Hæstiréttur íslands

Mál nr. 406/2015

Icelandair Group hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.)
gegn
Þorsteini Erni Guðmundssyni (Skarphéðinn Pétursson hrl.)

Lykilorð

  • Samningur
  • Ráðningarsamningur
  • Skaðabætur
  • Aðildarskortur

Reifun

Í ráðningarsamningi Þ og FL hf. frá desember 2005 var mælt fyrir um tiltekin ferðafríðindi Þ og fjölskyldu hans, sem gilda ættu um áætlunarflug á vegum þáverandi dótturfélaga FL hf. Með samningi frá júlí 2006, milli FL hf. annars vegar og IG hf. og dótturfélaga þess hins vegar, skuldbatt IG hf. sig meðal annars til að taka yfir skyldu FL hf. vegna ferðafríðindanna. Ritaði Þ, ásamt fjórum öðrum starfsmönnum FL hf., undir sérstakan viðauka við samninginn þar sem kom fram að starfsmennirnir samþykktu og staðfestu að réttur þeirra til ókeypis flugmiða kynni að vera takmarkaðri en ráðningarsamningur þeirra kvæði á um. Með samkomulagi, meðal annars á milli IG hf. og FL hf., frá október 2010, var áðurnefndum samningi frá því í júlí 2006 slitið og var Þ tilkynnt um þá ráðstöfun. Í málinu hélt Þ því fram að með samningnum frá júlí 2006 hafi stofnast samningssamband milli hans og IG hf. Taldi Þ að IG hf. hafi verið óheimilt að rifta því samningssambandi og að hin ólögmæta riftun hafi valdið honum tjóni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með undirritun sinni á áðurnefndan viðauka við samninginn frá júlí 2006 hafi Þ samþykkt að réttur hans til ferðafríðinda samkvæmt ráðningarsamningi hans og FL hf. gæti orðið takmarkaðri. Þótt IG hf. hafi með samningnum tekið að sér hluta þeirra skyldna sem hvíldu á FL hf. samkvæmt ráðningarsamningi félagsins við Þ, gæti sá síðastnefndi ekki reist skaðabótakröfu á hendur IG hf. á samningnum frá 2006, enda væri hann ekki aðili þess samnings. Þá væri óumdeilt í málinu að IG hf. hafi ekki verið aðili að ráðningarsamningi þeim sem krafa Þ átti rætur að rekja til. Var IG hf. því sýknað af kröfum Þ.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2015. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerði stefndi ráðningarsamning 5. desember 2005 við FL Group hf., sem nú mun heita Stoðir hf. Meðal starfskjara stefnda samkvæmt ráðningarsamningnum voru ferðafríðindi sem fólust í rétti hans til að fá flugmiða fyrir sig, maka sinn og börn að 21 árs aldri án kostnaðar eða í vissum tilvikum gegn greiðslu þjónustugjalda og skatta. Þessi fríðindi skyldu gilda um áætlunarflug á vegum þáverandi dótturfélaga FL Group hf., Icelandair hf. og Flugfélags Íslands ehf., og skyldu þau haldast eftir starfslok stefnda.

Með samningi 17. júlí 2006, milli FL Group hf. annars vegar og áfrýjanda, Icelandair hf. og Flugfélags Íslands ehf. hins vegar, skuldbatt áfrýjandi sig í gegnum hin síðastgreindu félög, sem þá munu hafa verið orðin dótturfélög hans, meðal annars til að taka yfir skyldur FL Group hf. vegna fyrrgreindra ferðafríðinda. Þar sem samningurinn gerði ráð fyrir að rétturinn til fríðindanna gæti verið takmarkaðri en hann var samkvæmt ráðningarsamningum stefnda og fjögurra annarra starfsmanna FL Group hf. undirrituðu þeir sérstakan viðauka við samninginn.

Í tilefni af sölu FL Group hf. á öllum hlutum sínum í áfrýjanda 15. október 2006 gaf sá fyrrnefndi sama dag út yfirlýsingu í fjórum stafliðum sem bar með sér að hafa verið beint til áfrýjanda. Í B. lið yfirlýsingarinnar sagði að FL Group hf. myndi tryggja að skylda þess gagnvart þeim fimm starfsmönnum sem undir framangreindan viðauka rituðu myndi takmarkast við 15 flugmiða á ári í tíu ár. Að þeim tíma liðnum félli réttur þeirra gagnvart áfrýjanda niður. Undir yfirlýsingu þessa ritaði, auk fyrirsvarsmanns FL Group hf., fyrirsvarsmaður áfrýjanda.

Áfrýjandi, Icelandair ehf., Flugfélag Íslands ehf. og Stoðir hf., áður FL Group hf., undirrituðu 28. október 2010 samkomulag um slit á áðurnefndum samningi frá 17. júlí 2006 þar sem fjallað var um ferðafríðindi stefnda og fleiri starfsmanna síðastnefnda félagsins. Í samkomulaginu kom fram að það væri gert á grundvelli samkomulags milli áfrýjanda og Stoða hf. 2. september sama ár um lausn ágreiningsmála og yfirlýsingu um samstarf um tiltekin mál.

Áfrýjandi tilkynnti stefnda um þessa ráðstöfun með bréfi 11. nóvember 2010.

II

Stefndi byggir kröfu sína á hendur áfrýjanda á því að skyldur vegna ferðafríðinda hans samkvæmt ráðningarsamningnum hafi með samningi 17. júlí 2006, með hans samþykki, verið færðar yfir til áfrýjanda og dótturfélaga þess síðarnefnda. Við það hafi stofnast til samningssambands milli stefnda og áfrýjanda. Þau samningsbundu réttindi geti áfrýjandi ekki skert „með samkomulagi við annað félag sem er málið algerlega óviðkomandi.“ Samningur sá sem stefndi vísar hér til var eins og að framan greinir milli annars vegar FL Group hf. og hins vegar áfrýjanda og dótturfélaga hans. Samkvæmt samningnum skuldbatt áfrýjandi sig í gegnum dótturfélög sín, eins og sagði í íslenskri þýðingu hans „til að taka yfir hverja slíka skuldbindingu eins og nánar er lýst í samningi þessum.“ Í grein 3.1 í samningnum sagði að í samræmi við „ákvæði viðeigandi ráðningarsamninga“ hefðu tilgreindir stjórnendur FL Group hf. „sérstakan rétt á að fá ókeypis flugmiða“ og voru þeir starfsmenn, þar á meðal stefndi, þar nafngreindir. Í grein 3.3 sagði að umfang þessa réttar gæti verið mismunandi á milli þeirra einstaklinga sem þar greindi eftir ákvæðum ráðningarsamninga þeirra og að þeir samþykktu það með undirritun viðauka með samningnum.

