Hæstiréttur íslands
Mál nr. 419/2004
Lykilorð
- Verksamningur
- Riftun
- Skuldajöfnuður
|
|
Fimmtudaginn 3. mars 2005. |
|
Nr. 419/2004. |
Leit.is ehf. (Halldór Þ. Birgisson hrl.) gegn Hans Guðmundssyni (Steinar Þór Guðgeirsson hrl.) |
Verksamningur. Riftun. Skuldajöfnuður.
H starfaði sem launþegi hjá L við sölu auglýsinga frá árinu 2000, en í nóvember 2002 gerðu aðilar verksamning um sama viðfangsefni, sem gilda átti í tólf mánuði. Vegna ólögmætrar riftunar á samningnum í janúar 2003 var L gert að greiða H þá lágmarksfjárhæð sem honum hafði verið tryggð mánaðarlega í verklaun til loka gildistíma samningsins. Þá var kröfu L um skuldajöfnuð hafnað. Var talið að L hafi borið að hafa gagnkröfuna uppi til uppgjörs þegar ráðningarsambandi aðilanna lauk við gerð verksamningsins, þar sem þær úttektir sem L reisti kröfuna á höfðu allar verið gerðar á þeim tíma sem H var launþegi hjá L.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 11. ágúst 2004, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 22. september sama ár. Var áfrýjað öðru sinni 19. október 2004 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi starfaði stefndi sem launþegi hjá áfrýjanda við sölu auglýsinga frá árinu 2000, þar til þeir gerðu verksamning um sama viðfangsefni 8. nóvember 2002, sem gilda átti í tólf mánuði. Áfrýjandi krafðist þess 30. janúar 2003 að stefndi skilaði nánar tilteknum munum, sem hann hafði undir höndum vegna starfa sinna. Tilkynnti stefndi áfrýjanda að hann liti svo á að með þessu væri sagt upp verksamningi þeirra, sem áfrýjanda brysti heimild til. Lauk með þessu réttarsambandi aðilanna. Í málinu krefst stefndi greiðslu þeirrar lágmarksfjárhæðar, sem honum var tryggð mánaðarlega í verklaun til loka gildistíma verksamningsins.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna aðalkröfu áfrýjanda um sýknu, svo og þá kröfu, sem hann hafði uppi til þrautavara fyrir héraðsdómi, um að stefnda yrðu aðeins dæmd lágmarksverklaun í þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Varakrafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti er að öðru leyti reist á því að stefndi verði að sæta skuldajöfnuði með gagnkröfu að fjárhæð 672.210 krónur vegna úttekta á vörum og þjónustu hjá fjórum fyrirtækjum, sem stefndi stofnaði til í eigin þágu en í nafni áfrýjanda. Í málinu liggur fyrir að úttektir þessar voru allar gerðar á þeim tíma, sem stefndi var launþegi hjá áfrýjanda, en sá fyrrnefndi telur þær hafa verið sér heimilar til greiðslu á umsaminni launauppbót. Áfrýjanda var á þeim tíma kunnugt um að minnsta kosti einhverjar af þessum úttektum og mátti honum vera þær allar ljósar. Honum hefði því borið að hafa þær uppi til uppgjörs þegar ráðningarsambandi aðilanna lauk við gerð verksamningsins 8. nóvember 2002. Þar sem áfrýjandi gerði það ekki á því stigi verður gagnkröfunni ekki haldið fram nú til skuldajafnaðar.
Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest, þar á meðal ákvæði hans um dráttarvexti, enda eru mótmæli áfrýjanda gegn kröfu stefnda um þá of seint fram komin fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Leit.is ehf., greiði stefnda, Hans Guðmundssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hannesi Guðmundssyni, kt. 260561-4809, Hjallavegi 32, Reykjavík gegn Leit.is ehf., kt. 590100-2690, Ármúla 40, Reykjavík með stefnu birtri 13. júní 2003.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.350.000 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 6. apríl 2003 til greiðsludags, samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar með tilliti til kröfu stefnda um skuldajöfnuð. Til þrautavara er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð í 450.000 kr. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Málsatvik
Stefnandi var starfsmaður stefnda á árunum 2000 til 2002 og starfaði við sölu auglýsinga. Samkomulag varð um að hann hætti sem starfsmaður í nóvember það ár. Hinn 8. nóvember 2002 var gerður verksamningur við stefnanda. Af hálfu stefnda var samningurinn undirritaður af Birni Jónssyni sem þá var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri stefnda. Samkvæmt þeim samningi skyldi stefnandi taka að sér sölu á auglýsingum á Leit.is.
