Hæstiréttur íslands
Mál nr. 335/2006
Lykilorð
- Kröfugerð
- Getraunir
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 8. febrúar 2007. |
|
Nr. 335/2006. |
Einar Gunnar Sigurðsson(Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Íslenskum getraunum (Heimir Örn Herbertsson hrl.) |
Kröfugerð. Getraunir. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
E, sem var handhafi tólf kvittana vegna þátttöku í getraunaleiknum Lengjunni í 35. leikviku 2004, krafðist þess að viðurkennt yrði að Í bæri að greiða sér vinninga samkvæmt stuðli sem fram kom á kvittununum við tilgreindan leik milli tveggja spænskra knattspyrnuliða, eins og úrslitin hefðu staðið óbreytt. Fyrir lá að kvittanirnar voru keyptar eftir að nefndum leik var lokið. Talið var að getraunaleikurinn Lengjan byggðist samkvæmt 2. gr. laga um getraunir nr. 59/1972 og ákvæðum reglugerðar nr. 543/1995 eðli málsins samkvæmt á þeirri meginforsendu að giskað væri á væntanleg úrslit íþróttakappleikja áður en þeim væri lokið. Með vísan til framangreindra ákvæða var talið að af eðli leiks þess sem E gekk til með kaupum á umræddum getraunaseðlum leiddi að hafna yrði kröfu hans um greiðslu vinninga. Var Í því sýknað af viðurkenningarkröfu E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2006. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefnda beri að greiða sér vinninga samkvæmt stuðli sem fram kemur á nánar tilgreindum þátttökukvittunum við leik nr. 49 í 35. leikviku Lengjunnar 2004, eins og úrslitin hefðu staðið óbreytt. Þá krefst hann þess einnig að „heildarvinningsupphæð 2.944.560 krónur beri dráttarvexti frá 25. ágúst 2004.“ Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrri hluti kröfu áfrýjanda er viðurkenningarkrafa, en í síðari hluta hennar krefst hann þess að nánar tilgreind „heildarvinningsupphæð“ beri dráttarvexti frá tilteknum tíma. Síðari hluti kröfu áfrýjanda samræmist ekki viðurkenningarkröfunni, enda hefur hann ekki gert fjárkröfu í málinu og verður þessum hluta kröfunnar því vísað frá héraðsdómi án kröfu.
Áfrýjandi er handhafi tólf kvittana vegna þátttöku í getraunaleiknum Lengjunni í 35. leikviku 2004. Með vísan til 38. gr. reglugerðar nr. 543/1995 fyrir Íslenskar getraunir telst áfrýjandi eigandi kvittananna og er því réttur aðili máls þessa.
Samkvæmt 23. gr. reglugerðarinnar er Lengjan getraunaleikur sem stefndi starfrækir og tekur til úrslita í íþróttakappleikjum. Þeir leikir sem Lengjan tekur til í hverri umferð eru tilgreindir í leikskrá sem útgefin er af stefnda, sbr. 24. gr. reglugerðarinnar, en þar kemur jafnframt fram hvenær sölu ljúki fyrir hvern og einn leik. Í 25. gr. reglugerðarinnar kemur fram að þátttakandi í Lengjunni geti valið þrjá, fjóra, fimm eða sex leiki úr leikskránni og giskað á hvort þeim ljúki með heimasigri, jafntefli eða útisigri. Þátttakandi fyllir út sérstakan getraunaseðil og tilgreinir getraunatáknin 1, X eða 2, á hvern þann leik sem hann vill giska á hver úrslit verði í, sbr. 26. gr. reglugerðarinnar. Þegar þátttakandi hefur lokið við útfyllingu seðilsins, afhent hann söluaðila og greitt þátttökugjald fær hann afhenta þátttökukvittun þar sem ágiskun þátttakandans, upphæð þátttöku og heildarstuðull kemur fram, sbr. 29. gr. reglugerðarinnar. Getraunaleikurinn Lengjan byggist samkvæmt 2. gr. laga um getraunir nr. 59/1972 og framanröktum ákvæðum reglugerðar nr. 543/1995 eðli málsins samkvæmt á þeirri meginforsendu að giskað er á væntanleg úrslit íþróttakappleikja áður en þeim er lokið. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður stefndi sýknaður af viðurkenningarkröfu áfrýjanda.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Kröfu áfrýjanda, Einars Gunnars Sigurðssonar, um dráttarvexti er vísað frá héraðsdómi.
