Hæstiréttur íslands

Mál nr. 84/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann


Mánudaginn 12

 

Mánudaginn 12. mars 2001

Nr. 84/2001.

 

Jón Hjörleifsson og

Sigrún Ágústsdóttir

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Mosfellsbæ

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Lögbann.

J og S kröfðust þess að lagt yrði fyrir sýslumann að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum sveitarfélagsins M við gerð göngustígs um lóð varnaraðila með bökkum Varmár á svæði, sem J og S höfðu sjálf lýst yfir að þau hlíttu umferð almennings um, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Af hálfu M var gert ráð fyrir að göngustígurinn yrði 80 til 120 cm breiður og gerður úr trjáspæni og malarefni. Var samkvæmt þessu talið að vandkvæðalítið yrði að afmá stíginn og ummerki eftir hann ef komist yrði að þeirri niðurstöðu í dómsmáli milli aðilanna að M væri óheimilt að leggja hann. J og S voru því ekki talin hafa gert sennilegt að réttindi þeirra myndu fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum þótt dóms væri beðið um ágreining þeirra og M. Var því staðfestur úrskurður héraðsdóms um höfnun lögbannskröfunnar. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum varnaraðila við gerð göngustígs meðfram Varmá á lóð sóknaraðila að Reykjamel 11 í Mosfellsbæ. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, svo sem þeim lögum var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum varnaraðila á lóð sóknaraðila og honum verði gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður úr hendi sóknaraðila.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að málið var upphaflega tekið til úrskurðar eftir munnlegan málflutning 6. desember 2000. Samkvæmt endurriti úr þingbók var málið tekið upp að nýju 2. febrúar 2001, það munnlega flutt og síðan tekið til úrskurðar. Gekk hinn kærði úrskurður sem fyrr segir 7. sama mánaðar.                        

Eins og um getur í hinum kærða úrskurði gerir varnaraðili ráð fyrir að göngustígurinn um lóð sóknaraðila, sem um ræðir í málinu, verði um 80 til 120 cm breiður og gerður úr trjáspæni og malarefni. Af gögnum málsins verður að ætla að fyrirhugaður stígur yrði lagður um lóð sóknaraðila með bökkum Varmár á svæði, sem þau hafa sjálf lýst yfir að þau hlíti umferð almennings um, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Verður samkvæmt þessu að telja að vandkvæðalítið yrði að afmá stíginn og ummerki eftir hann ef komist yrði að þeirri niðurstöðu í dómsmáli milli aðilanna að varnaraðila sé óheimilt að leggja hann. Samkvæmt því verður fallist á með héraðsdómara að sóknaraðilar hafi ekki gert sennilegt að réttindi þeirra muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum þótt dóms sé beðið um ágreining þeirra og varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2001.

Mál þetta var var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 17. nóvember sl. 

Sóknaraðilar eru Jón Hjörleifsson, kt. 250649-4529 og Sigrún Ágústsdóttir, kt. 190950-2719, bæði til heimilis að Reykjamel 11, Mosfellsbæ.

Varnaraðili er Mosfellsbær, kt. 470269-5969, Þverholti 2, Mosfellsbæ, fyrirsvarsmaður Jóhann Sigurjónsson bæjarstjóri, kt. 280957-4969, Víðiteig 26, Mosfellsbæ.

 

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að héraðsdómur leggi fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum varnaraðila við gerð göngustígs með fram Varmá á lóð sóknaraðila við Reykjamel 11, Mosfellsbæ.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.  Við þá ákvörðun verði tekið tillit til skyldu sóknaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Dómkröfur varnaraðila eru þær, að héraðsdómur hafni kröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum varnaraðila við gerð göngustígs með fram Varmá við Reykjamel 11, Mosfellsbæ.  Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 6. desember sl.  Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, áður en úrskurður var kveðinn upp.

I

Atvik máls

Aðdragandi máls þessa er sá, að varnaraðili hyggst gera göngustíg með fram Varmá á lóð sóknaraðila, Reykjamel 11, Mosfellsbæ, sem er úr landi lögbýlisins Blómvangs. Ákvörðun um þá framkvæmd styður varnaraðili við deiliskipulag sem samþykkt var í bæjarstjórn varnaraðila 22. desember 1993 og af skipulagsstjóra ríkisins 20. janúar 1994. Sóknaraðilar telja það heimildarlaust og hafa ítrekað mótmælt þeim fyrirætlunum. Þann 13. október 1999 sendu sóknaraðilar stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála þar sem kærð var samþykkt bæjarráðs varnaraðila frá 23. september 1999 um  að hefja framkvæmdir við lagningu útivistarstígs á lóðinni. Með úrskurði þann 29. júní 2000 hafnaði nefndin kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hefja þær framkvæmdir.  Í framhaldi af því var lögð inn lögbannsbeiðni hjá sýslumanninum í Reykjavík dags. 25. október sl. Þá hafa sóknaraðilar höfðað mál á hendur varnaraðila til að hnekkja greindum úrskurði og leita jafnframt eftir staðfestingu á því að varnaraðila sé óheimilt að gera umræddan göngustíg.

Hinn 31. október sl. var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík lögbannsgerð nr. L-59/2000.  Gerðarbeiðendur voru Jón Hjörleifsson og Sigrún Ágústsdóttir, sóknaraðilar máls þessa, en gerðarþoli var varnaraðili málsins, Mosfellsbær. Lögbannsbeiðnin kvað á um að lagt yrði lögbann við yfirvofandi framkvæmdum gerðarþola við gerð göngustígs með fram Varmá á lóð gerðarbeiðenda við Reykjamel 11, Mosfellsbæ.

