Hæstiréttur íslands

Mál nr. 329/2001


Lykilorð

  • Ábúð
  • Endurgreiðslukrafa
  • Leigusamningur
  • Afnotaréttur
  • Tómlæti
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. febrúar 2002.

Nr. 329/2001.

Eiríkur Pálsson

(Gunnar Sæmundsson hrl.)

gegn

Pétri Frey Péturssyni og

Helgu Haraldsdóttur

(Karl Axelsson hrl.)

 

Ábúð. Endurgreiðslukrafa. Leigusamningur. Afnotaréttur. Tómlæti. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

 

E var ábúandi á jörðinni S frá 1968 til vors 1996 þegar hann brá búi. P og H var þá byggð jörðin og var byggingarbréf gefið út 9. júní 1996, þar sem m.a. voru talin upp þau útihús, sem fylgdu í leigumálanum, auk jarðarinnar sjálfrar, ræktunar og íbúðar­húss. Fjós og byggingar tengdar því, áhöfn og vélakostur var hins vegar eign E. Ágreiningslaust var að málsaðilar höfðu ræðst við í því skyni að semja um þessar eignir E en ekki enn náð saman um verð þegar P og H tóku við jörðinni. Samningar náðust síðar um nautgripi og hluta sauðfjár E en ágreiningur um verð og greiðslukjör leiddi til þess að ekki varð af frekari samningum þeirra í milli. Með dómi héraðsdóms 31. maí 2000 voru P og H sýknuð af kröfu E um greiðslu fyrir mannvirki á jörðinni þar eð E þótti ekki hafa sannað að samkomulag hefði tekist um kaup á þeim fyrir tiltekið verð. Krafa E um leigu fyrir vélar var hins vegar tekin til greina. Þessum dómi var ekki áfrýjað. Að honum gengnum höfðuðu P og H mál gegn E og kröfðust annars vegar endurgreiðslu 981.000 kr. sem þau hefðu ofgreitt í viðskiptunum og hins vegar greiðslu reikninga vegna hagabeitar hrossa og sauðfjár E á árinu 1996. Á fyrri kröfu þeirra var fallist þar sem fyrirhuguð samningsgerð hafði farið út um þúfur að þessu leyti, en talið var að P og H hefðu samþykkt í verki að E þyrfti ekki að greiða sérstaklega fyrir umrædd beitarafnot og var E því sýknaður af þeim kröfulið. Gagnkrafa E um leigugreiðslur fyrir afnot af eignum hans var ekki talin niður fallin fyrir tómlæti. Þótt talið væri að fallast mætti á með E að hann ætti kröfu um greiðslu fyrir afnot eignanna varð ekki hjá því komist að vísa henni frá héraðsdómi vegna vanreifunar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2001. Hann krefst sýknu af kröfu, sem stefndu gerðu í aðalsök í héraði, og jafnframt að þau verði dæmd til að greiða sér 1.728.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. febrúar 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi var ábúandi á jörðinni Syðri-Völlum frá 1968 til vors 1996 þegar hann brá búi. Eigandi jarðarinnar, Jarðasjóður Vestur-Húnavatnssýslu, byggði stefndu þá jörðina og var byggingarbréf gefið út 9. júní 1996, þar sem meðal annars voru talin upp þau útihús, sem fylgdu í leigumálanum, auk jarðarinnar sjálfrar, ræktaðs lands og íbúðarhúss. Fjós og byggingar tengdar því, áhöfn og vélakostur var hins vegar eign áfrýjanda og er fram komið í málinu að í umsókn stefndu til jarðeigandans um ábúð hafi þau lýst áhuga sínum á því að kaupa nautgripi, hross, fjós, vélar og tæki af áfrýjanda. Er ágreiningslaust að fyrir ábúendaskiptin hafi málsaðilar ræðst við í því skyni að semja um þetta, en ekki enn náð saman um verð þegar stefndu tóku við jörðinni. Þau tóku hins vegar þegar við umráðum nautgripanna og mannvirkja áfrýjanda og nýttu í þágu atvinnurekstrar síns. Nokkru síðar sömdu málsaðilar um að stefndu keyptu alla nautgripi áfrýjanda fyrir 1.867.500 krónur og hluta sauðfjár hans fyrir 261.450 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í báðum tilvikum.

Sama dag og byggingarbréf var gefið út munu úttektarmenn samkvæmt ábúðarlögum nr. 64/1976 hafa lokið mati á verðmætum áfrýjanda á jörðinni. Mat þeirra liggur ekki fyrir í málinu, en ráða má að þeir hafi metið fjósið með tækjum og tengdum byggingum á rúmlega 8.000.000 krónur. Óskuðu bæði jarðeigandi og stefndu eftir því að yfirmat yrði gert. Yfirúttektarnefnd lauk mati sínu 2. september 1996 og taldi verðmæti fjóss, haughúss, hlöðu, mjólkurhúss, votheysturns og mjaltartækja nema samtals 4.500.000 krónum. Stefndu sættu sig ekki heldur við þetta mat og óskuðu eftir að dómkvaddir yrðu tveir menn til að meta þessar eignir til verðs. Mat þeirra liggur ekki fyrir í málinu, en fram er komið að það sé dagsett 6. september 1997 og að verðmæti áðurnefndra eigna sé samkvæmt því 3.392.304 krónur.

Um þær mundir, sem stefndu tóku við ábúð á Syðri-Völlum í júní 1996, greiddu þau áfrýjanda samtals 3.000.000 krónur í tvennu lagi upp í kaupverð þeirra eigna, sem málsaðilar áttu þá í viðræðum um að stefndu myndu kaupa, án þess að tilgreint væri nánar fyrir hvaða eignir greiðslurnar skyldu koma. Þá munu stefndu einnig hafa greitt áfrýjanda 260.403 krónur í mars 1997, auk þess sem óumdeilt er að áfrýjandi fékk um sumarið 1996 greiddar 98.547 krónur í beingreiðslur fyrir framleiðslu á mjólk, sem stefndu áttu með réttu að fá. Hafi þannig runnið samtals 3.358.950 krónur til áfrýjanda frá stefndu upp í samninga, sem málsaðilar hugðust gera í kjölfar ábúðarloka áfrýjanda.

