Hæstiréttur íslands
Mál nr. 223/2003
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Varanleg örorka
- Almannatryggingar
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 27. nóvember 2003. |
|
Nr. 223/2003. |
Bergur Þorri Benjamínsson (Árni Pálsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Varanleg örorka. Almannatryggingar. Gjafsókn.
Í málinu viðurkenndi T hf. bótaskyldu vegna slyss sem B varð fyrir í maí 1999 en deilt var um fjárhæðir. Höfðu aðilar fellt sig að nokkru við niðurstöðu héraðsdóms en deildu um fjárhæð bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans að því leyti sem hann var til endurskoðunar í Hæstarétti, var talið að til frádráttar bótum fyrir tímabundið atvinnutjón ættu að koma greiðslur sem B hafði fengið frá Tryggingastofnun ríkisins og var því kröfum hans um frekari bætur hafnað. Einnig var því hafnað að ákvarða ætti bætur til B, sem var kominn skammt á veg í námi þegar slysið átti sér stað, í samræmi við sérreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og ætti 3. mgr. sömu lagagreinar við um aðstöðu B. Einnig var þeirri varakröfu B hafnað að leggja ætti 6% álag á lágmarkslaunaviðmiðun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga vegna mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Þá var talið að bætur frá almannatryggingum, sem B hefði átt rétt til, kæmu til frádráttar bótagreiðslum og að þær skyldu reiknast til eingreiðsluverðmætis á viðmiðunartímapunkti, eins og T hf. hefði gert. Taldist þessi háttur á útreikningi bóta hvorki í andstöðu við 72. né 65. gr. stjórnarskrárinnar. Voru kröfur B fyrir Hæstarétti því ekki teknar til greina að neinu leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2003. Dómkröfur hans eru nú þær að stefndi greiði sér 29.965.395 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. maí 2000 til 27. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum 4.403.520 krónum sem greiddar voru 6. nóvember 2001, 6.491.078 krónum greiddum 30. maí 2002, 60.543 krónum greiddum 9. september 2002 og 687.588 krónum greiddum 14. nóvember 2003. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndi greiði sér 10.407.885 krónur ásamt tilgreindum vöxtum. Hann krefst og málskostnaðar að mati réttarins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og honum dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
Við áfrýjun málsins gerði áfrýjandi kröfu um greiðslu á 37.475.327 krónum ásamt vöxtum en til vara 29.362.564 krónum, að frádregnum greiðslum til hans. Kvað hann kröfur breyttar frá því sem var í héraði þannig að aðalkrafa lækkaði um 667.173 krónur og varakrafan um 489.080 krónur vegna þess að fallist væri á úrlausn héraðsdóms um að nota beri margföldunarstuðul 16.992 í stað 17.365 við útreikning á tjóni vegna varanlegrar örorku. Til frádráttar kröfum kæmi inngreiðsla stefnda á 1.573.757 krónum eftir uppsögu héraðsdóms vegna uppgjörs á kröfu vegna varanlegs miska.
Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lækkaði áfrýjandi kröfu sína eins og að ofan greinir þar sem stefndi hafi 14. nóvember 2003 greitt héraðsdóminn með 4.959.080 krónum og því standi eftir ágreiningur um bætur fyrir tímabundið tjón áfrýjanda og varanlega örorku hans. Laut málflutningurinn að þessum þáttum málsins.
Við málflutninginn kom fram hjá stefnda að hann ítrekaði þau sjónarmið sem hann viðhafði í héraði, að samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga skuli vísitöluhækkun viðmiðunarlauna miðast við stöðugleikapunkt, það er þegar ekki mátti vænta frekari bata, en ekki þann dag sem krafa var gerð, eins og áfrýjandi hafi gert og héraðsdómur fallist á. Stefndi hefur ekki áfrýjað fyrir sitt leyti og kemur dómurinn því ekki til endurskoðunar um þetta.
Að þessu athuguðu verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2003.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 17. janúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, og endurupptekið og flutt að nýju hinn 11. mars sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Bergi Þorra Benjamínssyni, kt. 150279-4889, Tröllagili 14, Akureyri, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, með stefnu þingfestri 6. júní 2002.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 38.142.500 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999, af 7.082.281 krónu frá 27. júlí 1999 til 12. maí 2000, en af 38.142.500 krónum frá þeim degi til 27. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. og 12. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 29.851.644 krónur, með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999, af 7.082.281 krónu frá 27. júlí 1999 til 12. maí 2000, en af 29.851.644 krónum frá þeim degi til 27. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. og 12. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu, ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Eftirfarandi greiðslur komi til frádráttar kröfum hans: 500.000 krónur, sem greiddar voru hinn 14. desember 1999, 500.000 krónur, greiddar hinn 19. janúar 2000, 500.000 krónur, sem greiddar voru hinn 12. október 2000, 8.228.187 krónur, sem greiddar voru hinn 6. nóvember 2001, 6.664.709 krónur, sem greiddar voru hinn 30. maí 2002. Þá hafi stefnandi fengið greitt frá S.J.S. verktökum ehf. 163.683 krónur, auk þess, sem hann hafi fengið greitt frá Tryggingastofnun ríkisins örorkulífeyri og tekjutryggingu á árunum 1999, 2000 og 2001, samtals 767.805 krónur.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað, að skaðlausu. Til vara krefst stefndi lækkunar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Með bréfi dómsmálaráðherra, dagsettu 1. febrúar 2002, var stefnanda veitt gjafsókn í málinu.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi réði sig í vinnu, hjá S.J.S. verktökum ehf. í maí 1999. Starfaði stefnandi þar sem verkamaður, en hann var jafnframt nemandi í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Er hann hóf störf átti hann eftir að ljúka einu ári til stúdentsprófs frá skólanum. Hinn 27. júlí 1999 var stefnandi sendur til að rífa þak af íþróttaskemmunni á Akureyri. Er stefnandi var við þetta verk féll hann niður af þakinu og á steingólf í húsinu. Slasaðist stefnandi mjög mikið við þetta og hlaut 80% varanlega örorku og 80% varanlegan miska, samkvæmt örorkumati læknanna Júlíusar Valssonar og Atla Þórs Ólasonar. S.J.S. verktakar ehf., sem nú hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota, voru með slysatryggingu launþega og ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Hefur stefndi viðurkennt bótaskyldu vegna slysins, en ágreiningur er um útreikning fjárhæðar skaðabótakröfunnar, en stefndi hefur greitt stefnanda 16.521.697 krónur vegna tjóns hans, þar af 444.286 krónur í innheimtuþóknun lögmanns stefnanda. Var þeim fjárhæðum veitt móttaka af stefnanda, með fyrirvara.