Við fyrirtöku lögbannsgerðarinnar komu fram mótmæli af hálfu gerðarþola þar sem hann taldi að skilyrði 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 væru ekki uppfyllt. Þá var m.a. vísað í niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála í máli nr. 50/1999, dags. 29. júní 2000.  Einnig kom fram að gerðarþoli hefði ekki í hyggju að fresta hinum umdeildu framkvæmdum á meðan mál um lögmæti þeirra yrði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Fulltrúi sýslumanns ákvað að þessu loknu að fresta gerðinni til ákvörðunar um lögbannsbeiðnina.  Gerðinni var síðan fram haldið þann 1. nóvember sl. Lauk henni með þeirri ákvörðun fulltrúa sýslumanns að synja gerðarbeiðendum um framgang lögbannsins.  Til grundvallar þeirri ákvörðun lá það mat fulltrúa sýslumanns að gerðarbeiðendur hefðu ekki sannað eða gert sennilegt að athafnir gerðarþola brytu eða myndu brjóta gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðenda og skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 væri því ekki fullnægt.

Þeirri ákvörðun var skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi dags. 2. nóvember sl.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðilar byggja kröfur sínar á því að þau hafi ekki veitt varnaraðila heimild til að fara inn á lóð þeirra til að hefja framkvæmdir við gerð göngustígs með fram Varmá. Til þess að varnaraðili geti hafið framkvæmdir, eins og hann hafi lýst yfir, sem fara um lóð sóknaraðila, verði hann fyrst að afla sér heimildar til þess að lögum, telji hann sóknaraðila aftra sér frá því að neyta þeirra meintu réttinda, sem hann telji sig eiga, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem samþykki sóknaraðila fyrir aðgengi að lóð þeirra liggi ekki fyrir. Það hafi hann ekki gert.

Þá byggja sóknaraðilar jafnframt á því að varnaraðili hafi ekki heimild að lögum til að gera göngustíg á lóð þeirra. Ekki sé heimild fyrir slíku samgöngumannvirki í gildandi skipulagi, hvorki í aðalskipulagi Mosfellsbæjar 1992 - 2012 né deiliskipulagi Blómvangs. Við kynningu deiliskipulagsins hafi þeim verið kynnt að göngustígur yrði ekki lagður um lóð þeirra, þar sem göngustígur væri norðan Varmár og hefði verið þar í tugi ára. Sóknaraðilar hafi aldrei veitt samþykki fyrir gerð sérstaks göngustígs um lóð þeirra, enda þótt þau hafi samþykkt "umgengnisrétt og lagnir meðfram Varmá eins og landslög kveða á um". Í 20. gr. þágildandi laga um náttúruvernd nr. 41/1971, sbr. nú 25. gr. laga nr. 44/1999, hafi einungis verið mælt fyrir um að ekki mætti setja byggingar, girðingar né önnur mannvirki á árbakka þannig að hindri frjálsa umferð fótgangandi manna. Ákvæðið veiti því ekki heimild til sérstakra framkvæmda eða gerð mannvirkis á borð við göngustíg á árbakka. Til þess þyrfti sérstakt samþykki viðkomandi landeiganda. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Fyrrgreint samþykki sóknaraðila geti því ekki falið meira í sér en umgengnisrétt eins og landslög hafi kveðið á um en ekki heimild fyrir varnaraðila til að gera sérstakan göngustíg á lóð þeirra með fram Varmá. Þá hafi sóknaraðilar aldrei afsalað landi til varnaraðila undir göngustíg eða til annarra nota eða varnaraðili gert kröfu um slíkt á grundvelli 30. gr. eldri skipulagslaga nr. 19/1964.

Sóknaraðilar telja að svonefnt umhverfisskipulag Mosfellsbæjar geti ekki haft hér nokkra þýðingu eða falið í sér heimild fyrir varnaraðila til framkvæmda, enda sé það ekki hluti af lögbundnum skipulagsáætlunum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Jafnframt benda sóknaraðilar á að hér sé um takmarkanir á eignarráðum þeirra að ræða og því þurfi að uppfylla skilyrði laga og stjórnarskrár um heimildir til eignarnáms áður en unnt sé að byrja slíka framkvæmd. Þá liggi framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda ekki fyrir. Sóknaraðilar telji einnig að umrædd ákvörðun varnaraðila að hefja framkvæmdir á lóð þeirra sé andstæð stjórnsýslulögum og að málsmeðferð úrskurðarnefndar hafi verið áfátt. Úrskurður nefndarinnar hafi m.a. verið kveðinn upp löngu eftir að lögbundinn afgreiðslufrestur hafi verið liðinn og sóknaraðilum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um gögn frá varnaraðila, sem aflað hafi verið eftir að ákvörðun hafi verið tekin um að hefja framkvæmdir á lóð þeirra, og umsögn varnaraðila.

