Hæstiréttur íslands
Mál nr. 542/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Lögheimili
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 11. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2017 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að lögheimili dóttur aðila, A, verði hjá honum og að sóknaraðili greiði einfalt meðlag með barninu þar til endanleg ákvörðun um forsjá liggi fyrir í máli aðila. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að lögheimili stúlkunnar verði áfram hjá sér og að varnaraðili greiði einfalt meðlag með barninu þar til dómur gengur í forsjármáli aðila. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2017.
I
Mál þetta var þingfest 11. maí 2017 og tekið til úrskurðar 14. ágúst sl. um kröfu stefnanda um að lögheimili dóttur málsaðila, A, kt. [...], flytjist frá stefndu til stefnanda til bráðabirgða, meðan forsjármál aðila er til meðferðar fyrir dóminum, og að stefnda greiði einfalt meðlag með barninu frá uppkvaðningu úrskurðar.
Stefnda krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað.
Stefnandi, sóknaraðili í þessum þætti málsins, er M, til heimilis að [...], Seltjarnarnesi, en stefnda, varnaraðili í þessum þætti málsins, er K, áður til heimilis að [...] í Reykjavík en nú að [...], einnig í Reykjavík.
Við munnlegan málflutning um ofangreinda kröfu féllu báðir aðilar frá málskostnaðarkröfu sinni.
II
Aðilar þessa máls gerðu með sér samkomulag 1. júní 2007 þess efnis að þau færu sameiginlega með forsjá dóttur þeirra, A, sem fædd var [...] það ár. Einnig var þar ákveðið að barnið skyldi eiga lögheimili hjá móður og að faðir greiddi með því eitt og hálft meðlag frá 1. júní 2007 til 18 ára aldurs. Samkomulag þetta var staðfest af Sýslumanninum í Reykjavík 25. júlí 2007.
Með beiðni 1. desember 2016 fór sóknaraðili þess á leit við Sýslumanninn í Reykjavík að forsjá telpunnar yrði breytt í þá veru að hann færi einn með forsjá hennar og að varnaraðili greiddi sér einfalt meðlag með barninu. Ekki náðist samkomulag með aðilum um kröfur sóknaraðila og vísaði sýslumaður málinu frá með bréfi 5. apríl 2017. Í kjölfarið var málinu stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Krefst sóknaraðili þess aðallega að fyrrnefnt samkomulag aðila um sameiginlega forsjá telpunnar verði fellt úr gildi og að honum einum verði falin forsjá hennar, en til vara að lögheimili telpunnar færist til hans. Jafnframt krefst hann þess að dómurinn úrskurði til bráðabirgða að lögheimili barnsins færist til hans meðan forsjármálið er rekið fyrir dóminum.
Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að henni verði þess í stað einni falin forsjá telpunnar.
III
Krafa sóknaraðila um að lögheimili barnsins verði hjá honum til bráðabirgða byggist á 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Telur hann telpuna vera í hættu í umsjá varnaraðila og vísar í því efni einkum til húsnæðisvanda varnaraðila síðustu árin, sem valdið hafi því að varnaraðili hafi á löngum tímabilum verið allsendis ófær um að annast um barnið. Barnið hafi af þeim sökum að miklu leyti dvalið hjá sóknaraðila í húsnæði hans á Seltjarnarnesi. Þar búi telpan við stöðugleika og góðar aðstæður. Þar eigi hún einnig góða vini og sé það ósk hennar að ganga í [...] þegar skólagöngu lýkur í [...].
Sóknaraðili heldur því einnig fram að varnaraðili hafi markvisst og að ástæðulausu haldið stúlkunni frá honum og fjölskyldu hans undanfarna mánuði, en fjölskylda eldri dóttur sóknaraðila búi í nágrenni við heimili hans. Segir sóknaraðili að mikill samgangur sé milli þeirra heimila og eigi telpan góða vini í börnum hálfsystur hennar.
