Hæstiréttur íslands

Mál nr. 526/2014


Lykilorð

  • Meðlag
  • Börn
  • Tómlæti


                                     

Fimmtudaginn 5. febrúar 2015.

Nr. 526/2014.

M

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

gegn

K

(Ástríður Gísladóttir hrl.)

og gagnsök

Meðlag. Börn. Tómlæti.

M og K gerðu við sambúðarslit með sér samning meðal annars um forsjá og umgengni, sem staðfestur var af sýslumanni, og samkvæmt honum skyldi M greiða tvöfalt meðlag með barni þeirra frá 1. september 2006 þar til barnið yrði lögráða. Sumarið 2012 krafði K M um greiðslu viðbótarmeðlagsins samkvæmt samningnum og í desember það ár gerði sýslumaður fjárnám í peningum M eftir kröfu K. Við svo búið höfðaði M mál þetta á hendur K og krafðist þess að viðurkennt yrði að hann skuldaði K ekki meðlagsgreiðslur vegna barns þeirra fyrir tilgreint tímabil. Undir meðferð málsins í héraði féllst K á að fyrndar væru meðlagskröfur sem fallið hefðu til allt til 1. nóvember 2008. Þá var upplýst í málinu að M hefði innt af hendi viðbótarmeðlag frá 1. ágúst 2012. Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur aðila því að rétt K til viðbótarmeðlags tímabilið 1. nóvember 2008 til 31. júlí 2012. M reisti málatilbúnað sinn annars vegar á því að á hefði komist munnlegt samkomulag með aðilum haustið 2006 um að hann greiddi viðbótarmeðlagið með greiðslu á ýmsum útgjöldum sem K hefði annars átt að inna af hendi og að hann hefði að fullu efnt þann samning. Ekki var talið að M hefði tekist sönnun um að aðilar hefðu gert með sér munnlegan samning um greiðslufyrirkomulag viðbótarmeðlags. Hins vegar byggði M á því að fallnar væru niður fyrir tómlæti meðlagskröfur sem K kynni að hafa átt. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að gögn málsins bæru með sér að M hefði hagað greiðslum viðbótarmeðlags í samræmi við þann samning sem hann hélt fram að komist hefði á milli aðila. Þrátt fyrir að ekki yrði fallist á að slíkur samningur hefði komist á var talið að líta yrði svo á að með því að hafast ekkert að um innheimtu viðbótarmeðlagsins um sex ára skeið hefði K gefið M tilefni til að ætla að hún hygðist ekki hafa slíka kröfu uppi. Var K því talin hafa glatað rétti til að hafa slíka kröfu uppi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. júlí 2014. Hann krefst þess að viðurkennt verði að hann skuldi gagnáfrýjanda ekki meðlagsgreiðslur vegna sonar þeirra, A, fyrir tímabilið 1. nóvember 2008 til 31. júlí 2012. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 14. október 2014. Hún krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                             I

Eins og nánar greinir í héraðsdómi voru málsaðilar í sambúð í tæp fimm ár og eignuðust soninn A 14. apríl 2000. Við sambúðarslit gerðu þau með sér samning um fjárskipti, forsjá, umgengni o.fl. 15. júní 2004 sem staðfestur var af sýslumanni 18. sama mánaðar. Samkvæmt samningnum fóru foreldrar sameiginlega með forsjá sonarins en lögheimili hans skyldi vera hjá móður, og hann dvelja hjá hvoru þeirra í viku í senn. Samkvæmt 7. gr. samningsins skyldi faðir greiða einfalt meðlag með drengnum  til 1. september 2006 en greiða helming leikskólakostnaðar hans meðan hann væri í leikskóla, en frá þeim tíma skyldi faðir greiða tvöfalt meðlag þar til drengurinn yrði lögráða.

Deilur risu með aðilum um forsjá drengsins sem lauk með dómsátt 12. júlí 2006 sem fjallaði um umgengni aðila við drenginn. Ekki var hróflað við samningi aðila 15. júní 2004 um meðlagsgreiðslur með drengnum.

Sumarið 2012 krafði gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda um greiðslu á viðbótarmeðlaginu sem kveðið var á um í samningi aðila um samvistaslit. Með aðfararbeiðni 1. nóvember 2012  krafðist gagnáfrýjandi fjárnáms hjá aðaláfrýjanda vegna vangreiddra meðlagsgreiðslna frá 1. september 2006. Hinn 12. desember 2012 gerði síðan sýslumaður fjárnám í peningum áfrýjanda, sem lagðir voru inn á reikning embættisins. Mál það, sem hér er til meðferðar, var höfðað 10. desember 2012. Við aðalmeðferð málsins í héraði 4. júlí 2014 féllst gagnáfrýjandi á það að meðlagskröfur þær sem til féllu á tímabilinu frá 1. september 2006 til 1. nóvember 2008 væru fyrndar.

Fyrir liggur að aðaláfrýjandi hefur greitt viðbótarmeðlagið inn á reikning gagnáfrýjanda frá 1. ágúst 2012.

