Hæstiréttur íslands
Mál nr. 763/2009
Lykilorð
- Þjófnaður
- Fjárdráttur
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 11. mars 2010. |
|
Nr. 763/2009. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson settur saksóknari) gegn Páli Vigni Viðarssyni (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Þjófnaður. Fjárdráttur. Skilorð.
P, starfsmaður Fóðurblöndunnar, var sakfelldur fyrir þjófnaðarbrot með því að hafa tekið 15 tonn af gölluðum áburði hjá fyrirtækinu og nýtt í eigin þágu án þess að greiða fyrir hann. Var brotið talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir tvö fjárdráttarbrot með því að hafa í tvö skipti móttekið greiðslu að fjárhæð 100.000 krónur í hvort sinn inn á reikning sinn fyrir barnafjórhjól, sem kaupendur fengu send, án þess að hafa gert skil á peningum við Fóðurblönduna, eigenda þeirra. Voru brotin talin varða við 247. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing P ákveðin þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Páll Vignir Viðarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 405.980 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 11. nóvember 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Hvolsvelli 3. júní 2009 á hendur Páli Vigni Viðarssyni, kt. 280970-5819, Goðalandi, Hvolsvelli,
„fyrir hegningarlagabrot
I.
Með því að hafa þann 2. maí 2008, tekið 15 tonn af gölluðum áburði hjá Fóðurblöndunni á Hvolsvelli að andvirði kr. 1.035.435,- án vsk., og nýtt í eigin þágu án þess að greiða fyrir áburðinn.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Með því að hafa þann 19. og 23. október 2007, móttekið greiðslur að fjárhæð kr. samtals 350.000,- fyrir fjórhjól af gerðinni Mustang 300s, fastanúmer NR-F36 af Gunnari Þorgilssyni, kt. 071078-5829 og afhent Gunnari fjórhjólið, án þess að hafa gert skil á umræddum peningum við eiganda hjólsins sem er Fóðurblandan eða gefið út nótu á móti greiðslunum og þannig ráðstafað peningunum í eigin þágu.
Telst þetta varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III.
Með því að hafa þann 3. júní 2008 móttekið greiðslu að fjárhæð kr. 258.310,- í reiðufé af Jóni Gunnari Karlssyni, kt. 050447-4569, fyrir 7 sekki af áburði af gerðinni Græðir 9 sem Jón Gunnar fékk afhent í tvennu lagi, þann 27. maí 2008, þá fjóra sekki og síðan 3 sekki við greiðslu þann 3. júní sama ár, án þess að hafa gert skil á umræddum peningum við eiganda áburðarins sem er Fóðurblandan og þannig ráðstafað peningunum í eigin þágu.
Telst þetta varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
IV.
Með því að hafa þann 11. júní 2007, gefið út reikning á fyrirtækið Lýsi hf. og breytt texta reikningsins þannig að í stað gasgrills af gerðinni Grandhall 791 Elite, lítur út fyrir að keyptur hafi verið áburður af gerðinni Fjölgræðir 9 en á reikningnum er vörunúmer grillsins gefið upp ásamt verði grillsins sem er töluvert lægra en áburðarins og með því að hafa breytt innkaupafærslu á öðru gasgrilli af gerðinni Grandhall 791 Elite, í eitt sett af beltum undir fjórhjól þannig að vörunúmer grillsins er gefið upp en textanum breytt.
Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
V.
Með því að hafa þann 29. febrúar 2008, móttekið greiðslu að fjárhæð kr. 100.000,- inn á reikning sinn nr. 0308-26-1970 af Höllu Vilbergsdóttur, kt. 071176-5849, fyrir barnafjórhjól af gerðinni PANTHER sem Halla fékk sent í pósti, án þess að hafa gefið út kvittun fyrir hjólinu eða gert skil á peningunum við eiganda fjórhjólsins sem er Fóðurblandan og þannig ráðstafað peningunum í eigin þágu.
Telst þetta varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VI.
Með því að hafa í kringum 20. nóvember 2007, móttekið greiðslu að fjárhæð kr. 100.000,- í reiðufé af Georg Má Baldurssyni, kt. 221074-4329, fyrir barnafjórhjól af gerðinni Unior 150cc sem Georg fékk afhent, án þess að hafa gert skil á peningunum við eiganda fjórhjólsins sem er Fóðurblandan og þannig ráðstafað peningunum í eigin þágu.
Telst þetta varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VII.
Með því að hafa þann 25. apríl 2008, móttekið greiðslu að fjárhæð kr. 77.100,- inn á reikning sinn nr. 0308-26-1970 af Hallgrími Agnari Jónssyni, kt. 030267-5759, fyrir viðgerð á fjórhjóli af gerðinni Leopard, án þess að hafa gert skil á peningunum við viðgerðaraðila sem er Fóðurblandan og án þess að hafa gefið út kvittun fyrir viðgerðinni og þannig ráðstafað peningunum í eigin þágu.
Telst þetta varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Við upphaf aðalmeðferðar hinn 25. september sl. gerði sækjandi þá leiðréttingu á ákærulið II að í stað 23. október hefði átt að standa 15. nóvember. Af hálfu ákærða hefur þessari breytingu verið mótmælt eins og síðar verður vikið að. Í málflutningi við lok aðalmeðferðarinnar hinn 14. október sl. lýsti sækjandi því yfir að ákæruvaldið félli frá ákærulið IV.
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum ákæruliðum og að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.
Með bréfi, dags. 17. nóvember 2008, fór Fóðurblandan hf. fram á að lögreglan hæfi rannsókn á tilgreindri háttsemi ákærða, sem kærandi taldi fela í sér brot í starfi hans sem verslunarstjóra hjá félaginu. Taldi kærandi að ákærði hefði í fimm nánar tilgreindum tilvikum gerst sekur um refsiverðan verknað í starfi sem varðaði við 244. gr. og 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með bréfi, dags. 8. janúar 2009, fór kærandi fram á að lögreglan tæki einnig til rannsóknar sjötta tilvikið þar sem kærandi taldi ákærða hafa brotið af sér í starfi sínu hjá kæranda. Þá hófst rannsókn á sjöunda tilvikinu, sem fjallað er um í ákærulið VI, vegna upplýsinga sem komu fram við rannsókn á öðrum sakarefnum málsins.
