Hæstiréttur íslands

Mál nr. 386/2009


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Húsbóndaábyrgð


                                                        

Fimmtudaginn 25. mars 2010.

Nr. 386/2009.

Friðrik Már Jónsson

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

Skaðabætur. Líkamstjón. Húsbóndaábyrgð.

F krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í vegna afleiðinga árásar, sem hann varð fyrir í Kabúl í október 2004 þegar maður varpaði handsprengjum að verslun, þar sem F var staddur ásamt fleiri samferðarmönnum, en þeir voru allir starfandi við friðargæslu í Afganistan á þessum tíma. Ekki var ágreiningur um að F hefði orðið fyrir heilsutjóni sem rakið yrði til árásarinnar. Talið var að ekkert benti til annars en að sprengjuárásin hefði verið ófyrirséð og að hending ein hefði ráðið því að íslensku friðargæsluliðarnir hefðu orðið fyrir henni. Í því ljósi yrði að hafna öllum málsástæðum F þess efnis að árásina mætti rekja til vanmats á aðstæðum og ófullnægjandi verndar, vanþekkingar og vanþjálfunar hans sjálfs og samstarfsmanna hans. Þótt ekki væru efni til að fallast á með héraðsdómi að lengd dvalar þeirra í versluninni í umrætt sinn hefði ekki aukið hættu á ófarnaði sem þessum fékk það því ekki breytt að F var þar staddur í einkaerindum, sem vörðuðu ekki skyldur hans í starfi hjá Í. Að þessu gættu var Í  sýknað af kröfu F.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Benedikt Bogason dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 20. maí 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 1. júlí 2009 og var áfrýjað öðru sinni 9. sama mánaðar. Áfrýjandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á afleiðingum árásar, sem hann varð fyrir í Kabúl í Afganistan 23. október 2004. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi krefur áfrýjandi stefnda um skaðabætur vegna tjóns, sem hann rekur til þess að hann hafi fyrrgreindan dag orðið fyrir árás í Kabúl þegar maður varpaði handsprengjum að verslun, þar sem áfrýjandi var staddur ásamt einum íslenskum samferðarmanni og tveimur útlendum auk fjögurra íslenskra öryggisvarða, sem voru við verslunina, en þeir voru allir starfandi við friðargæslu á Afganistan á þessum tíma. Þótt ekki séu efni til að fallast á með héraðsdómi að lengd dvalar þeirra í versluninni umrætt sinn hafi ekki aukið hættu á ófarnaði sem þessum fær það því ekki breytt að áfrýjandi var þar staddur í einkaerindum, sem vörðuðu ekki skyldur hans í starfi hjá stefnda. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 20. apríl sl., er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 9. október 2008.

Stefnandi er Friðrik Már Jónsson, Spóaási 20, Hafnarfirði, en stefndi er íslenska ríkið, Rauðarárstíg 25, Reykjavík.

Endanleg dómkrafa stefnanda er að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á afleiðingum árásar sem stefnandi varð fyrir í Kabúl í Afganistan laugardaginn 23. október 2004. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðaryfirliti. 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, að mati dómsins.

Málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi starfaði sem flugumferðarstjóri hjá Flugmálastjórn. Í maí 2004 var leitað til hans og hann beðinn um að fara til friðargæslustarfa í Kabúl í Afganistan, en stefnandi hafði áður starfað að friðargæsluverkefnum á vegum íslenska ríkisins í Pristina í Kosovo. Stefnandi féllst á að taka starfið að sér og undirritaði tímabundinn ráðningarsamning við utanríkisráðuneytið 10. maí 2004. Gildistími samningsins var til 31. ágúst 2004, en var síðar framlengdur til ársloka það ár. Samkvæmt ráðningarsamningi var starfsheiti stefnanda flugumferðarstjóri, vinnustaður KAIA, Alþjóðaflugvöllurinn í Kabúl, og tegund starfs friðargæslustörf. Í gögnum málsins kemur fram að Íslendingar hafi tekið við stjórn flugvallarins í Kabúl 1. júní 2004 og hafi bæði hermenn og friðargæsluliðar af ýmsu þjóðerni starfað þar. Yfirmaður flugvallarins var Hallgrímur Sigurðsson, en auk hans og stefnanda störfuðu þar að friðargæslu íslenskir slökkviliðsmenn og fleiri, þar á meðal Ásgeir Þór Ásgeirsson, sem annaðist öryggismál á flugvellinum. Íslensku friðargæslusveitinni var fyrst og fremst ætlað að annast borgaraleg störf og taka þátt í uppbyggingar- og endurnýjunarstarfi.

