Hæstiréttur íslands

Mál nr. 304/2009


Lykilorð

  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009.

Nr. 304/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson settur saksóknari)

gegn

Sigurði Ágústi Sigurðssyni

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Umferðarlagabrot. Ökuréttarsvipting.                     

S var ákærður fyrir brot gegn 3., sbr. 2. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með því að hafa neitað að láta lögreglu í té þvagsýni í þágu rannsóknar á ætluðu umferðarlagabroti hans. Í dómi Hæstaréttar kom fram að lögreglu hefði verið rétt við yfirheyrslu að gera ákærða grein fyrir því hvaða viðurlögum það kynni að varða ef hann léti ekki í té þvagsýni til rannsóknar og að þau kynnu að verða þyngri ef slíkt sýni yrði ekki gefið. Á hinn bóginn var ekki talið að ákærði losnaði undan refsiábyrgð á synjun sinni af þeirri ástæðu einni að honum hafi ekki verið veitta leiðbeiningar um þetta. Var S því sakfelldur fyrir ofangreint umferðarlagabrot og sviptur ökurétti samkvæmt 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og tímalengd ökuréttarsviptingar, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins vegna ætlaðs umferðarlagabrots hans.

Af hálfu Íslandsbanka hf., sem kemur í stað Glitnis banka hf., er gerð sú krafa að ákvæði hins áfrýjaða dóms um bætur til hans verði staðfest.

Fyrir Hæstarétti er einungis deilt um ætlað umferðarlagabrot ákærða 24. júní 2008 og ákvörðun viðurlaga fyrir það.

Að beiðni ákærða féllst Héraðsdómur Vestfjarða með úrskurði 28. maí 2009 á að fresta framkvæmd ökuréttarsviptingar samkvæmt hinum áfrýjaða dómi vegna áfrýjunar hans.

Ákærði var í Héraðsdómi Suðurlands 24. apríl 2009 dæmdur til greiðslu sektar vegna umferðarlagabrots og sviptur ökurétti í ,,fjóra mánuði frá 9. mars 2010 að telja.“

Í kjölfar aksturs ákærða var tekin skýrsla af honum að viðstaddri móður hans á lögreglustöð vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Rituðu ákærði og móðir hans bæði undir skýrsluna. Í henni kemur fram að honum hafi verið gerð grein fyrir  því að honum væri óskylt að tjá sig um sakarefnið, en ef hann kysi að gera það væri hann áminntur um sannsögli. Jafnframt kemur fram að honum sé kynnt að ,,hann eigi rétt á aðstoð verjanda á öllum stigum málsins.“ Lögreglu var við þessar aðstæður rétt að gera ákærða grein fyrir því hvaða viðurlögum það kynni að varða ef hann ekki léti í té þvagsýni til rannsóknar og að þau kynnu að verða þyngri en ef slíkt sýni yrði látið í té. Það verður á hinn bóginn ekki talið að ákærði losni undan refsiábyrgð á synjun sinni af þeirri ástæðu að honum voru ekki veittar leiðbeiningar um þetta. 

Ákærða var samkvæmt 3., sbr. 2. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skylt að láta í té þvagsýni í þágu rannsóknar á ætluðu umferðarlagabroti. Með því að neita að sinna þessari skyldu hefur hann unnið til þeirrar sviptingar ökuréttar, sem getur í 2. mgr. 102. gr. laganna og tilgreind er í héraðsdómi.

Með þessum athugasemdum, en öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Vegna frestunar ökuréttarsviptingar, sem getið er að framan, og áðurnefnds dóms Héraðsdóms Suðurlands, verður sá hluti ökuréttarsviptingar sem frestað hefur verið hagað eins og í dómsorði greinir.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Við ákvörðun þóknunar verjandans hefur verið litið til starfa hans vegna kröfu um frestun á ökuréttarsviptingu.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Ökuréttarsviptingu ákærða, Sigurðar Ágústs Sigurðssonar, skal haga svo að hann sé sviptur ökurétti frá 26. nóvember 2009 til 9. mars 2010 og frá 9. júlí 2010 til 31. desember 2010.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 270.955 krónur þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 29. janúar 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. desember sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 26. ágúst 2008 á hendur ákærða, Sigurði Ágústi Sigurðssyni, kt. 290191-2119, Aðalstræti 22, Ísafirði, fyrir:

I.

Eignaspjöll, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 15. maí 2008, slegið með krepptum hnefa í skjágler í hraðbanka Glitnis við Hafnarstræti 1, Ísafirði, með þeim afleiðingum að hún (sic) brotnaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 50/1940.

