Hæstiréttur íslands
Mál nr. 333/2003
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Hlutdeild
- Peningaþvætti
- Eignaupptaka
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 20. nóvember 2003. |
|
Nr. 333/2003. |
Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Stefáni Ingimar Koeppen Brynjarssyni (Guðni Á. Haraldsson hrl.) Angelu Koeppen Brynjarsdóttur og (Kristján Stefánsson hrl.) Hafsteini Ingimundarsyni (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Hlutdeild. Peningaþvætti. Eignaupptaka. Skilorð.
Í málinu var S sakfelldur fyrir að hafa í hagnaðarskyni staðið fyrir stórfelldum innflutningi fíkniefna, annars vegar á árinu 1998 og hins vegar á árinu 2001. Einnig fyrir að hafa á árinu 1998 haft í vörslum sínum umtalsvert magn fíkniefna sem hann hafi ætlað til sölu hér á landi. H var sakfelldur fyrir að hafa tvívegis á árinu 2001 tekið við umtalsverðu magni fíkniefna frá S og að hafa selt þau eða ætlað að selja þau hér á landi. A var sakfelld fyrir hlutdeild í broti S þar sem hún hafi annast milligöngu í fíkniefnaviðskiptum S og H. Einnig þótti A hafa gerst sek um peningaþvætti með því að hafa tekið við peningum fyrir S, sem hún hafi vitað að voru ávinningur af fíkniefnasölu. Þegar litið var til þess að S hafði með innflutningi á miklu magni fíkniefna gerst sekur um stórfellda skipulega brotastarfsemi í auðgunarskyni þótti refsing hans hæfilega ákveðin 8 ára fangelsi. H var dæmdur í tveggja ára fangelsi. A var dæmd í 2 ára skilorðsbundið fangelsi. Fíkniefni sem haldlögð höfðu verið voru gerð upptæk, sem og peningar sem fundust í fórum sakborninga og lögregla hafði lagt hald á við rannsókn málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. ágúst 2003 að ósk ákærðu en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins að því er þau varðar. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sakfellingu ákærðu í héraðsdómi, heimfærslu brota þeirra til refsiákvæða og eignaupptöku, en að refsing þeirra verði þyngd.
Ákærði Stefán Ingimar krefst þess að verða sýknaður af ákærum 27. janúar 2000 og 12. maí 2003. Jafnframt að hann verði sýknaður af 4. og 5. tl. I. kafla ákæru 25. janúar 2000 og að hafa ætlað að selja í ágóðaskyni efni sem talin eru upp í 1. og 2. tl. þess kafla. Þá krefst hann þess einnig að refsing samkvæmt héraðsdómi verði milduð.
Ákærða Angela krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað til nýrrar meðferðar fyrir héraðsdómi að því er hana varðar. Til vara krefst hún sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og til þrautavara að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin.
Ákærði Hafsteinn krefst þess að refsing hans í héraðsdómi verði milduð.
Aðrir sem dæmdir voru samkvæmt héraðsdómi una dóminum.
Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
I.
Af hálfu ákærðu Angelu er ómerkingarkrafa hennar rökstudd með því að af héraðsdómi megi ráða að héraðsdómarar hafi sýnt henni óvilja og verið hlutdrægir, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þótt rökstyðja hefði mátt betur í héraðsdómi sumt varðandi hennar þátt í málinu verður ekki af honum ráðinn óvilji dómaranna í hennar garð. Verður því kröfu hennar um ómerkingu hafnað.
Ákærði Stefán Ingimar fór af landi brott til Þýskalands áður en birtar væru fyrir honum ákærur sem gefnar voru út á árinu 2000. Hann hefur þýskt og íslenskt ríkisfang. Ákærði var handtekinn í Hollandi 14. febrúar 2002 og úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag. Ákærði andmælti framsali til Íslands, en með dómi Hæstaréttar Hollands 1. október 2002, sem lagður hefur verið fyrir Hæstarétt í íslenskri þýðingu, var framsal endanlega heimilað með nánar tilgreindum takmörkunum á saksókn. Hefur ríkissaksóknari takmarkað saksókn sína í ákæru 12. maí 2003 og fallið frá II. kafla í ákæru frá 27. janúar 2000 í samræmi við dóm Hæstaréttar Hollands. Við málsókn á hendur ákærða Stefáni Ingimar hefur þannig að fullu verið tekið mið af ákvæði 10. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Samkvæmt I. kafla ákæru 12. maí 2003 er ákærðu gefið að sök ásamt tveimur öðrum að hafa staðið að ólögmætum innflutningi á 300 grömmum af kókaíni og 1 kílói af amfetamíni til söludreifingar, en efnin komu til landsins 29. nóvember 2001. Er þáttur ákærðu nánar afmarkaður svo, að ákærði Stefán Ingimar hafi flutt efnin inn, en ákærði Hafsteinn selt meginhluta þeirra fyrir hann. Samkvæmt II. kafla þessarar ákæru er þeim gefið að sök að hafa staðið að ólögmætum innflutningi á 4.808,67 grömmum af amfetamíni til söludreifingar ásamt þremur öðrum, en efnin komu til landsins 7. desember 2001. Nánar er ákærði Stefán Ingimar ákærður fyrir að flytja efnin inn en ákærði Hafsteinn að hafa ætlað að selja efnin fyrir hann. Efnin fundust ýmist á ákærða Hafsteini við handtöku hans 27. janúar 2002 eða í vörslum annars ákærðs þann sama dag. Þáttur ákærðu Angelu er hins vegar talinn felast í því að hún hafi haft milligöngu um samskipti ákærðu við innflutninginn samkvæmt framangreindum köflum þessarar ákæru. Jafnframt er henni í III. kafla ákærunnar gefið að sök að hafa í nokkur skipti móttekið fyrir ákærða Stefán Ingimar peninga sem numið hafi verulegum fjárhæðum og hún vitað að voru ávinningur af sölu fíkniefna hér á landi.
Í héraðsdómi þótti sannað með framburði ákærða Hafsteins og fleiri ákærðu svo og tveggja vitna, en þrátt fyrir neitun systkinanna ákærðu Stefáns Ingimars og Angelu við aðalflutning málsins, að Stefán Ingimar hefði flutt inn efnin samkvæmt I. og II. kafla ákæru 12. maí 2003 með aðstoð Angelu, sem hafi útvegað heimilisföng til að senda efnin á og hafi síðan haft milligöngu um að þau kæmust í hendur ákærða Hafsteins. Þá þótti sannað meðal annars með játningu Hafsteins að hann hefði tekið við efnum samkvæmt þessum köflum ákærunnar og þegar annast dreifingu hluta efnanna samkvæmt I. kafla hennar þegar hann var handtekinn. Stoð þótti einnig fyrir þessari niðurstöðu að því er I. kafla ákærunnar varðar í framburði ákærðu Angelu í lögregluskýrslu og fyrir dómi við fyrirtöku vegna gæsluvarðhaldsúrskurðar 25. febrúar 2002. Við þessa fyrirtöku staðfesti Angela framburð sinn í lögregluskýrslu 21. sama mánaðar um að hún hafi haft samband við vinkonu sína, sem er meðákærð í þessum kafla ákærunnar, fyrir bróður sinn um innflutninginn, en taldi þó að þau hefðu áður án hennar milligöngu verið búin að sammælast um að hann sendi fíkniefni á heimilisfang vinkonunnar. Þá staðfesti hún einnig að hún hefði komið á sambandi milli þessarar vinkonu sinnar og ákærða Hafsteins fyrir bróður sinn um hvernig Hafsteinn skyldi nálgast fíkniefnin. Þá skýrði hún frá því fyrir dómi 20. febrúar 2002 hvernig háttað var innflutningi efnanna samkvæmt II. kafla ákærunnar og sínum þætti í þeim innflutningi. Jafnframt skýrði hún frá því að hún hefði tvisvar tekið við peningum frá ákærða Hafsteini fyrir ákærða Stefán Ingimar og jafnframt hafi peningasendingar frá Íslandi tvisvar verið sendar á hennar nafn erlendis og hún komið þeim áfram til bróður síns. Þá tók hún fram að hún hefði í janúar 2002 komið til landsins til læknisrannsóknar og til að leyfa syni sínum að heimsækja föður sinn en ekki til þess að hafa milligöngu um skilaboð og peningagreiðslur fyrir ákærða Stefán Ingimar. Hann hafi komið henni í þessa aðstöðu eftir að hún var komin til landsins. Skilja verður héraðsdóm svo að talið sé að fráhvarf hennar frá þessum dómsframburði sé ekki trúverðugt og er fallist á að hann sé til styrktar sakfellingu hennar og ákærðu Hafsteins og Stefáns Ingimars. Með þessum athugasemdum en annars með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann um sakfellingu ákærðu samkvæmt ákæru 12. maí 2003 að öðru leyti en því að ekki þykir nægjanlega fram komið að ákærða Angela hafi á tímabilinu september til nóvember 2001 þrívegis móttekið peninga frá ákærða Hafsteini hér á landi, svo sem segir í 12. tl. í III. kafla ákærunnar. Hún hefur ekki skýrlega viðurkennt fyrir dómi að hafa móttekið peninga frá honum nema tvívegis og ætti þá annað skiptið að vera 26. janúar 2002 er hún tók við 570.000 krónum og 300 evrum samkvæmt 15. lið í III. kafla ákærunnar. Ekki nýtur fullkominna gagna um að hún hafi nema einu sinni komið til landsins á tímabilinu september til nóvember 2001.
Í framangreindri ákæru eru brot ákærðu samkvæmt köflum I. og II. talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga, eins og greinin varð með lögum nr. 64/1974, sbr. lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með áorðnum breytingum. Brot ákærðu Angelu samkvæmt III. kafla er talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 10/1997 og nr. 32/2001. Í 173. gr. a. almennra hegningarlaga segir að hver sá sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni, afhendir þau, flytur inn eða hefur í vörslum sínum sé brotlegur samkvæmt ákvæðinu. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 kemur fram að varsla og meðferð ávana- og fíkniefna sem talin eru upp í 6. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 68/2001, sé óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra auk þessa heimilað að mæla svo fyrir í reglugerð að varsla og meðferð annarra ávana- og fíkniefna, sem sérstaklega mikil hætta var talin stafa af samkvæmt alþjóðasamningum, væri á sama hátt óheimil. Innflutningur og meðferð kókaíns og amfetamíns höfðu á þennan hátt verið lengi bönnuð á íslensku yfirráðasvæði þegar atvik málsins urðu. Þegar ákærðu stóðu að innflutningi og meðferð efnanna, sem um getur í ákæru 12. maí 2003, var meðferð kókaíns óheimil samkvæmt 1. mgr. 2. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 65/1974. Hins vegar var í gildi reglugerð nr. 233/2001, eins og henni hafði verið breytt með reglugerð nr. 490/2001, sem báðar voru settar með heimild í framangreindu ákvæði 2. mgr. 2. gr. laganna. Eftir hljóðan hennar þannig breyttrar var amfetamín ekki flokkað sem efni, sem bannað er á íslensku yfirráðasvæði, heldur sem efni, sem getið er á fylgiskjali II með alþjóðsamningi um ávana- og fíkniefni frá 1971 með síðari breytingum. Þessu var breytt í fyrra horf með reglugerð nr. 248/2002.
Samkvæmt þessu féll amfetamín er atvik málsins urðu undir ákvæði 3. gr. laga nr. 65/1974. Var innflutningur, sala og varsla þessa efnis á þessum tíma því eingöngu heimil lyfsölum og þeim sem ráðherra hafði veitt sérstakt leyfi til slíks, en öðrum bönnuð, sbr. 2. mgr. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 65/1974. Málið var rekið og dæmt í héraði með hliðsjón af þessu, sbr. og 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Um var að ræða verulegt magn fíkniefna samkvæmt bæði I. og II. kafla umræddrar ákæru og ber því að staðfesta heimfærslu héraðsdóms á broti ákærðu undir ákvæði 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Brot ákærðu Angelu samkvæmt þessum köflum ákærunnar verður þó að meta sem hlutdeildarbrot og heimfæra til 173. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 22. gr. sömu laga.
Brot ákærðu Angelu samkvæmt III. kafla ákæru er þar fært undir 264. gr. almennra hegningarlaga. Að framan er því lýst að ekki þykja fram komin næg gögn fyrir sakfellingu hennar vegna 12. töluliðs í þessum kafla. Í héraðsdómi er rakið hvernig ákærða viðurkenndi fyrir lögreglu viðtöku peninga samkvæmt öðrum töluliðum kaflans fyrir bróður sinn ákærða Stefán Ingimar, en ýmist neitaði að tjá sig eða breytti framburði sínum við aðalmeðferð málsins. Hafði hún þó áður staðfest þetta fyrir dómi samkvæmt því sem áður greinir. Mat héraðsdómur fráhvarf hennar frá fyrri framburði ótrúverðugt Vegna vitneskju hennar um fíkniefnainnflutning bróður síns, sem hún lýsti fyrir lögreglu og staðfesti síðar fyrir dómi, hlaut hún að gera sér grein fyrir því að þessar peningasendingar voru vegna þessara viðskipta hans þótt ekki sé nægjanlega fram komið hvort hún vissi hversu miklum fjárhæðum hver peningasending nam. Ber því að staðfesta heimfærslu héraðsdóms á brotum hennar til 264. gr. almennra hegningarlaga.
III.
Samkvæmt ákæru 25. janúar 2000 er ákærða Stefáni Ingimar gefið að sök í fyrsta lagi að hafa 19. júní 1998 haft í vörslum sínum í bifreiðinni [...], 179,7 grömm af kókaíni og 170,4 grömm af hassi og ætlað efnin til sölu. Í öðru lagi að hafa sama dag haft í vörslum sínum 132,9 grömm af kókaíni og 4,7 grömm af hassi, 0,9 grömm af marihuana og 115,9 grömm af kannabisfræjum. Efnin fundust við húsleit hjá honum og er honum gefið að sök að hafa ætlað kókaínið til sölu í ágóðaskyni. Í þriðja lagi er honum gefið að sök að hafa í maí og júní 1998 ræktað 144 kannabisplöntur, en plönturnar fundust við húsleit. Í fjórða lagi að hafa frá ársbyrjun til júní 1998 í ágóðaskyni selt og afhent til söludreifingar 500-1500 grömm af hassi og í fimmta lagi að hafa frá ársbyrjun til júní 1998 í ágóðaskyni afhent nafngreindum manni 250-300 grömm af hassi, 30-40 grömm af marihuana, 10-15 grömm af amfetamíni, 5 stykki af amfetamíntöflum og 2-3 grömm af kókaíni.
Fyrir Hæstarétti bar ákærði ekki brigður á að hafa haft efnin samkvæmt 1. og 2. tölulið í vörslum sínum þegar hann var handtekinn en mótmælti því að hafa ætlað þau til sölu eins og greinir í ákæru. Hann játar 3. lið ákærunnar en krefst sýknu af 4. og 5. lið hennar.