Ákæruliður I
Í kæru er því lýst að fyrir liggi með framburði Erlends Guðmundssonar vörubílstjóra að ákærði hafi fengið hann til að flytja 15 tonn af gölluðum áburði frá bóndanum á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum. Hafi hann átt að flytja áburðinn til Þorlákshafnar. Á leiðinni þangað hafi hann stöðvað bifreið sína fyrir framan verslun Fóðurblöndunnar á Hvolsvelli og þar hafi ákærði, sem gegnt hafi stöðu verslunarstjóra þar á þeim tíma, gefið þær fyrirskipanir að áburðurinn skyldi losaður þar af bifreiðinni. Er haft eftir Erlendi að er hann hafi ekið þar fram hjá nokkrum dögum síðar hafi áburðurinn verið horfinn. Er og vísað til þess að fyrir liggi tölvubréf frá ákærða til Sigurðar Sigurðarsonar, starfsmanns Fóðurblöndunnar, þar sem ákærði viðurkenni að hann hafi fjarlægt áburðinn og nýtt sér hann. Komi fram eftirfarandi í niðurlagi bréfsins: „Mér finnst þetta leiðinda mál og vil afgreiða það sem fyrst. Ef að það er allt í einu komin verðmiði á þessa gölluðu sekki þá verða þeir að sjálfsögðu greiddir.“ Þá tekur kærandi fram að samkvæmt útreikningum starfsmanna félagsins nemi andvirði áburðarins einni milljón króna, og hafi þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa sem verslunarstjóri Fóðurblöndunnar á Hvolsvelli séð um þau tjónamál sem upp hafi komið á sölusvæðinu vegna gallaðs áburðar. Sagði hann Hlyn bónda á Voðmúlastöðum hafa hringt í sig og sagst hafa fengið mikið magn af gölluðum áburði. Kvaðst ákærði hafa farið og skoðað þennan áburð og komist að því að 25 sekkir hefðu þar verið teknir til hliðar og augljóslega verið bæði blautir og grjótharðir. Hefði þessi áburður að sínu mati verið ónýtur. Sagðist ákærði hafa rætt það við gæðastjóra Fóðurblöndunnar, Pál Höskuldsson, hvað gera ætti við þennan ónýta áburð. Hefði Páll hvatt hann til að skilja þetta eftir hjá bóndanum vegna þess kostnaðar sem að öðrum kosti þyrfti að leggja út fyrir flutningi áburðarins og eyðingu hans. Hefði komið fram hjá Páli að tryggingafélagið óskaði eftir að það yrði gert. Hlynur bóndi hefði hins vegar óskað eindregið eftir því við ákærða að hann léti fjarlægja þennan áburð af planinu hjá sér. Þar sem Hlynur hefði verið nýr en stór viðskiptavinur hjá Fóðurblöndunni sagðist ákærði að sjálfsögðu hafa orðið við hans óskum. Hefði hann því í framhaldi hringt í flutningabílstjóra og beðið hann um að koma með samsvarandi magn af áburði í stað hins gallaða og taka þann gallaða með sér af staðnum og fara með hann á plan Fóðurblöndunnar á Hvolsvelli. Ákærði sagðist hins vegar hafa verið þess minnugur að starfsmenn félagsins hefðu verið áminntir fyrir að geyma ónýtan áburð á planinu. Hefði hann því hringt í föður sinn sem hefði þá sjálfur verið búinn að kaupa áburð hjá Fóðurblöndunni. Kvaðst ákærði hafa beðið hann um að aðstoða sig við að koma þessum ónýta áburði í lóg. Hefði faðir hans komið og sótt þetta sjálfur. Hefði faðir hans að einhverju leyti nýtt áburðinn sjálfur en hann hefði einnig komið þessu í fjósið hjá Eggerti Pálssyni, sem hefði stórt og mikið kúabú. Hefðu þeir reynt þar að hræra þessu saman við skít en gefist upp vegna þess í hversu slæmu ástandi áburðurinn var. Hefði þetta verið gert í góðri trú, með það að markmiði að spara fyrirtækinu peninga en ekki til að skaða fyrirtækið. Lægi fyrir að mikill kostnaður fylgdi því að láta farga slíkum áburði og það þá gert í Sorpu í Reykjavík. Þá væri almennt erfitt fyrir menn að nýta sér slíkan áburð, enda ekki mögulegt að dreifa honum með áburðardreifara. Væri helst að nýta þetta með því að blanda þessu saman við skít í haughúsi og fá þannig aðeins kraftmeiri skít. Fylgdi slíku mikil vinna en einnig gallar eins og til dæmis tæringarhætta gagnvart málmum, sem leiddi til þess að margir settu það fyrir sig. Tók ákærði fram að sjálfur hefði hann ekki haft neinn ávinning af þessu og því væri fjarri lagi að hann hefði haft einhvern ásetning til að hagnast á því.
Vitnið Páll Höskuldsson, framleiðslustjóri Fóðurblöndunnar hf., skýrði frá því að ákærði hefði haft samband við sig vegna áburðarins sem um ræðir í ákærulið I. Hefði legið fyrir að áburðurinn væri mikið „kögglaður“ og því mikið skemmdur. Kvaðst vitnið hafa lagt það til við ákærða, eins og yfirleitt væri gert í slíkum tilvikum, að bóndinn fengi að halda áburðinum og nýta hann í eigin þágu sem eins konar sárabót fyrir óþægindin af því að fá gallaða vöru afhenta. Vitnið kvaðst síðan hafa heyrt, annaðhvort frá ákærða eða einhverjum öðrum innan fyrirtækisins, að bóndinn hefði ekki viljað nýta sér áburðinn. Vitnið taldi að yfirleitt væru einhver peningaleg verðmæti í gölluðum áburði, mismunandi mikil þó eftir því hversu gallaður hann væri. Kannaðist hann ekki við að fyrirtækið hefði þurft að láta farga áburði eða leggja út kostnað við að losa sig við hann. Algengt væri að hann væri notaður sem eins konar sárabætur til viðkomandi bónda. Vissulega fylgdi því aukin fyrirhöfn að nýta slíkan áburð en yfirleitt vildu bændur þó þiggja það og nýta sér slíkt tilboð þar sem ávallt væru einhver efnisleg verðmæti í honum. Kvað vitnið það hafa verið á sínu starfssviði að taka við kvörtunum vegna gallaðs áburðar og meta í því sambandi hvað gera ætti fyrir viðkomandi bónda. Ef hins vegar þyrfti að ráðstafa hinum gallaða áburði eitthvað annað hefði það verið á verksviði sölustjóra að taka ákvörðun um hvað gera skyldi. Teldi hann því að ákærði sem verslunarstjóri hefði átt að ráðfæra sig við sölustjórann við ráðstöfun áburðarins í greint sinn.
Vitnið Hlynur Snær Theódórsson, bóndi á Voðmúlastöðum, kvaðst hafa kvartað við ákærða undan gölluðum áburði. Sagði hann ákærða hafa verið mjög liðlegan og tekið því vel að hann fengi nýjan ógallaðan áburð sér að kostnaðarlausu. Ekkert hefði verið um það rætt hvort hann mætti halda hinum gallaða áburði sem sárabótum fyrir óþægindin. Hann hefði látið það í ljós við ákærða að hann vildi losna við gallaða áburðinn og hefði ákærði brugðist vel við því. Spurður hvort hann hefði þegið áburðinn ef honum hefði verið boðinn hann án greiðslu sagðist vitnið ekkert endilega vera visst um það. Hefði það kostað þó nokkra vinnu að færa sér það í nyt þar sem mikið hefði verið af glerhörðum kögglum í áburðinum.
Ásmundur Bjarni Árnason kvaðst starfa sem forstöðumaður verslunarsviðs hjá Fóðurblöndunni hf. Spurður um áburðinn í ákærulið I sagðist hann vita til þess að fyrirskipun hefði verið gefin um að áburður úr þeirri sendingu sem umræddur áburður tilheyrði skyldi fluttur til Þorlákshafnar svo tryggingafélagið gæti metið hvort hann væri gallaður. Honum væri hins vegar ekki kunnugt um að Páll Höskuldsson hefði gefið leyfi fyrir því að bóndinn sem keypti áburðinn mætti nýta hann sem sárabætur. Hefði ákærði skýrt svo frá þá vefengdi hann ekki þann framburð, enda hefði ákærði haft fulla heimild til að meta þetta og taka um það ákvörðun fyrir hönd fyrirtækisins. Kvaðst vitnið telja að umrætt tjón hafi fengist bætt tjá tryggingafélagi Fóðurblöndunnar.