Sóknaraðilar telja að þar sem varnaraðili hafi ekki samþykkt að stöðva framkvæmdir sínar meðan skorið sé úr þessum ágreiningi fyrir dómi sé sóknaraðilum nauðsyn að krefjast lögbanns á fyrirhugaðar framkvæmdir á lóð þeirra. Lögbannsbeiðnin miði að því að koma í veg fyrir að varnaraðili geti með ólögmætum hætti gert göngustíg á lóð þeirra. Beiðnin sé sett fram á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 og telji sóknaraðilar að öllum skilyrðum til að beiðnin megi ná fram að ganga sé fullnægt, m.a. með vísan til bréfs Mosfellsbæjar, dags. 19. október 2000, um fyrirhugaðar framkvæmdir.

Sóknaraðilar benda sérstaklega á að undanþáguákvæði 3. mgr. 24. gr. komi ekki til álita, þar sem erfitt sé að leggja fjárhagslegan mælikvarða á það tjón sem leiða kunni af hinni ólögmætu framkvæmd. Um sé að ræða brot gegn eignar- og hagnýtingarrétti þeirra og telji sóknaraðilar að regla um skaðabætur og refsingu tryggi ekki skaðleysi þeirra nái lögbannið ekki fram að ganga.

Við umfjöllun lögbannskröfunnar verði líka að hafa í huga að hér sé um að ræða mál sem hafi veruleg áhrif á rétt sóknaraðila og fjölskyldu þeirra og skerði eignarrétt þeirra. Enn fremur sé bent á að ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 23. september 1999 sé haldin margvíslegum ágöllum og geti ekki staðist að mati sóknaraðila. Þá telja sóknaraðilar að ekki sé heimilt að gildandi skipulagi að leggja göngustíg á lóð þeirra og að þau hafi ekki mátt gera ráð fyrir slíku mannvirki miðað við það sem fram komi í gildandi skipulagsuppdráttum og kynningu á kröfu skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.

Sóknaraðilar benda á að varnaraðili hafi heldur ekki aflað sér heimildar til að fara um lóð sóknaraðila til að gera umræddan göngustíg, enda þótt ekki sé unnt að skilja afstöðu hans á annan veg en að hann telji að sóknaraðilar hindri sig í að neyta meintra réttinda sinna.

Sóknaraðilar telja að margvíslegir gallar séu á umræddri ákvörðun bæjarráðs og úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Fyrirsjáanlegt sé að verði framkvæmdir hafnar á lóð sóknaraðila kunni umfjöllun dómstóla um réttmæti aðgerða varnaraðila að verða haldlaus. Þannig sé einungis hægt að tryggja hagsmuni sóknaraðila svo viðunandi sé með því að stöðva framkvæmdir meðan beðið sé efnislegrar niðurstöðu málsins.  Hagsmunir varnaraðila séu ekki eins ríkir að þessu leytinu til og ekki verði séð hvaða hagsmuni hann hafi af því að neita að stöðva framkvæmdir meðan úr þessu máli sé leyst fyrir dómi.

Sóknaraðilar telja með vísan til framangreindra raka öll skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 vera uppfyllt og krefjast þess að héraðsdómur leggi fyrir sýslumann að leggja á áðurnefnt lögbann.

Sóknaraðilar byggja á ákvæðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann, o.fl., 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, meginreglum stjórnsýsluréttar um málefnalegan undirbúning stjórnsýslugernings, stjórnsýslulögum nr. 37/1993, einkum 9., 10., 13., 14., 20., 24. og 25. gr. þeirra laga, skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, reglugerð nr. 621/1997 um úrskurðarnefnd skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eldri skipulagslögum nr. 19/1964, skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sbr. einnig eldri skipulagsreglugerð nr. 318/1985, 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Um málskostnað vísa sóknaraðilar til XXI. kafla laga um meðferð einkamála.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili greinir þannig frá málavöxtum, að sóknaraðilar hafi keypt lögbýlið Blómvang í Mosfellsbæ árið 1989 og ákveðið í kjölfarið að deiliskipuleggja landið með því að skipta því í fjórar lóðir auk Blómvangs.  Eftir að bæjarstjórn varnaraðila hafi á fundi sínum þann 28. júní 1989 heimilað sóknaraðilum að hefja skipulagsvinnu á landinu, að því tilskildu að lögbýlisréttur Blómvangs yrði felldur niður, hafi deiliskipulag landsins verið lagt fyrir skipulagsnefnd til afgreiðslu.  Með bréfi sínu til bæjarráðs, dags. 25. mars 1991, hafi sóknaraðilar óskað eftir því að málið fengi skjóta afgreiðslu, þar sem þau hefðu haft í hyggju að hefja framkvæmdir við hús og lóðir þá um sumarið. Erindi sóknaraðila hafi svarað Jón H. Ásbjörnsson, þáverandi tæknifræðingur varnaraðila, þann 30. apríl 1991, og hafi hann tilkynnt sóknaraðilum að erindið hefði verið tekið til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar þann 23. apríl 1991 og að eftirfarandi bókun hefði verið gerð:

"Skipulagsnefnd fellst á að unnið verði áfram að skipulagi á svæðinu en bendir á að nauðsynlegt er að meðfram ánni verði haldið eftir spildu fyrir lagnir og gangandi umferð. "

Ári síðar, eða með bréfi skipulagsnefndar, dags. 7. maí 1992, hafi sóknaraðilum verið tilkynnt að skipulagsnefnd hefði frestað afgreiðslu málsins, þar sem sóknaraðilar hefðu ekki tekið bókun nefndarinnar frá 23. apríl 1991 til greina. Hafi sóknaraðilar óskað eftir nánari skýringum áðurnefnds Jóns H. Ásbjörnssonar og Ásbjarnar Þorvaldssonar byggingarfulltrúa á því hvað fælist í orðalagi bókunarinnar "spildu fyrir lagnir og gangandi umferð" og hvort ætlunin væri að leggja göngustíg um land þeirra. Hafi varnaraðili alla tíð haldið því fram að með áðurnefndri kvöð, um gangandi umferð, hafi verið átt við gangandi umferð óháð kvöð í sömu bókun um spildu fyrir lagnir.