Ágreiningur um verð og greiðslukjör leiddi til þess að ekki varð af frekari samningum en áður var getið um nautgripi og sauðfé. Höfðaði áfrýjandi mál á hendur stefndu 6. nóvember 1999, þar sem krafist var greiðslu samkvæmt mati yfirúttektarnefndar fyrir fjós og byggingar, sem tengdust því. Var málatilbúnaðurinn á því reistur að samningur hefði verið gerður um kaup stefndu á þessum mannvirkjum, sem þau væru bundin af. Jafnframt krafðist áfrýjandi 200.000 króna í leigu fyrir vélar sínar, sem stefndu notuðu sumarið 1996 og hann seldi síðan öðrum þegar ljóst varð að ekki yrðu úr kaupum stefndu á þeim. Dómur féll í málinu í héraði 31. maí 2000 og voru stefndu sýknuð af kröfu um greiðslu fyrir áðurnefnd mannvirki, þar eð áfrýjandi hafi ekki sannað að samkomulag hafi tekist um kaup á þeim fyrir matsverð yfirúttektarnefndar. Krafa hans um leigu fyrir vélar var hins vegar tekin til greina. Með því að stefndu höfðu greitt áfrýjanda hærri fjárhæð samtals en nam andvirði nautgripa, sauðfjár og leigu fyrir vélar reyndi ekki sérstaklega á gagnkröfur, sem stefndu tefldu fram í málinu til skuldajafnaðar og þau töldu sig eiga vegna hagabeitar fyrir hross og sauðfé áfrýjanda sumar og haust 1996 og hreinsun á jörðinni. Þessum dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

II.

Að gengnum dómi í áðurnefndu máli áfrýjanda gegn stefndu höfðuðu hin síðastnefndu mál þetta gegn áfrýjanda 6. nóvember 2000. Kröfðust þau annars vegar endurgreiðslu á 981.000 krónum, sem þau hefðu ofgreitt í viðskipunum þegar tekið væri tillit til dóms héraðsdóms í hinu fyrra máli aðilanna og hins vegar greiðslu tveggja reikninga fyrir hagabeit hrossa og sauðfjár áfrýjanda í landi Syðri-Valla 1996 að fjárhæð 248.159 krónur og 53.037 krónur. Nam stefnukrafan samkvæmt því samtals 1.282.196 krónum.

Ekki er tölulegur ágreiningur um þær 981.000 krónur, sem að framan var getið. Áfrýjandi telur sér hins vegar óskylt að endurgreiða þessa fjárhæð og ber fyrir sig reglur um endurgreiðslu ofgreidds fjár, sem eigi að leiða til sýknu. Bendir hann meðal annars á að stefndu hafi greitt inn á kaupverð fasteigna og lausafjár án nokkurs fyrirvara um endurgreiðslu ef ekki yrði af samningum. Langur tími hafi síðan liðið áður en stefndu hafi hreyft því að þau ættu rétt á endurgreiðslu, en það hafi fyrst gerst í greinargerð þeirra, sem lögð var fram 2. febrúar 2000 í fyrra máli aðilanna. Krafa um endurgreiðslu hafi þó ekki verið höfð uppi fyrr en með bréfi lögmanns þeirra 21. september 2000. Með þessu hafi þau sýnt verulegt tómlæti. Þá hafi áfrýjandi ekki auðgast á þessum greiðslum, heldur þvert á móti orðið fyrir miklum vaxtagjöldum vegna þess að stefndu hafi ekki gengið til samninga um kaup á áðurnefndum eignum og greitt fyrir þær. Að auki hafi stefndu haft afnot mannvirkjanna í mörg ár og áfrýjandi því haft ástæðu til að ætla að greiðslurnar gengju upp í leigu fyrir afnot þeirra. Að öllu þessu virtu hafi stefndu firrt sig rétti til endurgreiðslu. Áfrýjandi mótmælir loks sérstaklega vaxtakröfu stefndu og telur að upphafstími dráttarvaxta eigi hvað sem öðru líður ekki að miðast við fyrra tímamark en 21. október 2000 þegar mánuður var liðinn frá þeim degi þegar stefndu kröfðust fyrst greiðslu.

Reglur um endurgreiðslu ofgreidds fjár, sem áfrýjandi vísar til, eiga almennt við þá aðstöðu að greitt er í rangri trú um að það sé skylt og greiðandinn leitar síðan eftir endurgreiðslu. Engu slíku var til að dreifa varðandi greiðslur stefndu á árinu 1996, heldur var þeim ætlað að vera innborganir á verð ýmissa eigna, sem þau hugðust þá kaupa af áfrýjanda. Samningar höfðu ekki komist á. Málsaðilum var þannig ljóst að skuldbindandi samningar lágu ekki að baki því að greitt var. Verður að fallast á með stefndu að þau eigi rétt á að fá til baka greiðslur, sem þannig eru til komnar, að því leyti, sem fyrirhuguð samningsgerð fór út um þúfur. Verður áfrýjandi samkvæmt því dæmdur til að greiða þeim 981.000 krónur með dráttarvöxtum frá 21. október 2000 eins og nánar greinir í dómsorði.

