Hæstiréttur íslands

Mál nr. 339/2003


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. janúar 2004.

Nr. 339/2003.

Lýsing hf.

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

þrotabúi Plútons ehf.

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun.

Í málinu krafðist þrotabú P riftunar á nánar tilteknum greiðslum til L, sem farið höfðu fram eftir frestdag. Um var að ræða greiðslur samkvæmt kaupleigusamningi um bifreið og fjármögnunarleigusamningum um tæki til kvikmyndagerðar, sem notuð voru í atvinnurekstri P. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans að þessu leyti, var talið ljóst að samningsgreiðslur hafi verið komnar í vanskil þegar þær voru inntar af hendi og þrátt fyrir eðli samningssambandsins yrði að líta á greiðslu vanskilanna sem greiðslu á skuld í skilningi 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Ekki þótti sýnt fram á að undanþáguskilyrði sömu lagagreinar væru uppfyllt og var fallist á riftunarkröfu P og L dæmt til að greiða umkrafða fjárhæð. Í dómi Hæstaréttar var upphafsdagur dráttarvaxta ákveðinn mánuði eftir að P setti fram greiðslukröfu sína.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 27. ágúst 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að dæmd fjárhæð verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn niður falla.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms þó þannig, að dráttarvextir dæmist frá 24. júní 2002 til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er hann staðfestur um annað en vexti. Dráttarvextir greiðist frá 24. júní 2002 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Rift er greiðslu á skuld stefnda, þrotabús Plútons ehf., við áfrýjanda, Lýsingu hf., að fjárhæð 1.279.000 krónur.

Áfrýjandi greiði stefnda 1.279.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. júní 2002 til greiðsludags.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2003.

Mál þetta sem dómtekið var 30. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 20. júní 2002.

Stefnandi er Þrotabú Plútons ehf.

Stefndi er Lýsing hf. Suðurlandsbraut 22, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að rift verði með dómi greiðslu á skuld Plútons ehf. við stefnda að fjárhæð 1.279.000,64 krónur. Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 1.279.000,64 krónur. Þá er krafist dráttarvaxta af tildæmdri fjárhæð frá 1. ágúst 2001 til greiðsludags, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, en jafnframt er þess krafist að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn 1. ágúst 2002 í samræmi við 12. gr. sömu laga.

Loks er krafist málskostnaðar.

MÁLSATVIK

Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega, að stefndi, Lýsing hf, verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda og að tildæmdum bótum verði í því tilviki skuldajafnað á móti bótakröfu stefnda vegna ólögmæts halds á leigutækjum.

Þá er og í báðum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, að mati dómsins.

Kvikmyndafyrirtækið Plúton ehf, Laugavegi 26, Reykjavík, var úrskurðað gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann 20. september 2001. Frestdagur við skiptin var 23. mars 2001, en þann dag barst dóminum krafa tollstjórans í Reykjavík um að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var krafan um gjaldþrotaskiptin byggð á árangurslausu fjárnámi sem fram fór 16. febrúar 2001 hjá sýslumanninum í Reykjavík. Auglýsing um gjaldþrotið og innköllun birtist í 130. tbl. Lögbirtingarblaðsins, sem kom út miðvikudaginn 31. október 2001. Innköllunarfresti lauk þann 31. desember 2001 og skiptafundur um lýstar kröfur í þrotabúinu var haldinn 16. janúar 2002.

