Hæstiréttur íslands

Mál nr. 190/2006


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti
  • Nytjastuldur
  • Vanaafbrotamaður


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. október 2006.

Nr. 190/2006.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Aðalsteini Árdal Björnssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Akstur sviptur ökurétti. Nytjastuldir. Vanaafbrotamaður.

A var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. ágúst 2005 sakfelldur fyrir nytjastuld og fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti. Var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms gekk dómur í Hæstarétti 13. október 2005 vegna fjögurra héraðsdóma sem allir voru kveðnir upp fyrir hinn áfrýjaða dóm. Með dómi Hæstaréttar 13. október 2005 var ákærði dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir ýmis brot. Hið áfrýjaða mál var ekki sameinað máli því sem dæmt var í Hæstarétti 13. október 2005. Þegar allt framangreint var virt og hliðsjón höfð af 72., 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 taldi Hæstiréttur hæfilega refsingu A vera ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. september 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með dómi þeim sem hér er til umfjöllunar og kveðinn var upp 19. ágúst 2005 var ákærði sakfelldur fyrir nytjastuld og fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti 10. maí 2005. Farið var með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt sakavottorði dagsettu 9. þessa mánaðar hafa eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms gengið þrír dómar. Fyrst í Hæstarétti 13. október 2005 vegna fjögurra héraðsdóma sem allir voru kveðnir upp fyrir hinn áfrýjaða dóm, hinn 20. desember 2004, 31. janúar 2005, 31. mars 2005 og 20. maí 2005. Með dómi Hæstaréttar var ákærði dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir að aka tíu sinnum sviptur ökurétti þar af tvisvar undir áhrifum annars vegar lyfja og hins vegar fíkniefna, sex þjófnaði, níu skjalafalsbrot, gripdeild, fjóra nytjastuldi, tvö fíkniefnabrot og akstur gegn einstefnu. Þá var ákærði dæmdur í héraði 7. júní 2006 fyrir brot gegn fíkniefna- og umferðalögum en ekki gerð sérstök refsing þar sem um var að ræða hegningarauka við framangreindan hæstaréttardóm. Loks var ákærði dæmdur í héraði 4. september 2006 til sex mánaða fangelsisrefsingar fyrir rán, líkamsárás, þjófnaði, nytjastuld, gripdeildir, tilraun til gripdeildar, fíkniefnabrot og akstur sviptur ökurétti.

Í hinum áfrýjaða dómi er ekki getið héraðsdómsins frá 20. maí 2005, enda kom hann ekki fram á því sakavottorði sem þá lá fyrir. Í því máli hlaut ákærði þriggja mánaða fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti í fjögur skipti þar af einu sinni að auki undir áhrifum fíkniefna og í annað skipti gegn einstefnu, var í öllum tilvikunum um hegningarauka að ræða. Brot það sem hér er til meðferðar er framið fyrir þennan dóm frá 20. maí 2005, en hins vegar eftir þá dóma sem réðu því að refsingin þar var ákveðin sem hegningarauki.

Brotaferill ákærða hefur verið samfelldur frá árinu 1996 og hefur hann margsinnis hlotið dóma fyrir brot eins og þau sem nú eru til meðferðar. Í dómi Hæstaréttar 13. október 2005 var refsing ákærða ákveðin með vísan til 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við málflutning í þessu máli fyrir Hæstarétti kom fram að átt hefði að sameina hið áfrýjaða mál því máli sem dæmt var í Hæstarétti 13. október 2005, en vegna fjarveru ákærða hefði birting áfrýjunarstefnunnar ekki tekist fyrr en 28. mars 2006.

Þegar allt framangreint er virt og hliðsjón höfð af 72., 77. og 78. gr. almennra hegningalaga er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

                                                                                     

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. ágúst 2005.

          Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 6. júní sl. á hendur ákærða, Aðalsteini Árdal Björnssyni, kt. 280578-4289, Fífurima 1, Reykjavík, og  Erni Sigfússyni, kt. 270658-6289, Hverfisgötu 61, Reykjavík, "fyrir umferðarlaga­brot og nytjastuld, með því að hafa, þriðjudaginn 10. maí 2005, notað bifreiðina LL-042 í heimildarleysi og ekið henni til skiptis, ákærði Aðalsteinn sviptur ökurétti, um götur í Reykjavík, uns akstri lauk við gatnamót Réttarholtsvegar og Sogavegar.

Þetta telst varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og brot ákærða Aðalsteins að auki við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar."

Með ákærða var saksóttur Örn Sigfússon, f. 1958, en fallið hefur verið frá ákæru á hendur honum.

Málavextir

Ákærði, Aðalsteinn Árdal, hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæðis. 

Ákærði á að baki talsverðan afbrotaferil.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.

Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til Arnar Clausen hrl., 45.000 krónur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns Arnar Clausen hrl., 45.000 kr.