Hæstiréttur íslands
Mál nr. 272/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Þriðjudaginn 30. maí 2006. |
|
Nr. 272/2006. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.
Úrskurður héraðsdóms um að matsmenn skyldu dómkvaddir var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2006, um að tveir matsmenn skyldu dómkvaddir til að meta nánar tilgreind atriði samkvæmt matsbeiðni sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að synjað verði um hina umbeðnu dómkvaðningu matsmanna.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2006.
Málið barst dóminum 10. nóvember sl. Það var þingfest 27. janúar sl. og tekið til úrskurðar 4. maí sl.
Matsbeiðandi er ríkislögreglustjóri.
Matsþoli er X, [heimilisfang].
Málavextir eru þeir að vorið 2002 hófst lögreglurannsókn á meintu fjármálamisferli framkvæmdastjóra A. Matsþoli var endurskoðandi sjóðsins og leiddi framangreind rannsókn til þess að störf hans hjá sjóðnum voru tekin til rannsóknar af matsbeiðanda. Sú rannsókn leiddi til útgáfu ákæru á hendur matsþola 16. apríl 2004. Voru honum gefin að sök “brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ársreikninga, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um endurskoðendur, með því að hafa á árunum 1993 til 2001 vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi ársreikninga A, með því að hafa eftir endurskoðun á ársreikningum sjóðsins fyrir árin 1992 til 2000, áritað ársreikningana án fyrirvara, og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag og breytingu á eign, án þess að hafa við endurskoðunarvinnuna aflað fullnægjandi gagna til að byggja slíkt álit á og ekki kannað á fullnægjandi hátt þau gögn sem fyrir lágu, og þannig ekki hagað endurskoðunarvinnu sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju”, eins og nánar var rakið í ákærunni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 30. nóvember 2004, var matsþoli sýknaður af öllum ákæruatriðum. Ríkissaksóknari áfrýjaði og með dómi Hæstaréttar 12. maí 2005 var málinu vísað frá héraðsdómi.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar hófst matsbeiðandi handa að nýju við rannsókn málsins á hendur matsþola, sem bar þá ákvörðun undir dómstóla og með dómi Hæstaréttar 22. nóvember sl. var fallist á að það væri heimilt. Það er í þágu þeirrar rannsóknar sem matsbeiðandi hefur krafist að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að gefa skriflegt og rökstutt álit um eftirgreind álitaefni.
“1. Hvað bar endurskoðanda að lágmarki að gera til að fullnægja skyldu sinni til að gæta góðrar endurskoðunarvenju við endurskoðun á ársreikningum [A] vegna áranna 1992 til 2000? Er þess farið á leit að sundurliðað verði eftir árum og einstökum liðum ársreikninga hvað endurskoðandanum bar að kanna, til að geta áritað ársreikning fyrirvaralausri áritun. Þá verði gerð grein fyrir hvaða aðferðum hann gat beitt til endurskoðunar í hverju tilviki fyrir sig til að fullnægja þessum skyldum sínum.
2. Hvað benda meðfylgjandi gögn til að endurskoðandinn hafi gert til að endurskoða hvern ársreikning og hvern lið fyrir sig?
3. Hvað skorti á við endurskoðun ársreikninganna, sundurliðað eftir ársreikningum og einstökum liðum þeirra?
4. Samkvæmt ársreikningi [A] fyrir árið 2000 var hrein eign sjóðfélaga í lok árs 2000 alls kr. 84.170.348,62. Er þess farið á leit að matsmenn taki saman hver eign sjóðsins var í raun í lok árs 2000.
5. Fyrir liggur að framkvæmdastjóri sjóðsins lagði fyrir endurskoðandann fölsuð skjöl. Var þar í fyrsta lagi um að ræða skuldabréfalista sem eru meðal vinnuskjala endurskoðandans, en einnig liggur fyrir að framkvæmdastjórinn lagði fyrir endurskoðandann falsað ljósrit af spariskírteini. Er þess farið á leit að matsmenn gefi álit sitt á því hvort endurskoðandanum verði metið til lasts að hafa ekki kannað nánar þann þátt ársreikningsins sem umrædd fölsuð gögn vörðuðu og hvort honum bar að skoða þennan þátt hans nánar.
6. Loks er þess farið á leit að matsmenn gefi álit sitt á hvað felist í áritun endurskoðanda á ársreikningi. Er í því skyni bent á áritun á ársreikning [A] fyrir árið 1997. Í áritun endurskoðanda [A], á þann ársreikning segir:
a) “Ég hef endurskoðað ársreikning [A] fyrir árið 1997.” Síðan segir: “Endurskoðað var í samræmi við góða endurskoðunarvenju” Hvað þarf endurskoðandi að lágmarki að gera til að geta gefið áritun sem þessa?
b) Í sömu áritun segir: “Samkvæmt því ber mér að skipuleggja og haga endurskoðun þannig að leitt sé í ljós að ársreikningur sé í meginatriðum án annmarka” Síðar segir: Það er mitt álit að ársreikningur gefi glögga mynd af afkomu sjóðsins á árinu 1997, efnahag hans 31. des. 1997 .... í samræmi við lög, samþykktir sjóðsins og góða endurskoðunarvenju” Hvað þýðir í þessu samhengi að endurskoðanda beri að skipuleggja endurskoðunina? Hvaða gögn væri að lágmarki venja að útbúa í því sambandi? Hvað er átt við með því að ársreikningur sé að meginatriðum án annmarka? Felst einhver fyrirvari á áritun endurskoðandans um að efnahagur í árslok 1997 gefi ekki glögga mynd af stöðu eigna og skulda?
c) Í sömu áritun segir: “Endurskoðun felur m.a. í sér greinargerðir, úrtakskannanir og athuganir á gögnum til að sannreyna fjárhæðir og aðrar upplýsingar sem fram koma í ársreikningnum.” Hvaða endurskoðunaraðgerðir þarf að lágmarki að framkvæma og hvaða gögn þarf að lágmarki, í því tilviki sem hér greinir, að safna og varðveita til að getað áritað eins og endurskoðandinn gerði?”