Við athugun skiptastjóra kom í ljós að Plúton ehf. hafi greitt stefnda 771.000,64 krónur þann 25. maí 2001, 388.000 krónur þann 24. júlí 2001 og 120.000 krónur þann 27. júlí 2001. Framangreindar greiðslur hafi allar átt sér stað eftir frestdag við skiptin, sem var eins og áður segir 23. mars 2001. Hafi hér verið um að ræða greiðslur á skuldum hins gjaldþrota fyrirtækis við stefnda vegna fjármögnunarleigusamninga um tæki til kvikmyndagerðar, tilgreind á greiðsluseðlum og í fleiri gögnum sem "Media Composer o.fl.", "Stafræn Digital Betacam" og "Tæki til kvikmyndagerðar" og kaupleigusamnings um bifreiðina IV 042, af gerðinni VW Passat, árg. 1998, en skiptastjóri kvaðst ekki hafa undir höndum nægilega greinargóð gögn til að sundurliða hver hluti greiðslnanna tilheyrði hverju tæki, en fjárhæðir greiðslna og dagsetningar hafi verið upplýstar af stefnda í bréfi, dags. 6. júní 2002, til skiptastjóra.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnandi byggir á því að greiðsla á skuld Plúton ehf. við stefnda hafi verið innt af hendi eftir frestdag og að reglur XVII. kafla laga nr. 21/1991 hefðu ekki leitt til að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskiptin, ekki hafi verið nauðsynlegt að greiða til að komast hjá tjóni eða sá sem greiðslu naut hafi vitað eða mátt vita að komið hefði fram krafa um galdþrotaskipti. Skilyrði 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti séu fyrir hendi. Um hafi verið að ræða greiðslu skuldar. Stefndi hafi átt kröfu á hið gjaldþrota félag samkvæmt fjármögnunarleigusamningum og kaupleigusmaningi og skuldin greidd á grundvelli þess. Þá hafi greiðslan verið innt af hendi eftir frestdag sem miðist við 23. mars 2001 og séu því tímamörk ákvæðisins uppfyllt. Reglur XVII. kafla laga nr. 21/1991 hefðu ekki leitt til að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskiptin, en stefnandi fullyrðir að svo myndi ekki hafa orðið, a.m.k. ekki nema að litlu leyti. Ekki hafi verið nauðsynlegt að greiða til að komast hjá tjóni. Starfsemi PútonS ehf. hafi þessum tíma verið hætt í raun og engar greiðslur fyrir verkefni unnin á þessum tíma sé að finna í bókhaldi félagsins. Þá megi ætla að félagið hefði getað leigt tæki og bifreið, víðlíka þeim sem hér um ræðir, ef einhver verkefni hefðu krafist slíks. Stefndi hafi vitað eða mátt vita að komin hafi verið fram krafa um gjaldþrotaskipti. Er á það bent í þessu sambandi að árangurslaust fjárnám var gert hjá hinu gjaldþrota félagi þann 16. febrúar 2001 hjá sýslumanninum í Reykjavík, en upplýsingar um slíkt séu fjármálafyrirtækjum eins og stefnda aðgengilegar og hafi stefndi mátt vita að komin væri fram krafa um gjaldþrotaskipti á grundvelli hinnar árangurslausu fjárnámsgerðar er hann tók við umræddum greiðslum. Þá er ennfremur bent á að Plúton ehf. hafi, á þeim tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi, verið í miklum vanskilum við stefnda og þess vegna verði að telja að stefndi hafi haft enn frekari ástæðu til að kanna hagi hins gjaldþrota félags áður en umræddar greiðslur hafi verið inntar af hendi.

Þá byggir stefnandi sjáfstætt einnig á ákvæði 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og telur að skilyrði lagagreinarinnar séu fyrir hendi. Greiðslan hafi verið ótilhlýðileg sem slík, m.a. vegna grandsemi stefnda um ógjaldfærni Plúton ehf., sbr, það sem áður segi. Greiðsla skuldarinnar hafi verið sumum kröfuhöfum til hagsbóta á kostnað annarra. Plúton ehf. hafi verið ógjaldfært þegar greiðslan var innt af hendi. Loks hafi stefndi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Plúton ehf. þegar greiðslan var innt af hendi og þau atvik sem gerðu það að verkum að greiðslan var ótilhlýðileg.

Stefndi heldur því fram að tilgangur allra riftunarheimilda gjaldþrotaskiptalaga sé sá sami, þ.e. að koma í veg fyrir óeðlilega viðskiptahætti eða óeðlilega mismunun kröfuhafa. Þetta sé að hans mati sú meginregla sem verði að leggja til grundvallar þegar riftunarheimildir skiptaréttarins séu bornar saman við raunveruleg atvik í lögskiptum. Það sé ekki eða hafi nokkurn tímann verið tilgangur riftunarheimilda laganna um gjaldþrotaskipti að stöðva öll viðskipti væntanlegs þrotamanns á því tímabili þegar fari að halla undan fæti og fram að gjaldþrotaúrskurði. Þvert á móti sé það sá tími sem sé þýðingarmest að hann geti haldið sjó og reynt að rétta kúrsinn. Ef riftunarheimildirnar yrðu túlkaðar þannig að strax eftir að fyrirtæki komist í þrengingar þyrftu viðskiptamenn að fara út í sjálfstæðar yfirgripsmiklar rannsóknir á stöðu þeirra og horfum áður en þeir þyrðu að taka við eðlilegum greiðslum og jafnfram að rifta öllum gagnkvæmum samningum þá þegar, væri vá fyrir dyrum í rekstri íslenskra fyrirtækja og næsta víst að ónauðsynlegum gjaldþrotum mundi fjölga gífurlega.