II.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 24. júní 2008, á lögreglustöðinni á Ísafirði, Hafnarstræti 1, neitað að láta lögreglu í té þvagsýni og þannig neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls á ætluðu broti hans fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. og 3. mgr. 47. gr., sbr. 1. mgr., sbr. 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, 186. gr. laga nr. 82/1998 og 7. gr. laga nr. 84/2004.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og nr. 66/2006.

Í ákærulið I. gerir Glitnir banki hf., kt. 550500-3530, kröfu um greiðslu bóta að fjárhæð kr. 197.813, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 15. maí 2008 til greiðsludags, og dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá 23. júní 2008 til greiðsludags, auk virðisaukaskatts.

Með ákæru 26. ágúst 2008 var sakamál, sem fékk númerið S-72/2008 hjá dómnum, höfðað gegn ákærða, A og B;

fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot framin á Ísafirði og í Hnífsdal:

I.

Með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 16. apríl 2008, stolið 5 ljóskösturum af bifreiðinni UU 412 í eigu AÓA útgerð ehf., kt. 610900-2240, þar sem hún stóð við Ásgeirsgötu á Ísafirði, samtals að verðmæti kr. 150.000.

II.

Með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 16. apríl 2008, stolið 6 ljóskösturum af bifreiðinni  PY 327 í eigu Orkubús Vestfjarða, kt. 660877-0299, þar sem hún stóð við Stekka í Hnífsdal, samtals að verðmæti um kr. 90.000.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Í málinu gerir AÓA útgerð ehf. kt. 610900-2240, kröfu um greiðslu bóta að fjárhæð kr. 50.000.- auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 16. apríl 2008 til greiðsludags, og dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga.

I.

Við þingfestingu máls þessa 17. september 2008 kom ákærði, sem fæddur er árið 1991, fyrir dóm ásamt móður sinni. Óskaði ákærði eftir því að Sveinn Andri Sveinsson hrl. yrði skipaður verjandi hans í málinu og varð dómari við þeirri ósk. Dómari fór því næst yfir efni ákæruskjals. Upplýsti ákærði að hann hefði fyrir þinghaldið ráðfært sig við verjanda sinn og sagðist reiðubúinn til þess að tjá sig um sakargiftir þó svo verjandinn væri ekki mættur. Kvaðst ákærði játa sakargiftir samkvæmt I. tölulið ákæru en hafna bótakröfu Glitnis banka hf. sem of hárri. Hann neitaði hins vegar sök samkvæmt II. tölulið ákærunnar, en tók þó fram að hann gerði ekki athugasemd við lýsingu málsatvika í ákæruliðnum.

Síðar sama dag var mál nr. S-72/2008 þingfest og sótti ákærði þá einnig þing ásamt móður sinni. Óskaði ákærði, líkt og áður, eftir skipun Sveins Andra Sveinssonar hrl. sem verjanda og varð dómari við þeirri ósk. Eftir að dómari hafði farið yfir sakargiftir játaði ákærði, sem og meðákærðu í umræddu máli, A og B, sök samkvæmt báðum töluliðum ákæru, sem bornir voru undir ákærðu hvor fyrir sig.

Í þinghaldi 24. september sl. var þáttur meðákærðu A og B í máli nr. S-72/2008 sameinaður máli nr. S-73/2008, en þáttur ákærða í málinu sameinaður máli þessu. Var dómur kveðinn upp í máli nr. S-73/2008 hinn 14. október 2008 og meðákærðu sakfelldir á grundvelli játningar þeirra.

Ákærði krefst þess í málinu að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að kröfu ákæruvalds um sviptingu ökuréttar verði hafnað. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa úr ríkissjóði.

II.

A.

Aðalmeðferð fór fram í máli þessu 5. desember sl. og sótti ákærði þá ekki þing. Upplýsti skipaður verjandi ákærða, Sveinn Andri Sveinsson hrl., að ákærða væri kunnugt um þinghaldið en að hann hefði, að höfðu samráði við verjanda, talið ástæðulaust að mæta til þess í ljósi þeirrar afstöðu sem eftir honum var bókuð í þinghöldum 17. september sl. í máli þessu og máli nr. S-72/2008. Vísaði verjandi til þess að fyrir lægi að ákærði hefði játað aðrar sakargiftir samkvæmt fyrirliggjandi tveimur ákærum en þær er lytu að meintu broti hans á 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hvað þær sakargiftir varðaði hefði ákærði þó tekið fram að hann gerði ekki athugasemdir við lýsingu málsatvika í ákærulið þeim sem til þeirra tæki.

Við aðalmeðferð málsins vísaði verjandi ákærða annars vegar til þess að ákærði hefði veitt fullnægjandi atbeina við rannsókn málsins með því að gefa blóðsýni. Hins vegar vísaði verjandi til þess að ákvæði 3. mgr. 47. gr., sbr. 2. mgr. 102. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 stæðist ekki mannréttindaákvæði. Sakborningar mættu neita að tjá sig, þeim yrði ekki gert að varpa á sig sök.