                                                             II

Aðaláfrýjandi byggir kröfu sína aðallega á því að komist hafi á munnlegt samkomulag með aðilum haustið 2006 um að hann greiddi viðbótarmeðlagið með greiðslu á ýmsum útgjöldum sem gagnáfrýjandi hefði annars átt að inna af hendi, svo sem greiðslu á skólamáltíðum, tómstundaheimili, æfingagjöld vegna knattspyrnu, gjöld vegna tónlistarskóla svo og fatnaði. Í samningi aðila hafi engin ákvæði verið um það með hvaða hætti greiða skyldi viðbótarmeðlagið. Í 1. mgr. 63. gr. barnalaga nr. 76/2003 segi að meðlag skuli greiða mánaðarlega fyrirfram, en með vísan til dóms Hæstaréttar nr. 369/2008 verði að líta svo á að lögin kveði á um skyldu til mánaðarlegrar fjárgreiðslu einfalds meðlags. Telur aðaláfrýjandi því að heimilt sé að semja um greiðslu viðbótarmeðlags með öðrum hætti. Greiðslur þær sem hann hafi innt af hendi séu að stærstum hluta bein og regluleg framfærsluútgjöld. Hafi greiðslurnar numið hærri fjárhæð en nemur einföldu meðlagi.  Fullyrðir aðaláfrýjandi að hann hafi að fullu efnt samning aðila um greiðslu tvöfalds meðlags.

Gagnáfrýjandi hafnar staðhæfingu aðaláfrýjanda um að samkomulag hafi komist á milli aðila þess efnis að í stað þess að greiða umsamið viðbótarmeðlag myndi aðaláfrýjandi greiða ýmsan kostnað vegna sonar þeirra. Með samningi aðila sem staðfestur var af sýslumanni 18. júní 2004 hafi komist á bindandi samningur milli aðila um meðlagsgreiðslur. Í 1. mgr. 55. gr. barnalaga sé kveðið á um það að samningur um meðlag með barni sé því aðeins gildur að sýslumaður staðfesti hann eða að gerð sé sátt fyrir dómi um meðlagið. Aðaláfrýjandi hafi aldrei krafist breytinga á samningnum hvorki hjá sýslumanni né við gerð dómsáttar aðila 2006.

Í máli þessu hefur aðaláfrýjandi lagt fram veruleg gögn um fjárútlát sín í þágu sonar aðila. Það eitt og sér getur ekki talist sönnun þess að aðilar hafi gert með sér samning þess efnis sem aðaláfrýjandi heldur fram. Fallist er á með héraðsdómi að aðaláfrýjanda hafi ekki tekist að sanna að aðilar hafi gert með sér munnlegan samning um greiðslufyrirkomulag viðbótarmeðlagsins.

                                                             III

Í öðru lagi byggir aðaláfrýjandi kröfu sína á því að meðlagskröfur þær, sem gagnáfrýjandi kunni að hafa átt vegna tímabilsins 1. nóvember 2008 til 31. júlí 2012, séu fallnar niður fyrir tómlæti.

Aðilar sömdu um það við samvistaslit að aðaláfrýjandi skyldi greiða tvöfalt meðlag með syni þeirra frá 1. september 2006 til fullnaðs 18 ára aldurs hans. Það var fyrst í júlí 2012, rúmum 6 árum eftir að samningurinn var gerður, að gagnáfrýjandi fór fram á greiðslu viðbótarmeðlags, og verður ekki séð að hún hafi gert athugasemdir vegna þessa allan þann tíma. Í skýrslu gagnáfrýjanda fyrir dómi kemur fram að hún var þess meðvituð, bæði við samningsgerðina 2004 og við gerð dómsáttar 2006, að samið hafði verið um tvöfalt meðlag. Sagðist hún eiginlega hafa gleymt þessu í smá tíma og látið samninginn upp í skáp. Það hafi ekki verið fyrr en 2009 eða 2010 að hún hafi rekist á samninginn og séð að þar var samið um tvöfalt meðlag. Hún segir að sér hafi stafað ógn af aðaláfrýjanda og verið hrædd við að lenda í átökum við hann minnug harðvítugra deilna þeirra vegna forsjármálsins 2006.  

Gögn málsins bera með sér að aðaláfrýjandi hefur hagað greiðslum viðbótarmeðlagsins í samræmi við þann samning sem hann heldur fram að komist hafi á milli aðila. Þrátt fyrir að ekki verði fallist á að slíkur samningur hafi komist á um greiðslu viðbótarmeðlagsins verður að líta svo á að með því að hafast ekkert að um innheimtu  viðbótarmeðlagsins um 6 ára skeið gaf gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda tilefni til að ætla að hún hygðist ekki ætla að hafa slíka kröfu uppi. Er því fallist á með aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi glatað rétti til að hafa slíka kröfu uppi og verður krafa aðaláfrýjanda því tekin til greina eins og í dómsorði greinir.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn málskostnað bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Viðurkennt er að aðaláfrýjandi, M, skuldar ekki gagnáfrýjanda, K, meðlagsgreiðslur vegna sonar þeirra, A, fyrir tímabilið 1. nóvember 2008 til 31. júlí 2012.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. júlí sl., höfðaði stefnandi, M, [...], [...], hinn 10. desember 2012 gegn stefndu, K, [...], [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að viðurkennt verði með dómi að stefnandi skuldi stefndu ekki meðlagsgreiðslur vegna einkasonar þeirra, A, fyrir tímabilið 1. september 2006 til 31. júlí 2012. Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að hann skuldi stefndu ekki meðlagsgreiðslur vegna sonarins fyrir tímabilið 1. september 2006 til 1. nóvember 2008. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af þeim hluta aðalkröfu stefnanda sem taki til meðlagsgreiðslna vegna tímabilsins 1. nóvember 2008 til 31. júlí 2012. Stefnda mótmælir ekki varakröfu stefnanda, svo sem hún stendur eftir úrskurð dómsins frá 17. október 2013. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Stefnandi og stefnda voru í sambúð í tæp fimm ár, frá september 1999 til júní 2004. Á sambúðartímanum eignuðust málsaðilar einn son, A.

