Hæstiréttur íslands
Mál nr. 651/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Lagaskil
|
|
Miðvikudaginn 10. janúar 2007. |
|
Nr. 651/2006. |
Eyjólfur M. Eyjólfsson(Óðinn Elísson hdl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Kærumál. Lagaskil.
E krafðist þess að D og vátryggingafélagið V, ábyrgðartryggjandi D, yrðu dæmd in solidum til að greiða honum nánar tilgreindar skaðabætur vegna vinnuslyss um borð í skipi D. V krafðist þess að kröfum á hendur sér yrði vísað frá dómi. Talið var að ekki yrði með skýrum hætti ráðið af ákvæðum 146. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga að málsóknarreglur 44. gr. þeirra laga skyldu gilda vegna tjónsatvika sem urðu fyrir gildistöku laganna. Yrði því að leysa úr málinu samkvæmt reglum eldri laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954. Samkvæmt 95. gr. þeirra laga eignaðist tjónþoli kröfu á hendur ábyrgðartryggjanda tjónvalds þegar bótaskylda hefði verið staðreynd og bótafjárhæð ákveðin. Þar sem bótakrafa E á hendur D hafði hvorki verið viðurkennd né dæmd varð að vísa kröfum E á hendur vátryggingafélaginu V frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2006, þar sem kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka framangreindar kröfur til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Ekki er fallist á með sóknaraðila að ráðið verði með skýrum hætti af ákvæðum 146. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga að málsóknarreglur 44. gr. þeirra laga skuli gilda vegna tjónsatvika sem urðu fyrir gildistöku laganna. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Eyjólfur M. Eyjólfsson, greiði varnaraðila, Vátryggingafélagi Íslands hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2006.
Mál þetta höfðaði Eyjólfur M. Eyjólfsson, kt. 120359-4289, Skagabraut 19, Akranesi, með stefnu birtri 24. maí 2006 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, og Djúpakletti ehf., kt. 670798-2759, Leirubakka 34, Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 16. nóvember sl.
Í málinu krefst stefnandi greiðslu skaðabóta að fjárhæð 5.451.951 króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Hann krefst þess í þessum þætti málsins að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar sérstaklega í þessum þætti.
Stefndu krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi að því er varðar stefnda Vátryggingafélag Íslands.
Stefnandi var starfsmaður stefnda Djúpakletts. Þann 6. mars 2002 var hann á vegum stefnda að vinna við uppskipun úr Sturlaugi H. Böðvarssyni AK. Er löndun var lokið og nýir bobbingar voru hífðir um borð í skipið vildi það slys til að bobbingur skaust á fót stefnanda og hann fótbrotnaði.
Bótakrafa á hendur stefnda Djúpakletti er á því byggð að starfsmenn hans eigi sök á slysinu. Þá telur stefnandi að uppfyllt séu skilyrði til greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu þessa stefnda sem vinnuveitanda. Um aðild stefnda Vátryggingafélags Íslands er vísað til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
Stefndi telur ekki unnt að stefna ábyrgðartryggjanda til aðildar við hlið vátryggðs. Heimild til þess hafi ekki verið í eldri lögum um vátryggingarsamninga nr. 20/1954. Núgildandi lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 hafi tekið gildi 1. janúar 2006. Þeim verði því ekki beitt um það tilvik sem hér um ræðir.
Stefnandi vísar til þess að hann stefni ábyrgðartryggjanda vinnuveitanda síns samkvæmt heimild í lögum sem í gildi hafi verið er stefna var birt. Hann segir að stefndu hafi ekki upplýst annað en að ábyrgðartryggingin sé enn í gildi. Hann bendir jafnframt á að skilyrðum 1. mgr. 95. gr. eldri laga um vátryggingarsamninga sé fullnægt þar sem hann hafi aflað örorkumats og tjónið hafi verið reiknað út.
Forsendur og niðurstaða.
Lög nr. 30/2004 tóku gildi 1. janúar 2006. Felld voru úr gildi lög nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Samkvæmt 95. gr. þeirra laga eignaðist tjónþoli kröfu á hendur ábyrgðartryggjanda tjónvalds þegar bótaskylda hefur verið staðreynd og bótafjárhæð ákveðin. Samkvæmt hefðbundnum skilningi felur þetta í sér að bótakrafan hafi verið dæmd á hendur tjónvaldi. Svo er ekki í þessu tilviki.
Almennt gilda lög ekki um atvik sem gerst hafa áður en lögin tóku gildi. Hér verður að meta gildi 44. gr. laga nr. 30/2004 við það tímamark er atvikið, sem bótaskylda er byggð á, átti sér stað. Það var 6. mars 2002. Þá höfðu lögin ekki tekið gildi og verður því að leysa úr þessu máli samkvæmt reglum laga nr. 20/1954. Þar sem bótakrafan á hendur stefnda Djúpakletti ehf. hefur hvorki verið viðurkennd né dæmd verður að vísa kröfum á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands frá dómi. Stefndu krefjast ekki málskostnaðar og verður hann felldur niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfum á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. er vísað frá dómi.
Málskostnaður í þessum þætti fellur niður.