Hæstiréttur íslands
Mál nr. 317/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Útburðargerð
- Lóðarréttindi
- Málsástæða
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. maí 2017, þar sem hafnað var kröfu, sem gerð var í þágu sóknaraðila um „að gróðurhús með fastanúmerið 221-0848 verði fjarlægt af fasteign í eigu umbjóðanda míns sem er lóð nr. 2 við Varmahlíð 810 Hveragerði“. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Hann krefst þess „að gróðurhús varnaraðila með fastanúmerið 221-0848 verði fjarlægt af lóð sóknaraðila, Varmahlíð 2, Hveragerði“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Af málatilbúnaði sóknaraðila fyrir héraðsdómi, svo og kæru hans til Hæstaréttar og greinargerð þar sem meðal annars er vísað til fyrrgreindrar kæruheimildar, er ljóst að þrátt fyrir orðalag dómkrafna hans á báðum dómstigum leiti hann með máli þessu heimildar til að fá áðurnefnt gróðurhús í eigu varnaraðila borið út af lóð sinni að Varmahlíð 2 í Hveragerði með beinni aðfarargerð. Fyrir Hæstarétti heldur sóknaraðili fram málsástæðum, sem hann bar ekki fyrir sig í héraði og lúta einkum að því að gróðurhúsi þessu hafi aldrei fylgt sjálfstæð lóðarréttindi að Varmahlíð 2, enda hafi annars vegar gróðurhúsið og hins vegar önnur mannvirki á lóðinni ásamt henni sem slíkri komist á árunum 2006 og 2007 fyrir nánar tilgreind mistök hvort á sína hendi. Samkvæmt 2. mgr. 163. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 84. gr. laga nr. 90/1989 verður þessum málsástæðum ekki komið að fyrir Hæstarétti. Að því gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Guðbjartur Jónsson, greiði varnaraðila, Sigríði Ragnhildi Helgadóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. maí 2017.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 4. apríl 2017, barst dóminum 29. nóvember 2016 og var málið þingfest 10. janúar 2017.
Sóknaraðili, hér eftir gerðarbeiðandi, er Guðbjartur Jónsson, kt. [...], Þelamörk 46, Hveragerði.
Varnaraðili, hér eftir gerðarþoli, er Sigríður Ragnhildur Helgadóttir, kt. [...], Valsheiði 7, Hveragerði.
Dómkröfur gerðarbeiðanda eru svohljóðandi: „Hér með er fyrir hönd Guðbjarts Jónssonar krafist dómsúrskurðar þess efnis að gróðurhús með fastanúmerið 221-0848 verði fjarlægt af fasteign í eigu umbjóðanda míns sem er lóð nr. 2 við Varmahlíð 810 Hveragerði, nánar tiltekið er um að ræða íbúð, ásamt bílskúr og geymslu með fastanúmerið 221-0845. Matshlutur umbjóðanda míns er 01-01-01, 02 0101 og 02 0102. Landsnúmer er 171541 ásamt leigulóðarréttindum og öllu sem fylgir og fylgja ber. Hlutfall eigna er 100%.“ Ekki er getið um málskostnaðarkröfu í aðfararbeiðni, en við munnlegan flutning málsins var höfð uppi slík krafa af hálfu gerðarbeiðanda, auk þess að tillit yrði tekið til virðisaukaskatts og var því ekki mótmælt af hálfu gerðarþola að hún kæmist að. Þá krefst gerðarbeiðandi þess að gerðin fari fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola.
Af hálfu gerðarþola er þess krafist að öllum kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað og að gerðarþoli verði sýknaður af öllum kröfum gerðarbeiðanda. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi gerðarbeiðanda að skaðlausu, auk virðisaukaskatts. Þá krefst gerðarþoli þess að verði fallist á kröfur gerðarbeiðanda þá verði ákveðið að málskot fresti framkvæmd úrskurðar og það komi fram í úrskurðarorði.
Við aðalmeðferð gaf gerðarbeiðandi skýrslu.
Málavextir
Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins og málatilbúnaði aðila er gerðarbeiðandi eigandi fasteignarinnar Varmahlíð 2 í Hveragerði. Segir í veðbókarvottorði að um sé að ræða fasteignanúmerið 221-0845, og er lýsingin sú að um sé að ræða íbúð 01-0101 og bílskúr 02-0101.