Í stefnu segir að stefnandi hafi, auk starfa sinna í flugturni, borið ábyrgð á sjóði sem ætlaður var til kaupa á ýmsum smávarningi í þágu friðargæslunnar og sem skotsilfur fyrir friðargæsluliðana, enda engri bankastarfsemi til að dreifa í Kabúl. Þá er þar ítarlega gerð grein fyrir ólíkum starfsaðstæðum og starfsöryggi stefnanda, annars vegar er hann starfaði í Pristina í Kosovo, og hins vegar í Afganistan. Fram kemur að hvorki stefnandi né starfsfélagar hans hafi fengið þjálfun eða fræðslu um hermennsku eða viðbrögð við hættuástandi er þeir héldu til Kosovo, enda hafi ástandið þar verið gerólíkt því sem stefnandi síðar fékk að reyna í Afganistan. Sérstaklega er tekið fram að engar hömlur hafi verið á athafnafrelsi Íslendinganna í Kosovo utan vinnu, og hafi þeir getað farið frjálsir ferða sinna um Pristinaborg og allt héraðið. Áður en stefnandi hélt til Afganistans gekkst hann undir lágmarksþjálfun í meðhöndlun skammbyssu.

Þegar líða tók að brottför Hallgríms Sigurðssonar flugvallarstjóra frá Kabúl, mun hann hafa lýst áhuga á að kaupa handunnið teppi til minningar um dvöl sína í Afganistan. Tyrkneskur samstarfsmaður hans benti honum á teppaverslun í Chicken Street í miðborg Kabúl, og var svo frá gengið að Hallgrímur gæti þar valið úr 40-50 vönduðum teppum, er þar að kæmi. Að beiðni Hallgríms var Ásgeiri Þór Ásgeirssyni, yfirmanni öryggismála á flugvellinum, falið að gera vettvangskönnun í verslunarhverfinu og leggja mat á öryggi svæðisins. Sú könnun fór fram fimmtudaginn 21. október 2004. Fram kemur að Ásgeiri hafi ekki litist sérstaklega vel á götuna, bæði hafi hún verið þröng tvístefnuakstursgata og þar mikill mannfjöldi. Hafi hann tjáð Hallgrími áhyggjur sínar, en þó ekki lagst gegn leiðangrinum. Hins vegar hafi hann lagt áherslu á að dvölin í versluninni yrði að vera stutt og vörurnar tilbúnar til afhendingar þegar þangað kæmi.

Eftir hádegi laugardaginn 23. október 2004 var lagt af stað í verslunarleiðangurinn. Aðila greinir á um hvers vegna stefnandi tók þátt í ferðinni, en auk hans og Hallgríms Sigurðssonar voru með í för Doug Wise, Bandaríkjamaður, og Faruk Kaymakci, sendiráðsritari í tyrkneska sendiráðinu, svo og fjórir íslenskir friðargæsluliðar sem gættu öryggis leiðangursmanna, fyrrnefndur Ásgeir Þór, Haukur Grönli, Stefán Gunnarsson og Steinar Örn Magnússon. Farið var á tveimur bifreiðum, merktum alþjóðaöryggissveitunum ISAF (International Security Assistance Force). Komið var að teppaversluninni í Chicken Street um kl. 14:15 og var bifreiðunum lagt við verslunina þannig að þær mynduðu box við inngöngudyr hennar, í þeim tilgangi að verja innganginn og takmarka umferð á gangstétt utan við hana. Báðar bifreiðarnar voru hafðar í gangi, þrír friðargæsluliðar gættu öryggis utandyra en einn stóð í dyragættinni. Allir voru Íslendingarnir klæddir skotvestum. Þegar til kom reyndist verslunareigandinn ekki tilbúinn með þær vörur sem lofað hafði verið. Var því hafist handa um að taka til varninginn, jafnframt því sem gestunum voru færðir svaladrykkir með tilheyrandi spjalli að afgönskum sið.

Um kl. 15:15 var sprengjuárás gerð með því að þremur handsprengjum var hent að íslensku friðargæsluliðunum. Tvær þeirra munu hafa sprungið á götunni, en sú þriðja upp við verslunina. Í síðustu sprengingunni týndi árasármaðurinn lífi, en einnig fórust 11 ára gömul afgönsk stúlka og bandarísk kona, sem voru í námunda við vettvang. Auk nokkurra Afgana særðust í árásinni íslensku friðargæsluliðarnir þrír, sem staðið höfðu utandyra. Í kjölfar þessa tók Ásgeir Þór Ásgeirsson ákvörðun um skyndibrottflutning hópsins, og var annarri bifreiðinni ekið rakleiðis á næsta sjúkrahús þar sem gert var að sárum Íslendinganna. Hin bifreiðin var skilin eftir í óökufæru ástandi.