Við sambúðarslit gerðu aðilar með sér samning um fjárskipti, forsjá, umgengni o.fl., dagsettan 15. júní 2004. Fyrir liggur að samningurinn var staðfestur af sýslumanninum í Hafnarfirði 18. júní 2004, sbr. málatilbúnað beggja málsaðila og tilvísanir í framlagðri dómsátt. Í 2. gr. samningsins var kveðið á um að forsjá sonar aðila skyldi vera sameiginleg með aðilum, en að lögheimili drengsins skyldi vera hjá stefndu. Í 7. gr. samningsins sagði síðan svo um meðlagsgreiðslur stefnanda með syni aðila:

Frá dagsetningu samnings þessa til 1. september 2006 greiðir M K meðlag með A sem nemur einföldum barnalífeyri. Frá 1. september 2006 uns A verður lögráða greiðir M K meðlag með honum sem nemur tvöföldum barnalífeyri. M greiðir helming leikskólakostnaðar A á meðan hann er á leikskóla, en það fyrirkomulag sem 3. gr. fjallar um er forsenda þessarar skuldbindingar.  

Á árunum 2005 og 2006 var rekið mál milli aðila þar sem tekist var á um forsjá sonar aðila og umgengni við drenginn. Málinu lauk með framlagningu dómsáttar 12. júlí 2006. Sáttin hafði að geyma fjögur tölusett ákvæði, sem öll vörðuðu umgengni aðila við drenginn. Þá var í niðurlagi sáttarinnar kveðið á um að með samkomulagi aðila væri forsjármálið fellt niður. Í dómsáttinni var því í engu hróflað við samkomulagi aðila frá 15. júní 2004 um meðlagsgreiðslur stefnanda með drengnum.

Með tölvupósti 17. júlí 2012 gekk stefnda eftir því við stefnanda að hann greiddi henni viðbótarmeðlag með A frá 1. september 2006 að telja. Aðila málsins greinir nokkuð á um aðdraganda þess að stefnda sendi stefnanda það erindi. Þó virðist mega ráða af framlögðum gögnum og framburði aðila fyrir dómi að það hafi verið sett fram í kjölfar samskipta málsaðila er vörðuðu fyrirhuguð kaup stefndu á bifreið.

Stefnda skoraði á stefnanda að greiða meint ógreitt meðlag með bréfi 10. september 2012. Með aðfararbeiðni, dagsettri 1. nóvember 2012, en móttekinni af sýslumanninum í Hafnarfirði 8. sama mánaðar, krafðist stefnda þess síðan að gert yrði fjárnám hjá stefnanda vegna meintrar meðlagsskuldar hans, sem fallið hefði til frá 1. september 2006. Í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta gegn stefndu 10. desember 2012. Degi síðar var áðurnefnd aðfararbeiðni stefndu fyrst tekin fyrir hjá sýslumanninum í Hafnarfirði og við fyrirtöku 12. desember 2012 var fjárnám gert hjá stefnanda á grundvelli aðfararbeiðni stefndu og samnings aðila frá 15. júní 2004. Við gerðina lýsti stefnandi því yfir að hann myndi bera gildi fjárnámsins undir héraðsdóm. Ágreiningsmál vegna aðfarar­gerðarinnar barst síðan Héraðsdómi Reykjaness 4. febrúar 2013 skv. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 15. kafla laganna.

II

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að munnlegur samningur hafi komist á milli málsaðila þess efnis að hið umdeilda viðbótarmeðlag skyldi innt af hendi með greiðslu stefnanda á ýmsum útgjöldum vegna sonar aðila sem stefndu hefði annars borið að inna af hendi. Stefnandi hafi að fullu efnt þann samning á tímabilinu 1. september 2006 til 1. ágúst 2012.

Stefnandi lýsir aðdraganda þessarar samningsgerðar aðila svo að haustið 2006, þegar kostnaður af fyrirhugaðri grunnskólagöngu sonar aðila hafi farið að skýrast, hafi stefnandi nefnt við stefndu hvort ekki væri heppilegast að í stað þess að stefnandi greiddi mánaðarlega umsamið viðbótarmeðlag tæki stefnandi að sér greiðslu nýrra kostnaðarliða, sem stefndu bæri ella að greiða, og héldi áfram að greiða ýmis útgjöld vegna sonarins umfram skyldu með sama hætti og verið hefði. Stefnandi myndi þannig halda áfram að leggja syni aðila til eitt og annað sem stefndu hefði ella borið greiða fyrir, án þess að þeir kostnaðarliðir væru tíundaðir sérstaklega. Um hafi verið að ræða, svo fátt eitt sé talið, vetrarfatnað, fatnað almennt, reiðhjól og hársnyrtingu. Stefnandi hafi útskýrt fyrir stefndu að þessi mánaðarlega kostnaðar­þátttaka stefnanda myndi koma í stað fastra mánaðarlegra viðbótarmeðlagsgreiðslna hans til stefndu.