Varnaraðili byggir á því að ekki séu fyrir hendi skilyrði 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 til þess að verða við kröfu sóknaraðila. Bendir varnaraðili á að ákvæði þetta feli í sér heimild til handa dómara til að úrskurða um forsjá og/eða lögheimili til bráðabirgða þegar sérstakar aðstæður kalli á slíkt. Þá komi fram í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi til barnalaga að byggt sé á því að æskilegt sé að aðstæður barns haldist óbreyttar frá því sem verið hefur á meðan forsjármál er rekið fyrir dómstólum. Telur varnaraðili ljóst að engar þær aðstæður séu til staðar svo taka eigi kröfu sóknaraðila til greina. Þvert á móti leggur varnaraðili áherslu á að barnið hafi alla tíð átt lögheimili hjá henni og sé umgengni við báða foreldra jöfn á meðan forsjármál þetta sé rekið. Þá mótmælir varnaraðili fullyrðingu sóknaraðila um að barnið sé eða hafi verið í hættu hjá henni, þrátt fyrir erfiðar húsnæðisaðstæður. Tekur hún fram að nú þegar hafi hún fengið afhent varanlegt húsnæði að [...] hér í borg, í næsta nágrenni við [...], þar sem sótt hafi verið um skólavist fyrir telpuna.
IV
Í þinghaldi í máli þessu 11. júlí sl. tilkynnti dómari að hann myndi óska eftir því að sérfróður aðili kynnti sér viðhorf A til kröfu sóknaraðila um breytingu á lögheimili hennar til bráðabirgða, sbr. 1. mgr. 43. gr. barnalaga nr. 76/2003. Til verksins var fengin B, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði, og er skýrsla hennar dagsett 28. júlí sl. Þar rekur sálfræðingurinn efni samtala sinna við stúlkuna. Fram kemur þar að telpan hafi lýst húsnæðisvanda móður og sagt að það hafi verið þeim erfitt að búa síðasta hálfa annað árið á hótelum eftir endurtekin vandamál með myglu og hafi stúlkan sérstaklega tekið fram að það hafi verið leiðinlegt að geta ekki boðið vinkonum sínum heim að leika eftir skóla. Tekið er þó fram að í seinna viðtali við stúlkuna hafi mæðgurnar verið nýfluttar inn í íbúð í [...] og hafi A auðsjáanlega verið létt vegna þess og jafnframt spennt yfir því að þær voru að koma sér þar fyrir. Fram kemur þar einnig að stúlkan hafi lokið skólavist í [...]. Hafi hún þar átt margar vinkonur og séu flestar þeirra nú á leið í [...] eða [...]. Langi hana mest til að ganga í [...], en að öðrum kosti í [...]. Aðspurð um [...] sagðist hún þekkja fáa þar, en tók fram að faðir hennar væri tilbúinn til að keyra sig í [...]- eða [...]. Að því er tilfinningatengsl varðar segir skýrsluhöfundur að stúlkan líti á báða foreldra sína sem trúnaðarmenn sína, en segist þó frekar vilja ræða við móður sína ef hún er hrædd eða áhyggjufull.