Síðan segir að við matið beri að taka tillit til þess að framkvæmdastjóri sjóðsins lagði fyrir endurskoðandann fölsuð gögn, eins og rakið sé í lið 5. Hafi vinna endurskoðandans að því leyti tekið mið af rangfærðum gögnum. Þá beri að hafa til hliðsjónar mikla rýrnun á sjóðnum umrædd ár og er þar vísað til dóms í máli ákæruvaldsins gegn fyrrverandi framkvæmdastjóra sjóðsins og skýrslu tveggja endurskoðenda um fjárdrátt framkvæmdastjórans.
II
Matsþoli krefst þess að synjað verði kröfu matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanna. Byggir hann á því að ekki sé ljóst með matsbeiðninni hver tilgangurinn með matinu sé, þ.e. til hvers það sé og hvað matsbeiðandi hyggist sanna með því. Að mati matsþola ætlar matsbeiðandi hinum dómkvöddu matsmönnum að rannsaka málið, en það sé ekki heimilt þar eð rannsókn opinberra mála sé í höndum lögreglu samkvæmt IX. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Enn fremur byggir matsþoli á því að dómkvaðningin sé þarflaus, þar eð matsbeiðandi geti náð sömu markmiðum með því að kveðja til kunnáttumenn, sbr. 70. gr. nefndra laga.
Jafnvel þótt dómkvaðning matsmanna sé heimil fyrir útgáfu ákæru byggir matsþoli á því að ekki sé heimilt að dómkveðja matsmenn til að svara þeim spurningum sem matsbeiðandi hefur uppi í málinu. Það sé ekki hlutverk matsmanna að taka afstöðu til lagaatriða eða meta hvað sé sannað í tilteknu máli og þar með hvort matsþoli hafi gerst sekur um lagabrot. Hvorttveggja sé hlutverk dóms sem, eftir atvikum, sé skipaður sérfróðum meðdómsmönnum. Hið sama eigi við þegar meta eigi hvað sé góð endurskoðunarvenja og þar með hvað matsþola hafi borið að gera til að störf hans teldust uppfylla áskilnað um góða endurskoðunarvenju.
Þá er á því byggt að ekki verði lagt fyrir matsmenn að meta vinnu matsþola einungis eftir þeim gögnum sem matsbeiðandi leggi fyrir þá og ætla þeim á grundvelli þeirra að komast að því hvort vinna matsþola hafi reynst fullnægjandi eða ekki. Þannig geri hluti matsspurninganna ekki ráð fyrir að fullyrðingar matsþola eða annarra, sem geti upplýst um störf hans, hafi þýðingu við mat á endurskoðunarvinnu hans.
Loks byggir matsþoli á því að matsmönnum verði ekki falið að gefa almennt álit á því hvað felist í góðri endurskoðunarvenju, enda sé það hlutverk dómstóla að meta slíkt.
Matsþoli bendir á að matsmönnum sé ætlað taka tillit til fjárdráttarbrots tiltekins manns og skýrslu tveggja endurskoðenda án þess að gerð sé grein fyrir hvaða þýðingu það eigi að hafa fyrir matið.
Matsþoli vísar til ákvæða 2. mgr. 64. gr. laga nr. 19/1991 þar sem segi að skýrt skuli vera í kvaðningu hvað meta eða skoða skuli. Telur hann að matsbeiðnin fullnægi ekki þessum áskilnaði. Matsþoli telur og að matsbeiðandi ætli matsmönnum það hlutverk sem rannsóknari hafi við rannsókn mála og einnig það sem sé hlutverk dómstóla, þ.e. að dæma um efni lagaákvæða og meta hvað teljist sannað og hvað ekki.
III
Hér að framan var gerð grein fyrir markmiðum matsbeiðanda með beiðninni um dómkvaðningu matsmanna. Matsbeiðandi fer með rannsókn þeirra mála sem hér um ræðir, sbr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, og jafnframt ákæruvald í þeim, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt 67. gr. sömu laga er það markmið rannsóknar lögreglu að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að rannsókn lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Krafan um dómkvaðninguna er þannig liður í rannsókn matsbeiðanda sem miðar að því að taka ákvörðun um hvort matsþoli skuli saksóttur eða ekki. Matsbeiðandinn hefur metið það svo að til að geta tekið þessa ákvörðun þurfi hann að fá svör dómkvaddra matsmanna við framangreindum spurningum. Í matsbeiðni er skýrlega tekið fram hvað eigi að meta og er þeim málsástæðum matsþola hafnað að matsbeiðnin sé óljós að einhverju leyti. Þá getur það ekki orðið til þess að matsbeiðninni verði hafnað að einhverju leyti eða öllu þótt matsþoli telji tilgangslaust að meta tiltekin atriði, enda er það mat matsbeiðanda sem ræður því hvaða atriði þarf að meta til að honum sé fært að taka framangreindar ákvarðanir. Loks er á það að líta að samkvæmt 46. gr. framangreindra laga metur dómur sönnunargildi matsgerða og skiptir því ekki máli sú málsástæða matsþola að spurningar matsbeiðanda séu þess eðlis að dómur eigi að svara þeim.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Dómkvaddir skulu tveir matsmenn til að meta þau atriði sem greinir á dskj. nr. 8.