Hæstiréttur íslands
Mál nr. 475/1999
Lykilorð
- Vinnuslys
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2000. |
|
Nr. 475/1999. |
Óskar Jósef Óskarsson (Ingólfur Hjartarson hrl.) gegn Nýborg ehf. (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Vinnuslys.
Ó, sem var smiður að mennt og starfaði hjá einkahlutafélaginu N, vann að endurbótum á hlöðu þegar honum skrikaði fótur með þeim afleiðingum að hann rann út af þaki hlöðunnar og féll til jarðar. Ekkert öryggishandrið var við þakbrúnina á þessum stað. Krafðist Ó bóta úr hendi N fyrir tjón, sem hann varð fyrir vegna slyssins. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið sýnt að Ó hefði verið sjálfráður um hvernig best yrði að verki staðið og hafi jafnframt haft þekkingu til að meta hvernig öryggi hans yrði best tryggt. Ekki var sýnt fram á að slysið yrði rakið til ástæðna, sem vörðuðu N. Var talið að slysið yrði rakið til óaðgæslu Ó sjálfs eða tilviljunar og var N því sýknað af kröfu Ó um skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.630.402 krónur með 2% ársvöxtum frá 3. maí 1995 til 3. júní 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Óskar Jósef Óskarsson, greiði stefnda, Nýborg ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 1999.
Mál þetta sem dómtekið var 24. september sl. er höfðað með stefnu þingfestri 10. desember 1998 og framhaldsstefnu þingfestri 3. maí 1990, af Óskari Jósefi Óskarssyni, Hraunteigi 23, Reykjavík gegn Nýborg ehf., Ármúla 23, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaða- og miskabætur 1.630.402 krónur með 2% ársvöxtum frá 3. maí 1995 til 3. júní 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu á málskostnaði til stefnanda samkvæmt gjaldskrá Lögfræðiþjónustunnar ehf., auk útlagðs kostnaðar vegna sönnunar á tjóni stefnanda. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu. Til vara er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og málskostnaður falli niður.
Málavextir
Stefnandi var ráðinn til starfa sem sölumaður hjá stefnda í lok árs 1993. Sumarið 1994 var hann sendur til að vinna við endurbætur á hlöðu á bænum Skrauthólum á Kjalarnesi, en stefnandi er smiður að mennt. Skrauthólar var í eigu forráðamanns stefnda, Sigurðar Antonssonar. Verkið fólst í því að taka járnið af þakinu, klæða þakið með timburklæðningu og setja járn á aftur. Auk þess var sett milliloft í hlöðuna.
Í upphafi var ætlunin að endurbæta einungis 10 metra af þaki hlöðunnar sem er um 40 metra löng. Var sett öryggishandrið við þakbrún miðað við þá lengd. Síðar var ákveðið af forráðamanni stefnda, Sigurði Antonssyni, að skipta um járn á stærra svæði. Öryggishandriðið var hins vegar ekki framlengt.
Þann 24. ágúst 1994 var stefnandi að vinna við að setja blikkflasningar með fram glugga á þakinu fyrir utan það svæði sem fyrst var ákveðið að vinna við. Var járnið þá komið á þakið og gler komið í gluggann. Rigningarúði var og skrikaði stefnanda fótur og rann út af þakinu og þar sem ekki var öryggishandrið á þessu vinnusvæði féll hann til jarðar og var fallið um 5 metrar.
Þegar óhappið varð var forráðamaður stefnda, Sigurður Antonsson, einnig að störfum við verkið. Stefnandi kveður Sigurð yfirleitt hafa unnið með sér að endurbótunum og hafi hann stjórnað verkinu.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að Sigurður Antonsson hafi útvegað efni til þess að láta setja upp öryggishandrið og hafi stefnandi séð um smíði þess. Rangt sé að Sigurður hafi stjórnað verkinu enda sé hann ekki fagmaður á þessu sviði. Hann hafi hins vegar unnið að verkinu sem aðstoðarmaður þegar slysið varð. Hann hafi hins vegar látið stefnanda eftir alla faglega framkvæmd og hafi sjálfur verið aðeins hluta verktímans á staðnum. Hafi Sigurður beðið stefnanda að gera allar nauðsynlegar öryggisráðstafanir og hafi nægjanlegt efni verið á staðnum í lengra handrið en stefnandi hafi sett upp.
