Hæstiréttur íslands
Mál nr. 31/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 24. janúar 2006. |
|
Nr. 31/2006. |
WVS-verkfræðiþjónusta ehf. (Reinhold Kristjánsson hrl.) gegn Sigríði SveinsdótturHauki Kristjánssyni Erlingi Erni Kristjánssyni Áslaugu Kristjánsdóttur Vilhjálmi G. Kristjánssyni Petru Kristjánsdóttur og (Árni Pálsson hrl.) sýslumanninum á Akureyri (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
W krafðist þess í málinu að ógilt yrði með dómi skipting jarðarinnar L með stofnskjali útgefnu af SS, HK, EEK, ÁK, VGK og PK, sem þinglýst var tiltekinn dag. Þá gerði W þá kröfu á hendur S að lagt yrði fyrir hann að afmá skjalið úr þinglýsingarbókum, sem og nánar tilgreinda eignayfirlýsingu. Talið var að frestur til að bera ágreining um þinglýsingu undir þinglýsingarstjóra hafi verið liðinn þegar málið var höfðað og ekki væri heldur réttarfarsleg nauðsyn á aðild S að málinu og var kröfum W á hendur S því vísað frá dómi. Þá var talið að útgáfa og þinglýsing stofnskjalsins hafi ekki veitt útgefendum þess rýmri rétt en þeir áttu fyrir og hin umdeilda landskipting hefði í raun átt sér stað á fyrra tímamarki, að hluta til með afsali gefnu út tilgreindan dag og síðan við skipti á tilteknu dánarbúi þar sem aukið var nokkuð við stærð hinnar umdeildu landspildu. Var talið krafa W væri ekki til þess fallin að leysa úr ágreiningi málsaðila og yrði ekki séð, væri hún tekin til greina, að niðurstaðan myndi færa W nokkur efnislega réttindi. Bæri því samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa málinu í heild frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 3. janúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. desember 2005, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður falli niður bæði í héraðsdómi og fyrir Hæstarétti.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Í héraði var Ingunni Kristínu Baldursdóttur stefnt til réttargæslu og gerði hún kröfu um málskostnað, sem tekin var til greina í hinum kærða úrskurði. Fyrir Hæstarétti krefst hún staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili gerði þá kröfu í héraði á hendur öðrum stefndu en sýslumanninum á Akureyri „að ógilt verði með dómi skipting á jörðinni Leyningi og Leyningshólum (landnúmer 152715) í Eyjafjarðarsveit með stofnskjali dags. 9. september 2002, þinglýstu 17. október s.á., skjal nr. 424-A-004266/2002.” Þá krafðist hann þess að lagt yrði fyrir sýslumanninn á Akureyri að afmá þinglýsingu á stofnskjalinu og eignayfirlýsingu á skjali nr. 424-A-005122/2002.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður skal vera óraskaður.
Sóknaraðili, WVS-verkfræðiþjónusta ehf., greiði varnaraðilum Sigríði Sveinsdóttur, Hauki Kristjánssyni, Erlingi Erni Kristjánssyni, Áslaugu Kristjánsdóttur, Vilhjálmi G. Kristjánssyni og Petru Kristjánsdóttur óskipt 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila sýslumanninum á Akureyri og réttargæslustefndu, Ingunni Kristínu Baldursdóttur, hvoru um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. desember 2005.
Mál þetta höfðaði stefnandi, WVS-verkfræðiþjónusta ehf., Lágmúla 5, í Reykjavík, 24. og 30. júní 2005, gegn stefndu, Sigríði Sveinsdóttur, Mýrarvegi 111, Akureyri, Hauki Kristjánssyni, Bergþórugötu 17, Reykjavík, Erlingi Erni Kristjánssyni, Keilusíðu 2i, Akureyri, Áslaugu Kristjánsdóttur, Urðargili 34, Akureyri, Vilhjálmi G. Kristjánssyni, Vestursíðu 5e, Akureyri, Petru Kristjánsdóttur, Merkigili 8, Akureyri og sýslumanninum á Akureyri, Hafnarstræti 107, Akureyri og til réttargæslu, Ingunni Kristínu Baldursdóttur, Skessugili 11, Akureyri. Málið var þingfest 30. júní 2005.