Aðilar málsins hafa samið um aðild þess með vísan til 3. gr. laga nr. 20/1954 og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
III
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því, að hann eigi rétt á frekari bótum úr hendi stefnda vegna tímabundins atvinnutjóns hans, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi kveðst hafa unnið í hlutastarfi hjá Hyrni ehf. við að aka flatbökum heim til viðskiptavina félagsins með námi sínu í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Á árinu 1999 hafi hann haft 380.871 krónu í laun fram að slysdegi hinn 27. júlí, eða fyrir sjö mánuði ársins, sbr. launaseðla. Samkvæmt því hafi hann orðið af launum, sem nemi 54.410 krónum á mánuði. Samkvæmt örorkumati sé tímabundið atvinnutjón stefnanda frá slysdegi til 12. maí 2000, eða í níu og hálfan mánuð. Krafa vegna atvinnutjóns sé því 9,5 x 54.410 krónur, eða 516.895 krónur. Stefnandi kveðst geta fallist á, að greiðsla frá S.J.S. verktökum ehf., að fjárhæð 202.054 krónur, sbr. launaseðil, komi til frádráttar. Þá kveðst stefnandi og fallast á, að dagpeningar úr slysatryggingu launþega, að fjárhæð 172.594 krónur, sem greiddar hafi verið 6. nóvember 2001, komi einnig til frádráttar. Hins vegar kveðst hann ekki geta fallist á, að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins verði dregnar frá skaðabótum fyrir tímabundið tjón, því að frá slysdegi og fram til 12. maí 2000 séu greiðslur að stærstum hluta ekki greiðslur, sem fallið geti undir hugtakið „raunveruleg skaðabót” í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993.
Einnig krefst stefnandi þjáningabóta, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993. Ekki sé ágreiningur milli aðila um þennan lið í kröfum stefnanda. Gerð sé krafa um þjáningabætur frá 27. júlí 1999 til 12. maí 2000, en samkvæmt örorkumati hafi stefnandi verið veikur frá slysdegi til 12. maí 2000. Kröfur séu miðaðar við lánskjaravísitölu í ágúst 2001, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1993, sem verið hafi 4229 stig, þegar krafa stefnanda hafi verið send stefnda, og sundurliðist þannig: Rúmliggjandi vegna slyss í alls 226 daga og bætur fyrir hvern dag séu 1.675 krónur, eða samtals 378.080 krónur, og síðan þrjá daga án þess að vera rúmliggjandi, 902 krónur á dag, eða 2.706 krónur, samtals 380.786 krónur.
Kröfu um bætur fyrir varanlegan miska, sbr. 4. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 3. gr. laga nr. 37/1999, byggir stefnandi á því, að samkvæmt 4. gr. fyrrgreindra laga eigi bætur fyrir 100% miska að vera 4.000.000 króna, auk vísitöluhækkunar frá gildistöku laganna þar til bætur séu ákvarðaðar, sbr. 1. mgr. 15. gr. sömu laga. Þannig eigi bætur fyrir 100% varanlegan miska að vera 5.154.000 krónur, miðað við lánskjaravísitölu ágústsmánaðar 2001. Bætur stefnanda vegna varanlegs miska hans eigi því að vera 4.123.000 krónur.
Auk þess krefst stefnandi þess, með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 3. gr. laga nr. 37/1999, að honum verði ákveðið 50% álag á bæturnar, eða 2.061.600 krónur. Kröfu um 50% álag byggir stefnandi á því, að bætur fyrir varanlegan miska séu byggðar á því, að hann hafi orðið fyrir mjög alvarlegu slysi hinn 27. júlí 1999 og hlotið við það 80% varanlegan miska. Mat á varanlegum miska samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993, sé eins og segi í 1. mgr. þeirrar greinar, aðallega byggt á læknisfræðilegu örorkumati. Í lokamálslið 1. mgr. 4. gr. sé heimild veitt til þess að hækka bætur í 6.000.000 króna. Með lögum nr. 37/1999, hafi þessari reglu verið breytt þannig, að heimild sé nú til þess að beita 50% álagi, þegar sérstaklega standi á. Tilgangur þessa ákvæðis virðist vera sá, að því verði beitt þegar miski sé meiri en mældur verði með hefðbundnu læknisfræðilegu mati. Verði að meta það hverju sinni, en ekki sé átt við ákveðið lágmarksmiskastig. Slys það, sem stefnandi, þá nýlega orðinn tvítugur, varð fyrir, hafi haft gífurleg áhrif á líf hans. Í örorkumatinu komi fram hverjar afleiðingar slysið hafi á daglegt líf stefnanda. Hann sé bundinn hjólastól, þurfi að tappa af sér þvagi og hafi ekki fulla stjórn á hægðum. Þá geti hann ekki stundað kynlíf á venjulegan hátt eða stundað áhugamál sín, sem hann átti fyrir slysið. Stefnandi telur, að læknisfræðileg örorka taki ekki á þessum afleiðingum slyssins og því beri að ákvarða honum bætur fyrir varanlegan miska með 50% álagi.
Kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku byggir stefnandi á 5., 6. og 7. gr. laga nr. 53/1993, sbr. 4., 5. og 6. gr. laga nr. 37/1999.
Aðalkröfu sína vegna bóta fyrir varanlega örorku byggir stefnandi á því, að miðað sé við laun fyrir almenn skrifstofustörf samkvæmt upplýsingum Kjararannsóknarnefndar fyrir árin 1997, 1998 og 1999. Samkvæmt þeim upplýsingum, voru árslaun fyrir árið 1997 1.995.600 krónur, fyrir árið 1998 1.604.496 krónur og 1999 1.765.224 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, séu launin þannig ákvörðuð, að þau séu hækkuð fyrir þetta tímabil sem nemi launavísitölu, eða 5.365.320 krónur x 196,4/157,10, eða 6.707.504/3 krónur, eða 2.235.835 krónur á ári. Krafan um bætur fyrir varanlega örorku sé því 2.235.835 krónur x 80% x 17,365, eða 31.060.219 krónur.
Stefnandi telur óeðlilegt, að launaviðmiðun til grundvallar bótum fyrir varanlega örorku fari eftir 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, þar sem hann hafi lokið stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í desember 2001 og stundi nú nám í tölvunarfræði við Háskólann á Akureyri. Tilgangurinn með lögum nr. 50/1993 hafi verið sá, að tryggja það, að tjónþoli fái raunverulegt fjártjón sitt bætt. Miðað við þá menntun, sem stefnandi hafi aflað sér þegar slysið varð, og það, að hann hafi lokið stúdentsprófi skömmu eftir slysið, þá fái ekki staðist að miða við lágmarkslaun ófaglærðra verkamanna, eins og gert sé ráð fyrir í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Aflaréttindi stefnanda séu eignarréttindi, sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Grundvallarreglan sé sú, að bæta verði að fullu bótaskylda skerðingu á þeim réttindum. Miðað við menntun stefnanda, sem hann hafði aflað sér á slysdegi og ekki síður háskólanám, sem hann hafi nú hafið, þá verði því markmiði, að bæta stefnanda að fullu það tjón, sem gera megi ráð fyrir, að hann verði fyrir, ekki náð með beitingu 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Matið á því, hvort beita eigi 3. mgr. eða 2. mgr. 7. gr. laganna, hljóti að verða að byggja á þeim upplýsingum, sem fyrir liggi um stefnanda sjálfan, en ekki reglu, sem bersýnilega eigi ekki við um aðstæður hans. Orðalag 2. mgr. 7. gr. laganna útiloki ekki að reglunni sé beitt í þessu tilviki, því að þar segi að beita skuli reglunni, ef annar mælikvarði sé ekki réttari við ákvörðun á framtíðartekjum tjónþola. Ef beita ætti reglunni í 3. mgr. 7. gr. við ákvörðun framtíðartekna stefnanda, þá liggi í augum uppi, að hann fái ekki tjón sitt bætt að fullu.