Stefnandi var fluttur af slysstað á Slysavarðsstofuna í Reykjavík og kom þar í ljós að hann hafði farið úr liði milli völu- og hælbeins og var auk þess brotinn á tveimur stöðum í völubeini og á 5. ristarbeini. Var honum kippt í lið og settar á hann þrýstingsumbúðir og gips. Var stefnandi í gipsi í 6 vikur. Segir m.a. í vottorði Stefáns Carlssonar til Sjóvár-Almennra hf. dags. 3. 10. 1994: "um er að ræða mjög alvarlegan áverka á vinstri fót en gangurinn hefur verið framar vonum, það er þó ekki reiknað með að Óskar nái fullri hreyfigetu í ökklaliðnum og vera kann að það þurfi að gera aðgerð á ökklanum þegar fram í sækir."
Á grundvelli framangreinds vottorðs sama læknis frá 21. september 1995 og eigin skoðunar mat Vigfús Magnússon læknir, þann 16. nóvember 1995, örorku stefnanda.
Segir í niðurstöðu matsins að stefnandi hafi tæpum fjórtán mánuðum eftir slysið enn verki og stirðleika í ökkla og verði að telja líklegt að hann komi til með að hafa viðvarandi einkenni frá þessum ökkla og að ef til vill komi seinna meir fram aukin slitgigt í honum.
Er tímabundin örorka metin 100% frá slysdegi til 28. nóvember 1994 en síðan varanlega örorka 10 %.
Jónas Hallgrímsson læknir mat einnig örorku stefnanda samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 og er örorkumat hans dags. 22. apríl 1999 og byggir stefnandi endanlegar kröfur sínar á matsgerð hans. Samkvæmt matsgerðinni var stefnandi ekki rúmliggjandi vegna slyssins en telst hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga í eitt ár frá slysdegi þrátt fyrir að hann gat hafið vinnu þegar rúmir þrír mánuðir voru liðnir frá slysdegi. Tímabundið atvinnutjón telst 100% frá 24. ágúst til 28. nóvember 1994. Varanlegur miski er metinn 15% og varanleg örorka 15%.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi telur að afleiðingar slyssins verði alfarið raktar til þess að öryggisbúnaði var ábótavant á verkstað, þ.e. að öryggishandrið hafi vantað á þann hluta hlöðunnar sem hann var að vinna við þegar óhappið varð. Verkstjórn hafi verið í höndum forsvarsmanns stefnda og ekkert það sé fram komið sem bendi til þess að stefnandi eigi einhverja sök sjálfur á óhappinu. Stefndi hafi ekki tilkynnt vinnuslysið til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en tveimur sólarhringum eftir slysið. Hafi það því ekki verið rannsakað af stofnuninni. Beri stefndi þess vegna allan halla af sönnunarskorti í málinu.
Þótt forsvarsmaður stefnda hafi verið eigandi jarðarinnar Skrauthóla hafi stefnandi verið í vinnu hjá stefnda þegar óhappið varð. Hafi stefndi greitt honum laun fyrir það tímabil sem hann var að vinna að Skrauthólum svo og laun í lögbundna veikindadaga. Þá hafi stefnandi fengið, þann 29. nóvember 1995, samningsbundnar bætur úr launþegatryggingu stefnda frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. á grundvelli tilkynningar stefnda til félagsins og framangreinds örorkumats.
