Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2016
Lykilorð
- Raforka
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2016. Hann krefst þess að „viðurkennt verði, að áætlun stefnda um uppbyggingu flutningskerfis fyrir rafmagn á Íslandi, skv. 5. tölulið 3. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sem stjórn stefnda samþykkti á fundi sínum þann 25. september 2014 og birt var á vef stefnda þann 10. október 2014 undir heitinu „Kerfisáætlun 2014-2023“, sé ólögmæt og að hún verði felld úr gildi“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og ráðið verður af framansögðu leitar áfrýjandi með máli þessu dóms um lögmæti svonefndrar kerfisáætlunar stefnda, sem hann mun hafa birt 10. október 2014, en í samræmi við fyrrgreint ákvæði raforkulaga var í meginatriðum að finna í henni spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfis fyrir rafmagn samkvæmt III. kafla laganna á árabilinu frá 2014 til 2023. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð ný kerfisáætlun stefnda fyrir árin 2015 til 2024, sem stjórn hans samþykkti 5. nóvember 2015 og Orkustofnun 25. apríl 2016 í samræmi við 2. mgr. 9. gr. b. raforkulaga, sbr. 3. gr. laga nr. 26/2015. Þessi nýja kerfisáætlun kom í stað þeirrar áætlunar, sem dómkrafa áfrýjanda tekur til. Án tillits til þess hvort áfrýjandi hafi nokkru sinni haft lögvarða hagsmuni af því að fá áætlun af þessum toga fellda úr gildi, er hvað sem öðru líður ljóst að þeir hagsmunir hafi liðið undir lok með samþykkt nýrrar áætlunar. Með því að atvik þessi urðu eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms verður málinu vísað án kröfu frá Hæstarétti.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Áfrýjandi, Landvernd, greiði stefnda, Landsneti hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2015.
Mál þetta höfðaði Landvernd, Þórunnartúni 6, Reykjavík, með stefnu, dagsettri 27. janúar 2015, á hendur Landsneti hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
- Að viðurkennt verði, að áætlun stefnda um uppbyggingu flutningskerfis fyrir rafmagn á Íslandi, skv. 5. tölulið 3. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sem stjórn stefnda samþykkti á fundi sínum þann 25. september 2014 og birt var á vef stefnda þann 10. október 2014 undir heitinu „Kerfisáætlun 2014-2023“, sé ólögmæt og að hún verði felld úr gildi.
- Að viðurkennt verði, að stefnda sé skylt, við gerð áætlana um uppbyggingu flutningskerfis fyrir rafmagn á Íslandi, skv. 5. tölulið 3. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, að hafa hliðsjón af þeim athugasemdum sem hafa borist við tillögu að slíkri áætlun og umhverfisskýrslu og skilgreina, lýsa og meta lagningu jarðstrengja sem valkostar í áætlunum sínum.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. Stefndi krafðist þess upphaflega að málinu yrði vísað frá dómi, en með úrskurði dómsins 4. júní sl. var þeirri kröfu hafnað.
Málsatvik
Hið stefnda félag, Landsnet hf., var stofnað með lögum nr. 75/2004, til að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Í gögnum málsins kemur fram að eigendur félagsins eru Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkuveita Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða. Kveðið er á um skyldur flutningsfyrirtækisins í 9. gr. laga nr. 65/2003 og kemur þar fram í 5. tölul. 3. mgr. að í rekstri flutningskerfisins felist m.a. að sjá til þess að fyrir liggi spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til raforkulaga kemur fram að spá um raforkuþörf sé til þess ætluð að fyrirtækið geti sem best sinnt flutningshlutverki sínu. Orkuspár geti áfram verið í höndum orkuspárnefndar og Orkustofnunar. Spár um uppbyggingu flutningskerfisins séu nauðsynlegar til að tryggja að flutningsfyrirtækið og að stjórnvöld hafi fulla yfirsýn yfir þörf fyrir uppbyggingu kerfisins og flutningsfyrirtækið geti annað raforkuflutningum. Stefndi útbýr slíka kerfisáætlun árlega.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 skal sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar kynna almenningi tillögu að áætluninni ásamt umhverfisskýrslu. Skal almenningi gefinn sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfisskýrsluna og koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi umhverfisáhrif áætlunarinnar áður en hún er afgreidd af viðkomandi stjórnvaldi. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skal sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar við afgreiðslu hennar hafa hliðsjón af umhverfisskýrslu og athugasemdum sem borist hafa. Í b-lið 2. mgr. 9. gr. laganna segir jafnframt að eftir afgreiðslu skuli liggja fyrir greinargerð um hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í áætlunina og hvernig höfð hefur verið hliðsjón af umhverfisskýrslu og athugasemdum sem bárust á kynningartíma, í ljósi þeirra valkosta sem skoðaðir voru.
