Hæstiréttur íslands

Mál nr. 396/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
  • Lögvarðir hagsmunir


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. ágúst 2007.

Nr. 396/2007.

Víkurver ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Gildi-lífeyrissjóði og

(Gestur Jónsson hrl.)

Landssambandi smábátaeigenda

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta. Lögvarðir hagsmunir.

V ehf. höfðaði mál gegn G og L og krafðist þess að dæmt yrði að viðtaka G á nánar tilgreindum hluta af fjármunum félagsins inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta væri óheimil, að G væri óheimilt að greiða þann hluta til L og að viðurkennt yrði að G bæri að endurgreiða V ehf. allt það fé sem kynni að berast inn á greiðslumiðlunarreikning umfram það sem þyrfti til ráðstöfunar samkvæmt 1. og 2. tölul. 8. gr. laga nr. 24/1986. Þá krafðist félagið að G og L yrði gert að greiða því nánar tilgreinda fjárhæð með dráttarvöxtum og að G yrði dæmt óheimilt aðallega að fela L umsýslu með greiðslur samkvæmt 2. tölul. 8. gr. laga nr. 24/1986 af fjármunum félagsins en til vara að hirða vexti af þessum fjármunum. Með úrskurði héraðsdóms var málinu í heild vísað frá dómi vegna ýmissa annmarka á málatilbúnaði V ehf. Í dómi Hæstaréttar var talið að sá háttur á kröfugerð V ehf. að beina kröfum samkvæmt 1. til 3. tölul. bæði að G og L gæti út af fyrir sig staðist og að félagið hefði lögvarða hagsmuni af þessum kröfum. Þá þóttu ekki efni til að vísa frá dómi fjárkröfu félagsins á hendur G og L vegna vanreifunar. Var úrskurðurinn felldur úr gildi að því er þessar kröfur varðaði og lagt fyrir héraðsdóm að taka þær til efnismeðferðar. Hins vegar var fallist á með héraðsdómi að síðasti liður kröfugerðarinnar væri of víðtækur og óviss til að um hann yrði dæmt og úrskurðurinn því staðfestur um frávísun þeirrar kröfu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili kveðst beina dómkröfum sínum samkvæmt 1.-3. tölulið dómkrafna sinna að báðum varnaraðilum, þrátt fyrir að kröfurnar lúti samkvæmt orðum sínum einungis að skyldum varnaraðilans Gildis-lífeyrissjóðs. Segir sóknaraðili nauðsynlegt að beina kröfum þessum einnig að varnaraðila Landssambandi smábátaeigenda, þar sem hann hafi hagsmuna að gæta af kröfunum. Þessi háttur á kröfugerðinni getur út af fyrir sig staðist teljist hún af öðrum ástæðum dómtæk. Ljóst er að þessir kröfuliðir eru ekki bundnir við það tímabil sem aðfararkrafan í 4. tölulið dómkrafna tekur til. Verður með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 talið að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af þessum kröfum og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er þær varðar. Á hinn bóginn verður fallist á með héraðsdómi að krafan í 5. tölulið dómkrafna sóknaraðila sé of víðtæk og óviss til að um hana verði dæmt og verður úrskurðurinn staðfestur um frávísun þessarar kröfu.

Í 4. tölulið dómkrafna sinna gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðilar verði in solidum dæmdir til að endurgreiða sér hluta þeirra framlaga, sem hann kveðst hafa innt af hendi til varnaraðilans Gildis-lífeyrissjóðs inn á greiðslumiðlunarreikning samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins á tímabilinu 29. júlí 2004 til 28. ágúst 2006. Er í stefnu og sérstöku leiðréttingarskjali vegna kröfugerðar sóknaraðila að þessu leyti gerð grein fyrir dagsetningum og fjárhæðum sem hér um ræðir. Er ljóst af málatilbúnaði sóknaraðila að hann telur að hér sé um að ræða þann hluta framlaga sinna á reikning þennan sem ráðstafað hafi verið til varnaraðilans Landssambands smábátaeigenda samkvæmt 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986. Eru ekki efni til að vísa þessari kröfu frá dómi vegna vanreifunar og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er hana varðar og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Varnaraðili Gildi-lífeyrissjóður kveður hvorugan varnaraðila hafa fengið tilkynningu frá héraðsdómi um kæruna svo sem skylt hafi verið samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 91/1991. Þeir hafi fengið fregnir af henni á skotspónum. Engin gögn eru í málinu um að þessari skyldu hafi verið sinnt. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um frávísun kröfuliðar 5 í stefnu en felldur úr gildi að því er 1.-4. tölulið varðar. Er lagt fyrir héraðsdóm að taka þessa kröfuliði til efnislegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2007.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. júní sl., um frávísunarkröfur stefndu, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Víkurveri ehf., Vík, Fljótum, á hendur Gildi-lífeyrissjóði, Sætúni 1, Reykjavík, og Landssambandi smábátaeigenda, Hverfisgötu 105, Reykjavík, með stefnu birtri 24. og  26. október 2006.  