Hinn 30. janúar var stefnanda gert að skila fartölvu og farsíma sem fyrirtækið hafði fengið honum til umráða vegna starfans. Með bréfi stefnanda til stjórnarformanns stefnda dags. sama dag kvaðst stefnandi líta svo á að fyrirvaralaus krafa stefnda um afhendingu vinnutækja stefnanda jafngilti ólögmætri uppsögn verksamningsins af hálfu stefnda og áskildi sér rétt til bóta.
Í bréfi stefnda til stefnanda dags. 31. janúar 2003 kemur fram sú skoðun að verksamningurinn við stefnanda sé ógildur þar sem Björn Jónsson hafi enga heimild haft til að gera slíkan samning við stefnanda.
Í máli þessu er ágreiningur með aðilum um kröfur stefnanda samkvæmt verksamningi þessum.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Krafa stefnanda er byggð á fyrrgreindum verksamningi, dags. 8. nóvember 2002. Samkvæmt samningnum bar stefnandi m.a. ábyrgð á sölu auglýsinga á forsíðu vefsíðunnar Leit.is og á þjónustusíður. Samningurinn hafi verið gerður að frumkvæði stefnda og var til þess fallinn að draga úr rekstarkostnaði hans. Áður en verksamningurinn var gerður hafði stefnandi verið launþegi hjá fyrirtækinu við sömu störf. Samningurinn hafi því engu breytt um raunverulega stöðu stefnanda hjá stefnda og eftir sem áður lét stefndi stefnanda í té fartölvu og síma.
Hinn 30. janúar 2003 krafðist stefndi þess að stefnandi skilaði umræddum tækjum, sem hann og gerði. Stefnandi greindi stefnda frá því í bréfi, sem sent var stjórnarformanni stefnda með símbréfi kl. 12.52 hinn 30. janúar 2003, að hann liti á kröfur stefnda sem ólögmæta uppsögn á samningi aðila. Þrátt fyrir það hafi stefndi veitt viðtöku umbeðnum tækjum kl. 16 þann sama dag og staðfest þar með einhliða uppsögn verksamnings af sinni hálfu. Með kröfum sínum, framkomu, viðmóti og fyrirvaralausri móttöku á umræddum tækjum, hafi stefndi rift samningi aðilanna einhliða og fyrirvaralaust.
Stefnandi hafi leitaða eftir efndum af hálfu stefnda en því hafi verið hafnað og sé stefnanda því nauðugur einn sá kostur að höfða mál þetta.
Stefnandi byggir kröfur sínar á verksamningi aðila. Stefnandi fer fram á efndabætur vegna einhliða slita stefnda á honum. Með samningnum hafi stefnanda verið tryggð lágmarkssölulaun að fjárhæð 150.000 kr. á mánuði. Stefndi hafi ekki greitt fyrir stefnanda samkvæmt samningi síðan í janúar 2003 en af samningstímanum standi eftir 9 mánuðir. Gerir stefnandi kröfu um að þeir verði að fullu greiddir enda gilti samningur aðila í eitt ár og hafi verið óuppsegjanlegur á þeim tíma en með þriggja mánaða uppsagnarfresti eftir það tímabil.
Vísað er til meginreglna kröfu- og samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936, um samningsgerð og ógilda löggerninga. Dráttarvaxtakrafa stefnanda er studd við ákvæði 3. mgr. 5. gr., l. mgr. 6. gr. svo og 12. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnanda studd við 1. mgr. 130. gr., sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi krefst sýknu í málinu á þeim grundvelli að stefndi telur að samningur stefnda og stefnanda hafi verið ógildur frá upphafi þar sem hann hafi verið gerður af Birni Jónssyni fyrir hönd stefnda sem enga heimild hafi haft til þess að gera slíkan samning fyrir hönd stefnda. Þetta hafi stefnandi vitað.
Stefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að stefndi telur að hann hafi verið í fullum rétti til að enda verksamning aðila þar sem stefnandi hafði gróflega brotið gegn honum í starfi sínu.
Stefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að stefndi telur að hann hafi verið í fullum rétti til að enda verksamning aðila þar sem stefnandi hafi neitað að mæta til starfsstöðvar stefnda og neitað að lúta nokkru valdi stefnda við framkvæmd starfa sinna fyrir stefnda.