Þann 6. maí 2014 kynnti stefndi á heimasíðu sinni drög að kerfisáætlun og umhverfisskýrslu fyrir árin 2014 til 2023. Með bréfi, dagsettu 18. júní 2013, kom stefnandi á framfæri athugasemdum við drögin, sem m.a. lutu að lagningu jarðstrengja sem valkostar. Í málinu liggur fyrir greinargerð sem ber yfirskriftina: „Kerfisáætlun 2014-2023; Viðbrögð við athugasemdum að umhverfisskýrslu“, unnin á vegum stefnda í september 2014, en þar um að ræða samantekt á athugasemdum og umsögnum sem stefnda bárust vegna umhverfisskýrslunnar og viðbrögðum við þeim. Þá liggur fyrir greinargerð stjórnar stefnda samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 9. gr. laga nr. 105/2006. Þann 25. september 2014 samþykkti stjórn stefnda kerfisáætlun fyrir árin 2014 til 2023. Stefnandi telur að stefndi hafi ekki farið að lögum við afgreiðslu kerfisáætlunarinnar og krefst þess að hún verði felld úr gildi, en stefndi andmælir því.
Áður en mál þetta var höfðað fór lögmaður stefnanda þess á leit við dóminn að það sætti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 12. desember 2014. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands 15. janúar 2015 í málinu nr. 854/2014.
Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Fyrri dómkrafa stefnanda er á því byggð að samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 9. gr. og b-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 105/2006 eigi hann rétt á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umhverfismat kerfisáætlunar stefnda, að höfð sé hliðsjón af þeim athugasemdum við afgreiðslu áætlunarinnar og að rituð verði greinargerð þar sem fram komi með hvaða hætti það hafi verið gert. Telur stefnandi að stefndi hafi við afgreiðslu kerfisáætlunarinnar brotið gegn réttindum sínum samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, þar sem hvorki hafi verið tekið tillit til athugasemda stefnanda né rituð um þær greinargerð.
Stefnandi kveðst setja síðari kröfu sína fram sem viðurkenningarkröfu ef til þess komi að reyni á 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 í málinu. Verður málatilbúnaður stefnanda skilinn svo að um varakröfu sé að ræða.
Við flutning málsins fyrir dómi kom fram að stefnandi telji kerfisáætlun stefnda vera stjórnvaldsákvörðun. Stefndi sé hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða, og hafi eitt heimild til að byggja og rekja raflínur í flutningskerfi raforku á Íslandi, sbr. 1. mgr. 8. gr. og 6. og 7. tölul. 3. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Stefnda sé falið almannaþjónustuhlutverk við rekstur raforkuflutningskerfis og kerfisstjórnun þess. Málsmeðferð vegna kerfisáætlunar stefnda sé liður í því og teljist stefndi stjórnvald við rækslu almannaþjónustuhlutverks síns, svo sem fram komi í framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 854/2014.
Þá var á því byggt í málflutningi að ef litið yrði svo á að kerfisáætlun stefnda sé ekki stjórnvaldsákvörðun skuli lagt til grundvallar að í henni felist löggerningur sérstaks eðlis, „sui generis“, sem löggjafinn hafi talið svo mikilvægan fyrir borgarana og náttúru landsins að ákveðið hefði verið að sérstakar reglur skyldu gilda um málsmeðferð hans. Ef ákvörðun er tekin um hinn sérstaka löggerning með ólögmætum hætti beri að fella hana úr gildi í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar. Það eigi við þótt ákvörðunin yrði ekki talin falla nákvæmlega að hugtaksskilgreiningu stjórnvaldsákvörðunar.
Stefnandi vísar til þess að sakarefni málsins varði mikilsverða framkvæmdaáætlun á landsvísu, sem marki stefnu um uppbyggingu mannvirkja sem hafi mikil áhrif á umhverfið. Í 1. mgr. 1. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 sé lýst því markmiði laganna að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum með umhverfismati tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana stjórnvalda sem líklegt sé að hafi í för með sér veruleg áhrif á umhverfið. Tilgangi laganna verði ekki náð með áætlun stefnda. Stefndi sé stjórnvald í skilningi laganna. Hann beri ábyrgð á áætlanagerð og umhverfismati áætlunarinnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Af 1. mgr. 9. gr. laganna leiði að ekki sé heimilt að taka ákvörðun um áætlun fyrr en umhverfismati er lokið.
