008. Var ákærða sýnd ljósmynd af meðákærða Arkadiusz Maciej og sagði ákærði að þetta væri Maciej. Áréttaði ákærði fyrri framburð sinn um að það hafi verið meðákærði Arkadiusz Maciej sem hringdi í hann vegna þess að mistök hefðu orðið með sendingu og beðið hann um að taka á móti henni ásamt meðákærða B. 

                Hinn 7. október 2008 skýrði ákærði B svo frá hjá lögreglu, að viðstöddum verjanda sínum, að hann hefði fengið afhentan miða með heimilisfangi og nafni og hann átt að sækja pakkasendingu með matvælum frá Póllandi. Ákærði kvaðst hafa hitt þann sem lét hann fá miðann í miðbænum viku áður og síðan aftur tveimur dögum síðar. Um aðila þá sem voru með ákærða er hann var handtekinn 6. október sagði ákærði að hann þekkti aðeins einn þeirra og hann héti Adam Maciek og væri pólskur. Þá taldi ákærði að annar aðili héti Robert. Hann væri frá Póllandi að því er ákærði hélt og A frá Lettlandi. Ákærði kvaðst hafa setið aftur í í bifreiðinni ásamt meðákærða A, Adam verið ökumaðurinn og Robert setið í framsæti farþegamegin. Aðspurður hvað hann hafi verið að gera í K kvaðst hann hafa verið að bíða eftir bíl frá Póstinum, en hann hafi átt að sækja pakka þarna. Ákærði vildi ekki tjá sig um það hver hefði látið hann fá miðann með heimilisfanginu. Ákærði kvaðst hafa hitt meðákærða A þarna fyrir utan, sem hafi komið með einhverjum strák sem ákærði hafi ekki þekkt. Ákærði sagði að hann hefði haldið að matvæli væru í sendingunni. Þá kom fram að ákærði hefði í apríl eða maí móttekið sendingu, en það hafi ekkert verið í tengslum við fíkniefni.

                Ákærði B var yfirheyrður á ný hjá lögreglu 10. október 2008 og kom þá fram að hann hafi átt að fá 20.000 krónur fyrir að sækja pakkann. Ákærði neitaði sem fyrr að segja hver hafi látið hann fá miðann og fyrirmæli um að sækja pakkann. Aðspurður hvort honum hefði ekki þótt grunsamlegt að vera boðnar 20.000 krónur fyrir að sækja pakka með matvælum sagði ákærði: „Ég var ekki að hugsa um það, mér var alveg sama.“ Ákærði kvaðst hafa farið á pósthús í Kópavogi fyrr um daginn, hinn 6. október, ásamt Adam og Robert, en verið greint frá því þar að pakkinn væri á leiðinni að K. Þeir hefðu þá farið þangað og ákærði verið skilinn eftir en hinir hafi farið að sækja meðákærða A því hann þekkti C. Það hafi komið pakki og meðákærði A farið og sótt pakkann og farið á bakvið húsið þar sem ákærði tók við pakkanum. Svo hefðu þeir farið í bílinn. Nánar um atvik sagði ákærði að hann hefði reynt að fá pakkann afhentan hjá póstburðarmanninum og sagst vera vinur C, en póstburðarmaðurinn ekki viljað afhenda hann og sagt að það þyrfti undirskrift þess aðila sem pakkinn tilheyrði. Þegar meðákærði A hafi séð að ákærði fékk ekki pakkann afhentan hafi meðákærði A farið á eftir póstburðarmanninum í stigaganginn og ákærði viti ekki hvað gerðist þar. Þá sagði ákærði að Robert eða Adam, hann muni ekki hvor þeirra, hefði sagt ákærða að meðákærði A myndi koma út bakdyramegin og að ákærði ætti að fara þangað að sækja pakkann. Ákærði sagði að annaðhvort Adam eða Robert hefðu hringt í hann fyrr um daginn og sagt honum að hitta þá í Breiðholti. Þeir hefðu svo farið á pósthúsið og síðan í K. Þá sagði ákærði að það hefði verið rætt við hann á föstudeginum áður um að sækja pakkann. Ákærði hafi átt að láta Adam og Robert fá pakkann. Aðspurður um sendingu sem hann hefði móttekið fyrr á árinu kvaðst ákærði ekki vilja greina frá því hverjum hann hefði afhent sendinguna vegna ótta. Ákærði sagði að hann hefði fengið 50.000 krónur fyrir að koma sendingunni til eiganda hennar. Þá sagði ákærði að það hafi verið Adam sem hafi beðið hann um að móttaka pakkann sem um ræðir í máli þessu, hinn 6. október, og boðið ákærða pening fyrir að móttaka hann. Það hafi verið á miðvikudeginum sem Adam hefði beðið ákærða um þetta og ákærði svo frétt á föstudeginum að pakkinn kæmi á mánudeginum. Aðspurður hvort það hafi þá verið Adam sem lét hann fá miðann svaraði ákærði játandi. Við yfirlestur lögregluskýrslunnar við lok yfirheyrslunnar vildi ákærði taka það fram að það hefði ekki verið Adam sem lét hann hafa miðann með heimilisfanginu. Ákærði hafi fengið miðann á föstudeginum um hálftíma áður en hann hitti Adam og Robert. Það hafi samt verið þeir sem sögðu honum að pakkinn kæmi á mánudeginum. Jafnframt sagði ákærði að sá sem lét hann fá miðann væri sá sami og átti fyrri sendinguna.