Stefndi, Íslenskar getraunir, er sýkn af viðurkenningarkröfu áfrýjanda.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2006.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 8. mars sl. er höfðað með stefnu birtri 16. maí 2005.
Stefnandi er Einar Gunnar Sigurðsson, Prestastíg 8, Reykjavík.
Stefndi er Íslenskar Getraunir, Engjavegi 6, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði að íslenskum getraunum beri að greiða vinninga út samkvæmt stuðli sem tilgreindur er á þátttökukvittunum á dskj. nr. 21-23, við leik nr. 49 í 35. leikviku Lengjunnar, eins og úrslitin hefðu staðið óbreytt.
Þess er krafist að heildarvinningsupphæð 2.944.560 krónur beri dráttarvexti frá 25. ágúst 2004.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður.
MÁLSATVIK
Stefndi starfrækir íþróttagetraunastarfsemi hér á landi á grundvelli laga nr. 59/1972 um getraunir. Samkvæmt þeim fer stefndi með einkarétt til rækslu þessarar starfsemi hér á landi. Með íþróttagetraunum er átt við að á þar til gerða miða eru merkt væntanleg úrslit íþróttakappleikja. Stjórn stefnda er í höndum aðila sem tilnefndir eru af helstu íþrótta- og ungmennasamtökum Íslands. Ágóði af starfsemi stefnda rennur til íþróttamála.
Á meðal þeirra getraunaleikja sem stefndi rekur er Lengjan. Leikurinn fer þannig fram, að stefndi gefur í hverri viku út leikskrá, sem inniheldur nokkra tugi leikja sem fram eiga að fara í þeirri viku. Leikurinn gengur út á að þátttakendur giska á úrslit leikja með því að velja táknið 1 ef viðkomandi telur að lið á heimavelli muni sigra, táknið x ef viðkomandi telur að leiknum muni ljúka með jafntefli en táknið 2 ef viðkomandi telur að lið á útivelli muni sigra. Að hámarki má giska á úrslit sex leikja á hverjum keyptum þátttökuseðli. Almennt ber að giska á úrslit þriggja leikja að lágmarki en þó er heimilt að giska á úrslit einstakra leikja ef íslenskar getraunir hafa merkt viðkomandi leik með tilteknu tákni. Að taka þátt í íþróttagetraun af þessu tagi kallast í daglegu tali að "tippa".
Lágmarksfjárhæð sem tippa má fyrir á hverjum þátttökuseðli er 100 krónur en hámarksfjárhæð er 12.000 krónur. Hver leikur í leikskrá gefur samkvæmt framansögðu þrjá möguleika á úrslitum. Í leikskránni koma fram þær líkur eða stuðlar sem eiga við um hver úrslit. Þessa stuðla ákveða starfsmenn stefnda. Ef fyrirfram þykir líklegt að úrslit leiks verði 1 er lágur stuðull settur við þau úrslit. Ef fyrirfram þykir ólíklegt að úrslit leiks verði 2 er hár stuðull settur við þau úrslit. Stuðull allra úrslita sem þátttakandi tippar á er margfaldaður saman og myndar hann heildarstuðul þess miða sem keyptur var. Ef öll úrslit reynast rétt er stuðullinn margfaldaður með þeirri fjárhæð sem keypt var fyrir og fæst þannig vinningsfjárhæðin. Af framansögðu leiðir að hægt er að taka mikla áhættu með því að giska á mörg ólíkleg úrslit, fá þannig háan heildarstuðul og háan vinning ef öll úrslit ganga eftir. Einnig er hægt að giska á nokkur líkleg úrslit en ein ólíkleg, í því skyni að hífa heildarstuðulinn upp ef svo má segja, o.s.frv.