Aðilar hafi ekki rætt þetta frekar fyrr en um mánaðamótin ágúst/september 2006 en þá hafi stefnandi gengið eftir því við stefndu hvort hún féllist á tillögu hans. Eftir nokkrar umræður hafi stefnda lýst sig samþykka fyrirkomulaginu, enda hafi sú niðurstaða verið mun hagstæðari fyrir stefndu en að stefnandi greiddi eingöngu viðbótarmeðlagið. Tilgangur stefnanda með þessu fyrirkomulagi hafi annars vegar verið sá að tryggja að viðbótarmeðlagið rynni örugglega til framfærslu sonar aðila. Hins vegar hafi stefnandi verið kominn í starf þar sem laun hans höfðu batnað umtalsvert frá fyrra starfi og stefnandi hafi viljað leyfa syni sínum að njóta þess.

Eftir að samkomulag aðila lá fyrir hafi stefnandi að öllu leyti, eða að langstærstum hluta, greitt margs konar kostnað vegna drengsins sem ella hefði fallið óskiptur á stefndu. Stefnandi hafi að öllu leyti greitt fyrir gæslu eftir skóla, hádegisverð í skóla, skólagjöld í tónlistarskóla vegna flautu- og píanónáms, æfingagjöld vegna fótbolta og júdó, allan búnað vegna íþróttaæfinga, þ.e. fótbolta-, handbolta- og júdóæfinga, meðferð hjá talmeinafræðingi og sjúkraþjálfun. Stefnandi hafi a.m.k. til jafns við stefndu greitt kostnað af læknis- og tannlæknaheimsóknum, lyfjum, kostnað vegna fatnaðar, þ. á m. svo gott sem allan kostnað vegna vetrar­fatnaðar, t.d. alla kuldaskó, allar vetrarúlpur og allar snjóbuxur. Stefnandi hafi greitt tilfallandi æfingagjöld vegna golfiðkunar drengsins að ósk stefndu.  Þá hafi stefnandi greitt fyrir öll hjól sem sonur aðila hafi átt, píanó vegna tónlistarnáms og skíði og skíðabúnað, svo fátt eitt sé nefnt.

Með framangreindu hafi stefnandi sýnt í verki þann skilning sinn að kominn væri á samningur um fyrirkomulag það sem bundið hafði verið fastmælum milli aðila í ágúst 2006. Allar þessar greiðslur hafi verið inntar af hendi með vitund og eftir atvikum að höfðu samráði við stefndu á tímabili sem varði í nær sex ár. Lýst háttsemi aðila yfir sex ára tímabil sýni, svo ekki verði um villst, að munnlegur samningur hafi komist á milli þeirra um að stefnandi greiddi viðbótarmeðlagið með greiðslu ýmissa útgjalda sem stefndu hefði ella borið að greiða. Engin önnur rökrétt skýring geti verið á því að stefnandi tæki að sér greiðslu þessara útgjalda og að stefnda skyldi ekki gera athugasemdir við að viðbótarmeðlag væri ekki greitt með mánaðarlegum greiðslum í sex ár.

Stefnandi byggir á því að aðilar séu bundnir af umræddu samkomulagi sem staðfest hafi verið með langri og athugasemdalausri háttsemi þeirra. Stefnda hafi aldrei gert neinar athugasemdir við þetta fyrirkomulag á tímabilinu frá ágúst 2006 til júlí 2012. Þá hafi stefnda á tímabilinu aldrei krafið stefnanda um viðbótarframlag það sem falla hefði átt til frá 1. september 2006 samkvæmt samningi aðila frá 2004. Stefnandi bendir á í þessu samhengi að um sé að ræða alls 70 gjalddaga. Það hafi fyrst verið í júlí 2012 sem stefnda hafi nefnt við stefnanda að hún teldi að honum bæri að greiða henni viðbótarmeðlag frá 1. september 2006. Þessi krafa stefndu, sem hafi komið stefnanda í opna skjöldu, hafi verið sett fram í kjölfar þess að stefnandi neitaði að taka þátt í kostnaði stefndu vegna kaupa á nýrri bifreið.

Stefnandi byggir og á því að óstaðfest samkomulag um fyrirkomulag greiðslu viðbótarmeðlags sé bindandi fyrir aðila, þótt það hafi ekki verið staðfest af sýslumanni, sem sé gildisskilyrði samkomulags um greiðsluskyldu meðlags. Í þessu samhengi verði meðal annars að líta til þess að umsamið viðbótarmeðlag sé eðlisólíkt lágmarksmeðlagi að eftirfarandi leyti: Í fyrsta lagi sé slíkt meðlag ekki greitt á grundvelli lagaskyldu um lágmarksframlag með barni. Í öðru lagi sé slíkt viðbótarmeðlag greitt beint frá meðlagsgreiðanda til meðlagsþega. Í þriðja lagi hafi meðlagsþegi algert forræði á greiðslufyrirkomulagi og mögulegri innheimtu, öfugt við lágmarksmeðlag þar sem Innheimtustofnun sveitarfélaga greiði meðlag og annist og ákvarði öll atriði er lúti að innheimtu þess. Það fái ekki staðist að viðbótarmeðlagsþegi hafi rétt til að ákveða hvort hann innheimti ógreitt meðlag eða ekki, en megi á sama tíma ekki semja um að viðbótarmeðlag sé greitt með öðrum hætti en fastri mánaðarlegri greiðslu. Þetta eigi enn frekar við þegar fyrir liggi að samningurinn lúti að greiðslu viðbótarmeðlags með þeim hætti að það komi til greiðslu jafnóðum og framfærsluþörf barns falli til en ekki með eingreiðslu.