Þann 9. ágúst 1992 hafi annar sóknaraðila, Sigrún Ágústsdóttir, svarað bréfi skipulagsnefndar frá 7. maí 1992, en í bréfinu segi m. a. " Varðandi umgengisrétt og lagnir meðfram ánni Varmá leyfi ég að sjálfsögðu eins og landslög kveða á um " og með bréfi, dags 5. júlí 1993, hafi hún tilkynnt skipulagsnefnd að tilvísun til bókunar skipulagsnefndar frá 23. apríl 1991 hefði verið færð inn á deiliskipulagsuppdráttinn. Þann 22. desember 1993 hafi deiliskipulagið verið samþykkt í bæjarstjórn og af skipulagsstjóra ríkisins hinn 20. janúar 1994. Sóknaraðilum hafi verið tilkynnt í bréfi dags. 7. júní 1995, frá Jóni H. Ásbjörnssyni, þáverandi tæknifræðingi bæjarins, að til stæði að leggja holræsi upp með Varmá frá Reykjalundarvegi upp að gróðurhúsum við Bjarg og Árbakka.

Á árinu 1998 hafi varnaraðili kynnt umhverfisskipulag þar sem gert hafi verið ráð fyrir göngustíg með fram Varmá um land sóknaraðila, en þeim fyrirætlunum hafi sóknaraðilar mótmælt. Þann 30. nóvember 1998, hafi sóknaraðilum verið kynnt umsögn skipulagsnefndar um athugasemdir sóknaraðila, en í bréfinu segi m.a.:

"Við vinnu að umhverfisskipulaginu hefur það ítrekað komið fram hjá nefndum bæjarins og þeim sem hafa kynnt sér tillögurnar að mikilvægt sé að halda opinni gönguleið meðfram Varmá. Í því sambandi hefur verið leitað til landeigenda sem eiga landspildur að Varmá og að á árbakkanum verði mjór útivistarstígur. Til þess að stígurinn verði samfelldur er nauðsynlegt að leitað verði samninga við landeigendur þar um. Samkvæmt deiliskipulagi Blómvangs sem unnið var á vegum bréfritara kemur fram kvöð um lagnir og gangandi umferð meðfram ánni, því er eðlilegt að á landi Blómvangs meðfram Varmá verði lagður útivistarstígur. "

Sóknaraðilar hafi mótmælt ofangreindri afstöðu skipulagsnefndar með bréfi, dags. 18. desember 1998, og ítrekað mótmæli sín á fundi með tæknideild varnaraðila þann 15. apríl 1999.

Með bréfi, dags. 8. júní 1999, hafi varnaraðili kynnt sóknaraðilum fyrirætlanir sínar um að leggja stíg með fram Varmá á landi þeirra og hafi beðið þá um að koma athugasemdum sínum á framfæri fyrir l. júlí 1999, en að öðrum kosti yrði litið svo á að ekki væri gerður ágreiningur um framkvæmdina. Sóknaraðilar hafi svarað því í bréfi, dags. 18. júní 1999, með því að þeir hefðu þegar komið mótmælum sínum á framfæri bæði skriflega og á greindum fundi með tæknideild varnaraðila. Varnaraðili hafi kynnt sóknaraðilum álit Skipulagsstofnunar með bréfi, dags. 9. september 1999, þar sem því hafi jafnframt verið lýst yfir að ætlunin væri að hefja undirbúning og framkvæmdir við útivistarstíg með fram Varmá með haustinu. Þann 23. september 1999 hafi bæjarráð samþykkt að hefjast handa "um framkvæmdir við lagningu útivistarstígs meðfram Varmá við Reykjamel ll" og samþykkt aukafjárveitingu vegna málsins.

 

Varnaraðili gerir þá kröfu að héraðsdómur hafni kröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum varnaraðila við gerð göngustígs með fram Varmá við Reykjamel 11, Mosfellsbæ. Um málsástæður vísar varnaraðili til þess að hann telur að gerð göngustígsins með fram Varmá sé heimil á grundvelli deiliskipulags fyrir jörðina Blómvang. Þá telur varnaraðili að útivistarstígur sé einnig í samræmi við umhverfisskipulag fyrir Varmársvæði sem geri ráð fyrir stígum með fram Varmá. Fyrir liggi samþykki eigenda aðliggjandi landa, austan og vestan við Reykjamel 11, fyrir stígagerð um lönd þeirra. Stígur hafi þegar verið lagður með fram Varmá að vestanverðum landamörkum Reykjamels 11. Sá stígur hafi verið lagður á árinu 1997 fyrir gildistöku núgildandi skipulags- og byggingarlaga. Framkvæmdir við framhald göngustígsins hafi hins vegar stöðvast vegna ágreinings við sóknaraðila.