Fyrir lögreglu gekkst ákærði við því að stunda fíkniefnasölu og viðurkenndi að fíkniefnin, sem fundust í fórum hans, hefðu verið ætluð til sölu. Hann staðfesti þetta fyrir dómi við fyrirtöku vegna gæsluvarðhalds 20. júní 1998. Ákærði hvarf frá þessum framburði við aðalmeðferð málsins og kvaðst hafa ætlað efnin til eigin neyslu. Magn efnanna er þó meira en svo að líkur verði taldar fyrir því að þau hafi eingöngu verið ætluð til eigin neyslu. Ákærulið 4. byggir ákæruvaldið á framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi. Ekki verður séð að ákærði Stefán Ingimar hafi staðfest þessa lögregluskýrslu fyrir dómi.Við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ekki muna eftir þessu. Ákæruliður 5 er byggður á framburði [meðákærða A] fyrir lögreglu Ákærði Stefán Ingimar kvað við aðalflutning málsins að þetta væri rangt en sagðist ekki muna atvik frekar. A viðurkenndi fyrir dómi að hafa tekið við þessum fíkniefnum frá ákærða Stefáni Ingimar, en hluti þeirra hafði fundist á heimili hans. Var hann með dómi Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2000 sakfelldur fyrir að hafa móttekið fíkniefnin af ákærða Stefáni Ingimar.
Ákærði Stefán Ingimar gaf ekki skýringu á breyttum framburði sínum fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og hafnaði héraðsdómur þeim framburði sem ótrúverðugum. Við handtöku hans, sem leiddi til þessarar ákæru, lagði lögreglan hald á talsvert reiðufé, sem fannst í fórum hans eða 306.500 krónur og 56 bandaríkjadali. Þá kemur það fram í gögnum málsins að ekkert samræmi var á milli gjaldeyriskaupa ákærða á þessum tíma og tekna hans. Samkvæmt yfirliti Seðlabanka Íslands keypti ákærði erlendan gjaldeyri fyrir tæpar 2,7 milljónir króna frá ársbyrjun 1997 til júní 1998. Tekjur hans voru þó samkvæmt skattframtölum og upplýsingum hans sjálfs við lögregluyfirheyrslur rýrar á þessum tíma. Ber að staðfesta sakfellingu ákærða Stefáns Ingimars samkvæmt þessari ákæru að öðru leyti en því að ekki eru næg gögn til þess að sakfella hann fyrir 4. lið ákærunnar, sem virðist eingöngu styðjast við skýrslu hans sjálfs fyrir lögreglu. Í ákæru eru þessi brot hans eingöngu heimfærð til ákvæða laga nr. 65/1974 og viðeigandi reglugerðarheimilda, svo sem lýst er í héraðsdómi. Verður við það að sitja og er héraðsdómur staðfestur um heimfærslu brota til refsiákvæða.
Samkvæmt ákæru 26. janúar 2000 er ákærða Stefáni Ingimar gefið að sök að hafa að kvöldi 2. nóvember 1998 haft í vörslum sínum 12,6 grömm af marihuana í bifreiðinni [...]. Ákærði unir niðurstöðu héraðsdóms um þessa ákæru.
Ákærða Stefáni Ingimar er samkvæmt ákæru 27. janúar 2000 gefið að sök að hafa í desember 1998 í hagnaðarskyni staðið að því ásamt tveimur öðrum mönnum að flytja inn 630,24 grömm af kókaíni frá Mexíkó. Máli hinna tveggja lauk í héraði með dómi 14. júní 2000 með því að þeir voru dæmdir í tveggja og þriggja ára fangelsi. Sá sem þyngri dóminn hlaut áfrýjaði honum til Hæstaréttar og var hann staðfestur þar 23. nóvember 2000. Í héraði var ákærði Stefán Ingimar dæmdur fyrir að hafa skipulagt innflutning fíkniefnanna, sem greind eru í ákærunni, ásamt manni þeim sem um er getið í þessum dómi Hæstaréttar. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms varðandi þessa ákæru ber að staðfesta hann um sök ákærða Stefáns Ingimars og heimfærslu brots hans til 173. gr. a. almennra hegningarlaga.
IV.
Ákærði Stefán Ingimar er fæddur 1975. Hann hlaut dóm í Þýskalandi 3. febrúar 1998 fyrir fíkniefnainnflutning og var dæmdur í 2 ára fangelsi skilorðsbundið í 3 ár. Refsing samkvæmt dóminum hefur nú verið felld niður og hefur hann því ekki ítrekunaráhrif hér á landi, sbr. 61. gr. almennra hegningarlaga. Líta verður þó til þessa dóms þegar framferði hans er metið í heild samkvæmt 70. gr. þeirra laga, en brot hans hér á landi á árinu 1998 voru framin eftir að sá dómur gekk. Þá fór hann til Þýskalands án þess að standa fyrir máli sínu fyrir dómi vegna þeirra brota og reyndi að komast hjá því að verða framseldur til landsins vegna þeirra og nýrra brota sem voru til lögreglurannsóknar þegar hann var handtekinn í Hollandi. Hann hefur verið fundinn sekur um stórfelld brot á 173. gr. a. almennra hegningarlaga samkvæmt tveimur ákærum með innflutningi sínum á miklu magni fíkniefna, sem líta verður svo á að hann hafi skipulagt og ætlað að fá af verulegan ágóða. Auk þessa er hann fundinn sekur um önnur umtalsverð brot. Þegar allt er talið hefur hann verið fundinn sekur um innflutning á 5.808,67 grömmum af sterku amfetamíni og 930,24 grömmum af kókaíni og ennfremur fyrir að hafa haft í vörslum sínum 312,6 grömm af kókaíni sem hann hafi ætlað til sölu, auk hass og marihuana. Ásetningur hans til þessara stórfelldu brota var einarður og líta ber svo á að um skipulagða brotastarfsemi í auðgunarskyni hafi verið að ræða. Hann á sér engar málsbætur. Refsingu hans ber að ákveða samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 8 ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald það sem hann sætti, svo sem greinir í dómsorði.
Þótt brot ákærða Hafsteins, sem fæddur er 1969, séu alvarleg, þykir mega una við ákvörðun refsingar héraðsdóms með skírskotun til forsendna hans. Er þá jafnframt litið til gagna, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, og virðast bera með sér að hann hafi látið af brotastarfsemi og breytt lífsháttum sínum á þeim tíma, sem liðinn er frá brotum hans, en rannsókn málsins dróst ekki af hans sökum.
Ákærða Angela er fædd 1979. Með háttsemi sinni liðkaði hún til fyrir innflutningi fíkniefna og tók á móti andvirði af sölu þeirra og varð þannig hlekkur í skipulagðri stórfelldri brotastarfsemi bróður síns ákærða Stefáns Ingimars. Refsingu hennar ber að ákveða samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Hún hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð gögn sem færa nokkrar líkur fyrir því að ferðir hennar til Íslands hafi ekki eingöngu verið á vegum bróður hennar heldur hafi hún verið í öðrum erindagjörðum og styðja þau því framburð hennar um að hún hafi fyrir hans tilstilli flækst í þann innflutning sem ákært er fyrir. Þá hefur hún verið sýknuð af einum lið III. kafla ákæru 12. maí 2003, sem sakfellt var fyrir í héraði. Þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Til frádráttar refsingu hennar kemur gæsluvarðhald sem hún sætti, svo sem greinir í dómsorði. Ákærða á ungt barn og hafa breytingar orðið á högum hennar eftir að atburðir máls þessa urðu. Samkvæmt læknisvottorði missti hún fóstur strax eftir gæsluvarðhald, sem hún sætti vegna málsins, og aftur í byrjun janúar 2003 stutt gengin með. Hún er nú þunguð að nýju og frá vinnu vegna vandamála, sem komið hafa upp vegna þungunarinnar. Jafnframt hefur verið lagt fram vottorð vinnuveitenda hennar sem bera henni afar vel söguna, en hún hefur undanfarið unnið umönnunarstörf. Af framangreindum ástæðum þykir mega skilorðsbinda það sem eftir er af refsingu hennar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna með vísun til forsenda héraðsdóms. Þá ber að staðfesta ákvæði héraðsdóms um að ákærði Stefán Ingimar skuli sæta upptöku á 570.000 krónum og 300 evrum sem fundust á dvalarstað ákærðu Angelu og hald var lagt á við rannsókn málsins. Þá er ákærða Stefáni Ingimar gert að sæta upptöku á 306.500 krónum og 56 bandaríkjadölum, sem hald var lagt á við rannsókn þá er leiddi til ákæru 25. janúar 2000. Hins vegar eru ekki efni til að fallast á kröfur ákæruvaldsins um frekari upptöku fjármuna úr hendi ákærðu Stefáns Ingimars eða Hafsteins, þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að hald hafi verið lagt á frekari fjármuni við rannsókn málsins.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest að öðru leyti en því að ákærðu Angelu ber að greiða verjanda sínum Kristjáni Stefánssyni hæstaréttarlögmanni 250.000 krónur í málsvarnarlaun í héraði.
Ákærðu skulu greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði Stefán Ingimar Koeppen Brynjarsson sæti fangelsi í 8 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald frá 20. júní til 6. júlí 1998, 22. desember 1998 til 26 janúar 1999 og frá 14. febrúar 2002 til uppsögu þessa dóms.
Ákærði Hafsteinn Ingimundarson sæti fangelsi í 2 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald frá 28. janúar 2002 til 6. apríl 2002.
Ákærða Angela Koeppen Brynjarsdóttir sæti fangelsi í 2 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald frá 28. janúar 2002 til 4. mars 2002. Það sem eftir er af refsingunni skal skilorðsbundið og falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku ávana- og fíkniefna skulu vera óröskuð.
Ákærði Stefán Ingimar skal sæta upptöku á 570.000 krónum, 300 evrum, 306.500 krónum og 56 bandaríkjadölum.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað að öðru leyti en því að ákærða Angela skal greiða málsvarnarlaun verjanda síns í héraði, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.
Ákærði Stefán Ingimar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðna Á. Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur. Ákærði Hafsteinn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur. Ákærða Angela greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur. Annan áfrýjunarkostnað greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2003.
Mál þetta var þingfest 22. maí 2003 og dómtekið 13. júní síðastliðinn. Það er höfðað með 5 ákærum Ríkissaksóknara, dagsettum 12. maí 2003, 27. janúar 2000, 25. janúar 2000, 26. janúar 2000 og 13. maí 2003. Framhaldsákæra er dagsett 19. maí 2003.
1. Ákæra dagsett 12. maí 2003
Fyrsta ákæran er gegn Angelu Koeppen Brynjarsdóttur, A, B, Hafsteini Ingimundarsyni, C, D og Stefáni Ingimar Koeppen Brynjarssyni, fyrir fíkniefnabrot og peningaþvætti framin á tímabilinu september 2001 til janúar 2002:
,,I.
Innflutningur á 300 g af kókaíni og 1 kg af amfetamíni
Ákærðu Stefán Ingimar, D, Hafsteinn, C og Angela eru sökuð um fíkniefnabrot, með því að hafa í ágóðaskyni staðið að ólögmætum innflutningi á 1 kg af amfetamíni og 300 g af kókaíni til söludreifingar hér á landi, tekið við fíkniefnunum og haft í vörslum sínum eftir innflutninginn, allt eins og hér greinir:
1. Ákærða Stefáni Ingimar er gefið að sök:
Að hafa flutt til landsins ofangreind fíkniefni sem komu þann 29. nóvember 2001 með póstsendingu frá Þýskalandi, en meðákærði Hafsteinn seldi megin hluta þeirra hér á landi fyrir ákærða.
2. Ákærðu D er gefið að sök:
Að hafa þann 30. nóvember á heimili sínu móttekið ofangreinda póstsendingu með fíkniefnunum. Ákærða kom fíkniefnunum í hendur meðákærða Hafsteini með því að skilja þau eftir í bifreiðinni sem hún lagði við verslunarmiðstöðina Kringluna í Reykjavík þar sem meðákærði sótti þau.
3. Ákærða Hafsteini er gefið að sök:
Að hafa þann 1. desember sótt fíkniefnin í framangreinda bifreið og farið með þau á heimili meðákærða C og afhent honum til vörslu. Efnin sótti ákærði síðan í nokkrum skömmtum til meðákærða C og seldi hér á landi fyrir meðákærða Stefán Ingimar. 158,03 g af kókaíninu og 10,85 g af amfetamíninu voru enn í vörslum meðákærða C er lögregla gerði leit á heimili hans þann 27. janúar.
4. Ákærða C er gefið að sök:
Að hafa í byrjun desember á heimili sínu móttekið fíkniefnin til vörslu frá meðákærða Hafsteini. Meðákærði Hafsteinn sótti hluta af fíkniefnunum heim til ákærða á næstu vikum og hluta þeirra neytti ákærði sjálfur. 158,03 g af kókaíninu og 10,85 g af amfetamíninu var ákærði enn með í vörslum sínum er lögregla gerð leit á heimili hans þann 27. janúar.
5. Ákærðu Angelu er gefið að sök:
Að hafa haft milligöngu um samskipti meðákærðu D og Stefáns Ingimars til þess að liðka fyrir innflutningi fíkniefnanna og fengið meðákærðu D til að taka við póstsendingu með fíkniefnunum, sbr. 1. og 2. tölulið og að hafa haft milligöngu um samskipti meðákærðu D og meðákærða Hafsteins, en í samræmi við skilaboðin sem ákærða bar á milli þeirra skildi meðákærða D fíkniefnin eftir í framangreindri bifreið þar sem meðákærði Hafsteinn sótti þau, sbr. 2. og 3. tölulið.
II.
Innflutningur á 4.808,67 g af amfetamíni
Ákæðu Stefán Ingimar, A, B, Hafsteinn, C og Angela eru sökuð um fíknefnabrot, með því að hafa í ágóðaskyni staðið að ólögmætum innflutningi á 4.808,67 g af amfetamíni til söludreifingar hér á landi, tekið við fíkniefnunum og haft í vörslum sínum eftir innflutning, allt eins og hér greinir:
6. Ákærða Stefáni Ingimar er gefið að sök:
Að hafa flutt inn samtals 4.808,67 g af amfetamíni sem kom þann 7. desember 2001 til landsins með þremur póstsendingum frá Þýskalandi. Ákærði ætlaði meðákærða Hafsteini að selja fíkniefnin fyrir sig hér á landi.
7. Ákærða A er gefið að sök:
Að hafa útvegað meðákærða Stefáni Ingimar póstföng hér á landi til þess að senda tvær af ofangreindum sendingum með samtals a.m.k. 3000 g af amfetamíni á,
að hafa í desember móttekið fíkniefnin úr öllum þremur sendingunum frá nafngreindum viðtakendum þeirra, samtals 4.808,67 g af amfetamíni,
að hafa haft fíkniefnin í vörslum sínum um nokkurt skeið þar til hann afhenti þau meðákærða B til vörslu og
að hafa þann 27. janúar sótt fíkniefnin aftur til meðákærða B og afhent þau sama dag meðákærða Hafsteini með því að skilja efnin eftir í bifreið sem hann lagði við Sundlaug Kópavogs.