Kröfur stefnanda eru að ógilt verði með dómi skipting á jörðinni Leyningi og Leyningshólum (landnúmer 152715) í Eyjafjarðarsveit með stofnskjali dags. 9. september 2002, þinglýstu 17. október s.á., skjal nr. 424-A-004266/2002. Stefnandi krefst þess jafnframt að lagt verði fyrir sýslumanninn á Akureyri að afmá þinglýsingu á stofnskjalinu og eignayfirlýsingu, skjali nr. 424-A-005122/2002. Þá krefst stefnandi þess enn fremur að stefndu verði dæmd in solidum til greiðslu málskostnaðar.
Kröfur stefndu Sigríðar, Hauks, Erlings, Áslaugar, Vilhjálms og Petru eru aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum gera stefndu þá kröfu að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað.
Stefndi sýslumaðurinn á Akureyri gerir þær kröfur aðallega í málinu að þeim hluta dómkrafna sem að honum er beint verði vísað frá dómi. Til vara krefst sýslumaður sýknu af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst sýslumaður málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Þá krefst réttargæslustefnda þess að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað.
Að undangengnum munnlegum málflutningi 23. nóvember s.l. var tekin til úrskurðar krafa stefndu um að máli þessu verði vísað frá dómi.
I.
Með afsali 27. september 1991 seldi stefnda Sigríður þeim Indriða Kristjánssyni og Kolbrúnu Elfarsdóttur jörðina Leyning ásamt Leyningshólum og Jökli með mannvirkjum og gögnum og gæðum sem fylgdu. Við söluna var undanskilið íbúðarhúsið á Leyningi ásamt garði og einnig „landspilda í landi Leynings, vestan Hestvatns“ en um spilduna var vitnað til leigusamnings við börn stefndu Sigríðar.
Indriði Kristjánsson lést 15. apríl 1992. Í einkaskiptagerð sem unnin var vegna einkaskipta á dánarbúi hans kom fram að undir skiptunum hefði hlutur dánarbúsins í jörðinni Leyningi verið seldur, sbr. kaupsamning dags. 1. janúar 1993. Undanskilið við söluna var landspilda kringum Hestvatn og Torfhól ásamt rönd upp með Sesselíuhöfða og skóglendi innan girðingar Skógræktarfélags Eyjafjarðar. Síðar sagði í einkaskiptagerðinni:
„Þá hefur við skiptin orðið um það fullt samkomulag, að af framangreindum eignum dánarbúsins, þ.e. því landi, sem var að 50 % hluta í eigu dánarbúsins og skilgreint er sem rönd upp með Sesselíuhöfða og breikkun á svonefndu Hestvatnssundi til stækkunar á því landi, sem undanskilið var við sölu Sigríðar Sveinsdóttur og dánarbús Kristjáns Hermannssonar til Indriða heitins Kristjánssonar, skuli verði eign erfingjanna Hauks Kristjánssonar, Erlings Kristjánssonar, Áslaugar Kristjánsdóttur, Vilhjálms Kristjánssonar og Petru Kristjánsdóttur þannig að hvert þeirra skal eiga 1/5 hluta óskipt.“
Samhliða framangreindri sölu á hlut dánarbús Indriða Kristjánssonar í jörðinni seldi stefnda Sigríður með kaupsamningi, dags. 29. desember 1992, sömu aðilum, þeim Sigurjóni Haraldssyni og Önnu Rúnarsdóttur, íbúðarhús ásamt garði. Var öllu hinu afsalaða svo lýst í sameiginlegu afsali seljenda, dagsettu 20. desember 1995, að um væri að ræða steypt íbúðarhús, byggt 1981, sem stæði á jörðinni Leyningi, Eyjafjarðarsveit, ásamt garði. Einnig jörðin Leyningur ásamt öllu sem jörðinni fylgdi, þ.m.t. hlunnindi. Í afsalinu var tekið fram að undanskilið við söluna væri landspilda kringum Hestvatn og Torfhól ásamt rönd upp með Sesselíuhöfða eins og sýnt væri á loftmynd sem kaupandi hefði kynnt sér. Spilda þessi hefði verið afmörkuð með hælum. Þá væri einnig undanskilið við söluna skóglendið innan girðingar Skógræktarfélags Eyjafjarðar.