Í 35. leikviku ársins 2004 gerðist það, að í leikskrá stefnda var leikur ranglega skráður. Um var að ræða leik nr. 49 í umræddri leikskrá, á milli liðanna Valencia og Real Zaragoza í spænsku bikarkeppninni. Í leikskránni kom fram að leikurinn yrði leikinn miðvikudaginn 25. ágúst 2004. Staðreyndin er sú að leikurinn var leikinn þriðjudaginn 24. ágúst 2004. Stuðlar leiksins voru þeir að fyrir heimasigur, merkið 1, var stuðullinn 1,30, fyrir jafntefli, merkið x, var stuðullinn 3,50 og fyrir útisigur, merkið 2, var stuðullinn 5,15. Síðastnefndi stuðullinn er með hæsta móti fyrir úrslit í knattspyrnuleik. Ástæða þess að hann var svona hár var sú að mjög ólíklegt þótti að Real Zaragoza myndi sigra í leiknum. Um var að ræða síðari leikinn af tveimur milli þessara tveggja liða í umræddri keppni. Fyrri leikinn hafði Valencia stuttu áður unnið með yfirburðum, á heimavelli Real Zaragoza, og styrkur Valencia um þessar mundir var mun meiri en Real Zaragoza. Erlend getraunafyrirtæki voru öll með sambærilega stuðla á þessum leik og stefndi.
Starfsmenn stefnda uppgötvuðu ekki fyrr en á miðvikudeginum 25. ágúst 2004 að umræddur leikur væri enn opinn í sölukerfi getrauna þótt honum hefði lokið deginum áður. Var leiknum tafarlaust lokað fyrir sölu. Stuðli leiksins, á þeim seðlum sem keyptir höfðu verið eftir að leikurinn hófst, var breytt úr 5,15 í 1, skv. reglum um getraunir. Stefnandi hefur lagt fram gögn sem upplýsa hvernig giskað hafði verið á úrslit leiksins á meðan hann var opinn fyrir sölu:
Á þriðjudeginum 24. ágúst, áður en leikurinn hófst, voru keyptir 14 miðar sem innhéldu ágiskun á úrslit þessa leiks. Í öllum tilfellum var giskað á heimasigur Valencia, þ.e. merkið 1. Alls var tippað fyrir 3.600 krónur á þeim miðum sem innihéldu umræddan leik, eða að meðaltali 257 krónur á hvern miða.
Eftir að leiknum var lokið, eða frá klukkan 22.12 - 22.21, voru keyptir 21 miði, allir að hámarksfjárhæð 12.000 krónur hver miði. Allir miðarnir voru keyptir í sama söluumboði, Prinsinum á Ólafsvík. Á öllum miðunum var giskað á útisigur í leiknum, eða merkið 2. Þegar þetta gerðist var orðið ljóst að leiknum hafði raunverulega lokið með útisigri.
Miðvikudaginn 25. ágúst voru keyptir 25 miðar sem innihéldu ágiskun á heimasigur, eða merkið 1. Heildarfjárhæð sem keypt var fyrir var 16.900 krónur eða að meðaltali 676 krónur á hvern miða. 1 seðill var keyptur sem innihélt merkið x á þessum leik, fyrir 500 krónur. Hins vegar voru 77 seðlar keyptir sem innihéldu merkið 2. Upphæðin sem keypt var fyrir var 807.400 krónur eða að meðaltali 10.485 krónur á hvern miða.
