Hæstiréttur íslands
Mál nr. 171/2010
Lykilorð
- Manndráp
- Tilraun
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 3. júní 2010. |
|
Nr. 171/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn Birki Arnari Jónssyni(Brynjar Níelsson hrl. Guðni Á Haraldsson hrl. réttargæslumaður) |
Manndráp. Tilraun. Skaðabætur.
X var gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa farið grímuklæddur og vopnaður hlaðinni haglabyssu að heimili A, bankað á útidyrnar, rekið byssuhlaup í enni A þegar hann opnaði og síðan skotið fimm skotum úr haglabyssunni, en A hafi áður tekist að loka hurðinni og hafi hann staðið fyrir innan hana. Tvö skotanna hafi hæft hurðina en þrjú farið inn í íbúðina í gegnum rúðu við útidyrnar. Við þetta hafi A hlotið rispu á nefi og hringlaga sár á enni. Fjölskipaður héraðsdómur mat framburð A trúverðugan en lýsingar X á atvikum afar ótrúverðugar. Var talið að ekkert væri fram komið sem gæfi ástæðu til að ætla að sú niðurstaða héraðsdóms væri röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu X og heimfærslu brots hans til refsiákvæða því staðfest. Var brot hans talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar X var litið til þess að verknaður hans hefði verið stórhættulegur og beinst að lífi og heilsu A. Varð þó ekki fullyrt að ásetningur X til skotárásarinnar hefði myndast fyrr en á þeirri stundu er A skellti aftur hurðinni. Með hliðsjón af atvikum öllum þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár. Þá þóttu skaðabætur A til handa hæfilega ákveðnar 600.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.
A krefst þess að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara mildunar á refsingu. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að dæmd fjárhæð verði lækkuð.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa aðfaranótt 15. nóvember 2009 farið grímuklæddur og vopnaður hlaðinni haglabyssu að heimili A, bankað á útidyrnar, rekið byssuhlaup í enni A þegar hann opnaði og síðan skotið fimm skotum úr haglabyssunni, en A hafi áður tekist að loka hurðinni og hafi hann staðið fyrir innan hana. Tvö skotanna hafi hæft hurðina en þrjú farið inn í íbúðina í gegnum rúðu við útidyrnar. Við þetta hafi A hlotið rispu á nefi og hringlaga sár á enni.
Lýsing atvika í ákæru er í samræmi við framburð A hjá lögreglu. Samkvæmt hljóðupptökum af framburði A hjá lögreglu 15. og 20. nóvember 2009 er ljóst að hann lýsir atburðum þá í grundvallaratriðum á sama hátt og hann gerði síðar fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Er því fallist á með héraðsdómi að framburður hans hafi verið staðfastur og breytir þar engu þótt það, sem greindi um frásögn hans í frumskýrslu lögreglu, hafi verið nokkuð á annan veg, en fram hefur komið að A taldi það ekki réttilega eftir sér haft.
Samkvæmt skýrslu ákærða við aðalmeðferð málsins gekk hann rakleiðis að útidyrum á húsi A og hleypti af fimm skotum úr haglabyssu að læsingarbúnaði hurðarinnar án þess að banka á undan. Dyrnar hafi ekki opnast við þetta og hafi hann þá ætlað að opna með því að stinga hendinni inn um gat á gleri við hlið útihurðarinnar, sem brotnað hafi við skotin. Gatið hafi hins vegar ekki verið nógu stórt og hann ætlað að brjóta glerið frekar með byssuhlaupinu, en í því hafi maður litið út um gluggann og fengið byssuhlaupið í ennið. Eins og rakið er í héraðsdómi gaf ákærði fyrst skýrslu hjá lögreglu 16. nóvember 2009, en mundi þá lítið eftir atburðum næturinnar. Síðar sama dag var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur krafa lögreglu um gæsluvarðhald yfir ákærða. Í skýrslu, sem hann gaf fyrir dóminum af því tilefni og ekki er getið í hinum áfrýjaða dómi, kom fram lýsing hans á atburðum, sem í aðalatriðum samræmist því sem að ofan er rakið úr skýrslu hans fyrir dómi, en þá var búið að kynna honum gæsluvarðhaldskröfu lögreglu, þar sem lýsing A á atburðum kom fram. Þetta raskar því ekki þeirri ályktun héraðsdóms að skýrslur ákærða beri þess merki að hann hafi reynt að laga framburð sinn eftir því sem nýjar upplýsingar komu fram í málinu.
Fjölskipaður héraðsdómur mat framburð A trúverðugan en lýsingar ákærða á atvikum afar ótrúverðugar. Er ekkert fram komið sem gefur ástæðu til að ætla að sú niðurstaða héraðsdóms sé röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða því staðfest.
Með hliðsjón af atvikum öllum og þeim atriðum sem rakin eru í hinum áfrýjaða dómi er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár. Til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 16. nóvember 2009.
Engin sérfræðigögn eru í málinu um afleiðingar brots ákærða fyrir andlega hagi A. Að því virtu eru skaðbætur honum til handa hæfilega ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Birkir Arnar Jónsson, sæti fangelsi í fimm ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 16. nóvember 2009 kemur til frádráttar refsingunni.
Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2009 til 7. febrúar 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 671.958 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðna Á. Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2010.
Málið er höfðað samkvæmt ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 22. desember 2009, á hendur Birki Arnari Jónssyni, kennitala 000000-0000, Njörvasundi 37, Reykjavík, fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 15. nóvember 2009 farið grímuklæddur og vopnaður hlaðinni haglabyssu að heimili A að [...], efri hæð, Reykjavík, bankað á útidyrnar og þegar A opnaði, rekið byssuhlaupið í enni hans og síðan skotið fimm skotum úr haglabyssunni en A hafði þá tekist að loka hurðinni og stóð fyrir innan hana. Tvö skotanna hæfðu hurðina en þrjú fóru inn í íbúðina í gegnum rúðu við útidyrnar. Við þetta hlaut A rispu á nefi og hringlaga sár á enni sem sauma þurfti með átta sporum.
Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þá krefst A, kennitala 000000-0000, miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 900.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2009 til 26. desember 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara er þess krafist að ákærða verði gerð vægasta refsing er lög leyfa. Í báðum tilvikum er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi. Þá er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Sunnudagsmorguninn 15. nóvember 2009, klukkan 4:02, barst lögreglu tilkynning um að menn með skotvopn væru staddir fyrir utan húsið að [...] í Reykjavík. Lögreglumenn náðu símasambandi við íbúa í húsinu, A, sem sagði að skotið hefði verið á húsið með haglabyssu, en hann vissi ekki hvort þeir sem það hefðu gert væru enn fyrir utan. Þegar lögreglumenn komu á vettvang reyndust vera skotgöt á útidyrahurð hússins, við hurðarhún og læsingu. Þá voru skotgöt á steindu gleri við hliðina á útidyrahurðinni. Á gangstétt við útidyrahurð voru fimm tóm haglabyssuskothylki. Í anddyri mátti sjá skotgöt á fataskápum. Einnig voru skotgöt á gleri og hurðarstöfum innri hurðar anddyrisins. Glerbrot og að minnsta kosti eitt forhlað voru á gólfi. A og B voru í íbúðinni. Var A með hringlaga sár á enni. Þá var blóðslóð á gólfinu rétt innan við anddyrið og inn á baðherbergi. Hlaðin haglabyssa fannst á rúmi í barnaherbergi og gaf brunalykt til kynna að nýlega hefði verið skotið af byssunni.