Erlendur Guðmundsson kvaðst hafa verið vörubílstjóri hjá Fóðurblöndunni á þeim tíma sem hér um ræðir. Sagði hann ákærða hafa falið sér að flytja nýjan áburð að Voðmúlastöðum og flytja þaðan í staðinn gallaðan áburð. Hefði hann affermt áburðinn eins og um var rætt á planið við Fóðurblönduna á Hvolsvelli. Aldrei hefði verið rætt um að hann færi með áburðinn til Þorlákshafnar. Væri því rangt eftir honum haft í lögregluskýrslu hvað það varði og hafi hann ekki tekið eftir því þegar hann skrifaði undir skýrsluna.
Eggert Pálsson kvaðst vera bóndi að atvinnu en auk þess væri hann föðurbróðir ákærða. Kvaðst hann hafa fallist á beiðni ákærða um að taka við og eyða áburði sem fluttur hefði verið til hans á sturtuvagni. Hefði áburðurinn verið mjög blautur og kögglaður og hefði honum verið sturtað ofan í haughúsið hjá sér. Hefði verið mjög erfitt að eiga við áburðinn vegna þessa og myndi hann ekki taka við slíkum áburði aftur væri hann beðinn um það. Hefði það kostað mikla vinnu að losa um kögglana og koma áburðinum í nýtanlegt form. Kvaðst hann hafa tekið við áburðinum frá ákærða því ákærði hefði talað um að með því myndi Fóðurblandan losna við að fara með áburðinn til eyðingar með tilheyrandi kostnaði. Hefði hann talið sig vera að gera þetta í greiðaskyni við ákærða og talið að ákærði væri að gera þetta með hagsmuni Fóðurblöndunnar í huga.
Birkir Tómasson kvaðst vera bóndi og jafnframt sölumaður á áburði fyrir Áburðarverksmiðjuna. Skýrði hann frá því að hann hefði lent í því að kaupa gallaðan áburð frá Fóðurblöndunni. Hefði ákærði þá komið á staðinn til að meta ástand áburðarins og þá hvort hann væri gallaður.
Niðurstaða
Óumdeilt er að ákærði hafi látið flytja umræddan áburð á plan Fóðurblöndunnar á Hvolsvelli og að áburðurinn hafi verið gallaður. Byggir ákærði málsvörn sína aðallega á því að áburður þessi hafi verið svo illa farinn að hann hafi í raun ekki haft neitt fjárgildi og geti því ekki hafa verið andlag þjófnaðar. Af framburði vitna verður ráðið að jafnvel þótt galli hafi komið fram í áburði, þannig að erfitt sé að dreifa honum með áburðardreifara, sé oft hægt að nýta slíkan áburð með einhverjum hætti. Þykir ákærði ekki hafa sýnt nægilega fram á að ástand áburðarins hafi verið slíkt að hann hafi í raun misst það fjárgildi sem hann áður sannanlega hafði.
Ákærði hefur ekki sýnt fram á að hann hafi í starfi sínu haft heimild til að ráðstafa áburðinum á þann hátt sem hann gerði í greint sinn. Með afhendingu áburðarins til skyldmenna sinna verður að telja að ákærði hafi slegið eign sinni á hann í auðgunarskyni. Hefur hann því gerst sekur um þjófnað skv. 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður II
Í kæru kemur fram að samkvæmt yfirlýsingu Gunnars Þorgilssonar hafi hann samið við ákærða haustið 2007 um að kaupa Mustang-fjórhjól af Fóðurblöndunni hf. á 350.000 krónur. Hafi ákærði gengið frá eigendaskiptum á hjólinu 19. október 2007. Hafi Gunnar sagst hafa afhent ákærða tvær greiðslur í reiðufé vegna kaupanna, þá fyrri 19. október 2007 að fjárhæð 150.000 krónur og þá síðari 23. nóvember sama ár að fjárhæð 200.000 krónur. Hafi Gunnar ekki fengið neinn reikning eða kvittun vegna kaupanna. Með tilliti til framburðar Gunnars telji kærandi að ákærði hafi tekið á móti umræddum greiðslum og ráðstafað þeim í eigin þágu. Þá kemur fram í viðbótargreinargerð kæranda að fyrir liggi að sölureikningur hafi ekki verið gerður hjá fyrirtækinu og sé tækið því enn skráð sem birgðir í bókum félagsins. Þá komi ekkert fram í gögnum félagsins um að Gunnar eða einhver honum tengdur hafi keypt fjórhjól af tilgreindri tegund. Hins vegar liggi fyrir að tækið hafi verið skráð yfir á nafn Gunnars og kennitölu hjá Umferðarstofu.
Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa móttekið þær greiðslur frá Gunnari Þorgilssyni sem lýst er í þessum ákærulið eða að hafa á einhvern hátt komið að sölu eða afhendingu á umræddu fjórhjóli til Gunnars. Gilti það bæði um þær dagsetningar sem tilgreindar voru í ákæru í upphafi og eins þá dagsetningu sem sækjandi kveður nú hafa verið um að ræða í seinna tilvikinu eða hinn 23. nóvember 2007. Ákærði sagðist hins vegar hafa forunnið skráningu til Umferðarstofu vegna þessa hjóls, eins og hann hefði yfirleitt gert þegar slík hjól væru seld hjá fyrirtækinu. Hefði hann haft aðgang að vef Umferðarstofu og því hefði hann almennt séð um að prenta út af vefnum eyðublöð til útfyllingar svo hægt væri að óska eftir slíkri skráningu. Kvaðst ákærði hafa verið við störf fyrir Fóðurblönduna við Sundahöfn í Reykjavík hinn 23. október 2007 og megi sjá af fyrirliggjandi útprentun af debetkortareikningi hans úttekt þann dag í Sundanesti þar skammt frá.