Síðari liðurinn í kröfugerð stefndu er fyrir hagabeit hrossa og sauðfjár á árinu  1996, svo sem áður var getið. Til stuðnings kröfu um sýknu af þessum lið ber áfrýjandi fyrir sig að í kjölfar ábúendaskiptanna hafi stefndu leitað eftir kaupum á hrossastóði sínu og samningur nánast verið í höfn um haustið, sem þó hafi ekki orðið af. Vegna þessa hafi hann látið ógert að reka hrossin á fjall, sem hann átti kost á að gera, eða hafa þau á landspildu í eigu hans sjálfs. Að auki hafi stefndu beinlínis óskað eftir því að hrossin yrðu höfð heima við um sumarið meðal annars vegna tamningar á sumum þeirra. Kveðst áfrýjandi við þessar aðstæður ekki hafa haft neina ástæðu til að ætla að krafist yrði greiðslu fyrir beit ef ekki yrði úr kaupunum. Stefndu hafi heldur ekki hreyft því fyrr en í desember 1996 að þau áskildu sér endurgjald fyrir beitina. Þá hafi stefndu keypt flestar ær áfrýjanda sama haust og þá ekki gert neinn fyrirvara um greiðslu fyrir sauðfjárbeit. Kveðst áfrýjandi hafa gengið út frá að ekki væri heldur ætlast til neinnar greiðslu fyrir hana. Vísar hann jafnframt til bréfs síns til jarðeigandans 20. janúar 1997, þar sem fram kemur að hann hafi um vorið 1996 boðið stefndu að fá kindur sínar gegn því að þau hreinsuðu útihús á jörðinni. Hafi stefndu ekki vísað þessu á bug og ekki verið rætt um aðra tilhögun á hreinsun húsa fyrr en í árslok 1996 þegar samningstilraunir voru runnar út í sandinn. Reikninga stefndu fyrir hrossa- og sauðfjárbeit, sem dagsettir eru í desember 1996, kveðst áfrýjandi ekki hafa fengið í hendur fyrr en í byrjun árs 2000.

Með vísan til þess hvernig samskiptum málsaðila var háttað á árinu 1996 varðandi hagagöngu búfjár áfrýjanda verður fallist á með honum að stefndu hafi samþykkt í verki að ekki þyrfti að greiða sérstaklega fyrir beitarafnotin. Verður áfrýjandi sýknaður af þessum kröfulið stefndu.

III.

Í máli þessu höfðaði áfrýjandi gagnsök á hendur stefndu 3. janúar 2001. Í henni krefst hann leigu fyrir afnot stefndu af fjósinu og tilheyrandi byggingum ásamt mjaltartækjum að Syðri-Völlum frá vori 1996 til fardaga 2000 að fjárhæð 1.728.000 krónur. Telur hann að ekki hafi gefist neitt tilefni til að hafa uppi leigukröfu fyrr en að gengnum dómi í fyrra máli aðilanna, þar sem hafnað hafi verið sjónarmiðum hans um að samningur hefði komist á um kaup stefndu á nefndum mannvirkjum. Sé því ekki um neitt tómlæti að ræða af hans hálfu um að hafa ekki borið fram leigukröfuna fyrr. Hann fellst hins vegar á að greiðsla stefndu á 981.000 krónum geti komið til skuldajafnaðar við leigukröfuna. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti voru gefnar þær skýringar á umkrafinni fjárhæð í gagnsök að hún svari til 432.000 króna á ári, sem feli í sér heldur lægri ávöxtun þeirra 4.500.000 króna, sem bundnar væru í mannvirkjunum, en fengist hefði af sömu fjárhæð á bankareikningi þegar litið væri til meðalvaxta af slíkum reikningum á þessu tímabili. Stefndu mótmæla kröfunni og benda á að áfrýjandi hafi ekki hreyft því fyrr en með gagnstefnu að hann hygðist krefja þau um húsaleigu fyrir afnot af fjósinu. Hafi hann því misst allan hugsanlegan rétt fyrir stórfellt tómlæti. Eftir dóminn 31. maí 2000 í fyrra máli aðilanna hafi þau talið að áfrýjandi myndi krefja jarðeigandann um matsverð mannvirkjanna eins og honum hafi ávallt verið heimilt samkvæmt 16. gr. ábúðarlaga. Enginn samningur hafi verið gerður milli málsaðila um leiguafnot fyrir byggingarnar, hvorki munnlegur né skriflegur, og ekkert samningssamband sé því á milli þeirra. Verði hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi eigi rétt á leigu hljóti fjárhæð hennar að verða ákveðin miklum mun lægri en krafist er. Í því sambandi er bent á að árlegt leigugjald í samningi stefndu við jarðeigandann sé miðað við 3% af fasteignamati hins leigða og sama viðmiðun sé viðhöfð í leigusamningum ábúenda á jörðum í eigu ríkisins.

Við úrlausn um gagnkröfu áfrýjanda verður litið til þess að ætlan málsaðila var bersýnilega sú í byrjun að kaup myndu takast og að afhending eignanna til stefndu hafi verið á því reist. Varð ekki endanlega ljóst fyrr en með dómi héraðsdóms í maí 2000 að ekki yrði af kaupunum. Áfrýjandi undi dóminum. Þá fyrst hafði hann ástæðu til að hafa uppi kröfu um annað en greiðslu kaupverðs og þá í tilefni þess að stefndu höfðu notað fasteignir hans í fjögur ár án þess að greiða neitt fyrir. Verður ekki fallist á að tómlæti standi því í vegi að hann geti krafið þau um bætur af því tilefni. Í málatilbúnaði sínum hefur hann hins vegar kosið að setja kröfu sína fram eins og um leiguskuld stefndu sé að ræða. Verður ráðið að hann telji einhvers konar ígildi húsaleigusamnings hafa komist á milli aðilanna fyrst ekki varð af kaupunum. Verður ekki komist hjá að taka mið af því hvernig áfrýjandi markar kröfu sinni farveg. Hefur hann hvorki sýnt fram á hvenær eða hvernig komist hafi á réttarsamband milli málsaðila, sem svari til leigumála um eignirnar. Hann hefur heldur ekki fært viðhlítandi rök fyrir þeirri fjárhæð, sem krafist er í leigu, en af gögnum málsins verður ráðið að hún svari til 15% af fasteignamati eignanna árið 2000. Þótt fallast megi á með áfrýjanda að hann eigi kröfu um greiðslu fyrir afnot eignanna verður hún ekki ákveðin sem leiga, eins og hann krefst. Verður því ekki komist hjá að vísa kröfu hans sjálfkrafa frá héraðsdómi vegna þessarar vanreifunar.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Eiríkur Pálsson, greiði stefndu, Pétri Frey Péturssyni og Helgu Haraldsdóttur, 981.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. október 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Kröfu áfrýjanda í gagnsök í héraði er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi greiði stefndu samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 8. júní 2001.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 11. maí sl., er höfðað af Pétri Frey Péturssyni, kt. 161068-3499 og Helgu Haraldsdóttur, kt. 040569-4999, báðum til heimilis að Syðri Völlum, Húnaþingi vestra með stefnu birtri 6. nóvember 2000 á hendur Eiríki Pálssyni, kt. 190641-6519, Hlíðarvegi 23, Hvammstanga.  Í þinghaldi þann 10. janúar sl. höfðaði stefndi gagnsök á hendur aðalstefnendum.