8. Ákærða B er gefið að sök:
Að hafa þann 7. desember að beiðni meðákærða A tekið við sendingu með a.m.k. 1500 g af amfetamíni á þáverandi heimili sínu við [...] og haft þar í vörslum sínum í nokkra daga þar til meðákærði A sótti efnin og
að hafa í janúar að beiðni meðákærða A tekið við samtals 4.808,67 g af amfetamíni og haft í vörslum sínum í bílskúr við framangreint heimili sitt þar til meðákærði A sótt fíkniefnin þann 27. janúar.
9. Ákærða Hafsteini er gefið að sök:
Að hafa þann 27. janúar sótt 4.808,67 g af amfetamíni í framangreinda bifreið og farið með 4.181,95 g af því til meðákærða C og afhent honum til vörslu, en 626,72 g var ákærði með í vörslum sínum er hann var handtekinn af lögreglu síðar sama dag á mótum Þórsgötu og Bragagötu í Reykjavík. Hugðist ákærði selja fíkniefnin hér á landi fyrir meðákærða Stefán Ingimar.
10. Ákærða C er gefið að sök:
Að hafa þann 27. janúar verið með í vörslum sínum 4.181,95 g af amfetamíni á heimili sínu en fíkniefnin hafði meðákærði Hafsteinn afhent honum skömmu áður.
11. Ákærðu Angelu er gefið að sök:
Að hafa haft milligöngu um samskipti meðákærðu A og Stefáns Ingimars, en ákærða bar á milli þeirra skilaboð með upplýsingum um tvö póstföng sem senda mátti fíkniefnin á, sbr. 7. tölulið, og
að hafa haft milligöngu um afhendingu á fíkniefnunum til meðákærða Hafsteins, en fyrir milligöngu hennar skildi meðákærði A fíkniefnin eftir í framangreindri bifreið þar sem meðákærði Hafsteinn sótti þau, sbr. 7. og 9. tölulið.
III.
Peningaþvætti
Ákærða Angela er sökuð um peningaþvætti, með því að hafa móttekið peninga sem hún vissi að voru ávinningur meðákærðu Hafsteins og/eða Stefáns Ingimars af sölu fíkniefna hér á landi. Nánar er ákærðu gefið að sök:
12. Að hafa á tímabilinu september til nóvember þrívegis móttekið peninga að fjárhæð a.m.k. 400.000 af meðákærða Hafsteini hér á landi og afhent meðákærða Stefáni Ingimar í Þýskalandi.
13. Að hafa í janúar móttekið 186.400 krónur sem sendar voru ákærðu frá Íslandi til Þýskalands af nafngreindri konu með Western Union þann 7. september og afhent meðákærða Stefáni Ingimar ytra.
14. Að hafa í janúar móttekið 200.000 krónur sem sendar voru ákærðu frá Íslandi til Danmörku af nafngreindri konu með Western Union þann 14. september og afhent meðákærða Stefáni Ingimar í Þýskalandi.
15. Að hafa þann 26. janúar móttekið 570.000 krónur og 300 evrur í reiðufé frá meðákærða Hafsteini í Hafnarfirði. Peninga þessa ætlaði hún að afhenda meðákærða Stefáni Ingimar í Þýskalandi, en til þess kom ekki þar sem lögregla lagði hald á þá við rannsókn málsins.
Heimfærsla til refsiákvæða:
Brot ákærðu samkvæmt kafla I og II teljast varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974.
Brot ákærðu Angelu samkvæmt kafla III telst varða við 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 10/1997 og nr. 32/2001.
Dómkröfur:
a. Að ákærðu verði dæmd til refsingar.
b. Að eftirtalin fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni nr. 233/2001:
a) 4.181,95 g af amfetamíni sem fannst við leit lögreglu þann 27. janúar 2002 á heimili ákærða C.
b) 158,03 g af kókaíni, 10,85 g af amfetamíni, ein tafla með fíkniefninu MDMA og 1,79 g af kannabislaufum sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða C sama dag.
c) 626,72 g af amfetamíni sem ákærði Hafsteinn var með í vörslum sínum er hann var handtekinn af lögreglu síðar sama dag.
c. Að ákærðu D, A, B, Hafsteini og Stefáni Ingimar, verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, gert að sæta upptöku á eftirgreindum ávinningi:
a) Ákærðu D á kr. 200.000.
b) Ákærði A á kr. 300.000.
c) Ákærða B á kr. 150.000.
d) Ákærðu Hafsteini og Stefáni Ingimar á krónum 5.000.000 aðallega in soldium en til vara pro rata að mati dómsins, þar á meðal á 570.000 krónum og 300 evrum sem fundust við húsleit lögreglu á þáverandi dvalarstað meðákærðu Angelu að [...] og lagt var hald á við rannsókn málsins.“
2. Ákæra dagsett 27. janúar 2002
Önnur ákæran er gegn E, F og Stefáni Ingimar Koeppen Brynjarssyni. Dómur í þessu máli var kveðinn upp 14. júní 2000 gegn ákærðu E og F en þáttur ákærða Stefáns skilinn frá þar sem hann hafði flúið land og fannst ekki þrátt fyrir eftirgrennslan Interpool. Í málinu var ákærði E dæmdur í 2 ára fangelsi en ákærði F í 3 ára fangelsi sbr. dóm Hæstaréttar 23. nóvember 2000. Í þessu máli er ákærða Stefáni gefið eftirfarandi að sök:
,, I.
Fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa í desember 1998 í hagnaðarskyni staðið saman að innflutningi á 630,24 g af kókaíni til landsins. Ákærðu F og Stefán Ingimar stóðu saman að skipulagningu innflutningsins, en fíkniefnið ætluðu þeir til sölu hérlendis. Ákærði Stefán Ingimar fékk ákærða E til að taka að sér að flytja fíkniefnið inn til landsins. Ákærði F festi kaup á fíkniefninu í Mexíkó, en fjármagn til kaupanna lagði hann að mestu leyti út sjálfur, og afhenti hann efnið þar ákærða E. Ákærði E bjó um fíkniefnið í tréplöttum og flutti það þannig inn til landsins, kunnugt um að efnið væri ætlað til sölu hérlendis, en það fannst við komu hans til Keflavíkurflugvallar 21. desember 1998.
Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 65, 1974.
[...]
III.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Ennfremur er þess krafist að 630,24 g af kókaíni verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986.“
3. Ákæra dagsett 25. janúar 2000
Þriðja ákæran er gegn Stefáni I. Koeppen Brynjarssyni og A. Málið var dæmt gagnvart A 26. maí 2000 en þáttur Stefáns skilinn frá af framangreindum ástæðum. Ákæran er svohljóðandi gagnvart Stefáni: ,, Fyrir fíkniefnalagabrot eins og hér greinir:
1) Gegn ákærða Stefáni Ingimar með því að hafa þann 19. júní 1998 haft í vörslum sínum samtals 179,7 g af kókaíni og 170,4 g af hassi í bifreiðinni [...] á Bústaðavegi við Kringlumýrarbraut, Reykjavík, en fíkniefnin ætlaði ákærði til sölu í ágóðaskyni.
2) Gegn ákærða Stefáni Ingimar með því að hafa þann sama dag haft í vörslum sínum samtals 132,9 g af kókaíni, 4,7 g af hassi, 0,9 g af marihuana og 115, 9 g af kannabisfræjum, sem lögregla fann við húsleit á heimili hans, en kókaínið ætlaði ákærði til sölu í ágóðaskyni.
3) Gegn ákærða Stefáni Ingimar með því að hafa á tímabilinu maí til júní 1998 staðið að ræktun á 144 kannabisplöntum á heimili sínu og að [...], en plönturnar fann lögregla við húsleit þann 22. júní. Vógu þurrkuð lauf kannabisplantnanna samtals 29,4 g. Ennfremur að hafa haft í vörslum sínum 4,6 g af kannabisfræjum, sem lögregla fann við húsleitina.
4) Gegn ákærða Stefáni Ingimar með því að hafa frá ársbyrjun til júní 1998 í ágóðaskyni selt og afhent til söludreifingar á bilinu 500-1500 g af hassi til allt að 10 ónafngreindra aðila hérlendis.
5) Gegn ákærða Stefáni Ingimar með því að hafa frá ársbyrjun til júní 1998 í ágóðaskyni afhent ákærða A til söludreifingar 250 til 300 g af hassi. Ennfremur að hafa afhent honum á sama tímabili 30-40 g af marihuana, 10-15 g af amfetamíni, 5 stk. amfetamíntöflur og 2-3 g af kókaíni.
6) Gegn ákærða A með því að hafa frá ársbyrjun til júní 1998 móttekið 250 til 300 g af hassi, 30-40 g af marihuana, 10-15 g af amfetamíni, 5 stk. amfetamíntöflur og 2-3 g af kókaíni frá ákærða Stefáni Ingimar. Lögregla fann 81,8 g af hassinu og 0,2 g af kókaíninu við húsleit þann 19. júní 1998 á þáverandi heimili ákærða að Hamarborg 18, Kópavogi, en hassið ætlaði hann til sölu í ágóðaskyni. Meiripartinn af hassinu og um helminginn af marihuananu hafði ákærði hins vegar selt í ágóðaskyni til 30 til 40 ónafngreindra aðila hérlendis á aldrinum 16 til 19 ára.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana-og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75,1982, sbr. lög nr. 13,1985, og 2. gr. sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna, sbr. reglugerð nr. 177, 1986 og auglýsingu nr. 314, 1981 að því er varðar meðferð ákærðu á kókaíni og auglýsingu nr. 84, 1986 að því er varðar meðferð ákærðu á amfetamíni.
II.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Þá er þess krafist að Stefáni Ingimar verði gert að sæta upptöku á 312,6 g af kókaíni, 175,1 g af hassi, 0,9 g af marihuana, 29,4 g af kannabislaufum og 120,5 g af kannabisfræum, og að A verði gert að sæta upptöku á 81,8 g af hassi og 0,2 g af kókaíni, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986. Ennfremur er þess er krafist að Stefáni Ingimar verði gert að sæta upptöku á kr. 306.500 og 56 bandaríkjadollurum, samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 69. gr. alm. hgl. nr. 19,1940 og 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974.“
4. Ákæra dagsett 26. janúar 2000
Fjórða ákæran er gegn Stefáni Ingimar Koeppen Brynjarssyni ,,fyrir fíkniefnalagabrot, með að hafa að kvöldi mánudagsins 2. nóvember 1998 haft í vörslum sínum 12,6 g af marihuana í bifreiðinni [...] við [...], Hafnarfirði.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana-og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75,1982, sbr. lög nr. 13,1985, og 2. gr. sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindu marihuana, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986.“
5. Ákæra dagsett 13. maí 2003
Fimmta ákæran er gegn B fyrir ,,kynferðisbrot, með því að hafa haft í vörslu sinni á hörðum diskum tölvu sinnar, sem lögreglan haldlagði á heimili ákærða 27. janúar 2002, alls 9.148 ljósmyndir og 56 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.
Telst þetta varða við 2. mgr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 14/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga að ákærða verði gert að sæta upptöku á ofangreindum ljósmyndum og hreyfimyndum og A Open tölvu ásamt sex hörðum diskum sem henni fylgja.“
Við aðalmeðferð lýsti sækjandi því yfir að ákæruvaldið félli frá II. kafla ákæru frá 27. janúar 2000, þar sem ákærði Stefán er ákærður fyrir skjalafals. Sá þáttur ákærunnar kemur því ekki til frekari skoðunar í þessu máli. Að öðru leyti gerði ákærandi sömu kröfur og tilgreindar eru í ákærum.
Ákærði Stefán krefst sýknu af ákærum dagsettum 27. janúar 2000 og 12. maí 2003. Hann krefst þess að vera sýknaður af 4. og 5. lið I. kafla ákæru dagsettri 25. janúar 2000 svo og því að hafa ætlað til sölu í ágóðaskyni þau fíknefni sem tilgreind eru í 1. og 2. lið sömu ákæru. Hann krefst einnig sýknu á upptökukröfu ákæruvaldsins samkvæmt 2. kafla þessarar ákæru á 306.500 krónum og 56 bandaríkjadollurum. Að öðru leyti krefst ákærði Stefán þess að hann hljóti vægustu refsingu er lög leyfa sem jafnframt verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta til. Þá krefst ákærði Stefán þess að gæsluvarðhald hans komi til frádráttar refsingu. Málsvarnarlauna er einnig krafist.
Aðrir ákærðu gera aðallega þá kröfu að þeir verði sýknaðir af kröfu ákæruvalds en til vara að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar er lög leyfa. Málsvarnarlauna er einnig krafist.
Sem áður sagði flúði ákærði Stefán land áður en tókst að birta honum ákærur sem út voru gefnar á árinu 2000. Hann var handtekinn í Hollandi 14. febrúar 2002 og mun hafa mótmælt framsali og kært úrskurð þarlendra yfirvalda um að framsal næði fram að ganga. Á meðan dvaldi hann í gæsluvarðhaldi eða frá 14. febrúar 2002 til 2. janúar 2003. Áður hafði hann dvalið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 20. júní 1998 til 6. júlí 1998 og frá 22. desember 1998 til 26. janúar 1999. Hann hefur einnig setið í gæsluvarðhaldi frá því að hann var framseldur til Íslands 3. janúar 2003.
Ákærða Angela sat í gæsluvarðhaldi frá 28. janúar til 4. mars 2002.
Ákærði A sat í gæsluvarðhaldi frá 28. janúar til 4. mars 2002.
Ákærði Hafsteinn Ingimundarson sat í gæsluvarðhaldi frá 28. janúar til 6. apríl 2002.
Ákærði B sat í gæsluvarðhaldi frá 28. janúar til 11. febrúar 2002.
Ákærðu B og D hafa ekki setið í gæsluvarðhaldi í þágu málsins.
Ákæra dagsett 12. maí 2003
I. kafli ákæru
Innflutningur á 300 grömmum af kókaíni og 1 kíló af amfetamíni
Málavextir
Í þessum kafla ákærunnar eru ákærðu Stefán Ingimar, D, Hafsteinn, C og Angela sökuð um að hafa staðið að ólögmætum innflutningi á 1 kílói af amfetamíni og 300 grömmum af kókaíni til söludreifingar hér á landi. Stefáni er gefið að sök að hafa flutt til landsins ofangreind fíkniefni, Hafsteini að selja þau og hafa þau í vörslu sinni, D að hafa móttekið póstsendingu með fíkniefnunum, C að hafa fíkniefnin í vörslu sinni og Angelu að hafa milligöngu um samskipti ofangreindra aðila til þess að liðka fyrir innflutningi fíkniefnanna.
Haustið 2001 var til rannsóknar hjá lögreglunn í Reykjavík viðamikið fíkniefnamál sem tengdist ofangreindum aðilum. Þann 27. janúar 2002, gerði lögreglan húsleit hjá ákærða C og fundust hjá honum 158,03 grömm af kókaíni og 10,85 grömm af amfetamíni.
Hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði ákærði C svo frá að kunningi hans, meðákærði Hafsteinn, hafi komið til hans fyrir jól og beðið hann um að geyma fíkniefni fyrir sig. Í staðinn hafi hann mátt fá sér amfetamín að vild. Hann hafi verið peningalítill og atvinnulaus á þessum tíma og auk þess í mikilli fíkniefnaneyslu. Hann hafi geymt fíkniefnin til þess að viðhalda eigin neyslu. Hafsteinn hafi sagt að þetta væri bæði amfetamín og kókaín. Ákærði kveðst hafa opnað eina dós af amfetamíni og notað að jafnaði um 5 grömm á dag að hann hélt. Efnið hafi verið lélegt og því hafi hann notað svo mikið.
Ákærða D sagði hjá lögreglu að hún og meðákærða Angela Koeppen væru æskuvinkonur. Þær hafi ferðast saman til Þýskalands 1999 og dvalið í framhaldi af því við nám á Spáni. Sumarið 2001 hafi hún fengið sendingu frá Þýskalandi sem hún hafi ekki átt von á. Í sendingunni hafi verið sælgæti, gjafavara og niðursuðudósir af miðlungsstærð. Umbúðir dósanna hafi gefið til kynna að um matvæli væri að ræða. Angela hafi haft samband stuttu síðar og spurt hvort hún mætti fá dósirnar. Hún hafi jafnframt sagst vera mjög upptekinn og beðið D um að koma dósunum til vinar Angelu. Hann væri á rauðri Toyotu og myndi hitta hana á bílastæði við sjoppuna Bitabæ í Garðabæ. Þetta hafi gengið eftir og hafi meðákærði Hafsteinn komið og tekið við dósunum. D sagði að þessi sending hafi komið henni að óvörum og hafi hún litið á afhendinguna sem sjálfsagðan hlut og greiða við vinkonu sína Angelu. Um haustið hafi Angela spurt hana hvort ekki væri í lagi að senda fleiri póstsendingar til hennar. Angela hafi sagt að þetta væri áhættulaust og hún fengi borgað rúmlega 100.000 krónur fyrir. D kvaðst hafa lagt saman tvo og tvo og talið að þarna væri um að ræða fíkniefnasendingar. Hafi hún ítrekað neitað því að taka þátt í innflutningi á þeim. Einhvern tímann kvaðst D hafa spurt Angelu að því hvort eiturlyf hefðu verið í sendingunni og hún sagt að svo hafi verið. Að lokum kvaðst D hafa samþykkt að taka á móti einni sendingu. Í þessum pakka hafi einnig verið sælgæti og niðursuðudósir. Á þessum tíma hafi hún unnið í [...] og hafi Angela gefið henni fyrirmæli um að hún ætti að skilja dósirnar eftir í bíl sínum á efra bílastæði og láta farangursgeymslu bifreiðarinnar standa opna. Einhvern tímann eftir hádegi þann dag hafi meðákærði Hafsteinn komið inn í [...] og spurt hvar bíllinn væri þar sem hann hafi ekki fundið hann. Hún kvaðst hafa lýst því fyrir honum og hann tekið dósirnar. Viku síðar hafi Hafsteinn greitt henni 200.000 krónur fyrir hennar þátt í málinu. Fyrir dómi skýrði D á sama veg frá og hjá lögreglu.
Ákærði Hafsteinn Ingimundarson var handtekinn 27. janúar 2002 þar sem hann var á gangi á Bragagötu í Reykjavík. Í vösum hans fannst niðursuðudós sem hafði að geyma fíkniefni. Hjá lögreglu skýrði Hafsteinn svo frá að hann hafi kynnst ákærða Stefáni fyrir 1-2 árum en þá hafi sameiginlegur kunningi þeirra, G, kynnt þá. Eftir að Stefán hafi verið fluttur til Þýskalands hafi hann haft símasamband við sig og beðið sig um að sjá um dreifingu á fíkniefnum hér á landi. Stefán hafi sagt honum að fíkniefnin yrðu send til landsins í niðursuðudósum og myndi A taka á móti þeim. Ekki hafi komið fram hve mikið magn yrði í hverri dós en Stefán hafi sagt honum að heildarmagn amfetamíns yrði um 4 kíló. Hafsteinn kvaðst hafa átt að selja grammið á 2.500 krónur fyrir Stefán en mátti hafa verðið hærra og taka þá mismuninn í sinn hlut. Hafsteinn kvaðst hafa hugsað sér að selja hvert gramm á 3.000-4.000 krónur.
Varðandi þennan ákærulið kvaðst Hafsteinn hafa verið beðinn um að taka við 1 kílói af amfetamíni og 300 grömm af kókaíni af D. Hann kvað Stefán hafa beðið sig um að fara á bifreiðastæði við [...] ákveðinn dag og þar yrði jeppabifreið af [...] gerð með ákveðnu skráningarnúmeri. Hafi Stefán lagt fyrir hann að fara í skottið og sækja þar fíkniefnin. Hafsteinn taldi að þetta hafi verið í nóvember eða desember 2001. Þegar til kom hafi hann ekki fundið bifreiðina og því farið inn í [...] þar sem D hafi unnið og spurt hana hvar bifreiðin væri. Hann kvaðst síðan hafa farið með fíkniefnin til C en hafi verið búinn að ræða áður við hann um að geyma fíkniefni fyrir sig. Engin greiðsla hafi átt að koma fyrir en C hafi hins vegar haft heimild til þess að ganga í efnin að vild til eigin nota. Hafsteinn sagði að amfetamínið hafi verið í tveimur 500 gramma niðursuðudósum og kókaín í einni niðursuðudós. Fljótlega hafi hann farið að dreifa og selja þessi efni. Hann kvaðst hafa selt 1 kíló af amfetamíni og það sem á vantaði á kókaínið er lögreglan hafi lagt hald á það. Amfetamínið hafi verið selt á 3.500-4.000 krónur grammið en kókaínið á 18.000 krónur grammið. Einhvern tíman á þessu tímabili kvaðst Hafsteinn hafa hitt Angelu fyrir utan sundlaug Kópavogs og afhent henni 400.000 krónur sem hafi verið andvirði af sölu þessara fíkniefna. Hann hafi látið hana hafa meira fé síðar en mundi ekki hversu mikið.
Fyrir dómi skýrði ákærði Hafsteinn á sama veg frá og hjá lögreglu varðandi þennan ákærulið.
Ákærða Angela Koeppen er systir ákærða Stefáns Ingimars Koeppen. Hjá lögreglu viðurkenndi Angela sakargiftir samkvæmt þessum ákærulið. Þær D væru gamlar vinkonur. Hún hafi talað við D og spurt hana hvort hún væri tilbúin til þess að taka á móti póstsendingu. Hún hafi ekki verið til í það í fyrstu en síðan samþykkt það. Stefán hafi samþykkt að hún fengi greiddar 300.000 krónur fyrir sinn þátt í málinu. D hafi skrifað niður lýsingu á bíl sínum og bílnúmeri og hvar bílnum yrði lagt við [...]. Angela kvaðst hafa látið Hafstein hafa þennan miða. D hafi svo hringt í hana þegar pakkinn var kominn. Angela kvaðst þá hafa hringt í bróður sinn sem aftur hafi hringt í Hafstein og gefið honum fyrirmæli um hvenær hann ætti að nálgast sendinguna.
Í umfjöllun um II. kafla þessarar ákæru er greint frá móttöku Angelu á peningum frá Hafsteini.
Við aðalmeðferð málsins breytti ákærða Angela framburði sínum varðandi þennan ákærulið. Hún neitaði því að hafa haft milligöngu um samskipti ákærðu D og Stefáns Ingimars. Hún viðurkenndi aðeins að D hafi látið hana hafa miða sem hún hafi síðar afhent Hafsteini. Angela kvaðst ekki hafa vitað hvað stóð á miðanum. Hún hafi einnig hitt Hafstein síðar og tekið við peningum af honum. Að öðru leyti dró hún framburð sinn hjá lögreglu til baka og sagði að sér hafi liðið illa í gæsluvarðhaldi og því ekki greint rétt frá.
Ákærði Stefán Ingimar hefur neitað sök í þessum þætti málsins. Bæði hjá lögreglu og fyrir dómi nýtti hann sér rétt sinn til þess að neita að svara spurningum og heldur því fram að framburður meðákærðu sé rangur hvað hann varðar.
Niðurstaða
Ákærði Hafsteinn hefur játað sök varðandi þennan ákærulið. Í öllum meginatriðum hefur frásögn hans verið staðföst allt frá því að hann gaf sína fyrstu skýrslu hjá lögreglu. Hann hefur skýrt frá fundi sínum með D og hefur hún staðfest þá frásögn hans. Hafsteinn hefur játað að hafa dreift og selt umrætt magn af fíkniefnum að frátöldu því magni sem eftir var hjá C þegar lögreglan lagði hald á fíkniefnin og einnig að frátöldu því magni er C notaði sjálfur.
Framburður ákærðu D hefur einnig verið staðfastur. Hann hefur verið stöðugur hjá lögreglu og fyrir dómi. Hún hefur viðurkennt að hafa að beiðni Angelu móttekið ofangreinda póstsendingu með fíkniefnum, afhent Hafsteini og þegið fyrir 200.000 krónur.
Framburður C er í samræmi við framburð Hafsteins að C hafi haft fíkniefnin til geymslu fyrir Hafstein.
Framburður þessara þriggja sakborninga þykir trúverðugur og fellur frásögn þeirra saman varðandi samskipti þeirra, flutning fíkniefnanna og vörslur þeirra. Framburður Angelu hjá lögreglu fellur einnig að framburði Hafsteins og D. Hún viðurkenndi hjá lögreglu að hafa haft milligöngu um samskipti Stefáns og Hafsteins og ennfremur að hafa fengið vinkonu sína D til þess að taka þátt í innflutningnum. Hún viðurkenndi einnig að hafa skipulagt fund D og Hafsteins þar sem fíkniefnin voru afhent.
Sem áður sagði breytti Angela framburði sínum fyrir dómi. Hún viðurkenndi aðeins að hafa tekið við miða frá D og afhent Hafsteini án þess að vita hvað stæði á miðanum. Þessi breytti framburður þykir einkar ótrúverðugur enda hefur Angela ekki gefið neina sannfærandi skýringu á þessum breytta framburði.
Ákærði Stefán Ingimar hefur neitað sök og ennfremur neitað að tjá sig um sakarefnið. Á meðan á rannsókn málsins stóð yfir hleraði lögregla símtöl hans við Hafstein og Angelu. Í þeim símtölum kemur greinilega fram að Stefán stóð að þessum innflutningi og skipulagði hann með aðstoð Hafsteins og Angelu.
Sök ákærðu samkvæmt þessum ákærulið þykir því sönnuð og eru brot þeirra rétt færð til refsiákvæðis í ákæru.
Ákæra dagsett 12. maí 2003
II. kafli ákæru
Innflutningur á 4.808,67 grömmum af amfetamíni
Málavextir
Í þessum lið ákærunnar eru ákærðu Stefán Ingimar, A, B, Hafsteinn, C og Angela sökuð um fíkniefnabrot með því að hafa í ágóðaskyni staðið að ólögmætum innflutningi á ofangreindu magni af amfetamíni til söludreifingar hér á landi, tekið við fíkniefnunum og haft í vörslum sínum eftir innflutning. Lögreglan lagði hald á fíkniefnin en þau höfðu verið send til landsins í pósti og komið fyrir í niðursuðudósum.
Bæði hjá lögreglu og fyrir dómi lýsti ákærði Stefán Ingimar því yfir að hann nýtti sér rétt sinn til þess að neita að svara spurningum varðandi sakarefnið.
Ákærði Hafsteinn skýrði svo frá hjá lögreglu að hann hafi kynnst Stefáni Ingimar fyrir 2-3 árum. Á árinu 2001 hafi hann farið í heimsókn til Stefáns þar sem hann bjó í Þýskalandi. Stefán hafi sagt honum að hann væri með í bígerð að senda mikið magn af fíkniefnum fyrir jólin til Íslands og boðið honum að taka þátt í því með því að selja fíkniefnin á Íslandi. Hafsteinn kvað Stefán aldrei hafa nefnt hvaða fíkniefni um væri að ræða né á hvaða hátt hann mundi koma efnunum til Íslands. Hafsteinn kvaðst hafa haldið til Íslands án þess að nokkuð hafi verið fastmælum bundið. Síðar hafi Stefán haft símsamband við hann og sagt honum að 4 kíló af amfetamíni væru á leið til landsins. Eftir nokkrar umræður kvaðst Hafsteinn hafa samþykkt að taka að sér að dreifa og selja þessi fíkniefni. Einhvern tímann á milli jóla og nýárs 2001 hafi Stefán haft samband við hann aftur og sagt honum að þessi 4 kíló af amfetamíni væru komin til landsins. Hafi Stefán beðið hann um að hitta [...], meðákærða A, á [...] til að ræða þessi mál frekar. Hafsteinn kvaðst hafa farið á [...] og hitt þar A. A hafi sagt honum að þessi 4 kíló af amfetamíni væru komin til landsins og hafi spurt hann hvenær hann vildi taka við þeim. Hafsteinn kvaðst ekki hafa litist á A, það hafi verið eitthvað sem hafi sagt honum að ekki væri allt í lagi. Fyrir utan [...] hafi hann afhent A umslag með 300.000 krónum. Hann hafi því ákveðið að draga sig út úr þessu og hætta við allt saman. Stefán hafi síðar haft samband við hann aftur og sagt honum að A hafi verið að drepast úr stressi við það eitt að hafa þessi 4 kíló í sinni vörslu og hafi viljað losna við þau sem fyrst. Hann hafi jafnframt sagt honum að Angela væri að koma til Íslands frá Danmörku og myndi skipuleggja afhendingu efnanna frekar. Hafsteini kvaðst hafa snúist hugur við þetta samtal og tekið að sér aftur að annast dreifingu og sölu efnanna.
Hafsteinn kvað Stefán hafa sagt honum að hann þyrfti að hitta Angelu á [...] í Hafnarfirði laugardaginn 26. janúar 2001 kl. 19:00 og þar yrðu málin rædd frekar. Hann hafi farið þangað og hitt Angelu. Í framhaldi af því hafi þau farið í ökuferð um Hafnarfjörð á bíl [...]. Þau hafi rætt saman um það hvað þau væru bæði stressuð og hún hafi sagt honum að A hafi gjörsamlega verið farinn á taugum og ælt blóði við það eitt að hafa amfetamínið í vörslu sinni. Þau hafi ákveðið sameiginlega að hún færi í sund daginn eftir í sundlaug Kópavogs kl. 15 og skildi eftir tösku með niðursuðudósunum í farangursgeymslu bifreiðar [...]. Hann hafi síðan ætlað að koma og taka töskuna og fara með hana í geymslu til vinar síns ákærða C. Ætlun hans hafi verið að geyma dósirnar hjá C og koma efninu síðan í dreifingu og sölu smám saman. Þetta hafi gengið eftir og næsta dag kl. 15 hafi hann farið og náð í töskuna í bifreið [...] Angelu þar sem hún stóð fyrir utan sundlaug Kópavogs. Hann hafi farið með töskuna til C en verið búinn að ræða við hann áður um að geyma þessar dósir fyrir sig. Hann hafi jafnframt sagt C frá því að í dósunum væri 4 kíló af amfetamíni og að hann mætti fá eins mikið af efninu og hann vildi til eigin neyslu. Síðar um kvöldið sama dag hafi hann verið á göngu í Reykjavík er hann hafi verið handtekinn og þá hafi hann verið með eina dós úr nefndri tösku í vasanum.