         Dómkröfur stefnanda eru þessar:

1.        Þess er krafist að dæmt verði að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, sé óheimilt að veita viðtöku inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta hærri fjárhæð af fjármunum stefnanda en þarf til ráðstöfunar skv. 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

2.        Þess er krafist að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, verði dæmt óheimilt að inna af hendi greiðslur skv. 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 til stefnda, Landssambands smábátaeigenda, sem því kynni að berast af fjármunum stefnanda. 

3.        Þess er krafist að viðurkennt verði að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, beri að endurgreiða stefnanda allt það fé hans sem kynni að berast inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta umfram það sem þarf til ráðstöfunar skv. 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986.

Ofangreindum kröfum er beint að báðum stefndu, til vara á hendur stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, einum, og til þrautavara á hendur stefnda, Landssambandi smábátaeigenda, einu.

4.        Þess er krafist að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda kr. 143.237 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 skv. eftirfarandi:

Af kr.     

12.146

frá 29.7.2004     

til greiðsludags.

Af kr.

731

frá 30.8.2004

til greiðsludags.

Af kr

9.896

frá 29.9.2004

til greiðsludags.

Af kr.

388

frá 28.10.2004

til greiðsludags.

Af kr.

1.012

frá 29.11.2004

til greiðsludags.

Af kr.

2.294

frá 29.12.2004

til greiðsludags.

Af kr.

2.544

frá 28.1.2005

til greiðsludags.

Af kr.

373

frá 31.3.2005

til greiðsludags.

Af kr.

436

frá 29.4.2005

til greiðsludags.

Af kr.

93

frá 31.5.2005

til greiðsludags.

Af kr.

372

frá 29.6.2005

til greiðsludags.

Af kr.

660

frá 28.7.2005

til greiðsludags.

Af kr.

2

frá 30.8.2005

til greiðsludags.

Af kr.

4.640

frá 29.9.2005

til greiðsludags.

Af kr.

13.431

frá 31.10.2005

til greiðsludags.

Af kr.

16.411

frá 29.12.2005

til greiðsludags.

Af kr.

9.312

frá 31.1.2006 

til greiðsludags.

Af kr.

9.129

frá 30.3.2006

til greiðsludags.

Af kr.

16.695

frá 28.7.2006 

til greiðsludags.

Af kr.

28.336

frá 30.8.2006 

til greiðsludags.

Af kr.

14.336

frá 28.9.2006

til greiðsludags.

                                                                       

5.             Þess er krafist að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, verði dæmt óheimilt að fela stefnda, Landssambandi smábátaeigenda, umsýslu með greiðslur skv. 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 af fjármunum stefnanda.  Til vara að sú ráðstöfun stefnda, Landssambands smábátaeigenda, að hirða vexti af fjármunum þessum í eigin sjóði, verði dæmd ólögmæt. 

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu. 

 

Dómkröfur stefnda, Gildis-lífeyrissjóðs, eru þessar:

Aðallega er þess krafist að málinu verði vísað frá dómi í heild sinni. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara er krafist sýknu að hluta. Í öllum tilvikum er krafist greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda, Landssambands smábátaeigenda, eru þessar: 

Aðallega er þess krafist að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefndi, Landssamband smábátaeigenda, verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

 

Málsatvik

Með lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins samþykkti Alþingi breytingar á sjóðakerfi sjávarútvegsins sem fólu m.a. í sér þá skyldu fiskkaupenda að halda eftir við uppgjör 8,4% af aflaverðmæti smábáta og greiða inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Lífeyrissjóði sjómanna, sbr. 6. gr. laganna.  Samkvæmt 8. gr. laganna skal fé þessu skipt þannig að 37,5% renna til Lífeyrissjóðs sjómanna, (nú stefnda Gildis), 56,5% til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu og vátryggingar báts og 6% til stefnda, Landssambands smábátaeigenda.

Stefndi, Gildi-lífeyrissjóður, varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs sjómanna og lífeyrissjóðsins Framsýnar 1. júní 2005. Við sameininguna tók stefndi Gildi við réttindum og skyldum hinna sameinuðu sjóða, þ.á m. skyldum Lífeyrissjóðs sjómanna samkvæmt lögum  nr. 24/1986. Greiðslum samkvæmt þeim lögum hefur verið miðlað í gegnum greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Sparisjóði vélstjóra. Stefndi Gildi hefur haft yfirumsjón með greiðslumiðluninni, en sparisjóðurinn séð um framkvæmdina.

Stefnandi hóf útgerð bátanna Hermanns Jónssonar EA-18, skrnr. 2117, og Petru EA-218, skrnr. 6545, hinn 30. júní 2004 sbr. dskj. nr. 30.  Hóf hann útgerð Petru SK-18, skrnr. 2668 hinn 23. maí 2005.  Stefnandi er ekki í félagi Landssambands smábátaeigenda og er andvígur því að greiða félagsgjöld til félagsins. Þá telur stefnandi að ákvæði 3. töluliðar 8. gr. laga nr. 24/1986 um greiðslu félagsgjalda til stefnda Landssambands smábátaeigenda sé andstætt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, eins og málatilbúnaður stefnanda ber með sér.