Varnaraðili hafnar alfarið þeirri málsástæðu sóknaraðila að hvorki deiliskipulag Blómvangs né aðalskipulag Mosfellsbæjar veiti heimild til framkvæmda við göngustíg og að við kynningu á deiliskipulagi hafi þeim verið kynnt að göngustígur yrði ekki lagður um lóð þeirra, þar sem göngustígur væri norðan Varmár og hefði verið þar í tugi ára.

Í þessu sambandi sé rétt að geta þess sérstaklega sem fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. ágúst 1999, en þar segi að við úrlausn málsins verði að leggja til grundvallar skipulagsreglugerð nr. 318/1985, sbr. lög nr. 19/1964, með síðari breytingum, en reglugerðin hafi verið í gildi þegar aðalskipulag Mosfellsbæjar hafi verið staðfest 6. maí 1994. Samkvæmt 1. og 3. mgr. greinar 3.3.4.8. skipulagsreglugerðarinnar, nr. 318/1985, segi: "Gera skal grein fyrir helstu samgöngumannvirkjum, s.s. stofnbrautum, sem tengja saman sveitarfélög, þéttbýli, flugvelli og hafnir. " Þá segi enn fremur í 3. mgr. sömu greinar: " ... Einnig skal gera grein fyrir helstu samgönguleiðum. "

Umræddur göngustígur sem um sé deilt sé skilgreindur sem útivistarstígur í umhverfisskipulagi bæjarins frá 1998. Í skilgreiningunni felist að um sé að ræða 80­-120 cm breiðan stíg uppbyggðan með malarefni eða trjáspæni. Telji varnaraðili umræddan stíg ekki falla undir hugtalið "helstu samgöngumannvirki " og því sé ekki nauðsynlegt að sýna hann á aðalskipulagsuppdrætti heldur sé fullnægjandi að gera grein fyrir stígnum á deiliskipulagsuppdrætti. Telji varnaraðili hins vegar að skilyrði 2. mgr. greinar 4.3.1. sömu reglugerðar hafi verið uppfyllt með því að fært hafi verið inn á deiliskipulagsuppdráttinn fyrir Blómvang frá 1993 "lagnir og gangandi umferð " á því svæði sem varnaraðili áætli að leggja útivistarstíginn. Sé afstaða varnaraðila, hvað þennan þátt málsins varði, í samræmi við niðurstöður Skipulagsstofnunar, dags. 13. ágúst 1999, og úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. júní 2000. Telji varnaraðili raunar einnig að kvöð um gangandi umferð á deiliskipulagsuppdrætti hafi falið í sér fullnægjandi deiliskipulagsheimild á grundvelli þágildandi laga.

Varnaraðili kveðst enn fremur mótmæla því sem fram komi í gögnum málsins að með kvöðinni hafi einungis verið átt við gangandi umferð til viðhalds lagna. Telur varnaraðili að ekki hafi verið þörf á því að tiltaka sérstaklega að gangandi umferð til viðhalds lagna væri heimil þar sem það felist í kvöðinni um lagnir. Samkvæmt orðalagi kvaðarinnar og almennum málskilningi sé ótvírætt að átt hafi verið við gangandi umferð óháða lögnunum. Þá sé því jafnframt mótmælt að starfsmenn bæjarins hafi á kynningarfundi túlkað kvöðina fyrir landeigendum með jafn þröngum hætti og sóknaraðilar hafi haldið fram.

Þá sé því haldið fram í gögnum málsins að sóknaraðilar hafi hagað byggingarframkvæmdum og ræktun lóðar án tillits til göngustígsins. Hvort sem svo hafi verið eða ekki telur varnaraðili að slíkar viðbárur hafi enga þýðingu í máli þessu. Sóknaraðilum hafi verið fullkunnugt um kvöð vegna umferðar gangandi manna um lóðina og hafi því verið í lófa lagið að taka mið af því við skipulagningu og framkvæmdir á lóðinni. Auk þess sé rétt að taka fram í þessu sambandi það sem fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. ágúst 1999, þar sem m.a. segi að ekkert, hvorki í þágildandi lögum né í reglugerð, hefði getað komið í veg fyrir að staðsetning hússins yrði samþykkt vegna nálægðar við fyrirhugaðan stíg.

Þá hafnar varnaraðili alfarið þeirri fullyrðingu sóknaraðila, að við kynningu deiliskipulags Blómvangs hafi sóknaraðilum verið kynnt að göngustígur yrði ekki lagður um lóð þeirra, þar sem göngustígur væri norðan Varmár og hefði verið þar í tugi ára. Í því sambandi tekur varnaraðili fram að samkvæmt þágildandi aðalskipulagi bæjarins hafi ekki verið gert ráð fyrir göngustíg norðan árinnar. Raunar hafi engir göngustígar verið tilgreindir á aðalskipulagsuppdrætti fyrir bæinn, sem hafi verið í gildi þegar gengið hafi verið frá deiliskipulagi fyrir Blómvang, né í greinargerð með aðalskipulagi. Göngustígur norðan Varmár hafi fyrst komist inn á aðalskipulag bæjarins sem samþykkt hafi verið af bæjarstjórn þann 23. mars 1994. Því verði að teljast ólíklegt að málið hafi verið kynnt fyrir sóknaraðilum eins og þau haldi fram. Þágildandi aðalskipulag, sem hafi verið frá árinu 1983, hafi hins vegar gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðabyggðar í næsta nágrenni og hafi því kallað á fyrirhyggju varðandi stígagerð.