Hafsteinn kvaðst hafa haft fyrirmæli frá Stefáni að greiða A 1.000.000 króna fyrir sinn þátt í málinu. Hann hafi átt að láta A hafa þessa fjárhæð er hann hitti hann á [...]. Hann hafi hins vegar ekki getað útvegað þessa fjárhæð og því hafi afhending á efnunum dregist til laugardagsins 26. janúar 2002 en þá hafi hann borgað Angelu 600.000 krónur. Hafsteinn taldi að A hafi haft vitneskju um hvað var í dósunum því hann hafi sjálfur sagt honum að hann hafi aldrei fengið svona margar dósir áður. Hann hafi einnig sagt Hafsteini að fleiri væru að fá svona sendingar frá Stefáni án þess að nafngreina þá frekar.
Fyrir dómi skýrði ákærði Hafsteinn á sama veg frá og hjá lögreglu.
Fyrir dómi játaði ákærði C að hafa móttekið ofangreint magn af amfetamíni af Hafsteini. Hann hafi verið amfetamínneytandi á þeim tíma og verið peningalítill, atvinnulaus og langt niðri andlega. Hann hafi því samþykkt beiðni Hafsteins um að geyma fíkniefnin og nánast litið á það sem greiða af hálfu Hafsteins því að launum hafi hann mátt ganga í amfetamínið að vild. Einnig hafi verið talað um greiðslu en fjárhæð aldrei nefnd. Til þess hafi aldrei komið því lögreglan hafi lagt hald á dósirnar stuttu síðar.
Bæði hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði ákærði A svo frá að [...], ákærða Angela, hafi hringt í hann um mánaðarmótin nóvember-desember 2001 og spurt hvort hún mætti senda til hans pakka með þýsku sælgæti og jóladóti. Hann hafi svarað því til að það væri allt í lagi. Í pakkanum hafi verið 3 dósir af niðursuðumat ásamt sælgæti og öðru dóti. Eftir að hann hafi fengið pakkann hafi Angela hringt í hann og spurt hvort að hann gæti geymt matvælin fyrir hana og hafi hann sagt að það væri allt í lagi. Um fjórum dögum síðar hafi Angela hringt í hann aftur og beðið hann um að ná í annan pakka til sameiginlegs vinar þeirra, ákærða B. A kvaðst hafa náð í 3 niðursuðudósir til hans sem hann hafi geymt. Þá hafi Angela einnig beðið hann um að ná í 2 niðursuðudósir til vinkonu sinnar H. Þau Angela, B, A og H séu öll gömul skólasystkini úr [...]. Þegar hann hafi verið búinn að safna saman þessum átta dósum hafi Angela beðið hann um að hitta mann í sundlaug Kópavogs. Hún hafi jafnframt sagt að hann mundi ekki þekkja manninn en maðurinn myndi þekkja hann. Þetta hafi verið um það bil viku eftir að hann hafi verið kominn með allar dósirnar í sínar vörslur. Enginn hafi gert vart við sig í sundlauginni og hafi hann þá hringt í Angelu og sagt henni það. Hún hafi þá hringt aftur í hann og beðið hann um að hitta þennan mann á [...]. A kvað sig hafa verið farinn að gruna um þetta leyti að eitthvað gruggugt væri á seiði. Hann hafi farið á [...] og hitt manninn og þeir rætt saman. Maðurinn hafi beðið hann um að geyma dósirnar eitthvað áfram. A kvað að sér hafi verið hætt að lítast á þetta og því beðið vin sinn, ákærða B, að geyma dósirnar fyrir sig. B hafi samþykkt það og hafi A farið með allar dósirnar átta í íþróttatösku til B. Angela hafi komið til landsins laugardaginn 26. janúar með [...]. A kveðst hafa sótt þau út á flugvöll og keyrt Angelu heim til föður hennar að [...]. Daginn eftir hafi hún beðið hann um að sækja dósirnar til B. Hann kvaðst hafa gert það og hafi dósirnar verið í sömu tösku og áður. Angela hafi beðið hann að hitta mann í sundlaug Kópavogs klukkan 15:00 þennan dag og myndi sá maður taka dósirnar. Hann kvaðst hafa sett töskuna í farangursgeymslu bifreiðar [...] Angelu og farið í sund. Hann hafi ekki hitt neinn mann í sundinu og farið heim að því loknu án þess að athuga sérstaklega hvort að taskan væri enn í skottinu.
A kvaðst ekki hafa vitað um innihald dósanna. Þá hefur hann sagt að framburður Angelu og B sé rangur en B hefur borið að A hafi greitt honum 150.000 krónur fyrir að geyma fíkniefnin.
Hjá lögreglu skýrði ákærði B svo frá að hann hafi þekkt A frá því að þeir voru saman í skóla. Samgangur hafi verið á milli þeirra og þeir stundum talað saman í síma. Það hafi verið í byrjun nóvember 2001 að A hafi komið að máli við hann og spurt hvort hann væri tilbúinn að taka á móti pakka frá útlöndum. B kvaðst ekki hafa spurt hvað væri í pakkanum en grunað að innihald hans væri fíkniefni því A hafi verið handtekinn 2-3 árum áður fyrir dreifingu og sölu á fíkniefnum. B kvaðst hafa sagt honum að hann vildi ekki taka þátt í þessu.
Seinnihluta sama mánaðar hafi honum þó snúist hugur þar sem fjárhagsstaða hans hafi verið slæm. Hann hafi því haft samband við A og þeir gengið frá samkomulagi um að hann fengi greiddar 150.000 krónur fyrir að taka á móti sendingu að utan. Þann 22. desember hafi starfsmaður frá póstinum komið með pakka til hans. Hann kvaðst hafa sett pakkann strax inn í skáp hjá sér og hringt í A sem hafi beðið hann um að geyma pakkann í nokkra daga. Eftir 3-4 daga hafi A komið og sótt pakkann. Um 2-3 dögum síðar kvaðst B hafa hringt í A og spurt hvenær greiðslu væri að vænta. A hafi beðið hann um að koma til sín í vinnuna þar sem hann hafi verið að vinna í húsi [...] við hliðina á [...]. I, vinkona B, hafi ekið honum á þennan fund. Þar fyrir utan húsið hafi hann hitt A sem hafi afhent honum 150.000 krónur í 5.000 króna seðlum. I kom fyrir dóm og bar að hún hafi keyrt B [...] og hafi B sagt henni að hann væri að fá greidda skuld frá vini sínum. Hún gat ekki greint nánar frá þessum atburði.
Í janúarmánuði 2002 kvaðst B hafa hitt A í Smáralindinni. A hafi spurt hvort að hann væri tilbúinn í að geyma fyrir hann íþróttatösku og fá greitt fyrir það 150.000 krónur. Hann hafi átt að geyma þessa tösku í nokkra daga og A myndi nálgast hana aftur hjá honum. Hann kvaðst hafa samþykkt þetta og nokkrum dögum síðar hafi A komið með íþróttatösku til sín. Sunnudaginn 27. janúar hafi A komið heim til hans og sótt töskuna. B kvaðst ekki hafa athugað með innihald töskunnar en A hafi sagt honum að í henni væri 200-300 grömm af fíkniefnum, eitthvað sælgæti og annað dót. A hafi sagt honum að hann mundi fá peningagreiðslu síðar frá honum en það hafi brugðist vegna þess að A hafi verið handtekinn stuttu síðar. Fyrir dómi skýrði B á sama veg frá og hjá lögreglu að öðru leyti en því að hann taldi sig ekki hafa vitað hvað væri töskunni. Þegar honum var bent á að hann hafi játað hjá lögreglu að hafa vitað um innihaldið svarði hann því til að hann hafi ekki vitað að þetta væru svona sterk efni heldur haldið að þetta væri einungis hass.
Ákærða Angela skýrði svo frá hjá lögreglu að í nóvember hafi Stefán beðið hana um að tala við A og biðja hann um að taka við póstsendingu sem innihéldi fíkniefni. Hvorki hún né A hafi vitað um hvaða fíkniefni væri að ræða né hversu mikið magnið væri. Stefán hafi aðeins sagt að fíkniefnin væru í dósum. Hún kvað A hafa látið sig hafa miða með tveimur heimilisföngum, annars vegar heimilisfang móður sinnar og hins vegar ákærða B. Þennan miða kvaðst Angela hafa afhent Stefáni. Stefán hafi einnig spurt hana hvort hún vissi ekki um einhverja sem vantaði pening og séu tilbúnir að taka við sendingum. Hún hafi svarað því neitandi. Stefán hafi þá nefnt nafn H, vinkonu hennar, sem Stefán hafi einnig þekkt. Henni hafi þótt þetta fráleit uppástunga hjá Stefáni enda H bæði með barn og kærasta. Um það bil viku síðar hafi Stefán hringt í hana og sagt henni að hann hafi þurft að skipta sendingunni í þrennt og hafi sent einn pakka á nafn H. Þetta hafi hann gert án þess að tala við Angelu. Angela kvaðst hafa brugðið verulega við þetta en Stefán hafi sannfært hana um að þetta væri öruggt og að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu. Stuttu seinna hafi A hringt í hana og sagt henni að sendingin til móður hans væri komin. Angela kvaðst þá hafa hringt strax í H til þess að spyrja hvort hún væri búin að fá sinn pakka. H hafi svarað því neitandi en Angela kvaðst hafa sagt H að það væri pakki á leiðinni. Í pakkanum væru gjafir til hennar en einnig niðursuðudósir sem A myndi sækja. Síðan kvaðst Angela hafa beðið A um að sækja dósirnar til H og hafi hann gert það.Vitnið H kom fyrir dóm og staðfesti þennan framburð Angelu.
Fyrsta póstsendingin hafi komið til móður A og hafi A fengið áfall þegar hann hafi séð hversu mikið magn þetta var. Angela sagði að hún hafi komið skilaboðum á milli manna. A hafi verið mjög tregur til þess að taka þátt og séð eftir því frá byrjun. Hann hafi þó vantað peninga og því leiðst út í þetta. Stefán hafi beðið hana um að ýta á eftir A með að annast þetta fyrir Stefán.
Angela sagði að Hafsteinn hafi ákveðið að afhending efnanna færi fram með þeim hætti að bíll [...] Angelu yrði fyrir utan sundlaugina í Kópavogi 27. janúar um klukkan þrjú. Bíllinn hafi átt að vera á bílastæðinu þar fyrir utan og farangursgeymsla ólæst. A hafi síðan farið daginn eftir á bílnum og náð í fíkniefnin
Angela kvaðst hafa komið þrisvar sinnum til Íslands á þessu tímabili og í öll skiptin hafi hún tekið við peningum af Hafsteini og síðan afhent Stefáni. Það hafi verið í fyrsta skipti í september 2001. Hún hafi þá fengið skilaboð frá Stefáni um að hitta Hafstein við sundlaugina í Kópavogi. Hafsteinn hafi þá afhent henni peninga og jafnframt sagt henni að þau þyrftu að hittast aftur vegna þess að hann ætti eftir að safna meiri peningum. Í annað sinn hafi þau einnig hist við sundlaugina í Kópavogi. Hann hafi afhent henni meiri peninga og hafi hún farið með þá ásamt þeim peningum sem hún hafi fengið í fyrra skiptið til Þýskalands og afhent Stefáni. Það hafi verið í byrjun október. Fyrir sinn þátt hafi hún fengið greitt með því að Stefán hafi greitt fyrir hana fargjöld frá Kaupmannahöfn til Íslands og síðan aftur frá Íslandi til Kaupmannahafnar. Í þriðja skipti hafi hún komið með son sinn til Íslands í þeim tilgangi að hann gæti hitt föður sinn, [...]. Í þetta skipti hafi hún fengið fyrirmæli um að hitta Hafstein á [...]. Þar hafi verið mikið af fólki og hafi þau ákveðið að fara á [...]. Þar hafi Hafsteinn afhent henni peninga sem hún hafi tekið með sér út eins og í fyrra skiptið. Hún hafi fengið greitt fyrir sinn þátt með því að Stefán borgaði ferðir og uppihald. Í fjórða skipti hafi hún hitt Hafstein 26. janúar á [...]. Stefán hafi skipulagt fundinn eins og áður. Allt hafi verið fullt af fólki á [...] og því hafi þau keyrt um Hafnarfjörð og stoppað síðan við [...] í Strandgötu. Þar hafi þau setið og spjallað og loks hafi Hafsteinn afhent henni peninga í umslagi eins og áður. Angela kvaðst hafa vitað að þessir peningar væru vegna fíkniefnaviðskipta Hafsteins og Stefáns.
Þann 20. febrúar 2002 var tekin dómskýrsla af Angelu með heimild í b-lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991. Í þeirri skýrslutöku viðurkenndi Angela að fíkniefnin hafi komið í niðursuðudósum frá bróður hennar, ákærða Stefáni. Þær hafi verið sendar með pósti og ein sending stíluð á móður A, önnur á ákærða B og sú þriðja á vitnið H. Ekki kvaðst Angela hafa haft hugmynd um hvað mikið magn væri af fíkniefnum í dósunum. Hún taldi að þáttur Hafsteins væri að koma fíkniefnunum í sölu. A hafi sótt fíkniefnin til þessara aðila og síðan geymt þau uns hann hafi afhent þau Hafsteini. A hafi sagt henni að hann vildi fá 1.000.000 fyrir sinn þátt í málinu. Angela kvaðst hafa farið tvisvar með peningagreiðslur til bróður síns. Hún hafi ekki haft hugmynd um hversu miklir peningar það hafi verið heldur aðeins afhent honum pakkana eins og hún hafi tekið við þeim. Áður en hún kom til Íslands hafi Stefán beðið hana um að hitta Hafstein og A og koma skilaboðum á milli þeirra. Þá hafi Stefán einnig beðið hana um að taka á móti peningum.
Við aðalmeðferð breytti ákærða Angela framburði sínum varðandi þennan ákærulið og kvaðst nú ekki hafa haft milligöngu um samskipti ákærða A og Stefáns Ingimars. A hafi þó látið hana hafa miða sem hún hafi farið með út til Stefáns bróður síns og á þessum miða hafi verið heimilisföng. Angela viðurkenndi að hafa hitt Hafstein og þau átt samtal fyrir utan [...] í Hafnarfirði. Hafsteinn hafi þá beðið hana fyrir skilaboðum til A um að A ætti að hitta Hafstein fyrir utan sundlaug Kópavogs klukkan þrjú daginn eftir þann 27. janúar 2002. Angela kvaðst ekki hafa vitað frekar um hvað málið snérist. Þennan breytta framburð sinn skýrði ákærða Angela með því að hún hafi verið orðin andlega miður sín í gæsluvarðhaldinu og því væri ekki rétt eftir henni haft við yfirheyrslu hjá lögreglu.