Því heldur stefndi því fram að skýra beri 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af fyrrgreindum meginsjónarmiðum. Áherslan hljóti því alltaf að liggja á því hvort um einhverjar óeðlilegar greiðslur sé að ræða.

Til að meta hvort svo sé í því tilviki sem hér um ræðir vísar stefndi til þess að hér hafi í fyrsta lagi verið um verulegar fjárhæðir að ræða, höfuðstóll þeirra samninga sem um ræði sé 20.471.769 krónur. Í öðru lagi sé um að ræða lungann úr tækjabúnaði fyrirtækisins eins og sjá megi af því hversu vítt svið hinn leigði búnaður spanni. Í þriðja lagi komi fram að eingöngu sé um gagnkvæmt tvíhliða leiguréttarsamband að ræða milli aðila. Í fjórða lagi hafi viðskiptasamband aðila staðið um langan tíma, eða a.m.k. um 5 ár þegar atvik þau urðu sem mál þetta er sprottið af. Í fimmta lagi hafi áfallandi leigugreiðslur vegna samninganna allra numið hærri fjárhæð á því tímabili sem greitt var inn en nam umþrættum innborgununum. Umdeildar greiðslur hafi verið fullkomlega eðlilegar eins og á stóð. Fjöldi og samsetning tækja hafi einnig verið með þeim hætti að tafarlaus riftun á leigusamningum af hálfu stefnda um vorið 2001 hafi ekki getað þýtt neitt annað en lokun fyrirtækisins og sé öllum fullyrðingum um annað mótmælt. Þá sé jafnframt ljóst, eins og komi fram á framlögðum greiðsluyfirlitum og samantekt þeirra, að innborgunargreiðslurnar um vorið og sumarið 2001 nægðu hvergi nærri til þess að halda leigugreíðslum í horfinu, hvað þá að um einhverja greiðslu umfram það væri að ræða. Það getur að mati stefnda skipt máli í þessu sambandi hvort verið sé að greiða á tímabilinu minna eða meira en nemi áfallandi leigugreiðslum.

Þannig sé m.a. ljóst að áskilnaði 1. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti um greiðslu skuldar sé ekki fullnægt og því hafnað að 1. mgr. 139. gr. geti átt við, enda um greiðslu á leigu að tefla en ekki skuld í skilningi greinarinnar. Því er einnig mótmælt að öðrum skilyrðum l. mgr. greinarinnar sé fullnægt, en athygli er vakin á að málssóknin byggir ekki á öðrum málsgreinum tilvitnaðrar 139. gr. en l. mgr.

Þannig er því mótmælt að stefndi hafi vitað eða mátt vita um kröfu um gjaldþrotaskipti og enn frekar að hann hafi haft einhverja sérstaka rannsóknarskyldu í þeim efnum. Sönnunarbyrðin hljóti að hvíla á stefnanda um að huglægum skilyrðum sé fullnægt eins og hér standi á. Þá heldur stefndi því fram að starfsemin hefði óhjákvæmilega stöðvast ef stefnandi hefði alveg hætt að borga inn á leigu og þannig þröngvað stefnda til að rifta tafarlaust samningum og vörslusvipta öll umrædd tæki og búnað.

Þá er því og sérstaklega mótmælt að 141. gr. gþskl. eigi við, enda skorti öll huglæg skilyrði með vísan í það sem að framan greinir, bæði að því er varði grandsemi og að um einhverjar ótilhlýðilegar ráðstafanir hafi verið að ræða.

Varakröfu sína um lækkun krafna styður stefndi þeim rökum sem fram koma hér að framan til lækkunar eftir því sem við á, en einhverjar greiðslur inn á leigusamningana hljóti hvað sem öðru líður öllu falli að vera eðlilegar í þessu sambandi að mati stefnda. Skuldajöfnunarkröfuna styður stefnandi þeim rökum að stefnanda hefði borið samkvæmt samningum aðila og skv. meginreglum samninga-, kröfu-og skaðabótaréttarins að skila leigumununum af sjálfsdáðum m.v. þá fjárhagslegu stöðu sem hann ber nú sjálfur að hann hafi verið í og honum var að sjálfsögðu betur kunnugt um en stefnda. Með því að gera það ekki hafi hann bakað stefnda tjón með verðrýrnun tækjanna, tapi á leigutekjum frá öðrum hugsanlegum leigutaka eða endursölu tækjanna o.fl., sem sé bótaskylt, enda er huglægum skilyrðum væntanlega fullnægt að því er varðar grandsemi, en því til viðbótar lét stefnandi einskis ófreistað til þess að halda tækjunum í sinni vörslu. Sú fjárhæð sem stefnandi hafi þannig haft af stefnda sé a.m.k. jafn há og dómkröfur stefnanda, en líklegast nokkru hærri þar sem ekki er tekið tillit til eftirstöðva samningsfjárhæðanna sem um sé að ræða í máli þessu, þar sem það snúist bara um innborganir inn á leigugreiðslur. Að öðru leyti skýrir skuldajöfnunarkrafan sig sjálf.