Að mati varnaraðila hafi það heldur enga þýðingu í máli þessu að núgildandi aðalskipulag bæjarins geri ráð fyrir göngustíg norðan ár. Gert sé ráð fyrir að göngustígur liggi með fram ánni að sunnanverðu og verði göngustígur norðan ár til viðbótar, enda um minna mannvirki að ræða. Þá sé samkvæmt umhverfisskipulagi gert ráð fyrir göngustíg í gegnum land Reykjamels 11 og áfram sunnan megin ár og einnig sé gert ráð fyrir göngubrú yfir Varmá við land Reykjamels 11 og áframhaldandi göngustíg hinum megin ár, sem tengist aðalgöngustígnum norðan ár.

Með vísan til þess sem að ofan greinir telur varnaraðili að honum sé að fullu heimilt lögum samkvæmt að leggja hinn umdeilda útivistarstíg. Telur varnaraðili að ákvæði 20. gr. eldri laga um náttúruvernd nr. 41/1971, sbr. 23. gr. núgildandi laga nr. 44/1999, breyti engu þar um. Beri dómstólum því að hafna kröfum sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann á yfirvofandi framkvæmdir varnaraðila við gerð hins umdeilda göngustígs.

Þá hafnar varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að framkvæmdirnar hafi í för með sér takmarkanir á eignarráðum þeirra og því þurfi að uppfylla skilyrði laga og stjórnarskrár um heimildir til eignarnáms áður en unnt sé að byrja slíka framkvæmd, auk þess sem framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda liggi ekki fyrir.

Varnaraðili telur að skv. 30. gr. skipulagslaga, nr. 19/1964, sé sveitarstjórn heimilt að breyta landi í einkaeign í byggingarlóðir, á þeirri forsendu að landeigandi láti endurgjaldslaust af hendi við sveitarfélagið til almenningsþarfa, sem svarar 1/3 af heildarflatarmáli þeirra byggingarlóða, sem heimild sveitarstjórnar taki til. Telur varnaraðili að með bókun skipulagsnefndar, dags. 23. apríl 1991, hafi bærinn verið að áskilja að sóknaraðilar létu af hendi endurgjaldslaust land til almenningsþarfa skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga, nr. 19/1964, með síðari breytingum, sbr. orðalag bókunarinnar:

"Skipulagsnefnd fellst á að unnið verði áfram að skipulagi á svæðinu en bendir á að nauðsynlegt er að meðfram ánni verði haldið eftir spildu fyrir  lagnir og gangandi umferð. "

Þá telur varnaraðili að ekki verði séð að lagning göngustígsins hafi að öðru leyti í för með sér skerðingu á eignarréttindum sóknaraðila. Um sé að ræða minniháttar framkvæmd á landi, sem ótvírætt sé að haldið hafi verið eftir við gerð deiliskipulags til umferðar gangandi manna. Stígnum sé ætlað að auðvelda umferð gangandi fólks og stuðla að skipulagðri og bættri umgengni um landið og sé því í raun landeigendum til hagsbóta. Þá sé og rétt að benda á það í þessu sambandi að samkvæmt 23. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, sem sé samsvarandi 20. gr. eldri laga um náttúruvernd nr. 47/1971, hafi gangandi menn rétt til að ferðast um land með fram árbökkum, og byggi varnaraðili kröfur sínar á tilvitnaðri grein.

Í ljósi þessa telur varnaraðili að umræddar framkvæmdir hafi ekki í för með sér þá skerðingu á eignar- og hagnýtingarrétti sóknaraðila á landinu að þær geti talist brjóta gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og geti því ekki farið fram nema að uppfylltum skilyrðum 72. gr. stjórnarskrárinnar og 32. gr. skipulags- og byggingarlaga. Heimild til lagningar göngustígsins eigi sér þvert á móti stoð í þeirri kvöð um gangandi umferð, sem felld hafi verið á lóð sóknaraðila við samþykkt deiliskipulags á landi þeirra, og í þeirri skyldu, sem hafi hvílt á landeiganda, skv. 30. gr. eldri skipulagslaga nr. 19/1964, með síðari breytingum, um að láta endurgjaldslaust í té land til almenningsþarfa við skipulagningu lands í einkaeign, að því marki sem í ákvæðinu greindi. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila.

Varðandi þá málsástæðu sóknaraðila að þar sem framkvæmdaleyfi hafi skort vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda, tekur varnaraðili fram að samkvæmt lögum nr. 135/1997, sbr. 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, hafi ráðherra skilgreint nánar í 9. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, hvað teljist til meiri háttar framkvæmda sem framkvæmdaleyfi þurfi fyrir.

Samkvæmt 2. mgr. greinar 9.1. skipulagsreglugerðar séu "meiriháttar framkvæmdir" við götur, holræsi, vegi og brýr, aðrar en göngubrýr í þéttbýli, jarðgöng, flugbrautir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, hafnir, virkjanir, efnistöku, sorpförgun og "aðrar meiriháttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og ásýnd þess", háðar framkvæmdaleyfi. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar sé með meiri háttar framkvæmdum í 2. mgr. átt við framkvæmdir, sem vegna eðlis eða umfangs, hafi veruleg áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess.