Í lögregluskýrslu kemur fram að A hafi skýrt svo frá að bankað hefði verið á útidyrahurðina og þegar hann hefði opnað dyrnar hefði grímuklæddur maður með haglabyssu staðið fyrir utan. Síðan segir að A hafi sagst hafa legið í sófa rétt innan við anddyrið þegar skotið hefði verið á útidyrahurðina og að hann hefði verið heppinn að hafa ekki fengið í sig högl. Hann hafi ekki getað gefið skýringu á því hvernig hann hefði hlotið áverka á enni. Haft er eftir B að hann hefði verið staddur í íbúð sem hann hefði til umráða á neðri hæð hússins þegar hann hefði heyrt tvo skothvelli og svo eins og bifreið væri ekið á brott. Hefði hann sótt haglabyssu sína, hlaðið hana og tekið hana með sér til að líta til með A. Þegar árásarmennirnir hefðu reynst vera á bak og brott hefði hann lagt byssuna frá sér þar sem hún fannst í barnaherberginu. Tekið er fram í skýrslunni að B og A hafi borið þess merki að vera ölvaðir.
Ákærði var handtekinn á heimili sínu á sunnudagskvöldinu eftir að lögreglu hafði borist nafnlaus ábending um að hann hefði verið að verki. Í íbúð ákærða fundust skotvopn, þ. á m. þrjár haglabyssur og fjöldi haglaskota. Þá fundust tvær svartar lambhúshettur þannig gerðar að þær hylja andlit, en op er fyrir augu, munn og nasir.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu á mánudeginum 16. nóvember sl. Sagðist hann hafa farið út að borða með kærustu sinni, C, um klukkan 22:00 á laugardagskvöldinu, en lítið muna atburði næturinnar sökum áfengisneyslu. Hann gæti því hvorki játað né neitað því að hafa átt þátt í skotárásinni í [...]. Nánar spurður sagðist ákærði ekki geta dregið í efa að hann hefði staðið að árásinni, en hann myndi ekki eftir því. Ákærði sagðist vita að A ætti heima að [...]. Vinir A, D, B og F, störfuðu fyrir A í [...] [...]. Vissi hann til þess að þessir menn „væru að leika sér“ að ungum stúlkum. Hefði C „lent illa í“ D og hefði það mál verið kært til lögreglu á sínum tíma. Hefði þetta fengið mjög á C. Ákærði sagðist ekki hafa ráðgert að gera málið upp við D. Hins vegar hefði hann verið að bíða eftir því að hitta þessa menn á „djamminu“ og ræða um þetta við þá þar.
Ákærði var yfirheyrður á ný 18. nóvember sl. Sagði hann frá því að þau C hefðu hitt G á veitingastað í miðborginni um klukkan 2 eða 3 aðfaranótt sunnudags. Hefðu C og G unnið saman í [...] á þeim tíma sem D framdi kynferðisbrot gagnvart C. B hefði einnig unnið með þeim og hefði hann sýnt G kynferðislega áreitni. Þá hefði C einnig sagt að F hefði leitað á hana. Ákærði sagði B hafa sent G textaskilaboð og beðið hana um að hitta sig þetta kvöld. Sagðist ákærði hafa dregið þá ályktun að ekkert lát væri á áreitninni og hefði hann ákveðið að mæta þessum mönnum „face to face“. Hefðu þeir verið staddir á bar í [...] og hann viljað að þau færu að hitta þá þar. Hann hefði hringt H vinar síns til að biðja hann um að aka þeim þangað. Það hefði þó orðið úr að G hefði farið annað, en H ekið þeim C heim til hans að Njörvasundi 37. Þegar þangað kom hefði hann ákveðið að taka með sér haglabyssu, þar sem hann væri að fara að hitta þessa fjóra menn einn síns liðs. Sagðist hann vita til þess að mennirnir ættu byssur og væru mikið að skjóta. H hefði ekið honum að barnum í [...] og hefði hann hringt í C í því skyni að fá hana til að senda mönnunum textaskilaboð um að koma út. Hefði C upplýst að mennirnir væru farnir af barnum. Hann hefði þá beðið H um að aka sér að heimili A að [...]. Þegar þangað kom hefði hann séð bifreið D utan við húsið. Hefði þá komið upp í huga hans hvað D hefði gert C. Sagðist ákærði hafa hugsað með sér að hann gæti náð þeim öllum þarna og eins að þeir væru með skotvopn hjá sér. Hann hefði viljað hræða þá alla í einu. Hefði hann gengið að útidyrahurðinni og skotið öllum fimm skotunum í hurðina. Byssan væri hálfsjálfvirk og hefði hann aðeins þurft að taka í gikkinn til að skjóta. Þetta hefði tekið stutta stund. Hann hefði tekið eftir því að rúða í glugga við hlið hurðarinnar var brotin eftir skothríðina. Hún hefði ekki verið svo mikið brotin að hann gæti stungið hendinni inn, en hann hefði tekið til við að brjóta rúðuna frekar með byssuhlaupinu og stungið byssunni inn um gatið. Þá hefði einhver komið að fyrir innan, sem hefði fengið byssuhlaupið í ennið. Hann hefði þá talið nóg komið og að mennirnir væru nú hræddir. Hefði H ekið honum heim til félaga þeirra, sem búsettur er í nágrenninu, en þar hefði hann skilið byssuna eftir. Hann hefði sótt hana aftur til félagans daginn eftir. Ákærði sagði að þegar hann kom aftur í Njörvasundið hefði I, vinkona C, verið komin þangað. Hefði C beðið hana um að koma þar sem hún hefði ekki viljað vera ein og hefði I verið að hugga C. Hefði hann sagt C að hann hefði hrætt mennina með því að skjóta á hurðina. Skömmu síðar hefði G hringt og sagst hafa séð lögreglubifreiðar við heimili A. Ákærði sagðist hafa verið mjög reiður þessa nótt. Hann hefði verið búinn að drekka mikið áfengi og auk þess tekið 110 ml af lyfinu testosteron um kvöldið. Spurður um lambhúshettur sem fundust á heimili hans sagðist ákærði hafa tekið slíka lambhúshettu með sér til að virka ógnandi. Ákærði sagðist hafa staðið í um tveggja til þriggja metra fjarlægð frá hurðinni þegar hann skaut að svæðinu í kringum hurðarhúninn. Hann hefði skotið öllum 5 skotunum beint á hurðarhúninn. Hefði rúða í glugga við hlið hurðarinnar brotnað við þetta. Sagðist ákærði áður hafa séð inn um gluggann og hefði enginn verið fyrir innan dyrnar. Hann hefði farið að brjóta glerið frekar með byssuhlaupinu. Hann hefði reynt að opna hurðina utan frá en ekki getað það. Því hefði hann hugsað sér að reyna að opna hurðina innan frá. Þá hefði einhver komið að glugganum og fengið byssuhlaupið í ennið. Ákærði sagði að byssan hefði verið óhlaðin á þeirri stundu. Hann sagði það ekki hafa verið ætlun sína að meiða A.