Varakröfu sína byggir stefndi á því að heimilt sé að skuldajafna kröfum stefnda á hendur stefnanda vegna fjárdráttar stefnanda.
Hvað varðar kröfur til skuldajöfnuðar á móti kröfum stefnanda eru lagðir fram reikningar frá veitingahúsinu Caruso sem sýni að stefnandi hafi tekið þar út samtals 122.610 kr. Stefnandi hafi því þar með orðið uppvís að fjárdrætti í starfi sínu og hafi því þegar af þeirri ástæðu verið eðlilegt af hálfu stefnda að slíta verksamningi stefnanda og stefnda þegar fjárdráttur þessi hafi uppgötvast.
Fyrir liggi yfirlit yfir samning sem stefnandi hafi gert fyrir hönd stefnda við Kósýhúsgögn um birtingu auglýsinga en samningurinn sé að heildarfjárhæð 249.600 kr. - þ.e. 20.800 kr. á mánuði í 12 mánuði. Greiðsla fyrir samning þennan frá kaupanda hafi verið með vöruskiptum og hafi stefnandi tekið út húsgögn hjá Kósý til eigin nota. Stefnandi hafi aldrei gert grein fyrir meðferð sinni á vörum þessum eða fengið heimild til að nýta vörur þessar í eigin þágu.
Fyrir liggi yfirlit yfir samning sem stefnandi hafi gert fyrir hönd stefnda um birtingu auglýsinga við Sérhúsgögn ehf., en samningurinn sé að heildarfjárhæð 150.000 kr., þ.e. 50.000 kr. á mánuði í þrjá mánuði. Greiðsla fyrir samning þennan frá kaupanda hafi verið með vöruskiptum og hafi stefnandi tekið út húsgögn hjá Sérhúsgögnum til eigin nota. Stefnandi hafi aldrei gert grein fyrir meðferð sinni á vörum þessum eða fengið heimild til að nýta vörur þessar í eigin þágu.
Fyrir liggi yfirlit yfir samning sem stefnandi hafi gert fyrir hönd stefnda um birtingu auglýsinga við Sjónvarpsmiðstöðina að heildarfjárhæð 150.000 kr., þ.e. 12.500 kr. á mánuði í 12 mánuði, en greiðsla fyrir samninginn hafi verið sjónvarp o.fl. að verðmæti 150.000 kr. sem stefnandi hafi aldrei skilað til stefnda.
Heildarverðmæti ofangreinds varnings sé 792.210 kr., sem krafist sé að skuldajafnað verði við kröfu stefnanda. Auk þess sé sýnt að með framferði sínu hafi stefnandi gerst ítrekað svo brotlegur við stefnda að honum hafi verið nauðsynlegt að rjúfa verksamning við hann til að takmarka tjón sitt. Enn sjái ekki fyrir endann á þeim samningum sem stefnandi hafi gert fyrir stefnda og dregið sér síðan greiðslurnar en athugun á því standi yfir hjá stefnda og hafi verið kært til lögreglu.
Þrautavarakröfu sína byggir stefndi á því að samkvæmt 2. gr. í samningi stefnda og stefnanda sé samningurinn uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. Það eigi við um báða aðila samningsins óháð tímamörkum hans.
Stefndi byggir á almennum reglum kröfuréttar. Krafan um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Samkvæmt verksamningi milli aðila dags. 8. nóvember 2002 tók stefnandi að sér sölu á auglýsingum fyrir stefnda. Í 2. gr. samningsins er kveðið á um samningstíma. Þar segir svo: “Hans tekur að sér verkið frá og með 8. nóvember 2002. Samningurinn er til tólf mánaða og að þeim tíma liðnum endurnýjast hann sjálfkrafa til 12 mánaða í senn sé honum ekki sagt upp. Samningurinn er uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara.” Í 4. gr. samningsins er fjallað um greiðslur. Þar segir m.a. svo: “Hans fær 15% sölulaun af gerðum samningum. Uppgjör skal gert mánaðarlega og greiðast sölulaunin eigi síðar en 5. dag næsta mánaðar. Sölulaunin skulu aldrei vera lægri en 150.000 kr. á mánuði.“ Af hálfu stefnda undirritaði Björn Jónsson samninginn, en hann var á þeim tíma stjórnarformaður félagsins og fór með prókúruumboð þess.