 

Málsástæður stefnanda

                Stefnandi fellst ekki á það að skýra beri 3. tölulið 8. gr. laga nr. 24/1986 svo að allir skuli greiða félagsgjöld til stefnda, Landssambands smábátaeigenda.  Þá túlkun megi draga í efa og sé aðallega byggt á því að skýra verði lögin þannig að þetta geti aðeins átt við um þá sem eru félagsmenn í stefnda, Landssambandi smábátaeigenda, en ekki aðra, a.m.k. ekki í andstöðu við vilja þeirra. 

Verði lögin skýrð í samræmi við framkvæmd sé á því byggt að þegar þau voru sett hafi þau farið gegn þágildandi 67. gr. stjskr.  Það ákvæði mælir fyrir um  friðhelgi eignaréttarins.  Þegar löggjafinn ákveði að taka fé annarra og afhenda það félagi sem þeir eigi ekki aðild að, sem það geti notað í baráttumál sín gegn baráttumálum og hugsjónum þeirra sem greiða sé um óheimila eignaupptöku að ræða.  Lög sem yfir höfuð heimila að fjármunir eins séu teknir og afhentir öðrum endurgjaldslaust, fóru gegn ákvæðum þágildandi 67. gr. stjskr.  Ákvæðin fari nú gegn 72. gr. stjskr. 

Með lögfestingu 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu 30. maí 1994, lög nr. 62/1994, hafi ákvæði 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 verið numið úr gildi með yngri lögum að því gefnu að það verði túlkað í samræmi við venju.  Mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið ætlað að eyða öllum árekstrum íslenskra laga við mannréttindasáttmálann og beri að skýra hann í því ljósi og líta svo á að öll önnur lög, þótt þau gætu talist sérlög, hafi verið numin úr gildi að því leyti sem þau fóru gegn mannréttindasáttmálanum. Sömu réttaráhrif hafi lögfesting 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Í því sambandi sé vísað til þess sem á eftir komi um tengsl tjáningarfrelsis og félagafrelsis.

Við setningu laga nr. 97/1995 hafi tjáningarfrelsið verið fest með skýrum hætti í stjórnarskrá, sbr. 73. gr.  Það fari gegn tjáningarfrelsi að einstaklingur þurfi að þola aðild að félagi með þeim afleiðingum að það tjái skoðanir, sjónarmið og hugsjónir í hans nafni þótt með slíkum óbeinum hætti sé.  Sömuleiðis felist í ákvæðinu að enginn verði skyldaður til að inna greiðslur af hendi til þeirra sem boða hugsjónir, skoðanir, sannfæringu og hagsmuni, sem viðkomandi vilji ekki stuðla að.  Séu náin tengsl milli skoðanafrelsis og félagafrelsis.

 Við setningu laga nr. 97/1995 var núverandi ákvæði 74. gr. stjskr. um félagafrelsi lögfest. Í 2. mgr. sé hið neikvæða félagafrelsi lögfest en í því felist að menn verða hvorki skyldaðir til aðildar að félögum né til að greiða til þeirra. Síðari málsliður ákvæðisins eigi augljóslega ekki við um stefnda, Landssamband smábátaeigenda.  Stefndi, Landssamband smábátaeigenda, hafi með veikum mætti og lítilli sannfæringu haldið því fram að hann uppfylli skilyrði síðari málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjskr. Stefndi hafi hins vegar ekki getað bent á tiltekin atriði máli sínu til stuðnings. Þótt slíkt fyndist (sem sé nánast útilokað) innan um aðra starfsemi landssambandsins myndi það ekki hagga niðurstöðu málsins, sbr. Hrd. 1998:718.

Á því sé byggt að fyrirkomulag það sem leiði af venjubundinni túlkun 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 fari gegn ákvæði 75. gr. stjskr.  Í þessu sambandi beri að líta til þess að stefnandi sé látinn greiða til félags sem vill stýra því hvernig hann stundi atvinnu sína og með hvaða hætti.  Þetta félag vilji hafa áhrif á það hvernig aðgangur manna að auðlindum sé, þ.m.t. stefnanda.  Sérstaklega fari þetta gegn 2. mgr. um rétt manna til að semja um starfskjör sín og áunnin réttindi en það samningsumboð verði að lögum ekki tekið frá stefnanda og falið öðrum.  Skiptir ekki máli þótt stefndi, Landssamband smábátaeigenda, sé ekki hefðbundið stéttarfélag.  Ákvæði 2. mgr. 75. gr. stjskr. verði ekki skýrt svo þröngt að það taki bara til slíkra félaga. 

Aðallega sé á því byggt að túlka beri lög nr. 24/1986 á þann veg að ákvæði 3. tl. 8. gr. geti aðeins tekið til félagsmanna í stefnda, Landssambandi smábátaeigenda.  Til vara sé byggt á því að lögin hafi í öndverðu farið gegn 67. gr. stjórnarskrárinnar (nú 72. gr.).  Til þrautavara, að með lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu hafi ákvæði 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 verið numið úr gildi.  Til þrautaþrautavara sé byggt á því að ákvæðið fari gegn öðrum ákvæðum stjórnarskrár samkvæmt framansögðu og þær málsástæður, sem þar séu týndar til, geti allar staðið sjálfstætt, hver við hlið annarrar, enda samþýðanlegar. 