Niðurstaða
Upplýst er varðandi þennan ákærulið að þrír pakkar komu til landsins og var einn sendur til móður A, annar til ákærða B og þriðji til vitnisins H. Í öllum þessum pökkum voru niðursuðudósir sem höfðu samtals að geyma 4.808,67 grömm af amfetamíni. A safnaði dósunum saman og fékk B til þess að geyma þær. A sótti þær til B 26. janúar 2002 og Hafsteinn sótti fíkniefnin daginn eftir í bifreið sem stóð fyrir utan Sundlaug Kópavogs. Hafsteinn fór með fíkniefnin til C til geymslu og þar voru þau haldlögð sama dag.
Hafsteinn hefur játað sök að öllu leyti varðandi þennan þátt málsins að öðru leyti en því að hann hafi ekki flutt inn amfetamínið. Hann hefur lýst því hvernig hann kynntist Stefáni og að hann hafi farið til hans í heimsókn til Þýskalands. Það hafi verið fastmælum bundið milli þeirra að Hafsteinn tæki að sér að dreifa og selja fíkniefni fyrir Stefán hér á landi. Þá hefur Hafsteinn lýst því að hann hafi átt fund með A á [...] og hvernig hann sótti efnin í skottið á bifreið [...] Angelu þar sem hún stóð fyrir utan sundlaug Kópavogs. Fíkniefnin hafi hann farið með til C til geymslu. Þessi frásögn Hafsteins er í samræmi við framburð A, C og framburð Angelu hjá lögreglu. Þykir framburður Hafsteins trúverðugur og kemur hann heim og saman við framburð hinna svo og þær hljóðritanir sem liggja fyrir af símtölum Hafsteins og Stefáns annars vegar og Angelu og Stefáns hins vegar. Framburður C er samhljóma framburði Hafsteins um þátt þess síðarnefnda í málinu.
Framburður B kemur heim og saman við framburð A í öllum atriðum fyrir utan það að A neitar því að hafa vitað um innihald dósanna og eins neitar A því að hafa greitt B 150.000 krónur fyrir hans þátt í málinu. B hefur viðurkennt að hafa tekið á móti póstsendingu frá útlöndum í desember 2001 og í þeim hafi verið fíkniefni. Hann hafi þegið 150.000 krónur fyrir og hafi A greitt honum þá fjárhæð. Eins hefur B viðurkennt að hafa geymt fyrir A 4.808.67 grömm af amfetamíni í nokkra daga í janúar 2002.
Framburður A er að því leyti samhljóma framburði B, Angelu og vitnisins H að A hafi sótt pakkana til H og B og síðar beðið B um að geyma allar dósirnar í nokkra daga uns A sótti þær 27. janúar 2002. Eins er framburður Hafsteins og A samhljóða um að þeir hafi hist á [...] og að A hafi farið í sund sunnudaginn 27. janúar 2002 með íþróttatösku í skottinu og að Hafsteinn hafi sótt töskuna þangað.
B segir að A hafi sagt honum að íþróttataskan geymdi fíkniefni. A kannast ekki við það og eins mótmælir hann framburði B um að hafa greitt B 150.000 krónur. Þá segir A framburð Hafsteins rangan um samtal þeirra á [...]. A kvaðst þá ekki hafa gert sér grein fyrir að hann væri með fíkniefni í vörslu sinni en Hafsteinn hefur borið að þeir hafi rætt fíkniefnaviðskipti. Framburður A stangast einnig á við framburð Hafsteins og Angelu um að A hafi átt að fá um 1.000.000 krónur í sinn hlut fyrir að safna fíkniefnunum saman og geyma þau. Framburður A stangast einnig að nokkru leyti á við framburð Angelu um að A hafi vitað að um fíkniefnasendingu væri að ræða og að hann hafi átt að fá 1.000.000 krónur fyrir sinn þátt í málinu. Þá viðurkennir A ekki heldur að hafa látið Angelu hafa miða með heimilisföngum sem hún hafi síðan afhent Stefáni.
Þegar leggja á mat á trúverðugleika framburðar A verður að hafa í huga að hann bjó með Angelu um tíma og þau eiga eitt barn saman. Hann vann með Stefáni Ingimar áður en Stefán flúði land. Unnu þeir hjá föður Stefáns og vinnur A þar enn. Það verður einnig að hafa í huga í þessu sambandi að A var dæmdur 27. maí 2000 fyrir að annast sölu á fíkniefnum fyrir Stefán. Bakgrunnur þessara þriggja ákærðu og áðurnefnt samband þeirra var með þeim hætti að útilokað verður að teljast að A hafi ekki vitað af því að niðursuðudósirnar innihéldu fíkniefni. Framburður B, Hafsteins og Angelu hjá lögreglu og í dómskýrslu 20. febrúar 2002 er trúverðugur og í samræmi við önnur gögn málsins. Framburður þessara þriggja ákærðu, sem rakinn er hér að framan, þykir eindregið benda til sektar A. Þá benda símtöl Hafsteins og Stefáns til hins sama. Þar kemur fram að Hafsteini hafi ekki litist á A eftir fund þeirra á [...] en Stefáni tekst hins vegar að sannfæra Hafstein um að A hafi aðeins verið svona taugaveiklaður. Í þessu símtali kemur einnig fram að A hafi krafist þess að fá greitt 1.000.000 krónur fyrir sinn þátt í málinu. Þegar allt ofangreint er virt í heild þykir sök A sönnuð.
Sem áður sagði dró Angela framburð sinn til baka við aðalmeðferð málsins. Hún viðurkenndi aðeins að hafa tekið við miða af A og afhent Stefáni þennan miða án þess að vita hvað á honum stæði. Þá viðurkenndi hún að hafa komið skilaboðum til A að hitta Hafstein fyrir utan Sundlaug Kópavogs og að hafa hitt Hafstein einu sinni. Hún hafi hins vegar ekki vitað um hvað málið snérist.
Breyting á framburði Angelu fyrir dómi er einkar ótrúverðug enda hefur hún ekki gefið neina skynsamlega skýringu á þessum breytta framburði. Eru engin efni til annars en að víkja honum til hliðar. Verður framburður hennar hjá lögreglu lagður til grundvallar en sá framburður er í samræmi við framburð hennar fyrir dómi 20. febrúar 2002. Verður því talið sannað að Angela hafi að undirlagi Stefáns fengið A til þess að taka við póstsendingu og safna hinum sendingunum saman. Sannað telst einnig að hún hafi borið skilaboð á milli aðila um afhendingu fíkniefnanna og tekið við peningum úr hendi Hafsteins og farið með þá út til Stefáns. Að launum fékk Angela greitt fyrir með því að Stefán greiddi fyrir hana flugfar til og frá Íslandi og uppihald á meðan á dvöl hennar stóð.
Ákærði Stefán Ingimar hefur neitað að svara spurningum um sakarefnið. Við mat á sök hans verður lagður til grundvallar framburður Angelu en hún hefur viðurkennt að það hafi verið Stefán sem skipulagði og stóð fyrir innflutninginum. Framburður Hafsteins er á sama veg en hann hefur viðurkennt að hafa farið út í heimsókn til Stefáns til þess að ræða fíkniefnaviðskiptin við hann. Þessum trúverðuga framburði Hafsteins og Angelu eru einnig til stuðnings símtöl sem lögreglan hleraði við rannsókn málsins. Eru það símtöl Stefáns og Hafsteins annars vegar og Stefáns og Angelu hins vegar. Þessi símtöl eru því til stuðnings að Hafsteinn og Angela hafi greint rétt frá varðandi þátt ákærða Stefáns í málinu.
Sök ákærðu allra samkvæmt þessum ákærulið telst því sönnuð og eru brot þeirra rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
III.
Peningaþvætti
Málavextir
Í þessum þætti ákærunnar er ákærða Angela sökuð um peningaþvætti með því að hafa móttekið peninga sem hún hafði vitað að hafi verið ávinningur ákærðu Hafsteins og/eða Stefáns af sölu fíkniefna hér á landi. Við rannsókn málsins aflaði lögregla gagna um peningasendingar ákærðu Angelu.
Hjá lögreglu skýrði ákærða Angela svo frá að hún hafi alls fjórum sinnum hitt meðákærða Hafstein og tekið á móti peningum frá honum. Fyrir dómi dró ákærða í land með þetta atriði og kvaðst nú einungis einu sinni hafa hitt Hafstein en í mesta lagi tvisvar sinnum. Einu sinni hafi hún tekið á móti umslagi með peningum frá honum en ekki vitað hve miklir peningar það voru. Hún kvaðst ekki hafa vitað að þetta væri ávinningur af sölu fíkniefna.
Hjá lögreglu viðurkenndi ákærða að hafa móttekið 186.400 krónur í janúar 2002 sem sendar hafi verið frá Íslandi til hennar í Þýskalandi og hún síðan afhent meðákærða Stefáni í Þýskalandi. Fyrir dómi neitaði hún að svara spurningum um þetta atriði. Á sama hátt viðurkenndi ákærða hjá lögreglu að hafa móttekið 200.000 krónur í janúar 2002 sem hún hafi fengið sendar frá Íslandi til Danmerkur og afhent þá fjárhæð síðan til meðákærða Stefáns í Þýskalandi. Fyrir dómi sagði ákærða að þetta væri rangt eftir sér haft hjá lögreglu.
Hjá lögreglu játaði ákærða að hafa móttekið 570.000 krónur, 300 evrur í reiðufé frá meðákærða Hafsteini og að hún hafi ætlað að afhenda Stefáni Ingimar þessa peninga en til þess hafi ekki komið vegna þess að lögregla hafði lagt hald á þá við rannsókn málsins. Fyrir dómi neitaði ákærða þessu og sagði að hún hafi ætlað að afhenda A þessa peninga en ekki Stefáni.
Tvö vitni komu fyrir dóm vegna þessa ákæruliðs.Vitnið J sagði að faðir hennar, K, hafi beðið hana um að fara með 186.400 krónur og senda Angelu þá í gegnum fyrirtækið Western Union. Hún þekki Angelu ekki neitt og viti ekkert frekar um þessa peningasendingu. Vitnið L bar á sama veg. Hún hafi sent Angelu 200.000 krónur en þekki hana ekki neitt. Hafi hún gert þetta fyrir mann sem hún vildi ekki nafngreina.
Niðurstaða
Afturhvarf ákærðu Angelu frá fyrra framburði þykir í ljósi þess sem áður sagði mjög ótrúverðugt. Verður talið að hún hafi greint rétt frá hjá lögreglu enda er sá framburður hjá lögreglu í samræmi við önnur gögn málsins og framburð ákærða Hafsteins.
Brot hennar samkvæmt þessum kafla ákæru þykja því sönnuð og eru þau rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæra dagsett 27. janúar 2000
Innflutningur á 630,24 grömmum af kókaíni
Málavextir
Í þessari ákæru eru E, F og Stefán Ingimar Koeppen Brynjarsson ákærðir fyrir að flytja inn í hagnaðarskyni 630,24 grömm af kókaíni til landsins. Sem áður sagði lauk þætti F og E með dómi 14. júní 2000. Ákærði E var dæmdur í 2 ára fangelsi en ákærði F 3 ára fangelsi. Þessi niðurstaða var staðfest með dómi Hæstaréttar 23. nóvember 2000 gagnvart ákærða F sem áfrýjaði einn málinu.
Þann 21. desember 1998 handtók lögreglan E á Keflavíkurflugvelli en hann hafði í fórum sínum töluvert magn fíkniefna. Við yfirheyrslur hjá lögreglu kvaðst E hafa verið burðardýr fyrir þá Stefán Ingimar og F. Kvaðst E hafa þekkt Stefán frá sumrinu 1997 en þá hafi Stefán selt honum kókaín. Þeir hafi ekki talast við lengi eftir það þar til Stefán hafi komið skilaboðum til E um að hafa samband við sig. E hélt þá að hann ætlaði bjóða honum fíkniefni til sölu. Það hafi orðið úr að Stefán kom á heimili E og greindi honum frá því að til stæði að flytja kókaín inn til landsins en fjármagn vantaði. Ef E gæti lagt fé til kaupanna fengi hann það tvöfalt til baka. E kvaðst ekki hafa fé til að leggja í slíkt en gaf þó ekki eindregið afsvar.
Að sögn E kom Stefán aftur nokkrum dögum seinna á heimili hans en þar var þá staddur bróðir E, M. Hafi Stefán Ingimar enn verið að leita eftir fjármögnum á um það bil 300-400.000 krónum og meðal annars stungið upp á að vinir E leggðu fé í innflutninginn. E segir að það hafi ekki verið fyrr en eftir að hann hafi neitað að leggja fé í innflutninginn sem Stefán hafi boðið honum að gerast burðardýr. Stefán hafi boðið honum sem greiðslu 200 grömm af kókaíni eða um 10% af því sem að ætlunin væri að flytja inn. Stefán Ingimar hafi boðið E 3.000.000 króna þegar E leitaði eftir því að fá frekar greitt í peningum en efni. Fjárhæðin færi þó eftir því hversu sterkt kókaín þeim tækist að flytja inn.
E kvaðst hafa fallist á að gerast burðardýr gegn áðurnefndri peningagreiðslu. Stefán hafi þá sagt honum að líklegt væri að ferðin yrði farin fyrir áramót. Nokkru seinna hafi Stefán og F komið á heimili E og hafi það verið í fyrsta sinn sem hann sá F. Þarna hafi þeir rætt skipulagningu á fyrirhuguðum innflutningi á fíkniefnum meðal annars um það að F færi út nokkrum dögum á undan E og undirbyggi málið. E kæmi síðan til Mexíkó og yrði afhentur pakki til að fara með til Íslands. Í þetta sinn hafi einnig verði ákveðið að hittast næsta sunnudag til að sýna E felustaðinn fyrir fíkniefnin þegar hann væri kominn með þau til landsins.
Sunnudaginn 6. desember 1998 hafi þeir farið saman þremenningarnir í sumarbústað [...]. Á leiðinni hafi Stefán og F mælst til þess við E að hann leigði sér bílaleigubíl þegar hann kæmi til baka til landsins og kæmi fíkniefnunum síðan fyrir í sumarbústaðnum. Stefán hafi haft lyklana af sumarbústaðnum og hafi verið ákveðið að E léti fíkniefnin undir skúringarfötu í ruslageymslu bústaðarins. Í þessari ferð hafi verið ákveðið að Stefán myndi láta E hafa fé fyrir flugmiðanum.
Að sögn E hitti hann Stefán við vinnustað Stefáns daginn fyrir brottför og hafi Stefán látið hann hafa rúmlega 100.000 íslenskar krónur og sagt honum að fara á Ferðaskrifstofu stúdenta til að ganga frá flugmiðanum sem E kveðst hafa gert.
M bróðir E hafi ekið honum út á flugvöll. Á leiðinni þangað hafi E móttekið símboð frá Stefáni Ingimar og hafi þeir M farið að hitta Stefán. Stefán hafi viljað tryggja sér að allt væri í lagi með farseðla og að E hafi ætlað örugglega að utan. Segir E að þarna hafi M bróðir hans aftur hitt Stefán.