Eftir að lokað hafði verið fyrir sölu umrædds leiks og stuðli hans breytt í 1 var haft samband við stefnda og óskað skýringa á því, hvers vegna ekki væru greiddir út vinningar með stuðlinum 5,15 á þessum leik, á miðum sem keyptir höfðu verið eftir að honum lauk. Viðkomandi voru gefnar umbeðnar skýringar. Í samtölum starfsmanns stefnda við tvo einstaklinga, sem keypt höfðu slíka miða, kom fram að þeim hefði verið kunnugt um úrslit leiksins þegar þeir keyptu miðana. Þann 31. ágúst 2004 barst stefnda bréf frá Magnúsi Inga Erlingssyni hdl. þar sem óskað var skýringa á framangreindu fyrir hönd umbjóðanda Magnúsar. Ekki kemur fram í bréfinu hver sá umbjóðandi sé. Samskiptum við Magnús lauk með því að hann lagði fram kæru til eftirlitsmanns íslenskra getrauna sem kvað upp úrskurð í málinu þann 8. október 2004. Að beiðni Magnúsar Inga var málið endurupptekið og nýr úrskurður kveðinn upp þann 2. febrúar 2005.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Engin sérstök ákvæði í lögum 59/1972 um getraunir eða reglugerð sem sett er með stoð í þeim lögum gildi um það hvernig á að fara með sambærileg tilvik. Í úrskurði eftirlitsmanns með Getraunum frá 5. febrúar 2005 sé það staðfest að óheimilt hafi verið að breyta stuðli leiksins í 1.
Í forsendum úrskurðarins sé umrædd reglugerð skýrð með vísan til eðli getrauna sem ekki verði séð að hafi lagastoð. Stefnandi telur þá túlkun það víðtæka að henni megi jafna til nýs reglugerðarákvæðis sem sé án lagastoðar. Þessi túlkun hafi að mati stefnanda ekki neina stoð í reglugerðinni eða lögunum um getraunir en allar slíkar undanþágur frá greiðslu vinninga verði eðli sínu samkvæmt að túlka mjög þröngt og stefnanda í vil. Því sé ekki að fyrir að fara í þessu tilviki og því sé þessari túlkun eða nýju reglugerðarákvæði vísað á bug sem röngu og ólögmætu.
Yrði fallist á slíka túlkun væri það andstætt kröfu réttarríkisins um réttaröryggi borgaranna ef unnt er að semja reglugerðir eftir á af stjórnvöldum, sérstaklega í þeim tilvikum sem slík niðurstaða beinist gegn borgara eða þeim sem halla ber af slíkum laga- eða reglugerðarákvæði. Stefnandi telur að svigrúm til túlkunar á gildandi reglum verði að uppfylla tvennt; annars vegar að vera hagfelld borgara og jafnframt að hafa lagastoð. Hvorugu þessu sé til að dreifa í þessu tilviki.
Það sé mikilvægt að starfsemi eins og getraunum sé búin skýr laga- og reglugerðarrammi og að eftirlit með slíkri starfsemi sé virkt og hafið yfir allan vafa um hlutdrægni. Það veki athygli að eftirlitsaðili skuli ekki þrátt fyrir áskoranir óska eftir hlutlausri staðfestingu frá getraunum strax í upphafi um að leiknum hafi verið flýtt. Þá veki það einnig athygli að halda því fram að leik hafi verið flýtt án þess að hafa um það staðfest gögn.
Geri starfsmenn mistök þegar valdir séu leikir á hvern getraunaleik Lengjunnar með tilliti til þess hvenær þeir eru leiknir - verði að gilda um það skýrar reglur sem verði að vera kunnar þeim sem spili leikinn svo að enginn vafi leiki á því hvernig meðhöndla skuli sambærileg tilvik. Stefnda sé í lófa lagið að óska eftir laga- eða reglugerðarbreytingu um þetta efni, telji forsvarsmenn þess og eftirlitsaðili að reglugerð þurfi að geyma slíkar sérreglur.
Verði ekki ályktað annað en stefndi hafi reynt að leiðrétta mistök sín með vísan til reglugerðarheimildar með tilbúningi staðreynda svo að unnt væri að breyta stuðli á leik. Beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar. Þá sé öllum ásökunum um að stefndi hafi vitað um úrslit leiksins er hann spilaði í umræddri getraun vísað á bug sem röngum og ósönnuðum.
Strangar kröfur verði að gera til aðila sem hafi einkarétt á getraunastarfsemi. Slík starfsemi þurfi að vera hafin yfir vafa um það að ekki sé verið að hlunnfara þátttakendur um vinninga komi upp vafatilvik, með því að túlka reglur og lög sér í hag. Slík framkvæmd sé til þess fallinn að rýra það traust sem almenningur þurfi að hafa til slíkra fyrirtækja enda sé þeim falin mikil ábyrgð.