Stefnandi telur að umhverfismati kerfisáætlunar stefnda sé ólokið. Í umhverfismatsskýrslu sem stefndi lét vinna, samantekt á viðbrögum við athugasemdum við drögum að umhverfismatsskýrslu og greinargerð stjórnar stefnda samkvæmt 9. gr. laga nr. 105/2006 komi fram að meginviðbrögð við athugasemdum hafi ekki komið fram við mótun kerfisáætlunar 2014 til 2023 heldur muni þau koma fram við mótun næstu kerfisáætlunar. Umhverfismati áætlunar samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laga nr. 105/2006, sé því ólokið. Ákvæði 1. mgr. 9. gr. laganna verði ekki skilið á annan hátt en að óheimilt sé að fresta því að bregðast við meginhluta framkominna athugasemda, eins og gert hafi verið. Þegar af þessari ástæðu séu svo verulegir annmarkar á ákvörðun stjórnar stefnda um samþykkt kerfisáætlunarinnar að leiði til þess að hún sé ólögmæt og ógildanleg. Þá hafi málsmeðferð stefnda verið í andstöðu við málmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar um málsmeðferð.
Kerfisáætlunin hafi verið samþykkt af stjórn stefnda áður en umhverfismati var lokið, sem sé í andstöðu við fyrirmæli ákvæða 2. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 9. gr., sbr. b-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 105/2006. Um verulega annmarka á ákvörðun stjórnar stefnda um samþykkt kerfisáætlunarinnar hafi verið að ræða, sem leiði til þeirrar niðurstöðu að ákvörðunin sé ólögmæt og ógildanleg.
Þá telur stefnandi að kerfisáætlun stefnda sé í ósamræmi við ákvæði raforkulaga nr. 65/2003. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum hafi komið fram að orkuspárnefnd geti áfram sinnt því hlutverki að spá fyrir um orkuþörf og hafi nefndin haldið því áfram eftir gildistöku laganna. Ekki beri að skýra ákvæði 5. tölul. 3. mgr. 9. gr. laganna svo að stefnda sé heimilt að gefa út viðbót við raforkuspá orkuspárnefndar og fella hana inn í kerfisáætlun sína. Fyrir þeirri framkvæmd sé ekki lagaheimild. Stefnandi telur jafnframt að grunnforsendur kerfisáætlunar stefnda séu hvorki í samræmi við raforkuspá né raforkulög. Kerfisáætlunin sé því haldin verulegum annmörkum og ógildanleg af þeim sökum.
Loks telur stefnandi að í umhverfismati stefnda með kerfisáætluninni hafi ekki verið gerð grein fyrir raunhæfum valkostum við áætlunina að teknu tilliti til markmiða með gerð hennar og landfræðilegs umfangs hennar, sbr. f-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006. Þar sé aðeins að finna mat á umhverfisáhrifum loftlína í flutningskerfi raforku en ekki áhrifum jarðstrengs eða blandaðrar útfærslu. Raunverulegt mat á vægi umhverfisáhrifa samkvæmt 10. gr. laga nr. 105/2006 hafi því ekki farið fram. Kerfisáætlunin sé í ósamræmi við lög að þessu leyti og haldin annmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar.
Um lagarök vísar stefnandi einkum til raforkulaga nr. 65/2003, tilskipunar nr. 2003/54/EB, laga um stofnun Landsnets hf. nr. 75/2004 og reglugerðar um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005, einkum 5. töluliðar 2. mgr. 11. gr., um hlutverk og skyldur stefnda. Um ætlaða annmarka á kerfisáætlun stefnda er vísað til laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, tilskipana nr. 2001/42/EB og nr. 2003/35/EB. Loks er vísað til laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 og laga um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011. Um varakröfu er vísað til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Um málskostnaðarkröfu er vísað til 1. mgr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá er vísað til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Um varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Helstu málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi reisir sýknukröfu sína einkum á því að hin umþrætta kerfisáætlun feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Þótt stefndi geti talist stjórnvald sé ekki um að ræða ákvörðun sem kveði einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli. Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003 feli kerfisáætlun í sér spá um raforkuþörf og framtíðaráætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku, en í athugasemdum við frumvarp til raforkulaga sé að finna nánari umfjöllun um hvers eðlis slík áætlun er. Þótt kerfisáætlun teljist ekki stjórnvaldsákvörðun geti stjórnvaldsákvarðanir verið teknar á grundvelli stefnumörkunar sem felist í henni. Ýmsar ákvarðanir á grundvelli kerfisáætlunar kunni að vera leyfisskyldar en ekki reyni á slíkt fyrr en tekin hefur verið ákvörðun um að ráðast í tiltekna framkvæmd. Stefndi vísar til þess að það leiði af almennum reglum réttarfars að ekki sé unnt að krefjast ógildingar á ákvörðunum eða áætlunum stjórnvalda sem ekki teljist til stjórnvaldsákvarðana.