Um einstakar dómkröfur

Kröfuliður 1

Þeir fjármunir sem greiðslumiðlun móttaki séu fjármunir stefnanda.  Hann hafi einn heimild til að ráðstafa fjármunum sínum nema lög bjóði annað. Ráðstöfun samkvæmt 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 séu lögboðin en ekki samkvæmt 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986, þar sem þau ákvæði fari gegn æðri réttarheimildum og yngri eins og að framan sé rakið. Stefnandi eigi lögvarða hagsmuni að fá þessari kröfu framgengt því staðreyndin sé sú að stefndi, Gildi-lífeyrissjóður, sé að móttaka fjármuni þessa í eigu stefnanda í andstöðu við vilja hans, fjármuni sem stefnandi einn hafi ráðstöfunarrétt yfir.  Stefnandi hafi því lögvarða hagsmuni af því að fá það viðurkennt að þetta sé óheimilt.  Að gengnum slíkum viðurkenningardómi myndi bæði stefndi Gildi skipast, svo og væntanlega þeir sem greiða af fjármunum stefnanda inn á greiðslumiðunarreikning hjá stefnda Gildi. 

Kröfuliður 2

Það sé staðreynd að stefndi Gildi ráðstafi fjármunum samkvæmt 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 til stefnda, Landssambands smábátaeigenda. Það telji stefnandi löglaust og hafi lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningu dómstóla á því.

Kröfuliður 3

Vegna ákvæða 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 berist stefnda Gildi greiðslur sem honum beri ekki að móttaka samkvæmt framansögðu.  Það sé staðreynd að stefndi Gildi skili þeim ekki til stefnanda.  Telji stefndi Gildi að lög bjóði annað.  Stefnandi eigi því lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkennt að stefndi Gildi verði við þessar aðstæður að ráðstafa þessum greiðslum til stefnanda enda eigi þær að vera honum til frjálsrar ráðstöfunar.

Kröfuliður 4

Stefndi, Gildi-lífeyrissjóður, hafi móttekið á neðangreindum dagsetningum neðangreindar fjárhæðir vegna bátanna Hermanns Jónssonar EA-18 (skipaskrárnr. 2117), Petru EA-218 (skipaskrárnr. 6545) og Petru SK-18 (skipaskrárnr. 2668).

 

Dags.

Skrnr. 2117

Skrnr. 6545

Skrnr. 2668

Samtals

29.7.2004

5.874

6.272

 

12.146

30.8.2004

731

 

 

731

29.9.2004

4.082

5.814

 

9.896

28.10.2004

 

388

 

388

29.11.2004

1.012

 

 

1.012

29.12.2004

2.294

 

 

2.294

28.1.2005

2.544

 

 

2.544

31.3.2005

373

 

 

373

29.4.2005

436

 

 

436

31.5.2005

93

 

 

93

29.6.2005

372

 

 

372

28.7.2005

 

 

660

660

30.8.2005

 

 

2

2

29.9.2005

 

 

4.640

4.640

31.10.2005

 

 

13.431

13.431

 

 

 

 

 

29.12.2005

 

 

16.411

16.411

31.1.2006

 

 

9.312

9.312

27.2.2006

 

 

 

 

30.3.2006

 

 

9.129

9.129

25.4.2006

 

 

 

 

28.7.2006

 

 

16.695

16.695

30.8.2006

 

 

28.336

28.336

28.9.2006

 

 

14.336

14.336

Samtals

17.811

12.474

112.952

143.237

Að öðru leyti vísast til þess sem segir um þennan lið undir aðild. 

 

Kröfuliður 5

Í fyrsta lagi sé byggt á að greiðslumiðlun verði sjálf að annast ráðstöfun fjárins og geti ekki að óbreyttum lögum falið þriðja aðila að gera slíkt fyrir sig.  Löggjafinn treysti stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, fyrir þessu og engum öðrum, allra síst einhverju frjálsu félagi útí bæ sem ekkert hafi með ráðstöfun fjárins að gera.  Það gangi heldur ekki að þetta félag fái upplýsingar um útgerð stefnanda með þessum hætti, þ.e. um veltu hans o.fl. sem varðar atvinnurekstur hans. 

Verði ekki fallist á framangreint sé á því byggt að sú ráðstöfun sem stefnandi hafi gert sé ólögmæt.  Í því sambandi sé vísað til þess að stefndi, Landssamband smábátaeigenda, móttaki peninga stefnanda, ávaxti þá á eigin bankareikningum og borgi síðan iðgjöld töluvert síðar. Telur stefnandi að með þessari ráðstöfun hafi stefndi, Landssamband smábátaeigenda, tileinkað sér með ólögmætum hætti fjármuni hans og hirt af þeim ávöxtun þess. Væri ráðstöfunin með eðlilegum hætti myndi stefnandi ná hagstæðari samningum við tryggingarfélög með því að greiða þeim fyrr en ella.  Stefnandi kysi a.m.k. að ávaxta fé sitt sjálfur og hirða vextina af því. Hafi stefndi, Landssamband smábátaeigenda, fyrirgert öllu trausti til að fara með féð og því gjörsamlega óheimilt að fela honum það til frekari ráðstöfunar.