Einnig byggir stefnandi á því, að það geti ekki verið í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar, að hann þurfi að sæta annarri meðferð við ákvörðun framtíðartekna en aðrir, sem orðið hafi fyrir skaðabótaskyldu tjóni. Í eðli sínu sé um áætlanir að ræða á þeim tekjum, sem tjónþolar kunni að hafa í framtíðinni. Svo virðist, sem það eitt ráði þeim mismun, sem gerður sé á tjónþolum samkvæmt 1. og 2. mgr. 7. gr. og svo 3. mgr. 7. gr., að miðað sé við tekjur, sem aflað hafi verið á síðustu þremur árum fyrir slys í fyrra tilvikinu, en í því síðara sé ekki um það að ræða, ef tjónþoli nýti aflahæfi sitt til öflunar menntunar. Mjög óraunhæft sé að miða við lámarkslaun verkamanns, þar sem stefnandi hafi lokið stúdentsprófi skömmu eftir slysið og sé nú í háskólanámi.
Varakröfu sína sundurliðar stefnandi með sama hætti og aðalkröfu, a.ö.l. en bótakröfu vegna varanlegrar örorku. Byggir stefnandi kröfuna á 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Árslaun séu 1.200.000 krónur og reiknar stefnandi kröfuna þannig: 1.200.000 krónur x 4229/3282=1.546.252 x 6% = 1.639.027 x 80% x 17,365 eða 22.769 krónur. Til grundvallar kröfunni sé vísitala ágústmánaðar 2001, þegar bótafjárhæðin sé ákveðin og krafa gerð á hendur stefnda, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1993.
Stefndi hafi dregið frá bótagreiðslum til handa stefnanda, framreiknaðar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, eins og þær liggi fyrir samkvæmt framreikningi tryggingafræðings. Stefnandi telur framreikninginn, eins og hann sé framkvæmdur, ekki eiga stoð í lögum nr. 50/1993. Í lögunum, eins og þau hafi verið fyrir breytinguna, sem gerð hafi verið á þeim með lögum nr. 37/1993, hafi ekki verið gert ráð fyrir, að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins kæmu til frádráttar bótum samkvæmt lögunum, enda forsendur við útreikning bótanna í samræmi við það. Með lögum nr. 37/1999 hafi verið gerð sú breyting, að frá skaðabótakröfunni skuli reikna greiðslur frá almannatryggingum með sama hætti. Það verði því ekki séð, að lagaheimild sé til að reikna greiðslur eins og þær voru hjá Tryggingastofnun ríkisins í september 2001 til 67 ára aldurs stefnanda og draga þær síðan frá skaðabótum til hans. Ljóst sé, ef litið sé til núgildandi reglna um þessar greiðslur, að þær skerðist í ýmsum tilvikum. Reglur séu um skerðingu tekjutryggingar í reglugerð nr. 808/1998, sem sýni, að hún falli niður, fari tekjur fram úr ákveðinni fjárhæð. Sama eigi við um uppbætur vegna sjúkrakostnaðar, sbr. reglugerð nr. 595/1997, en þær falli niður, ef eignir fari umfram 4.000.000 króna, en stefnandi hafi þegar náð því marki með innborgun frá stefnanda. Bensínstyrkur sé síðan háður ákvörðun stofnunarinnar á hverjum tíma. Einnig bendir stefnandi á, að hæpið sé að miða við að bætur, sem stefnandi hafi fengið í september 2001, haldist óbreyttar þar til hann verði 67 ára. Einnig sé aðferð stefnda í andstöðu við reglur, sem dómstólar hafi beitt fyrir gildistöku skaðabótalaganna, en þá hafi ekki verið beitt fullum frádrætti, en einungis hliðsjón höfð af greiðslum sem þessum. Við túlkun á þessum reglum verði að hafa í huga 72. gr. stjórnarskrárinnar og túlka allar reglur þröngt, sem skerði bætur til stefnanda. Þá verði og að hafa í huga, að skerðingar verði að hafa stoð í lögum, annars náist ekki það markmið, að stefnandi fái tjón sitt bætt að fullu. Þá sé vert að hafa í huga, að það, að við hið fjárhagslega örorkumat, sem liggi fyrir í málinu, sé metið hver áhrif slysið komi til með að hafa á aflahæfi manna. Þess séu ekki dæmi, að hugsanlegur réttur manna til bóta úr almannatryggingum, sé dreginn frá skaðabótakröfu þeirra. Í þeim tilvikum, þegar um eingreiðslu sé að ræða, sé sú fjárhæð dregin frá bótum, eins og í kröfugerð, en ekki hugsanlegar bætur, sem ekki fái staðist gagnvart 65. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig beri að líta til þess, að í lögunum frá 1993, sé búið að taka tillit til þess, að skaðabætur séu skattfrjálsar og gert ráð fyrir 4,5% afvöxtun bótanna. Við ákvörðun frádráttarins taki stefndi hins vegar ekki tillit til þess og séu greiðslurnar því ekki sambærilegar.
Kröfu um vexti byggir stefnandi á 16. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001.
IV
Stefndi byggir kröfur sínar á því, að samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð geti tímabundið atvinnutjón stefnanda tekið til tímabilsins frá slysdegi til 12. maí 2000. Stefndi gerir ekki athugasemdir við kröfu stefnanda um, að tímabundið atvinnutjón sé 516.895 krónur. Hins vegar eigi stefnandi ekkert óbætt vegna þessa liðar kröfu sinnar, er dregnar hafi verið frá þær greiðslur, sem draga beri frá samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Draga beri frá greiðslur frá S.J.S. verktökum ehf., að fjárhæð 202.054 krónur, dagpeningagreiðslur úr slysatryggingu launþega, að fjárhæð 172.594 krónur og einnig greiðslur, sem stefnandi hafi fengið greiddar frá almannatryggingum. Stefnandi hafi fengið greiddar 152.328 krónur frá almannatryggingum á árinu 1999. Einnig hafi hann fengið greiddar 193.446 krónur í endurhæfingarlífeyri og tekju-tryggingu frá almannatryggingum tímabilið frá janúar til apríl 2000. Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, að greiðslur frá almannatryggingum beri ekki að draga frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón, þar sem þær falli ekki undir orðalagið „raunveruleg skaðabót”, og bendir jafnframt á, að það orðalag eigi einungis við um greiðslur frá vátryggingum en ekki greiðslur frá almannatryggingum.
Stefndi kveður ágreiningslaust, að stefnanda beri að fá greiddar fyrir þjáningar bætur að fjárhæð 386.960, sem stefnandi hafi þegar fengið greiddar.
Stefndi byggir á því, að ekki séu lagalegar forsendur fyrir því að víkja frá meginreglu 4. gr. skaðabótalaga um útreikning miskabóta. Miski stefnanda hafi verið metinn 80% og komi fram í matinu hverjar hinar læknisfræðilegu afleiðingar slyssins séu, jafnt andlegar sem líkamlegar. Ljóst sé, að þau atriði, sem bent sé á í stefnu sem rök fyrir kröfu stefnanda um 50% álag á miskabætur, byggi á læknisfræðilegum afleiðingum, sem matslæknar hafi sannanlega tekið tillit til. Stefndi telur því bætur til handa stefnanda vegna miska vera að fullu greiddar, en greiddar hafi verið hinn 6. nóvember 2001, 4.190.800 krónur.