Sá stígur sem mál þetta snýst um sé útivistarstígur. Samkvæmt umhverfisskipulagi fyrir Varmársvæðið séu útivistarstígar minni stígar sem liggi um náttúruleg svæði innan byggðar og hins vegar lengri leiðir um aðliggjandi heiðar og fjallendi. Innan byggðar sé gert ráð fyrir að þessir stígar séu 80-120 cm breiðir og uppbyggðir með malarefni og trjákurli. Varnaraðili telur að með hliðsjón af þessari lýsingu á gerð stígsins og með vísan til 2. og 3. mgr. í grein 9.1. skipulagsreglugerðar, sé ótvírætt að stígurinn geti ekki talist til meiri háttar framkvæmdar sem framkvæmdaleyfi þurfi fyrir og í ljósi þess beri að hafna kröfum sóknaraðila.

Þá er þeirri fullyrðingu sóknaraðila mótmælt að ákvörðun varnaraðila að hefja umræddar framkvæmdir sé andstæð stjórnsýslulögum, m.a. þar sem andmælaréttar sóknaraðila hafi ekki verið gætt, og að málsmeðferð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hafi verið áfátt.

Varnaraðili telur þvert á móti að ákvörðunartaka um framkvæmdirnar við útivistarstíginn hafi verið í fullu samræmi við ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um andmælarétt og að öðru leyti lögum samkvæm. Eins og sjá megi af gögnum málsins hafi sóknaraðilum verið gefinn kostur á að tjá sig fyrir fram um allar fyrirætlanir og ákvarðanir varnaraðila á öllum stigum málsins. Telji varnaraðili fráleitt að sú málsmeðferð geti með nokkru móti leitt til ógildingar ákvörðunarinnar um hinar umdeildu framkvæmdir.

Hvað málsmeðferð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála varði þá sé rétt að taka það fram að í umsögn varnaraðila um stjórnsýslukæru sóknaraðila, dags. 14. júní 2000, komi fram að í tilkynningu nefndarinnar til varnaraðila um kæruna hafi verið boðið að fyrirsjáanlegur dráttur yrði á afgreiðslu hennar. Hafi varnaraðili því haft samráð við starfsmann nefndarinnar um nánari tímafresti til að gefa umsögn um hana. En hvað sem því líði telur varnaraðili að umræddur dráttur leiði ekki til ógildingar á úrskurði nefndarinnar, en sú afstaða byggi á meginreglum stjórnsýsluréttarins og ákvæðum 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda verði ekki talið að drátturinn hafi verið svo óhæfilegur sem getið sé í 4. mgr. 9. gr. laganna.

Með vísan til þess sem að ofan greinir telur varnaraðili að ákvæði gildandi aðal- og deiliskipulags, umhverfisskipulags og ákvæði skipulags- og byggingalaga, skipulagsreglugerðar og laga um náttúruvernd, auk þeirra kvaða sem á landinu liggja, feli í sér ótvíræða heimild fyrir varnaraðila til að hefja framkvæmdir við hinn umdeilda göngustíg, hvort sem sóknaraðilar hafi veitt til þess heimild eður ei enda séu þeir ekki bærir til þess að taka ákvarðanir er varði hinar fyrirhuguðu framkvæmdir. Telur varnaraðili því að það sé ekki forsenda þess að hægt sé að hefja umræddar framkvæmdir að varnaraðili láti setja sig inn í hin lögvörðu réttindi sín með beinni innsetningargerð, sbr. 78. gr. aðfaralaga nr. 90/1989, eins og gefið sé í skyn að sé forsenda þess að hægt sé að hefja framkvæmdir.

 

Varðandi skilyrði lögbanns byggir afstaða varnaraðila á þeim grundvelli að skilyrði 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann, o.fl., séu ekki uppfyllt.

Skv. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, sé það í fyrsta lagi gert að skilyrði þess að lögbann verði lagt á yfirvofandi athöfn að gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti þess sem eftir lögbanninu óski. Varnaraðili telur að sóknaraðilum hafi ekki lánast slík sönnun. Með vísan til þeirra málsástæðna sem að ofan greinir telur varnaraðili einsýnt að framkvæmdir við útivistarstíginn brjóti ekki gegn lögvörðum hagsmunum sóknaraðila. Telur varnaraðili að framkvæmdir við hinn umdeilda útivistarstíg séu heimilar á grundvelli fyrirliggjandi deiliskipulags fyrir jörðina Blómvang. Þannig séu hinar fyrirhuguðu framkvæmdir einnig í samræmi við fyrirliggjandi umhverfisskipulag fyrir Varmársvæðið sem geri ráð fyrir stígum með fram Varmá. Telur varnaraðili raunar að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að leggja útivistarstíginn og í ljósi þess sé nauðsynlegt skilyrði fyrir beitingu lögbanns ekki uppfyllt og því beri að hafna lögbannskröfu sóknaraðila.

Í annan stað geri lagaákvæðið það að skilyrði að réttindi þess sem eftir lögbanninu óski muni fara forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um hvort viðkomandi athöfn sé lögum samkvæm. Varnaraðili telur að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á að ofangreind skilyrði hafi verið uppfyllt og því beri að hafna kröfu sóknaraðila. Varnaraðili telur, með hliðsjón af þeim málsástæðum sem gerð er grein fyrir hér að ofan, að ekki sé hægt lögum samkvæmt að líta svo á að réttindi sóknaraðila muni fara forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði ekki fallist á kröfur þeirra, enda liggi fyrir að framkvæmdir við útivistarstíginn byggist á fyrirliggjandi deili- og umhverfisskipulagi og kvöðum sem á landinu hvíli. Meint réttindi sóknaraðila séu einfaldlega hvorki til staðar né yfir höfuð lögvarin og því beri að hafna kröfu sóknaraðila.