Aðild

Stefndi, Gildi-lífeyrissjóður, hafi verið stofnaður 1. júní 2005 við sameiningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna  Ekki ætti að vera ágreiningur um að stefndi Gildi hafi tekið við réttindum og skyldum Lífeyrissjóðs sjómanna í þessu máli. 

Kröfunum sé beint in solidum að stefndu, Gildi-lífeyrissjóði og Landssambandi smábátaeigenda.  Um annað en fjárkröfur þá sé ljóst að kröfunum verði að beina að stefnda Gildi enda sé verið að skipa hegðan hans með kröfugerðinni. Stefndi, Landssamband smábátaeigenda, kunni þó að teljast beinn þolandi dómsorðsins þar sem um sé að ræða félagsgjöld til þess félags.  Þyki því öruggast að stefna báðum aðilum til að þola dóminn.  Verði sú aðferð ekki talin réttarfarslega tæk sé kröfunni beint til vara á hendur stefnda Gildi einum en til þrautavara á hendur stefnda, Landssambandi smábátaeigenda, sem þó sé vafasamt að gæti orðið niðurstaðan.

Fjárkröfum sé in solidum beint á hendur báðum stefndu enda telji stefnandi að fjármuni þessa hafi stefndi Gildi ekki mátt móttaka og ráðstafa til stefnda, Landssambands smábátaeigenda, heldur borið að skila til stefnanda jafnóðum og þeir fjármunir hafi verið mótteknir.  Með hinni óheimilu ráðstöfun á vörslufé hafi stofnast krafa á hendur stefnda Gildi um rétt skil. 

Stefndi, Landssamband smábátaeigenda, hafi móttekið fjármuni stefnanda og ráðstafað þeim með óheimilum hætti í félagssjóði sína og hagnýtt sér þá.  Við það hafi stofnast krafa á hendur stefnda, Landssambandi smábátaeigenda.  Þar sem um sömu fjármuni sé að ræða hljóti krafan að beinast in solidum að báðum stefndu. 

Til öryggis sé kröfum samkvæmt 5. lið dómkrafna beint að stefndu í sameiningu.  Um þá tilhögun megi deila þar sem stefndi Gildi taki þarna við fjármunum til umsýslu og ráðstafi þeim áfram.  Landssambandið hafi hins vegar hag af móttöku fjármunanna og tekjur af þeim.  Stefndi, Landssamband smábátaeigenda, missi því spón úr aski sínum verði dómkröfurnar teknar til greina.  Á móti komi að stefndi, Landssamband smábátaeigenda, haldi því væntanlega ekki fram að hann eigi neinn rétt til þessarar umsýslu.  Hafa verði þó í huga að í varakröfu sé stefnt að því að tiltekin hegðan stefnda, Landssambands smábátaeigenda, verði dæmd lögmæt. 

Vísað sé til laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, einkum 8. gr. laganna. Vísað sé til laga  nr. 64/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 10.-11. gr. og stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 72.-75. gr.  Einnig sé vísað til reglugerðar nr. 147/1998 um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, 2. og 8. gr. samþykktar nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess, 5. gr. Félagsmálasáttmála Evrópu, 8. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi nr. 10/1979 og 18.-19. gr. og 22. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi nr. 10/1979.

Vísað sé til 25. gr. eml. 

Um málskostnað vísast til XXI. kafla l. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. 

Málsástæður stefndu vegna frávísunarkrafna

Stefndi, Landssamband smábátaeigenda (LS), telur að kröfugerð stefnanda sé ekki svo skýr og glögg sem áskilja verði til að hún geti talist dómhæf, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 (eml.) Þá sé af 1. mgr. 25. gr. laganna ljóst að til dómstóla verði ekki leitað til að afla álitsgerða um lögfræðileg efni. Varðandi flestar kröfur stefnanda (þ.e. nr. 1-3 og 5) sé það að segja að ekki liggi fyrir að raunverulegu sakarefni í skilningi 2. mgr. 25. gr. eml. sé til að dreifa sem stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn um og því feli kröfugerð hans í raun ekki annað í sér en beiðni um lögfræðilega álitsgerð andstætt fyrirmælum 1. mgr. 25. gr. eml.  Þá virðist framsetning nokkurra krafnanna ekki standast ákvæði 24. gr. eml. um það hver sakarefni verði borin undir dómstóla. Verði hér að neðan gerð grein fyrir því á hverju þessi afstaða stefnda byggist:

Óljóst sé af stefnu hvaða kröfum stefnanda sé beint að stefnda LS. Þannig virðist kröfum nr. 1-4, vera samkvæmt rakningu dómkrafna fremst í stefnu, beint að stefnda LS en ekki 5. kröfu. Hins vegar sé í sömu stefnu á bls. 7 í næstneðstu greinarskilum ráðagerð um það að 5. lið dómkrafna sé beint að báðum stefndu. Þessi málatilbúnaður standist ekki formkröfur   réttarfars   um   skýrleika  kröfugerðar   og   valdi  stefnda vandkvæðum við að halda uppi fullnægjandi vörnum.