Stefndi telur ekki lagalegar forsendur til þess að reikna bótakröfu stefnanda út frá launum fyrir almenn skrifstofustörf samkvæmt upplýsingum Kjararannsóknar-nefndar fyrir árin 1997 til 1999, eins og gert sé í aðalkröfu stefnanda. Stefnandi hafi verið nemandi við Verkmenntaskólann á Akureyri er hann slasaðist. Nám hans hafi ekki verið tengt starfsferli eða starfsréttindum, heldur hafi hann stefnt að því að ljúka stúdentsprófi. Á því tímamarki hafi ekki legið fyrir hvert framtíðarstarf stefnanda hefði orðið, ef hann hefði ekki slasast. Telur stefndi því að reikna beri kröfu um bætur fyrir varanlega fjárhagslega örorku á grundvelli 1.200.000 króna árstekna, samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Ef fallist yrði á að miða ætti útreikning bótakröfu við laun fyrir almenn skrifstofustörf, en ekki lágmarkslaun samkvæmt samkvæmt 3. mgr. 7. gr., yrði það byggt á heimild í 2. mgr. 7. gr. laganna, og sé þá ekki lagaheimild til þess að vísitöluhækka þau laun á grundvelli 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna með þeim hætti, sem gert sé í stefnu. Yrði þá að miða við meðallaun án vísitöluhækkunnar. Ársviðmiðunarlaun myndu þá vera 1.788.440 (1.995.600 + 1.604.496 + 1.765.224 = 5.365.320/3 = 1.788.440 krónur). Ef hins vegar dómurinn féllist á að miða við laun fyrir almenn skrifstofustörf fyrir árin 1997 til 1998 leiðrétt, samkvæmt launavísitölu til 12. maí 2000, yrðu ársviðmiðunarlaunin 2.069.728 krónur. Sú fjárhæð sé fengin með eftirfarandi hætti:
Árið 1997, tekjur kr. 1.995.600 x 194,5/155,8 = 2.491.298
Árið 1998, tekjur kr. 1.604.496 x 194,5/170,4 = 1.831.423
Árið 1999, tekjur kr. 1.765.224 x 194,5/182,0 = 1.886.462
Meðaltekjur þessara þriggja ára, leiðréttar samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar fjárhagslegrar örorku miðist við, þ.e. 12. maí 2000, sé því 2.069.728 krónur, en ekki 2.235.835 krónur, eins og haldið sé fram í stefnu.
Samkvæmt 15. gr. skaðabótalaganna beri að vísitöluhækka lágmarkslaunin samkvæmt 3. mgr. 7. gr., þ.e.a.s. 1.200.000 krónur samkvæmt lánskjaravísitölu, frá gildistöku laganna og fram að stöðugleikatímapunkti, þ.e. 12. maí 2000, en ekki kröfu-/uppgjörsdegi, eins og gert sé í stefnu. Lánskjaravísitalan hafi verið 3282 við gildistöku laganna þann 1. júlí 1993, en 3902 þann 12. maí 2000. Þá veiti skaðabótalögin ekki heimild til þess að reikna 6% framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð ofan á 1.200.000 krónur, eins og gert sé í stefnu.
Stefndi byggir á því, að um útreikning á bótakröfu fyrir varanlega fjárhagslega örorku fari eftir 5. og 6. gr. skaðabótalaganna, sbr. lög nr. 42/1996, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1999. Byggir stefndi á því, að margfeldisstuðulinn beri að ákvarða miðað við þann dag, er stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata, eða 12. maí 2000. Þann dag hafi stefnandi verið 21 árs og 87 daga gamall. Margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. lækki því um 87/366 af mismuninum á margföldunarstuðli 21 árs manns og 22 ára manns. Stuðullinn sé því réttur 16,992 (17,106-16,626 = 0,480 x 87/366 = 0,114. 17,106 0,114 = 16,992). Samkvæmt því sé skaðabótakrafan rétt reiknuð á eftirfarandi hátt: 1.200.000 x 3902/3282 = 1.426.691 x 16,992 x 80% = 19.393.867 krónur.
Stefndi byggir og á því, að til frádráttar skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku eigi, auk þeirra greiðslna, sem aðilar séu sammála um að komi til frádráttar, að koma greiðslur, sem stefndi eigi rétt á frá almannatryggingum. Telur stefndi að túlka beri ákvæði 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga með þeim hætti, að allar greiðslur sem stefnandi eigi rétt á frá almannatryggingum vegna slyssins, hvort heldur sem um sé að ræða eingreiðslubætur eða mánaðarlegar greiðslur, eigi að koma til frádráttar skaðabótakröfu fyrir varanlega örorku stefnanda. Greiðslur, sem stefnanda eigi rétt á frá almannatryggingum vegna slyssins, séu af félagslegum toga og eigi því að koma að fullu til frádráttar. Þetta komi fram í greinargerð með 4. gr. frumvarps til laga um breytingu á skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996. Í greinargerðinni komi fram að margföldunarstuðullinn í skaðabótalögunum, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 37/1999, sé annars eðlis en hann hafi verið í upphafi samkvæmt skaðabótalögunum nr. 50/1993. Stuðullinn, eins og honum hafi verið breytt með lögum nr. 37/1999, meti heildartekjutap tjónþola, sem leiði til þess að draga verði frá hinni reiknuðu bótakröfu greiðslur af félagslegum toga frá 3ja manni, þ.á.m. greiðslur frá almannatryggingum. Að öðrum kosti myndu bætur til tjónþola vera hærri raunverulegu fjártjóni hans. Stefndi kveður, að öll lögskýringargögn bendi til þess, að þessar greiðslur beri að draga frá bótum. Hafi það m.a. komið fram í ræðu dómsmálaráðherra á Alþingi, er hann hafi mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum, og í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar um breytingalögin.
Stefndi telur greiðslur þær, sem stefnandi eigi rétt á frá almannatryggingum vegna slyssins, vera af félagslegum toga og eigi því að koma að fullu til frádráttar, en samkvæmt 3. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna sé kveðið á um, að aðeins sá hluti bótagreiðslna, sem er af félagslegum toga, skuli koma til frádráttar skaðabótakröfu fyrir varanlega fjárhagslega örorku.