Auk framangreindrar greiðslu frá Sjóvá Almennum tryggingum hf. að fjárhæð 242.090 krónur hafi stefnandi fengið örorkubætur frá slysatryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins þann 7. desember 1995, 238.390 krónur, á grundvelli 10% örorku.
Krafa stefnanda sundurliðist sem hér segi:
Þjáningabætur
Veikur í 365 daga x 770 kr. 281.050 kr.
Varanlegur miski 15% 4.398.500 kr.
(miðað við 100 %) 659.775 kr.
Varanleg örorka, skv. 5. og 6. gr. skaðabótal.1.023.810 kr.
Frádráttur vegna aldurs skv. 9.gr. -92.143 kr.
Tjón alls 1.872.492 kr.
Greiðsla frá Sjóvá-Almennum hf.
úr launþegatryggingu stefnda -242.090 kr.
Stefnukrafa 1.630.402 kr.
Þjáningarbætur reiknist þann tíma sem stefnandi hafi verið metinn með tímabundna örorku, þ.e. frá slysdegi 14. ágúst 1994 til 28. nóvember 1994. Þar af talinn rúmliggjandi í fjórar vikur en hann hafi verið í gipsi í 6 vikur.
Ekki sé gerð krafa um bætur fyrir tímabundið tjón þar sem stefndi hefur þegar gert það upp. Launafjárhæð til viðmiðunar við ákvörðun varanlegrar örorku séu árslaun 1994 sem samkvæmt skattframtali 1995 hafi numið 849.802 krónum. Samkvæmt skattframtali 1994 hafi árslaun stefnanda 1993 verið 977.069 krónur, þannig að ætla megi að laun síðustu 12 mánuði fyrir slysið hafi í reynd verið hærri en þau viðmiðunarlaun sem lögð séu til grundvallar í stefnukröfu. Þar sem ekki hafi tekist að finna launaseðla síðustu 12 mánuði fyrir slysið sé hins vegar látið duga að miða við framangreinda tölu.
Varðandi lagarök vísar stefnandi til 3. til 8. gr, skaðabótalaga nr. 50/1993.
Um dráttarvaxtakröfuna er vísað til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 7., 10., 12., 14. og 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 sbr. 2. og 5. gr. laga nr. 67/1989.
Krafan um málskostnað er reist á XXI. kafla eml. nr. 91/1991.
Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 en samkvæmt þeim sé lögmönnum gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður stefnda og lagarök
Sýknukrafa stefnda byggist á því að stefndi beri ekki bótaábyrgð á því líkamstjóni er stefnandi varð fyrir er hann rann fram af þaki hlöðunnar að Skrauthólum. Frumorsök slyssins megi rekja til stefnanda sjálfs, þ.e. honum hafi skrikað fótur, en að jafnaði geti enginn annar en slasaði sjálfur borið ábyrgð á því að skrika fótur. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki gert viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slys, að öryggishandrið hafi vantað á þann hluta hlöðunnar sem stefnandi var við vinnu. Hér sé hlutunum snúið við því það hafi verið í verkahring stefnanda sjálfs að sjá um öryggisráðstafanir, hann hafi haft þekkinguna og forsvarsmaður stefnda hafi hvatt hann til að gæta öryggis. Stefndi hafi ekki staðið í vegi fyrir því að öryggisráðstöfunum væri við komið.
Samkvæmt framansögðu verði slysið rakið til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs og eigi hann því ekki rétt til bóta úr hendi stefnda. Stefnandi verði að sýna fram á sök hjá stefnda eða að hann beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda en hvorugu sé til að dreifa. Verði því ekki komist hjá sýknu.
Af hálfu stefnda er því mótmælt sérstaklega að dregist hafi að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um slysið. Það hafi verið gert strax daginn eftir þótt skrifleg tilkynning sé ekki innfærð hjá Vinnueftirliti fyrr en tveimur dögum seinna. Þetta breyti heldur engu um sönnun í málinu þar sem allir eru sammála um aðstæður. Það sé enginn sönnunarskortur til staðar sem stefndi eigi að bera hallann af.