Í nefndum viðauka, sem stefndi ásamt fjórum öðrum starfsmönnum FL Group hf. undirritaði í tengslum við framangreindan samning, sagði: „Við undirritaðir starfsmenn FL Group hf. samþykkjum og staðfestum með undirritun okkar hér fyrir neðan að réttur sá til ókeypis flugmiða sem lýst er í samningi þessum skuli samræmdur eins og lýst er í gr. 3 hans, jafnvel þó hann kunni að vera takmarkaðri en ráðningarsamningur okkar kveður á um. Komi í ljós misræmi í þessu tilliti á milli samnings þessa og ráðningarsamnings okkar, skulu ákvæði samnings þessa gilda.“ 

Af orðalagi framangreinds viðauka verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi með undirritun sinni á hann samþykkt að réttur hans til ferðafríðinda samkvæmt ráðningarsamningi hans og FL Group hf. gæti orðið takmarkaðri vegna samnings FL Group hf. við áfrýjanda og dótturfélög hans 17. júlí 2006. Með þessari áritun sinni varð stefndi ekki aðili þess samnings og þótt áfrýjandi hafi með honum tekið að sér hluta þeirra skyldna sem hvíldu á FL Group hf. gagnvart stefnda samkvæmt ráðningarsamningi þeirra síðarnefndu getur stefndi ekki reist skaðabótakröfu á hendur áfrýjanda á samningnum frá 2006. Þá er óumdeilt í málinu að áfrýjandi var ekki aðili að ráðningarsamningi þeim sem krafa stefnda á rætur að rekja til. Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Það athugast að stefndi, sem hefur byggt kröfu sína einkum á áðurnefndum samningi 17. júlí 2006, lagði hann fram í héraði á erlendu tungumáli án þýðingar á íslensku, andstætt ákvæðum 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann hefur á hinn bóginn bætt úr því með framlagningu samningsins í íslenskri þýðingu hér fyrir dómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Icelandair Group hf., er sýkn af kröfu stefnda, Þorsteins Arnar Guðmundssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

               

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2015.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 30. mars 2015, er höfðað af Þorsteini Erni Guð­munds­syni, kt. [...], Asparhvarfi 14, Kópavogi, á hendur Icelandair Group hf., kt. [...], Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, til viðurkenningar á rétti til greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda gagn­vart stefnanda vegna ólögmætrar riftunar stefnda, með bréfi dags. 11. nóvember 2010, á starfskjarabundnum ferðafríðindum stefnanda hjá stefnda, samkvæmt ráðn­ing­ar­samn­ingi, dagsettum 5. desember 2005.

                Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.

                Hann krefst enn fremur máls­kostn­aðar úr hendi stefnanda að teknu tilliti til virðis­auka­skatts á málflutningsþóknun.

 

Málsatvik

                Málavextir eru þeir að 5. desember 2005 undirrituðu stefnandi, Þorsteinn Örn Guð­mundsson, og FL Group hf. (nú Stoðir hf.), kt. [...], ráðningarsamning þess efnis að stefnandi tæki við starfi forstjóra FL Travel Group. FL Group hf. stofn­aði það félag til þess að fara með eignarhald á ferða­þjón­ustu­fyrir­tækjum FL Group á Íslandi, þ.e. Flugfélagi Íslands ehf., Icelandair Hotels ehf., Bíla­leigu Flugleiða ehf., Kynn­is­ferðum ehf., Ferðaskrifstofu Íslands ehf. og Íslands­ferðum ehf.

                Í 7. gr. ráðningarsamningsins er kveðið á um risnu-, ferða-, bifreiða- og fjar­skipta­kostnað. Þar segir í 2. mgr.:

Þegar forstjóri ferðast ásamt maka og börnum að 21 árs aldri skal félagið leggja honum að kostnaðarlausu til svokallaðan service miða á Saga Business Class og gildir þetta um áætlunarflug á vegum dótturfélaga FL Group Iceland­air og Flugfélags Íslands. Þessum réttindum heldur forstjóri eftir starfslok. Ferð­ist ofangreindir fjöl­skyldu­meðlimir forstjóra án þess að hann sé með í för, skal félagið leggja þeim til flug­miða skv. ofangreindu, þó þannig að fyrir þá greið­ist þjónustugjald og áfallnir skattar. Þessum réttindum heldur forstjóri eftir starfslok hjá félaginu.

                Rúmum sjö mánuðum síðar, 17. júlí 2006, var undirritaður samningur milli FL Group hf. annars vegar og Icelandair Group hf., Icelandair hf. og Flugfélags Íslands ehf. hins vegar, sem bar yfir­skrift­ina „Agreement on transfer of obligations“.

                Að þessu frátöldu leggja málsaðilar áherslu á ólík atriði í lýsingu málavaxta og þykir því rétt að gera grein fyrir lýsingu hvors um sig á þeim.

                Að mati stefnanda fólst í þessum samningi, Agreement on transfer of obligat­ions, að öll réttindi og allar skyldur móður­félags­ins, FL Group hf., vegna flugreksturs færð­ust til dótturfélagsins Icelandair Group hf. Stefnandi lítur svo á að stefndi hafi með þessum samningi tekið við skyldu FL Group hf. til að veita stefnanda þau réttindi sem tilgreind eru í 2. mgr. 7. gr. ráðn­ing­ar­samnings hans.

                Stefnandi lítur svo á að þegar hann undirritaði viðauka við samninginn, 17. júlí 2006, á milli félaganna fjögurra hafi hann veitt samþykki sitt fyrir því að 3. gr. samn­ings­ins skyldi gilda um farseðlaréttindi hans. Í 1. tölulið 2. mgr. 3. gr. samningsins segir:

When traveling (above mentioned senior management employee, his spouse (either married or in cohabitation) and children (including foster- and step­child­ren) under the age of 21) with the former subsidiaries of FL (and current sub­sidiaries of IG), Icelandair and Air Iceland, FL has generally provided the above­mentioned senior employees with the possibility of receiving regular Busi­ness Class tickets (C-tickets) for him and his family and similar tickets with Air Iceland (no requirements made of the family members traveling together to receive such tickets) to all destinations of these airlines.

                Í viðaukanum við samninginn, sem stefnandi ritaði undir, segir:

We, the undersigned employees of FL Group hf., agree upon and confirm with our signa­tures below that the entitlement of airline tickets free of charge described in this agree­ment shall be coordinated as described in its Article 3, even though it might be more limited than our employment agreement states. In case of any discrepancy hereof between this agreement and our employment agree­ment, the provisions of this agree­ment shall prevail.