Leiðbeiningarreglu til að reikna mánaðarlegar greiðslur frá almanna-tryggingum til eingreiðslu, sem síðan komi til frádráttar skaðabótakröfu, sé að finna í fyrrgreindum lögskýringargögnum. Í greinargerð með frumvarpinu um breytingu á skaðabótalögum segi, að við frádráttinn þurfi að huga að því, að greiðslur séu sambærilegar, með því að taka tillit til skattskyldu og greiðsluforms, áður en dregið sé frá skattfrjálsum og afvöxtuðum bótum fyrir varanlega örorku. Í þessu felist að leggja verði til grundvallar eingreiðsluútreikningi þær meginforsendur, sem útreikningur margfeldisstuðuls, samkvæmt skaðabótalögunum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1999, byggi á. Reikna þurfi til eingreiðslu þær bætur, sem tjónþoli eigi rétt á frá almannatryggingum frá stöðugleikatímapunkti. Þá beri að miða útreikninginn við 4,05% vexti, þ.e. 4,5% fyrir fjármagnstekjuskatt, og vaxtavexti. Lífslíkur fari eftir reynslu áranna 1991-1995. Ekki sé hins vegar hægt að taka inn í slíkan útreikning meðaltekjudreifingu þá, sem lögð sé til grundvallar margfeldisstuðli skaðabótalaga, þar sem bætur almannatrygginga séu þær sömu til tjónþola með sama áverka, óháð aldri. Auk þess telur stefndi, að það felist í reglum skaðabótalaga að lækka beri eingreiðsluverðmæti frádráttarfjárhæðarinnar með 33,3% vegna tekjuskattshagræðis og eingreiðslu.
Örorka og miski stefnanda sé metin 80%. Vinnugeta stefnanda til frambúðar sé því metin 20%. Við útreikning á bótum fyrir varanlega fjárhagslega örorku beri að leggja til grundvallar lágmarkstekjuviðmiðun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabóta-laga, vísitöluhækkaða til 12. maí 2000, en þá hafi heilsufar stefnanda orðið stöðugt, samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð. Ársviðmiðunartekjur verði því 1.426.691 króna, eða 118.891 króna á mánuði. Þar sem sumar greiðslur almannatrygginga séu tekju-tengdar, verði, við mat á framtíðarrétti stefnanda til bóta frá almannatryggingum, að ganga út frá því, að meðalframtíðarmánaðartekjur hans verði 23.778 krónur, þ.e. 20% af 118.891 krónur. Þá verði að miða rétt stefnanda til bóta frá almannatryggingum við fjárhæðir á stöðugleikatímapunkti, þ.e. 12. maí 2000, enda beri að reikna skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku samkvæmt skaðabótalögum miðað við það tímamark.
Með vísan til afleiðinga slyssins og 23.778 króna mánaðartekna stefnanda, hafi hann átt rétt til eftirfarandi félagslegra bóta frá almannatryggingum þann 12. maí 2000:
1. Slysaörorkulífeyrir stefnanda þann 12. maí 2000 hafi verið 17.592 krónur á mánuði. Slysaörorkulífeyrir sé óháður tekjum.
2. Óskert tekjutrygging þann 12. maí 2000 hafi verið 31.095 krónur á mánuði. Þá sé greidd 20% orlofsuppbót á tekjutryggingu í júlímánuði ár hvert og 30% orlofsuppbót í desembermánuði ár hvert. Meðaltal óskertrar tekjutryggingar ársins 2000 hafi því verið 32.391 króna á mánuði (31.095 x 12,5/12 =32.391 ). Neðra frítekjumark tekjutryggingar þann 12. maí 2000 hafi verið 31.375 krónur. Skattskyldar atvinnutekjur yfir frítekjumarki skerði tekjutryggingu um 45%. Frá og með 1. júlí 2001 hafi þessar reglur breyst á þann veg, að aðeins 60% atvinnutekna séu lagðar til grundvallar útreikningi tekjutryggingar. Útreikningur á tekjutryggingarrétti stefnanda þann 12. maí 2000 sé þannig, mánaðartekjur 23.778 krónur, frítekjumark 31.375 krónur; tekjutrygging stefnanda miðað við 12. maí 2000 nemi því 31.375 krónum á mánuði.
3. Bensínstyrkur þann 12. maí 2000 hafi numið 5.306 krónum á mánuði. Bensínstyrkur sé óháður tekjum. Stefnandi fái greiddan bensínstyrk meðan hann fái greiddan örorkulífeyri.
4. Uppbót vegna sjúkrakostnaðar hafi stefnandi fengið greidda. Uppbótin hafi numið 15.833 krónum hinn 12. maí 2000, þ.e. 90% af mánaðarlegum slysaörorkulífeyri. Með vísan til 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eigi að miða frádrátt vegna uppgreiðslna vegna sjúkrakostnaðar við þær greiðslur, sem stefnandi hafi fengið frá slysdegi til 31. desember 2001, þar sem ekki sé hægt að reikna með, að stefnandi haldi þessum rétti sínum til greiðslna þessara til 67 ára aldurs, og frá 31. desember 2001 verði að miða við, að verðbréfaeign stefnanda verði á hverjum tíma hærri en 4.000.000 krónur.
Stefnandi hafi því samtals átt rétt á greiðslu á 54.273 krónum í örorkulífeyri, tekjutryggingu og bensínstyrk þann 12. maí 2000. Auk þess hafi stefnandi átt tímabundinn rétt til greiðslu uppbótar vegna sjúkrakostnaðar. Á grundvelli þessa hafi tryggingastærðfræðingur hjá stefnda reiknað þá fjárhæð, sem stefndi telur að eigi að koma til frádráttar skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku stefnanda. Samkvæmt þeim útreikningi beri að draga frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku, 9.004.490 krónur, vegna greiðslna til stefnanda frá almannatryggingum.
Stefndi telur að greiðslur frá almannatryggingum feli ekki í sér skerðingu á réttindum stefnanda á grundvelli 72. gr. stjórnarskrárinnar. Byggir stefndi á því, að þar sem stefnandi hafi verið metinn 75% öryrki af Tryggingastofnun ríksins, en ekki sé þar metin hærri örorka, hafi varanlega 20% vinnugetu engin áhrif á rétt hans til bóta frá almannatryggingum. Tekjur hans hafi ekki áhrif á rétt hans til slysaörorkulífeyris, tekjutryggingar eða bensínstyrks.
Hefur stefndi sundurliðað með eftirfarandi hætti, í greinargerð sinni, bótagreiðslur vegna varanlegrar örorku, sem stefnandi eigi rétt á samkvæmt framangreindum forsendum stefnda:
V
Stefnandi var 20 ára, er slys það varð, er leiddi til örorku hans. Ekki er deilt um bótaskyldu í málinu, en ágreiningur aðila lýtur að útreikningi bóta fyrir varanlega örorku stefnanda og miska hans, svo og hvaða fjárhæðir komi til frádráttar þeim bótum, sem og bótum fyrir tímabundna örorku. Í mati læknanna Júlíusar Valssonar og Atla Þórs Ólasonar, dagsettu 18. janúar 2001, var tímabundið atvinnutjón stefnanda vegna slyssins metið 100% frá 27. júlí 1999 til 12. maí 2000, varanlegur miski hans var metinn 80% og varanleg örorka 80%. Hefur stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greitt stefnanda bætur í samræmi við matið og reiknað bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Ágreiningur aðila um greiðslu bóta fyrir varanlega örorku lýtur að því, hvaða tekjuviðmið eigi að liggja til grundvallar útreikningi bóta fyrir varanlega örorku. Aðalkrafa stefnanda byggist á því, að bætur fyrir varanlega örorku verði ákvarðaðar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en ekki 3. mgr. 7. gr. þeirra laga. Varakrafa hans byggist á því að ákveða eigi bætur á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laganna og nota lánskjaravísitölu ágústsmánaðar 2001, en ekki maímánaðar 2000, eins og stefndi gerir.