Dómkröfur gagnstefnda.

Í aðalsök krefjast gagnstefndu þess að gagnstefnanda verði gert að greiða þeim 1.282.196 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 720.596 krónum frá 1. júlí 1996 til 1. janúar 1997, af 1.021.793 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1997 en af 1.282.196 frá þeim degi til greiðsludags.  Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.

Í gagnsök krefjast gagnstefndu aðallega sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda til vara að dómkröfur gagnstefnanda verði lækkaðar verulega og viðurkenndur réttur þeirra til að skuldajafna kröfu sinni að fjárhæð 2.135.244 krónur auk dráttarvaxta frá 1. janúar 1997 gegn gagnkröfum gagnstefnanda.  Þá krefjast gagnstefndu málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur gagnstefnanda.

Í aðalsök krefst gagnstefnandi sýknu af öllum kröfum gagnstefndu.  Til vara krefst hann þess að dómkröfur gagnstefndu verði lækkaðar verulega og að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfu sinni á hendur gagnstefndu vegna notkunar þeirra á fjósi að Syðri Völlum Húnaþingi vestra. Í báðum tilfellum krefst gagnstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefndu að mati dómsins og þess að virðisaukaskattur verði lagður á málflutningsþóknun.

II.

Málavextir.

Gagnstefnandi bjó á jörðinni Syðri Völlum, Húnaþingi vestra, sem er í eigu Jarðasjóðs Vestur Húnavatnssýslu, frá árinu 1968 til 1996.  Þegar í ljós kom að hann hygðist láta af búskap lá fyrir að gagnstefndu höfðu áhuga á að taka við jörðinni.  Gagnstefnda Helga hafði frá árinu 1980 til 1986 verið í sveit hjá gagnstefnanda og konu hans.  Að sögn gagnstefndu var það á árinu 1995 sem fyrst var rætt að þau tækju við jörðinni af gagnstefnanda.

Með bréfi dagsettu 11. apríl 1996 sóttu gagnstefndu um ábúð á jörðinni til Jarðasjóðs Vestur Húnavatnssýslu.  Í bréfinu er tekið fram að þau ætli að búa með kýr og reyna að auka mjólkurkvóta jarðarinnar.  Auk þess standi til að vera með hross og kindur til heimilisnota.  Gagnstefndu var síðan byggð jörðin til lífstíðar með byggingarbréfi dagsettu 9. júní 1996.

Þann 9. júní 1996 fór fram úttekt á jörðinni að viðstöddum fráfaranda, gagnstefnanda máls þessa og viðtakanda, gagnstefndu í máli þessu.  Gagnstefndu, jarðareigandi og raunar gagnstefnandi líka voru sammála um að mat úttektarmanna væri of hátt þar á meðal mat á fjósi og byggingum tengdu því.  Af þessum sökum óskuðu bæði Jarðasjóður og gagnstefndu eftir því að yfirúttekt færi fram.  Yfirúttektargerð er dagsett 2. september 1996 og var niðurstaða yfirúttektarmanna sú að gagnstefndu bæri að greiða gagnstefnanda 4.500.000 krónur fyrir fjósið með tilheyrandi byggingum og tækjum.

Gagnstefndu keyptu alla nautgripi gagnstefnanda fyrir 1.500.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.  Þrátt fyrir að í upphafi hafi ekki verið gert ráð fyrir að gagnstefndu keyptu sauðfé af gagnstefnanda varð samkomulag milli þeirra um að gagnstefndu keyptu 70 ær fyrir 210.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Upphaflega stóð til að gagnstefndu keyptu flestar vélar og tæki gagnstefnanda sem hann hafði notað í búskap sínum en það mun ekki hafa gengið eftir nema að litlum hluta.  Þá var einnig rætt að gagnstefndu keyptu hross af gagnstefnanda en það mun heldur ekki hafa gengið eftir.

Gagnstefnandi reisti meðan hann bjó á jörðinni fjós og byggingar og tæki tengd því og er hann eigandi þeirra en aðrar byggingar á jörðinni eru í eigu jarðareiganda.

Aðilar gerðu ekki með sér skriflegt samkomulag um verð sem gagnstefndu ættu að greiða gagnstefnanda fyrir eignir hans á jörðinni.  Þá var ekki heldur gert skriflegt samkomulag milli eiganda jarðarinnar, gagnstefnanda og gagnstefndu varðandi viðskilnað gagnstefnanda þegar hann fór af jörðinni. 

Ekki er ágreiningur milli aðila um að gagnstefndu hafi frá því í júní 1996 til mars 1997 greitt gagnstefnanda 3.358.950 krónur.  Af þeirri fjárhæð voru 2.377.950 krónur vegna nautgripa og sauðfjár sem gagnstefndu keyptu af gagnstefnanda, svo og vegna leigu á heyvinnuvélum.

III.

Málsástæður og lagarök.