Stefnandi vísar til laga um getraunir nr. 59/1972, 2. og 10. gr. og reglugerðar um sama efni nr. 543/1995, 30., 31. og 32.gr.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ákvæði laga- og reglugerða, sem og þeirra skilmála sem gilda um getraunaleikinn Lengjuna, standi gegn kröfu stefnanda að þessu leyti, hvort sem litið sé til orðalags umræddra ákvæða eða eðlis máls og þeirra meginreglna sem ákvæðin styðjast við. Þá er á því byggt að samningur milli aðila um greiðsluskyldu, falli vinningur á þátttökuseðil við þær aðstæður sem fyrir hendi eru í málinu, sé ógildur vegna brostinna forsendna og sökum þess að óheiðarlegt sé að bera hann fyrir í sig.
Samkvæmt 2. gr. laga um getraunir nr. 59/1972 sé með íþróttagetraunum átt við að merkt sé á þar til gerða miða væntanleg úrslit íþróttakappleikja eða íþróttamóta, sem íslenskum getraunum sé einum heimilt að gefa út. Hvað leikinn Lengjuna varði sé þetta framkvæmt á þann hátt að þátttakandi geti sér til um úrslit þriggja til sex leikja hverju sinni. Með útgáfu þátttökukvittunar og móttöku þátttökugjalds skuldbindi Íslenskar getraunir sig til þess að greiða ákveðna fjárhæð, séu allir leikir réttir. Fyrir hvern réttan leik fái þátttakandi fé sitt margfaldað í samræmi við fyrirframákveðinn stuðul, sem ákveðinn sé af íslenskum getraunum. Umræddur stuðull sé reiknaður eftir ákveðnum aðferðum, sem miðist við það hvernig líklegt sé að leikar fari. Þannig sé stuðull lágur þegar áhætta er lítil og líklegt er að þátttakandi eða lið í keppnisgrein fari með sigur af hólmi, en þessu sé öfugt farið og stuðull hár þegar sigur þátttakanda eða liðs teljist ólíklegur. Óvissuþátturinn hverju sinni sé hvernig úrslit viðkomandi íþróttakappleiks muni verða og getraunaleikurinn Lengjan felist í ágiskun á úrslit leikja. Þetta sé öllum ljóst sem taka þátt í leiknum.
Í samræmi við þetta komi fram í 25. gr. reglugerðar um íslenskar getraunir nr. 543/1995 að þátttakandi geti valið þrjá, fjóra, fimm eða sex leiki úr leikskrá og giskað á hvort þeim leikjum ljúki með sigri fyrrnefnda liðsins, jafntefli eða að síðarnefnda liðið sigri. Jafnframt sé áréttað að um ágiskun sé að ræða í 25., 29., 31. og 34. gr. reglugerðarinnar. Vegna þessa sé eðlilegt að í 32. gr. umræddrar reglugerðar komi fram að ef leik hafi verið flýtt og upplýsingar þar að lútandi hafi ekki borist íslenskum getraunum í tæka tíð til að loka fyrir sölu leiksins, teljist leiknum ekki hafa lokið innan umferðar hjá þeim sem spilað hafi eftir að leikur hófst. Viðkomandi aðilar fái þá leikinn endurgreiddan með vinningsstuðli 1,00, óháð því hvernig raunveruleg úrslit leiksins hafi orðið. Ákvæðið endurspegli þann grundvöll sem getraunaleikurinn hvíli á, þ.e. að um ágiskun á úrslit þurfi að vera að ræða, sem eðli málsins samkvæmt geti ekki orðið af þegar úrslit liggi fyrir. Stefndi hafi, við útgáfu leikskrár vegna 35. leikviku ársins 2004, byggt á röngum upplýsingum um leikdag leiks nr. 49 á leikseðli. Upplýsingar um að leikurinn hefði í raun farið fram þann 24. ágúst 2004, hafi ekki borist í tæka tíð til íslenskra getrauna. Beri því að leggja 32. gr. reglugerðar nr. 543/1995 til grundvallar og endurgreiða umræddan leik með vinningsstuðli 1,00.