Í máli því, sem hér er til úrlausnar, liggur fyrir, að stefnandi var ungur námsmaður, sem aflaði sér tekna með námi og stundaði nám sitt með eðlilegum hætti. Ber honum því bætur á grundvelli 8. gr. laga nr. 50/1993, eins og henni var breytt með lögum nr. 37/1999, en þar segir, að bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig, að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli örorkustigs samkvæmt 5. gr. Bætur skulu ákveðnar eftir reglum 5.-7. gr. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skulu árslaun til ákvörðunar bóta samkvæmt 6. gr. teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag, er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma, sem upphaf varanlegrar örorku miðaðst við. Samkvæmt 2. mgr. skal meta árslaun sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má, að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Hins vegar segir í 3. mgr. 7. gr., að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skuli ekki miða við lægri árslaun en tilgreind eru þar, sem eru 1.200.000 krónur.
Á þeim tíma, er stefnandi varð fyrir slysinu, hafði skaðabótalögum nr. 50/1993 verið breytt með lögum nr. 37/1999. Fyrir breytinguna 1999 hafði Hæstiréttur skýrt ákvæði skaðabótalaganna þannig í dómum sínum, að við ákvörðun bóta til handa ungum námsmönnum, sem voru skammt á veg komnir í námi sínu, þegar tjónsatvik urðu, að með uppgjör á bótum fyrir varanlega örorku skyldi farið eftir 8. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993, en samkvæmt því ákvæði voru bætur ákvarðaðar á grundvelli miskastigs. Með breytingunum skal við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku miðað við fjárhagslegt örorkumat fyrir alla slasaða, en ekki einungis þá, sem nýta vinnugetu sína til þess að afla tekna, og því var felld niður sérregla 8. gr. laganna. Árslaun til viðmiðunar bóta miðast við meðalatvinnutekjur slasaða síðustu þrjú almanaksár fyrir slys, en fyrir breytingu á skaðabótalögunum var miðað við meðalatvinnutekjur slasaða síðustu 12 mánuði fyrir slys. Þá var tekin upp lágmarkslaunaviðmiðun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Í greinargerð með frumvarpinu að lögum nr. 37/1999 segir svo um 6. gr., sem varð að 7. gr. skaðabótalaga, að lagt sé til, að snúið verði til fyrri framkvæmdar um, að tekjurnar miðist við almanaksár og miðað verði við meðaltal þriggja síðustu ára fyrir slys. Tekjurnar yrðu færðar upp til verðlags þess dags, sem metin varanleg örorka tjónþola miðast við. Þetta sé sama tímamark og miðað sé við í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þá sé þessi viðmiðun, við síðustu þrjú tekjuár, að jafnaði eðlileg, þegar um sé að ræða mann í launuðu starfi. Launatekjur liðinna ára séu oftast góð vísbending um launatekjur komandi ára. Þetta eigi þó ekki alltaf við. Hjá ungu fólki, sem sé að hefja starfsferil sinn, séu líkur fyrir hækkandi launum. Hjá fullorðnu fólki, sem nálgist lok starfsævinnar, séu líkur fyrir lækkandi launum. Til þessa þáttar sé tekið tillit í margfeldisstuðli 6. gr. Launatekjur liðinna ára séu hins vegar ekki góður mælikvarði, ef breytingar hafi orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða má, að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Megi nefna sem dæmi, að tjónþoli hafi skipt um starf, þannig að breyting hafi orðið á tekjum, eða látið af starfi og hafið töku lífeyris. Í slíkum tilvikum sé eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaun miðað við nýjar aðstæður. Á sama hátt yrði tekjuviðmiðun námsmanns, sem væri að ljúka starfsréttindanámi, eðlilegust miðað við það starf. Þá segir í athugasemdum með frumvarpinu, að lagt sé til, að 2. mgr. 7. gr. verði rýmkuð, þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum, þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þykir af einhverjum ástæðum ekki réttmæt.
Markmiðið með setningu skaðabótalaga nr. 50/1993 var m.a. að taka upp fjárhagslegt örorkumat í stað læknisfræðilegs til þess að bætur yrðu í meira samræmi við raunverulegt einstaklingsbundið fjártjón en hið læknisfræðilega örorkumat gaf kost á. Af greinargerð með frumvarpi til laga nr. 37/1999, um breytingu á skaðabótalögum, verður ráðið, að markmið hennar hafi verið að fella niður skiptingu tjónþola í tvær fylkingar, eins og gert var, með því að nota læknisfræðilegt örorkumat í 8. gr. en fjárhagslegt örorkumat í 6. gr. Hafi því verið tekin upp ákvæði um lágmarkslaun sem viðmiðun við ákvörðun bóta. Í greinargerðinni með 7. gr. laganna nr. 37/1999, sem breytti 8. gr. laganna nr. 50/1993, segir m.a. svo: „Í tilviki námsmanns yrði almennt að líta til mismununar á atvinnutækifærum fyrir og eftir slys. Við þær aðstæður að námslok tengd starfsferli eða starfsréttindum megi teljast fyrirsjáanleg yrðu þó metnir möguleikar námsmannsins til þess að gegna því starfi sem hann stefndi að með menntun sinni. Þetta á við hvort heldur slys valdi því að hann verði að hætta námi eða draga úr starfsgetu í fyrirhuguðu starfi. Tekjuviðmiðun í slíku tilviki færi eftir sérreglunni í 2. mgr. 7. gr., svo sem lagt er til að henni verði breytt.” Samkvæmt því, sem að framan hefur verið rakið um breytingu á 7. gr. og 8. gr. skaðabótalaganna og lögskýringagagna, verður að telja að ákveða beri tjónþolum, sem það skammt eru á veg komnir í námi sem stefnandi, og hefðu verið ákveðnar bætur á grundvelli 8. gr. skaðabótalaganna, áður en henni var breytt með lögum nr. 37/1999, beri að ákveða bætur á grundvelli 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi hefur haldið því fram, að beiting 3. mgr. 7. gr. laganna um ákvörðun bóta til handa stefnanda, brjóti gegn rétti hans samkvæmt 72. gr., sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem í aflahæfi séu fólgin réttindi, sem njóti verndar stjórnar-skrárinnar. Á það er fallist með stefnanda, að í aflahæfi manna séu fólgin eignarréttindi, sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar. Á hinn bóginn er ótvírætt og raunar óumdeilt í málinu, að löggjafinn hefur heimild til að setja reglur um það, hvernig ákvarða skuli bætur, þegar aflahæfi manna er skert, enda sé það markmið slíkra reglna, að fullar bætur komi fyrir. Hins vegar er ljóst, að eftir sem áður verða bætur ekki ætíð ákveðnar þannig, að óyggjandi sé. Mat á því, hvað fullnægi slíku markmiði, að tryggja tjónþola fullar bætur, er í höndum löggjafans, sem setur almennar reglur um forsendur bótaákvarðana. Að þessu virtu verður ekki unnt að telja, að mat löggjafans, sem fram kemur í umræddu ákvæði laganna, sé ómálefnalegt, heldur sé þar gætt jafnræðis og samræmis. Verður því ekki fallist á með stefnanda, að sú niðurstaða, að bæta honum tjón hans vegna varanlegrar örorku eftir reglu 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna, gangi í berhögg við stjórnarskrárvarin réttindi hans samkvæmt 72. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna skal miða við árslaun, sem tilgreind eru í töflu. Í greinargerð með lögum nr. 50/1993 segir svo um 1. mgr. 7. gr., að með árslaunum sé átt við brúttótekjur, þ.e. tekjur eins og þær eru áður en skattur er dreginn frá. Með tekjum skal bæði telja venjulegt framlag vinnuveitanda og launþega til lífeyrissjóðs. Með hliðsjón af þessum ummælum og þar sem ekki er sérstaklega tekið fram, að reiknað skuli með framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs, svo sem gert er í 1. mgr. greinarinnar, verður, samkvæmt hljóðan þriðju málsgreinarinnar, því framlagi ekki bætt við tilgreinda fjárhæð til ákvörðunar viðmiðunarárslauna samkvæmt töflu. Ágreiningur er og með aðilum um það, við hvaða tímamark eigi að miða við ákvörðun bóta. Hefur stefnandi krafist þess, að miðað sé við þann dag, er hann setti fram bótakröfu sína. Stefndi telur hins vegar að miða eigi við stöðugleikatímapunkt, sem ákveðinn var í örorkumati. Kveðið er á um þetta í 15. gr. skaðabótalaganna. Segir þar í 2. mgr., að bætur skuli ákveða á grundvelli fjárhæða, sem gilda, þegar bótafjárhæð er ákveðin. Samkvæmt orðanna hljóðan, svo og greinargerð með skaðabótalögum nr. 50/1993, er hér átt við það tímamark, er samið er um bætur eða þær dæmdar. Samkvæmt því er fallist á það með stefnanda, að rétt sé að miða við lánskjaravísitölu, eins og hún var í ágústmánuði 2001, er krafa var gerð. Hins vegar ber að fallast á það með stefnda, að reikna skal með, að margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1999, breytist hlutfallslega jafnt milli töflugilda samkvæmt 9. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1999. Samkvæmt því er margfeldisstuðull, sem nota skal við útreikning bóta til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku hans, vera 16,992 samkvæmt töflu 6. gr. laganna, sbr. 9. gr. þeirra. Að öllu framansögðu virtu er því varanleg örorka stefnanda réttilega reiknuð samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, 1.200.000 krónur x 4229/3282 x 80% x 16,992, eða 21.019.135 krónur.
Kemur þá til skoðunar, hvaða greiðslur skuli koma til frádráttar útreiknuðum bótum stefnanda vegna fjárhagslegrar örorku. Lýtur ágreiningur aðila að skýringu og gildi þess ákvæðis 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eftir breytingu, sem gerð var með 4. gr. laga nr. 37/1999, að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur, sem tjónþoli fær frá almannatryggingum. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum, sem varð að lögum nr. 37/1999, segir: „Samkvæmt gildandi lögum dragast bætur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði ekki frá bótum fyrir varanlega örorku. Í greinargerð með frumvarpinu að skaðabótalögum, nr. 50/1993, kemur fram að margföldunarstuðull laganna hafi öðrum þræði verið ákveðinn með hliðsjón af því að tjónþoli héldi óskertum rétti til bóta frá þriðja manni, t.d. almannatryggingum og vátryggingum. Þessi sjónarmið eigi ekki við í þessu frumvarpi. Margföldunarstuðull 5. gr. frumvarpsins er annars eðlis en í gildandi lögum og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap, sem hann verður fyrir vegna varanlegrar örorku. Vegna þess er lagt til að til frádráttar bótum komi greiðslur af félagslegum toga sem koma í hlut tjónþola vegna örorkunnar.” Í athugasemd með 4. gr. framangreinds lagafrumvarps, varðandi breytingu á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, segir m.a.: „Breytingar á frádrætti eru tvenns konar. Annars vegar skal samkvæmt frumvarpinu draga frá greiðslur frá almannatryggingum. Hins vegar er gerð tillaga um að frá bótum dragist 40% af verðmæti örorkulífeyris. Áður en skaðabótalögin tóku gildi árið 1993 höfðu dómstólar haft verðmæti örorkulífeyris til hliðsjónar við ákvörðun bóta, án þess þó að verðmætið væri dregið frá að fullu við ákvörðunina. Tekið skal fram að almennt öðlast tjónþoli ekki rétt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóði nema varanleg örorka hans sé a.m.k. 40%. Hér er lagt til að 60% verðmætis örorkulífeyris komi til frádráttar bótum. Er það í samræmi við það hlutfall sem algengast er að vinnuveitandi greiði af iðgjaldi til lífeyrissjóðs. Örorkulífeyrir er skattskyldur eins og aðrar tekjur. Tekjur, sem stofn fyrir útreikning skaðabóta, eru skertar um þriðjung vegna skattfrelsis. Því þarf að skerða örorkulífeyrinn, sem kemur til frádráttar, með sama hætti. Frádrátturinn verður því 40%, þ.e. 2/3 af 60%. Nauðsynlegt er við uppgjör bóta að reikna verðmæti örorkulífeyris til eingreiðslu og er eðlilegt að sú fjárhæð sé fundin með sömu afvöxtunarprósentu og notuð er til ákvörðunar á stuðlinum í 5. gr.”
Á grundvelli framangreindra lögskýringargagna verður fyrrgreind lagagrein ekki skýrð á annan veg en þann, en að bætur frá almannatryggingum, sem stefnandi átti rétt til, komi til frádráttar bótagreiðslum, og að þær skuli reiknast til eingreiðsluverðmætis á viðmiðunartímapunkti, sem stefndi hefur gert. Með vísan til þess, sem að framan hefur verið rakið, er útreikningur bóta, eins og hann hefur verið ákveðinn með skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, því hvorki í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar né 65. gr. hennar. Ber því að fallast á, að til frádráttar bótum vegna varanlegrar örorku stefnanda, komi greiðslur frá almannatryggingum, að fjárhæð 9.004.490 krónur.
Ekki er ágreiningur um fjárhæð tímabundins atvinnutjóns stefnanda vegna umrædds slyss eða hvaða greiðslur skuli koma til frádráttar þeirri kröfu stefnanda, að öðru leyti en því, að ágreiningur er milli aðila, hvort draga beri frá þeirri fjárhæð greiðslur, sem stefnandi fékk frá Tryggingastofnun ríkisins. Telur stefnandi, að þær greiðslur séu ekki „raunveruleg skaðabót”. Fallast ber á það með stefnda, að orðin „raunveruleg skaðabót” í 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaganna vísi til greiðslna frá vátryggingum, en ekki almannatryggingum. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. ber að draga dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón frá skaðabótum vegna tímabundins atvinnutjóns. Samkvæmt orðanna hljóðan ber því að draga frá greiðslur, sem stefnandi fékk frá almannatryggingum vegna tímabundins atvinnutjóns. Ekki er ágreiningur um fjárhæð þeirra greiðslna og ber því að fallast á það með stefnda, að stefnandi hafi að fullu fengið bætt tímabundið atvinnutjón sitt, með því, að stefndi greiddi honum 172.594 krónur.