Með afsali 19. september 1999 seldu þau Sigurjón og Anna jörðina til Árna Þorvaldssonar og Ingunnar Kristínar Baldursdóttur, réttargæslustefndu í máli þessu. Í skjalinu var hinu afsalaða lýst sem jörðinni Leyningi, Eyjafjarðarsveit, ásamt íbúðarhúsi og öðrum húsum og mannvirkjum, gögnum og gæðum sem jörðinni fylgi og fylgja beri. Um landamerki jarðarinnar var vísað til landamerkjaskrár Eyjafjarðar og þinglýstra skjala. Hinn 12. febrúar 2000 afsalaði Árni Þorvaldsson eignarhluta sínum í jörðinni til réttargæslustefndu.
Stefnandi keypti jörðina í ágúst 2002. Í kaupsamningi frá 14. október 2002 er hinu selda svo lýst: „Jörðin Leyning og Leyningshóla, landnúmer 152715, Eyjafjarðarsveit, ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber. Jörðin er án fullvirðisréttar, bústofns og véla.“ Kaupsamningur stefnanda og réttargæslustefndu var móttekinn til þinglýsingar hjá embætti sýslumannsins á Akureyri 15. október 2002 og þinglýst án athugasemda degi síðar.
Hinn 17. október 2002 var þinglýst hjá sýslumanni stofnskjali, dags. 9. september 2002. Í skjalinu er vísað til 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sem og 2. mgr. 20. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Samkvæmt efni sínu varðar skjalið landspildu, fnr. 193166, úr jörðinni Leyningi, fnr. 152715. Eigendur fasteignar þessarar eru sagðir vera stefndu Sigríður, Haukur, Erlingur, Áslaug, Vilhjálmur og Petra. Sama dag var einnig þinglýst yfirlýsingu varðandi greint stofnskjal þar sem fram kemur að eignarhlutur hvers eiganda fyrir sig í landspildunni sé 1/6 hluti. Er skjal þetta undirritað af öllum áðurgreindum aðilum.
Með bréfi til sýslumannsins á Akureyri 5. júní 2003 óskaði stefnandi eftir því að þinglýsingarstjóri bætti úr: „... þeim mistökum að þinglýsa umræddu stofnskjali án afstöðu og samþykkis eiganda jarðarinnar og tilkynni auk þess hverjum þeim sem kunna nú þegar að hafa fengið upplýsingar um mistökin, svo sem ráð er fyrir gert í tilvitnuðu ákvæði 1. mgr. 27. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Jafnframt er þess krafist að veðmálabækur embættisins verði færðar til samræmis því veðbókarvottorði sem gefið var út af embættinu við undirritun kauptilboðs þann 6. ágúst 2002 ...“. Fulltrúi sýslumanns hafnaði kröfu stefnanda með bréfi 18. júní 2003. Hinn 26. október 2004 ritaði stefnandi sýslumanni bréf að nýju og krafðist þess að hið umdeilda stofnskjal yrði afmáð úr þinglýsingabókum. Bréfinu svaraði fulltrúi sýslumanns 10. nóvember 2004. Kvað hann málið hafa fengið formlega úrlausn 18. júní 2003 og með vísan til 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 yrði ekki fjallað frekar um málið af embætti sýslumanns.
II.
A.
Stefndu Sigríður, Haukur, Erlingur, Áslaug, Vilhjálmur og Petra byggja frávísunarkröfu sína á því að í stefnu komi fram að fyrirsvarsmanni stefnanda hafi orðið kunnugt um það 20. nóvember 2002 að búið var að þinglýsa hinum umdeildu skjölum. Þrátt fyrir það hafi stefnandi ekki gert kröfu um „leiðréttingu“ (sic) fyrr en með bréfi 5. júní 2003. Stefndi sýslumaðurinn á Akureyri hafi hafnað þeirri kröfu stefnanda. Stefnandi hafi ítrekað kröfu sína með bréfi 26. október 2004. Sýslumaður hafi synjað erindi stefnanda að nýju og þá vísað til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1978.
Stefndu halda því fram með vísan til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1978 að stefnandi hafi orðið að bera ágreining um þinglýsingu skjalanna undir héraðsdóm innan fjögurra vikna frá því honum varð kunnugt um þinglýsingu þeirra. Fyrir liggi að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi fengið vitneskju um þinglýsingu skjalanna 20. nóvember 2002 og frestur til þess að bera ágreining þennan undir dóm sé því löngu liðinn.