E segir F hafa tekið á móti sér á flugvellinum í Mexíkó. Viðskiptin hafi farið fram og kókaíni sett í tréplatta.
Hjá lögreglu kvað F hlutverk sitt í ferðinni til Mexíkó hafi verið að koma E í tengsl við mann að nafni Jose sem hafi meðal annars útvegað fíkniefni að beiðni Stefáns. F kvaðst hafa gert sér grein fyrir að hann væri að aðstoða við innflutning fíkniefna en hann hafi gert það til þess að geta fengið endurgreidda peningaskuld Stefáns við sig sem hafi stofnast þegar Stefán var handtekinn í Mexíkó í september. Þá hafi Jose útvegað Stefáni fíkniefni sem þeir hafi síðan verið handteknir með.
Sunnudaginn 6. desember 1998 kveðst F hafa náð í Stefán á heimili hans í [...]. Þeir tveir hafi síðan náð í E á heimili hans og hafi það verið í fyrsta sinn sem hann og E hafi hist. Fyrst hafi þeir ekið stefnulaust um bæinn en markmiðið hafi verið að stofna til kynna F og E. F kvaðst hafa ekið austur fyrir fjall að beiðni Stefáns. Á leiðinni hafi Stefán og E rætt um fyrirhugað fíkniefnasmygl en þó ekki magn eða tegund. F segist hafa séð E rétta Stefáni umslag með kvittunum fyrir gjaldeyriskaupum en Stefán hafi ekkert viljað með það hafa. F kvaðst hafa tekið á móti E á flugvellinum í Mexíkó og ekið honum á hótel til gistingar. Hann hafi komið á sambandi Jose og E.
Við rannsókn málsins kom í ljós að F tók út alls 1.089.505 íslenskar krónur með greiðslukorti í ferð sinni til Mexíkó og Bandaríkjanna. Með greiðslukorti bróður síns sem hann fékk lánað tók hann út 700.461 krónu og með eigin greiðslukorti 389.044 krónur.
Í niðurstöðu dómsins segir um sönnunarmat að frásögn E sé heilsteypt og trúverðug og samrýmist nánast að öllu leyti gögnum málsins. Í málinu þótti sannað að F hafi hringt í Ferðaskrifstofu stúdenta til að ganga frá farmiða fyrir E. Útskýringar F á gjaldeyriskaupum hans í Mexíkó þóttu með miklum ólíkindum. Framburður vitnisins N þótti einnig renna stoðum undir þá fullyrðingu ákæruvaldsins að F hafi fjármagnað kaupin. Sem áður sagði var hann dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir sinn þátt í málinu.
E kom fyrir dóm við aðalmeðferð þessa máls. Hann skýrði á sama veg frá og áður. F kom einnig aftur fyrir dóminn. Hann treysti sér ekki til þess að skýra frá málavöxtum kvaðst lítið muna frá þessu tímabili.
Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði ákærði Stefán svo frá að hann ætti enga aðild að þessu máli. Við aðra yfirheyrslu kvaðst hann vilja segja satt og rétt frá. Hann standi í skuld við hóp fólks sem hann vilji ekki nafngreina. Þessi hópur hafi hótað honum vegna skuldarinnar og meðal annars stungið á dekk hjá honum tvisvar sinnum og haft í hótunum við fjölskyldu hans. Honum hafi verið boðið að skuldin félli niður ef hann myndi leigja sumarbústað í [..] á sínu nafni fyrir hópinn ákveðna daga. Þá hafi hann einnig verið beðinn um að útvega nafn á hóteli í Mexíkó sem hann hafi og gert. Að öðru leyti hafi hann ekki átt neinn þátt í þessu máli. Í þriðju yfirheyrslu hjá lögreglu hélt Stefán sig við fyrri frásögn um að það væri hópur sem hafi hótað honum og lýsir hann nánar samskiptum þeirra. Í fjórðu yfirheyrslu sagði Stefán að honum hafi nú snúist hugur og ætli nú að skýra satt og rétt frá sínum þætti í málinu. Skýrði hann svo frá að allt hafi þetta byrjað með því að E hafi haft samband við hann og beðið hann um að hitta sig. E hafi spurt hann hvort hann viti um einhverja aðferð til þess að búa til peninga. Engu máli skipti hvernig að sé farið og helst hafi E viljað fara til útlanda og flytja inn fíkniefni. E hafi sagt honum að hann væri nýkominn frá Mexíkó og taldi að auðvelt væri að koma á fíkniefnatengslum þar. Stefán kvaðst hafa sagt E að hann gæti lítið hjálpað honum í þessum efnum en hugsað samt með sér að hann gæti jafnvel fengið eitthvað fyrir það að hafa milligöngu um að koma E í tengsl við mann sem gæti útvegað E peninga. Nokkrum dögum síðar kvaðst Stefán hafa talað við F og óskað eftir fundi með honum. Ástæðan hafi verið sú að F hafi verið búinn að spyrja hann hvort hann þekkti einhvern sem væri tilbúinn til að flytja fíkniefni til Íslands. F hafi þá sagt við hann að ef hann gæti útvegað burðardýr myndi hann fá 5% af andvirði fíkniefnanna sem flutt yrði til landsins. Síðar hafi F spurt hann hvort hann gæti útvegað sér húsnæði til að koma fíkniefnunum fyrir eftir að þau kæmu til Íslands. Stefán kvaðst hafa sagt við F að hann skyldi athuga með sumarbústað og hafi F fundist það góð hugmynd. Þann 2. desember 1998 hafi hann haft samband við E og tjáð honum að hann gæti gerst burðardýr ef hann vildi. Nokkrum dögum síðar hafi þeir allir þrír farið upp í sumarbústaðinn [...]. Á leiðinni hafi F og E rætt saman um fyrirhugað fíkniefnasmygl. Síðar hafi F beðið hann um að útvega bílaleigubíl fyrir E en þennan bílaleigubíl hafi E átt að taka og aka frá Keflavíkurflugvelli þegar hann kæmi heim og fara upp í sumarbústaðinn [...] og skilja þar fíkniefnin eftir.
Þann 20. janúar 1999 var tekið fyrir á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur krafa um að Stefáni Ingimari yrði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Í því þinghaldi var sakarefnið borið undir ákærða. Hann játaði að hafa komið á sambandi milli E og F. Er haft eftir honum að E hafi komið að máli við sig og boðist til þess að vera burðardýr í fíkniefnainnflutningi en F hafi áður tjáð kærða að það vantaði mann til slíks. Þá játaði ákærði að hafa að beiðni F leigt sumarbústað sem nota hafi átt sem afhendingarstað fíkniefnanna er þau kæmu til landsins. Ennfremur játaði ákærði að hafa ekið bílaleigubifreið út á Keflavíkurflugvöll sem hafi átt að vera til reiðu fyrir E er hann kæmi til landsins. Ákærði játaði að hafa átt að fá 5% ágóðans af sölu fíkniefnanna. Ákærði neitaði að hafa verið aðalskipuleggjandi innflutnings fíkniefnanna.
Við aðalmeðferð þessa máls kvaðst ákærði Stefán játa að hann hafi útvegað E sumarbústað og eins hafi hann komið á sambandi milli E og F. Að öðru leyti hafi hann ekki tengst málinu.
Vitnið N skýrði svo frá að Stefán hafi leitað til hans á þessum tíma og falast eftir því að hann legði til fé í fyrirhugaðan fíkniefnainnflutning. Vitnið hafi neitað því.
Niðurstaða
Í þessu máli voru meðákærðir E og F fyrst og fremst dæmdir á grundvelli frásagnar E en frásögn hans þótti heilsteypt og trúverðug og í samræmi við önnur gögn málsins. Frásögn F þótti hins vegar með svo miklum ólíkindablæ að ekki þótti mark á framburði hans takandi.
E bar að Stefán og F hafi skipulagt innflutninginn í sameiningu en F fjármagnað kaupin. Þessi framburður E varðandi þátt Stefáns þykir trúverðugur. Stefán hefur orðið tvísaga í málinu. Sagði hann fyrst hjá lögreglu að hann hafi verið beittur þvingunum og hótunum af ónafngreindu fólki í því skyni að hann leigði sumarbústað [...] fyrir þetta fólk og útvegaði nafn á hóteli í Mexíkó. Síðar kvaðst hann í yfirheyrslum hjá lögreglu hafa komið á kynnum milli E og F og útvegað sumarbústaðinn fyrir F. Þá hafi hann ennfremur útvegað bílaleigubíl sem E hafi átt að nota er hann kæmi heim frá Mexíkó.
Ekki þykja efni til annars en að byggja áfram á frásögn E um þátt Stefáns í málinu. Verður því talið sannað að Stefán hafi staðið að skipulagningu á innflutninginum ekki síður en F enda hefur komið fram í málinu að Stefán hafði tengsl við bæinn Mazatlan í Mexíkó en kona Stefáns er frá þeim stað. Þangað fóru E og F til þess að kaupa fíkniefnin. Reyndar hefur einnig komið fram í málinu að Stefán var handtekinn í Mexíkó ári áður fyrir fíkniefnasmygl en málið var látið niður falla að hans sögn.
Sök ákærða Stefáns telst því sönnuð í þessum þætti málsins og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða.
Ákæra dagsett 25. janúar 2000
Málavextir
Þann 26. apríl 1998 bárust lögreglunni í Reykjavík upplýsingar um að Stefán Ingimar stæði að innflutningi á kókaíni til Íslands. Síðar bárust lögreglunni upplýsingar um að Stefán væri orðinn mjög öflugur á fíkniefnamarkaði hér á landi og að hann hefði flutt inn kókaín frá Suður-Ameríku. Þann 18. júní var ákveðið að fylgjast með ferðum Stefáns. Sú rannsókn leiddi í ljóst að rétt þótti að kvöldi 19. júní að handtaka hann þar sem hann ók bifreið sinni frá [...] í Kópavogi. Á Stefáni fundust við handtökuna tæpar 80.000 krónur í reiðufé og í bifreið hans fundust pokar með hvítu efni í sem samtals vógu 148,5 grömm. Stefán gaf þá skýringu að efnið væri kókaín sem hann hefði ætlað að afhenda einhverjum aðila gegn greiðslu. Í framhaldi var gerð húsleit hjá A þar sem fíkniefni fundust einnig. Í framhaldi af þessu fór fram húsleit á heimili Stefáns og í bifreið hans svo og á starfsstöð hans, [...] í Reykjavík. Á heimili Stefáns og í bifreið fundust fíkniefni og á heimili hans 230.000 krónur í reiðufé. Til viðbótar þessu fannst á heimili hans listi með nöfnum ýmissa aðila og fyrir aftan þau var ritað tiltekið magn fíkniefna og verð í krónum.
Hjá lögreglu játaði Stefán brot sín samkvæmt ákærulið 1 og 2 að hafa haft í vörslum sínum þar tilgreint magn af fíkniefnum í bifreið sinni og á heimili sínu. Hann játaði ennfremur hjá lögreglu að hafa ætlað þessi efni til sölu. Fyrir dómi breytti ákærði framburði sínum á þá lund að hann játaði aðeins vörslur en neitaði að hafa ætlað að selja efnin.
Ákærði játaði alfarið ákærulið 3 samkvæmt þessari ákæru bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann viðurkenndi að hafa á tímabilinu maí til júní 1998 staðið að ræktun á 144 kannabisplöntum á heimili sínu og að [...], Reykjavík.
Ákærði Stefán játaði hjá lögreglu að hafa í ársbyrjun til júní 1998 í ágóðaskyni selt og afhent til söludreifingar á bilinu til 500-1.500 grömm af hassi til allt að tíu ónafngreindra aðila hérlendis sbr. ákærulið nr. 4. Kvaðst hann hjá lögreglu hafa selt um það bil 1-3 plötur af hassi á mánuði en hver plata vegi 125 grömm. Fyrir dómi vildi ákærði ekki tjá sig um þennan ákærulið og kvaðst ekki muna eftir þessu atriði.
Hjá lögreglu viðurkenndi ákærði að hafa frá ársbyrjun til júní 1998 í ágóðaskyni afhent ákærða A til söludreifingar 250-300 grömm af hassi. Ennfremur að hafa afhent honum á sama tímabili 30-40 grömm af maríhuana, 10-15 grömm af amfetamíni, 5 stykki amfetamíntöflur og 2-3 grömm af kókaíni. Kvaðst Stefán hafa látið A hafa grammið af hassi fyrir 1.100 krónur en hann síðan selt það á 1.500 krónur. Taldi Stefán að A hafi fengið að staðaldri 10-20 grömm af hassi vikulega. Fyrir dómi kvað Stefán þetta rangt en kvaðst ekki muna atvik frekar.
Aðspurður fyrir dómi um hvaðan hann hafi fengið fé til þess að kaupa gjaldeyrir á árinu 1997 fram til júní 1998, samtals að fjárhæð 2.700.000 krónur, svaraði ákærði því til að það hafi verið af sparifé hans en hann hafi haft að meðaltali um 120.000 krónur á mánuði í tekjur fyrir vinnu sína við rafvirkjun. Þessa fjárhæð hafi hann sent manni úti í Danmörku en vildi ekki gefa nánari skýringu á því hver sá maður væri né hver hafi verið tilgangurinn með því að senda honum þessa peninga.
A kom fyrir dóm sem vitni vegna þessarar ákæru og viðurkenndi að hafa móttekið þar tilgreint magn af fíkniefnum úr hendi Stefáns.
Niðurstaða
Ákærði Stefán hefur játað brot sitt samkvæmt 1. og 4. lið þessarar ákæru. Hann játaði önnur brot hjá lögreglu samkvæmt 1., 2. og 5. lið en dró í land fyrir dómi. Þessi breytti framburður þykir ótrúverðugur enda er hann án skýringa. Verður því talið að sök ákærða sé sönnuð samkvæmt þessari ákæru og eru brot ákærða rétt færð til refsiákvæða í henni.
Ákæra dagsett 26. janúar 2000
Varsla á 12,6 grömmum af maríhúana
Bæði hjá lögreglu og fyrir dómi játaði ákærði að hafa haft í vörslum sínum 2. nóvember 1998 12,6 grömm af maríhúana í bifreið sinni [...] við Lækjargötu 30, Hafnarfirði. Brot hans er rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.
Ákæra dagsett 13. maí 2003
Kynferðisbrot
Málavextir
Við húsleit lögreglunnar 27. janúar 2002 hjá ákærða C við rannsókn framangreinds fíkniefnamáls skoðaði lögregla tölvu ákærða. Í ljós kom að í tölvunni voru geymdar alls 9.148 ljósmyndir og 56 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.
Ákærði C hefur viðurkennt þetta brot sitt. Hann sagði að það kæmi sér á óvart hversu mikið magn hafi fundist á tölvunni en rengdi ekki niðurstöður lögreglunnar. Hann sagðist hafa unnið við tölvuviðgerðir og ef hann hafi rekist á möppur með klámefni á þeim vélum sem hann hafi haft til viðgerðar hafi hann flutt þær yfir á sína tölvu án þess að skoða efnið nánar. Hugmyndin hafi verið að skoða þetta efni síðar, flokka og eyða úr því sem ólöglegt væri. Af því hafi hins vegar aldrei orðið þar sem hann hafi stuttu síðar orðið atvinnulaus og lagst í mikla neyslu á fíkniefnum.