Verði ekki fallist á með stefnda að byggja eigi niðurstöðu í máli þessu á umræddu ákvæði samkvæmt orðanna hljóðan megi leiða sömu niðurstöðu af þeirri grundvallar- og meginreglu sem gildi um getraunir, og m.a. birtist í 2. gr. laga um getraunir nr. 59/1972 og 25., 29., 31., 32. og 34. gr. reglugerðar nr. 543/1995, að leikurinn byggist á ágiskunum og sé í samræmi við þetta ómögulegt að taka þátt í getraun um úrslit sem þegar liggi fyrir. Fráleitt sé að nauðsyn sé á sérstöku laga- eða reglugerðarákvæði þessa efnis, enda verði varla gerð sú krafa að hið augljósa sé tekið fram, þ.e. að ómögulegt sé að giska á það sem þegar sé orðið. Hefðbundin lögskýringarsjónarmið og eðli málsins leiði því til þess að krafa stefnanda á ekki við lög að styðjast. Í raun virðist allur málatilbúnaður stefnda grundvallaður á því, að þar sem ekki sé beinlínis lagt bann við því, að mati stefnanda, að "giska" á úrslit sem þegar liggja fyrir, þá hljóti slíkt að teljast heimilt!
Í þessu sambandi skuli þess jafnframt getið að um samning sé að ræða milli aðila um getraunir, sem heimilaður sé með lögum nr. 59/1972 um getraunir. Í lögunum og viðeigandi reglugerðum séu settar fram þær reglur sem um þessi viðskipti gildi, en að öðru leyti en því sem lögin og reglugerðir áskilja, liggi fyrir hefðbundinn samningur milli aðila. Með þátttöku í getrauninni samþykki þátttakandi að taka þátt í leiknum á grundvelli þeirra skilmála sem fram komi á bakhlið leikspjalds. Komi þar m.a. fram að mögulegt sé að velja leik á leikspjaldið allt að 5 mínútum fyrir upphaf hans en eigi síðar. Samkvæmt þessum skilmálum, sem samræmist því sem að framan hafi verið rakið um eðli getrauna, sé ekki hægt að giska á leik eftir að hann er hafinn. Þar sem giskað hafi verið á sigurlið leiks eftir að úrslit lágu fyrir, hafi verið valinn leikur á leikspjald eftir að hann var hafinn sem óheimilt sé samkvæmt nefndum skilmála sem um leikinn gildi. Séu leikspjald og þátttökukvittun því ekki gild og geti þessi gögn ekki leitt til greiðsluskyldu stefnda. Skipti grandsemi eða meint grandleysi stefnanda eða þeirra sem hann segist leiða rétt sinn frá engu í því sambandi.
Hvað varðar sýknukröfu byggða á brostnum forsendum skuli þess getið að til grundvallar sérhverjum samningi liggi ákveðnar ástæður eða hvatir, sem í þessu tilfelli séu augljósar. Frá sjónarhóli íslenskra getrauna sé viðskiptavinum fyrirtækisins gefinn kostur á að geta sér til um úrslit kappleikja og greiði fyrirtækið hærri vinningsfjárhæð eftir því sem áhætta þess á greiðslu sé minni. Það sé augljós grundvallarforsenda fyrir samningsgerðinni af hálfu fyrirtækisins að um óorðinn atburð sé að ræða sem giskað sé á og megi það öllum ljóst vera sem nálægt getraunum koma. Fyrirtækið myndi aldrei taka að sér með samningi að greiða fimmfalda upphaflega upphæð til viðskiptavina sinna fyrir það eitt að merkja á seðil úrslit leiks sem þegar liggi fyrir. Yrði slíkt viðurkennt gætu óendanlega háar kröfur verið gerðar á stefnda, við þær aðstæður sem til umfjöllunar séu í máli þessu. Aðstaðan jafngilti því að stefnandi hreinlega tæki fé útúr stefnda, líkt og væri það hans eigið. Um algeran forsendubrest hafi því verið að ræða sem ógildi samninginn án tillits til þess hvort stefnanda, eða þeim sem hann segist leiða rétt sinn frá, hafiv erið kunnugt um úrslit leiksins eður ei. Stefnanda, eða þeim sem hann segist leiða rétt sinn frá, hafi verið eða mátti vera kunnugt um þá grundvallarforsendu sem leikurinn, og samningur stefnda um þátttöku í honum, hvíli á.