Tekin var skýrsla af ákærða fyrir dómi við fyrirtöku vegna framlengingar gæsluvarðhalds 20. nóvember sl. Sagðist ákærði hafa miðað á hurðarhúninn, en greinilegt væri af ljósmyndum að eitt eða tvö skot hefðu skeikað og högl farið inn í gegnum gluggann. Beðinn um að útskýra tilkomu áverka á enni A sagði ákærði að þegar hann hefði verið búinn að skjóta höglunum í hurðina og séð að glugginn við hliðina var brotinn hefði hann ætlað að brjóta glerið með byssuhlaupinu. Þá hefði A komið aðvífandi, öskrandi hvað væri í gangi og stungið höfðinu út. Við þetta hefði hann óviljandi rekið byssuhlaupið í A.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 26. nóvember sl. sagðist ákærði hafa verið mjög ölvaður í umrætt sinn. Hann hefði ekki undirbúið árásina að [...]. Hann hefði tekið með sér haglabyssu, lambhúshettu og skotbelti með haglaskotum og hlaðið byssuna í bifreiðinni við húsið að [...]. Það hefði verið „ógeðsleg tilfinning“ að sjá bifreið D við húsið. Hann hefði brotnað saman og séð fyrir sér hvernig D hefði brotið gegn C í þessari bifreið. Hefði honum fundist réttast að hræða D svo illa að hann myndi aldrei gera svona lagað aftur. Aðspurður sagðist ákærði ekki hafa athugað hvort einhver var heima áður en hann lét til skarar skríða. Hann hefði verið með lambhúshettu á höfði til að vekja ótta þeirra sem væru í húsinu. Ákærði sagðist hafa gengið að útidyrahurðinni og staðið í tveggja til þriggja metra fjarlægð frá henni. Hann hefði miðað á hurðarhúninn og skotið fimm skotum á hurðina. Hann hefði þurft að toga í gikkinn við hvert skot. Spurður hvað hann hefði gert hefði hann komist inn í íbúðina sagði ákærði að hann hefði áreiðanlega ekki gert neitt. Spurður um það sem hefði komið fram hjá honum við fyrri skýrslutöku, að hann hefði viljað hitta B, D, F og A „face to face“, sagðist ákærði hafa viljað hitta þá með C og G til að „ná rétti þeirra fram“. Hann hefði viljað veita þeim stuðning svo að þær þyrðu að ræða um málin við þá. Ákærði sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir hættuástandinu sem skapaðist af skotárásinni. Þegar hann bar að garði hefði bifreið D verið utan við húsið, en auk þess sendibifreið B og sendibifreið merkt [...]. Hann hefði talið að A væri ekki heima þar sem bifreið hans hefði ekki verið fyrir utan.
A gaf skýrslu hjá lögreglu sunnudaginn 15. nóvember sl. Sagðist A hafa verið á bar í [...] um nóttina ásamt B, D og F. Hefðu þeir B farið samferða heim og B, sem byggi í kjallaranum, farið niður til sín. Sagðist A hafa sest í sófa í sjónvarpskrók og horft á mynd í sjónvarpi. Hann hafi verið við það að sofna þegar bankað hefði verið á útidyrahurðina. Allt hefði gerst mjög snöggt, en þegar hann opnaði hurðina hefði hann séð mann með dökka lambhúshettu standa fyrir framan sig og því næst fengið þungt högg í ennið, en náð að loka hurðinni. Hefði hann hlaupið inn á baðherbergi og taldi sig hafa heyrt skothvelli. Inni á baðherberginu hefði hann hringt til B og beðið hann um að hringja í lögreglu. Hefði B komið upp einhverju síðar og A þá orðið að hleypa honum inn um bílskúrshurðina, því að útidyrahurðin hefði verið skemmd.
Við skýrslutöku 20. nóvember sl. lýsti A nánar því sem hefði gerst eftir að hann opnaði hurðina. Hefði hann séð mann með lambhúshettu og skotvopn um leið og hann opnaði. Maðurinn hefði rekið byssuhlaupið í ennið á honum. Hann hefði skellt hurðinni aftur um leið. Hann hefði heyrt byssuhvelli og ryk, drasl og glerbrot þyrlast upp í kringum hann. Hann hefði þá forðað sér inn á baðherbergi. Sagðist A ekki hafa verið í meira en ½ metra fjarlægð frá útidyrahurðinni þegar skothríðin dundi yfir. Aðspurður sagðist hann ekki hafa litið út um gluggann við hlið hurðarinnar, enda myndi engum heilvita manni detta það í hug við þessar aðstæður.
Í skýrslu lögreglu um rannsókn á vettvangi að [...] kemur fram að ekki var hægt að opna útidyrahurð þar sem læsingarjárn hafði aflagast eftir að skotið hefði verið á hurðina. Hefðu a.m.k. tvö skot hafnað í læsingarjárni og a.m.k. þremur skotum verið skotið á steind gler við hlið útidyrahurðarinnar. Inni í anddyri mátti sjá að skot höfðu hafnað í fataskáp sem stóð beint á móti steinda glugganum í 53 sentímetra fjarlægð. Þá höfðu högl hafnað í millihurð sem skilur anddyri og íbúð að og brotið gler í hurðinni. Í skýrslu um rannsókn á haglabyssu, sem haldlögð var og ákærði vísaði á sem það vopn sem hann notaði við verknaðinn, kemur m.a. fram að ekki hefði verið unnt að skjóta fimm haglaskotum í einu með því að taka einu sinni í gikkinn. Byssan væri hálfsjálfvirk. Skýrslu tæknideildar fylgja ljósmyndir af vettvangi og af haglabyssunni.
Meðal gagna málsins er vottorð J heimilislæknis, dagsett 23. nóvember 2009, þar sem kemur fram að A hefði leitað á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss aðfaranótt 15. nóvember sl. Hefði hann tjáð lækni að skotið hefði verið úr haglabyssu allt í kringum hann á heimili hans og hann síðan virst hafa verið sleginn í ennið með byssuhlaupinu. Við skoðun hefði hringlaga sár sést á enni sem var opið til hálfs og var hluti flipans frá beini. Einnig var rispa á nefi sem seytlaði úr. Útlit flipans var mjög reglulegt eins og beitt hefði verið hringlaga hlut, mögulega byssuhlaupi. Var sárið saumað með 8 sporum.
Þá er í gögnum málsins afrit dagbókar lögreglu þar sem kemur fram að 1. júlí 2009 hafi C mætt á lögreglustöð og lagt fram kæru á hendur D fyrir kynferðisbrot. Hafi rannsókn málsins verið hætt og ríkissaksóknari staðfest þá ákvörðun lögreglustjóra með bréfi til réttargæslumanns C, dagsettu 16. september 2009.
Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 16. nóvember sl. og hefur hann sætt gæsluvarðhaldi síðan.