Enn fremur byggja stefndu Sigríður, Haukur, Erlingur, Áslaug, Vilhjálmur og Petra á því að kröfugerð stefnanda sé þannig háttað að tæplega sé hægt að leggja dóm á málið. Stefndu segja jörðinni Leyningi ekki hafa verið skipt með stofnskjali 9. september 2002 eins og ráða megi af kröfugerð stefnanda. Ákvæði um stofnskjöl fasteigna hafi verið lögfest með setningu laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Í 14. gr. laganna segi að eigandi fasteignar skuli gefa út stofnskjal en af lögunum megi ráða að tilgangurinn með setningu þessa ákvæðis hafi verið að fasteign fengi sérstakt númer í Landskrá fasteigna, hafi hún ekki fengið það áður. Mjög langsótt sé því að líta svo á að með því að gefa í samræmi við lagaskyldu, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga 6/2001, út stofnskjal fyrir land, sem þau hafi haft þinglýsta eignarheimild fyrir, hafi stefndu verið að skipta landi jarðarinnar Leynings. Landinu hafi stefnda Sigríður haldið eftir við sölu jarðarinnar 1991 og hafi stefndu Haukur, Erlingur, Áslaug, Vilhjálmur og Petra eignast hluta þess 30. mars 1994. Stefnandi hafi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um umrædda kröfu sína eins og hún sé sett fram í stefnu.
Stefndu benda einnig á að kröfugerð stefnanda miði ekki að því að honum verði dæmdur eignarréttur að hinu umdeilda landi. Einungis sé gerð krafa um að skipting samkvæmt stofnskjalinu verði ógilt með dómi. Ekki verði séð hvaða lögvörðu hagsmuni stefnandi hafi af úrlausn dómsins um þessa kröfu. Ráða megi af málatilbúnaði stefnanda að hann telji sig hafa keypt hið umþrætta land en hann geri þrátt fyrir það ekki kröfu í málinu um að honum verði dæmdur eignarréttur að því. Málatilbúnaður stefnanda miði þannig ekki að því að fá leyst úr þeim ágreiningi sem hann hafi kosið að gera um eignarrétt að landinu. Verði því ekki annað séð en ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 eigi við í málinu.
B.
Stefndi sýslumaðurinn á Akureyri reisir frávísunarkröfu sína á því að í svarbréfi sýslumannsembættisins frá 18. júní 2003 hafi kröfu stefnanda um aflýsingu umræddra skjala verið hafnað með rökstuddum hætti og meðal annars vísað til 27. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Stefnandi hafi ekki borið úrlausn sýslumanns undir héraðsdóm á grundvelli 3. gr. laga nr. 39/1978, eins og hann hafi getað gert, en í dag séu málskotsfrestir löngu liðnir, sbr. nánar ákvæði 1. og 4. mgr. 3. gr. laganna. Fyrri ákvarðanir sýslumanns um þinglýsingu skjala nr. 424-A-004266/2002 og 424-A-005122/2002 standi því óhaggaðar að því leyti sem þær snúi að honum einum. Af þeim sökum sé ekki lengur fyrir hendi lagaheimild til að fjalla sérstaklega um þátt þinglýsingarstjóra við framkvæmd þinglýsinga á skjölunum.
Þá vísar stefndi sýslumaðurinn á Akureyri til þess að hann sé ekki aðili að efnislegri deilu stefnanda og meðstefndu í málinu. Sýslumaður hafi enga sérstaka skoðun á efnislegum atriðum deilu stefnanda og annarra stefndu, enda snerti efnisatriði deilunnar ekki hagsmuni hans. Þar af leiðindi hafi sýslumaður engra hagsmuna að gæta varðandi niðurstöðu dómsmálsins. Fái stefnandi dóm fyrir dómkröfum sínum á hendur meðstefndu geti hann á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laga nr. 39/1978 krafist aflýsingar þinglýsts skjals eða skjala. Hann þurfi ekki að stefna sýslumanni til þess að þola aflýsingu enda hafi stefnandi ekki látið reyna á lögmæti framkvæmdar þinglýsingarstjóra innan þeirra tímamarka sem nefnd þinglýsingarlög kveði á um.
C.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað. Hann segir ágreining málsins snúast um lögmæti skiptingar á jörðinni Leyningi og Leyningshólum með stofnskjali 9. september 2002. Með stofnskjalinu hafi stefndu Sigríður, Haukur, Erlingur, Áslaug, Vilhjálmur og Petra sérgreint einhliða 11 ha landspildu úr jörðinni við Hestvatn og fengið spildunni skipt út úr jörðinni með þinglýsingu stofnskjalsins.
