Hæstiréttur íslands

Mál nr. 579/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Res Judicata
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 23

 

Föstudaginn 23. október 2009.

Nr. 579/2009.

Icecool á Íslandi ehf.

(Garðar Briem hrl.)

gegn

Bjarna Svavari Hjálmtýssyni

(Kristján B. Thorlacius hrl.)

 

Kærumál. Res Judicata. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

I ehf. höfðaði mál gegn B til greiðslu skuldar vegna viðgerðar á bifreið. Vísaði héraðsdómari málinu frá þar sem áður hafði verið dæmt í máli, sem I ehf. hafði höfðað gegn B til heimtu skuldar vegna sömu viðgerðar. Talið var að í fyrra málinu hafi verið leystu úr ágreiningi aðila um heildarkostnað fyrir það verk sem I ehf. hafi tekið að sér fyrir B. Hafi I ehf. byggt kröfu sína á því að hún væri sanngjarnt endurgjald fyrir þá þjónustu og það efni sem látið hafi verið í té og krafan dæmd á þeim grundvelli að ekki hafi verið sannað að þau verklaun sem I ehf. hafi krafið um hafi verið hærri en sanngjarnt mætti telja. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í  stefnu til héraðsdóms í máli Hæstaréttar nr. 459/2008 sem dæmt var 7. apríl 2009 er tekið fram að sóknaraðili byggi á því að krafa hans „sé sanngjarnt endurgjald fyrir þá þjónustu og það efni sem látið var í té.“ Í forsendum Hæstaréttar kemur fram að lagt sé mat á hvort sú fjárhæð sem sóknaraðili krafði um í verklaun sé ósanngjörn. Var krafan dæmd á þeim grundvelli að varnaraðili hafi ekki sannað að þau verklaun sem áfrýjandi krafði um væru hærri en sanngjarnt mætti telja. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Icecool á Íslandi ehf., greiði varnaraðila, Bjarna Svavari Hjálmtýssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2009.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. september sl., er höfðað 17. júlí 2008.

Stefnandi er Icecool á Íslandi ehf., Lóurima 12, Selfossi.

Stefndi er Bjarni Svavar Hjálmtýsson, Barðavogi 36, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 44.999 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. mars 2008 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Hinn 15. september sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda. Krafðist stefndi frávísunar málsins og málskostnaðar sér til handa. Stefnandi gerði þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og stefnda gert að greiða málskostnað í þessum þætti málsins. Er þessi þáttur til úrlausnar hér.

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að stefnandi hafi unnið að viðgerð á bifreið stefnda sem fól í sér breytingu á Ford Ecoline, árgerð 2004. Efni og vinna vegna sprautunar á brettaköntum hafi fallið niður á áður gerðum reikningi vegna breytingarinnar, en þau mistök hafi komið í ljós við matsgerð og hafi verið leiðrétt með útgáfu reiknings hinn 25. mars 2008.

Stefndi kveður málavexti þá að hann hafi, vorið 2004, leitað til stefnanda með ósk um að hann breytti fyrir hann bifreið af gerðinni Ford Enconline árgerð 2004. Stefndi hafi um nokkurt skeið tekið að sér akstur með ferðamenn um jökla og hálendi Íslands. Aðilum samdist um að stefnandi tæki að sér verkið. Verkið hafi verið framkvæmt sumarið 2004 og hafi stefndi fengið bifreiðina afhenta. Hafi þá verið lokið málun hinna umdeildu brettakanta. Reikningar vegna verksins hafi verið gefnir út 21. ágúst 2004 og 25. nóvember 2004.

Ágreiningur hafi komið upp með aðilum um fjárhæð og umfang verksins. Eftir árangurslausar samningaviðræður hafi stefnandi stefnt stefnda til greiðslu eftirstöðva vinnulauna vegna verksins með stefnu, dags. 15. nóvember 2005. Í stefnunni hafi verið á því byggt að um kröfu vegna verksins í heild væri að ræða og hafi verið vísað til heildarkostnaðar fyrir sambærileg verk. Stefndi hafi tekið til varna í málinu og hafi, undir rekstri málsins, aflað matsgerðar dómkvadds matsmanns. Þegar stefnandi hafi fengið matsgerðina í hendur hafi hann sent stefnda annan reikning, dags. 25. mars 2008, vegna vinnu við sprautun á brettaköntum sem stefnandi telji sig hafa vantalið í fyrri reikningum sínum. Stefndi hafi mótmælt reikningnum og talið umrædda vinnu hafa verið innifalda í fyrri reikningum stefnanda, sem ekki hafi verið sundurliðaðir. Þessu mótmælir stefnandi.

Úr ágreiningi aðila um fjárhæð og umfang verksins hafi verið leyst með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 30. júní 2008, og dómi Hæstaréttar, dags. 7. apríl 2009.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á reikningi, útgefnum 25. mars 2008, með gjalddaga 25. mars s.á., að fjárhæð 44.999 krónur.

Vísar hann til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og ákvæða kaupalaga nr. 50/2000, einkum ákvæða 45., 47., 48. og 51. gr. Um gjalddaga kröfunnar er vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga.