Í málinu er skýrsla K geðlæknis, dagsett 12. janúar 2010, um geðheilbrigðisrannsókn ákærða. Kemur þar fram að niðurstaða geðlæknisins sé sú að ákærði sé sakhæfur. Hann hafi áreiðanlega verið undir áhrifum áfengis þegar brotið var framið, sem geti hafa haft viss áhrif á hegðun hans. Auk þess sé þekkt að sterar valdi hegðunarbreytingu eins og aukinni árásargirni og hvatvísi. Mál kærustu ákærða virðist þó hafa verið ákærða efst í huga og gert útslagið um gerðir hans. Geðræn einkenni leiði ekki til ósakhæfis samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga. Þau útiloki ekki fangelsisvist né að refsing komi að gagni. Segir í niðurlagi skýrslunnar að ákærði hafi að upplagi marga góða hæfileika og mikilvægt sé að hann nái að vinna úr þessu áfalli á réttan hátt.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði sagði þau C hafa hitt G á veitingastað í miðborginni umrædda nótt. Talið hefði fljótlega borist að fjórmenningunum B, D, A og F. G, sem hafði verið við störf í [...] að undanförnu, sagði mennina hafa byrjað að áreita sig eftir að hún kom til Íslands. Hefði B sent henni textaskilaboð og sagst vilja hitta hana. Þá sagði ákærði C hafa greint sér frá því sumarið 2009 að D hefði misnotað hana kynferðislega. Hefði það mál verið kært til lögreglu.
Ákærði sagðist hafa beðið G um að senda mönnunum textaskilaboð og mæla sér mót við þá. Ætlaði hann að fara með stúlkunum og standa að baki þeim, fá þá til að „feisa“ þessar sakir og sjá viðbrögð þeirra. Hefði C sent mönnunum textaskilaboð og beðið þá um að hitta þær G. Ákærði sagðist hafa hringt í H félaga sinn sem hefði komið að sækja þau C, en G hefði orðið eftir. C hefði verið orðin mjög ölvuð. Hefði H ekið þeim að heimili ákærða í Njörvasundi og hún orðið eftir þar. Ákærði sagðist hafa ákveðið að taka með sér byssu þar sem hann væri að fara að hitta fjóra menn og hann vissi til þess að a.m.k. D og B ættu skotvopn. Aðspurður sagðist ákærði þó ekki hafa búist við að mennirnir væru vopnaðir á barnum þar sem hann ætlaði að finna þá. Þegar þangað kom sagðist ákærði hafa beðið C um að senda mönnunum textaskilaboð, en hún hefði þá sagt honum að þeir væru farnir heim. Hann hefði þá farið að [...], þar sem hann vissi að þeir væru oft í samkvæmum þar. Þegar hann hefði komið að húsinu hefði hann séð bifreið D þar fyrir utan. Hann hefði þá farið að hugsa um það sem C hafði sagt honum að D hefði gert henni í þessari bifreið. Hann hefði talið að D væri í húsinu fyrst bifreiðin væri þarna. Því hefði hann ætlað að bera upp á hann þessar sakir, fá hann til að játa og „koma öllu upp á borðið“. Hann hefði gripið haglabyssuna og ætlað að „gera þetta voða sálrænt“, fara inn með látum og öskrum og fá D til að játa brot sín. Ef D játaði misnotkunina myndi hann snúa sér til lögreglu og kæra málið.
Ákærði sagðist hafa gengið rakleiðis að húsinu. Hann hefði ekki barið að dyrum heldur skotið öllum 5 skotunum í byssunni beint að hurðarhúninum. Tilgangurinn með því hefði verið „þetta sálræna“. Hann hefði ætlað að koma inn með látum og valda ofsafenginni hræðslu. Hann hefði hlaðið byssuna í bifreiðinni nokkrum sekúndum áður, en tekið öryggið af um leið og hann tók í gikkinn til að skjóta. Ákærði sagðist hafa vitað að enginn var fyrir innan dyrnar þar sem hann hefði séð móta fyrir því inn um gler í glugganum við hlið útidyrahurðarinnar ef svo hefði verið. Fyrirætlanir hans hefðu ekki gengið eftir þar sem dyrnar hefðu ekki opnast eins og hann hefði ætlast til. Hann hefði ætlað að opna dyrnar utan frá með því að stinga hendinni inn um gat á glerinu í glugganum sem hafði brotnað að litlum hluta. Hann hefði ætlað að nota byssuhlaupið til að brjóta glerið frekar svo að gatið yrði nægilega stórt í þessu skyni. Í sömu andrá hefði maður kíkt út um gluggann og fengið byssuhlaupið í ennið. Ákærði sagðist hafa litið í gegnum gatið þegar hann varð þess var að einhver fyrirstaða var fyrir innan gluggann. Hann hefði þá séð mann standa fyrir innan innri hurðina í anddyrinu. Hann hefði gert sér grein fyrir því að allt hefði klúðrast. Hann hefði ekki ætlað að meiða neinn. Maðurinn hefði staðið hreyfingarlaus og snúið andlitinu að honum. Hann hefði enga áverka séð á honum. Við þetta hefði maðurinn séð lambhúshettuna sem hann var með yfir höfðinu.
Ákærði sagðist hafa kynnt sér lögregluskýrslur A og jafnframt það sem haft væri eftir honum í frumskýrslu lögreglu. Sagðist ákærði álíta lýsingar A á atvikum misvísandi. Hann vísaði því á bug að hafa knúið dyra og A þá opnað dyrnar, eins og A hefði lýst.
Borinn var undir ákærða framburður C og G, sem höfðu eftir honum við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði sagt þeim eftir atvikið að hann hefði barið að dyrum og sköllóttur maður komið til dyra sem hann vissi ekki hvort væri A eða D. Ákærði sagðist hafa kynnt sér skýrslur vitnanna og vísaði því á bug að hann hefði sagt þetta við þær.
Ákærði sagði að þegar hann hélt að [...] hefði hann talið að fjórmenningarnir væru þar. Hann hefði verið búinn að drekka áfengi, auk þess sem hann hefði neytt 100 ml af lyfinu testosteron tvisvar sinnum í viku og hefði gert um þriggja mánaða skeið þegar þetta gerðist. Hann sagðist ekki hafa fundið fyrir skapgerðarbreytingum vegna þessarar lyfjanotkunar.
Ákærði sagðist þess fullviss, miðað við það sem hann sá inn um gluggann við útidyrahurðina, að engum hefði stafað hætta af því þegar hann skaut. Hann hefði staðið hægra megin á móti hurðinni og skotið skáhallt niður til vinstri.
Ákærði sagðist vita hvernig F og B litu út og hafa séð myndir af D, en ekki þekkja A í sjón. Hins vegar þekkti hann bifreiðar þeirra allra.
Hann hefði staðið í um þriggja metra fjarlægð frá útidyrahurðinni þegar hann skaut. Þetta hefði verið gegnheil eikarhurð og hann hefði séð að skotin myndu ekki fara í gegn um hana. Það hefði tekið tvær til þrjár sekúndur að skjóta skotunum.