Stefndi hafnar því jafnframt að málsmeðferð vegna kerfisáætlunarinnar hafi verið í andstöðu við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar um málsmeðferð og telur staðhæfingar stefnanda að þessu leyti vanreifaðar. Við málsmeðferðina hafi í einu og öllu verið gætt lagafyrirmæla, þ.m.t. ákvæða laga nr. 105/2006. Því er hafnað að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda stefnanda við umhverfismat kerfisáætlunarinnar í samræmi við 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 105/2006. Ummæli úr greinargerð stjórnar stefnda sem vitnað er til í stefnu í þessu sambandi vísi til þess að athugasemdirnar verði áfram hafðar að leiðarljósi við frekari vinnu í framtíðinni er lúti að uppbyggingu raforkuflutningskerfisins. Vísar stefndi í þessu sambandi til framangreindrar skýrslu sem unnin hafi verið af hálfu stefnda um viðbrögð við athugasemdum um umhverfisskýrslu vegna kerfisáætlunarinnar, en þar hafi verði gerð ítarleg grein fyrir því með hvaða hætti tekið hafi verið tillit til framkominna athugasemda. Af ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. g laga nr. 105/2006 leiði að stefnda beri skylda til þess að hafa hliðsjón af þeim athugasemdum sem bárust vegna kerfisáætlunarinnar. Stefnda beri þó engin skylda til að fara eftir þeim athugasemdum. Þá beri stefnda ekki heldur skylda til þess að fjalla um athugasemdir sem lúta að öðru en efni kerfisáætlunarinnar. Stefndi hafnar því að umhverfismati hafi verið ólokið er kerfisáætlunin var samþykkt og vísar til greinargerðar stjórnar samkvæmt 9. gr. laga nr. 105/2006 hvað þetta varðar.
Þá hafnar stefndi því að grunnforsendur kerfisáætlunarinnar hafi ekki verið í samræmi við raforkulög nr. 65/2003 og raforkuspá. Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003 skuli flutningsfyrirtæki sjá til þess að fyrir liggi spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Af athugasemdum við frumvarp sem varð að raforkulögum verði ráðið að lagt hafi verið að jöfnu hvort stefndi eða orkuspárnefnd vinni raforkuspá. Ekki sé lagt bann við því í lögum að stefndi vinni raforkuspá og megi fremur draga þá ályktun að honum sé það skylt, hvað sem líði störfum orkuspárnefndar.
Stefndi hafnar því jafnframt að ekki hafi verið gerð grein fyrir raunhæfum valkostum í kerfisáætluninni í samræmi við ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006. Vísar stefndi í því sambandi til umhverfisskýrslu með kerfisáætluninni, þar sem sé að finna samanburð á loftlínum og jarðstrengjum og ummæla í greinargerð stjórnar stefnda samkvæmt 9. gr. laga nr. 105/2006. Telur stefndi að fullnægjandi samanburður á raunhæfum valkostum hafi farið fram, en samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003 sé það stefnda að meta hversu nákvæm umfjöllun skuli vera um tiltekin atriði í umhverfisskýrslu.
Loks vísar stefndi til þess að ef litið verði svo á að einhverjir annmarkar hafi verið á kerfisáætluninni séu þeir svo smávægilegir að ekki leiði til ógildingar hennar. Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar þurfi stjórnvaldsákvörðun að vera haldin verulegum annmörkum sem hafi áhrif á raunverulega og lögvarða hagsmuni stefnanda til að fallist verði á kröfu um ógildingu. Stefndi telur kerfisáætlun sína ekki haldna neinum slíkum annmörkum. Samkvæmt öllu framangreindu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Að því er varakröfu stefnanda varðar telur stefndi hana fela í sér lögspurningu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá kom fram í málflutningi að stefndi teldi kröfuna jafnframt vera hluta af aðalkröfu og beri því einnig að sýkna hann af henni.
Um lagarök vísar stefndi einkum til raforkulaga nr. 65/2003, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um stofnun Landsnets hf. nr. 75/2004, laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og laga um mat á umhverfisáhrifum áætlana nr. 105/2006. Um málskostnað er vísað til 129. gr., sbr. 130. gr. og 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 og telur stefndi að við ákvörðun málskostnaðar úr hendi stefnanda beri að líta til a- og c-liðar 1. mgr. 131. gr. laganna.