Aðalsök segja gagnstefndu vera tilkomna vegna endurheimtu þeirra á ofgreiddu fé.  Þau hafi greitt gagnstefnenda innborganir á fjós og bústofn á jörðinni Syðri Völlum.  Ágreiningur hafi síðan risið um kaup þeirra á fjósinu.  Úr þeim ágreiningi hafi verið skorið með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra þann 31. maí 2000, mál nr. E-90/1999. Einnig sé um að ræða endurheimtu á beingreiðslu sem greidd var til gagnstefnanda í júní og júlí 1996, virðisaukaskatt sem greiddur var þann 3. mars 1996 og krafa þeirra vegna reikninga nr. 6 og 7 frá því í desember 1996 sem til eru komnir vegna hagabeitar fyrir hross og fé gagnstefnanda. 

Gagnstefndu byggja á því að allar þessar kröfur hafi þeir sett fram þann 2. febrúar 2000 í greinargerð sinni í áður nefndu máli nr. E-90/1999.  Með greiðslum sínum hafi þau verið að losa sig undan skuldbindingum og greiða inn á fjósbygginguna sem til hafi staðið að þau keyptu.  Þessi tilgangur hafi ekki náðst og ekki hafi komist á bindandi samkomulag um kaup á fjósinu.  Af þessum sökum eigi þau skýra kröfu um endurheimtu þess fjár sem þau hafi ofgreitt gagnstefnanda. 

Í gansök byggja gagnstefndu sýknukröfu sína á því að þau séu ekki réttir aðilar að málinu.  Með vísan til 16. gr. ábúðarlaga sé það eigandi jarðarinnar sem beri ábyrgð á því að greiða fráfarandi leiguliða hús eða umbætur á jörð.  Þau séu ekki í neinu samningssambandi við gagnstefnanda en honum beri að beina kröfum sínum að eiganda jarðarinnar vilji hann fá greitt fyrir eignir sínar þ.m.t. vegna fjóss sem hann byggði á jörðinni. 

Gagnstefndu byggja sýknukröfu sína einnig á því að aldrei hafi komist á skuldbindandi leigusamningur vegna afnota þeirra á fjósinu á Syðri-Völlum en slíkt hafi aldrei verið rætt.  Hafi þau gert ráð fyrir að gagnstefnandi beindi kröfum sínum vegna fjósbyggingarinnar að eiganda jarðarinnar.  Vísa gagnstefndu til meginreglna samninga og leiguréttar um það hvenær bindandi samningur telst vera kominn á en þau hafi ekki skuldbundið sig á neinn hátt gagnvart gagnstefnanda.  Ennfremur byggja þau á því að hugsanleg krafa gagnstefnanda hafi fallið niður vegna tómlætis hans.  Í því sambandi benda þau á að gagnstefnandi hafi ekki enn gert þeim reikning fyrir leigugjaldi og því geti ekkert leigugjald verið gjaldfallið. 

Varakröfu sína um stórfellda lækkun á dómkröfum gagnstefnanda reisa aðalstefnendur m.a. á því að lagaskylda standi til þess að leigusamningar um húsnæði skuli vera skriflegir sbr. 4. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.  Hafi skriflegur leigusamningur ekki verið gerður skuli leigufjárhæðin vera sú fjárhæð sem leigusali getur sýnt fram á leigjandi hafi samþykkt sbr. 10. gr. nefndra húsaleigulaga.  Gagnstefndu hafi aldrei samþykkt að greiða neina leigu en telja þó að miða megi við að ríki og opinberir aðilar, þ.m.t. eigandi Syðri-Valla taki, 3% af fasteignamati leigðrar fasteignar sem leigugjald.  Fasteignamat fjóssins og alls þess sem því fylgir sé 2.879.000 krónur og því sé árlegt gjald miðað við 3% af þeirri fjárhæð 86.370 krónur eða 345.480 krónur á fjórum árum.  Um hærri fjárhæð geti gagnstefnandi ekki krafið ella séu þau verr stödd en ef eigandi jarðarinnar krefði þau um leigugjald.  Þá byggja gagnstefndu á því að hugsanlegar leigukröfur eldri en fjögurra ára séu fyrndar. 

Gagnstefndu byggja einnig á því að telji dómurinn að gagnstefnandi eigi kröfu á hendur þeim þá eigi þau gagnkröfur á hendur honum til skuldajafnaðar vegna hreinsunar á jörðinni.  Krafan sé vegna malaraksturs, hreinsunar á haghúsi, gamla fjósinu, urðunar og hreinsunar á tækjum og áætluðum kostnaði við hreinsun á fjárhúsum.  Samtals að fjárhæð 2.135.244 krónur.  Gagnstefndu telja öll skilyrði til skuldajafnaðar vera fyrir hendi og vísa til almennra reglna kröfuréttarins um skuldajöfnuð svo og 1. tl. 28. gr. laga um meðferð einkamála.  Benda þau á að kröfurnar séu gagnkvæmar, sambærilegar, hvað greiðslutíma hæfar til að mætast, gagnkrafan sé gild og gagnkrafan sé að meginstefnu skýr og ótvíræð.  Auk þessa hafi gagnstefnandi haldið beingreiðslum í sauðfé út árið 1996 en þær hafi verið u.þ.b. 30.000 krónur á mánuði.  Af þessum sökum skuldi gagnstefnandi gagnstefnda 200.000 krónur með dráttarvöxtum frá árinu 1997.  Þessi krafa sé einnig hæf til skuldajafnaðar.  Loks benda gagnstefndu á að gagnstefnandi hafi boðið þeim 500.000 krónur vegna þess að hann hafi ekki hreinsað skít úr fjárhúsi og fjósi við ábúðarskiptin. 

Kröfu um málskostnað byggja gagnstefndu á 130. gr. laga um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda.