 

                FL Group hf. seldi hlut sinn í Icelandair Group hf., 15. október 2006, og sendi af því tilefni frá sér yfirlýsingu. Þar var tilgreind takmörkun á rétt­indum lykil­starfs­manna félagsins til flugfarseðla. Í henni fólst að skylda félagsins, FL Group hf., við lykil­starfs­menn þess, þar á meðal stefnanda, myndi takmarkast við 15 flug­miða á Saga Busi­ness Class á ári í tíu ár frá dagsetningu yfirlýsingarinnar. Stefn­andi áréttar að hann hafi ekki á neinn hátt komið að umræddu sam­komu­lagi og hafi það aldrei verið borið undir hann. Hann viti ekki að hverjum umræddri yfir­lýs­ingu sé beint eða á rétt­indi hvers henni var ætlað að hafa efnis­áhrif.

                Stefndi tilkynnti stefnanda, 11. nóvember 2010, að ferða­fríðindi hans sam­kvæmt samningi, undirrituðum 17. júlí 2006, og yfirlýsingunni, 15. október 2006, hefðu fallið niður með samkomulagi milli Ice­land­air Group hf. og Stoða hf., undir­rit­uðu 28. október 2010.

                Stefnandi sendi Stoðum hf. erindi, 23. ágúst 2011, þar sem hann krafðist bóta frá félaginu eða annarra aðgerða vegna riftunarinnar. Þeirri kröfu var hafnað með bréfi frá Stoðum hf., 29. sept­em­ber 2011 og bréfi frá stefnda, 20. september 2011. Stefnandi ræddi óformlega við forsvarsmenn stefnda um lausn málsins fram á árið 2012 án árangurs. Stefnandi leitaði þá til lög­manns sem, fyrir hönd stefnanda, sendi stefnda ítar­legt kröfu­bréf, 15. ágúst 2012, og krafð­ist skaða­bóta úr hendi stefnda. Bóta­kröfu stefn­anda var hafnað með bréfi stefnda, 28. ágúst 2012. Í kjölfarið kveðst stefn­andi aftur hafa rætt óformlega við for­svars­menn stefnda. Vorið 2013 hafi orðið ljóst að aðilar myndu ekki ná sáttum. Stefnanda hafi því verið nauð­ugur sá kostur að stefna þessu máli fyrir dómstóla, til við­ur­kenn­ingar á skaða­bóta­rétti sínum.

                Í atvikalýsingu sinni tekur stefndi fram að hann hafi ekki verið aðili að ráðn­ing­ar­samningi stefnanda við FL Group og hafi ekki komið að honum á neinn hátt, enda hafi stefndi þá ekki verið stofnaður. Stefndi hafi síðar verið stofn­aður sem dóttur­félag Stoða hf. Í grein 1.1 í ráðningarsamn­ingi stefnanda segi að hann beri ábyrgð og skyldur gagn­vart stjórn Stoða frá því að hann tæki við starfs­skyldum sem for­stjóri FL Travel Group. Því sé óum­deilt að hvorki hafi komist á vinnu­rétt­ar­sam­band né ann­ars konar samn­ings­sam­bands milli stefnanda og stefnda með umræddum ráðn­ingar­samn­ingi.

                Í grein 7.2 í ráðningarsamningnum segi að Stoðir myndu leggja stefn­anda til far­seðla, honum að kostnaðarlausu, þegar hann ferðist með maka sínum og börnum. Tekið sé fram að þessi ferða­fríð­indi giltu einungis um áætl­un­ar­flug á vegum dóttur­félaga Stoða, sem þá voru Ice­land­air og Flug­félag Íslands. Ákvæðið sýni í fyrsta lagi að skylda til að veita ferða­fríðindin hafi ein­ungis verið lögð á Stoðir og í öðru lagi að hún takmarkaðist við áætlunarflug á vegum dótt­ur­félaga Stoða.

                Í samningi, 17. júlí 2006, á milli Stoða og þriggja dóttur­félaga þess það er stefnda, Ice­land­air ehf. og Flugfélags Íslands ehf. hafi verið kveðið á um að tiltekin ferða­fríðindi sem Stoðir hefðu skuld­bundið sig til þess að veita, þar með talið ferða­fríð­indi stefnanda, yrðu þjón­ustuð af stefnda, sbr., 1.1 gr. samn­ings­ins.

                Samkvæmt grein 7.7 í þeim samningi sé hann eingöngu bindandi fyrir Stoðir (FL Group), stefnda, Icelandair og Flugfélag Íslands. Höfuðmáli skipti að stefn­andi hafi ekki verið aðili að samningnum. Það hafi verið eina aðkoma stefnanda að samn­ingnum að und­ir­rita yfirlýsingu, ásamt öðrum starfsmönnum Stoða, þess efnis að hann féll­ist á að ferðafríðindi hans skyldu útfærð (e. coordinated) í samræmi við 3. gr. samn­ingsins þrátt fyrir að í því fælist skerðing á fyrri réttindum hans sam­kvæmt ráðn­ing­ar­samningnum. Sú yfirlýsing hafi fylgt með samn­ingnum í sér­stökum við­auka 1 við hann (e. Annex 1). Stefndi áréttar að með þessu hafi stefn­andi ein­ungis sam­þykkt að ferðafríðindi hans yrðu takmörkuð í samræmi við ofan­greint ákvæði samn­ings­ins með einhliða yfirlýsingu enda hafi stefn­andi ekki verið aðili að samn­ingnum. Stefndi hafi ekki komið að yfirlýsingunni og skuld­bind­ingar hans sam­kvæmt samn­ingnum hafi einungis verið við Stoðir.

                Stefndi tekur fram að samningurinn hafi átt að gilda til óákveðins tíma, sbr. 5.1 gr. Hann hafi verið gerður vegna skipulagsbreytinga innan sam­stæðu Stoða. Jafn­framt áréttar stefndi að á þessum tíma hafi hann enn verið dóttur­félag Stoða.

                Þremur mánuðum eftir gerð framangreinds samnings, 15. október 2006, seldu Stoðir hlut sinn í stefnda. Á þeim degi gaf Stoðir út sérstaka yfirlýsingu til stefnda í til­efni söl­unnar. Stefndi lítur svo á að í yfirlýsingunni komi fram að Stoðir myndu tryggja að skylda félagsins við stefnanda og aðra starfsmenn í tengslum við ferða­fríð­indin yrði tak­mörkuð enn frekar og að hún myndi aðeins gilda í 10 ár frá dag­setn­ingu yfir­lýs­ing­ar­innar, sbr. B-lið hennar.