Stefnandi slapp að mestu við líkamlega áverka, að heyrnarskemmd undanskilinni. Hins vegar komu fram síðbúin áhrif á heilsu hans, í formi áfallastreituröskunar, sem leiddu til þess að allt líf hans fór úr skorðum. Þurfti hann að hverfa frá störfum í Kabúl, jafnframt því sem tilraun hans til þess að koma aftur til starfa sem flugumferðarstjóri á Íslandi í janúar 2005 bar ekki árangur. Allar götur síðan hefur hann verið óvinnufær og var leystur frá störfum sem flugumferðarstjóri 9. mars 2007 af heilsufarsástæðum. Voru honum greidd starfslokalaun samkvæmt kjarasamningi, jafnframt því sem honum var greidd kjarasamningsbundin vátrygging, svokölluð skírteinistrygging.

Sumarið 2007 fór stefnandi þess á leit að metnar yrðu afleiðingar sprengjuárásarinnar á heilsufar hans samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Niðurstaða matsgerðar Jónasar Hallgrímssonar læknis var sú að stefnandi hefði orðið fyrir 30 stiga miska og 65% varanlegri örorku, auk þess sem hann ætti rétt til tímabundinna þjáningabóta. Á grundvelli matsgerðarinnar var stefnda kynnt fjárkrafa stefnanda, en stefndi synjaði greiðslu frekari bóta en kveðið var á um í reglum nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna. Er mál þetta sprottið af ágreiningi aðila um bótaskyldu stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn fyrst og fremst á sakarábyrgð stefnda og húsbóndaábyrgð á verkum starfsmanna hans. Grundvallist bótaábyrgðin á því að stefnandi og félagar hans hafi vegna starfsskyldna sinna verið staddir í Kabúl þegar þeir urðu fyrir árás, og verði árásin rakin til vanmats á aðstæðum og ófullnægjandi verndar, vanþekkingar og vanþjálfunar. 

Í fyrsta lagi er á því byggt að stefnandi hafi ekki fengið neina hernaðarlega þjálfun eða fræðslu um hvernig bera ætti sig að á landssvæðum þar sem vopnuð barátta ætti sér stað og skæruhernaður stundaður, áður en hann var ráðinn til friðargæslustarfa á vegum stefnda, hvorki er hann hélt til Kosovo, né síðar til Afganistans. Eina þjálfun stefnanda hafi falist í því í handleika skammbyssu dagpart hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli, þótt vitað væri að Vesturlandabúum, sem tengdust hernaði erlendra ríkja, stafaði sérstök hætta af dvöl í Afganistan. Yfirmaður flugvallarins í Kabúl, Hallgrímur Sigurðsson, hafi heldur enga hernaðarþjálfun fengið. Öðru máli gegndi um flesta aðra íslenska friðargæsluliða í Afganistan, sem sendir hefðu verið til Noregs í nokkurra vikna þjálfun í vopnaburði og fengið þar fræðslu um hvernig varast mætti hættur á vígvelli og varkárni gagnvart jarðsprengjum. Fyrir vikið hafi stefnandi orðið að leggja traust sitt á ákvarðanir yfirmanns síns og yfirmanns öryggismála, Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar. Telur stefnandi að stefndi hafi í raun brugðist honum með saknæmum hætti, og vísar því til stuðnings sérstaklega til svars utanríkisráðherra við fyrirspurn þingmanns frá 3. nóvember 2004, þar sem fullyrt var að væntanlegir friðargæsluliðar fengju margs konar þjálfun. Í tilviki stefnanda hafi svo ekki verið.