Gagnstefnandi byggir sýknukröfu sína í aðalsök á því að honum beri ekki skylda til að endurgreiða gagnstefndu 981.000 krónur sem gagnstefndu ofgreiddu.  Vísar hann til reglna íslensks réttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.  Byggir gagnstefnandi á því að greiðslur gagnstefndu hafi verið inntar af hendi án nokkurs fyrirvara.  Greiðslurnar sem fram fóru á árunum 1996 og 1997 hafi ekki verið sérstaklega eyrnamerktar en endurheimtukrafa gagnstefndu hafi hins vegar fyrst komið fram í bréfi lögmanns þeirra dagsettu 21. september 2000, þó kröfunni hafi áður verið hreyft í greinargerð lögmannsins í héraðsdómsmálinu nr. E-90/1999 sem var lögð fram 2. febrúar 2000.  Hafi gagnstefndu talið sig eiga endurkröfu á hendur gagnstefnanda hafi þeir sýnt af sér alvarlegt tómlæti við innheimtu hennar.  Gagnstefnandi byggir og á því að hann hafi ekki auðgast á umræddum greiðslum þar sem sá misskilningur, sem þær rekja rót sína til, hefur leitt til þess að gagnstefnandi hefur enn ekki fengið greitt virðingarverð fjósbyggingarinnar sem hann taldi sig hafa selt gagnstefndu.  Söluverð fjós-byggingarinnar átti að ganga upp í kaup fasteignar á Hvammstanga.  Af þessum sökum hafi hann orðið fyrir vaxtagjöldum sem hann hefði ella sloppið við. 

Gagnstefnandi heldur því fram að endurheimtukrafa gagnstefndu geti ekki borið dráttarvexti fyrr en frá og með þeim degi er hún fyrst kom fram 21. september 2000.  Verði fallist á þau sjónarmið gangstefndu að krafan hafi komið fram í greinargerð sem fram var lögð 2. febrúar 2000 geti krafan fyrst borið dráttarvexti frá 2. mars 2000.

Gagnstefnandi mótmælir reikningum gagnstefndu sem fram eru komnir vegna hagabeitar fyrir hross og sauðfé.  Hvað varðar beit fyrir hross er á því byggt að gagnstefndu hafi ætlað að kaupa hrossin og því viljað hafa þau heima við m.a. til tamninga.  Samningar um verð og fjölda þeirra hrossa sem gagnstefndu ætluðu að kaupa af gagnstefnanda hafi verið langt komnir haustið 1996 en strandað á því að gagnstefndu hafi verið ófáanleg til að staðfesta hvenær og hvernig þau myndu greiða kaupverðið.  Ef ekki hefði komið til þessi samningur og vilji gagnstefndu til að hafa hrossin heima við kveðst gagnstefnandi hafa sett hrossin á fjall þar sem hann hefði ekki þurft að greiða fyrir beit.  Jafnframt bendir gagnstefnandi á að hrossin hafi haft aðgang að landspildu sem hann á í landi Syðri Valla.  Einnig er byggt á tómlæti gagnstefndu við innheimtu kröfunnar en það leiði til þess að hún sé niður fallin.  Reikning vegna kröfunnar kveðst gagnstefnandi fyrst hafa séð þegar hann var lagður fram á dómþingi 2. febrúar 2000.  Verði þetta ekki til þess að leysa gagnstefnanda undan greiðsluskyldu mótmælir hann kröfunni sem allt of hárri og bendir á að á Hvammstanga hafi tíðkast á þessum tíma hafi tíðkast að greiða 400 krónur á mánuði fyrir hross í hagagöngu.  Krafa gagnstefndu að fjárhæð 850 krónur fyrir hvert hross sé því bersýnilega ósanngjörn og skv. grunnreglu 5. gr. laga nr. 39/1922 beri að hafna reikningsfjárhæðinni.

Hvað varðar reikning vegna hagagöngu sauðfjár vísar gagnstefnandi til sömu raka varðandi tómlæti og vegna reiknings fyrir hagagöngu hrossa.  Þá er reikningsfjárhæðinni mótmælt sem of hárri og ósanngjarnri.  Vísar gagnstefnandi til þess að talið sé að fullorðið hross þurfi beit á við 6 til 7 lambær.  Miðað við áðurnefnt gangverð fyrir hagagöngu hrossa á Hvammstanga á þessum tíma sé krafan allt of há og því beri að hafna henni. 

Hvað lagarök varðar vísar gagnstefnandi til reglna íslensks réttar um endurheimtu ofgreidds fjár og reglna varðandi tómlætisáhrif.  Ennfremur vísar hann til grunnreglu 5.gr. laga nr. 39/1922, 3. mgr. 9. gr. laga nr. 25/1987, 2. mgr. 28. gr., 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 1., 2., 3., og 11., sbr. 14. gr. laga nr. 50/1988.

Gagnstefnenandi byggir gagnsök sína á því að hann hafi átt hluta af byggingum á Syðri Völlum, þ.e. fjós ásamt tilheyrandi.  Hann hafi talið að komist hafi á samkomulag milli hans og gagnstefndu um að þau keyptu fjósið á verði ákveðnu af úttektarmönnum.  Með yfirúttekt hafi verð fjóssins með tilheyrandi byggingum og mjaltatækjum verið metið á 4.500.000 krónur.  Síðar hafi komið í ljós að gagnstefndu sættu sig ekki við þetta verð og því hafi gagnstefnandi höfðað mál til innheimtu matsverðsins.  Niðurstaðan úr því máli hafi verið sú að gagnstefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á tilvist samkomulags um að gagnstefndu greiddu matsverð fyrir byggingarnar.  Þegar dómurinn var kveðinn upp þann 31. maí 2000 hafi gagnstefndu haft afnot bygginganna og jarðarinnar frá því um vorið 1996.  Fyrir þau afnot kveðst gagnstefnandi eiga rétt á leigu sem hann telur hóflega ákveðna 1.728.000 krónur fyrir allt tímabilið.  Gagnstefnandi viðurkennir að gagnstefndu hafi greitt honum 981.000 krónur umfram það sem þau höfðu greitt fyrir búfénað og leigu fyrir búvélar og að sú fjárhæð geti komið til skuldajafnaðar við leigukröfu hans skv. grunnreglu 2. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905 þótt endurkrafa þeirrar fjárhæðar væri ella niður fallin vegna reglna íslensks réttar um endurheimtu ofgreidds fjár. 