                Ákærði B var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 20. október 2008 og sýnd ljósmynd af meðákærða Arkadiusz Maciej Latkowski og sagði ákærði að þetta væri Adam. Ákærði neitaði að svara því hver hefði látið hann fá miðann með heimilisfanginu. Ekki er ástæða til að rekja nánar framburð ákærða við skýrslutökuna.

                Við yfirheyrslu hjá lögreglu 7. október 2008 kvaðst ákærði Arkadiusz Maciej Latkowski ekkert vita um þetta mál. Hann hefði bara verið bílstjóri, en einhver hefði beðið hann um að keyra á ákveðinn stað. Hann hefði gert það og þar hafi hann verið handtekinn. Kunningi ákærða, Greziek, sem hann hefði hitt á skemmtistað, hefði beðið ákærða um þetta. Aðspurður af hverju ákærði hefði reynt að komast undan lögreglu kvaðst hann hafa drukkið áfengi daginn áður og hafa verið hræddur um að missa ökuskírteinið. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um það hvar menn sátu í bifreiðinni. Þetta hefði verið honum algjört áfall og honum liðið mjög illa út af þessu og muni ekki neitt. Um ástæðu þess að hann hefði ekið hratt niður Á sagði ákærði að það hefði verið vegna þess að hann hefði drukkið daginn áður. Greziek hafi vitað af lögreglubifreiðinni og sagt ákærða að keyra svona hratt.

                Ákærði Arkadiusz Maciej var jafnframt yfirheyrður hjá lögreglu 13. október 2008 þar sem hann var spurður út í persónulega hagi sína og fjármál. Ákærði var einnig spurður nánar um atvik og framburður meðákærða B og meðákærða A borinn undir hann. Þá gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu 21. október 2008, en ekki er ástæða til að rekja efni hennar hér sérstaklega.

                Með úrskurði dómsins 7. október 2008 var ákærðu gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins til 14. október 2008. Gæsluvarðhaldi yfir ákærðu var framlengt hinn 14. október til 21. október 2008. Ákærðu var hinn 21. október bönnuð för frá Íslandi allt til 2. desember 2008. Farbanni ákærðu hefur svo verið framlengt.

II.

                Ákærði B lagði fram skriflega greinargerð í málinu. Í greinargerðinni kemur fram að ákærði byggi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að staðreyndir málsins renni engum stoðum undir þá staðhæfingu í ákæru að ákærða hafi mátt vera ljóst að pakkinn hefði að geyma nánar tilgreind fíkniefni ætluð til sölu hér á landi. Óumdeilt sé að ónafngreindur aðili hafi afhent ákærða miða, sem á hafi verið letrað nafn C og nánar tilgreint heimilisfang. Hafi ákærði átt að sækja pakka mánudaginn 6. október 2008 til þess aðila sem nafngreindur var á miðanum. Hafi ákærða verið tjáð að um pakka frá Póllandi væri að ræða með pólskar matvörur. Fyrir viðvikið hafi ákærða verið boðnar 20.000 krónur.

                Í þessu skyni hafi ákærði farið ásamt fleiri aðilum á bílnum RO-048 að K og vitjaði pakkans hjá skráðum móttakanda, C, en þann aðila hafi ákærði ekki þekkt. Því næst hafi ákærði komið pakkanum fyrir í bílnum og óskað eftir því að ökumaður bílsins keyrði hann að Kringlunni og ætlaði ákærði þaðan heim til sín, en lögregla hefði stöðvað bifreiðina að Á. Ökumaður og farþegi í framsæti bifreiðarinnar hafi reynt að flýja, en ákærði enga tilraun gert til slíks, enda hafi hann verið grandlaus um að pakkinn hefði að geyma fíkniefni.