Verði ekki á það fallist að samningur um áðurlýst greiðslufyrirkomulag viðbótarmeðlags hafi komist á, sé bindandi fyrir aðila og/eða hafi verið efndur, byggi stefnandi á því að meðlagskröfur sem stefnda kunni að hafa átt vegna umrædds tímabils séu fallnar niður fyrir tómlæti. Því til stuðnings vísi stefnandi til þess sem áður segi um að hann hafi í heil sex ár, án athugasemda, ekki greitt viðbótarmeðlag með mánaðarlegum greiðslum inn á reikning stefndu en þess í stað greitt beint ýmsan kostnað vegna sonar aðila. Það hafi fyrst verið með tölvupósti 17. júlí 2012 sem stefnda hafi upplýst stefnanda um að hún hygðist ekki virða samkomulagið frá 2006 og gert kröfu um greiðslu viðbótarmeðlagsins beint til sín. Frá því stefnanda barst umræddur tölvupóstur hafi hann virt ákvörðun stefndu um að breyta fyrirkomulagi viðbótarmeðlagsgreiðslna þannig að stefnandi inni nú af hendi mánaðarlegar greiðslur inn á reikning stefndu.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi einkum til almennra reglna samningaréttar um stofnun samninga, almennra reglna kröfuréttar um tómlæti og lok samninga við efndir, laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

III

Stefnda byggir kröfu sína um sýknu meðal annars á því að með samkomulagi málsaðila, dagsettu 15. júní 2004, og staðfestu af sýslumanninum í Hafnarfirði 18. sama mánaðar, hafi komist á bindandi samningur milli aðila um meðlagsgreiðslur stefnanda með syni þeirra. Umrætt samkomulag sé enn í gildi, enda hafi því hvorki verið hnekkt né gerðar við það athugasemdir af hálfu stefnanda. Með samkomulaginu hafi stefnandi skuldbundið sig til að greiða aukið meðlag með syni aðila á tímabilinu frá 1. september 2006 til 31. júlí 2012. Óumdeilt sé í málinu að stefnandi hafi ekki greitt þá kröfu, enda liggi fyrir að fjárnám hafi verið gert fyrir henni hjá stefnanda. Meðlagskröfur grundvallist á staðfestum samningi sem hafi beina aðfararheimild án undangengis dóms. Kristallist það réttarfarshagræði í því að réttindi samkvæmt slíkum kröfum séu óumdeild og vafalaus. Krafa stefndu um aukið meðlag sé, og hafi verið, aðfararhæf krafa sem tekin hafi verið til meðferðar í lögformlega réttu ferli innan stjórnsýslunnar. Þannig hafi fjárnám verið gert hjá stefnanda 12. desember 2012 vegna þeirrar fjárkröfu sem stefnandi krefjist í máli þessu viðurkenningar á að hann skuldi ekki. Við fjárnámsgerðina hafi stefnandi lýst því yfir að hann myndi krefjast úrlausnar héraðsdómara um gerðina skv. 92. gr., sbr. 15. kafla, laga nr. 90/1989 um aðför. Því sé nú verið að reka ágreiningsmál milli aðila um greiðsluskyldu stefnanda með lögformlega réttum hætti á grundvelli aðfararlaga.

Stefnda hafnar staðhæfingu stefnanda um að samkomulag hafi komist á milli aðila þess efnis að í stað þess að greiða umsamið viðbótarmeðlag myndi stefnandi greiða ýmsan ótilgreindan kostnað vegna sonar aðila. Fullyrðir stefnda að ekkert liggi fyrir til staðfestingar hinu meinta samkomulagi annað en orð stefnanda. Þá bendir stefnda á að samningar um meðlag séu einungis gildir hafi þeir verið staðfestir af sýslumanni skv. 1. mgr. 55. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í munnlegum málflutningi vísaði lögmaður stefndu í þessu sambandi einnig til fyrirmæla 1. mgr. 63. gr. sömu laga um með hvaða hætti greiða skuli meðlag.

Stefnda segir stefnanda bera sönnunarbyrðina fyrir því að hið meinta samkomulag hafi komist á milli aðila. Stefnda sé grunnskólakennari en stefnandi reyndur lögmaður og hafi honum því verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun og réttarvernd slíks samkomulags, hefði stefnandi á annað borð verið í góðri trú um tilvist þess og gildi. Stefnda bendir í þessu samhengi á að trú stefnanda hafi þó ekki verið betri en svo að eftir að stefnda gerði formlega kröfu á stefnanda hefði hann þegar hafið skil á greiðslum aukins meðlags samkvæmt samkomulagi aðila frá árinu 2004.