Fyrir liggur lóðarleigusamningur dags. 6. ágúst 1999 þar sem dánarbúi Guðmundar Pálssonar er leigð umrædd lóð sem sögð er 1.411 fermetrar til 50 ára. Segir jafnframt að úr gildi sé fallinn eldri lóðarleigusamningur um sömu lóð. Jafnframt liggur fyrir samningur milli dánarbús Guðmundar Pálssonar og Hveragerðisbæjar 7. júlí 1999, um að lóðarhafi samþykki að láta eftir 141,6 fermetra undir göngustíg meðfram lóðinni.
Fram hefur verið lagður eldri lóðarleigusamningur þar sem Guðmundi Pálssyni var leigð lóðin nr. 30 við Varmahlíð í Hveragerði, dags. 15. mars 1961. Er lóðin sögð 1.100 fermetrar og er ekki ágreiningur í málinu um að þetta sé sama lóðin.
Þá hefur verið lagt fram afsal, dags. 24. mars 2015, þar sem Ívar Yan Cherkasov. Þelamörk 46, Hveragerði, selur og afsalar gerðarbeiðanda fasteignina Varmahlíð 2 í Hveragerði. Segir í afsalinu að um sé að ræða fasteignina Varmahlíð 2, fasteignarnúmer 221-0845, matshlutur 01-01-01, 02 0101 og 02 0102. Landnúmer 171541, ásamt leigulóðarréttindum og öllu sem fylgir og fylgja ber. Segir ekkert í afsalinu um gróðurhús eða einhver réttindi sem gerðarþoli kunni að eiga á lóðinni.
Einnig hefur verið lagt fram í málinu afsal, dags. 9. júlí 2012, þar sem Róbert Pálsson, Fílshólum [sic.] 5 í Reykjavík, selur og afsalar eignarhluta sínum í lóðarréttindum í lóðinni nr. 2 við Varmahlíð í Hveragerði, ásamt gróðurhúsi sem á lóðinni er staðsett, til gerðarþola. Er í skjalinu að engu getið um önnur mannvirki á lóðinni eða gerðarbeiðanda í máli þessu.
Fram hefur verið lagður álagningarseðill fasteignagjalda í Hveragerði fyrir árið 2016 þar sem fasteignagjöld eru lögð á gerðarþola vegna nefnds gróðurhúss. Nánar tiltekið er fasteignamat gróðurhússins sagt 550.000 kr., lóðarhlutamat 459.000 kr. og fasteignamat alls 1.009.000 kr. Eru álögð gjöld sundurliðuð í fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði, lóðarleigu A flokk, fráveitugjald A flokk og vatnsskatt A flokk, en ekkert innheimt fyrir sorphreinsigjald og sorpurðunargjald. Eru samanlögð fasteignagjöldin að fjárhæð kr. 12.965 kr.
Þá hefur jafnframt verið lagt fram veðbókarvottorð vegna gróðurhússins að Varmahlíð 2 í Hveragerði, fasteignarnúmer 221-0848 og lýsing gróðurhús 05-0101. Er gerðarþoli þinglýstur eigandi samkvæmt vottorðinu. Er gerðarþoli jafnframt eigandi gróðurhússins samkvæmt framlögðum fasteignamatsupplýsingum úr gjaldendaskrá Þjóðskrár Íslands.
Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda
Gerðarbeiðandi vísar til þess að hann sé eigandi fasteigna á umræddri lóð, en þar sé einnig margnefnt gróðurhús í eigu gerðarþola. Gróðurhúsið hafi áður verið í eigu Íbúðalánasjóðs sem hafi eignast það á uppboði á árunum 2006/2006.
Samkvæmt framangreindum lóðarleigusamningi 6. ágúst 1999 milli dánarbús Guðmundar Pálssonar og Hveragerðisbæjar sé leigutaka eingöngu heimilt að selja og veðsetja leigurétt sinn að lóðinni í heild ásamt þeim húsum og mannvirkjum sem á henni verði gerð.
Hafi gerðarbeiðandi öðlast sinn rétt með afsali 24. mars 2015 og gróðurhúsið ekki fylgt með í kaupunum.
Hafi málaleitan gerðarbeiðanda gagnvart gerðarþola engu skilað og sé því nauðsyn að fá dómsúrskurð þess efnis að gróðurhúsið verði fjarlægt.
Vísar gerðarbeiðandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, sbr. 11., 12. og 13. gr. laga nr. 90/1989 um „Aðför, kyrrsetningu og lögbann“ sbr. einkum þó 72., 78. og 83. gr. laganna.