                Sýni þessar staðreyndir skýrlega að staðhæfingar í ákæru, um að ákærða hafi mátt vera ljóst að í pakkanum væru fíkniefni ætluð til sölu, séu ekki réttar. Vitnisburðir annarra sakborninga í málinu renni heldur ekki stoðum undir þá staðhæfingu ákæruvaldsins.

                Ákærði telur það ekki á neinn hátt staðfesta meinta sekt hans að honum hafi verið lofað greiðslu fyrir að taka við umræddum pakka. Í þessu samhengi beri að hafa í huga að ákærði hafi aðeins verið 17 ára gamall þegar atvik máls áttu sér stað. Hann eigi engar eignir, sé atvinnulaus og búi í lítilli kjallaraíbúð ásamt móður sinni og tveimur bræðrum. Þegar aðili honum töluvert eldri hafi óskað þess að hann tæki að sér að sækja pakkann gegn 20.000 króna greiðslu hafi ákærði eðli máls samkvæmt tekið boðinu og hafi honum ekki þótt 20.000 krónur óeðlileg þóknun fyrir viðvikið. Hann hafi treyst umræddum aðila, litið upp til hans og hvorki haft þekkingu né ástæðu til að ætla að umræddur aðili væri að fá hann til þátttöku í alvarlegu refsiverðu broti.

                Hefði ákærði á einhvern hátt gert sér grein fyrir að í pakkanum væru 1.162,23 grömm af maríhúana hefði hann ekki orðið við beiðni viðkomandi aðila. Hvað sem því líði megi raunar telja augljóst að ákærði hefði krafist til muna hærri fjárhæðar en 20.000 króna ef honum hefði verið ljóst eða mátt vera ljóst að í pakkanum væri svo mikið magn fíkniefna, sem jafnframt væru ætluð til sölu hér á landi. Hefði hann þannig krafist hærri fjárhæðar ef honum hefði verið ljós, eða mátt vera ljós, sú mikla áhætta sem hann hafi verið að taka og mögulegar afleiðingar þess að hann ræki umbeðið erindi fyrir hinn ónafngreinda aðila. Ákærði hafi hins vegar enga ástæðu haft til að draga í efa upplýsingar sem hann hafi fengið frá hinum ónafngreinda aðila, um að í pakkanum væru matvæli frá Póllandi.

                Þá telur ákærði að við mat á gáleysi hans verði dómstóllinn að líta sérstaklega til ungs aldurs hans. Aðrir sakborningar í máli þessu og sá aðili sem hafi falið ákærða að sækja pakkann séu allir töluvert eldri en ákærði. Telur ákærði ljóst að sá aðili sem fékk ákærða til að sækja pakkann hafi þannig hugað sérstaklega að ungum aldri ákærða, reynsluleysi hans og vanþekkingu á fíkniefnamisferli og misnotað það traust sem ákærði bar til hans.

                Fari svo að ákærði verði sakfelldur fyrir verknað skv. I. lið ákærunnar telur ákærði að við ákvörðun refsingar beri að horfa til ungs aldurs ákærða, misnotkunar aðila á trausti ákærða og afar takmarkaðs þáttar ákærða í hinu meinta refsiverða broti. Vegna æsku hans verði enn fremur að álíta að full refsing sé bæði ónauðsynleg og skaðleg ákærða.

 Um lagarök er m.a. vísað til meginreglna sakamálaréttarfars og laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, allt eftir því sem við á. Krafa um málsvarnarlaun til handa verjanda styðst jafnframt við ákvæði sömu laga.

III.

                Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

                Ákærði Arkadiusz Maciej Latkowski sagði að Grzesiek vinur hans hefði beðið hann um að keyra sig og það væri það eina sem hann viti um þetta mál. Aðspurður hvaðan þeir hefðu komið kvaðst ákærði ekki muna það, en hann sé ekki vel kunnugur staðháttum hér á landi. Ákærði sagði að vinkona hans ætti bifreiðina sem hann var á og með í för hafi verið Grzesiek, meðákærði A og meðákærði B. Ákærði hefði fyrst náð í Grzesiek, svo hefðu þeir sótt B og næst A, en Grzesiek hefði leiðbeint ákærða með hvert hann ætti að fara. Ákærði kvaðst hafa kynnst þeim á skemmtistöðum. Ákærði sagði að hann hefði ekki vitað tilgang ferðarinnar og ekki verið rætt um það í bifreiðinni. Hann hefði verið beðinn um að keyra þá og fundist það eðlilegt án þess að spyrja út í ástæðu þess. Ákærði kvaðst hafa beðið í bifreiðinni við K en meðákærði B og meðákærði A hefðu farið út. Grzesiek hefði einnig farið út úr bifreiðinni en ekki farið langt frá henni. Ákærði sagði að hann hefði ekki fylgst sérstaklega með þeim og ekki tekið eftir umferð þarna. Meðákærði B og meðákærði A hefðu svo komið aftur í bifreiðina og ákærði ekið af stað, en lögreglan stöðvað þá skömmu síðar. Ákærði sagði að hann hefði reynt að flýja lögregluna þar sem hann hefði verið hræddur um að missa ökuréttindi sín, en hann hefði drukkið áfengi daginn áður. Borinn var undir ákærða framburður meðákærða A hjá lögreglu þess efnis að ákærði hefði beðið hann um að sækja pakka sem hefði óvart verið sendur á félaga meðákærða A og sagði ákærði að þetta væri ekki rétt. Þá neitaði ákærði því að hafa haft símasamband við einhvern meðákærðu eða Grzesiek meðan hann beið í bifreiðinni við K. Ákærði neitaði því að tengjast á einhvern hátt innflutningi þeirra fíkniefna sem í ákæru greinir. 

                Þegar ákærði B var beðinn um að greina frá atvikum umræddan dag kvaðst hann ekki muna vel hvað hefði gerst þennan dag. Ákærði sagði að hann hefði farið að K með A, Maciej og einum öðrum manni. Þeir hefðu tekið við pakka og lögregla svo stöðvað þá. Inntur eftir því hvort ákærði hafi þekkt þá sem hann fór með þennan dag sagði ákærði að hann hefði ekki gert það, eða mjög lítið. Ákærða var fyrir dómi sýnd mynd af meðákærða Arkadiusz Maciej Latkowski og sagði ákærði að þetta væri Maciej og hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar. Ákærði vildi ekki greina frá því hver hefði afhent honum miða með nafni og heimilisfangi C vegna ótta við afleiðingar þess. Aðspurður hvenær ákærði hefði fengið miðann afhentan sagði hann það hafa verið löngu áður. Ákærði sagði einnig að hann hefði ekki spurt hvað væri í pakkanum. Hann hafi átt að fá 20.000 krónur fyrir að ná í pakkann. Á þessum tíma hafi hann ekki átt peninga og verið í fjárhagslegum vandræðum. Hann hefði ekki grunað að neitt ólöglegt væri í pakkanum. Sá sem hefði beðið hann um þetta hefði ekki litið út fyrir að stunda neitt ólöglegt. Aðspurður hvort ákærða hafi ekkert fundist óvenjulegt við að ókunnug manneskja léti hann fá miða og beðið hann um að sækja pakka gegn 20.000 króna greiðslu sagði ákærði að hann væri ungur og í fjárhagslegum vandræðum og ekki séð ástæðu til annars en að segja já við þeirri beiðni. Aðspurður hvort ákærði hafi áður tekið við erlendri sendingu neitaði ákærði að hafa gert það. Var þá borinn undir ákærða framburður hans hjá lögreglu 10. október 2008 um að hann hefði tekið við sendingu gegn 50.000 króna greiðslu og vildi ákærði ekki tjá sig um þetta. Borið var undir ákærða misræmi hvað þetta varðar í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi og sagði ákærði að hann hefði verið búinn að vera í tvær vikur í einangrun. Hann hafi verið mjög þreyttur og viljað ljúka þessu og því kannski sagt eitthvað. Ákærða var bent á að hann hefði gefið skýrslu sína hjá lögreglu fjórum dögum eftir handtöku hans og sagði ákærði þá að móðir hans hefði eitt sinn fengið pakka frá Póllandi og kannski hafi hann ruglað þessu saman hjá lögreglu. Hann viti ekki af hverju hann hefði nefnt 50.000 króna greiðslu. Inntur eftir ástæðu þess að þrír menn hafi þurft að fara með honum að sækja pakkann hinn 6. október 2008 sagðist ákærði ekki vita af hverju. Hann hefði ekki verið á bíl og þeir hefðu keyrt hann. Ákærði sagði að kannski hefðu einhverjir beðið þá um að keyra hann. Öll samskipti hefðu verið í gegnum eina manneskju, þá sem lét ákærða fá miðann og sagt að einhver myndi koma og sækja hann. Ákærði sagði að með í bílnum sem fór að K hafi verið Maciej og annar maður sem hann viti ekki hvað heiti. Ákærði kvaðst hafa farið ásamt meðákærða A út úr bifreiðinni við K og farið inn í stigagang og náð í pakka og farið aftur í bifreiðina. Ákærði kvaðst ekki hafa haft samskipti við póstburðarmann sem kom með pakkann. Borið var undir ákærða að samkvæmt lögregluskýrslu sem fyrir liggur í málinu hafi hann óskað eftir því að fá pakkann afhentan og kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa gert það. Um ástæðu þess að ákærði hefði farið á bak við húsið sagði ákærði að það hefði ekki verið nein ástæða fyrir því. Inntur eftir því hvort ákærði hefði farið á pósthús fyrr um daginn kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa gert það. Var þá borinn undir ákærða framburður hans hjá lögreglu um að hann hefði farið á pósthúsið og spurt um pakkann en verið sagt að hann væri á leið í K. Ákærði svaraði því til að hann muni þetta ekki. Aðspurður hvort það hafi verið meðákærði Arkadiusz Maciej sem lét hann hafa framangreindan miða sagði ákærði að það hefði ekki verið hann.