Þá tekur stefnda fram að hún hafi sjálf greitt megnið af þeim kostnaði sem stefnandi segist hafa greitt. Þannig hafi stefnda t.d. greitt fyrir föt á son aðila, tannlækna- og læknakostnað, ýmis útgjöld vegna golfiðkunar, svo sem golfæfingar, golfsett, æfingaföt og annan tilheyrandi búnað. Þá telji stefnda að jafnvel þótt stefnandi hafi greitt einhvern kostnað vegna sonar aðila að eigin frumkvæði geti það hvorki talist vera utan verkahrings foreldris né komið í stað meðlagsskyldu þess. Bendir stefnda á í þessu sambandi að stefnandi hafi margfalt hærri tekjur en hún og mögulega hafi hann greitt einhvern aukakostnað vegna drengsins, svo sem knattspyrnuæfingar, klippingu, píanókennslu og einstaka föt. Þessar greiðslur hafi stefnandi hins vegar innt af hendi eftir sínum eigin geðþótta og án nokkurs samráðs við stefndu.

Jafnframt geti engu máli skipt þótt stefnandi haldi því fram að hann hafi þegar innt skyldu sína af hendi með því að greiða ýmsan kostnað með syni aðila, enda sé alþekkt að foreldrar leggi á sig auknar fjárhagslegar byrðar gagnvart börnunum sínum umfram það sem lagaskyldan ein kveði á um. Þá sé ekki hægt að krefjast einhverskonar ígildis skuldajafnaðar á móti lögbundinni greiðsluskyldu. Óumdeilt sé að umræddar greiðslur hafi ekki verið inntar af hendi til stefndu sem lögum samkvæmt hafi ein haft heimild til þess að innheimta og taka við meðlagsgreiðslum skv. 56. gr., sbr. 2. mgr. 63. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Af hálfu stefndu er enn fremur á það bent að skv. 2. mgr. 63. gr. barnalaga tilheyri meðlag barni þótt sá sem krafist geti meðlags innheimti það og taki við greiðslu þess í eigin nafni. Sú ályktun hafi meðal annars verið dregin af orðalagi tilvitnaðrar greinar að foreldri sé óheimilt að semja við þann sem sé meðlagsskyldur um annað meðlag en leiði af löglega staðfestum samningum og lögum. Tilgangurinn hafi verið sá að vernda rétt barnsins sem meðlagið tilheyri samkvæmt áðursögðu.

Stefnda hafnar alfarið þeirri málsástæðu stefnanda að hún hafi sýnt af sér tómlæti, enda eigi slík sjónarmið ekki við í málinu. Í fyrsta lagi hafi stefnda ítrekað bent stefnanda á rétt sinn til aukins meðlags með syni aðila en stefnandi þá haldið því fram að hann hefði staðið við meðlagsskylduna með því að greiða ótiltekin kostnað. Verulega hafi hallað á stefndu í viðræðum aðila en stefnandi hafi hótað stefndu að ef hún hygðist ,,rugga bátnum“ myndi stefnandi íhuga að setja fram kröfu á hendur henni um endurgreiðslu ofgreidds meðlags. Jafnframt hafi stefnandi hótað stefndu því að tilkynna hana til opinberra stofnana vegna umönnunarbóta, sem stefnda þiggi og eigi rétt á, og gera þannig að því skóna að stefnda hefði gerst sek um bótasvik. Enn fremur hafi stefnandi sagt stefndu að hann myndi íhuga nýtt forsjármál gegn stefndu, léti hún ekki af kröfum sínum. Við þessar aðstæður hafi stefnda ekki treyst sér til að fara gegn stefnanda og leita atbeina sýslumanns og/eða dómstóla til að knýja á um efndir gildandi samkomulags fyrr en vorið 2012. Stefnda hafi síðan haldið málinu til streitu. Stefnda telji lýst athæfi stefnanda fela í sér ómöguleika um að sjónarmið um tómlætisáhrif geti komið til skoðunar í málinu.

Í öðru lagi verði til þess að líta að meðlag tilheyri barni og sé eign þess. Athöfn eða athafnaleysi foreldris geti því ekki orðið þess valdandi að barn sé svipt rétti sem það eigi samkvæmt staðfestum samningi og gildandi lögum.

Í þriðja lagi sé um ófyrnda kröfu að ræða og því geti ólögfest sjónarmið um tómlæti ekki haggað því lagaverki sem gildi um fyrningu kröfuréttinda.

Í fjórða lagi skjóti það skökku við að stefnandi skuli halda því fram að réttur stefndu samkvæmt staðfestum samningi sé fallinn niður sökum tómlætis þegar stefnandi hafi sjálfur tekið að efna samning aðila með greiðslu aukins meðlags. Þegar af þeirri ástæðu beri að virða umrædda málsástæðu stefnanda að vettugi.

Stefnda gerir í málinu kröfu um að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða henni málskostnað. Málshöfðun stefnanda hafi bersýnilega verið óþörf og geti ekki með nokkru móti þjónað því markmiði að leysa úr raunverulegum ágreiningi aðila. Þvert á móti sé augljóst að málið hafi einungis verið höfðað í þeim eina tilgangi að reyna klekkja á rétti stefndu til aukins meðlags með syni aðila.