Stefnandi segir alla tíð hafi skort á að hin umdeilda spilda hafi verið sérgreind og afmörkuð með fullnægjandi hætti. Heldur stefnandi því fram að spildunni hafi aldrei verið lögformlega skipt út úr landi jarðarinnar, en með stofnskjalinu 9. september 2002 hafi fyrst verið til þess gerð tilraun að skipta spildunni út úr jörðinni.
Að mati stefnanda leikur ekki á því vafi að þinglýsing stofnskjalsins og myndun nýrrar eignar í Landskrá fasteigna hafi falið í sér skiptingu jarðarinnar Leynings og Leyningshóla sem um sé fjallað í 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sem í gildi hafi verið er skjalinu var þinglýst. Þinglýsingu skjalsins segir stefnandi hafa verið augljóst brot á 3. mgr. 12. gr. laga nr. 65/1976 þar sem samþykkis jarðanefndar og hreppsnefndar hafi ekki verið leitað og staðfestingar landbúnaðarráðneytisins ekki aflað. Þinglýsing skjalsins hafi einnig brotið gegn 9. gr. laga nr. 65/1976. Ógilda beri því umrædda skiptingu jarðarinnar og leggja fyrir sýslumann að afmá þinglýsingu stofnskjalsins og viðfestrar eignayfirlýsingar.
Kröfugerð sína í málinu segir stefnandi samræmast ákvæðum 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hafnar stefnandi alfarið fullyrðingum stefndu um að hann sé að spyrja dóminn lögspurninga.
D.
Í greinargerð réttargæslustefndu kemur fram að hún telji sig ekki aðila að ágreiningi þeim sem um sé fjallað í málinu, en lætur þess jafnframt getið að ágreiningur hennar og stefnanda vegna sölu á jörðinni Leyningi sé til meðferðar hjá dóminum í máli nr. E-498/2003. Kveðst réttargæslustefnda gera þær kröfur einar í málinu að henni verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.
III.
Skjölum þeim sem um er deilt í málinu, stofnskjali, dags. 9. september 2002, og yfirlýsingu um eignarhlutföll, dags. 25. september 2002, var þinglýst hjá sýslumanninum á Akureyri 17. október 2002. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 má bera úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögunum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Heimild til þess hefur hver sá sem á lögvarðra hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra. Úrlausnin skal borin undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana.
Með bréfi til sýslumannsins á Akureyri 5. júní 2003 óskaði stefnandi eftir því að þinglýsingarstjóri bætti úr: „... þeim mistökum að þinglýsa umræddu stofnskjali án afstöðu og samþykkis eiganda jarðarinnar ...“. Fulltrúi sýslumanns hafnaði kröfu stefnanda með bréfi 18. júní 2003. Í bréfinu fólst úrlausn sýslumanns um þinglýsingu í merkingu 3. gr. þinglýsingalaga. Stefnandi hafði því frá þeim degi, í samræmi við áður tilvitnaða 1. mgr. 3. gr. laganna, fjórar vikur til að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara. Sá frestur var augljóslega löngu liðinn við höfðun máls þessa. Er því ekki fyrir hendi lagaheimild til að fjalla um þátt þinglýsingarstjóra við framkvæmd þinglýsingar á umræddum skjölum.
Sýslumaðurinn á Akureyri hefur enga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Er ekki heldur nein réttarfarsleg nauðsyn á að gefa honum kost á að láta málið til sín taka. Að þessu virtu og með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan verður kröfum stefnanda á hendur sýslumanninum á Akureyri vísað frá dómi.
Eins og rakið er í kafla I seldi stefnda Sigríður þeim Indriða Kristjánssyni og Kolbrúnu Elfarsdóttur jörðina Leyning ásamt Leyningshólum og Jökli með mannvirkjum og gögnum og gæðum sem fylgdu, með afsali 27. september 1991. Við söluna var meðal annars undanskilin „landspilda í landi Leynings, vestan Hestvatns“ en um spilduna var vitnað til leigusamnings við börn stefndu Sigríðar. Samkvæmt framlagðri einkaskiptagerð, sem unnin var vegna einkaskipta á dánarbúi Indriða Kristjánssonar, urðu stefndu Haukur, Erlingur, Áslaug, Vilhjálmur og Petra eigendur að umræddri landspildu ásamt móður sinni, stefndu Sigríði, við skipti á dánarbúinu, auk þess sem spildan var stækkuð. Þá þykir og vafalaust að með tilgreiningu spildu í afsali, dags. 20. desember 1995, sé átt við landspildu þessa.