Vitnið A sagðist hafa legið í sófa og verið að horfa á bíómynd þegar bankað hefði verið á útidyrahurðina. Hann hefði farið til dyra og opnað hurðina. Þá hefði hann séð mann með skíðahúfu yfir höfðinu, sem hann lýsti síðar sem svartri lambhúshettu með göt fyrir augu. Á sekúndubroti hefði hann fengið eitthvað í andlitið, sem hann áttaði sig síðar á að var byssuhlaup. Hann hefði skellt hurðinni aftur, en þá hefðu skotin dunið á hurðinni og síðan rúðunni við hlið dyranna. Anddyrið hefði fyllst af ryki og dufti og allt verið út um allt. Hann hefði hlaupið inn á baðherbergi, gripið símann með sér og hringt til B á neðri hæðinni, sem reyndist hafa vaknað við lætin. Mikill hávaði hefði fylgt skothríðinni.
Vitnið sagðist hafa staðið á bakvið hurðina þegar hann skellti henni aftur. Taldi hann hafa skipt sköpum að hann hefði skellt hurðinni aftur með vinstri hendi, þar sem hann er örvhentur, en það hefði gert að verkum að hann hefði verið í betra skjóli á bakvið hurðina en ella. Glerbrot, viður og ryk hefðu þyrlast upp í kringum hann og hann hefði „bara stungið af“. Hann áttaði sig ekki á því hvað mörgum skotum hefði þá verið skotið. Enginn vafi léki á því að hann hefði verið í lífshættu þegar þetta gerðist.
Vitnið sagðist ekkert hafa verið í samskiptum við G eða C þessa nótt og ekki vita um samskipti þeirra við aðra í hópi fjórmenninganna sem hann hafi verið að skemmta sér með um nóttina. Hann hefði verið undir áhrifum áfengis, en ekki ofurölvi.
Vitnið vísaði því á bug sem haft var eftir honum í frumskýrslu lögreglu að hann hefði legið í sófa rétt innan við anddyrið þegar skotið hefði verið á útidyrahurðina. Hann hefði ekki sagt þetta, enda ætti þessi lýsing ekki við rök að styðjast.
Þá vísaði vitnið því alfarið á bug að hafa litið út um gluggann við hlið útidyrahurðarinnar eftir að skotárásin var yfirstaðin. Hlægilegt væri að ætla að hann hefði gert það, nema hann hefði vísvitandi ætlað að láta drepa sig. Vitnið sagði innan við sekúndu hafa liðið frá því hann skellti hurðinni aftur þar til skotin riðu af og hann hefði þá staðið alveg við hurðina.
Vitnið B sagði þá A hafa fylgst að heim rétt fyrir klukkan fjögur um nóttina og hefði hann farið niður til sín. Hann hefði lagst í sófa og kveikt á sjónvarpi. Hann hefði rétt verið farinn að dotta þegar hann hefði vaknað upp við „svakalegan“ hávaða. Hann hefði umsvifalaust hringt til A sem hefði sagt honum að verið væri að skjóta á sig og beðið hann um að hringja til lögreglu. Sagðist vitnið hafa hringt í símanúmer Neyðarlínunnar og tilkynnt um skotárásina. Hann hefði svo hringt aftur til A sem hefði beðið hann um að koma og aðstoða sig. Vitnið sagðist hafa stokkið í föt og farið upp á efri hæð hússins. Þegar þangað kom hefði ekki verið hægt að opna útidyrahurðina, en lás hennar var sundurskotinn. Þá hefði gler í glugga við hliðina á útidyrunum verið brotið. Vitnið sagðist hafa kallað til A um gatið í rúðunni og hefði hann komið fram og hleypt sér inn um bílskúrshurðina. A hefði verið blóðugur og sagt honum að hann vissi ekki hvað hefði gerst, einhver hefði komið og ráðist á hann.
Vitnið sagðist hafa gripið með sér haglabyssu áður en hann fór upp á efri hæðina. Byssan hefði verið handbær þar sem hann hefði verið á rjúpnaveiðum fyrr um daginn og ekki búinn að ganga frá henni. Hann sagði vel geta hafa verið púðurlykt af byssunni þar sem hann hefði skotið af henni fyrr um daginn. Hann hefði ekkert beitt byssunni þarna á vettvangi.
Vitnið sagðist hafa verið að skemmta sér um kvöldið með A, D, F og þremur starfsstúlkum úr [...]. C hefði hringt í hann þar sem þau voru stödd á bar við [...]. Hún hefði spurt hvort þeir vildu hitta þær G og hann sagt að þær gætu komið ef þær vildu. Síðar um nóttina hefði hann sent henni textaskilaboð til að láta hana vita að hann væri að fara heim.
Vitnið kannaðist við að hafa sent C textaskilaboð 17. júní 2009. Það kvöld hefðu þeir F verið í heimsókn hjá A ásamt G. Hefði G verið að velta fyrir sér hvort C gæti komið til þeirra. Hann hefði þá sent C svohljóðandi skilaboð: „Dömpaðu kærastanum og komdu til okkar.“ Þetta hefði verið grín af hans hálfu, en C hefði áður sagt honum að hún væri á leið í kvikmyndahús með kærastanum. Vitnið sagði að C hefði síðar sagt honum að kærastinn hefði lesið skilaboðin af síma hennar og orðið „brjálaður“.
Vitnið F sagðist hafa verið að skemmta sér með B, D og A og hefðu þeir verið á bar við [...]. Þegar hann var á heimleið hefði B hringt til hans og sagt honum að C og G væru á leiðinni að hitta þá. Hann hefði hins vegar farið heim.
Vitnið sagðist hafa haft samband við G daginn eftir atvikið og hefði hún beðið hann um að líta til sín. Hann hefði sótt hana á bifreið sinni og hún þá lýst samskiptum þeirra C og ákærða um nóttina. Hefði G meðal annars sagt honum að hún hefði mælt sér mót við ákærða eftir atvikið í [...] og hefði ákærði þá sagt henni að hann hefði skotið nokkrum skotum í hurðina, en hurðin hefði ekki opnast og hann því hlaupið í burtu. Hafði vitnið jafnframt eftir G að ætlun ákærða hefði verið að drepa D og brjótast inn í íbúð B, hella sýru yfir rúmið hans og brjóta allt og bramla í íbúðinni. Síðan hefðu þau C ætlað að safna saman þeim stúlkum sem D hefði átt kynferðismök við, fara með þær heim til konunnar hans D og segja henni allt af létta.
Aðspurður sagðist vitnið muna eftir því sem komið hefði fram hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu 18. nóvember sl. að G hefði sagt að ákærði ætlaði að drepa D. Skýrsla vitnisins hjá lögreglu var tekin upp á hljóðmyndband, sem liggur fyrir í málinu. Í skýrslunni kemur fram hjá vitninu um þetta atriði að G hafi haft eftir ákærða að „planið“ hafi verið þannig að „þau ætluðu að koma og þau ætluðu að stúta D og B“.
Vitnið D sagðist þekkja C sem vinnufélaga, en ekki þekkja ákærða neitt. Vitnið staðfesti að hafa verið kærður til lögreglu fyrir kynferðisbrot gegn C, en að hætt hefði verið rannsókn þess máls. Hann sagðist hafa verið með A, F og B og einhverjum stúlkum, sem ynnu í [...], þessa nótt. Þau hefðu verið að drekka áfengi, fyrst að [...], en síðan á bar við [...]. Hefði hann komið á bifreið sinni í samkvæmið í [...], en skilið hana eftir þar fyrir utan þegar farið var á barinn. Vitnið sagðist engin samskipti hafa átt við C eða G og hefði hann ekki vitað til þess fyrr en daginn eftir að félagar hans hefðu verið í einhverjum samskiptum við þær.