                Ákærði A greindi frá því að hann hefði verið heima hjá sér umræddan dag þegar hann hafi fengið símhringingu og verið sagt að pakki hefði verið sendur á rangt heimilisfang. Ákærði hafi verið beðinn um að fara og sækja pakkann og koma honum í réttar hendur. Maciej hefði sótt ákærða. Aðspurður hver það hafi verið sem hringdi í ákærða sagði ákærði að það hefði verið Maciej. Ákærði kvaðst hafa verið beðinn um að sækja pakka til vinar síns, en pakkinn hefði verið sendur til hans fyrir mistök. Ákærði hafi svo átt að láta meðákærða B fá pakkann. Ákærði kvaðst hafa hitt C fyrir utan K og sagt við hann að pakki hefði fyrir mistök verið sendur á hann og beðið um að fá pakkann. Þeir hefðu farið inn í stigaganginn og póstburðarmaðurinn afhent C pakkann og ákærði svo tekið við honum og látið meðákærða B fá hann. Ákærði kvaðst hafa fengið fyrirmæli frá einhverjum sem var í bifreiðinni við K um afhendingu á pakkanum, en ákærði hefði ekki þekkt á röddinni hver þetta var. Um hagi sína sagði ákærði að hann væri í vinnu og hann neytti nú ekki áfengis eða vímuefna.

                Vitnið C sagði að hann hafi verið að koma úr vinnu umræddan dag og verið fyrir utan heimili sitt þegar hann hafi mætt ákærða A. Ákærði hefði sagt að pakki væri að koma til hans og rétt á eftir hefði komið póstbíll með pakka sem vitnið tók á móti, kvittaði fyrir og afhenti ákærða sem fór með hann út. Vitnið kvaðst svo hafa farið í burtu og komið stuttu síðar aftur og þá hafi lögreglumenn beðið eftir honum. Vitnið sagði að ákærði hefði hringt um fimm mínútum áður en vitnið kom heim og sagt að hann þyrfti að hitta vitnið. Þá kom fram að póstkassi vitnisins hefði verið brotinn upp um viku áður og taldi vitnið að það hafi verið gert í þeim tilgangi að ná í tilkynningu um sendinguna. Vitnið sagði að einhvern tímann hefði komið til tals að hann tæki við sendingu en hann hefði ekki samþykkt slíkt.

                Vitnið Eiríkur Valberg rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa afhent pakkann umræddan dag við K og verið klæddur í einkennisföt Póstsins. Ákærði B hefði komið að honum og spurt hvort hann væri með pakka til C og viljað fá hann afhentan. Vitnið hafi ekki viljað afhenda ákærða pakkann og hafi ákærði þá hringt símtal og þrír menn strax komið þarna að og vitnið afhent skráðum viðtakanda pakkann.

                Vitnið Kjartan Ægir Kristinsson rannsóknarlögreglumaður greindi frá því að hann hefði verið á eftirlitsbíl ásamt Jóni Gunnari Sigurgeirssyni rannsóknar­lögreglumanni umræddan dag fyrir utan K. Þeir hefðu verið fyrir aftan húsið þegar tveir menn komu út úr húsinu bakatil og settust inn í bifreið. Þeir sem voru í bifreiðinni hefðu greinilega tekið eftir lögreglumönnunum því henni var ekið mjög hratt. Við enda götunnar, sem var botngata, hafi bifreiðin verið stöðvuð og ökumaður og farþegi í framsæti hlaupið hvor í sína áttina. Vitnið kvaðst hafa hlaupið á eftir ökumanninum dágóða stund og lent í átökum við hann í bakgarði.