 

Krafa varnaraðila byggir á ákvæðum 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann, o.fl., meginreglum stjórnsýsluréttarins og ákvæðum 9. gr. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, reglugerð nr. 621/1997 um úrskurðarnefnd skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eldri skipulagslögum nr. 19/1964, skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sbr. eldri skipulagsreglugerð nr. 318/1985 og ákvæðum náttúruverndarlaga nr. 44/1999, sbr. eldri lög um náttúruvernd nr. 47/1971.

Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggir á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna.

IV

Niðurstaða

Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 er að finna skilyrði lögbanns.  Þar segir að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.  Samkvæmt ákvæðinu hvílir á gerðarbeiðanda sönnunarbyrði um að öll þrjú skilyrðin séu uppfyllt.

Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili hefur tekið ákvörðun um að leggja hinn umdeilda göngustíg og hyggst ekki fresta framkvæmdum þótt ágreiningur sé uppi um heimild til lagningar stígsins og einkamál hafi verið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um það sakarefni.  Mál þetta snýst um það hvort uppfyllt séu skilyrði lögbanns samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 vegna yfirvofandi framkvæmda varnaraðila við gerð göngustígs með fram Varmá á lóð sóknaraðila við Reykjamel 11, Mosfellsbæ.

Í skipulagsreglugerð nr. 318/1985, sbr. lög nr. 19/1964, segir í 2. mgr. greinar 4.3.1. að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir vistgötum, göngustígum, hjólreiðastígum og reiðgötum, þar sem ástæða sé til.  Samkvæmt deiliskipulagi fyrir landið Blómvang, sem samþykkt var í bæjarstjórn varnaraðila þann 22. desember 1993, er afmörkuð spilda með fram Varmá fyrir “mögulegar lagnir og gangandi umferð”, og er vísað til bókunar skipulagsnefndar frá 23. apríl 1991 þar um.  Í þeirri bókun segir m.a. “nauðsynlegt er að meðfram ánni verði haldið eftir spildu fyrir lagnir og gangandi umferð.”  Líta ber svo á að með framangreindum fyrirvara í deiliskipulagi og með skírskotun til bókunar skipulagsnefndar hafi falist kvöð um almennan rétt fyrir gangandi umferð með fram Varmá í landi sóknaraðila.  Ósannað er, gegn andmælum varnaraðila, að sóknaraðilum hafi verið tjáð við kynningu deiliskipulagsins að ekki yrði lagður göngustígur um lóð þeirra. Deiliskipulagið var samþykkt af skipulagsstjóra ríkisins 20. janúar 1994.

 Samkvæmt umhverfisskipulagi Varmársvæðis, sem kynnt var á árinu 1998, var gert ráð fyrir göngustíg með fram Varmá um land sóknaraðila og samkvæmt umsögn byggingafulltrúa í bréfi til sóknaraðila 30. nóvember 1998 var fyrirhugað að á árbakkanum yrði mjór útivistarstígur.  Sóknaraðilar hafa ítrekað mótmælt þeirri framkvæmd, eins og gögn málsins bera með sér.

Þann 23. september 1999 samþykkti bæjarráð varnaraðila að hefjast handa um framkvæmdir við hinn umdeilda stíg.  Sóknaraðilar kærðu þá ávörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Með úrskurði nefndarinnar frá 29. júní sl. var hafnað kröfu sóknaraðila um að sú ákvörðun yrði felld úr gildi. 

Sönnunarbyrðin um að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt hvílir á sóknaraðilum.  Í ljósi þess sem að framan er rakið verður að telja að þeim hafi ekki tekist að sanna eða gera sennilegt að með hinum yfirvofandi framkvæmdum sé eða muni verða brotið gegn lögvörðum rétti þeirra eins og skilyrði er gert um í tilvitnaðri lagagrein.

 Sóknaraðilar héldu því fram við flutning málsins að hinn umdeildi göngustígur yrði svo mikið mannvirki að ekki yrði aftur tekið ef hafist yrði handa um lagningu hans og að um mikið tjón yrði að ræða á landareign þeirra. Varnaraðili mótmælti því og staðhæfði að um 80­-120 cm breiðan stíg, uppbyggðan með malarefni eða trjáspæni, yrði að ræða. Í ljósi framangreinds verður ekki talið sannað eða gert sennilegt að réttindi sóknaraðila muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum þótt beðið sé dóms um ágreininginsefnið, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.  Þá verður ekki talið að framkvæmdir þessar hafi í för með sér þá skerðingu á eignar-og hagnýtingarrétti sóknaraðila á landinu að þær brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framansögðu verður því niðurstaða málsins sú að hafnað er kröfu sóknaraðila um að héraðsdómur leggi fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum varnaraðila við gerð göngustígs með fram Varmá á lóð sóknaraðila við Reykjamel 11, Mosfellsbæ.

Eftir úrslitum málsins þykir rétt að sóknaraðilar greiði varnaraðila 75.000 kr. í málskostnað

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Jóns Hjörleifssonar og Sigrúnar Ágústsdóttur, um að héraðsdómur leggi fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum varnaraðila, Mosfellsbæjar, við gerð göngustígs með fram Varmá á lóð sóknaraðila við Reykjamel 11, Mosfellsbæ.

Sóknaraðilar greiði varnaraðila 75.000 kr. í málskostnað.