                Fyrirkomulag og útfærsla á þeim ferðafríðindum sem Stoðir hefði skuldbundið sig til að veita tilteknum starfsmönnum sínum hafi verið á meðal samningsatriða á milli Stoða og stefnda í tengslum við sölu Stoða á stefnda. Stefnandi hafi ekki verið sjálf­stæður aðili að þeim samningum. Stefndi tekur einnig fram að yfir­lýs­ing Stoða hafi verið ein­hliða. Undirritun fulltrúa stefnda á hana hafi einungis staðfest að tiltekin mál­verk teld­ust í eigu Stoða frá dagsetningu yfirlýsingarinnar, sbr. D-lið hennar. Af þessu sé ljóst að Stoðir hafi, upp á sitt eindæmi, breytt ferðafríðindum stefn­anda með ofan­greindri yfirlýsingu. Stefndi telur þetta til marks um að ferða­fríð­indin hafi alfarið verið á forræði Stoða þar sem það félag hafi verið skuld­bundið stefn­anda og öðrum fyrrum starfsmönnum þess.

                Stefndi bendi á að stefnandi hafi nýtt ferða­fríðindi samkvæmt ráðn­ing­ar­samn­ingi sínum mjög takmarkað á meðan stefndi þjónustaði þau fyrir Stoðir. Árið 2006 hafi stefnandi nýtt ferða­fríð­indin einu sinni. Hann hafi ekki nýtt þau árin 2007 og 2008 en nýtt þau tvisvar 2009. Árið 2010 hafi stefnandi nýtt sér umrædd ferða­fríð­indi í fimm skipti á grund­velli samnings Stoða og stefnda.

                Stoðir, stefndi, Flugfélag Íslands ehf. og Icelandair ehf. gerðu, 28. október 2010, með sér sam­komu­lag um slit á samningnum gerðum 17. júlí 2006. Sam­komu­lagið var gert í tengslum við annað sam­komu­lag sem gert var á milli Stoða og stefnda, 2. september 2010, sem kvað meðal annars á um lausn ýmissa óleystra mála á milli félag­anna. Stefndi lítur svo á að með ofan­greindu sam­komu­lagi, 28. október 2010, hafi samningnum verið slitið og umrædd ferða­fríð­indi því fallið niður á þeim degi. Jafn­framt hafi B-liður í fyrr­nefndri yfirlýsingu Stoða frá 15. okt­óber 2006, sem kvað á um takmörkun á ferða­fríð­ind­unum, verið felldur niður með ofan­greindu sam­komu­lagi. Ljóst sé að á þeim degi, þegar sam­komu­lagið var undir­ritað, hafi fallið niður sú skuld­bind­ing stefnda við Stoðir að þjón­usta ferða­fríðindi stefn­anda og að frá þeim degi hafi stefn­andi ekki átt rétt á ferða­fríð­indum hjá dóttur­félögum stefnda.

                Stefndi tekur fram að maki stefnanda sé fram­kvæmda­stjóri Flugleiðahótela ehf. og njóti þau því ferðafríðinda hjá dótturfélögum stefnda. Á grundvelli frí­miða­rétt­inda maka síns hafi stefnandi farið í þrjár ferðir 2010, sex ferðir 2011 og átta ferðir 2012. Þá hafi hann nýtt sér ferða­fríð­indi maka síns að minnsta kosti tvisvar 2013.

                Stefndi getur þess að frá því að ráðningarsamningur stefnanda við Stoðir tók gildi í desembermánuði 2005 og þar til framsalssamningnum, Agreement on transfer of obligations, var sagt upp í lok október 2010 hafi stefnandi farið í 10 ferðir á grund­velli ferðafríðinda sinna á tæp­lega 4 ára tímabili, sem samsvari að meðaltali 2,5 ferðum á ári. Frá því að framsalssamningnum var slitið í október 2010 hafi stefnandi farið í sam­tals 19 ferðir á grundvelli ferðafríðinda maka síns á rétt tæp­lega þriggja ári tíma­bili, sem samsvari að meðaltali 6,3 ferðum á ári. Þetta sýni að stefn­andi hafi nýtt ferða­fríð­indi maka síns umtalsvert meira en þau ferða­fríð­indi sem hann naut sjálfur. Ljóst sé því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni þótt Stoðir hafi ekki staðið við skuld­bind­ingar samkvæmt ráðn­ing­ar­samn­ingi um ferða­fríð­indi hans.

                Í kjölfar samkomulagsins, 28. október 2010, um slit á samningnum hafi yfir­lög­fræð­ingur stefnda sent stefnanda bréf 11. nóvember 2010. Þar hafi stefnanda verið til­kynnt að ferða­fríð­indi hans hjá dótturfélögum stefnda hefðu verið felld niður með vísan til sam­komu­lagsins um slit á samningnum. Þessu bréfi hafi stefnandi ekki svarað.

                Tæplega ári eftir að samningnum var slitið, 23. ágúst 2011, sendi stefn­andi Stoðum bréf og krafði félagið meðal annars um svör við því hvernig félagið myndi standa við samninga á milli aðila um ferðafríðindi og hvernig félagið myndi bæta stefn­anda samningsbundinn rétt sinn.

                Lögmaður Stoða svaraði stefnanda með bréfi 29. september 2011. Þar kom fram að samningi aðila um ferðafríðindi hefði verið slitið og því hafi fríðindin fallið niður. Tekið var fram að félagið Stoðir tengdist ekki lengur flugrekstri á neinn hátt og því ómögulegt fyrir félagið að efna loforð um ferðafríðindi, væri slíkt lof­orð fyrir hendi sem félagið taldi ekki vera.

                Yfirlögfræðingur stefnda sendi stefnanda, 30. september 2011, bréf vegna þess bréfs sem stefnandi sendi Stoðum. Þar kom meðal annars fram að kröfu stefnanda um úrbætur væri hafnað í ljósi þess að stefndi, Icelandair ehf., Flugfélag Íslands og Stoðir hefðu haft fulla heimild til þess að slíta samningnum.

                Rétt tæplega ári síðar, 15. ágúst 2012, sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf sem bar yfirskriftina Ólögmæt niðurfelling á flugfarseðlaréttindum. Bréfið var nokkuð ítar­legt en í stuttu máli voru þar færð rök fyrir því að stefndi væri bóta­skyldur í ljósi þess að ferðafríðindi stefnanda, sem Stoðir skuldbatt sig til þess að veita honum í ofan­greindum ráðningarsamningi, hafi verið felld niður á ólög­mætan hátt. Stefnandi byggði kröfu sína á því að Stoðir hefðu framselt stefnda skuld­bindingu sína með samn­ingnum og að stefnandi ætti því skaða­bóta­kröfu á hendur stefnda.

                Stefndi svaraði bréfi stefnanda með bréfi 28. ágúst 2012. Þar var kröfum stefn­anda hafnað meðal annars með þeim rökum að aldrei hefði stofnast til samn­ings­sam­bands á milli stefnanda og stefnda og því gæti stefnandi ekki beint kröfu sinni um ferða­fríðindin að stefnda.

