Hæstiréttur íslands
Mál nr. 143/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Líkamsleit
|
|
Miðvikudaginn 10. mars 2010. |
|
Nr. 143/2010. |
Sýslumaðurinn í Borgarnesi (Jón Einarsson fulltrúi) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Líkamsleit.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að gangast undir innvortis líkamsleit var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 10. mars 2010, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um heimild til líkamsleitar innvortis á varnaraðila. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 10. mars 2010.
Með beiðni 10. mars 2010 hefur lögreglan í Borgarnesi krafist þess að heimilt verði að framkvæma líkamsleit innvortis á sakborningi X, [...].
Hinn 9. mars 2010, kl. 20.25, stöðvaði lögreglan í Borgarnesi bifreiðina [...] sem var á leið eftir Vesturlandsvegi til norðurs. Sakborningur var farþegi í bifreiðinni en ökumaður var Y. Í beiðni lögreglu kemur fram að grunur hafi vaknað um að fíkniefni kynnu að vera í vörslum aðila og voru þeir því færðir á lögreglustöðina í Borgarnesi. Einnig kemur fram að fíkniefnahundur hafi verið kallaður til og hann hafi merkt mennina báða, þó sérstaklega sakborning. Y heimilaði líkamsleit, sem skilaði ekki árangri, en þvagsýni frá honum gaf jákvæða svörun við amfetamíni. Sakborningur heimilaði hins vegar ekki líkamsleit og andmælir kröfu um að hún nái fram að ganga.
Til stuðnings beiðni sinni vísar lögregla til 2. mgr. 76. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Einnig bendir lögregla á að rökstuddur grunur leiki á því að sakborningur hafi fíkniefni í fórum sínum. Þá bendir lögregla á að sakborningur hafi áður komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála.
Að virtum sakargögnum verður talin fyrir hendi nægjanlega rökstuddur grunur um fíkniefnamisferli sem beinist að sakborningi. Með vísan til 2. mgr. 76. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, verður krafan því tekin til greina, enda liggur fyrir viðhlítandi álit læknis um að fyrirhuguð aðgerð sé hættulaus fyrir sakborning.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Lögreglunni í Borgarnesi er heimilt að framkvæma líkamsleit innvortis á sakborningi X.