Komi til þess af einhverjum ástæðum að dómurinn telji stefnda bera bótaábyrgð geti hún aldrei verið meiri en að hluta þar sem meginorsök slyss liggi í óaðgæslu stefnanda. Varakröfur stefnda um lækkun bótakröfu byggist þannig á sjónarmiðum um eigin sök tjónþola.
Í öðru lagi byggist varakröfur stefnda á því að kröfur stefnanda séu alltof háar og jafnframt ósannaðar.
Niðurstaða
Ágreiningur í máli þessu snýst um bótaskyldu stefnda.
Eins og fram er komið var stefnandi ráðinn til stefnda sem sölumaður. Bar stefnandi fyrir dómi að sumarið 1994 hafi orðið samdráttur í fyrirtæki stefnda sem séð hafi ástæðu til þess að nýta vinnukraft stefnanda við endurbætur á hlöðu á bænum Skrauthólum á Kjalarnesi, en stefnandi er lærður húsasmiður. Ekki liggur annað fyrir en að stefnandi hafi samþykkt að vinna við umrætt verk og upplýsti hann fyrir dómi að hann hefði, eftir að þessu umrædda verki lauk, unnið við fleiri húseignir Nýborgar.
Stefnandi bar að hann hefði unnið ásamt þremur öðrum. Þá hefði framkvæmdastjóri stefnda, Sigurður Antonsson, oft verið á vinnusvæðinu. Stefnandi heldur því fram að Sigurður hafi verið verkstjóri á staðnum og hafi stjórnað því hvað átti að gera og hvernig það skyldi gert. Sigurður Antonsson heldur því hins vegar fram að hann hafi ekki stjórnað verkum stefnanda, hann hafi einungis gefið fyrirmæli um það sem gera átti.
Ekki er ágreiningur um það með hvaða hætti slysið varð en eins og fram er komið var rigningarúði og stefnanda skrikaði fótur og rann hann út af þakinu.
Fyrir liggur að stefnandi og samstarfsmaður hans höfðu smíðað öryggishandrið við þakbrún á hluta þaksins. Handriðið náði hins vegar ekki til þess hluta þaksins sem stefnandi féll niður.
Eins og fram er komið er stefnandi húsasmiður og því fagmaður á því sviði sem verk hans tók til. Hann hafði sjálfur, ásamt samstarfsmanni, séð um að koma upp öryggishandriði á hluta þaksins. Ekki hefur verið sýnt fram á annað en að stefnandi hafi verið sjálfráður um það hvernig best yrði að verki staðið og hafi jafnframt haft þekkingu til þess að meta hvernig öryggi hans yrði best tryggt. Gegn andmælum Sigurðar Antonssonar hefur ekki verið sýnt fram á að Sigurður hafi haft með höndum faglega verkstjórn á svæðinu. Hefur hvorki verið sýnt fram á að stefndi hafi brotið öryggisreglur á vinnustað eða að umrætt slys megi rekja til ástæðna er varða stefnda. Telja verður því, samkvæmt því er fram hefur komið, að slys stefnanda verði rakið til óaðgæslu hans sjálfs eða óhappatilviljunar.
Samkvæmt vottorði Vinnueftirlits ríkisins barst tilkynning um slys stefnda tveimur sólarhringum eftir að það gerðist. Í ljósi þess að ágreiningur er ekki í málinu um aðdraganda slyssins og málsatvik eru að fullu upplýst þykir þetta ekki skipta máli varðandi sönnunarfærslu í málinu.
Þegar framanritað er virt þykir ekki sýnt fram á að stefndi beri bótaábyrgð á slysi stefnanda þann 24. ágúst 1994 og ber því að sýkna hann af kröfum stefnanda.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Nýborg ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Óskars Jósefs Óskarssonar.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.