                Stefnandi beinir að stefnda LS allmörgum kröfum sem stefndi LS hafi ekkert forræði á og gæti ekki, þó sambandið vildi, losnað undan með því að fallast á þær. Þannig sé í kröfuliðum nr. 1-3 (og einnig í 5) að finna kröfugerð (sbr. nánar hér að neðan) sem fjalli um að stefnda Gildi verði
gert eitthvað óheimilt eða eftir atvikum skylt, að tilteknum skilmálum uppfylltum. Vandséð sé hvernig standist að beina kröfugerð þessari að stefnda LS sem augljóslega geti ekki ráðstafað réttindum og skyldum stefnda Gildis með því að taka afstöðu til þessara dómkrafna. Eigi að
síður sé kröfunum beint að báðum stefndu en til vara einungis að stefnda Gildi en til þrautavara einungis að stefnda LS! Þessi háttur á kröfugerð sé bersýnilega  í  brýnni  andstöðu  við  80.  gr.  eml.  Þá leiði þessi framsetning kröfugerðar til þess að afar óljóst sé á hvaða grundvelli
stefnda LS sé rétt að taka til varna og ætti það eitt sér að leiða til frávísunar þó ekki  kæmu til þeir fjölmörgu gallar aðrir sem séu á kröfugerð stefnanda og málatilbúnaði öllum.

                Kröfur stefnanda sem merktar séu nr. 1-3 og krafa nr. 5 eigi það sameiginlegt að þær fjalli allar um að stefnda Gildi verði dæmt skylt að gera eitthvað eða óheimilt að gera eitthvað sem ekki sé hægt að dæma um með tæmandi hætti hvernig geti borið að í framtíðinni. Slík fram-
setning kröfugerðar fari í bága við eðlisrök 24. gr. eml. um það hver sakarefni verði borin undir dómstóla og feli eftir atvikum, að mati stefnda, einnig í sér beiðni um lögfræðilega álitsgerð andstætt fyrirmælum 1. mgr. 25. gr. eml.

                        Þá sé óhjákvæmilegt að benda á að kröfur stefnanda sem merktar séu
nr. 1-3 og krafa nr. 5 séu skilyrtar dómkröfur sem háðar séu óvissum
atvikum sem ekki séu fram komin og varði ráðstöfun sakarefna sem
kunna að koma upp í framtíðinni ef skilyrði sem þó eru ekki ljóslega
skýrgreind komi fram. Raunverulegu sakarefni í skilningi 2. mgr. 25. gr.
eml. sé því ekki til að dreifa. Slík kröfugerð sé ekkert annað en beiðni
um lögfræðilega álitsgerð andstætt fyrirmælum 1. mgr. 25. gr. eml.

                        Samhengi málsástæðna stefnanda og krafna hans sé verulega óljóst og
valdi stefnda erfiðleikum við að halda uppi vörnum í málinu. Afar
erfitt sé fyrir stefnda að átta sig á því hvernig einstakar málsástæður tengist
einstökum kröfuliðum. Þar sem málsástæður séu raktar komi fram að: Með
lögfestingu 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þann 30. maí 1994,
l. nr. 62/1994 var ákvœði 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 numið úr gildi með yngri lögum.
Sömu kenningar megi finna í rakningu málavaxta þar sem vísað sé
til lögfestingar mannréttindasáttmálans en þar um segir svo: Féllu þá úr
gildi ákvœði 6. og 8. gr. laga nr. 24/1986 að því leyti sem þau lög fólu í sér greiðslur
frá   utanfélagsmönnum   til stefnda  Landssambands  smábátaeigenda.
Stefndi LS telur að hér sé í öllu verulegu byggt á málatilbúnaði sem ekki
fái staðist. Hvernig kröfugerð sem sett sé fram á þessum grundvelli
geti leitt til dómkröfu á hendur stefnda sé með öllu óljóst. Þessi
framsetning feli að mati stefnda í sér vanreifun í andstöðu við e-lið,
80. gr. eml.

                        Stefnandi setji fram fjárkröfu í 4. tl. kröfugerðar sinnar. Sundurliðun
fjárkröfunnar fylgi svo aftar í stefnu. Engin grein sé hins vegar gerð
fyrir því hvernig fjárkrafan sé fundin út. Allsendis óljóst sé hvers verið sé að
krefjast. Sé til að mynda verið að krefjast endurgreiðslu þeirra iðgjalda
trygginga fyrir liðinn tíma sem stefnandi hafi notið? Þessi óskýrleiki í
kröfugerð sé að mati stefnda vanreifun í andstöðu við 80. gr. eml.