Sækjandi hafnaði þessum málatilbúnaði ákærða og sagði ákvæði 1., 2. og 3. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 standast mannréttindaákvæði. Vísaði hann í því sambandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 15809/02 og 25624/02 frá 29. júní 2007.

B.

Í ákærulið þeim sem hér um ræðir er ákærða gefið að sök umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 24. júní 2008, á lögreglustöðinni á Ísafirði, Hafnarstræti 1, neitað að láta lögreglu í té þvagsýni og þannig neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls á ætluðu broti hans fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Skv. 2. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 getur lögreglan fært ökumann til rannsóknar á öndunar-, svita- og munnvatnssýni eða til blóð- og þvagrannsóknar ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum 2. eða 4. mgr. 44. gr., 45. gr. eða 45. gr. a eða hann neitar lögreglunni um að gangast undir öndunarpróf eða láta í té svita- eða munnvatnssýni eða er ófær um það. Liggi fyrir grunur um önnur brot en akstur undir áhrifum áfengis getur lögreglan auk þess fært ökumann til læknisskoðunar. Þá segir í lokamálslið 3. mgr. 47. gr. að ökumanni sé skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við rannsókn skv. 2. mgr.

Svo sem áður er rakið neitaði ákærði sök samkvæmt umræddum ákærulið við þingfestingu málsins, en tók þó fram að hann gerði ekki athugasemd við lýsingu málsatvika í ákæruliðnum. Sú yfirlýsing ákærða er í fullu samræmi við framlögð rannsóknargögn, bæði frumskýrslu lögreglu og framburðarskýrslu sem lögregla tók af ákærða, en í þeim gögnum kemur skýrlega fram að ákærði hafi neitað að gefa þvagsýni vegna málsins. Þá verður af orðum 2. og 3. mgr. 47. gr. umferðarlaga ekki með nokkru móti ráðið að ákærða hafi verið rétt að neita að láta lögreglu í té þvagsýni, og þannig neita að hlíta þeirri meðferð sem lögregla taldi nauðsynlega við rannsókn skv. 2. mgr., af þeirri ástæðu einni að hann hafi þegar verið búinn að gefa blóðsýni. Sá málatilbúnaður ákærða sem að þessu lýtur, og rakinn er í kafla II A hér að framan, er því haldlaus með öllu.

Fyrir liggur að ástæða afskipta lögreglu af ákærða 24. júní 2008 var hraðakstur hans eftir Vestfjarðavegi. Þá er upplýst að á vettvangi gaf ákærði lögreglu upplýsingar um fíkniefnaneyslu sína nokkru áður og vaknaði við það rökstuddur grunur lögreglu um að ákærði hefði ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega í skilningi 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 254/2008 og 260/2008 sem kveðnir voru upp 19. júní sl.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/991 um meðferð opinberra mála, nú 2. mgr. 64. gr. og 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008, er sakborningi óskylt á öllum stigum sakamáls að svara spurningum sem varða refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök. Þá skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt var lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994. Er almennt viðurkennt að réttur sakaðra manna til að neita að tjá sig um sakarefnið og að varpa ekki á sig sök sé einn grundvallarþáttanna í ákvæði 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um rétt manna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Það liggur hins vegar fyrir að Mannréttinda­dómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði eins og um ræðir í 47. gr. umferðarlaga brjóti ekki gegn þeim réttindum sem 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er ætlað að tryggja, sbr. t.d. ákvörðun dómstólsins í máli nr. 43486/98 frá 15. júní 1999. Samkvæmt því og að framangreindum atvikum virtum verður ekki talið að ákvæði 3. mgr. 47. gr., sbr. 2. mgr. 102. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 fari í bága við réttindi ákærða sem varin eru af stjórnlögum. Ákærði verður því sakfelldur fyrir brot gegn 3. mgr., sbr. 2. mgr., 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en tilvísun ákæruvalds til 1. mgr. þeirrar greinar þykir ekki eiga við í málinu.

III.

Svo sem rakið er í kafla I kom ákærði fyrir dóm 17. september sl. og játaði þjófnaðarbrot sín samkvæmt báðum töluliðum ákæru frá 26. ágúst 2008, upphaflega mál dómsins nr. S-72/2008. Þá játaði hann einnig sama dag að hafa gerst sekur um eignaspjöll með því að hafa slegið með krepptum hnefa í skjágler á hraðbanka Glitnis banka hf. með þeim afleiðingum að glerið brotnaði, sbr. I. tölulið ákæru lögreglustjóra sem gefin var út sama dag. Samrýmast játningar ákærða gögnum málsins og þykja því vera efni til að leggja dóm á málið að þessu leyti á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991, nú 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008.

