Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-70
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Friðun
- Eignarréttur
- Stjórnsýsla
- Stjórnarskrá
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 6. júní 2023 leita Stefán Halldórsson, Anna Guðný Halldórsdóttir og Þórey Kolbrún Halldórsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að áfrýja dómi Héraðsdóms Austurlands 10. maí 2023 í máli nr. E-86/2020: Stefán Halldórsson, Anna Guðný Halldórsdóttir og Þórey Kolbrún Halldórsdóttir gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur leika vafa á um hvort skilyrði fyrir áfrýjun beint til Hæstaréttar séu uppfyllt.
3. Ágreiningur aðila lýtur að ákvörðun gagnaðila um friðlýsingu landsvæðis í eigu leyfisbeiðenda gagnvart orkuvinnslu en auglýsing um verndarsvæði á Norðurlandi – vatnasvið Jökulsár á Fjöllum í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. ágúst 2019. Leyfisbeiðendur kröfðust þess aðallega að ákvörðunin yrði ógilt en til vara að viðurkennd yrði bótaábyrgð gagnaðila vegna skerðingar á eignarréttindum þeirra.
4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Þá komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki væru uppi þær aðstæður að eigendur annarra jarða, sem ekki ættu aðild að málinu, ættu óskipt réttindi með leyfisbeiðendum í skilningi 18. gr. laga nr. 91/1991 og því væru ekki efni til að vísa málinu frá á þeim grundvelli. Um lagagrundvöll friðlýsingar vísaði héraðsdómur til þess að í auglýsingu um hana kæmi fram að hún byggðist á þingsályktun nr. 13/141 og 53. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Héraðsdómur taldi nægilega leitt í ljós að afmörkun hins friðlýsta svæðis hefði byggst á málefnalegum sjónarmiðum, enda hefði aðferðin sem beitt var við það átt sér bæði stoð í skýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar og greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Enn fremur var ekki talið að gagnaðili hefði gengið lengra en nauðsyn krafði til að ná því lögmæta markmiði að vernda vatnasvið Jökulsár á Fjöllum gagnvart orkuvinnslu. Héraðsdómur féllst ekki á að þingsályktun nr. 13/141 hefði verið fallin úr gildi við birtingu auglýsingar nr. 740/2019. Málsástæðum leyfisbeiðenda um vanhæfi umhverfisráðherra og forstjóra Umhverfisstofnunar var jafnframt hafnað. Þá var því hafnað að ekki hefði verið gætt að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða andmælarétti, sbr. 13. gr. laganna. Ekki var talið varða ógildingu ákvörðunarinnar þótt ekki lægi fyrir að hún hefði verið sérstaklega birt leyfisbeiðendum. Loks féllst dómurinn ekki á að annmarkar væru á umhverfismati verndar- og orkunýtingaráætlunar sem sneru að skorti á upplýsingagjöf. Var gagnaðili því sýknaður af aðalkröfu um ógildingu ákvörðunarinnar. Þá var því hafnað að leyfisbeiðendur ættu bótarétt á hendur gagnaðila á grundvelli 42. gr. laga nr. 60/2013 vegna friðlýsingarinnar og taldi dómurinn ráðstöfunina hafa rúmast innan þess svigrúms sem gagnaðili hefði til að takmarka eignarréttindi leyfisbeiðenda án þess að bótaskylda stofnaðist á grundvelli 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá var bótaábyrgð á grundvelli sakarreglunnar jafnframt hafnað.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða um aðalkröfu þeirra hafi fordæmisgildi um stöðu íslenska ríkisins og landeigenda þegar tekin hafi verið ákvörðun um friðlýsingu samkvæmt lögum nr. 48/2011 og kröfur til málsmeðferðar samkvæmt þeim með tilliti til 53. gr. laga nr. 60/2013, sbr. lög nr. 105/2015. Fordæmisgildi málsins varði í það minnsta stöðu landeigenda við Jökulsá á Fjöllum en jafnframt aðrar friðlýsingar á grundvelli laga nr. 48/2011 þegar fyrir liggur þingsályktun um verndar- og orkunýtingaráætlun samkvæmt 3. gr. laganna. Þá hafi niðurstaða málsins almenna þýðingu fyrir beitingu 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar þegar komi að skerðingu á eignarréttarlegum hagsmunum. Loks er á því byggt að málið hafi verulega samfélagslega þýðingu um stefnumótun og framkvæmd stefnu stjórnvalda á sviði orkunýtingar og friðlýsingar.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi og almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna, meðal annars þegar tekin er ákvörðun um friðlýsingu samkvæmt lögum nr. 48/2011. Þá eru ekki til staðar í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.