Málsástæður stefnda fyrir frávísunarkröfu

Kröfu sína um frávísun byggir stefndi á því að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 459/2008 hafi þegar verið leyst úr ágreiningi aðila um kostnað og umfang þess að stefnandi tók að sér að breyta bíl stefnanda. Samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verði krafa sem dæmd hafi verið að efni til ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól.

Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda í stefnu til héraðsdóms, dags. 8. nóvember 2005, hafi verið um að ræða stefnu til greiðslu á kostnaði vegna verksins í heild og hafi hvarvetna í stefnu verið miðað við kostnað vegna heildarumfangs verksins. Í reikningum sem stefndi hafi fengið senda og voru grundvöllur fyrri málshöfðunar stefnanda hafi ekki verið að finna sundurliðun á einstökum verkþáttum eða vinnu við þá. Hafi málatilbúnaður stefnanda í máli verið afgerandi á þá leið að um væri að ræða allar eftirstöðvar verksins.

Í dómi Hæstaréttar hafi sömuleiðis verið á því byggt að það ágreiningsefni, sem lægi fyrir dóminum, væri um kröfu vegna eftirstöðva verklauna við breytingar á bifreiðinni. Sömuleiðis hafi dómur Hæstaréttar verið byggður á heildarmati á umfangi verksins og kostnaði við það, m.a. með hliðsjón af niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, þ.m.t. niðurstöðu um kostnað vegna málningar á brettaköntum. Sé því augljóst að fyrir liggi endanleg niðurstaða Hæstaréttar um heildarkostnað við verkið, greiðsluskyldu og uppgjör aðila.

Stefndi byggi á því að í ljósi framangreinds hafi þegar verið leyst úr öllum kröfum aðila vegna breytinga á bifreið stefnda. Sömuleiðis sé stefnandi bundinn af yfirlýsingum sínum í fyrra máli aðila að um sé að ræða allar eftirstöðvar viðskipta þeirra. Stefnandi geti því ekki, samkvæmt ótvíræðu orðalagi í 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, bætt við frekari kröfum á síðari stigum og farið í önnur dómsmál vegna þátta sem dómstólar hafi þegar tekið afstöðu til.

Að þessu virtu sé á því byggt að vísa beri máli þessu frá dómi, sbr. 2. ml. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Fyrir liggur að stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 11. nóvember 2005 vegna vinnu sem stefnandi hafði tekið að sér vorið 2004 fyrir stefnda við að breyta bifreið hans. Ágreiningur var með aðilum um greiðslu fyrir verkið. Lýsir stefnandi því í stefnu að mál það, sem hér er til umfjöllunar, hafi verið höfðað vegna þess að þau mistök hafi átt sér stað að í áður gerðum reikningi vegna umræddra breytinga hafi fallið niður kostnaður vegna sprautunar á brettaköntum. Telur hann því nauðsyn bera til að höfða mál þetta.

Eins og áður segir aflaði stefndi matsgerðar dómkvadds matsmanns í hinu fyrra máli. Í dómi héraðsdóms segir að með matsbeiðni sinni hafi stefndi farið fram á að tilteknir yrðu allir verkþættir sem inntir voru af hendi í tengslum við breytingar á bifreiðinni fyrir 44 tommu dekk, með tilheyrandi breytingum á drifbúnaði fjöðrun o.fl. og metið hvort þeir hafi verið nauðsynlegir og eðlilegir í tengslum við verkið. Þá skyldi matsmaður meta sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir þessa verkþætti.

Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns kemur fram í umfjöllun hans um þá verkþætti sem framkvæmdir höfðu verið að settir hafi verið á brettakantar og þeir hafi verið málaðir í sama lit og bíllinn. Ljóst er því að í matsgerð sinni hefur matsmaður tekið tillit til þess kostnaðarliðar sem stefnandi krefur stefnda um í þessu máli.

Í dómi Hæstaréttar segir að krafa áfrýjanda, þ.e. stefnanda í þessu máli, sé um greiðslu eftirstöðvar verklauna við breytingar á umræddri bifreið. Taki krafan til endurgjalds fyrir efni og vinnu við breytingarnar. Við mat dómsins á því hvað sé eðlilegt endurgjald fyrir verkið er ljóst að stuðst er við umrædda matsgerð. Kemur hvergi fram, hvorki í héraðsdómi né dómi Hæstaréttar að undanskildir séu einhverjir verkþættir. Með dómi Hæstaréttar var stefnda gert að greiða stefnanda 1.374.806 krónur með vöxtum og málskostnað.

Þegar framanritað er virt verður að fallast á það með stefnda að með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 7. apríl 2009, hafi verið leyst úr ágreiningi aðila um heildarkostnað fyrir það verk sem stefnandi tók að sér fyrir stefnda vorið 2004. Með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 verður sú krafa sem stefnandi hefur hér uppi því ekki borin undir dóminn.

Ber því, samkvæmt framansögðu, að vísa máli þessu frá dómi.

Ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Icecool á Íslandi ehf., greiði stefnda, Bjarna Svavari Hjálmtýssyni, 150.000 krónur í málskostnað.