                Stefndi tekur fram að stefnandi hafi ekki verið sá eini sem naut ferðafríðinda frá Stoðum. Í ákvæði 3.1 í samningnum séu taldir upp fimm lykilstjórnendur Stoða sem nutu ferðafríðinda hjá félaginu, stefnandi þeirra á meðal. Ferðafríðindi þeirra allra hafi fallið niður sama dag. Enginn hinna fjögurra fyrrum lykil­starfs­manna Stoða hafi kraf­ist skaðabóta, hvorki úr hendi Stoða né stefnda. Stefn­andi sé sá eini sem gert hafi slíka kröfu.

                Stefndi áréttar að hann sé eignarhaldsfélag og sinni ekki flugrekstri sjálfur. Dótt­ur­félög stefnda, Icelandair ehf. og Flugfélag Íslands ehf., stundi hins vegar flug­rekstur.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi vísar fyrst til þess að í bréfi yfirlögfræðings stefnda, 30. september 2011, komi fram að hann telji að Stoðum hf. og Icelandair Group hf. hafi verið heimilt að rifta samningnum sem þeir gerðu sín á milli 17. júlí 2006 þar sem sá samningur hafi verið þriðja­manns­lög­gern­ingur. Þetta byggi hann meðal annars á því að stefnandi hafi sjálfur samþykkt að ferða­fríðindin myndu byggj­ast á þriðjamannslöggerningi á milli Ice­land­air Group hf. og FL Group hf. samkvæmt við­auka I sem gerður var við samn­ing­inn.

                Stefnandi hafni þessari túlkun alfarið. Það sé ljóst af gögnum málsins að stefn­andi hafi aldrei samþykkt að réttindi hans til flugfarseðla myndu byggjast á þriðja­manns­löggerningi á milli félag­anna tveggja. Hann hafi einungis samþykkt að rétt­indi hans til flugfarseðla skyldu byggjast á 3. gr. samningsins.

                Með því hafi stefnandi ekki veitt samþykki sitt fyrir því að Icelandair Group hf. og Stoðir hf. gætu hvenær sem er breytt efni samningsins eða rift honum, heldur að Ice­land­air Group hf. tæki við þeim skyldum FL Group hf. að uppfylla rétt hans til flug­far­seðla samkvæmt ráðningarsamningi milli hans og FL Group hf.

                Það komi skýrt fram í grein 3.4 í samningnum að öll rétt­indi og allar skyldur ráðn­ing­ar­samnings stefnanda varðandi ferðafríðindi færðust yfir á Ice­land­air Group hf. og dótturfélög. Fullyrðingum um annað í tilvitnuðu bréfi stefnda sé harðlega mót­mælt enda séu þær bersýnilega rangar.

                Það sé því grundvallarmisskilningur hjá lögmanni stefnda að samningur FL Group og stefnda sé þriðja­manns­löggerningur. Samningur um ferðafríðindi stefnanda hafi, með hans sam­þykki, verið færður yfir á stefnda og dótturfélög. Við það hafi stofn­ast samn­ings­sam­band milli hans og stefnda. Það sé því rangt að halda því fram að það sé samn­ingur milli Icelandair Group hf. og FL Group hf. sem veiti stefn­anda rétt­inn til flug­far­seðla. Þessir aðilar hafi ekki haft neina heim­ild til þess að breyta umræddum kjörum ráðningarsamnings við stefnanda án aðkomu hans og vit­undar.

                Þegar stefndi og FL Group hf. hafi sent frá sér yfirlýsingu, 15. október 2006, um tak­mörkun réttinda lykilstarfsmanna til flugfarseðla, hafi verið litið svo á að stefn­andi þyrfti að gefa samþykki sitt fyrir yfirlýsingunni, enda til samræmis við þá megin­reglu vinnu­réttar að breytingar á ráðn­ing­ar­sambandi og ráðningarkjörum skuli ávallt gerðar í sam­ráði við við­kom­andi starfsmann. Það hafi hins vegar ekki verið gert með yfir­lýs­ing­unni 15. október 2006, sem átti að skerða rétt stefnanda.

                Stefndi geti ekki skert samningsbundinn rétt stefnanda með samkomulagi við annað félag sem sé málið algerlega óviðkomandi. Umrætt „samkomulag“ eða „riftun“ um slit ferðafríðinda stefnanda sé marklaus gerningur og geti aldrei haft þau áhrif sem gern­ingnum hafi verið ætlað að skapa.

                Hins vegar sé ljóst að stefndi muni ekki efna skyldur sínar gagnvart stefn­anda sbr. bréf félagsins til hans, dags. 11. nóvember 2010 og 30. september 2011, en verði þess í stað skaðabótaskyldur.

                Að sama skapi megi segja að réttindin hafi verið færð yfir til stefnda til að tryggja það að stefnandi myndi njóta fríðindanna sem um var samið sem allra lengst, ef ekki til æviloka, og undir öllum kringumstæðum á meðan stefndi stundaði flug­rekstur eða flugrekstur félagsins væri seldur áfram til annarra aðila. Það sé augljós vilji aðila, sé texti samkomulagsins lesinn.

                Stefndi hefði þurft að taka skýrt fram í samningnum um yfirfærslu réttindanna frá FL Group hf., Agree­ment on transfer of obligations, hefði félagið talið þörf á að tak­marka réttindin umfram það sem segi skýrum orðum í samningnum. Ljóst sé að báðir aðilar huguðu að fyrirvörum og tak­mörk­unum og þess vegna hafi verið settur inn fyrir­vari um breytingar á greiðslu skatta af flug­farseðlunum í samninginn. Engir aðrir fyrir­varar eða takmarkanir á réttindunum komi þar fram og geti stefndi því ekki byggt á öðrum rökum. Þar af leiðandi geti stefndi ekki nú komið með einhverjar síðari tíma skýr­ingar og túlkun á réttindum stefn­anda, þegar fyrir liggi skýrt í texta samn­ings­ins að vilji samningsaðilanna 2006 hafi augljóslega verið sá að stefnandi myndi og ætti að njóta þessara fríðinda ævi­langt.

                Það sé augljóst að stefndi hafi brotið gegn rétti stefnanda allt frá árinu 2010 og hann því þegar orðið fyrir tjóni. Samkvæmt samningsbundnum réttindum stefn­anda, og að ákveðnum forsendnum gefnum, megi áætla tjón stefnanda meira en hundrað millj­óna króna virði. Því beri að taka stefnukröfuna til greina.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna samninga-, vinnu- og kröfuréttar, einkum til sjónarmiða um skuldbindingargildi samninga, efndir og lok kröfuréttinda og réttinda launþega til launa og annarra samningsbundinna starfs­kjara.

                Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sé honum heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lög­varða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttar­sam­bands. Stefnandi hafi leitt að því nægar líkur að hann hafi orðið fyrir tjóni og gert grein fyrir því í hverju tjón hans felist. Í því sambandi vísar hann einnig til d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi hafnar kröfum stefnanda og telur þær hvorki fá stoð í gögnum málsins né réttarreglum.

Ráðningarsamningur á milli stefnanda og Stoða skuldbatt ekki stefnda

                Stefndi vísar fyrst til þess að ráðningarsamningur, gerður 5. des­em­ber 2005, hafi verið á milli stefnanda og Stoða. Stefndi hafi hvergi komið nærri þeirri samn­ings­gerð. Það sé því óumdeilt að ekkert vinnuréttarsamband eða annars konar samn­ings­sam­band hafi stofn­ast á milli stefnanda og stefnda með ráðn­ing­ar­samn­ingnum.

                Ferðafríðindi stefnanda hafi frá upphafi einungis verið skuldbindandi fyrir Stoðir en ekki stefnda sem var þá dótturfélag Stoða. Af þeim sökum byggi stefndi á því að hann beri að sýkna á grundvelli aðildarskorts. Jafnframt byggi stefndi á því að óum­deilt sé að hann geti ekki orðið skaðabótaskyldur á grundvelli vanefnda á ráðn­ing­ar­samningi sem hann var ekki aðili að.

Stefndi er ekki dótturfélag Stoða

                Samkvæmt grein 1.1 í ráðningarsamningnum hafi stefnandi borið ábyrgð og skyldur gagn­vart stjórn Stoða. Þegar ráðningarsamningurinn og fram­sals­samn­ing­ur­inn, 17. júlí 2006, hafi verið gerðir hafi stefndi verið dótturfélag Stoða. Umrædd ferða­fríð­indi hafi verið bundin við áætl­un­ar­flug á vegum dótturfélaga Stoða, sbr. 7.2 gr. í ráðn­ing­ar­samn­ing­num og ákvæði 1. gr. í samn­ingnum, sem þá voru Icelandair ehf. og Flug­félag Íslands ehf. Fram­kvæmd þess­ara skuldbindinga hafi verið breytt, með samningi dags. 17. júlí 2006, vegna skipu­lags­breyt­inga innan samstæðu Stoða þegar stefndi var ennþá dóttur­félag Stoða.

                Það sé óumdeilt að stefndi hafi ekki verið dótturfélag Stoða frá 15. október 2006 og að frá þeim degi hafi Flugfélag Íslands ehf. og Icelandair ehf. jafnframt farið út úr fyrirtækjasamstæðu Stoða. Af þeim sökum telji stefndi að dóminum beri þá þegar að sýkna hann enda hafi stefndi aldrei samið sérstaklega við stefnanda um að veita honum umrædd ferðafríðindi.

                Í þessu sambandi megi benda á að skuldbinding Stoða samkvæmt ráðn­ing­ar­samn­ingnum hafi takmarkast við það að Stoðir eða dótturfélög þess stundi flugrekstur. Þar sem Stoðir stundi ekki flugrekstur lengur hvíli væntanlega ekki lengur skylda á þeim að veita stefnanda þessi réttindi.

Stefnandi ekki bótaskyldur á grundvelli samningsins frá 17. júlí 2006

                Stefnandi haldi því fram að til samningssambands hafi stofnast á milli hans og stefnda þar sem stefnandi hafi veitt samþykki sitt fyrir því að ferða­fríð­indi hans yrðu færð yfir til stefnda frá Stoðum. Stefndi mótmæli þessari máls­ástæðu.

                Eins og áður segi hafi Stoðir, stefndi, Icelandair ehf. og Flugfélag Íslands gert umræddan samning, Agreement on transfer of obligations. Hann hafi því einungis verið bindandi fyrir þessa samn­ings­aðila eins og skýrt komi fram í grein 7.7 í samn­ingnum. Eina aðkoma stefn­anda að samningnum hafi verið sú að hann lýsti því yfir að hann, ásamt öðrum til­teknum starfsmönnum, samþykkti að ferðafríðindi hans skyldu útfærð í sam­ræmi við efni 3. gr. samningsins í ljósi þess að þar voru þau tak­mark­aðri en í umræddum ráðn­ingar­samningi.

                Þetta sýni að stefnandi hafi ekki verið sjálfstæður aðili að samningnum. Hefði ætl­unin verið sú að stofna til beins samningssambands á milli stefnanda, stefnda, Ice­land­air ehf. og Flugfélags Íslands ehf. hefði stefnandi einfaldlega verið einn af samn­ings­aðilunum en svo hafi ekki verið.

                Óumdeilt sé að skuldbinding stefnda, og dótturfélaga hans, samkvæmt samn­ingnum hafi einungis verið við Stoðir. Þar sem stefnandi byggi rétt sinn á samn­ingi sem hann var ekki aðili að byggi stefndi á því að sýkna beri hann af öllum kröfum stefn­anda á grundvelli aðildarskorts. Til stuðnings þessu vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar en meginreglan sé sú að aðili geti ekki byggt á samn­ingi sem hann sé ekki aðili að.

                Að þessu sögðu sé þó rétt að taka fram að samkvæmt fræðikenningum geti þriðji maður, sem sé ekki sjálfstæður aðili að samningi, í undantekningartilfellum, átt sjálf­stæðan rétt til þess krefjast efnda. Það séu svokallaðir eiginlegir þriðja­manns­lög­gern­ingar. Þeir samningar þar sem þriðji aðili sé ekki talinn öðlast sjálfstæðan rétt til efnda séu nefndir óeiginlegir þriðja­manns­lög­gern­ingar.

                Stefndi telji að þrátt fyrir að talið yrði að samningurinn væri eiginlegur þriðja­manns­lög­gerningur hafi sá löggerningur enga þýðingu þegar aðilar hafi slitið honum.

                Í þessu máli sé stefndi í fræðilegum skilningi svokallaður loforðsgjafi þar sem hann hafi lofað Stoðum, loforðsmóttakanda, að þjónusta ferðafríðindaskuldbindingar Stoða gagnvart stefnanda sem sé þá þriðji maður í þessum skilningi.

                Samkvæmt kenningum fræðimanna sé óumdeilt að loforðsmóttakandi geti leyst loforðsgjafa undan skyldu sinni gagnvart þriðja manni á grundvelli þriðja­manns­lög­gern­ings. Það leiði af almennum reglum samningaréttar. Stoðir hafi leyst stefnda undan þeirri skuldbindingu sinni við Stoðir, að veita stefnanda umrædd ferða­fríð­indi, með ofangreindu samkomulagi um slit samningsins frá 28. októ­ber 2010. Stefndi byggi á því að frá þeim degi hafi stefndi ekki lengur verið skuldbundinn Stoðum til þess að veita stefnanda umrædd ferðafríðindi.