                        Meðal málskjala sem fram séu lögð af stefnanda séu allmörg sem ekki
verði séð að eigi þar heima. Þannig leggi stefnandi fram stefnu og
greinargerð og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur úr tveimur dóms-
málum sem stefnandi hafi áður höfðað á hendur stefnda. Vandséð sé
hver tilgangur stefnanda sé með þessu enda ljóslega ekki um dómskjöl að ræða.

dómskjöl. Í besta falli gætu þessi gögn komið fram við aðalmeðferð sem málflutningsgögn. Að mati stefnda sé hér um að ræða skriflegan málflutning í andstöðu við 100. gr. eml. sem ætti að varða frávísun ex officio.

 

Krafa stefnda Gildis um frávísun er á því byggð að málatilbúnaður stefnanda í heild sinni sé ruglingslegur og ekki í samræmi við kröfur 80. gr. eml. nr. 91/1991 um skýran og ljósan málatilbúnað.  Þá sé kröfugerð stefnanda andstæð meginreglum réttarfars um skýra og ákveðna kröfugerð, sbr. d-lið 1. málsgr. 80. gr. laganna.

Í kröfugerðarhluta stefnu segir þannig um 1.-3. tl. kröfugerðarinnar:

„Ofangreindum kröfum er beint að báðum stefndu, til vara á hendur stefnda Gildi-lífeyrissjóði einum, og til þrautavara á hendur stefnda Landssambandi smábátaeigenda einu.”

 

Tilvitnaður kafli um aðild stangist í fyrsta lagi á við orðalag kröfugerðar í 1.-3. tl., þar sem kröfum sé einungis beint gegn stefnda Gildi.

Í öðru lagi virðist tilvitnaður kafli vera í ósamræmi við reifun málsástæðna í stefnu.

Í þriðja lagi séu kröfur í 1.-3. tl., með tilvitnuðum kafla, gerðar svo óskýrar að óljóst sé hvers sé krafist af hvorum stefnda. 

Þar að auki telji stefndi Gildi kröfur stefnanda, eins og þær séu orðaðar  í 1. og 3. tl. kröfugerðar of víðtækar til að unnt sé að leggja dóm á þær. Stefnandi krefjist þess að stefnda Gildi verði gert óheimilt að veita móttöku (1. tl. kröfugerðar) og verði dæmdur til að endurgreiða (3. tl. kröfugerðar) stefnanda allar greiðslur sem ekki eru inntar af hendi skv. 1.-2. tl. 8. gr. laga 24/1986 inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta. Af þessu orðalagi að dæma nái kröfurnar til allra greiðslna, hverju nafni sem þær kunni að nefnast, óháð tilefni þeirra og um ókomna framtíð.  Það sé með öllu óljóst hvernig dómsorði í þessa veru yrði fullnægt.

Ætlun stefnanda kunni að hafa verið að krefjast dóms um að fyrirkomulag 3. tl. 8. gr. laganna sé ólögmætt. Stefndi telji hins vegar að dómkröfurnar, eins og þær séu settar fram í 1. og 3. tl. kröfugerðar, séu ekki nægilega afmarkaðar til að þær séu dómtækar. Þetta varði einnig frávísun þessara krafna samkvæmt 25.-26. gr. eml., auk d-liðar 80. gr. laganna. 

Fjárkrafa samkvæmt 4. tl. kröfugerðar sé verulega vanreifuð í málsástæðukafla stefnu. Stefnandi hafi hvorki fjallað nægilega um grundvöll bótaábyrgðar né hvernig hann telji skilyrðum bótaábyrgðar fullnægt. Stefndi Gildi hafi einungis haft lögbundna milligöngu um greiðslur og engan hag haft af þeim.

Að auki sé bent á að stefnandi hafi breytt bæði fjárkröfu sinni með bókun og lagt fram samning um eigendaskipti á bátnum Hermanni Jónssyni EA-18, skipaskrárnr. 2117 undir rekstri málsins. Nú afmarkist fjárkrafa stefnanda vegna bátsins við greiðslutímabilið frá 29. júlí 2004 til 29. júní 2005. Samkvæmt gögnum máls virðist Guðný Anna Ríkarðsdóttir hins vegar hafa innt þær greiðslur af hendi, en ekki stefnandi. Enn fremur sé bent á að dráttarvaxtakrafa í stefnu sé afar óljós og ruglingsleg.

Stefndi Gildi telji að fjárkrafan sé nú orðin svo óskýr, sérstaklega með hliðsjón af fyrrnefndum breytingum að það varði frávísun samkvæmt 80. gr. eml. Í því sambandi sé sérstaklega bent á ósamræmi málsástæðna í stefnu við hina breyttu kröfugerð og óvissu um aðild.

Krafa 5. tl. kröfugerðar sé loks bæði vanreifuð og byggð á rangri forsendu. Forsendan sé sú að stefndi Gildi hafi falið Landssambandi smábátaeigenda „umsýslu” með greiðslur samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 24/1986. Í stefnu sé það hvergi reifað með hvaða hætti lífeyrissjóðurinn eigi að hafa falið Landssambandi smábátaeigenda slíka umsýslu. Enda sé hér um misskilning að ræða að mati stefnda Gildis, þar sem fyrirkomulagið sé frá íslenska ríkinu komið, þ.e. handhöfum löggjafar- og framkvæmdavalds.