Málsástæður og lagarök gerðarþola
Gerðarþoli vísar til þess að í málinu fari kröfur gerðarbeiðanda ekki saman við framlögð gögn og málsástæður og forsendur eins og þær séu reifaðar í aðfararbeiðni. Þannig sé um að ræða beina rangfærslu í tilvitnun gerðarbeiðanda til 7. gr. lóðarleigusamnings þar sem gerðarbeiðandi hafi skotið inn orðinu „eingöngu“ sem ekki sé þar að finna. Þá sé það rangt að Íbúðalánasjóður hafi einhvern tíma átt gróðurhúsið. Þá blasi það við að rangt sé að gerðarbeiðandi sé einn eigandi að lóðarréttindum að Varmahlíð 2 í Hveragerði.
Kveður gerðarþoli að áður hafi einn og sami eigandi verið að öllum mannvirkjum á umræddri lóð. Það hafi svo breyst og hafi gerðarþoli eignast gróðurhúsið með lóðarréttindum á árinu 2012, en gerðarbeiðandi hafi eignast íbúðarhúsið með tilheyrandi lóðarréttindum á árinu 2015. Við kaup gerðarbeiðanda hafi öll gögn legið fyrir og sé ljóst að hann geti ekki eignast ríkari rétt en viðsemjandi hans hafi átt. Þetta sé í samræmi við meginreglur eignarréttarins og hafi gerðarbeiðandi ekki sýnt fram á að hann sé einn eigandi lóðarréttinda að Varmahlíð 2.
Gerðarþoli kveður gerðarbeiðanda byggja á því að gerðarþoli hafi með ólögmætum hætti aftrað gerðarbeiðanda að njóta þeirra réttinda sem hann telji sig eiga með því að öll lóðin sé hans eign og að á lóðinni sé gróðurhús gerðarþola án lóðarréttinda. Sé ljóst að um sé að ræða rangfærslur settar fram í því skyni að villa um fyrir dóminum. Þá virðist sem málatilbúnaður gerðarbeiðanda sé með það að augnamiði að afla gerðarbeiðanda ólögmæts ávinnings á kostnað gerðarþola og að reyna að hrekja gerðarþola á brott með það húsnæði sem hann hafi keypt á löglegan hátt.
Til að slík aðför megi fram fara verði gerðarbeiðandi að sýna fram á algjörlega ljós réttindi og ótvíræð.
Vísar gerðarþoli til laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 78., 3. mgr. 83. gr. og 84. gr. Þá vísar gerðarþoli til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, 130. gr. og a og c liði 1. mgr. 131. gr., sem og laga nr. 50/1988 að því er varðar virðisaukaskatt.
Forsendur og niðurstaða
Það er álit dómsins að dómkröfur gerðarbeiðanda séu ekki svo glöggar sem best mætti vera sbr. 72., 73. og 78. gr. laga nr. 90/1989, sbr. d lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Eins og málið er vaxið þykir þó rétt að kveða upp úrskurð um efni þess.
Fyrir liggur að gerðarbeiðandi er eigandi mannvirkja á umræddri lóð og er jafnóumdeilt að gerðarþoli er eigandi gróðurhússins sem stendur á lóðinni.
Til að fallast megi á kröfur gerðarbeiðanda verður málatilbúnaður hans að fullnægja skýrleikakröfum 78. gr. laga nr. 90/1989, en samkvæmt ákvæðinu verða réttindi hans að vera svo „ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður skv. 83. gr.“
Í málinu hafa verið lögð fram gögn sem benda til þess að gerðarþoli eigi lóðarréttindi á lóðinni nr. 2 við Varmahlíð í Hveragerði, en þar er einkum um að ræða afsal til hennar þar sem afsalað er m.a. lóðarréttindum, sem og álagningarseðill fasteignagjalda þar sem á gerðarþola eru lögð fasteignagjöld m.a. vegna lóðarleigu, en ekkert liggur fyrir um að óheimilt sé að fleiri en einn megi eiga lóðarréttindi á nefndri lóð. Hafði afsali gerðarþola verið þinglýst þegar gerðarbeiðandi fékk sinni eign afsalað þann 24. mars 2015.
Að þessu virtu verður ekki fallist á að réttur gerðarbeiðanda til þess að hafa einn umráð lóðarinnar sé svo skýr að fallast megi á kröfur hans í málinu, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 og verður því að synja kröfum gerðarbeiðanda í málinu.
Að þessari niðurstöðu fenginni er rétt að gerðarbeiðandi greiði gerðarþola málskostnað og er hann hæfilega ákveðinn 549.420 kr.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kröfum gerðarbeiðanda, Guðbjarts Jónssonar, er hafnað.
Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola, Sigríði Ragnhildi Helgadóttur, 549.420 kr. í málskostnað.