Vitnið G sagði frá því að hún hefði hitt C og ákærða á veitingastað í miðborginni og hefðu þau tekið tal saman. Hefðu þau rætt um samskipti B, A og D við starfsstúlkur [...], en þeir hefðu í gegnum tíðina viðhaft kynferðislegt tal við þær og sent þeim ótilhlýðileg textaskilaboð. C hefði kært D fyrir kynferðisbrot og G hefði fengið textaskilaboð og símhringingar frá B. Vitnið sagði ákærða ekki hafa verið sáttan við þessa menn og viljað hefna sín, aðallega á D og B. Hefði hann talað um að rétt væri að C segði konu D af því sem hefði gerst og svo yrði eitthvað gert í framhaldi af því. C hefði hringt til B, en ákærði verið í símasambandi við einhverja menn sem hann hefði verið að biðja um að koma með sér að hitta fjórmenningana. Ákærði hefði haft orð á því að hann yrði að „vera þungur“, þar sem þeir yrðu fjórir þarna. Hefði C útskýrt fyrir henni að það þýddi að hann ætlaði að vera með byssu. Eftir þetta hefðu skilið leiðir og hún hefði haldið áfram að skemmta sér. Hún hefði hitt frænda sinn í bænum og beðið hann um að aka með sér fram hjá heimili B, þar sem hún hefði vitað að ákærði væri að fara þangað. Hún hefði þá séð að lögreglan var komin að húsinu. Vitnið sagðist hafa hringt til ákærða og þau mælt sér mót í [...]. Frændi hennar hefði ekið henni þangað og hefðu þau hitt ákærða og C sem voru í bifreið sem einhver stúlka ók. Sagðist vitnið hafa sest hjá ákærða í aftursæti bifreiðarinnar. Hefði hann sagt henni að þegar einhver kom til dyra í [...] hefðu skotin í byssunni verið búin, en hann hefði notað þau á bílskúrshurðina. Þá hefði hann sagt henni að slökkva á farsímanum sínum ef lögreglan skyldi reyna að hafa samband við hana. Hefði ákærði sagt henni að hann hefði skotið á bílskúrshurðina og bílinn hans D. Einhver hefði komið til dyra og hann þá forðað sér. Þetta hefði bara verið lítil heimsókn, meira yrði gert næsta kvöld.
Vitnið sagði ákærða ekki hafa nefnt að hann hefði bankað á dyrnar. Spurð um það sem kom fram í skýrslu hennar hjá lögreglu 16. nóvember sl., að ákærði hefði barið á dyr hjá A og sköllóttur maður komið til dyra, sagði vitnið F hafa sagt sér frá þessu daginn eftir atvikið. F hefði haft þetta eftir B.
Borið var undir vitnið það sem kom fram hjá henni í sömu lögregluskýrslu að ákærði hefði sagt að hann hefði ekki vitað hvort það var A eða D sem kom til dyra þar sem þeir væru báðir sköllóttir. Sagði vitnið að ákærði hefði sagt henni að dyrnar hefðu verið opnaðar og einhver sköllóttur maður komið til dyra, en þá hefðu skotin verið búin og hann forðað sér af vettvangi.
Vitnið sagðist vita að ákærði hefði farið þarna í því skyni að hefna sín. Borið var undir hana það sem kom fram í lögregluskýrslu F að hún hefði sagt honum á sunnudeginum að „planið“ hefði verið þannig að það hefði átt að „stúta D og B“. Jafnframt það sem kom fram hjá F fyrir dómi að hún hefði sagt honum að ætlun ákærða hefði verið að drepa D og brjótast inn í íbúð B, hella sýru yfir rúmið hans og brjóta allt og bramla í íbúðinni, safna síðan saman þeim stúlkum sem D hefði átt kynferðismök við, fara með þær heim til konunnar hans D og segja henni allt af létta. Vitnið kannaðist við að ákærði hefði sagt henni á veitingastaðnum um nóttina að þetta væri eitthvað sem hann væri búinn að vera að „pæla í“ og hefði staðið til. Hún tók fram að hún vissi ekki hvort „stúta“ hefði haft þá merkingu að til stæði að drepa D.
Vitnið sagði ákærða hafa verið reiðan B vegna textaskilaboða sem B hefði sent C 17. júní sl. og hún taldi hafa verið svohljóðandi: „Dömpaðu kærastanum og komdu og vertu hjá mér í nótt.“
Nánar aðspurð sagði vitnið ákærða aldrei hafa sagt að hann ætlaði að drepa D. Hún væri ekki viss um hvað orðið „stúta“ merkti. Hún hefði ekki tekið því þannig að ákærði ætlaði að fara að drepa D.
Vitnið I sagði C hafa hringt til sín um nóttina og beðið sig um að koma til hennar í Njörvasundið. C hefði verið ofurölvi og átt erfitt með að standa í fæturna. Ákærði hefði ekki verið heima. C hefði verið grátandi og verið að ræða um málið sem kom upp þegar hún vann í [...], en hún hefði sagt mann sem vann þar hafa nauðgað sér. Hefði C rætt við ákærða í síma, en hann hefði sagst hafa verið að leita að einhverjum manni en væri á leið heim. Skömmu síðar hefði ákærði komið. Hann hefði verið sýnilega ölvaður, sveittur og móður, en samt rólegur. Hann hefði farið að tala um að hann hefði verið einhvers staðar og skotið á dyr, en hún hefði ekki trúað honum. Hann hefði nefnt að bifreið hefði verið þarna fyrir utan sem henni skildist að „nauðgarakarlinn“ ætti. Vitnið sagði ekki rétt sem kom fram hjá henni við skýrslutöku hjá lögreglu 18. nóvember sl. að ákærði hefði sagt við hana að hann hefði bankað á dyrnar. Hún hefði haft þetta úr umfjöllun í fjölmiðlum eftir atvikið. Nánar aðspurð sagði vitnið ákærða hafa sagt sér að hann hefði „farið fyrir utan húsið“ og „skotið í lásinn“. Það sem hefði komið fram hjá henni við skýrslutöku, um að ákærði hefði bankað á dyrnar og einhver komið til dyra, hefði verið eitthvað sem hún hefði getið sér til um atburðarásina eftir að hafa lesið um málið í fjölmiðlum.
Vitnið sagði ákærða ekki hafa talað um að hann hefði ætlað að drepa einhvern. Hann hefði sagst hafa verið með byssu til að ógna.
Vitnið sagði þau þrjú hafa farið út að keyra eftir þetta. G hefði hringt í ákærða og þau farið að hitta hana í [...]. Ákærði og G hefðu rætt saman í aftursæti bifreiðarinnar, en hún hefði ekki heyrt hvað þeim fór á milli.