                Vitnið Jón Gunnar Sigurgeirsson rannsóknarlögreglumaður skýrði frá því að hann hefði séð menn með pakka ganga að bifreið sem var ekið af stað. Vitnið hefði elt bifreiðina, en bifreiðinni hafi verið ekið hratt niður botngötu. Vitnið kvaðst hafa séð um að handtaka þá sem sátu aftur í í bifreiðinni, en Kjartan Ægir rannsóknarlögreglumaður hafi hlaupið á eftir hinum. Vitnið sagði að þeir sem hann handtók hefðu ekki sýnt mótspyrnu en vitnið hafi haft kylfu og „mace“ brúsa í höndunum.

                Vitnið Jens Gunnarsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa tekið við pakkanum hjá tollinum og farið með hann á tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður sagði vitnið að það hefði verið vel gengið frá fíkniefnunum í sendingunni. Þá var vitnið innt eftir því hvort söluverð á einu grammi af maríhúana væri 3.300 krónur og söluverð fíkniefnanna í sendingunni væri þá fjórar milljónir króna og sagði vitnið að það gæti staðist.

                Vitnið Húnbogi Jóhannsson rannsóknarlögreglumaður greindi frá því að kannað hefði verið hvort ákærðu hefðu áður fengið erlendar sendingar og komið hafi í ljós að tveir ákærðu hefðu móttekið sendingu. Annar þeirra hefði verið ákærði B og hann hefði greint frá því við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa fengið greitt fyrir að móttaka sendinguna.

IV.

1. töluliður ákæru.

                Ákærðu neita allir sök. Eins og rakið hefur verið fannst við eftirlit tollstjórans í Reykjavík hinn 3. október 2008 póstsending með ætluðum fíkniefnum. Lögreglan fjarlægði efnin og ákveðið var að afhenda póstsendinguna á heimilisfang skráðs viðtakanda að K í Kópavogi hinn 6. október. Á vettvangi voru allir ákærðu og maður sem komst undan lögreglu og ekki er vitað deili á. Ákærði Arkadiusz Maciej kallar hann Grzesiek en ákærði B sagði hjá lögreglu að hann heiti Robert. Vitnið C, skráður viðtakandi pakkans, hefur lýst því að ákærði A hefði hringt í vitnið er hann var á heimleið og viljað hitta hann. Í þann mund sem vitnið kom heim hafi póstbifreið komið og afhent vitninu pakka sem vitnið hafði ekki vitneskju um og ákærði A vildi fá. Ákærði A lét svo ákærða B hafa pakkann og fóru þeir bakdyramegin út úr húsinu og aftur í bifreiðina sem þeir komu á. Þeir settust í aftursæti bifreiðarinnar, ákærði Arkadiusz Maciej var ökumaður og við hlið hans fjórði maðurinn. Lögreglumenn veittu bifreiðinni eftirför og var henni skyndilega ekið mjög hratt. Bifreiðin var stöðvuð í Á og hljóp ákærði Arkadiusz Maciej á brott og farþeginn í framsætinu. Lögreglu­maðurinn elti ákærða Arkadiusz Maciej uppi og var hann handtekinn eftir nokkur átök. Farþeginn sem var í framsæti farþegamegin komst undan lögreglu.

