Hæstiréttur íslands

Mál nr. 88/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður


Þriðjudaginn 27

 

Þriðjudaginn 27. febrúar 2007.

Nr. 88/2007.

Björn Valdimar Sveinsson

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

gegn

Byggingarfélaginu Strúctor ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.

BY höfðaði mál á hendur BJ til innheimtu endurgjalds fyrir verk sem BY vann fyrir BJ. BJ taldi umkrafið endurgjald of hátt og greiddi BY fjárhæð sem nam tæpum helmingi þess sem BY hafði krafðist. Fór BJ fram á að dómkvaddur matsmaður mæti nánar tilgreind atriði í verkinu og endurgjald fyrir það. Niðurstaða matsmanns varð sú að vinnuliður í reikningi BY væri of hár og náðu aðilar samkomulagi um að endurgjald BY fyrir verkið lækkaði sem því næmi. Aðilar deildu um hvor bæri að greiða hinum málskostnað. Héraðsdómur úrskurðaði að málskostnaður skyldi felldur niður. BJ kærði þann úrskurð til Hæstaréttar en BY lét málið ekki til sín taka fyrir réttinum. Í ljósi atvika málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991 þótti rétt að BY greiddi þann hluta af málskostnaði BJ er svaraði til kostnaðar við framkvæmd matsgerðar, en aðilar bæru að öðru leyti hvor sinn kostnað af málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2007, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli varnaraðila gegn sóknaraðila, sem var að öðru leyti lokið með því að það var fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og varnaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins greinir í hinum kærða úrskurði var mál þetta höfðað af varnaraðila gegn sóknaraðila vegna ágreinings um endurgjald fyrir verk, sem varnaraðili vann fyrir sóknaraðila. Að beiðni sóknaraðila var maður dómkvaddur 17. maí 2006 til að meta nánar tilgreind atriði í verkinu og endurgjald fyrir það. Skilaði hann matsgerð um þessi atriði 23. nóvember 2006. Málið var tekið fyrir 11. desember sama ár en þar kom fram að sættir hefðu ekki tekist í því og lýstu aðilar gagnaöflun lokið. Hinn 25. janúar 2007 var málið tekið fyrir að nýju. Í endurriti þinghaldsins kemur fram að varnaraðili hafi þar krafist þess að málið yrði fellt niður og að sóknaraðili greiddi honum málskostnað. Sóknaraðili krafðist ennfremur málskostnaðar. Með hinum kærða úrskurði var málið fellt niður og hvor aðila látinn bera sinn kostnað af málinu.

Í kæru sóknaraðila kemur fram að mál þetta hafi verið leyst með samkomulagi aðila og greiðslu hans til varnaraðila. Málið hafi því fallið niður að öðru leyti en því að ágreiningur stóð um málskostnað, sem lagður var í úrskurð héraðsdóms. Niðurfelling málsins hafi hins vegar ekki verið lögð undir héraðsdómara og ákvæði um það atriði sé því ofaukið í úrskurðarorði.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að sættir hafi tekist með aðilum utan réttar um annað en málskostnað. Málinu var hins vegar ekki lokið með dómsátt og úrskurði um málskostnað, sbr. síðari málslið 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991, heldur virðist málið hafa verið fellt niður á grundvelli c. liðar 1. mgr. 105. gr. laganna. Sóknaraðili byggir kröfu sína um málskostnað þó ekki á 2. mgr. 130. gr. laganna og verður því einungis litið til 1. mgr. og 3. mgr. sömu greinar við úrlausn kröfunnar.

Í samkomulagi aðila var byggt á niðurstöðu matsmanns, sem taldi vinnulið í reikningi varnaraðila vera of háan. Leiddi það til lækkunar á umkrafinni fjárhæð um 1.506.698 krónur, en reikningur varnaraðila nam 4.559.914 krónum. Þótti eðlilegt verð fyrir verkið því vera 3.053.216 krónur. Sóknaraðili hafði greitt varnaraðila 2.100.000 krónur en af gögnum málsins verður ráðið að hann hafi talið það vera eðlilega greiðslu fyrir verkið. Í ljósi atvika og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að varnaraðili greiði þann hluta af málskostnaði sóknaraðila er svarar til kostnaðar við framkvæmd matsgerðar, sem samkvæmt fyrirliggjandi reikningi er 283.487 krónur, en að aðilar beri að öðru leyti hvor sinn kostnað af málinu.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, Byggingarfélagið Strúctor ehf., greiði sóknaraðila, Birni Valdimar Sveinssyni, 238.487 krónur í málskostnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2007.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar í gær. var höfðað 7. mars 2006.  Stefnandi er Byggingafélagið Strúctor ehf., Digranesvegi 22, Kópavogi en stefndi er Björn V. Sveinsson, Ljósalandi 14, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi greiði stefnanda 2.459.914 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 af 4.559.914 krónum frá 9. desember 2005 til 5. janúar 2006, af 2.709.914 krónum frá þeim degi til 13. janúar 2006 en af 2.459.914 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, þar með talinn kostnað vegna matsgerðar auk álags á málskostnað.

Málavextir eru þeir helstir að stefnandi tók að sér að vinna múrverk fyrir stefnda innanhúss að Bakkastöðum 11, Reykjavík.  Gerði hann stefnda reikning fyrir verkið að fjárhæð 4.559.914 krónur.   Stefndi taldi reikning þennan ósanngjarnan og ekki í samræmi við það sem aðilar hefðu samið um.  Greiddi hann 2.100.000 krónur inn á kröfuna áður en mál þetta var höfðað og taldi að með því hefði hann greitt að fullu fyrir verkið.

Stefnandi höfðaði í kjölfarið mál þetta og var það þingfest hinn 9. mars 2006 og hinn 6. apríl 2006 lagði stefndi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Var Flosi Ólafsson múrarameistari dómkvaddur til verksins og skilaði hann matsgerð í nóvember 2006.  Var það niðurstaða matsmanns að tímagjald og kostnaður samkvæmt reikningi stefnanda væri eðlilegur en að tímafjöldi væri óeðlilegur.  Í kjölfar matsgerðarinnar náðu aðilar samkomulagi um annað en málskostnað og greiddi stefndi stefnanda sem lokagreiðslu 1.258.610 krónur þar af dráttarvextir 217.551 krónu en eins og áður er rakið hafði hann greitt 2.100.000 krónur inn á kröfuna áður en málið var höfðað.

Í fyrirtöku málsins í gær óskaði stefnandi eftir því að málið yrði fellt niður og krafðist þess að stefndi yrði úrskurðaður til að greiða honum málskostnað.  Stefndi mótmælti málskostnaðarkröfu stefnanda og krafðist þess að stefnandi yrði úrskurðaður til að greiða honum málskostnað.  Var málið í kjölfarið flutt munnlega um þennan ágreining og hann tekinn til úrskurðar eins og áður greinir.

Með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Mál þetta er fellt niður.

Málskostnaður fellur niður.