Í samantekt skýrslu sálfræðingsins segir síðan eftirfarandi: „A er tíu ára gömul bráðvel gefin og þroskuð stúlka. Hún skýrir vel frá aðstæðum sínum og rökstyður afstöðu sína. A er vel tengd báðum foreldrum sínum og augljóst er að bæði leggja þau rækt við barnið og sýna henni væntumþykju sína bæði með orðum og æði. Fyrir utan foreldra sína hefur A sterkust tengsl við hálfsystur föðurmegin og fjölskyldu hennar en nær daglegur samgangur er á milli þeirra og föður. Síðustu ár hafa deilur foreldra og erfiðar aðstæður valdið A miklu álagi. Á matslista um líðan koma fram marktæk og truflandi kvíðaeinkenni. A er skýr í þeirri afstöðu sinni að vilja frekar að faðir hennar fari með hennar málefni en móðir. Helstu rök A fyrir því að treysta föður sínum frekar eru að móðir hennar sé iðulega reið og hún virðist einnig hafa upplifað móður sína „skrítna“, eða að því er virðist í einhverju annarlegu ástandi. A svíður einnig að móðir hennar hafi nýlega lokað á samskipti hennar við föður um einhverra mánaða skeið, meðal annars með því að breyta símastillingum í síma A án hennar vitundar og ljósmynda sms-skilaboð. A virðist örugg í umsjá föður síns sem hún segir nær aldrei reiðast og hún hefur aldrei séð hann „skrítinn“. Henni leið vel þegar hún bjó alfarið hjá föður um nokkurra mánaða skeið á síðastliðnu ári.“
B sálfræðingur staðfesti skýrslu sína fyrir dómi og gerði frekari grein fyrir viðtölum sínum við barnið og niðurstöðum. Fram kom í máli hennar að hún hefði skýrt fyrir stúlkunni hvað í því fælist að hún ætti lögheimili hjá öðru hvoru foreldri. Hefði stúlkan verið staðföst í þeim vilja sínum að eiga lögheimili hjá föður og kvaðst hún treysta föður sínum betur en móður til að fara með sín mál. Fram kom og í máli vitnisins að stúlkan væri óvenju vel gefin, fullorðinsleg í tali og hugsun og gæti þroski hennar svarað til þrettán ára barns.
V
Eftir þingfestingu málsins gerðu aðilar með sér bráðabirgðasamkomulag um umgengni barnsins við foreldra sína á meðan forsjárdeila þeirra er til meðferðar hjá dómstólnum. Segir þar að umgengni skuli vera jöfn og að barnið skuli eiga greið samskipti við hitt foreldrið á meðan á umgengni stendur.
Í 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 5. gr. laga nr. 61/2012, segir að búi foreldrar ekki saman hafi það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Fari foreldrar saman með forsjá barns skuli þeir þó leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barnsins er ráðið til lykta. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 61/2012, getur dómari úrskurðað til bráðabirgða, að kröfu aðila, hvernig fara skuli með forsjá barns eða lögheimili á meðan forsjármál aðila er rekið fyrir dóminum. Tekið er þar fram að við slíka ákvörðun beri dómara að líta til þess hvað barni sé fyrir bestu.
Í máli þessu er ekkert sem bendir til annars en að báðir foreldrar séu vel hæfir til að ráða högum A, veita henni góðan aðbúnað og stuðning og búa henni gott heimili. Fyrir liggur að varnaraðili átti um nokkurt skeið í húsnæðisvanda, en hefur nú fengið afhent varanlegt húsnæði. Í skýrslu áðurnefnds sálfræðings, svo og vætti hennar fyrir dómi, kemur fram að sá vandi ásamt deilum aðila hafi valdið stúlkunni álagi og nokkrum erfiðleikum. Á hinn bóginn segir þar einnig að stúlkunni sé nú létt og sé hún spennt yfir því að þær mæðgur séu að koma sér fyrir í nýju húsnæði.
Þótt A hafi alla tíð átt lögheimili hjá varnaraðila verður ekki framhjá því horft að hún hefur í samtölum við margnefndan sálfræðing staðfastlega lýst þeim vilja sínum að lögheimili hennar verði hjá sóknaraðila og hefur hún fært rök fyrir þeirri afstöðu sinni. Að því virtu, svo og þegar þess er gætt að stúlkan býr greinilega yfir nægilegum þroska til að tjá sig um það álitaefni sem hér er til úrlausnar og ráða þar nokkru um, verður krafa sóknaraðila tekin til greina. Er það jafnframt álit dómsins að sú niðurstaða samrýmist best hagsmunum stúlkunnar.
Að fenginni ofangreindri niðurstöðu verður varnaraðila gert að greiða einfalt meðlag með stúlkunni frá uppkvaðningu úrskurðar þessa þar til endanlegur dómur gengur í forsjármáli aðila.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Lögheimili A, kt. [...], skal vera hjá sóknaraðila, M, meðan forsjármál hans og varnaraðila, K er rekið fyrir dóminum.
Varnaraðili greiði einfalt meðlag með barninu frá uppkvaðningu úrskurðar þar til endanlegur dómur gengur í forsjármáli aðila.