                Framburður ákærða B hefur verið reikull og er mikið misræmi í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi. Er þetta til þess fallið að gera framburð ákærða afar ótrúverðugan. Hjá lögreglu greindi hann frá því að hafa fengið afhentan miða með nafni og heimilisfangi og átt að sækja pakka með matvælum frá Póllandi. Þrír menn hafi verið með honum umræddan dag er hann sótti pakkann og hann þekki aðeins einn þeirra, „Adam Maciek“. Ljóst er að ákærði á við meðákærða Arkadiusz Maciej. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði B hafa reynt að fá pakkann afhentan í K frá þeim sem var á póstbifreiðinni, en það ekki gengið og er það í samræmi við vitnisburð Eiríks Valbergs rannsóknarlögreglumanns fyrir dómi. Fyrir dómi kvaðst ákærði hins vegar ekki muna eftir að hafa gert það. Jafnframt kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa farið á pósthús fyrr um daginn í því skyni að sækja umrædda sendingu, eins og hann hafði greint frá hjá lögreglu. Þá er ósamræmi í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi um það hvort hann hafi fyrr á árinu móttekið erlenda sendingu. Hjá lögreglu kvaðst hann hafa fengið 50.000 krónur fyrir að taka á móti sendingu, en fyrir dómi neitaði ákærði hins vegar að hafa gert slíkt. Skýringar ákærða á þessu misræmi í framburði sínum, um að hann hafi verið búinn að vera í einangrun í tvær vikur, fá ekki staðist. Jafnframt hefur framburður ákærða verið misvísandi með það hvort það hafi verið meðákærði Arkadiusz Maciej sem lét hann fá framangreindan miða eða ekki og hvenær það var. Óumdeilt er að ákærði átti að fá 20.000 krónur fyrir að sækja umræddan pakka. Að þessu virtu og með hliðsjón af undarlegu umstangi við að sækja pakkann, með þremur mönnum sem hann þekkti ekkert eða lítið, verður að telja að ákærði hafi vitað eða mátt vita að sendingin innihélt fíkniefni. Því var haldið fram við aðalmeðferð málsins að vafi léki á því að í pakkanum hafi verið maríhúana, en ekki liggi fyrir matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði um rannsókn á efninu. Í gögnum málsins liggur fyrir efnaskýrsla tæknideildar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og er ekki ástæða til að vefengja niðurstöðu rannsóknar lögreglunnar um að þetta hafi verið maríhúana. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. tölulið ákæru og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

                Fyrir dómi sagði ákærði A að það hafi verið meðákærði Arkadiusz Maciej sem hringdi í hann og sagði að sending hefði farið til vinar ákærða fyrir mistök og ákærði hafi átt að sækja pakkann og koma honum í réttar hendur. Meðákærði Arkadiusz Maciej hafi sótt ákærða heim til hans á Rauðarárstíg og vinur meðákærða verið með í för. Þeir hafi farið að K og hitt þar C sem fékk pakkann afhentan. C hafi svo látið ákærða fá pakkann sem aftur lét meðákærða B fá hann. Ákærði segir að hann hafi fengið fyrirmæli frá þeim sem beið í bifreiðinni um hvað hann ætti að gera. Ákærði fór svo ásamt meðákærða B bakdyramegin út úr húsinu og aftur í bifreiðina sem þeir komu á. Ákærði greindi frá því hjá lögreglu að hann hefði fyrr rætt um það við C að móttaka fíkniefnasendingu eftir að meðákærði Maciej hefði rætt það við ákærða, en ekkert orðið af því. Að þessu virtu og þeim aðferðum sem viðhafðar voru við að sækja pakkann verður að telja að ákærða hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að um fíkniefnasendingu var að ræða og ber því að sakfella hann fyrir brot það sem honum er gefið að sök í 1. tölulið ákæru og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði Arkadiusz Maciej sagði fyrir dómi að hann hefði enga vitneskju um mál þetta. Vinur hans að nafni Grzesiek hafi beðið hann um að fara með sér að K og þeir sótt meðákærða A og meðákærða B. Ákærði hafi ekki vitað tilgang ferðarinnar og beðið í bifreiðinni við K en hinir farið út úr bifreiðinni. Ákærði segir að hann hafi ekki fylgst sérstaklega með því hvað meðákærðu hafi verið að gera þarna. Framburður ákærða um aðdraganda ferðarinnar stangast á við framburð annarra ákærðu í málinu. Um ástæðu þess að ákærði flúði undan lögreglu segir hann að það hafi verið vegna þess að hann hafi drukkið áfengi daginn áður og óttast að missa ökuréttindi sín. Verður að telja það með miklum ólíkindum að ákærði, sem var handtekinn seinnipart dags, hafi lagt á flótta frá lögreglu og lent í átökum við lögreglumann vegna þess að hann hafi drukkið áfengi daginn áður og eru skýringar hans ótrúverðugar. Telja verður sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Brot hans varðar við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með áorðnum breytingum.

2. töluliður ákæru.

                Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

V.

