Hæstiréttur íslands

Mál nr. 652/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skýrslugjöf
  • Vitni


                                     

Miðvikudaginn 30. september 2015.

Nr. 652/2015.

Ákæruvaldið

(Agnes Björk Blöndal fulltrúi)

gegn

X

(Gísli M. Auðbergsson hrl.)

Kærumál. Skýrslugjöf. Vitni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Á um að X yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitni gæfi skýrslu. Var í dómi Hæstaréttar vísað til þess að af vottorði sálfræðings yrði skýrlega ráðið að nærvera X gæti orðið vitninu sérstaklega íþyngjandi þegar hún gæfi skýrslu fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. september 2015, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan tiltekið vitni gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Af vottorði sálfræðings, sem liggur fyrir í málinu og rakið er í hinum kærða úrskurði, verður skýrlega ráðið að nærvera varnaraðila geti orðið brotaþola sérstaklega  íþyngjandi þegar hún gefur skýrslu fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008. Með þessari athugasemd, en að að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. september 2015.

I

Mál þetta er höfðað af lögreglustjóranum á Akureyri á hendur X, kt. [...], [...], Akureyri, og eru ákærða meðal annars gefnar að sök líkamsárásir og hótanir sem beinzt hafi að barnsmóður hans, A, kt. [...].  Er honum þannig gefið að sök að hafa í eitt skipti ráðizt að henni og kýlt með krepptum hnefa í bringu og ýtt við henni svo hún hafi fallið í jörðina, en í annað sinn hafi hann ráðizt að henni og hrint svo hún hafi fallið í jörðina og þar sparkað í læri hennar, kýlt í handlegg hennar, tekið hana hálstaki og loks hótað henni lífláti. Þá er honum gefið að sök að hafa kýlt hana en svo tekið upp hníf og lagt að hálsi hennar og hótað. Telur ákæruvaldið þessa háttsemi hans varða við 1. mgr. 217., 1. mgr. 218. og 233. gr. laga nr. 19/1940.

Fyrir dómi hefur ákærði neitað sök að því er varðar tvö fyrstu tilvikin en kvaðst ætla að tjá sig um hið þriðja þegar að aðalmeðferð kæmi.

Ákæruvaldið hefur krafizt þess að ákærða verði gert að víkja úr þingsal er A gefur skýrslu í málinu. Réttargæzlumaður hennar tekur undir kröfu ákæruvaldsins. Ákærði hafnar kröfunni. Ágreiningsefnið var tekið til úrskurðar í dag eftir að sakflytjendum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um það.

II

Í málinu liggur vottorð [...] sálfræðings, dags. 29. apríl 2015. Þar segir meðal annars að brotaþoli hafi árið 2012 verið greind með kvíðaröskun, þunglyndi og áfallastreitu eftir að hún hafi orðið vitni að alvarlegri árás, en vanlíðan hennar hafi aukizt mjög eftir að hún hafi sjálf orðið fyrir ítrekuðum árásum af hendi barnsföður síns. Upplifi hún stöðugan kvíða og eigi erfitt með að vera ein. Sé hún stöðugt hrædd um að verða fyrir barðinu á barnsföður sínum sem ítrekað hafi hótað henni lífláti. Sé kvíði hennar sístyrktur af hringingum hans. Eigi hún mjög erfitt með að slaka á og sé hrædd um „að barnsföður takist ætlunarverk sitt“. Segir í vottorðinu að hún muni „þurfa mikla sálfræðiaðstoð til að vinna úr áföllum tengdum árásum barnsföður“.

Sækjandi vísar til umrædds vottorðs [...]. Segir sækjandi að brotaþoli upplifi stöðugan ótta við ákærða. Fyrir dómi sagði sækjandi að ákærði væri nú í afplánun dóms sem hann hefði hlotið en hefði ítrekað haft símasamband við brotaþola úr afplánuninni. Hefði ákærði verið dæmdur fyrir háttsemi sem væri sambærileg við þriðja ákæruatriði þessa máls.

Ákærði byggir á því að það séu grundvallarmannréttindi sín að fá að fylgjast með meðferð eigin máls. Sakarefni sé ekki mjög alvarlegt og ekki sé mjög íþyngjandi fyrir brotaþola að hann verði viðstaddur.  Hafi þau þekkzt lengi og ýmislegt gengið á í þeirra sambandi og ótrúverðugt að nú geti þau ekki verið í sama þingsal skamma stund. Vottorð sálfræðingsins [...] sé unnið einhliða og ekki hafi verið tækifæri til að spyrja hana út í efni þess fyrir dómi.

III

Ákærði á rétt á því að fá réttláta meðferð í máli sínu, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.  Samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 á ákærði rétt á að vera viðstaddur aðalmeðferð í máli sínu, en heimilt er að gera honum að víkja af þingi á meðan aðrir bera vitni, sbr. 3. ml. sömu greinar og 1. mgr. 123. gr. sömu laga. Er meginreglan sú að ákærði á rétt á að vera viðstaddur og heimildir til þess að víkja honum af þingi ber að skýra þröngt. Þannig verður að gera kröfu um að nærvera ákærða teljist sérstaklega til íþyngingar þeim sem gefur skýrslu og geti haft áhrif á framburð hans, svo ákærða verði gert að yfirgefa þingið.

Í máli þessu er ákærði borinn sökum um brot sem beinzt hafi gegn barnsmóður hans, svo sem rakið var. Á þessu stigi málsins verður vitaskuld ekki kveðið upp úr um réttmæti sakargiftanna eða einstakra gagna málsins. Vottorð [...] sálfræðings verður hins vegar á þessu stigi talið veita vísbendingu um að nærvera ákærða kynni að verða brotaþola sérstaklega til íþyngingar er hún ber vitni í málinu og gæti haft áhrif á framburð hennar. Með vísan til alls framanritaðs verður að telja að leiddar hafi verið nægar líkur að því að hagsmunir brotaþola af því að geta gefið skýrslu án nærveru ákærða vegi þyngra en réttur ákærða til að sitja í dómsalnum er hún gerir það. Verður krafa ákæruvaldsins tekin til greina en þess skal gætt, er brotaþoli gefur skýrslu, að ákærði geti fylgzt með á sama tíma, sem og þess að bornar verði upp við brotaþola þær spurningar er ákærði kann að óska eftir.

Agnes Björk Blöndal ftr. fór með þennan þátt málsins af hálfu ákæruvaldsins en Sunna Axelsdóttir hdl. af hálfu skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hrl.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, víki úr þinghaldi er A gefur skýrslu í máli nr. [...].