Vitnið Gunnar Þorgilsson kvaðst hafa samið við ákærða um kaup á nýju fjórhjóli, sem um ræðir í ákærulið II, í október 2007. Hefði það verið fyrsta hjólið sem selt hefði verið hjá Fóðurblöndunni. Um það hefði samist við ákærða símleiðis að vitnið fengi að borga hjólið í tvennu lagi, 150.000 krónur við afhendingu og 250.000 krónur mánuði síðar. Í bæði skiptin kvaðst vitnið hafa greitt með því að afhenda ákærða peninga í umslagi en Gunnar kvaðst sjálfur hafa kosið að hafa þann háttinn á. Kvaðst hann hafa ritað undir skráningarpappíra hjá ákærða 18. október en síðan komið til hans daginn eftir, föstudaginn 19. október, og afhent honum fyrri greiðsluna í umslagi. Hefði það átt sér stað á skrifstofu ákærða, seinni hluta dagsins, og hefði enginn annar verið þar viðstaddur þegar hann afhenti ákærða umslagið. Búið hefði verið að skrá hjólið á hans nafn og hefði hann fengið það afhent strax á eftir. Hefðu alla vega tveir aðrir starfsmenn Fóðurblöndunnar verið viðstaddir afhendingu hjólsins. Annars vegar Sveinn, bróðir ákærða, sem hefði afhent honum hjólið, og hins vegar Þórarinn. Ákærði hefði sagt honum við frágang kaupanna að hann myndi fá nótu vegna þeirra þegar hann gengi frá síðari greiðslunni. Þegar hann hefði komið á skrifstofuna til ákærða til að afhenda honum síðari greiðsluna hinn 23. nóvember 2007 hefði ákærði sagst vera tímabundinn. Kvaðst vitnið hafa afhent honum umslag með greiðslunni í og ákærði þá sagt að hann myndi senda honum nótu vegna kaupanna í framhaldi. Nótan hefði hins vegar ekki borist. Vegna fyrirætlana sinna um að selja hjólið kvaðst vitnið svo hafa sett sig í samband við Fóðurblönduna vegna nótunnar, sumarið 2008. Hefði hann rætt þar við Bjarna Árnason og í framhaldi hefði hann verið beðinn um að gefa skýrslu um þessi viðskipti hjá lögreglu. Jafnframt hefði Fóðurblandan beðið hann um að bíða með að selja hjólið og hefði hann jafnvel fengið hótanir frá þeim um að þeir myndu taka af honum hjólið.
Ásmundur Bjarni Árnason lýsti bókhaldsskjali sem sýndi kaup og sölu á fimmtán hjólum allt til þess tíma þegar ákærði hætti störfum hjá félaginu. Samkvæmt því lægi fyrir að umrætt hjól hefði verið keypt af félaginu hinn 14. september 2007 en ekkert lægi fyrir um það í bókhaldinu að því hefði verið ráðstafað frá félaginu með sölu eða einhverjum öðrum hætti. Aðspurt sagði vitnið vörutalningu fara fram um hver áramót. Hins vegar hefði ákærði verið ábyrgur fyrir því að staðreyna hvort þau fjórhjól væru til staðar sem samkvæmt bókhaldi félagsins væru óseld. Hefði ákærði því væntanlega um áramótin átt að láta færa tiltekna breytingarfærslu um að hjólið væri ekki til staðar. Þar sem þetta hefði ekki verið gert hefði bókhaldið sýnt að um áramótin 2007/2008 væru til átta hjól en ekki sjö.
Þórarinn Ólafsson kvaðst hafa unnið á lager Fóðurblöndunnar á þeim tíma sem hér um ræðir og haft þá mikil samskipti við ákærða sem samstarfsmann. Vitnið kannaðist við að hafa skrifað sem vottur undir sölutilkynningu frá Fóðurblöndunni til Gunnars Þorgilssonar. Minnti vitnið að ákærði hefði kallað hann inn á skrifstofu sína vegna þessa, en kvaðst ekki muna hvort kaupandinn hefði verið þar viðstaddur eða einhver annar. Sagði hann ákærða hafa séð um frágang málsins, enda hefði ákærði almennt séð algjörlega um viðskipti með fjórhjól. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa komið að málinu á annan hátt.
Sveinn Viðarsson, bróðir ákærða, kvaðst hafa starfað á umræddum tíma hjá Fóðurblöndunni. Hefði hann meðal annars séð um að setja saman fjórhjól og gera við þau. Kvaðst hann ekki minnast þess að ákærði hefði komið að því að setja saman slík hjól. Vitnið sagðist kannast við að hafa farið með umrætt fjórhjól í skoðun hjá Umferðarstofu áður en Gunnar Þorgilsson fékk það afhent. Sagði vitnið Gunnar hafa komið út í starfsstöð Fóðurblöndunnar á Hvolsvelli rétt fyrir lokun þann sama dag og fengið hjólið afhent. Kvaðst vitnið sjálft hafa afhent honum hjólið en ákærði hefði verið á staðnum. Kannaðist vitnið ekki við að hafa móttekið neina peninga frá Gunnari í tengslum við þetta. Aðspurt sagðist vitnið minnast þess að Gunnar hefði skömmu seinna, kannski hálfum mánuði til mánuði síðar, komið með hvítt umslag til sín á verkstæðið. Hefði Gunnar sagt að umslagið ætti að fara í kassa vegna ákærða. Kvaðst vitnið þá hafa hringt í ákærða og spurt hvað hann ætti að gera við umslagið. Hefði ákærði þá svarað því til að hann skyldi setja það í lítinn járnkassa, sem væri undir afgreiðsluborðinu, inni í búðinni. Þetta hefði hann gert án þess að líta í umslagið. Vitnið sagðist ekki hafa verið viðstatt þegar gengið hefði verið frá kaupum Gunnars á hjólinu en hann hefði vitað um að þau væru frágengin.
Niðurstaða
Eins og rakið hefur verið var af hálfu ákæruvaldsins gerð sú leiðrétting á ákærulið II við upphaf aðalmeðferðar málsins hinn 25. september sl. að móttökudagur síðari greiðslunnar ætti að vera 23. nóvember en ekki 23. október eins og misritast hefði í ákæruliðnum. Breyting þessi sætti andmælum af hálfu ákærða. Í kæru Fóðurblöndunnar vegna málsins kom fram að seinni greiðslan hefði verið afhent ákærða 23. nóvember 2007 og var málið rannsakað á þeim grundvelli. Enda þótt slík misritun í ákæru sé ávallt óheppileg þá verður að telja að breytingin hafi verið ákæruvaldinu heimil með vísan til ákv. 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þar sem um aukaatriði brots er að ræða, og að ekki verður séð að vörn ákærða hafi orðið áfátt vegna þessara mistaka.
Eins og fyrr greinir hefur ákærði neitað að hafa móttekið umræddar greiðslur frá Gunnari Þorgilssyni. Hann neitar einnig að hafa komið að sölu hjólsins til Gunnars með einhverjum hætti, að því þó undanskildu að hann kannast við að hafa unnið skráningarblöð vegna hjólsins til Umferðarstofu. Gunnar hefur hins vegar borið að hann hafi samið um kaup á hjólinu við ákærða og afhent honum þær greiðslur sem um ræðir í peningum, í tvennu lagi. Fyrir liggur að útbúin var sölutilkynning frá Fóðurblöndunni hf. til Gunnars vegna hjólsins og Þórarinn Ólafsson, samstarfsmaður ákærða á þessum tíma, sem ritaði sem vottur á sölutilkynninguna, sagði ákærða hafa gengið frá sölu hjólsins til Gunnars og minnti jafnframt að ákærði hefði kallað hann inn á skrifstofu til sín til að rita undir. Þá liggur fyrir framburður Sveins Viðarssonar, bróður ákærða, um að hann hafi sem starfsmaður Fóðurblöndunnar hf. afhent Gunnari hjólið, enda hefði hann vitað að Gunnar hefði gengið frá kaupunum. Með hliðsjón af þessu telur dómurinn sannað að ákærði hafi gengið frá sölu á umræddu hjóli til Gunnars og að framburður ákærða sé því að þessu leyti ótrúverðugur. Þrátt fyrir þetta, og jafnvel þótt staðhæfingar Gunnars um greiðslurnar til ákærða séu í sjálfu sér trúverðugar, ber hins vegar til þess að líta að þær styðjast ekki við nein önnur gögn. Að þessu virtu, og með vísan til ákv. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þykir ekki liggja fyrir nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um sekt ákærða. Verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.