Ekki er ágreiningur með aðilum, að fjárhæð þjáningabóta stefnanda, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993, sé 386.960 krónur, eða sú fjárhæð, sem stefnandi hefur fengið greidda frá stefnda.
Óumdeild er sú niðurstaða matsgerðar, að varanlegur miski stefnanda sé 80%. Stefnandi telur að beita eigi hækkunarheimild í 4. gr. skaðabótalaga um, að heimilt sé að ákveða hærri bætur, eða allt að 50%, þegar sérstaklega standi á. Stefndi hefur þegar greitt stefnanda bætur vegna varanlegs miska að fjárhæð 4.190.800 krónur, og krefst stefnandi 50% álags ofan á þá fjárhæð.
Í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, eins og hún var þegar slysið varð, en þá hafði greininni verið breytt með lögum nr. 37/1999, segir, að þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska sé ákveðin skuli litið til þess, hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns séu frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika, sem það valdi í lífi tjónþola. Varanlegur miski skuli metinn til stiga og miðað við heilsufar tjónþola eins og það sé, þegar það er orðið stöðugt. Í 2. mgr. er kveðið á um, að bætur fari eftir aldri tjónþola og skuli 100% miski bættur samkvæmt fjárhæðum í töflu, sem þar er birt. Í 3. mgr. 4. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 37/1999, er kveðið á um, að við lægra miskastig lækki fjárhæðir í réttu hlutfalli. Síðan segir: „Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að ákveða hærri bætur, allt að 50% hærri en samkvæmt töflunni.” Fyrir lagabreytinguna 1999 hafði hækkunarheimild 4. gr. hljóðað á um, að þegar sérstaklega stæði á væri heimilt að ákveða hærri bætur, þó ekki hærri en 6.000.000 króna. Í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga nr. 50/1993 sagði, að í undantekningartilvikum kynni fjárhæð bóta eftir að fjögurra milljón króna markinu væri náð að þykja ófullnægjandi, einkum þegar tjónþoli hefði orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, til dæmis bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og misst sjón á báðum augum. Heimildin til að ákveða hærri bætur, þegar sérstaklega standi á, væri sett í því skyni að veita hærri bætur í slíkum tilvikum. Í almennum athugsemdum með lagafrumvarpi um breytingu á skaðabótalögunum segir m.a. um helstu breytingar á skaðabótalögunum samkvæmt frumvarpinu, að heimild til þess að ákveða álag á miskabætur samkvæmt 4. gr. laganns sé rýmkuð frá gildandi lögum. Þá segir í athugasemd með 3. gr. frumvarpsins, sem varð að lögum nr. 37/1999, um breytingu á 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaganna, að lagt sé til að heimilt verði, við sérstakar aðstæður, að ákveða allt að 50% hærri miskabætur en í töflunni. Ekki sé áskilið, að varanlegur miski tjónþola nái tilteknu lágmarki til þess, að heimildinni megi beita. Þetta sé víðtækari heimild en í samsvarandi ákvæði dönsku skaðabótalaganna, þar sem hækkunarheimildin sé bundin við, að læknisfræðileg örorka slasaða sé 100%. Séu þá fyrst og fremst höfð í huga tilvik, þar sem töflumat á læknisfræðilegri örorku fari yfir 100%.
Þegar litið er til orðalags upphaflegs ákvæðis 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og breytinga á henni, þykir bera að túlka það á þann hátt, að hækkunarheimild ákvæðisins sé ekki bundin við algeran miska heldur megi beita henni við lægra miskastig, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.
Stefnandi byggir á því, að um miska hans gildi sérstök sjónarmið. Um sé að ræða ungan mann, sem verið hafi við góða heilsu fyrir slysið. Hann verði bundinn við hjólastól það sem eftir er ævinnar og þurfi hjálp við fjöldamargar athafnir daglegs lífs, svo sem að tappa af sér þvagi, og hafi hann ekki fulla stjórn á hægðum. Hann geti ekki stundað kynlíf á venjulegan hátt. Auk margs annars hafi möguleikum hans til þess að njóta frístunda verið spillt, og geti hann ekki stundað þau áhugamál, sem hann hafi haft fyrir slysið.
Með hliðsjón af því, hve stefnandi er ungur að árum og háður aðstoð annarra við helstu athafnir daglegs lífs, ber að fallast á, að hinn metni 80% varanlegi miski nái ekki að bæta miska hans að fullu. Að því virtu þykir réttlætanlegt að hækka bætur til hans vegna þessa, og þykir eðlilegt, að þær verði hækkaðar um 25%. Samkvæmt því verða þessar bætur hækkaðar frá greiðslu stefnda, sem nemur 1.047.700 krónum.
Þegar allt framangreint er virt, verður krafa stefnanda á hendur stefnda tekin til greina með 17.812.699 krónum, þ.e. 12.014.645 krónur vegna varanlegrar örorku, 5.238.500 krónur vegna varanlegs miska, 386.960 vegna þjáningabóta og 172.594 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns. Af þessum fjárhæðum ber stefnda að greiða vexti í samræmi við 16. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt þeirri grein, eins og henni var breytt með lögum nr. 37/1999, skulu vextir af bótum fyrir varanlega örorku stefnanda reiknast frá stöðugleikapunkti, samkvæmt örorkumati, eða frá 12. maí 2000, en vextir af bótum fyrir þjáningar, varanlegan miska og tímabundið atvinnutjón frá því er slysið varð, eða frá 27. júlí 1999. Dráttarvextir reiknast frá 27. september 2001, eins og krafist er, eða mánuði eftir, að krafa um bætur var sett fram. Til frádráttar komi greiðslur þær, sem stefndi greiddi stefnanda, þannig að höfuðstóll kröfunnar lækki, sem nemur innborgunum, á þeim dögum, er þær eru inntar af hendi. Eins og áður greinir, hefur stefndi þegar greitt stefnanda 16.521.697 krónur vegna tjóns hans, þar af 444.286 krónur í innheimtuþóknun lögmanns stefnanda, eða 16.077.411 krónur, sem komi til lækkunar dæmdri kröfu stefnanda miðað við innborgunardag. Stefndi innti greiðslur þessar af hendi hinn 14. desember 1999, 500.000 krónur, 19. janúar 2000, 500.000 krónur, 12. október 2000, 500.000 krónur, 6. nóvember 2001, 8.025.790 krónur, 30. maí 2002, 6.491.078 krónur og 9. september 2002, 60.543 krónur.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem dagsett er 1. febrúar 2002.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem rennur í ríkissjóð. Málskostnaður þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur, og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Við ákvörðun málskostnaðar er m.a. litið til þess, að stefndi greiddi lögmannsþóknun við uppgjör hluta kröfunnar og gagnaöflun, sem fór fram í tengslum við það uppgjör, hefur nýst stefnanda í þessu máli.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem eru laun lögmanns hans, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, Bergi Þorra Benjamínssyni, 17.812.699 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999, af 5.798.054 krónum, frá 27. júlí 1999 til 12. maí 2000, en af 17.812.699 krónum frá þeim degi til 27. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, sem stefndi innti af hendi 14. desember 1999, 19. janúar 2000, 12. október 2000, 6. nóvember 2001, 30. maí 2002 og 9. september 2002, samtals að fjárhæð 16.077.411 krónur.
Stefndi greiði 300.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.