Niðurstaða
Aðalkrafa stefnanda lýtur að því að viðurkennt verði að áætlun stefnda um uppbyggingu flutningskerfis fyrir rafmagn á Íslandi, samkvæmt 5. tölulið 3. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sem stjórn stefnda samþykkti á fundi sínum þann 25. september 2014, eða kerfisáætlun stefnda vegna áranna 2014 til 2023, sé ólögmæt og að hún verði felld úr gildi. Stefndi reisir kröfu sína um sýknu af kröfunni á því að í kerfisáætlun samkvæmt ákvæðum raforkulaga felist ekki stjórnvaldsákvörðun.
Gerð hefur verið grein fyrir því hvernig til stefnda var stofnað og hver sé tilgangur félagsins. Óumdeilt er að stefndi telst vera stjórnvald í því samhengi sem um ræðir í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 854/2014. Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003 skal stefndi sjá til þess að fyrir liggi spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til raforkulaga kemur fram að spá um raforkuþörf sé til þess ætluð að flutningsfyrirtækið geti sem best sinnt flutningshlutverki sínu. Spár um uppbyggingu flutningskerfisins séu nauðsynlegar til að tryggja að flutningsfyrirtækið og stjórnvöld hafi fulla yfirsýn yfir þörf fyrir uppbyggingu kerfisins og að flutningsfyrirtækið geti annað raforkuflutningum. Að virtu því sem að framan greinir um hlutverk kerfisáætlunar stefnda verður ekki talið að í henni felist ákvörðun stjórnvalds, sem beinist að tilteknum aðila eða aðilum eða hafi bindandi réttaráhrif um úrlausn tiltekins máls, svo að talið verði að um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Á grundvelli áætlunarinnar kunna hins vegar að vera teknar ákvarðanir um framkvæmdir sem háðar eru leyfisveitingu af hálfu stjórnvalds, en sakarefni málsins lýtur ekki að slíkri athöfn. Samkvæmt framangreindu verður kerfisáætlun stefnda ekki felld úr gildi á grundvelli meginreglna stjórnsýsluréttar. Þá verður að telja að í þeim hluta kröfu stefnanda sem lýtur að því að viðurkennt verði að áætlunin sé ólögmæt felist málsástæða fyrir kröfu um ógildingu hennar. Ber því að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.
Málsástæðu, sem byggð er á því að í áætluninni felist „löggerningur sérstaks eðlis“ sem beri að fella úr gildi, kom stefnandi fyrst á framfæri við munnlegan málflutning og var henni mótmælt af hálfu stefnda sem of seint fram kominni, sbr. 5. mgr. 101. laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki á henni byggt.
Varakrafa stefnanda lýtur að því að viðurkennt verði að stefnda sé skylt, við gerð áætlana um uppbyggingu flutningskerfis fyrir rafmagn á Íslandi, samkvæmt 5. tölulið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003, að hafa hliðsjón af þeim athugasemdum sem borist hafa við tillögu að slíkri áætlun og umhverfisskýrslu og skilgreina, lýsa og meta lagningu jarðstrengja sem valkostar í áætlunum sínum. Með úrskurði dómsins 4. júní sl. var hafnað kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi að því er dómkröfuna varðar. Var fallist á það með stefnanda að hann gæti haft lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort stefndi hefði farið að lögum við afgreiðslu kerfisáætlunarinnar sem aðaldómkrafa hans lýtur að og litið svo á að með varakröfunni væri leitað álits til að leysa mætti úr kröfum hans að því leyti.
Að fenginni þeirri niðurstöðu að sýkna beri stefnda af aðalkröfu stefnanda þykir ekki verða tekin afstaða til varakröfu hans. Varakrafan er þannig fram sett í stefnu að hún þykir fela í sér málsástæðu fyrir aðalkröfu stefnanda. Jafnframt verður að líta svo á að með henni sé leitað álits dómsins um lögfræðilegt efni, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Ber því að vísa varakröfu stefnanda frá dómi.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Landsnet hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Landverndar, um að viðurkennt verði að áætlun stefnda um uppbyggingu flutningskerfis fyrir rafmagn á Íslandi, samkvæmt 5. tölulið 3. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sem stjórn stefnda samþykkti á fundi sínum þann 25. september 2014 og birt var á vef stefnda þann 10. október 2014 undir heitinu „Kerfisáætlun 2014-2023“, sé ólögmæt og að hún verði felld úr gildi.
Varakröfu stefnanda er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.