Loks sé rétt að benda á að í kröfugerð sé einungis krafist „málskostnaðar að skaðlausu”. Ekki sé ljóst að hvorum stefndu kröfunni sé beint, hvort henni sé beint að öðrum stefnda eða báðum, eða hvort krafist sé greiðslu málskostnaðar in solidum.

Með hliðsjón af öllu framansögðu telur stefndi að vísa beri málinu í heild sinni frá dómi, enda sé það of óskýrt og ruglingslegt, samkvæmt stefnu og nýjum framlögðum gögnum, til að efnisdómur geti gengið.

 

Stefnandi krefst þess að synjað verði um frávísun málsins og stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað í þessum þætti málsins.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins skulu fiskkaupendur greiða 8,4% af samanlögðu hráefnisverði þess afla sem þeir taka við inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta.  Samkvæmt 8. gr. laganna skal fé því, sem þannig safnast, ráðstafað í tilteknum hlutföllum í þrenns konar tilgangi. Samkvæmt 1. tl. til greiðslu í Lífeyrissjóð sjómanna, samkvæmt 2. tl. til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu og vátryggingar báts, og samkvæmt 3. tl. til Landssambands smábátaeigenda.

Dómkröfur stefnanda í málinu eru á hendur Gildi-lífeyrissjóði, sem hefur tekið við réttindum og skyldum Lífeyrissjóðs sjómanna samkvæmt lögum nr. 24/1986, og Landssambandi smábátaeigenda.

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að dæmt verði að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, sé óheimilt að veita viðtöku inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta hærri fjárhæð af fjármunum stefnanda en þarf til ráðstöfunar skv. 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986.

Stefnandi krefst þess í öðru lagi að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, verði dæmt óheimilt að inna af hendi greiðslur skv. 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 til stefnda, Landssambands smábátaeigenda, sem því kynni að berast af fjármunum stefnanda.

Stefnandi krefst þess í þriðja lagi að viðurkennt verði að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, beri að endurgreiða stefnanda allt það fé hans sem kynni að berast inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta umfram það sem þarf til ráðstöfunar skv. 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986.

Stefnandi krefst þess í fjórða lagi að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda 143.237 kr. , svo sem nánar er sundurliðað í stefnu og bókun um kröfugerð.

Stefnandi krefst þess í fimmta lagi að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, verði dæmt óheimilt að fela stefnda, Landssambandi smábátaeigenda, umsýslu með greiðslur skv. 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 af fjármunum stefnanda.  Til vara að sú ráðstöfun stefnda, Landssambands smábátaeigenda, að hirða vexti af fjármunum þessum í eigin sjóði, verði dæmd ólögmæt.  

Tekið er fram í stefnu að kröfum 1- 3 sé beint að báðum stefndu, til vara á hendur stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, einum, og til þrautavara á hendur stefnda, Landssambandi smábátaeigenda, einu. 

Samkvæmt framangreindri kröfugerð beinast kröfur stefnanda samkvæmt töluliðum 1-3, eins og þær eru settar fram, eingöngu að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, en tekið er sérstaklega fram til skýringar að þeim sé beint að báðum stefndu. Aðild stefnda, Landssambands smábátaeigenda, er rökstudd með því að hann kunni að teljast beinn þolandi dómsorðins, þar sem um sé að ræða félagsgjöld til þess félags.  Þá verður ekki ráðið af framsetningu kröfugerðar stefnanda að kröfu samkvæmt tölulið 5 sé einnig beint að stefnda, Landssambandi smábátaeigenda, en í sérstakri umfjöllun um aðild er tekið fram að þeirri kröfu sé beint að stefndu í sameiningu. Að þessu leyti er því ekkert samhengi á milli kröfugerðar og málsástæðna, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Þá er til þess að líta að kröfur stefnanda samkvæmt 1.,3. og 5. tölulið eru allt of víðtækar, óljósar og óvissar til þess að dómur verði á þeim reistur, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Dómkrafa stefnanda samkvæmt 2. tölulið er og því marki brennd að hún er háð óvissum atvikum.

Fjárkrafa stefnanda samkvæmt 4. tölulið kröfugerðar er vanreifuð að því leyti að ekki er gerð grein fyrir því hvernig hún er fundin út og hún er ekki nægilega rökstudd að því er bótagrundvöll varðar. Þá hefur breyting á fjárkröfu undir rekstri málsins gert hana óskýrari, eins og stefndi, Gildi-lífeyrissjóður, bendir á.

  Auk framangreindra annmarka er samhengi málsástæðna og einstakra krafna um margt verulega óljóst, eins og stefndi, Landsamband smábátaeigenda, bendir á.  Kröfugerð stefnanda samrýmist því ekki ákvæðum 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað.

Samkvæmt framansögðu er því fallist á kröfur stefndu um frávísun málsins.

Þá ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu, hvorum um sig, 150.000 krónur í málskostnað.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Víkurver ehf., greiði stefndu, Gildi-lífeyrissjóði og Landssambandi smábátaeigenda, hvorum um sig, 150.000 krónur í málskostnað.