Hið umdeilda stofnskjal er dagsett 9. september 2002. Er á því byggt af hálfu stefnanda í málinu að með skjalinu hafi Leyningi og Leyningshólum verið skipt.
Samkvæmt efni sínu varðar stofnskjalið landspildu, fnr. 193166, úr jörðinni Leyningi, fnr. 152715. Eigendur landspildunnar eru sagðir vera stefndu Sigríður, Haukur, Erlingur, Áslaug, Vilhjálmur og Petra. Í stofnskjalinu er vísað til 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, sem og 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Í 14. gr. laga nr. 6/2001 segir að eigandi skuli gefa út stofnskjal fyrir hverja lóð eða heildarsafn lóða sem myndaðar eru í Landskrá fasteigna. Í stafliðum a. til f. er síðan kveðið á um hvaða upplýsingar skuli koma fram í stofnskjali. Í 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga er kveðið á um að hvað koma skuli fram í stofnskjali svo þinglýsing þess sé heimil. Er þar að mestu að finna sömu atriði og nefnd eru í 14. gr.
Stefndu Sigríður, Haukur, Erlingur, Áslaug, Vilhjálmur og Petra gáfu út títtnefnt stofnskjal í samræmi við ákvæði laga nr. 6/2001 og 39/1978 svo hin umdeilda landspilda, sem þau telja sig eiga samkvæmt áðurgreindum þinglýstum eignarheimildum, fengist skráð í Landskrá fasteigna. Eðli málsins samkvæmt gátu þau ekki með gerð skjalsins öðlast meiri rétt til spildunnar en þau áttu fyrir.
Samkvæmt framangreindu og málatilbúnaði stefnanda er ljóst að efnislegur ágreiningur aðila varðar eignarrétt að margnefndri landspildu, sem fyrst var nefnd í afsali frá 27. september 1991, og eftir atvikum afmörkun hennar. Af efni tilvitnaðs afsals verður ráðið að hin umdeilda landskipting hafi fyrst farið fram með útgáfu afsalsins. Við skipti á dánarbúi Indriða Kristjánssonar var spildan síðan stækkuð samkvæmt áðursögðu. Fullyrðing stefnanda um að jörðinni Leyningi og Leyningshólum hafi verið skipt með gerð stofnskjalsins 9. september 2002 fær því ekki staðist. Af þeirri niðurstöðu leiðir að þó svo fallist yrði á kröfu stefnanda um ógildingu stofnskjalsins skæri sú niðurstaða á engan hátt úr ágreiningi aðila og verður ekki séð að sú dómsniðurstaða veitti stefnanda nokkur efnisleg réttindi. Þá er frestur stefnanda til að bera úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsinguna undir héraðsdómara löngu liðinn samkvæmt framansögðu. Að öllu þessu athuguðu og með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir verða að vísa frá dómi kröfu stefnanda um að „.. ógilt verði með dómi skipting á jörðinni Leyningi og Leyningshólum (landnúmer 152715) í Eyjafjarðarsveit með stofnskjali dags. 9. september 2002, þinglýstu 17. október s.á.“ Af þeirri niðurstöðu leiðir samkvæmt því sem áður hefur verið rakið að vísa ber málinu í heild frá dómi.
Að virtum afdrifum málsins, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og að teknu tilliti til ákvæða 1. og 2. mgr. 132. gr. og 2. mgr. 21. gr. laganna, úrskurðast stefnandi til að greiða stefndu öllum, sem og réttargæslustefndu, málskostnað er hæfilega telst ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, WVS-verkfræðiþjónusta ehf., greiði stefndu Sigríði Sveinsdóttur, Hauki Kristjánssyni, Erlingi Erni Kristjánssyni, Áslaugu Kristjánsdóttur,Vilhjálmi G. Kristjánssyni og Petru Kristjánsdóttur, óskipt 400.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefnda, sýslumanninum á Akureyri, 150.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði réttargæslustefndu, Ingunni Kristínu Baldursdóttur, 30.000 krónur í málskostnað.