Þá bendir stefnda á í þessu sambandi að fjárnám hafi verið gert hjá stefnanda 12. desember 2012 vegna þeirrar fjárkröfu sem hann krefjist í máli þessu viðurkenningar á að hann skuldi ekki. Ágreiningsmál um greiðsluskyldu stefnanda sé lögformlega rétt rekið milli aðila á grundvelli aðfararlaga, enda hafi stefnandi krafist úrlausnar héraðsdómara um fjárnámið skv. 92. gr., sbr. 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Það sé hin eina lögformlega leið stefnanda til að bera ágreining um meðlagsskyldu undir dómstóla. Stefnandi verði að sætta sig við þau úrræði sem honum standi til boða lögum samkvæmt, telji hann á rétti sínum brotið. Stefnda fái ekki annað séð en að með höfðun máls þessa, daginn fyrir fyrstu fyrirtöku hjá sýslumanni vegna aðfararbeiðni stefndu, hafi vakað fyrir stefnanda að reyna að klekkja á rétti stefndu við fjárnámsfyrirtökuna með því að koma í veg fyrir áðurnefnt fjárnám og þau réttaráhrif sem fjárnámi fylgi.

Hvað málskostnaðarkröfu sína varðar tekur stefnda sérstaklega fram að hún sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og því beri henni nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til almennra og ólögfestra meginreglna samninga- og kröfuréttar um að samninga beri að halda. Stefnda vísar jafnframt til meginreglna barnaréttar og ákvæða barnalaga nr. 76/2003, sérstaklega IX. og X. kafla þeirra laga. Enn fremur vísar stefnda til laga nr. 90/1989 um aðför og laga nr. 150/2007 og 14/1905 um fyrningu kröfuréttinda.

IV

Með úrskurði dómsins 17. október 2013 var hluta upphaflegra dómkrafna stefnanda vísað frá dómi. Hins vegar var ekki fallist á það með stefndu að málinu bæri alfarið að vísa frá dómi. Málsástæður þær sem stefnda byggði frávísunarkröfu sína á eru þess eðlis að þær geta ekki talist vera sýknukröfu hennar til stuðnings.

Enginn ágreiningur er með aðilum um að stefnandi hafi með samningi, dagsettum 15. júní 2004, sem staðfestur var af sýslumanninum í Hafnarfirði 18. sama mánaðar, skuldbundið sig til að greiða meðlag með syni aðila, sem nemur tvöföldum barnalífeyri, frá 1. september 2006 uns drengurinn verður lögráða, þ.e. fullra 18 ára gamall. Greiðsluskylda stefnanda samkvæmt samningnum, sem og mánaðarleg fjárhæð meðlagsins, er því óumdeild. Aðila greinir hins vegar á um hvort stefnandi hafi á tímabilinu frá 1. september 2006 til 31. júlí 2012 greitt meðlag með drengnum að fullu í samræmi við efni samkomulagsins eða hvort hann hafi einungis greitt meðlag sem nam einföldum barnalífeyri á því tímabili. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi ekki greitt viðbótarmeðlagið á nefndu tímabili byggir stefnandi enn fremur á því í málinu að réttur stefndu til greiðslnanna, sbr. 1. mgr. 56. gr. barnalaga nr. 76/2003, sé fallinn niður vegna tómlætis.

Svo sem fyrr var rakið heldur stefnandi því fram að munnlegur samningur hafi komist á milli aðila þess efnis að stefnandi innti viðbótarmeðlagið af hendi með greiðslu ýmissa útgjalda vegna sonar aðila og með því leggja honum til ýmis verðmæti, svo sem fatnað, búnað til tómstundaiðkunar o.fl. Hann hafi því efnt samkomulag aðila frá 15. júní 2004 að fullu.

Dómkröfur stefnanda í málinu eru neikvæðar viðurkenningarkröfur en skilja verður kröfugerð stefnanda svo að hann krefjist viðurkenningar á því að hann standi ekki í skuld við stefndu vegna meðlagsgreiðslna sem kveðið er á um í 7. gr. samnings aðila, dagsettum 15. júní 2004, vegna tímabilsins 1. september 2006 til 31. júlí 2012. Rétt sinn til að haga kröfugerð með þeim hætti sem hann gerir byggir stefnandi á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. barnalaga nr. 76/2003 er samningur um meðlag með barni því aðeins gildur að hann sé staðfestur af sýslumanni eða að gerð sé sátt fyrir dómi um meðlagið. Eins og áður var rakið er óumdeilt í málinu að sýslumaðurinn í Hafnarfirði staðfesti samning aðila frá 15. júní 2004 þremur dögum eftir undirritun hans. Í samningnum er ekkert tekið fram um með hvaða hætti stefnandi skuli greiða meðlagið. Um fyrirkomulag greiðslu þess fór því samkvæmt ákvæði 1. mgr. 63. gr. barnalaga en þar segir að meðlag skuli greiða mánaðarlega fyrir fram nema annað sé löglega ákveðið. Af framansögðu leiðir að svo stefnanda hefði verið heimilt að uppfylla skyldu sína til greiðslu viðbótarmeðlagsins með þeim hætti sem hann byggir á í málinu hefðu aðilar þurft að semja svo um og fá þann samning staðfestan af sýslumanni, ellegar gera samkomulagið að hluta sáttar sinnar fyrir dómi. Leiðir þetta af fyrirmælum 1. mgr. 63. gr. barnalaga, enda verður að telja að samningur um annað fyrirkomulag meðlags­greiðslna en kveðið er á um í ákvæðinu falli undir 1. mgr. 55. gr. sömu laga. Fyrir liggur að málsaðilar gerðu hvorugt. Þegar að þessu gættu verður ekki á það fallist með stefnanda að hann hafi uppfyllt skyldur sínar um greiðslu meðlags samkvæmt 7. gr. samnings aðila frá 15. júní 2004 með þeim hætti sem á er byggt af hans hálfu. Við úrlausn málsins verður því lagt til grundvallar að stefnandi hafi ekki greitt umsamið viðbótarmeðlag á tímabilinu 1. september 2006 til 31. júlí 2012. Það skal hins vegar áréttað hér að meðlagskröfur þær sem til féllu á tímabilinu 1. september 2006 til 1. nóvember 2008 eru fyrndar, enda féll stefnda frá mótmælum sínum við þeim hluta kröfugerðar stefnanda við aðalmeðferð málsins, sbr. það sem áður er rakið um kröfugerð hennar í málinu.