Ljóst er að þjófnaðarbrot ákærða 16. apríl 2008 varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá eru eignaspjöll ákærða réttilega heimfærð til 1. mgr. 257. gr. laganna í ákæru lögreglustjóra. Samkvæmt því og öðru framangreindu verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn nefndum ákvæðum almennra hegningarlaga.

IV.

A.

Í ákæru þeirri frá 26. ágúst 2008, er tekur til þjófnaðarbrota ákærða, er höfð uppi krafa AÓA útgerðar ehf., á hendur ákærða og meðákærðu í máli nr. S-72/2008, A og B, um greiðslu bóta að fjárhæð 50.000 krónur „... auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 16. apríl 2008 til greiðsludags, og dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga.“

Með vísan til samþykkis ákærða verður hann dæmdur til að greiða AÓA útgerð ehf., óskipt ásamt meðákærðu, A og B, er dæmdir voru til greiðslu kröfunnar með dómi 14. október sl., mál nr. S-73/2008, 50.000 krónur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði.

B.

Í ákæru lögreglustjóra frá 26. ágúst 2008, þar sem ákærða eru annars vegar gefin að sök eignaspjöll og hins vegar umferðarlagabrot, er tekin upp bótakrafa Glitnis banka hf. þess efnis að ákærða verði gert að greiða bankanum 197.813 krónur, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 15. maí 2008 til 23. júní 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Við þingfestingu málsins 17. september sl. hafnaði ákærði bótakröfu Glitnis banka hf. sem of hárri.

Upplýst er að viðgerð var framkvæmd á umræddum hraðbanka um miðjan maí 2008 og er krafa Glitnis banka hf. að fullu studd reikningi vegna þeirrar viðgerðar. Hefur ákærði engin haldbær rök fært fram sem hnekkt geta tilvitnuðum reikningi. Verður honum því gert að greiða Glitni banka hf. 197.813 krónur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði.

V.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins gekkst ákærði 25. ágúst 2006 undir sektargerð lögreglustjóra vegna fíkniefnabrots. Þá var ákvörðun refsingar hans vegna líkamsárásar frestað skilorðsbundið í þrjú ár með dómi 12. mars 2008.

Með brotum sínum nú rauf ákærði skilorð dómsins frá 12. mars 2008. Samkvæmt ákvæði 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að taka dóminn upp og dæma bæði málin í einu lagi að teknu tilliti til 77. gr. laganna.

Fyrir liggur að verðmæti þau er þjófnaðarbrot ákærða vörðuðu námu á þriðja hundrað þúsund króna. Við ákvörðun refsingar ákærða verður jafnframt að líta til þess tjóns sem hann olli á hraðbanka Glitnis banka hf. Ákærða til nokkurra málsbóta horfir hins vegar að hann játaði nefnd brot skýlaust fyrir dómi og þá var hann einungis sautján ára gamall er hann framdi brot sín. Að þessum atriðum virtum og að teknu tilliti til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brots ákærða samkvæmt dómnum frá 12. mars 2008, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi. Eftir atvikum og með heimild í 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Í 1. málslið 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er kveðið á um að hafi stjórnandi vélknúins ökutækis brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr. eða 45. gr. a. eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. skuli hann sviptur ökurétti. Þá segir í 2. mgr. 102. gr. laganna að neiti stjórnandi vélknúins ökutækis að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. skuli svipting ökuréttar eigi vara skemur en eitt ár.

Svo sem rakið er í kafla II B hefur ákærði nú verið sakfelldur fyrir brot gegn 3. mgr., sbr. 2. mgr., 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt því og 2. mgr., sbr. 1. málslið 1. mgr., 102. gr. laganna ber að svipta ákærða ökurétti í eitt ár hið minnsta. Þar sem alls engin efni eru til að svipta ákærða ökurétti umfram lögboðið lágmark verður hann sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, skal dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar. Ekki þykja efni til að dæma ákærða til greiðslu kostnaðar sem til féll við töku blóðsýnis og rannsókn þess, enda voru ólögleg ávana- og fíkniefni ekki í mælanlegu magni í sýninu. Ákærði verður því eingöngu dæmdur til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., er hæfilega teljast ákveðin 97.608 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 448/2002 sem kveðinn var upp 20. mars 2003.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Sigurður Ágúst Sigurðsson, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði 97.608 krónur í sakarkostnað.

Ákærði greiði AÓA útgerð ehf. óskipt með A og B, sbr. dóm Héraðsdóms Vestfjarða í máli nr. S-73/2008, 50.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 frá 16. apríl 2008 til 28. september sama ár, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Glitni banka hf. 197.813 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 frá 15. maí 2008 til 17. október sama ár, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.