Með játningu ákærða telst brot hans sannað. Brot hans er rétt fært til refsiákvæða í ákæru.
Refsiákvörðun
Í 173. gr. almennra hegningarlaga segir að sá skuli sæta fangelsi sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni, afhendir, flytur inn eða hefur í vörslum sínum.
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni kemur fram að varsla og meðferð ávana- og fíkniefna sem talin eru upp í 6. gr. laganna með áorðnum breytingum sé óheimil á íslensku forráðasvæði. Amfetamín er ekki meðal þeirra efna sem talin eru upp í 6. gr. Hins vegar er ráðherra veitt heimild í 2. mgr. 2. gr. laganna að mæla svo fyrir í reglugerð að varsla og meðferð annarra ávana- og fíkniefna, sem ekki eru talin upp í 6. gr. en sérstaklega mikil hætta er talin stafa af samkvæmt alþjóðasamningum sé á sama hátt óheimil á íslensku forráðasvæði. Á því tímabili sem hér um ræðir, frá því í september 2001 til janúar 2002, gilti reglugerð nr. 233/2001 eins og henni hafði verið breytt með reglugerð nr. 490/2001. Með breytingarreglugerðinni, sem gildi tók 14. júní 2001, verða þau mistök að amfetamín er ekki flokkað sem efni sem bannað er á íslensku forráðasvæði. Þessi mistök voru leiðrétt með reglugerð nr. 248/2002 sem út kom 27. mars 2002. Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar í málunum nr. 162/2002 og nr. 84/2002 verður litið svo á að amfetamín hafi engu að síður verið bannað á umræddum tíma samkvæmt 3. gr. laga nr. 65/1974. Innflutningur, sala og varsla þessa efnis er á þessum tíma eingöngu heimil lyfsölum og þeim sem ráðherra hafði veitt sérstakt leyfi til slíks en öðrum bönnuð.
Samkvæmt framansögðu hefur háttsemi ákærðu verið andstæð lögum um ávana- og fíkniefni sem er eitt skilyrði 173. gr. a almennra hegningarlaga. Ákærðu hafa því gerst brotleg við þá lagagrein.
Ákærði Stefán Ingimar Koeppen Brynjarsson er fæddur í ágúst 1975. Hann hlaut dóm í Þýskalandi 3. febrúar 1998 fyrir fíkniefnainnflutning og var dæmdur í 2 ára fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár. Samkvæmt 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 skulu ítrekuð brot gegn lögunum varða aukinni refsingu, enda felist brotið í innflutningi eða dreifingu efna sem lögin taka til. Dómurinn sem ákærði hlaut í Þýskalandi hefur ítrekunaráhrif hér á landi, sbr. 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Sem áður sagði flúði ákærði Stefán land á meðan á rannsókn stóð yfir á málum er varðar ákærur frá árinu 2000. Hann lét sér samt ekki segjast og hélt áfram brotastarfsemi sinni og sendi hingað frá Þýskalandi mikið magn af fíkniefnum. Hann var loks handtekinn í Hollandi 14. febrúar 2002. Ákærði hefur verið fundinn sekur um stórfellt brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga. Þegar allt er talið hefur hann verið fundinn sekur um innflutning á 5.808,67 g af amfetamíni og 930,24 g af kókaíni og ennfremur að hafa haft í vörslum sínum samtals 312,6 g af kókaíni. Ákærði var aðalmaðurinn í þessari skipulögðu brotastarfsemi sem hafði þann tilgang að selja fíkniefni í ágóðaskyni hér á landi. Brot hans eru ítrekuð, ásetningur hans einarður og á hann sér engar málsbætur. Refsing er ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 20. júní til 6. júlí 1998, frá 22. desember 1998 til 22. janúar 1999, frá 14. febrúar 2002 til 2. janúar 2003, og frá 3. janúar 2003 til dagsins í dag.
Ákærða Angela Koeppen Brynjarsdóttir er fædd 1979. Hún hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Hún var eins konar umboðsmaður bróður síns hér á landi, nauðsynlegur hlekkur í skipulagðri brotastarfsemi, en hann gat ekki sjálfur komið til landsins vegna fyrri brota sem biðu dóms. Hún tók á móti ágóða af fíkniefnasölunni frá Hafsteini og kom þeim peningum til Stefáns í Þýskalandi. Ákærða kom nokkrum sinnum til landsins á þessu tímabili, skipulagði innflutninginn og kom boðum á milli ákærðu. Þáttur hennar var einkum fólginn í því að hafa milligöngu um samskipti meðákærðu og aðstoða við samskipti þeirra. Með háttsemi sinni liðkaði hún fyrir innflutningi fíkniefnanna Refsing er ákveðin skv. 77. gr. almennra hegningarlaga. Þegar hliðsjón er höfð af þeim atriðum sem hér eru tilgreind, sérstaklega milligöngu hennar í stórfelldum innflutningi á fíkniefnum og peningaþvætti, þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald til frá 28. janúar til 4. mars 2002.
Ákærði Hafsteinn Ingimundarson er fæddur í júní 1969. Hann hefur þrisvar sinnum undirgengist sátt fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, síðast 1988. Hann hlaut einnig sekt 1991 fyrir umferðarlagabrot. Ákærði gekk ákveðinn til verks varðandi sölu á þeim fíkniefnum sem tilgreind eru í I. kafla ákæru frá 12. maí 2003. Samkomulag var milli ákærða og meðákærða Stefáns um að Hafsteinn sæi um dreifingu og sölu á fíkniefnunum hér á landi. Ásetningur Hafsteins hefur verið einbeittur. Við ákvörðun refsingar hans ber einnig að taka tillit til þess að hann hefur verið samvinnufús við rannsókn málsins og hefur stuðlað að því að málið upplýstist, sbr. 8. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans er ákveðin samkvæmt. 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 28. janúar til 6. apríl 2002.
Ákærði A er fæddur í [...] 1979. Hann hefur einu sinni áður hlotið refsingu þann 26. maí 2000 er hann var dæmdur í 3 mánaða fangelsi skilorðbundið til 2 ára fyrir að hafa í vörslum sínum og selja fíkniefni. Hann er nú að rjúfa skilorð þess dóms. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga ber að taka dóminn frá 26. maí 2000 upp og dæma málin í einu lagi samkvmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing verður að öðru leyti ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði tók að sér að flytja fíkniefni á milli staða innanlands og gat ekki dulist að um mikið magn var að ræða og til stóð að dreifa því og selja. Hann blandið vini sínum ákærða B inn í málið og greiddi honum 150.000 krónur fyrir. Hann átti fund með Hafsteini um skipulagningu málsins og krafðist greiðslu að fjárhæð 900.000-1.000.000 krónur fyrir sinn þátt í málinu. Hann ætlaði sér því ávinning af brotinu. Þegar hliðsjón er höfð af þessum atriðum sem hér eru tilgreind og sakaferli ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. janúar til 4. mars 2002.
Ákærði B er fæddur í [...] 1979. Hann á nokkurn sakaferil að baki. Þann 1. apríl 1997 hlaut hann 6 mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir brot gegn 218. og 244. gr alm. hgl. Þann 24. júní 1997 hlaut hann 9 mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir brot gegn 217. gr. alm. hgl. Þann 22. desember 1997 og 24. september 1999 undirgengst hann sátt fyrir brot gegn umferðarlögum. Þann 21. október 2000 hlaut hann 12 mánaða skilorðbundinn dóm fyrir brot gegn 106. gr. alm. hgl. Þann 23. nóvember 2001 hlaut hann 30 daga fangelsi fyrir brot gegn umferðarlögum. Þann 14. janúar 2002 undirgenkst hann sátt fyrir brot gegn löggjöf um ávana- og fíkniefni. Þátttaka B í málinu var að taka á móti einni sendingu og síðar geyma allt magnið, 4.808,67 g af amfetamíni. Hann fékk greitt 150.000 krónur fyrir og átti að fá meira greitt síðar en úr því varð ekki. Því verður ekki slegið föstu að B hafi gert sér grein fyrir því að taskan innihéldi svona mikið magn af sterku fíkniefni. Hann flæktist inn í málið á tilviljunarkenndan hátt en þáði þó greiðslu fyrir. Þegar allt þetta er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Ákærða D er fædd í [...] 1979. Hún hefur ekki áður hlotið refsingu. Hún hefur verið sakfelld fyrir að taka á móti 1 kílói af amfetamíni og 300 g af kókaíni á heimili sínu og koma fíkniefnunum í hendur Hafsteins sem greiddi henni 200.000 krónur fyrir. Hún hefur greiðlega játað sök og ekkert dregið undan. Refsing hennar þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði C er fæddur í [...] 1962. Hann hefur ekki áður hlotið refsingu. Þáttur hans í fíkniefnamálinu var að geyma fíkniefnin fyrir Hafstein gegn því að hann mætti ganga í efnið að vild til eigin nota. Refsing ákærða verður ákvörðuð samkvæmt. 77. gr. almennra hegningarlaga Ákærði var í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma og viðhélt henni með því að taka þátt í þessu broti. Hann hefur farið í fíkniefnameðferð og hefur nú fasta vinnu. Hann hefur játað sök sína greiðlega, bæði vegna fíkniefnabrotanna svo og vegna brots gegn 2. mgr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 10 mánaða fangelsi.
Upptökukröfur
Ákæra dagsett 12. maí 2003.
Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 skal gera upptæk eftirfarandi fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins: 4.181,95 g af amfetamíni sem fannst við leit lögreglu þann 27. janúar 2002 á heimili ákærða C, 158 g af kókaíni, 10,85 g af amfetamíni, 1 tafla með fíkniefninu MDMA og 1,79 g af kannabislaufum sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða C sama dag og 626,72 g af amfetamíni sem ákærði Hafsteinn var með í vörslum sínum er hann var handtekinn af lögreglu síðar sama dag.
Gerð er ennfremur krafa um að ákærðu D, A, B, Hafsteini og Stefáni Ingimar verið gert með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997 að sæta upptöku á ávinningi.
Sannað er að D fékk í sinn hlut 200.000 krónur og skal hún sæta upptöku á þeirri fjárhæð. Ákærði B hefur einnig viðurkennt móttöku á 150.000 krónum og skal hann sæta upptöku á þeirri fjárhæð. A hefur staðfastlega neitað að hafa þegið fé fyrir sinn þátt og telst það ósannað. Upptöku er því hafnað hvað hann varðar. Fallast ber á þá kröfu ákæruvaldsins að Hafsteini og Stefáni verði gert að sæta upptöku á 5.000.000 krónum in solidum. Söluverð þess efnis sem selt var er a.m.k. þess virði. Krafa in solidum þykir eiga rétt á sér eins og hér stendur á vegna þess að ógjörningur er að sundurliða milli þeirra tveggja ágóðann af sölunni. Ákærða Stefáni verður gert að sæta upptöku á 570.000 krónum og 300 evrum sem fundust við húsleit lögreglu á dvalarstað Angelu og lagt var hald á við rannsókn málsins.
Ákæra dagsett 27. janúar 2000.
Ákærði Stefán skal sæta upptöku á 630,27 g á kókaíni sem lagt var hald á 21. desember 1998.
Ákæra dagsett 25. janúar 2000.
Ákærði Stefán skal sæta upptöku á 312,6 g af kókaíni, 175,1 grammi af hassi, 0,9 g af maríhuana, 29,4 g af kannabislaufum og 120,5 g af kannabisfræjum.
Ákæra dagsett 26. janúar 2000.
Ákærði Stefán skal sæta upptöku á 12,6 g af maríhuana sem haldlögð voru 2. nóvember 1998.
Ákæra dagsett 13. maí 2003.
Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga skal ákærði C sæta upptöku á 9.148 ljósmyndum og 56 hreyfimyndum sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, og á A Open tölvu ásamt hörðum diskum sem henni fylgja.
Sakarkostnaður.
Dæma ber ákærðu til þess að greiða málsvarnarlaun sem hér segir:
Ákærða Angela 60.000 krónur til Kristjáns Stefánssonar hrl., ákærði A 250.000 krónur til Jóns Egilssonar hdl., ákærði B 250.000 krónur til Sigmundar Hannessonar hrl., ákærði Hafsteinn Ingimundarson 250.000 krónur til Karls Georgs Sigurbjörnssonar, ákærði C 250.000 krónur til Sigurðar Georgssonar hrl., ákærða D 250.000 krónur til Brynjars Níelssonar hrl. og ákærði Stefán Ingimar 450.000 krónur til Hilmars Ingimundarsonar hrl.
Annan sakarkostnað ber að dæma ákærðu til þess að greiða óskipt.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari og dómsformaður, Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari og Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kváðu upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Ákærði, Stefán Ingimar Koeppen Brynjarsson, sæti fangelsi í 6 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald frá 20. júní til 6. júlí 1998, 22. desember 1998 til 26. janúar 1999 og frá 14. febrúar 2002 til dagsins í dag.
Ákærða, Angela Koeppen Brynjarsdóttir, sæti fangelsi í 3 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald frá 28. janúar 2002 til 4. mars 2002.
Ákærði, Hafsteinn Ingimundarson, sæti fangelsi í 2 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald frá 28. janúar 2002 til 6. apríl 2002.
Ákærði, A, sæti fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald frá 28. janúar 2002 til 4. mars 2002.
Ákærði, B, sæti fangelsi í 12 mánuði
Ákærða, D, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði, C, sæti fangelsi í 10 mánuði
Upptæk skulu 4.181,95 g af amfetamíni, 158,03 g af kókaíni, 10,85 g af amfetamíni, 1 tafla með fíkniefninu MDMA, 1,79 g af kannabislaufum, 626,72 g af amfetamíni, 630,25 g af kókaíni, 312,6 g af kókaíni, 175,1 g af hassi, 0,9 g af maríhuana, 29,4 g af kannabislaufum, 120,5 g af kannabisfræjum, 12,6 g af maríhuana, 9.148 ljósmyndir og 56 hreyfimyndir, A Open tölva ásamt sex hörðum diskum.
Ákærða, D, þoli upptöku á 200.000 krónum, ákærði, B, á 150.000 krónum og ákærði, Stefán Ingimar, á 570.000 krónum og 300 evrum. Ákærðu, Hafsteinn og Stefán, þoli upptöku á 5.000.000 krónum in solidum.
Ákærðu greiði málsvarnarlaun sem hér segir: Ákærði Stefán Ingimar 450.000 krónur til Hilmars Ingimundarsonar hrl., ákærða Angela Koeppen 60.000 krónur til Kristjáns Stefánssonar hrl., ákærði Hafsteinn Ingimundarson 250.000 krónur til Karls Georgs Sigurbjörnssonar hrl., ákærði A 250.000 krónur til Jóns Egilssonar hdl., ákærði B 250.000 krónur til Sigmundar Hannessonar hrl., ákærða D 250.000 krónur til Brynjars Níelssonar hrl. og ákærði C 250.000 krónur til Sigurðar Georgssonar hrl. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.