Hvað sem öðru líði sé því mótmælt að stefnandi, eða þeir sem hann segist leiða rétt sinn frá, hafi ekki vitað að umræddur leikur hefði þegar farið fram, þegar þátttökuseðlarnir voru keyptir.
Í þessu sambandi skuli þess getið að stefnandi leggi fram í málinu ljósrit 12 þátttökuseðla í Lengjunni þar sem í öllum tilfellum „geti“ þátttakendur sér til um úrslit í umræddum leik, sem þegar hefði farið fram. Í öllum tilfellum sé veðjað fyrir hámarksfjárhæð á hvern miða, 12.000 krónur. Mjög ólíklegt hafi þótt, áður en umræddur leikur var leikinn, að Real Zaragoza myndi vinna hann og var leiknum því gefinn stuðullinn 5.15, en svo hár stuðull endurspegli sem fyrr segi að verulega ólíklegt þyki að úrslit leiks verði á þann veg. Það geti ekki stafað af tilviljun að í þeim þátttökuseðlum sem lagðir hafi verið fram sé í öllum tilfellum giskað á þessi ólíklegu úrslit fyrir hámarksfjárhæð á hvern miða, eða 144.000 krónur alls. Verið sé að taka óhemju mikla áhættu, ef úrslit leiksins hafi verið aðilum ókunn. Jafnframt hafi verið reynt að hafa hraðar hendur til þess að afla sem flestra þátttökuseðla áður en þetta myndi uppgötvast af stefnda og seðlarnir allir keyptir á bilinu u.þ.b. 12:00 til 14:00, fyrst á sölustað 8161 um tólfleytið, því næst á sölustað 35021 um eittleytið og að síðustu á sölustað 8011 um tvöleytið þann dag. Sé framangreint borið saman við þær upplýsingar sem fyrir liggi um ágiskanir á umræddan leik fyrir og eftir að honum lauk, bæði með tilliti til þeirra úrslita sem giskað var á og með tilliti til þeirra fjárhæða sem lagðar voru undir, blasi við að þeir sem keyptu umrædda miða hafi haft vitneskju um úrslit leiksins þegar þeir voru keyptir. Til viðbótar sé það svo, að af framlögðum ljósritum þátttökuseðla megi sjá, að með kerfisbundnum hætti sé merkt við útisigur í hinum umdeilda leik en önnur úrslit, sem ekki hafi verið þekkt, höfð breytileg samkvæmt ákveðinni reglu. Þannig hafi stefnandi, eða þeir sem hann segist leiða rétt sinn frá, tryggt að vinningsfjárhæðin vegna þátttökuseðlanna varð margföld á við kostnaðinn af því að kaupa seðlana. Með vísan til þess sem hér hafi verið rakið blasi við að stefnandi og öðrum þátttakendum í tengslum við hann hafi verið fullkunnugt um úrslit umrædds leiks þegar tekið var þátt í Lengjunni þetta sinnið. Þar sem þeim hafi verið þetta ljóst og þar sem þeim hafi jafnframt verið ljóst að stefndi hefði aldrei skuldbundið sig á þennan hátt, hefði fyrirtækinu verið ljóst að leiknum var lokið, sé samningurinn milli aðila ógildur á grundvelli brostinna forsendna.
Auk þess, með vísan til sömu sjónarmiða, telji stefndi að óheiðarlegt sé að bera umræddan samning fyrir sig, sbr. 33. gr. samningalaga nr. 7/1936. Ekki sé unnt samkvæmt ákvæðinu að bera fyrir sig samning verði það talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar viðsemjanda og ætla megi að hann hafi haft vitneskju um. Hér hafi verið rakið að útilokað sé að stefnanda og öðrum þátttakendum í tengslum við hann hafi verið ókunnugt um að umræddum leik væri lokið. Jafnframt hafi þeim verið ljóst að um þetta var stefnda ekki kunnugt. Sé samkvæmt þessu, og jafnframt með vísan til alls þess sem að framan hefur verið rakið um eðli getrauna og grundvöll þeirra, óheiðarlegt að bera fyrir sig umræddan samning.