Sem lagarök fyrir kröfum sínum vísar gagnstefnandi til 2. mgr. 28. gr., 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, 1.gr., 2. gr., 3. gr. og 11. sbr. 14. gr. laga nr. 50/1987 um virðisaukaskatt, 2. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og meginreglu 5. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. 

IV

Niðurstaða.

Aðalsök. 

Í áðurnefndum dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra uppkveðnum þann 31. maí 2000 voru gagnstefndu sýknuð, vegna aðildarskorts, af kröfu gagnstefnanda þess efnis að þau greiddu honum yfirmatsverð, 4.500.000 krónur, vegna kaupa þeirra á fjósinu á Syðri Völlum.  Í þessum sama dómi voru viðskipti aðila að öðru leiti vegna ábúðarskiptanna rakin.  Niðurstaðan var sú að gagnstefndu greiddu gagnstefnanda 1.230.000 krónur umfram skyldu en þá hafði verið tekið tillit til kaupa gagnstefndu á nautgripum og sauðfé, beingreiðslna sem gagnstefndu bar en gagnstefnandi fékk greiddar og svo þeirrar fjárhæða sem gagnstefndu höfðu greitt gagnstefnanda með peningum.  Þá var einnig í þessum sama dómi tekin til greina krafa gagnstefnanda á hendur gagnstefndu vegna vélaleigu að fjárhæð 200.000 krónur.  Að teknu tilliti til leigu fyrir vélar að viðbættum virðisaukaskatti verður niðurstaðan sú að gagnstefndu ofgreiddu gagnstefnanda 981.000 krónur og er þessi fjárhæð óumdeild.  Við þessa fjárhæð bætast svo reikningar sem gagnstefndu hafa gert gagnstefnanda vegna hagabeitar fyrir hross og sauðfé og er sú fjárhæð stefnufjárhæð máls þessa.

Af hálfu gagnstefnanda er á því byggt að greiðslur gagnstefndu hafi verið inntar af hendi í júní og júlí 1996 án nokkurs fyrirvara og að endurheimtukrafa hafi fyrst komið fram í bréfi lögmanns þeirra dagsettu 21. september 2000 og því sé um að ræða stórfellt tómlæti af þeirra hálfu.  Í fyrrnefndum dómi frá 31. maí 2000 kemur fram að í fyrstu var gott samkomulag milli aðila varðandi ábúðarskiptin og fyrir lá að gagnstefndu ætluðu að kaupa fjósið af gagnstefnanda.  Þetta gekk hins vegar ekki eftir.  Gagnstefndu greiddu gagnstefnanda 3.000.000 króna sumarið 1996 en yfirúttekt lá ekki fyrir fyrr en í byrjun september það ár.  Í byrjun desember 1996 liggur síðan fyrir að aðilar ná ekki samkomulagi og setja þeir þá fram kröfur hvor á annan vegna hagabeitar, leigu fyrir vélar, hreinsun og fleira.  Í framhaldi af þessu afla gagnstefndu sér álits dómkvaddra matsmanna á verðmæti fjóssins.  Gagnstefnandi hélt sig hins vegar við að gagnstefndu væru skuldbundin til að greiða fyrir fjósið samkvæmt mati yfirúttektarmanna og stefndi hann gagnstefndu til greiðslu á því sem hann taldi vangreitt.  Stefna í hinu títtnefnda fyrra máli aðila var birt 6. nóvember 1996.  Þegar horft er til þessarar sögu varðandi viðskipti aðila liggur fyrir að báðir aðilar voru ósáttir og að þeir leituðu báðir til lögmanna með sjónarmið sín.  Verður því ekki fallist á með gagnstefnanda að gagnstefndu hafi sýnt af sér verulegt tómlæti við innheimtu kröfu sinnar en eðlilegt var af þeirra hálfu að bíða eftir niðurstöðu dómsins í hinu fyrra máli áður en þau hæfu innheimtuaðgerðir vegna hins ofgreidda fjár enda var fyrirvari um að svo yrði gert settur fram í greinargerð þeirra í fyrra málinu.  Ekki er fallist á með gagnstefnanda að taka skuli tillit til þess að hann hafi ekki auðgast vegna hins ofgreidda fjár því honum var í lófa lagið að setja fram kröfur á hendur eiganda jarðarinnar um leið og honum varð ljóst að gagnstefndu féllust ekki á að greiða matsverð fyrir fjósið og er það því á hans eigin ábyrgð ef hann verður fyrir tjóni vegna þessa. 

Verður krafa gagnstefndu um endurgreiðslu ofgreidds fjár því tekin til greina.  Rétt þykir að endurgreiðslukrafan beri dráttarvexti frá 1. mars 2000 en gagnstefndu settu endurgreiðslukröfuna fram í greinargerð í fyrra málinu þann 2. febrúar 2000.

Reikningar vegna hagabeitar fyrir hross og sauðfé eru dagsettir 27. desember 1996.  Gagnstefnandi kveðst hins vegar ekki hafa séð þá fyrr en þeir voru lagðir fram í máli þessu.  Áður er rakið að aðilar settu fram kröfur hvor á annan þegar fyrir lá að þeir næðu ekki samkomulagi um verð á fjósinu í desember 1996.  Ekki sést þess stað að þeir hafi mótmælt kröfum hins aðilans og var m.a. horft til þess þegar krafa gagnstefnanda um greiðslu fyrir leigu á vélum var tekin til greina í fyrra máli aðilanna.  Þessar kröfur gagnstefndu komu fram í greinargerð þeirra í fyrra málinu og teljast þær því ekki, með sömu rökum og rakin voru að framan varðandi endurgreiðslukröfuna, of seint fram komnar. 