Ákæruliður III
Í kæru kemur fram að viðskiptavinur Fóðurblöndunnar, Jón Gunnar Karlsson, hafi staðfest að hann hefði keypt áburð af gerðinni Græðir 9 um áramótin 2007-2008 í verslun félagsins á Hvolsvelli. Nokkrum mánuðum síðar, nánar tiltekið í maí 2008, hafi hann keypt viðbótaráburð sömu gerðar, samtals sjö sekki. Hafi Jón staðhæft að hann hafi greitt fyrir þennan áburð 258.310 krónur í peningum. Þrátt fyrir að Jón hafi ekki fengið afhenta greiðslukvittun hafi hann engu að síður talið að viðskiptunum væri lokið, enda hafi sölureikningur verið útbúinn af þessu tilefni. Stangist þetta á við upplýsingar í bókhaldi félagsins en samkvæmt því sé Jón í skuld við það vegna þessara viðskipta. Í viðbótargreinargerð kæranda kemur fram að greiðslan frá Jóni finnist ekki í bókhaldi félagsins. Hafi verið útbúinn svokallaður lánssamningur hjá fyrirtækinu vegna viðskiptanna, sem sé í raun skuldabréf sem fyrirtækið gefi út vegna áburðarkaupa. Þegar innheimta á þessum reikningi hafi hafist hjá Jóni Gunnari hafi hann hreyft mótmælum og talið að hann hefði þegar greitt fyrir áburðinn.
Ákærði kvaðst hvorki hafa móttekið umrædda greiðslu frá Jóni Gunnari Karlssyni né komið að þeim viðskiptum sem lýst er í þessum ákærulið. Kvaðst hann telja að Jón Gunnar hefði ávallt greitt fyrir viðskipti sín við Fóðurblönduna með ávísun sem hljóðað hefði upp á nákvæmlega þá fjárhæð sem nam andvirði vörunnar sem keypt hefði verið hverju sinni. Aðspurður staðfesti ákærði að honum hefði verið sagt upp störfum hjá Fóðurblöndunni frá og með 31. maí 2008, með uppsagnarbréfi daginn áður, og hefði hann verið leystur undan vinnuskyldu á uppsagnarfrestinum. Kvaðst ákærði hafa orðið við þessu og gengið út og hætt störfum hjá fyrirtækinu fyrir hádegið þann dag. Hefði hann því ekki verið við störf hjá félaginu hinn 3. júní 2008.
Jón Gunnar Karlsson kvaðst hafa keypt sjö poka af áburði í tvennu lagi af Fóðurblöndunni. Þegar hann kom í fyrra skiptið hefði ákærði ekki verið við og hefði hann þá rætt við aðra starfsmenn Fóðurblöndunnar um að hann myndi taka með sér fjóra poka. Hann kæmi svo viku síðar og tæki hina þrjá auk þess að ganga þá frá greiðslunni. Taldi hann sig hafa komið viku síðar og greitt fyrir áburðinn. Sagðist hann örugglega hafa hitt ákærða þegar hann gerði upp og að það hefði verið á skrifstofu fyrirtækisins. Á þessum tíma sagðist Jón Gunnar hafa verið nýbúinn að selja hest og stæði hann eindregið í þeirri meiningu að hann hefði notað hluta af þeim peningum til að greiða áburðinn. Hann hefði svo fengið rukkun frá Fóðurblöndunni 15. nóvember 2008 þar sem komið hefði fram að áburðurinn væri ógreiddur. Aðspurður sagðist Jón Gunnar almennt hafa fengið nótu strax þegar greiðsla ætti sér stað en að öðrum kosti hefði hún verið send til hans í pósti eftir á. Þá kvaðst hann yfirleitt hafa þurft að rita undir eitthvað hjá ákærða við móttöku áburðar, en í þessu tilviki hefði ekki verið um slíkt að ræða. Vitnið tók fram að þegar starfsmaður Fóðurblöndunnar, Magnús, hefði rætt við hann um þessi mál, í framhaldi af því að hann hefði sagst vera búinn að greiða fyrir allan áburðinn, hefði hann sýnt Magnúsi nótu sem hann hefði annaðhvort fengið við greiðslu áburðarins eða síðar í pósti. Hefði Magnús þá sagt að svo virtist sem hann væri búinn að greiða fyrir áburðinn. Hefði starfsmaðurinn fengið þessa nótu í hendur. Kvaðst vitnið ekki geta sagt til um hvort einhver áritun hefði verið á nótunni eða eitthvað annað sem staðfesti að greiðslan hefði átt sér stað. Þá kvaðst hann ekki geta sagt til um það hvort um hafi verið að ræða reikning vegna viðskiptanna, dags. 27. maí 2008, sem liggur fyrir í málinu.
Ásmundur Bjarni Árnason staðfesti að ákærði hefði látið af störfum fyrir félagið um 31. maí 2008. Vitnið var spurt út í afrit af reikningi, dags. 26. maí 2008, að fjárhæð 258.310 krónur, sem stílaður er á Jón Gunnar Karlsson. Sagði vitnið meðal annars að skráður sölumaður væri Magnús Jónsson. Ekkert væri í sjálfu sér óeðlilegt við reikninginn sem slíkan en samkvæmt honum kæmi fram að viðskiptin ættu að færast inn á sérstakan lánasamning sem Jón Gunnar hefði haft hjá félaginu. Það sem síðan hefði komið í ljós, og væri óeðlilegt, væri að Jón Gunnar hefði upplýst gjaldkera að hann hefði greitt hina tilgreindu fjárhæð í peningum til ákærða og að þetta hefði því ekki átt að fara á lánasamninginn.
Niðurstaða
Ákærði hefur neitað að hafa veitt viðtöku umræddri greiðslu í reiðufé frá Jóni Gunnari Karlssyni hinn 3. júní 2008 og vísar jafnframt til þess að þann dag hafi hann ekki verið í starfi hjá Fóðurblöndunni hf.
Framburður Jóns Gunnars um afhendingu tilgreindrar peningagreiðslu til ákærða er ekki studdur neinum öðrum gögnum. Fyrir liggur að ákærði lét af störfum fyrir Fóðurblönduna hf. 31. maí 2008 og að hann var því ekki starfandi þar hinn 3. júní 2008. Samkvæmt þessu, og gegn neitun ákærða, þykir ekki komin fram sönnun um að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið og verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið.
Ákæruliður V
Fram kemur í kæru að mál þetta hafi komið upp er Halla Vilbergsdóttir hafi leitað til kæranda og óskað eftir að starfsmenn félagsins lagfærðu hjólið. Þar sem engra gagna hafi notið um sölu hjólsins frá félaginu og ekki hafi annað komið fram í bókhaldi félagsins en að hjólið væri ennþá í eigu þess hafi Höllu verið gert ljóst að hún fengi ekki hjólið afhent nema hún gæti sannað eignarhald sitt á því. Í framhaldi af því hafi hún aflað og framvísað kvittun um greiðslu að fjárhæð 100.000 krónur inn á bankareikning í eigu ákærða. Sé það mat kæranda að kvittunin staðfesti frásögn Höllu um hvernig þessi viðskipti hafi gengið fyrir sig og að ákærði hafi með háttsemi sinni gerst brotlegur í starfi sínu.