                Til stuðnings ofangreindu bendi stefndi enn fremur á að samkvæmt kenn­ingum fræði­manna geti aðilar að þriðjamannslöggerningi breytt slíkum samningi þannig að réttur þriðja manns falli niður jafnvel þótt upphaflega hafi verið kveðið á um að réttur hans ætti að vera óafturkræfur. Skilyrði þessa sé að þriðji maður hafi ekki verið sjálf­stæður aðili að samningnum eins og staðan sé í þessu tilviki.

                Að ofangreindu virtu byggi stefndi á því að hann hafi ekki á neinn hátt bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda með aðkomu sinni að umræddum samningi við Stoðir.

Ekki uppfyllt skilyrði um tjón vegna meintra brota á samningsskuldbindingu

                Stefndi byggi kröfur sínar jafnframt á því að stefnandi geti ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni þegar ferðafríðindi hans voru felld niður.

                Eins og áður sé rakið njóti stefnandi ferðafríðinda hjá dótturfélögum stefnda, Ice­land­air ehf. og Flugfélagi Íslands ehf., vegna réttinda maka síns sem sé fram­kvæmda­stjóri Flugleiðahótela ehf., dótturfélags stefnda. Þá liggi fyrir að stefn­andi hafi nýtt ferðafríðindi maka síns töluvert meira eftir að ferða­fríð­indi hans sjálfs féllu niður og bendi stefndi á að ferðir hans á grundvelli ferða­fríð­inda maka síns hafi ríflega tvö­faldast frá því að ferðafríðindi hans voru felld niður, þ.e. úr 2,5 ferðum að meðal­tali á ári í 6,3 ferðir að meðaltali á ári.

                Þetta sýni að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna van­efnda Stoða á skuld­bindingu um ferða­fríðindi stefnanda og í öllu falli sé óljóst hvort stefnandi verði fyrir nokkru tjóni. Í þessu sambandi bendi stefndi á að Stoðir hafi þegar með yfir­lýs­ingu tak­markað rétt­indi stefnanda við 10 ár frá 15. október 2006. Réttur stefnanda til ferða­fríð­inda ætti því að renna út 15. október 2016 hefði stefndi ekki verið leystur undan skuld­bind­ingum sínum gagnvart Stoðum.

                Hið stefnda félag styður kröfur sínar við meginreglur kröfu- og samn­inga­réttar. Máls­kostn­að­ar­krafan styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.

 

Niðurstaða

                Í þessu máli er dóminum falið að svara því hvort stefndi, Icelandair Group hf., hafi tekið að sér að uppfylla hluta af skuldbindingum FL Group hf. við stefnanda, sam­kvæmt ráðn­ingar­samningi sem FL Group gerði við hann.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda við hann. Þessa kröfu byggir hann á því að samningssamband hafi stofnast milli sín og stefnda þegar stefndi hafi tekið að sér skyldur FL Group við stefnanda. Því samn­ings­sambandi hafi stefndi ranglega rift. Við það hafi stefnandi orðið af réttindum og af þeim sökum orðið fyrir tjóni. Því beri að viðurkenna bótaskyldu stefnda við hann.

                Stefndi telur samningssamband ekki hafa stofnast þeirra í milli. Hann telur jafn­framt að þótt stefn­andi hafi orðið af einhverjum samningsbundnum réttindum hafi hann ekki sýnt fram á tjón.

                Stefnandi réð sig til starfa hjá FL Group 5. desember 2005. Í ráðn­ing­ar­samn­ingi hans eru tilgreind ýmis fríðindi, þar á meðal þau að þegar hann ferðist leggi félagið honum til, honum að kostnaðarlausu, flugmiða fyrir hann, maka og börn yngri en 21 árs og gildi þetta um áætlunarflug á vegum dótturfélaga FL Group, Iceland­air og Flugfélags Íslands.

                Ríflega sjö mánuðum eftir gerð ráðningarsamningsins, 17. júlí 2006, gerðu FL Group hf. annars vegar og Ice­land­air Group hf., Icelandair hf. og Flugfélag Íslands ehf. hins vegar samning um yfir­færslu skyldna frá FL Group til síðarnefndu félaganna (Agree­ment on Transfer of Obligations). Þrátt fyrir að allir samn­ings­aðilar séu íslenskir, og fyrirsvarsmenn þeirra einnig, er texti samn­ingsins á ensku. Hann hefur ekki verið lagður fram á íslensku.

                Í grein 1.1 segir:

By this Agreement FL agrees to transfer certain obligations to IG and IG agrees to receive the same obligations concerning airline ticket entitlements to the current employees of FL (both senior management and others) as well as a group of former employees of FL or Flugleiðir hf. („Flugleiðir“), which was its prede­cessor (and had similar function and scope of activity as IG has now).

                Greinar 1.3 og 1.4 hljóða þannig:

IG, through its subsidiaries, Icelandair and Air Iceland, pledges to take over any such commitment as is further described in this agreement. …

Likewise, Icelandair and Air Iceland pledge, on their behalf, to take over the commit­ment in accordance with IG’s decision.

                Næst er í samningnum gerð grein fyrir réttindum hvers starfsmanns fyrir sig og eru rétt­indi stefnanda nánast eins orðuð og í ráðningarsamningi hans. Síðan segir í grein 3.3:

The scope of the entitlement can vary between each individual named above in accord­ance with his employment agreement. However, these individuals agree upon and confirm with their signatures in Annex I below that the entitlement shall be coordin­ated as described above, even though it might be more limited than their employ­ment agreement states. Therefore, in case of any discrepancy hereof between this agreement and the relevant employment agreement, the provisions of this agree­ment shall prevail.

                Fimm æðstu stjórnendur FL Group, stefnandi þeirra á meðal, undirrituðu ákvæði samhljóða þessu í viðauka I við samninginn.

                Í grein 3.4 segir:

In accordance with Articles 1.3 and 1.4 the obligation to provide the aforementioned senior management employees of FL with airline tickets free of charge within the scope of the guidelines in Article 3.2 are hereby transferred from FL to IG, Icelandair and Air Iceland respectively, except for the payment of taxes discussed in Article 3.2.3. 

                Ágreiningur málsaðila varðar það einkum hvort þessi samningur (Agreement on Transfer of Obligations) sé þriðja­manns­lög­gern­ingur.

 

                Icelandair Group hf., Icelandair ehf., Flugfélag Íslands ehf., annars vegar, og FL Group, sem hafði þá verið skýrt Stoðir, hins vegar, gerðu 28. október 2010 sam­komu­lag um slit á samningi.