Kemur þá næst til skoðunar hvort réttur stefndu, sbr. 1. mgr. 56. gr. barnalaga nr. 76/2003, til innheimtu hinna umdeildu meðlagsgreiðslna sé niður fallinn vegna tómlætis.

Svo sem ítrekað hefur verið getið byggir stefnandi á því að málsaðilar hafi gert með sér munnlegan samning um fyrirkomulag greiðslu viðbótarmeðlagsins. Til stuðnings þeirri fullyrðingu hefur stefnandi lagt fram gögn um veruleg fjárútlát sín í þágu sonar aðila. Það að stefnandi hafi staðið þannig að framfærslu sonar síns að hann hafi greitt hærri fjárhæðir en sem nemur lágmarksframfærslu lögum samkvæmt getur ekki eitt og sér talist sönnun þess að málsaðilar hafi gert með sér samning þess efnis sem stefnandi heldur fram í málinu. Er enda þekkt að foreldrar leggi börnum sínum til ýmis verðmæti og standi straum af kostnaði vegna tómstunda þeirra umfram þá fjármuni sem foreldrum ber að greiða með börnum sínum til framfærslu í formi meðlags. Í þessu sambandi þykir enn fremur mega líta til þess að af málatilbúnaði beggja aðila verður ráðið að fjárhagsstaða stefnanda hafi verið með ágætum á umræddu tímabili. Þá dugar heldur ekki til, svo talið verði sannað að aðilar hafi gert með sér samning þessa efnis, sú staðreynd að stefnda hóf ekki innheimtu viðbótarmeðlagsins fyrr en sumarið 2012. Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið þykir stefnanda ekki hafa tekist að sanna að aðilar hafi gert með sér munnlegan samning um fyrirkomulag greiðslu viðbótarmeðlagsins þess efnis sem stefnandi heldur fram í málinu.

Eins og áður var nefnt liggur ekkert haldbært fyrir í málinu um að stefnda hafi freistað þess að innheimta viðbótarmeðlagið hjá stefnanda fyrr en sumarið 2012. Fallast má á það með stefnanda að nokkurri furðu sæti að stefnda hafi kosið að haga málum með þessum hætti. Framhjá því verður hins vegar ekki litið að skylda stefnanda til greiðslu viðbótarmeðlagsins var skýr og ótvíræð samkvæmt hinum staðfesta samningi aðila og ákvæðum 1. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 63. gr. barnalaga nr. 73/2003. Þá skiptir hér máli að meðlagið tilheyrir syni aðila og skal notað í hans þágu skv. 2. mgr. 63. gr. barnalaga. Að þessu virtu verður ekki á það fallist með stefnanda að réttur stefndu til innheimtu meðlags skv. 1. mgr. 56. gr. barnalaga, vegna hins umdeilda tímabils, sé niður fallinn vegna tómlætis.

Samkvæmt framansögðu hefur stefnandi unnið mál þetta að nokkru og tapað því að nokkru. Ljóst er að stefnda lét meðal annars gera fjárnám fyrir meðlagsgreiðslum vegna tímabilsins 1. september 2006 til 1. nóvember 2008 hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Þá var á því byggt í greinargerð stefndu í málinu að stefnandi skuldaði henni meðlag vegna nefnds tímabils. Það var ekki fyrr en undir aðalmeðferð málsins sem stefnda viðurkenndi að meðlagskröfur sem til féllu á því tímabili væru fyrndar. Að þessu gættu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að dæma stefndu til að greiða hluta málskostnaðar stefnanda, eða 300.000 krónur, enda verður ekki á það fallist með stefndu að a-liður 1. mgr. 131. gr. laganna eigi við í málinu.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefnandi, M, skuldar stefndu, K, ekki meðlagsgreiðslur með syni málsaðila, A, á grundvelli 7. gr. samnings aðila, dagsettum 15. júní 2004 og staðfestum af sýslumanninum í Hafnarfirði 18. sama mánaðar, vegna tímabilsins 1. september 2006 til 1. nóvember 2008.

Stefnda greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.