Ákærði kvaðst fyrir dómi telja að einhver mistök hefðu átt sér stað vegna greiðslu Höllu Vilbergsdóttur inn á bankareikning hans. Kvaðst hann ekki kannast við að hafa haft einhverja milligöngu um eða komið með einhverjum hætti að kaupum hennar á barnafjórhjóli í eigu Fóðurblöndunnar. Sagðist hann fyrst hafa fengið vitneskju um málið með því að hann hefði verið sakaður um að selja fjórhjól „á svörtum“ og að andvirði hjólsins hefði verið lagt inn á reikning hans. Kvaðst hann þá hafa farið yfir færslur á bankareikningi sínum og komist að raun um að einhver Halla hefði lagt 100.000 krónur inn á reikninginn. Kvaðst hann þá í framhaldi hafa fundið kennitölu hennar og sett sig í samband við hana. Kvaðst hann hafa spurt hana fyrir hvað hún hefði verið að greiða og hún þá svarað því til að hún hefði verið að greiða fyrir fjórhjól. Hefði hann sagt henni að henni hefði augljóslega verið gefinn upp rangur bankareikningur fyrir einhver mistök. Þar sem hann hefði ekki átt neitt tilkall til þessara peninga hefði hann millifært fjárhæðina aftur til hennar. Ítrekað spurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa átt nein samskipti við umrædda Höllu vegna kaupa á fjórhjóli. Ef um slíkt hefði verið að ræða hefði hann væntanlega gefið henni upp bankareikning Fóðurblöndunnar. Kvaðst hann ekki geta útskýrt hvers vegna Halla hefði haft upplýsingar um persónulegan bankareikning hans og kennitölu. Ákærði sagði Fóðurblönduna hafa selt allmörg fjórhjól til sinna viðskiptavina og að einhver barnafjórhjól hefðu verið þar á meðal. Ákærði kvaðst að einhverju leyti hafa komið að sölu þessara hjóla hjá fyrirtækinu. Þegar fyrirspurnir hefðu borist símleiðis hefði oft lent á honum að svara þeim til að byrja með, en aðrir starfsmenn söludeildarinnar hefðu almennt séð um frágang reikninga vegna sölu hjólanna. Hann hefði svo eins og áður segir yfirleitt forunnið skráningu þessara fjórhjóla til Umferðarstofu. Ákærði sagði það hjól sem hér um ræðir hafa verið sýningarhjól og því eitthvað ekið. Kvaðst hann aðspurður ekki hafa sérstaklega verið með þetta hjól en einhver þessara barnahjóla hefðu verið sett saman heima hjá honum. Spurður sérstaklega hvort hann hefði með einhverjum hætti komið að því að samþykkja afslátt af verði hjólsins með tilliti til þessa kvaðst ákærði ekki minnast þess en hefði hann tekið slíka ákvörðun hefði það verið gert í samráði við einhvern annan.
Halla Vilbergsdóttir kvaðst ekki þekkja ákærða neitt. Hefði hana langað til að gefa stráknum sínum barnafjórhjól og þar sem hún hefði vitað að fyrrverandi kærasti hennar, Georg Már Baldursson, hefði keypt slíkt hjól af Fóðurblöndunni hefði hún hringt þangað. Hefði hún þar talað við mann sem hefði kynnt sig sem Pál. Hefði hann upplýst hana um að þeir væru meðal annars með notað sýningarhjól og hefði niðurstaðan orðið sú að hún myndi kaupa það með einhverjum afslætti á 100.000 krónur. Hefði hún svo fengið uppgefið hjá ákærða inn á hvaða bankareikning hún ætti að leggja greiðsluna og skrifað það hjá sér á miða. Þar sem henni hefði legið á að fá hjólið hefði hún farið strax í bankann í Vogunum og greitt þessa fjárhæð inn á tilgreindan reikning. Hefði hún fengið því til staðfestingar kvittun frá bankanum um greiðsluna. Í framhaldi af því hefði hún hringt aftur og beðið um að hjólið yrði sent til Reykjavíkur með póstbílnum. Hefði það gengið eftir og hefði hún tekið á móti hjólinu við Rauðavatn. Nokkru seinna hefði það komið upp að kúplingin á hjólinu hefði verið eitthvað leiðileg. Hefði hún því hringt aftur í Fóðurblönduna og kvartað yfir því. Hefði hún þá líklega talað við ákærða og kannski einhvern annan. Hefði pabbi drengsins svo farið með það í viðgerð í Fóðurblönduna og hefði það allt gengið að óskum. Hjólið hefði hins vegar bilað aftur skömmu síðar og þá hefði pabbinn farið með það aftur í Fóðurblönduna til viðgerðar. Þá hefðu starfsmenn þar neitað að afhenda það aftur á þeirri forsendu að því hefði verið stolið frá fyrirtækinu. Kvaðst hún þá hafa rætt við Bjarna hjá Fóðurblöndunni og sagt honum að hún hefði í höndunum kvittun fyrir kaupunum. Í framhaldi hefði ákærði síðan haft samband við sig og spurt sig hvort hún kannaðist við millifærslu á sína kennitölu. Sagðist hún strax hafa kannast við það og hefði ákærði þá boðist til að endurgreiða henni þessa fjárhæð, sem hann hefði gert. Fóðurblandan væri því enn með hjólið í sinni vörslu. Aðspurt kvað vitnið að sér hefði ekki fundist neitt athugavert við að greiða inn á persónulegan reikning. Sagðist hún raunar ekkert hafa hugsað út í það fyrr en síðar. Þá gæti oft verið erfitt að átta sig á hvort slík félög væru rekin á persónulegri kennitölu eða ekki. Kvaðst hún alltaf hafa staðið í þeirri trú að hún væri að kaupa hjólið af Fóðurblöndunni en ekki ákærða persónulega, enda hefði hún hringt í Fóðurblönduna.
Ásmundur Bjarni Árnason segir að mál þetta hafi fyrst komið upp með þeim hætti að Halla Vilbergsdóttir hefði haft samband, í febrúar eða mars 2008, og kvartað yfir því að hún hefði ekki fengið neina þjónustu á hjólið. Við nánari athugun hefði svo komið í ljós að hjólið, sem hún kvaðst hafa keypt af Fóðurblöndunni, væri enn skráð á það félag og jafnframt að það hefði verið afskrifað í birgðabókhaldi félagsins hinn 31. desember 2007. Umrædd Halla hefði svo sent ljósrit af kvittuninni fyrir greiðslu inn á bankareikning ákærða til staðfestingar því að hún hefði keypt umrætt hjól. Hefði hún skilað hjólinu inn til viðgerðar hjá félaginu og væri það þar enn, enda hefði félagið litið svo á að hjólið væri í raun eign þess. Vitnið kvaðst síðar hafa heyrt af því að ákærði hefði endurgreitt greiðsluna fyrir hjólið til Höllu.