Vitnið H sagði ákærða hafa hringt til sín þessa nótt. Hefði ákærði ætlað að ræða við einhvern mann og beðið sig um að koma með. Vitnið sagðist hafa sótt ákærða og C niður í miðborgina og ekið þeim heim til ákærða. Síðan hefði hann ekið ákærða að [...] þar sem hann hefði ætlað að ræða við þennan mann. Þegar þangað kom hefði maðurinn ekki verið þar, en ákærði hefði verið í símasambandi við einhvern sem hefði sagt honum það. Eftir þetta hefðu þeir ekið upp í [...] og ákærði beðið hann um að leggja fyrir utan hús þar. Ákærði hefði skyndilega stokkið út úr bifreiðinni og svo hefði hann heyrt skothvelli. Þegar ákærði kom aftur í bifreiðina hefði hann fyrst tekið eftir því að hann var með byssu meðferðis. Þeir hefðu farið með byssuna til félaga síns sem býr þarna í nágrenninu. Síðan hefði hann ekið ákærða heim.
Vitnið sagði pallbifreið hafa staðið utan við húsið. Þegar ákærði sá bifreiðina hefði hann sagt „hann er hér“ og ætlað að ræða við þennan mann sem bifreiðin tengdist. Borið var undir vitnið það sem kom fram hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu 19. nóvember sl. að á leiðinni af vettvangi hefði ákærði sagt honum að þessi maður hefði misnotað kærustuna hans. Sagðist vitnið ráma í að ákærði hefði sagt honum þetta eftir að hann var búinn að skjóta. Þá sagði vitnið einhverjar sekúndur hafa liðið frá því ákærði yfirgaf bifreiðina uns hann heyrði skothvelli.
Vitnið C sagði þau ákærða hafa hitt G á veitingastað í miðborginni. Hefðu ákærði og G verið að spjalla saman, en hún hefði lítið fylgst með samtalinu. Hún vissi þó að það tengdist [...]. Vitnið sagði frá því að D hefði verið kærður fyrir kynferðisbrot gegn henni. Þá hefði B verið að „reyna við“ G síðastliðið sumar. Hann hefði sent henni gróf textaskilaboð og reynt að fá hana til sín á kvöldin. G hefði verið að vinna erlendis, en komið til landsins daginn áður en þetta var. Hefði hún sagt þeim að fyrsta símtalið sem hún fékk eftir heimkomuna hefði verið frá G, sem hefði spurt hvort hún ætlaði ekki að koma að hitta hann. Vitnið kannaðist ekki við að nefnt hefði verið að ákærði ætlaði að fara að hitta mennina „þungur“ eða að rætt hefði verið um byssur. Vinur þeirra ákærða hefði komið að sækja þau og ekið þeim heim, en G hefði orðið eftir niðri í bæ. Hún hefði farið rakleiðis að sofa, enda hefði hún verið mjög ölvuð.
Vitnið sagði að ákærði hefði ætlað að hitta þá D og B og ræða við þá. Hún sagði frá því að B hefði sent henni textaskilaboð daginn fyrir 17. júní síðastliðinn þess efnis að hún ætti að hætta í sambandi með ákærða og fara frekar til hans. Þarna um nóttina hefði ákærði sagst ætla að tala við þessa menn og segja þeim að þeir ættu ekki að fara svona með konur. Hefði hann vitað að F, A, D og B voru saman þetta kvöld því að þær G hefðu verið í símasamskiptum við þá og B hefði sent textaskilaboð í síma hennar um að koma og hitta þá á bar við [...].
Vitnið sagði að eftir að hún var orðin ein hefði hún hringt í I og beðið hana um að koma þar sem sér hefði ekki liðið vel. Eftir að I kom hefði hún hringt til ákærða, sem hefði sagst vera í [...], en væri á leiðinni heim. Vitnið sagðist hafa dottað og rumskað við að ákærði var kominn og var að tala við I. Hefði ákærði verið að segja I að hann hefði verið að skjóta á einhvern lás. Hann hefði farið og ætlað að tala við B, en séð bifreiðina hans D fyrir utan og haldið að hann væri inni. Hann hefði skotið fjórum skotum á lásinn og eitt hefði farið í gluggann. Vitnið sagði að eftir að hún kom heim hefði hún fengið textaskilaboð frá B um að hann væri líka að fara heim. Hefði hún sagt ákærða frá þessu þegar hann hringdi til hennar úr [...].
Borið var undir vitnið eftirfarandi sem kom fram í skýrslu hennar hjá lögreglu 18. nóvember sl. sem tekin var upp á hljóð- og myndband: „Síðan erum við bara að tala saman inni í herbergi og ég dotta smá og hérna síðan kemur Birkir heim og þarna er að tala við I og hérna er að segja að hann hafi bara farið ætlað að tala við hann B, sem sagt B eða B sem á sem sagt heima á neðri hæðinni í [...]. Síðan þegar hann hafi séð bílinn hans D [...] fyrir utan þá hafi hann bara farið á efri hæðina og bankað og haldið að þetta hafi verið D sem kom til dyra þar sem þeir eru báðir sköllóttir, D og A, og hafi þá slegið A með hérna byssunni í höfuðið.“ Vitnið sagðist hafa skynjað þetta svona, en eftir að hún ræddi við ákærða eftir að hann losnaði úr einangrun í gæsluvarðhaldi hefði hann sagt henni að þetta væri misskilningur hjá henni og hefði hann lýst því fyrir henni hvernig þetta hefði gengið fyrir sig. Vitnið sagðist muna eftir þessu samtali ákærða og I. Hún myndi eftir að hafa heyrt ákærða segja að hann hefði skotið 5 skotum á lásinn. Þá hefði ákærði sagt þarna um nóttina að hann hefði ekki verið viss hvort það var D eða A sem kom til dyra þar sem báðir væru sköllóttir.
Þá var borið undir vitnið eftirfarandi sem kom fram hjá henni við sömu skýrslutöku þar sem hún hafði eftir ákærða að „hann hefði ekki verið viss um hvort þetta hefði verið D eða A sem kom til dyra“. Sagði vitnið að það hlyti að vera að ákærði hefði sagt þetta þarna um nóttina.
Vitnið L lögreglumaður, sem kom á vettvang að [...] í umrætt sinn, sagði A hafa verið ölvaðan og í miklu uppnámi og hefði ekki verið auðvelt að átta sig á frásögn hans í fyrstu. Hann sagðist hafa skráð hjá sér það sem hefði komið fram hjá A, en ekki spurt hann um atvik.
Vitnið M lögreglufulltrúi gerði grein fyrir rannsókn sinni á haglabyssunni sem um ræðir. Þá gerði vitnið N rannsóknarlögreglumaður grein fyrir rannsókn á vettvangi. Vitnið sagðist telja að þremur skotum hefði verið skotið í gegnum glerið við hlið útidyrahurðarinnar. Gatið á rúðunni hefði verið um það bil 30 sentímetrar á hæð og 10 til 15 sentímetrar á breidd. Engin lýsing hefði verið við bílskúrinn, en smátýra við aðalinnganginn. Mjög erfitt hefði verið að sjá í gegnum glerið, nema þá að rýna í gegnum það. Vitnið sagði erfitt að segja til um hvað skotmaðurinn hefði staðið langt frá hurðinni þegar skotin riðu af, en leiða mætti líkur að því að hann hefði staðið mjög nálægt.