Þess skuli að lokum getið, að stefndi hafi lýst sig reiðubúinn til að greiða út vinninga vegna þátttökuseðla í leikviku 35, þar sem allir leikir hafi veirð réttir, hafi leikur 49 verið þar á meðal en miði keyptur eftir að sá leikur hófst, að því tilskyldu að stuðull leiks 49 verði settur á 1. Er það í samræmi við gildandi reglur um starfsemi stefnda, afgreiðslu sambærilegra mála hjá honum þar sem svo hafi háttað til að upplýsingar um leikdaga reynist rangar, leikjum er frestað eða aðrar breytingar verði á forsendum leiksins. Stefndi geti ekki einhliða endurgreitt umrædda fjárhæð enda liggi ekki fyrir hver telji til réttar samkvæmt þeim þátttökuseðlum sem framangreint eigi við um. Þótt fallist verði á kröfur stefnda um sýknu lýsir hann því yfir að hann muni greiða rétthöfum þessara þátttökuseðla þá fjárhæð sem þeir eigi tilkall til á grundvelli þessara forsendna, gefi þeir sig fram við stefnda og framvísi umræddum þátttökuseðlum.
Sýknukrafa sé einkum byggð á 2. gr. laga um getraunir nr. 59/1972 og 25., 29., 31., 32. og 34. gr. reglugerðar nr. 543/1995, ásamt þeim grunnrökum sem að baki þessum ákvæðum hvíla. Þá er byggt á meginreglunni um skuldbindingargildi samninga með vísan til þeirra skilmála sem um leikinn giltu, en teljist skilmálinn ekki eiga við, þá er byggt á ógildingarreglum samningalaganna nr. 7/1936, einkum óskráðri reglu um brostnar forsendur og 32. gr. laganna.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Í 2. gr. laga um getraunir nr. 59/1972 sbr. 1. mgr. laga nr. 93/1988 segir að íslenskar getraunir starfræki íþróttagetraunir, en með íþróttagetraunum sé átt við að á þar til gerða miða, getraunaseðla, sem félagið eitt hafi rétt til að gefa út, séu merkt væntanleg úrslit íþróttakappleikja.
Í reglugerð fyrir Íslenskar getraunir, nr. 543/1995, kafla II. 2 er að finna ákvæði um getraunaleikinn Lengjuna. Er í 23. gr. reglugerðarinnar sagt að Lengjan sé getraunaleikur sem Íslenskar getraunir starfræki og taki til úrslita í íþróttakappleikjum. Í 24. gr. segir m. a. að í leikskrá séu tilgreindir íþróttakappleikir umferðarinnar og hvenær sölu ljúki fyrir hvern og einn þeirra. Félagið sé ekki ábyrgt fyrir prentvillum í leikskrá. Í 25. gr. segir að þátttakandi giski á hvernig leikjum ljúki. Þá er orðið ágiskun notað í 29., 31., og 34. gr. reglugerðarinnar.
Dómurinn telur ljóst af þessum ákvæðum að getraunaleikurinn byggist á ágiskunum um úrslit leikja en ekki vitneskju. Fyrir liggur að getraunaseðlar þeir sem stefnandi byggir kröfu sína á voru keyptir eftir að leik Valencia og Real Zaragoza var lokið. Verður því með vísan til framangreindra ákvæða byggt á því að af eðli leiks þess sem stefnandi gekk til með kaupum á seðlum þeim sem hann ber fyrir sig leiði að hafna beri kröfum um greiðslu vinninga.
Samkvæmt þessu verður öllum kröfum stefnanda hafnað þegar af þessum ástæðum og stefndi sýknaður.
Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 608.151 krónu í málskostnað.
Allan V. Magnússon kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Íslenskar getraunir, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Einars Gunnars Sigurðssonar.
Stefnandi greiði stefnda 608.151 krónu í málskostnað.