Niðurstaða
Fyrir liggur, og er óumdeilt, að Halla Vilbergsdóttir lagði 100.000 krónur inn á persónulegan bankareikning ákærða. Hefur hún borið að hún hafi hringt í Fóðurblönduna hf. í því skyni að athuga með kaup á barnafjórhjóli. Hafi hún talað þar við starfsmann sem hafi kynnt sig sem Pál og hafi hann verið tilbúinn að selja henni slíkt hjól á 100.000 krónur. Hafi um það talast að hún skyldi leggja upphæðina inn á tiltekinn bankareikning og fengi hún þá hjólið sent með flutningabíl í kjölfarið. Kvaðst hún hafa lagt umsamda fjárhæð inn á þann reikning sem Páll þessi gaf upp og fengið síðan hjólið sent eins og um hafi verið talað. Hefur ákærði neitað að kannast við framangreint samtal og að hafa komið að umræddum kaupum með einhverjum hætti. Hefur hann haldið því fram að Halla hljóti að hafa greitt umrædda fjárhæð inn á hans reikning fyrir einhver mistök. Þegar litið er til framangreinds vitnisburðar Höllu, innborgunar hennar á bankareikning ákærða og þess að hún fékk hjólið sent til sín í framhaldi af greiðslunni til ákærða, telur dómurinn fram komna nægilega sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir því að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið. Hefur hann með því gerst sekur um fjárdrátt er varðar við 247. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður VI
Við rannsókn á máli sem um er fjallað í ákærulið V upplýsti Georg Már Baldursson, unnusti framangreindrar Höllu Vilbergsdóttur, að hann hefði farið í Fóðurblönduna 20. nóvember 2007, eftir að hafa rætt við ákærða í síma, og keypt þar barnafjórhjól af gerðinni Unior 150 cc. Hefði hann greitt fyrir það 100.000 krónur í peningum sem hann hefði afhent ákærða á skrifstofu hans í Fóðurblöndunni á Hvolsvelli.
Ákærði kvaðst fyrir dómi ekki kannast við ákæruefnið í þessum ákærulið. Hann kannaðist því ekki við að hafa móttekið hina tilgreindu peningagreiðslu frá Georg Má Baldurssyni vegna kaupa hans á barnafjórhjóli. Kvaðst hann heldur ekki minnast þess að hafa gefið út kvittun eða reikning á handskrifað blað vegna þessara kaupa.
Ásmundur Bjarni Árnason sagði að málið, sem lýst væri í þessum ákærulið, hefði fyrst komið upp þegar rannsókn vegna mála ákærða hefði verið komin vel á veg. Hefði Fóðurblandan ekki sent sérstaka kæru vegna þessa þáttar málsins. Aðspurður sagði vitnið að einungis væru gefnar út kvittanir og reikningar hjá félaginu sem væru merktir því.
Georg Már Baldursson kvaðst hafa keypt barnafjórhjól af Fóðurblöndunni. Hefði aðdragandinn verið sá að hann hefði verið búinn að leita víða að slíku hjóli. Hefði hann þá frétt að Fóðurblandan væri með barnafjórhjól til sölu og hefði hann því hringt þangað. Hefði hann rætt við ákærða sem hefði sagt honum að þeir ættu til eitt slíkt hjól. Kvaðst hann í framhaldi hafa farið á staðinn og hitt þar ákærða. Þar hefði þá einnig verið bróðir ákærða, Sveinn Viðarsson. Hefði verið gengið frá kaupunum á skrifstofu ákærða en enginn annar verið þar viðstaddur en þeir tveir, Georg og ákærði. Kvaðst Georg hafa afhent ákærða umsamda greiðslu, 100.000 krónur í peningum, og fengið í staðinn kvittun undirritaða af ákærða. Sagðist vitnið eiga fjórhjólið ennþá. Ákærði sýndi frumrit kvittunarinnar í dóminum, en ljósrit hennar liggur fyrir í málinu. Sagði hann ákærða hafa verið mjög vinsamlegan og þægilegan í alla staði.
Vésteinn Benediktsson kvaðst hafa starfað sem fjármálastjóri hjá Fóðurblöndunni í Reykjavík til ársins 2007. Aðspurður sagði hann að oft hefðu liðið nokkrir dagar, jafnvel meira, þar til innborgaðir peningar hefðu verið lagðir inn á bankareikning félagsins. Kvaðst hann hafa gert athugasemdir við að þetta mætti ekki dragast um of. Hefði yfirleitt verið lagt inn á reikning í Kaupþingi á Hellu þar til viðskipti hófust við Landsbankann á Hvolsvelli.
Í framhaldi af skýrslu Georgs Más gaf ákærði viðbótarskýrslu. Sagði hann útgáfu sína á kvittun til Georgs í stað reiknings megi væntanlega eingöngu rekja til þess að tölvukerfið hefði verið óvirkt. Hefði þetta því verið bráðabirgðakvittun til að staðfesta móttöku greiðslunnar. Í slíkum tilvikum hefði venjan verið sú að tvö afrit þessara kvittana færu í bókhald félagsins. Hefðu þau þá verið send til gjaldkera sem léti bóka þetta hjá bókurum félagsins, sem aftur kölluðu eftir því í framhaldi að gefinn yrði út reikningur vegna viðskiptanna. Þá sagði hann að peningagreiðslur hefðu verið lagðar í peningakassa á staðnum sem starfsmenn verslunarinnar hefðu haft aðgang að með lykli. Hefðu þær sjaldnast verið lagðar inn á bankareikning strax. Hefði verið reynt að miða við að innlegg á banka ætti sér stað ekki sjaldnar en einu sinni í viku.
Niðurstaða
Fyrir liggur í málinu kvittun til Georgs Más undirrituð af ákærða, fyrir hönd Fóðurblöndunnar hf., vegna 100.000 króna innborgunar í peningum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá félaginu eru engin merki þess að fyrrgreind fjárhæð hafi skilað sér inn á bankareikninga þess í kjölfarið eða að einhver færsla finnist í bókhaldi um þessa innborgun. Þá hefur ekki verið gerður reikningur í nafni félagsins vegna þessara viðskipta. Samkvæmt þessu, með vísan til vitnisburðar Georgs Más Baldurssonar um afhendingu peningaupphæðarinnar til ákærða vegna kaupa á hinu tilgreinda fjórhjóli, og þar sem ákærði hefur engar skýringar gefið á tilurð kvittunarinnar og þá hvað orðið hafi af greiðslunni sem um ræðir, telur dómurinn fram komna nægilega sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir því að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið. Hefur ákærði með því gerst sekur um fjárdrátt er varðar við 247. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður VII
Fram kemur í kæru að viðskiptavinur kæranda, Hallgrímur Agnar Jónsson, hafi upplýst að hann hafi greitt ákærða 90.000 krónur í peningum fyrir viðgerð á fjórhjóli af gerðinni Leopard. Hafi viðgerðin átt að kosta í kringum 115.000 krónur en ákærði gefið honum afslátt gegn staðgreiðslu. Segir svo í kærunni að engin merki hafi fundist í bókhaldi fyrirtækisins um að greiðsla þessi hafi skilað sér til þess og engin kvittun hafi heldur fundist vegna hennar. Þá kemur fram í greinargerð frá kæranda að engin verkbeiðni hafi fundist vegna viðgerðarinnar.