Vitnið K geðlæknir gerði grein fyrir niðurstöðum geðheilbrigðisrannsóknar ákærða. Sagði vitnið að verkið virtist hafa verið unnið af hvatvísi, en ákærði virtist hafa tekið mjög inn á sig lýsingar kærustu sinnar á kynferðisbrotum sem hún hefði orðið fyrir. Erfitt væri að segja til um áhrif steraneyslu í þessu sambandi. Þó væri þekkt að steranotkun geti valdið því að menn verði hvatvísari og reiðari.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hefur ákærði borið að ætlun hans hafi verið að hitta fjórmenningana sem um ræðir og láta þá standa fyrir máli sínu vegna ótilhlýðilegrar hegðunar þeirra í garð starfsstúlkna á vinnustað þeirra. Hefur ákærði jafnframt borið að það hafi fengið mjög á hann að sjá bifreið D fyrir utan húsið að [...]. Hafi hann ætlað að hræða D til þess að játa sakir sínar gagnvart C. Hafi hann skotið á lásinn á útidyrahurðinni og ætlað að brjóta frekar gler í glugga þar við hliðina í því skyni að komast inn í húsið. Hafi A litið út um brotinn gluggann í sömu svipan og byssuhlaupið rekist í hann fyrir slysni.
Lýsing A á atvikum er nokkuð á annan veg. Hefur A borið að barið hafi verið á útidyrahurðina og hann farið til dyra. Þegar hann opnaði dyrnar hafi staðið þar maður með svarta lambhúshettu á höfði. Eitthvað, sem síðar reyndist vera byssuhlaup, hafi verið rekið í andlitið á honum. Hann hafi skellt aftur hurðinni, en haglabyssuskot þá dunið á henni og rúðunni í glugganum við hliðina, sem brotnaði við skothríðina. Hafi fylgt þessu mikill hávaði og glerbrot, viður og ryk þyrlast upp í kringum hann þar sem hann stóð í anddyrinu. Hann hafi því forðað sér inn í íbúðina. Vitnið sagði hlægilegt að ætla að hann hafi litið út um gluggann svo sem ákærði hefði lýst. Sagði vitnið hjá lögreglu að engum heilvita manni myndi detta slíkt í hug við þessar aðstæður.
Að mati dómsins eru lýsingar ákærða á atvikum afar ótrúverðugar. Dómurinn fór á vettvang og skoðaði aðstæður þar. Af þeirri skoðun, lýsingum A og ljósmyndum af vettvangi verður ráðið að mikið hefur gengið á í umrætt sinn og fjarstæðukennt að ætla að A hefði brugðist við skotárásinni með þeim hætti sem ákærði hefur lýst. Þá ber framburður ákærða þess merki að ákærði hefur reynt að aðlaga framburð sinn eftir því sem nýjar upplýsingar komu fram í málinu. Þannig bar ákærði fyrir sig minnisleysi um atvik við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu 16. nóvember sl. Í kröfu um gæsluvarðhald sem ákærða var kynnt við fyrirtöku í héraðsdómi sama dag var rakið efni frumskýrslu lögreglu í málinu, þar sem áverkum A er m.a. lýst. Við skýrslutöku 18. nóvember lýsti ákærði atvikum með þeim hætti að hann hefði skotið á hurðarhúninn og byssuhlaupið rekist í A er hann leit út um brotinn gluggann. Þá kom fram hjá G og C við skýrslutökur hjá lögreglu að sköllóttur maður hefði komið til dyra í umrætt sinn og mátti skilja skýrslur þeirra þannig að þær hefðu þetta eftir ákærða. Jafnframt kom fram hjá A að maðurinn sem knúði dyra hjá honum hefði hulið andlit sitt með svartri lambhúshettu. Þykir mega rekja til þessa framburðar vitnanna lýsingar ákærða, sem fyrst komu fram við aðalmeðferð málsins, um að hann hafi séð inn um brotna rúðuna að sköllóttur maður stóð í anddyrinu og hafi maðurinn séð andlit hans hulið lambhúshettu. Er það niðurstaða dómsins að lýsingar ákærða á því sem gerðist fái ekki staðist. Framburður A, sem áður getur, hefur hins vegar verið staðfastur og er hann í samræmi við rannsóknargögn málsins. Verður framburður hans um atvik, sem er trúverðugur að mati dómsins, lagður til grundvallar í málinu.
Með hliðsjón af framburði A, fyrirliggjandi læknisvottorði og gögnum um rannsókn á vettvangi, telst sannað að ákærði hafi knúið dyra að [...] í umrætt sinn, rekið byssuhlaup í enni A er hann lauk upp dyrum og hafið skothríð er hurðinni var lokað á ný svo sem rakið er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Gat ákærða ekki dulist að maður stóð rétt innan við útidyrahurðina þegar hann hóf skothríð að læsingarjárni hurðarinnar og glugga með þeim afleiðingum að skot fóru inn í anddyrið og dreifðust þar. Verður að telja að það hefði ekki aftrað ákærða að skjóta þótt honum hefði verið ljóst að skotárásin kynni að leiða til líftjóns. Verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði er fæddur í maí 1986. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Við ákvörðun refsingar ákærða verður til þess litið að verknaður hans var stórhættulegur og beindist að lífi og heilsu A. Af framburði ákærða, C, G og H um aðdraganda atlögunnar verður ráðið að ákærði var í hefndarhug er hann hélt af stað með haglabyssu um nóttina og var heiftúðugur í garð D vegna fyrri samskipta hans við C. Verður þó ekki fullyrt að ásetningur hans til skotárásarinnar hafi myndast fyrr en á þeirri stundu er A skellti aftur hurðinni svo sem rakið hefur verið. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1., 3., 5., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 16. nóvember sl. til frádráttar refsingu.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 900.000 krónur auk vaxta. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir tilraun til manndráps. Ber hann skaðabótaábyrgð á tjóni sem brotaþoli hefur orðið fyrir og rakið verður til hinnar refsiverðu háttsemi. Á brotaþoli rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Við ákvörðun bóta verður litið til þess að atlaga ákærða var fyrirvaralaus og átti sér stað á heimili brotaþola. Þá var skotvopni beitt gegn brotaþola. Loks hlaut brotaþoli nokkurn áverka af völdum ákærða svo sem læknisvottorð ber með sér. Verður ákærði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 900.000 krónur svo sem krafist er, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins. Verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 451.800 krónur, þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 249.000 krónur. Málsvarnarlaun og þóknun lögmanna er í öllum tilvikum ákveðin með virðisaukaskatti. Þá greiði ákærði annan sakarkostnað málsins samkvæmt heildaryfirliti ríkissaksóknara, 376.150 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari.
Málið dæmdu Ragnheiður Harðardóttur, settur héraðsdómari, sem dómsformaður, og héraðsdómararnir Sigríður Ingvarsdóttir og Sigurður Hallur Stefánsson.
Dómsorð:
Ákærði, Birkir Arnar Jónsson, sæti fangelsi í 6 ár. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða sem hann hefur sætt frá 16. nóvember 2009.
Ákærði greiði A miskabætur að fjárhæð 900.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2009 til 7. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 451.800 krónur, þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 249.000 krónur. Þá greiði ákærði 376.150 krónur í annan sakarkostnað.