Vaxtakröfu er mótmælt sem órökstuddri frá fyrri tíma en þingfestingu málsins.

Stefndi vísar m.a. til meginreglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttarins og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, einkum XVI. kafla, 100. gr. XX. kafla laganna, einkum 139. gr. og 141. gr. Um vexti er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. nú lög nr. 38/2001, en um málskostnað er vísað til 130. gr., laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 en stefndi, sem er ekki virðisaukaskattskyldur, þarf auk málflutningslauna að fá dóm fyrir virðisaukaskattinum til þess að sleppa skaðlaus frá málssókn þessari.

NIÐURSTAÐA

                Í bréfi stefnda til skiptastjóra stefnanda dagsettu 6. júní 2003 segir m.a. að greiðslur hafi borist stefnda eftir að bifreið hafði verið tekin frá Plúton ehf. vegna ógreiddra reikninga og að fulltrúum fyrirtækisins gert ljóst að tækin sem á leigu væru yrðu sótt í kjölfarið. Bifreiðin hafi verið afhent aftur eftir að greiðsla hefði borist til stefnanda 25. maí 2001 þar sem leiga fyrir janúar og febrúar þess árs var greidd. Þann 6. júlí 2001 hafi Plúton verið send aðvörun um riftun þar sem kaupsamningi hefði verið rift hefði greiðsla ekki borist. Samkomulag hefði komist á um að greiddar yrðu 500.000 krónur til þess að koma í veg fyrir að fyrirtækið missti tækið. Greiðslur hafi borist 24. og 27. júlí 2001. Af þessu má vera ljóst að greiðslur sem hinu gjaldþrota fyrirtæki bar að greiða til stefnda samkvæmt samningi hafi verið komnar í vanskil er þær voru inntar af hendi til hans og samkvæmt nefndu bréfi nema greiðslur þessar samtals sömu fjárhæð og stefnandi krefur um riftun á hér. Þrátt fyrir eðli samningssambands þess sem var með stefnda og Plúton ehf. verður að líta á greiðslu vanskilanna sem greiðslu á skuld í skilningi 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Kemur þá til álita hvort hin séstöku undanþáguskilyrði framangreindarar 1. mgr. séu uppfyllt. Er þess fyrst að gæta að ákvæði þessi skýrast þröngt og sönnunarbyrðin um það að þau séu til staðar hvílir á stefnda. Af hans hálfu hefur ekki verið sýnt fram á að reglur XVII. kafla laga um gjaldþrotskipti leiði til að skuldin hefði greiðst við skiptin. Þeirri fullyrðingu stefnanda, að engar greiðslur fyrir verkefni unnin á tímabili því, er atvik máls þessa taka til, sé að finna í bókhaldi stefnanda, er ekki mótmælt og þykir ekki sýnt fram á hér að greiðsla hafi verið nauðsynleg til að komast hjá tjóni. Þá verður litið til þess að stefndi, sem er fyrirtæki sem stundar lánsviðskipti, mátti vita um hvernig komið væri fyrir Plúton ehf. sem var í verulegum vanskilum við stefnda. Verður því ekki fallist á að nefnd undanþáguskilyrði 1. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti eigi við hér.

                Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu stefnanda um riftun greiðslna stefnanda eins og krafist er í stefnu.

Eins og að framan greinir voru allar greiðslur vegna samninga aðila í vanskilum og því ekki fallist á lækkunarkröfu stefnda vegna þess að einhverjar greiðslur hafi verið eðlilegar leigugreiðslur. Þá er ekki unnt að taka afstöðu til skuldajafnaðarkröfu stefnda gegnvart stefnanda þar sem óljóst er hvort og þá með hvaða hætti þrotabúið hafi valdið stefnda tjóni.

Samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotskipti o.fl. verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.279.000,64 krónur. Stefnandi krafði stefnda fyrst um greiðslu með bréfi dagsettu 24. maí 2002 og verður stefndi dæmdur til að greiða dráttarvexti frá 24. júní 2001 til greiðsludags.

                Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

                Rift er greiðslu á skuld Plútons ehf. við stefnda, Lýsingu hf., að fjárhæð 1.279.000,64 krónur.

                Stefndi greiði stefnanda 1.279.000,64 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. júní 2001 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.