Þegar skýrsla var tekin af ákærða hjá lögreglu 28. nóvember 2008 kannaðist hann ekki við að gert hefði verið við hjólið hjá Fóðurblöndunni eða að hann hefði tekið við 90.000 króna peningagreiðslu vegna slíkrar viðgerðar. Sagðist hann ekki kannast við að maður með framangreindu nafni hefði komið þangað með hjól til viðgerðar. Tók ákærði þá jafnframt fram að bók væri til yfir viðgerðir á hjólum og tækjum hjá Fóðurblöndunni og ætti að sjást hvort viðgerðin hefði farið þar fram eða ekki.
Ákærði kvaðst fyrir dómi viðurkenna að hafa móttekið þá greiðslu sem hér um ræðir, 77.100 krónur, vegna viðgerðar á tveimur fjórhjólum. Þessi greiðsla hefði hins vegar verið fyrir viðgerðarþjónustu sem hann hefði veitt persónulega og hefði hún því ekki verið á vegum Fóðurblöndunnar. Sagði hann að við nánari athugun hefði hann komist að raun um að hann hefði gert við tvö fjórhjól á heimili sínu fyrir umræddan Hallgrím Agnar Jónsson. Sagði ákærði að ástæður þess að þetta rifjaðist upp fyrir honum núna væru þær að haft hefði verið eftir greindum Hallgrími hjá lögreglu að um hefði verið að ræða eitt fjórhjól en ekki tvö og að ákærði hefði móttekið greiðslu að fjárhæð 90.000 krónur en ekki 77.100 krónur eins og sé ákært fyrir. Fram kom hjá ákærða að viðgerð á fjórhjólum hefði ekki fallið undir starfslýsingu hans hjá Fóðurblöndunni. Hins vegar hefði hann séð um að setja þessi hjól saman og það þá verið hluti af hans starfi, án sérstakra greiðslna. Hann hefði verið verslunarstjóri, en frá og með árinu 2007 hefði aðstoðarverslunarstjóri séð um allan daglegan rekstur verslunarinnar, þar á meðal skil peninga, sjóð og gerð reikninga. Þá hefði annar maður verið ráðinn til að sjá um allan lager verslunarinnar. Ákærði kvaðst því almennt ekki hafa komið að viðgerðum á slíkum hjólum í starfi sínu. Hann hefði hins vegar með tíð og tíma aflað sér mikillar þekkingar á þessum hjólum og því reynt eftir getu að aðstoða starfsmenn þegar upp hefðu komið vandamál við að greina bilanir og því um líkt. Um ástæðu þess að hann hefði farið í það sjálfur að gera við hjólin, í stað þess að láta starfsmenn Fóðurblöndunnar annast það, sagði ákærði að viðgerðarmanni sem hefði séð um að gera við slík hjól hefði nokkru áður verið sagt upp störfum. Við það hefði aukist biðtími vegna slíkra viðgerða. Kvaðst ákærði telja líklegt að ákvörðun hans um að framkvæma viðgerðina sjálfur hefði komið til sem viðbrögð við kvörtunum frá Hallgrími vegna langs biðtíma eftir viðgerð hjá Fóðurblöndunni. Hefði hann því ákveðið að fara í það sjálfur að gera við hjólið.
Hallgrímur Agnar Jónsson kvaðst hafa hringt ítrekað í Fóðurblönduna vegna bilunar í tveimur fjórhjólum sem hann hefði þá stuttu áður keypt af félaginu. Hefði loks orðið niðurstaðan að hann myndi koma hjólunum í Fóðurblönduna í Reykjavík og að hjólin yrðu síðan send áfram austur til viðgerðar. Kvaðst vitnið svo hafa verið í sambandi við ákærða einhvern tímann að kvöldi til, eftir að viðgerðin fór fram. Hefði þá orðið að samkomulagi þeirra í milli að vitnið greiddi umrædda fjárhæð, 77.100 krónur, inn á persónulegan reikning ákærða á þeim forsendum að ákærði kæmi síðan þessari greiðslu áfram til fyrirtækisins. Sagðist Hallgrími hafa skilist að þessi fjárhæð væri greiðsla fyrir alla viðgerðina. Hefði fylgt sögunni að viðgerðin félli ekki undir ábyrgð hjólanna. Hjólin hefðu svo verið send daginn eftir í bæinn. Kvaðst hann aldrei hafa heyrt um að ákærði hefði tekið hjólin með sér heim til viðgerðar. Sagðist hann síðar hafa haft samband við Fóðurblönduna að nýju þar sem í ljós hefði komið að ekki hefði verið gert við allt sem gera átti við.
Ásmundur Bjarni Árnason kvaðst ekki hafa vitað til þess að ákærði tæki að sér að gera við hjól á heimili sínu í Fljótshlíð sem komið hefði verið með til viðgerðar hjá Fóðurblöndunni. Hins vegar kvaðst hann vita til þess að ákærði hefði gripið í að gera við hjól á verkstæði félagsins þótt það hefði ekki verið hluti af hans starfi. Hann vissi þó ekki hvort hann hefði unnið við slíkar viðgerðir heima hjá sér, enda hefði öll aðstaða til þess verið prýðileg í starfsstöð Fóðurblöndunnar á Hvolsvelli. Sagði hann mál þetta hafa komið upp með þeim hætti að Hallgrímur Agnar Jónsson hefði haft samband og óskað eftir því að viðgerð sem framkvæmd hefði verið, og hann greitt fyrir, yrði kláruð. Við athugun hefðu engin merki fundist um greiðslu fyrir þessa viðgerð.
Vésteinn Benediktsson kvaðst vita til þess að ákærði hefði unnið við að setja fjórhjól saman og jafnvel að gera við þau. Hann hefði hins vegar ekkert fylgst með því hvar það var gert.
Niðurstaða
Ákærði hefur viðurkennt að hafa tekið við umræddri greiðslu inn á persónulegan bankareikning sinn. Gefur hann þá skýringu að hann hafi sjálfur framkvæmt þá viðgerð á fjórhjólunum sem Hallgrímur Agnar Jónsson hafi beðið um, þar sem Hallgrímur hafi verið orðinn óþolinmóður eftir að ósk hans um viðgerðina færi fram og að mikið hafi verið að gera á verkstæði Fóðurblöndunnar. Ekkert liggur fyrir um það í málinu hvort umrædd viðgerð hafi í raun verið framkvæmd á verkstæði Fóðurblöndunnar. Enda þótt Hallgrímur Agnar hafi borið að hann hafi talið sig vera að senda hjólin í viðgerð til Fóðurblöndunnar, og að ákærði hafi talað um að koma greiðslu vegna viðgerðarinnar áfram þangað, þykir með vísan til þess sem að framan er rakið, og til ákv. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, ekki liggja fyrir nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um sekt ákærða. Verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.
Ákvörðun viðurlaga
Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir eitt þjófnaðarbrot og tvö fjárdráttarbrot, en sýknaður að öðru leyti. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin, með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að þremur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.
Með tilliti til úrslita málsins, og með vísan til 2. ml. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála, verður ákærða gert að greiða helming af 900.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Guðmundar Birgis Ólafssonar hrl., en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Er framangreind fjárhæð ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, Páll Vignir Viðarsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að þremur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði greiði 450.000 krónur af 900.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Guðmundar Birgis Ólafssonar hrl., sem að öðru leyti greiðast úr ríkissjóði.