Samkvæmt framlögðum fundargerðum var Björn Jónsson kjörinn í stjórn stefnda á aðalfundi félagsins 18. október 2002. Á stjórnarfundi í félaginu 22. október 2002 var samþykkt að hann yrði formaður stjórnar félagsins. Á stjórnarfundi í félaginu 1. nóvember var samþykkt að fela Birni Jónssyni að yfirtaka fjármál fyrirtækisins og daglegan rekstur þess og fara með prókúruumboð fyrir félagið.
Fyrir dómi hefur Björns Jónsson skýrt frá því að stjórn félagsins hefði ákveðið að reyna að skera niður allan kostnað sem hægt væri og árangurstengja þann kostnað sem hægt væri og m.a. gera árangurstengdan samning um sölu. Í framhaldinu hafi hann gert þennan samning við stefnanda, sem hafði verið starfsmaður félagsins í tvö ár, og samningurinn snerist um það að létta kostnaði af félaginu.
Fyrir dómi hefur Sveinn Andri Sveinsson hrl., sem sat í stjórn stefnda á sama tíma og Björn Jónsson, staðfest að stjórn félagsins hafi falið Birni sérstaklega að breyta söluskipulagi þannig að sölukostnaður (sölulaun) yrði alfarið árangurstengdur.
Samkvæmt framansögðu verður að telja að Björn Jónsson hafi haft fulla heimild stefnda til að gera framangreindan verksamning við stefnanda og er samningurinn því skuldbindandi fyrir stefnda.
Samkvæmt 1. gr. verksamningsins er hann tímabundinn til 12 mánaða. Fallist er á að stefndi hafi rift samningi aðila einhliða og fyrirvaralaust og að stefnandi eigi rétt á bótum af þeim sökum.
Stefndi hefur ekki rennt stoðum undir þær sýknuástæður sínar að stefnandi hafi gróflega brotið af sér í starfi eða að stefnandi hafi neitað að mæta til starfsstöðvar stefnda og neitað að lúta nokkru valdi stefnda við framkvæmd starfa sinna fyrir stefnda.
Verður því ekki fallist á sýknukröfu stefnda í málinu.
Að því er varðar varakröfu stefnda um lækkun á kröfum stefnanda á grundvelli skuldajöfnuðar þá er þar vísað til svokallaðra skiptisamninga við nokkur fyrirtæki, sem stefnandi hefur nýtt sér í formi úttekta. Krefst stefndi þess að heildarverðmæti þeirra samninga að fjárhæð 792.210 kr. verði skuldajafnað við kröfu stefnanda. Ágreiningur er um það með aðilum að hve miklu leyti stefnanda var þetta heimilt, en sjálfur heldur hann því fram að um hafi verið að ræða umsaminn bónus. Þegar þetta er virt verður ekki talið að almenn skilyrði fyrir skuldajöfnuði vegna þessara krafna séu fyrir hendi, hvorki að því er varðar skilyrði um sambærilegar kröfur né að þær séu hvað greiðslutíma snertir orðnar hæfar til að mætast. Þá er skuldajöfnuður við kröfu stefnanda andstæður meginreglu 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, að eigi megi greiða kaup með skuldajöfnuði. Verður því ekki fallist á varakröfu stefnda í málinu.
Til stuðnings þrautavarakröfu sinni byggir stefndi á því að samkvæmt 2. gr. í verksamningi aðila sé samningurinn uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. Á það verður ekki fallist. Samkvæmt skýru orðalagi 2. gr. samningsins varðar tilgreint uppsagnarákvæði áframhaldandi gildistíma samningsins sem skyldi endurnýjast sjálfkrafa til 12 mánaða í senn væri honum ekki sagt upp. Verður því ekki heldur fallist á þrautavarakröfu stefnda í málinu.
Samkvæmt 4. gr. verksamnings aðila voru stefnanda tryggð lágmarkssölulaun að fjárhæð 150.000 kr. á mánuði. Er stefndi rifti samningi aðila stóðu 9 mánuðir eftir af samningstímanum. Hefur stefnandi krafist greiðslu að fjárhæð 1.350.000 kr. í samræmi við það. Er fallist á þá kröfu hans og kröfu um dráttarvexti eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 320.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Leit.is ehf. greiði stefnanda, Hans Guðmundssyni, 1.350.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. apríl 2003 til greiðsludags og 320.000 kr. í málskostnað.