                Ákærði A er fæddur í desember 1985. Samkvæmt upplýsingum sem lögregla aflaði erlendis frá hlaut ákærði dóm í Lettlandi 7. apríl 2004 fyrir aðild að ráni og var dæmdur í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára. Samkvæmt sakavottorði hans hérlendis var hann dæmdur hinn 26. mars 2008 til að greiða sekt fyrir umferðarlagabrot. Þá var hann sviptur ökurétti í 18 mánuði frá 16. apríl 2008. Með dómi 4. júní 2008 var ákærði dæmdur til að greiða sekt fyrir umferðarlagabrot og sviptur ökurétti í eitt ár frá 26. september 2009. Um var að ræða hegningarauka. Þá var ákærði með dómi 12. desember 2008 dæmdur til að greiða sekt fyrir umferðarlagabrot og sviptur ökurétti í tvö ár frá 26. september 2010. Brot ákærða sem hann er nú sakfelldur fyrir var framið fyrir dóminn 12. desember 2008 og ber því að dæma honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. laganna. Ákærði hefur játað brot sitt skv. 2. tölulið ákærunnar. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brot skv. 1. tölulið ákærunnar er framið í félagið við aðra, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af því magni fíkniefna sem um ræðir þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Vegna alvarleika brots ákærða skv. 1. tölulið ákæru þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans. Til frádráttar fullnustu refsingar komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 7.-21. október 2008, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði Arkadiusz Maciej Latkowski er fæddur í febrúar 1980. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi hér á landi, en lögregla aflaði upplýsinga um brotaferil ákærða erlendis og er hann á skrá hjá Interpol fyrir ofbeldi, hótanir og nauðgun. Við ákvörðun refsingar ber að líta til magns fíkniefna sem hér um ræðir og þess að brotið er framið í félagið við aðra, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Vegna alvarleika brotsins er ekki unnt að skilorðsbinda refsingu ákærða. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 7.-21. október 2008.

                Ákærði B er fæddur í desember 1990. Samkvæmt saka­vottorði hans hlaut hann hinn 7. maí 2008 eins mánaðar skilorðsbundinn dóm fyrir þjófnað og fjársvik. Með dómi 12. desember 2008 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot, en dómurinn frá 7. maí 2008 var dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið fyrir dóminn 12. desember 2008 og ber nú að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, en framangreindur dómur er dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði er ungur að aldri. Á móti kemur að brotið er framið í félagið við aðra, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá er um mikið magn fíkniefna að ræða. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Ekki standa rök til þess að ætla að refsing sé ónauðsynleg eða skaðleg ákærða, eins og ákærði heldur fram. Með hliðsjón af ungum aldri ákærða þykir hins vegar rétt að skilorðsbinda refsingu að hluta með heimild í 1. mgr. 57. gr. a almennra hegningarlaga, þannig að fjórir mánuðir af dæmdri refsingu falli niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, enda haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Til frádráttar fullnustu refsingar komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 7.-21. október 2008.

VI.

                Af hálfu ákærða B er þess krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Við aðalmeðferð málsins var þetta rökstutt með vísan til þess að kröfu um greiðslu sakarkostnaðar væri ekki getið í ákæru, sbr. e-liður 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæra í málinu var gefin út 30. desember 2008, fyrir gildistöku laganna, og verður sakarkostnaðar því ekki felldur á ríkissjóð af þeirri ástæðu að þess sé ekki getið í ákæru.

                Með vísan til 219. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er um að ræða kostnað vegna matsgerðar Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, samtals 155.225 krónur. Þóknun verjanda ákærða A þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 861.042 krónur. Þóknun verjanda ákærða Arkadiusz Maciej Latkowski þykir hæfilega ákveðin 800.000 krónur. Þá ákveðst þóknun verjanda B, með hliðsjón af tímaskýrslu og viðmiðunarreglum dómstólaráðs, 759.948 krónur. Við ákvörðun þóknunar verjenda hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts og vinnu þeirra á rannsóknarstigi.

                Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir.

D ó m s o r ð:

                Ákærði A sæti fangelsi í fimm mánuði.

                Ákærði Arkadiusz Maciej Latkowski sæti fangelsi í fjóra mánuði.

                Ákærði B sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu fjögurra mánaða þeirrar refsingar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Til frádráttar refsingum ákærðu komi gæsluvarðhald sem þeir hafa sætt frá 7.-21. október 2008.

                Ákærðu sæti upptöku á 1.162,23 grömmum af maríhúana og ákærði A sæti jafnframt upptöku á 196,87 grömmum af hassi og 1,01 grammi af amfetamíni.

                Ákærði A greiði í sakarkostnað 861.042 króna þóknun verjanda síns, Ingimars Ingimarssonar héraðsdómslögmanns. Ákærði Arkadiusz Maciej greiði í sakarkostnað 800.000 króna þóknun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæsta­réttarlögmanns, og ákærði B greiði 759.948 krónur sem er þóknun verjanda hans, Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur. Annan sakarkostnað, 155.225 krónur, greiði ákærðu óskipt.