                Þar segir:

Aðilar undirrituðu þann 17. júlí 2006 Agreement on Transfer of Obligations (hér eftir samn­ingurinn) þar sem nokkrum nafngreindum þáverandi og fyrrverandi starfs­mönnum Stoða (hér eftir starfsmennirnir) voru tryggð nánar tiltekin ferðafríðindi hjá Ice­land­air og FÍ (hér eftir ferðafríðindin). Með samningnum var ábyrgð á efndum ferða­fríðindanna færð frá Stoðum yfir til IG í samræmi við skipulagsbreytingar sem gerðar höfðu verið á samstæðunni mánuðina á undan.

IG og Stoðir undirrituðu þann 15. október 2006 yfirlýsingu í tilefni af sölu Stoða á öllum hlutum sínum í IG þar sem ferðafríðindin voru takmörkuð (hér eftir yfir­lýs­ingin).

IG og Stoðir undirrituðu þann 2. september 2010 samkomulag um lausn ágreinings­mála og yfirlýsingu um samstarf um tiltekin mál, þar sem Stoðir skuldbundu sig til að veita IG alla þá aðstoð sem því væri unnt, án þess að baka sér bótaskyldu, til að tak­marka eða rifta ferðafríðindunum (hér eftir samkomulagið).

Samkomulag þetta er gert á grundvelli samkomulagsins.

Aðilar eru sammála um að samningnum verði slitið, þannig að ferðafríðindin falli niður, frá og með undirritun samkomulags þessa. Í samræmi við ákvörðun aðila um að binda enda á ferðafríðindin er úr gildi fallinn b. liður yfirlýsingarinnar.

Komi til þess að starfmennirnir krefji Stoðir um bætur vegna missis ferðafríðinda skal IG halda Stoðum skaðlausum vegna slíkra krafna.

IG skal tilkynna umræddum starfsmönnum um gerð samkomulags þessa og ákvörðun aðila um að þeir muni ekki njóta ferðafríðinda framvegis.

 

                Stefndi telur að með þessu samkomulagi hafi Stoðir (FL Group) leyst hann undan þriðjamannslöggerningnum sem hann telur samninginn, gerðan 17. júlí 2006, vera.

                Í ráðningarsamningi FL Group og stefnanda var, eins og áður segir, til viðbótar við laun samið um önnur ráðningarkjör, þeirra á meðal ferðafríðindi sem áður hefur verið lýst.

                Þar sem þessi réttindi voru hluti af ráðningarkjörum stefnanda hjá FL Group, sam­kvæmt persónubundnu samkomulagi, gat það félag ekki ráðstafað skyldum sínum sam­kvæmt þeim samningi til ann­ars félags án þess að stefnandi samþykkti að það félag tæki að sér að uppfylla samn­ings­skuld­bind­ingu viðsemjanda hans.

                Í því ljósi verður að skoða undirritun stefnanda á viðauka við samninginn gerðan 17. júlí 2006, þar sem stefndi yfirtók allar skuldbindingar FL Group vegna ferða­fríðinda fyrr­ver­andi og þáverandi starfsmanna, og æðri stjórnenda.

                Orðalag samkomulagsins, sem gert var 28. október 2010, styður einnig þá máls­ástæðu stefnanda að stefndi og FL Group hafi litið svo á að með samningnum um yfir­færslu skyldna (Agreement on Transfer of Obligations), 17. júlí 2006, hafi stefndi orðið skuld­bundinn þeim starfsmönnum sem voru tilgreindir í samn­ingnum, stefn­anda þar á meðal, til þess að uppfylla þær skyldur sem FL Group hafði tekið á sig í ráðn­ingarsamningnum við hvern og einn þessara starfsmanna.

                Dómurinn getur því ekki fallist á það með stefnda að sá samningur hafi verið þriðja­mannslöggerningur milli FL Group, annars vegar, og stefnda, Icelandair og Flug­félags Íslands, hins vegar.

                Þar sem því hefur verið hafnað að sá samningur sé þriðjamannslöggerningur er því jafnframt hafnað að stefnanda hafi ekki verið rétt að beina þessari viðurkenningar­kröfu að stefnda. Samkomulagið sem Stoðir og stefndi gerðu 28. október 2010 getur því ekki haft nein réttaráhrif gagnvart stefnanda. Stefndi hafði því engan grundvöll, hvorki samn­ings­bund­inn né lögbundinn, til þess að rifta ferðafríðindunum sem hann hafði tekið að sér að veita stefnanda.

                Að mati dómsins hefur það enga þýðingu fyrir úrslit þessa máls hvort stefndi er dótturfélag Stoða eður ei. Hann tók að sér þær skyldur sem FL Group (Stoðir) höfðu áður tekið á sig við stefnanda með ráðningarsamningi við hann.

                Jafnframt skiptir ekki máli þótt stefnandi sé ekki í ráðningarsambandi við stefnda enda eru farmiðafríðindin ekki bundin við að stefnandi starfi hjá Stoðum (FL Group) og þau halda gildi þótt hann hætti störfum fyrir félagið þrátt fyrir að til þeirra hafi í upp­hafi verið stofnað með ráðningarsamningi við það félag.

                Enn fremur tóku dótturfélög stefnda, Icelandair og Air Iceland, að sér að fram­fylgja ákvörðunum stefnda skv. greinum 1.3 og 1.4 í framsalssamningnum.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni þótt hann njóti ekki lengur kjarasamningsbundinna ferðafríðinda þar sem eig­in­kona hans njóti einnig ferðafríðinda sem hann nýti í ríkari mæli en hann nýtti sín eigin rétt­indi á meðan hann átti þau.

                Að mati dómsins verða menn ekki sviptir ráðningarkjörum með þeim rökum að þeir hafi aðgang að sambærilegum kjörum eftir öðrum leiðum. Þau efnislegu rétt­indi sem felast í ráðningarkjörunum tilheyra starfsmanninum. Því þykir ekki skipta máli hvort hann, tímabundið eða til langframa, nýtur svipaðra eða sambærilegra rétt­inda vegna hjúskaparstöðu sinnar. Þar sem hann nýtur ekki lengur þeirra réttinda sem samið var um í ráðningarsamningi hans þykir hann hafa orðið fyrir tjóni. Þar sem það er niðurstaða dómsins að stefndi hafi tekið að sér skyldu FL Group til þess að veita stefnanda þessi réttindi ber stefnda að bæta honum tjónið.

                Vegna þessarar niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, 850.000 kr.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

                Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Icelandair Group hf., gagn­vart stefn­anda, Þorsteini Erni Guðmundssyni, vegna ólögmætrar riftunar stefnda með bréfi, dags. 11. nóvember 2010, á starfskjarabundnum ferðafríðindum stefnanda hjá stefnda, sem stofnuðust upphaflega með ráðn­ing­ar­samn­ingi, dagsettum 5. desember 2005.

                Stefndi greiði stefnanda 850.000 kr. í málskostnað.