Hæstiréttur íslands
Mál nr. 502/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 20. desember 2004. |
|
Nr. 502/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 27. janúar 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er varnaraðili grunaður um að hafa veitt A eitt hnefahögg í höfuð á tilteknum skemmtistað aðfaranótt 12. desember 2004 með þeim afleiðingum að A lést skömmu síðar. Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili játað að hafa slegið mann umrætt sinn en ber að öðru leyti við minnisleysi um atvikið. Allmörg vitni munu hafa verið að atvikinu en í skýrslum þeirra fyrir lögreglu er því ýmist lýst að varnaraðili eða maður klæddur jólasveinabúningi hafi slegið A, en varnaraðili var einmitt klæddur í slíkan búning þegar atvikið varð. Með vísan til framangreinds leikur sterkur grunur á að varnaraðili hafi með fyrrgreindri háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 12. desember 2004 á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi er staða rannsóknarinnar þannig að ekki verður talið að varnaraðili geti torveldað hana úr því sem komið er. Fyrir Hæstarétti tekur sóknaraðili fram að ekki hafi verið talin ástæða til að gera kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna jafnvel þótt rannsókn málsins sé ekki lokið. Styður hann kröfuna um framlengingu gæsluvarðhalds við 2. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991.
Sóknaraðili hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að skilyrði séu til áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir varnaraðila með tilliti til almannahagsmuna. Eru því ekki næg efni til að verða við kröfu hans. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2004.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 til fimmtudagsins 27. janúar 2005 kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan í Reykjavík rannsaki nú ætlað brot kærða gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, en kærði sé grunaður um að hafa aðfaranótt sunnudagsins 12. desember sl. í veitingahúsinu [...], slegið A, hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að A hafi látist á Landspítala háskólasjúkrahúsi tæpum hálfum sólarhring síðar. Lögreglunni hafi borist tilkynning um atvik þetta kl. 2.51 umrædda nótt. Er lögregla og sjúkralið hafi komið á vettvang hafi A legið meðvitundarlaus í anddyri hússins. Kærði hafi verið handtekinn á staðnum stuttu eftir atvikið samkvæmt ábendingu margra sjónarvotta á vettvangi. Kærði og A hafi ekki þekkst fyrir.
Samkvæmt því sem upplýst hafi verið í málinu hafi fjöldi manns verið á vettvangi sem séð hafi til samskipta kærða og A í anddyri hússins. Kærði hafi verið klæddur jólasveinabúningi umrætt sinn. Í skýrslum sem vitni hafi gefið hjá lögreglu hafi þau ýmist lýst því að það hafi verið kærði eða maður klæddur í jólasveinabúning sem hafi slegið A hnefahögg í andlitið og að hann hafi fallið í gólfið í kjölfar þess. Kærði hafi borið við minnisleysi um atvikið.
Í málinu liggi fyrir vottorð Þóru Steffensen réttarmeinafræðings, dags. í gær, um bráðabirgðaniðurstöður krufningar á líki A. Komi fram í vottorðinu að dánarorsök hans hafi verið blæðing á milli heila og innri heilahimnu en blæðing þessi hafi verið af völdum hnefahöggs sem hann hafi hlotið efst á háls vinstra megin.
Með úrskurði héraðsdóms þann 12. desember sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag með vísan til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991. Rannsókn málsins hafi staðið sleitulaust frá því lögreglu hafi verið tilkynnt um atvikið og hafi flest vitni sem lögreglan hafi vitneskju um verið yfirheyrð. Staða rannsóknarinnar sé þannig að ekki verði talið að kærði geti torveldað hana úr því sem komið sé, sbr. ákvæði a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Leitast hafi verið við að hraða rannsókninni svo sem kostur sé en að henni lokinni verði málið sent til ríkissaksóknara sem fari með ákæruvald í málinu, sbr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Sterkur grunur leiki á að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20,1981, sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi teljist sök sönnuð. Sú háttsemi sem kærði sé sakaður um sé mjög alvarleg og þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Lögreglan í Reykjavík rannsaki nú ætlað brot kærða sem talið sé varða við 2. mgr. 218. almennra hegningarlaga nr. 19,1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 sé þess krafist að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.
Kærði er grunaður um brot sem kann að varða allt að 16 ára fangelsisrefsingu skv. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20,1981 ef sekt telst sönnuð. Kærði var handtekinn aðfararnótt sunnudagsins 12. desember sl. og var hann þá íklæddur jólasveinabúningi. Með úrskurði uppkveðnum þann dag var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Hafa skýrslur verið teknar hjá lögreglu af fjölmörgum vitnum sem ýmist hafa lýst því að það hafi verið kærði eða maður klæddur jólasveinabúningi sem hafi slegið A hnefahögg í andlitið. Við höggið hafi A fallið í gólfið. Kærði ber fyrir sig minnisleysi um atvikið.
Samkvæmt framlögðu vottorði Þóru S. Steffensen réttarmeinafræðings, er dánarorsök A blæðing milli heila og innri heilahimnu. Blæðing þessi sé afleiðing hnefahöggs sem hann hafi hlotið efst á háls, vinstra megin. Frekari rannsókna sé þó þörf til að unnt sé að kortleggja innri áverka og staðfesta eða útiloka hugsanlega samverkandi þætti í dauða hans.
Telja verður samkvæmt því sem fram hefur komið að rökstuddur grunur sé kominn fram um að kærði hafi framið brot sem varðað getur fangelsi allt að 16 árum. Jafnframt verður að telja aðild hans að málinu slíka að skilyrði séu fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 og sé ekki ástæða til að marka því skemmri tíma en krafist er. Er því fallist á framkomna kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 27. janúar 2005, kl. 16.00.