Gagnstefnandi hefur mótmælt kröfunum sem of háum.  Fyrir dóminum bar vitnið Sóley Ólafsdóttir, gjaldkeri Hestaeigendafélagsins á Hvammstanga að á þeim tíma sem hér um ræðir hafi félagið tekið 400 krónur fyrir hrossið á mánuði í hagagöngu.  Upplýsti hún einnig að félagið sé opið öllum íbúum á Hvammstanga og að ekki sé innheimt annað gjald en greitt er fyrir hagagönguna.  Gagnstefnandi flutti frá Syðri Völlum á Hvammstanga og gat hann því sannanlega komið hrossum sínum í hagagöngu með þessum hætti.  Þá hefur hann einnig bent á að hann á landspildu á Syðri Völlum sem hrossin gátu gengið í.  Loks hefur hann bent á að til stóð að gagnstefndu keyptu af honum hrossin og af þeim sökum hafi þau ekki verið rekin á fjall.  Þegar horft er til raka gagnstefnanda þykir honum hafa tekist að sýna fram á að reikningur gagnstefndu vegna hagagöngu hrossa sé of hár.  Þykir rétt að miða við gjaldskrá sem Hestaeigendafélagið á Hvammstanga notaði á þessum tíma þ.e. 400 krónur fyrir hrossið á mánuði.  Ekki er ágreiningur með aðilum um fjölda hrossa eða tíma sem þau voru í hagagöngu á Syðri Völlum skal gagnstefnandi því greiða gagnstefndu 116.781 krónur vegna hagagöngu hrossa og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  Hvað varðar reikning vegna sauðfjárbeitar þá eiga sömu rök og fyrr við hvað tómlæti gagnstefndu varðar.  Lögð hefur verið fram tímaritsgrein eftir Ólaf Dýrmundsson ráðunaut þar sem m.a. segir að reiknað sé með að á sumarbeit þurfi fullorðið hross beit á við 6-7 lambær.  Engin gögn liggja fyrir í málinu varðandi verð fyrir hagagöngu sauðfjár.  Með tilliti til þess sem rakið er hér að framan varðandi verð fyrir hagagöngu hrossa, sem sennilega var þó lægra hjá Hesteigendafélaginu á Hvammstanga en almennt var á þessum tíma, og þess að gagnstefndu keyptu meirihluta kindanna haustið 1996 þykir rétt að ákvarða gagnstefndu, að álitum, 25.900 krónur vegna sauðfjárbeitarinnar og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  Kröfur vegna hagagöngu skulu bera dráttarvexti frá sama tíma og endurgreiðslukrafan þ.e. 1. mars 2000.

Samkvæmt því sem að framan er rakið skal gagnstefnandi greiða gagnstefndu 1.123.681 krónu vegna krafna í aðalsök með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 1. mars 2000 að telja. 

Gagnsök

Gagnstefnandi byggir kröfur sínar í gagnsök á leigu fyrir fjósið og það sem því fylgir.  Áður er rakið að gagnstefnandi átti sem fráfarandi á leigujörð að krefja eiganda jarðarinnar um greiðslu fyrir umbætur á jörðinni, þ.m.t. byggingar.  Þetta hefur hann að því að best er vitað ekki gert enn.  Gagnstefndu var byggð jörðin til lífstíðar með byggingarbréfi dagsettu 6. júní 1996.  Í byggingabréfinu er fjós ekki upptalið með öðrum byggingum sem gagnstefndu eru byggðar.  Gagnstefndu hefur því frá upphafi mátt vera ljóst að þeim var ekki byggt fjósið sem þeim er kunnugt um að gagnstefnandi byggði og átti enda stóð til að þau keyptu það af honum.  Gagnstefndu hafa ekki mótmælt því að þau hafi notað fjósið.  Þrátt fyrir að gagnstefndu hafi ekki átt í beinu samningssambandi við gagnstefnanda vegna leigu á jörðinni verður að telja að gagnstefnandi sé eigandi að mögulegri leigukröfu á hendur gagnstefndu og verða þau því ekki sýknuð af kröfunni á grunni aðildarskorts eins og krafist er.  Ekki skiptir hér máli þó gagnstefnandi hafi ekki krafið eiganda jarðarinnar um andvirði fjóssins. 

Komið hefur fram að aðilar máls þessa deildu um fyrrnefnt fjós í máli sem niðurstaða fékkst í fyrir rétt rúmu ári síðan.  Gagnstefnandi setti kröfu sína um leigugreiðslu fyrst fram með gagnstefnu í máli því sem hér er til úrlausnar en gerði aldrei neinn fyrirvara um að hann myndi krefjast leigugjalds fyrir fjósið yrði krafa hans ekki tekin til greina.  Þá hefur gagnstefnandi ekki enn gert gagnstefndu reikning vegna þessarar kröfu sinnar.  Fallast má á með gagnstefnanda að óeðlilegt hefði verið af honum að krefjast leigugjalds á sama tíma og hann taldi sig hafa selt gagnstefndu fjósið.  Hins vegar bar gagnstefnanda án ástæðulauss dráttar, eftir að kröfum hans á hendur gagnstefndu í hinu fyrra máli var hafnað þann 31. maí 2000, að krefja gagnstefndu um leigugjald en það gerði hann ekki.  Þá var og eðlilegt að krefjast þess af gagnstefnanda að hann gerði fyrirvara um innheimtu leigugjalds þegar aðilar fóru að setja fram ýtrustu kröfur hvor á annan.  Með aðgerðarleysi sínu við innheimtu leigugjaldsins hefur gagnstefnandi sýnt af sér svo stórkostlegt gáleysi en hann hefur t.d. ekki enn gert gagnstefndu reikning vegna kröfu sinnar og verður því talið að krafa hans sé niður fallin fyrir tómlæti.

Að fenginni þessari niðurstöðu koma kröfur gagnstefndu sem settar voru fram til skuldajafnaðar við leigukröfu gagnstefnanda ekki til umfjöllunar í máli þessu.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma gagnstefnanda til að greiða gagnstefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Gagnstefnandi, Eiríkur Pálsson, greiði gagnstefndu, Pétri Frey Péturssyni og Helgu Haraldsdóttur 1.123.681 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 1. mars 2000 að telja. 

Gagnstefndu eru sýknuð af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.

Gagnstefnandi greiði gagnstefndu 300.000 krónur í málskostnað.