Á því er einnig byggt að stefnandi hafi enga fræðslu eða kynningu fengið á aðstæðum í Afganistan, hvers þar mætti vænta og hvað bæri að varast. Reynsla hans af starfi í Kosovo hafi ekki komið honum að neinum notum, enda hafi aðstæður þar verið allt aðrar og friðvænlegri. Í Afganistan hafi friðargæsluliðarnir í raun alltaf verið í vinnu við að gæta að eigin lífi og limum, eins og utanríkisráðherra hafi tekið undir í ummælum sínum á Alþingi 29. apríl 2005. Því sé varla hægt að halda því fram að stefnandi hafi verið í frístundum sínum þegar umrædd sprengjuárás var gerð á íslensku friðargæsluliðana. Að dómi stefnanda ber stefndi jafnframt skaðabótaábyrgð á því að setja hann undir stjórn yfirmanns, Hallgríms Sigurðssonar, sem ekki hafði heldur fengið neina þjálfun í að stjórna liði á átakasvæðum og tryggja öryggi starfsmanna sinna með fullnægjandi hætti. Hafi þessi reynslu- og þekkingarskortur Hallgríms beinlínis leitt til þess vanmats á aðstæðum að fara í persónulegan verslunarleiðangur, án fullnægjandi gæslu og varnaraðgerða. Í því sambandi bendir stefnandi á að Hallgrímur, sem æðsti yfirmaður á flugvellinum, hafi haft úr nærri 1700 hermönnum að velja til að tryggja öryggi sitt og samferðarmanna í umrætt sinn. Þá beri stefndi ótvíræða sakarábyrgð á því að skort hafi á skýrar reglur um boðvald á hættuslóðum. Þannig hafi bæði Hallgrímur Sigurðsson og Ásgeir Þór Ásgeirsson borið að þeir hafi litið til hins við ákvarðanatöku um öryggismál í umræddum verslunarleiðangri. Hefði Ásgeir talið sig lægra settan í tign og þess ekki umkominn að skipa Hallgrími fyrir verkum, en Hallgrímur talið Ásgeir yfirmann öryggismála í leiðangrinum og með boðvald yfir öðrum. Í þessu endurspeglist vankunnátta starfsmanna stefnda í rekstri friðargæslu á hættusvæðum, og svo mjög að við lá að yrði íslensku friðargæsluliðunum að fjörtjóni í umrætt sinn.

Stefnandi byggir einnig á húsbóndaábyrgð stefnda á verkum starfsmanna sinna, einkum Hallgríms Sigurðssonar og Ásgeirs Þórs Ágeirssonar. Í því sambandi áréttar stefnandi að yfirmaður hans, Hallgrímur Sigurðsson, hefði vanmetið aðstæður í Kabúlborg, þegar hann hélt í verslunarleiðangur í borgina, án þess að tryggja sér og samstarfsmönnum sína næga vernd, þótt hann hefði yfir hermönnum að ráða. Hallgrími hefði verið í lófa lagið að óska þess að teppasölumaðurinn kæmi með varning sinn á flugvöllinn. Þess í stað hefði hann hins vegar kosið að fara í umræddan leiðangur og leggja traust sitt á óreynda íslenska friðargæsluliða, sem allsendis voru ófærir um að bregðast við aðsteðjandi hættuástandi, og það þrátt fyrir varnaðarorð Ásgeirs Þórs. Þá telur stefnandi að Ásgeir Þór hafi látið undir höfuð leggjast að koma áhyggjum sínum á framfæri, þegar þeim dvaldist í versluninni, langt umfram það sem upphaflega var áformað. Í ljósi áhættumats Ásgeirs hefðu einu réttu viðbrögðin verið að snúa frá.

Af hálfu stefnanda er því mótmælt að á því verði byggt að starfsmenn stefnda, sem sendir eru á hættuslóðir, séu í raun réttlausir þegar þeir eru ekki beinlínis að sinna nákvæmlega afmörkuðum starfsverkefnum. Telur stefnandi að slík túlkun stríði gegn öllum grundvallarviðhorfum til ábyrgðar ríkja á starfsmönnum sínum, þegar þeir eru á stríðsátakasvæðum. Um leið hafnar stefnandi þeim sjónarmiðum að hann verði dæmdur réttlaus, þar sem hann hafi í umrætt sinn verið í einhverri tómstundaferð í frítíma sínum. Jafnframt leggur hann á það áherslu að hann hafi ekki einvörðungu verið í ferðinni að eigin ósk, heldur hafi Hallgrímur óskað eftir nærveru hans, í því skyni að aðstoða hann við greiðslu á varningnum.

Eins og fyrr segir styðst málsókn stefnanda við reglur skaðabótaréttar um sök og húsbóndaábyrgð. Krafa hans um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir því að bótareglur um sök og húsbóndaábyrgð eigi við í máli þessu, enda hafi hvorki hann né starfsmenn hans sýnt af sér sök í skilningi sakarreglunnar. Óumdeilt sé hins vegar að tjón stefnanda stafi af sjálfsmorðsárás afgansks manns. Stefndi beri ekki ábyrgð á athöfnum þess manns og hafi heldur ekki getað komið í veg fyrir árásina, sem var tilefnislaus og án fyrirvara. Hafi íslensku friðargæsluliðarnir brugðist eðlilega við hinni óvæntu árás.

Stefndi hafnar því að stefnandi hafi fengið ónóga þjálfun og undirbúning vegna starfs síns í Afganistan. Bendir hann á að starf stefnanda á flugvellinum í Kabúl hafi verið borgaralegt og hann ekki sinnt hernaðarlegum störfum. Undirbúningur fyrir störf friðargæsluliðanna í Afganistan hafi tekið mið af því að um sérfræðistörf væri að ræða innan afgirts flugvallarsvæðis, sem varið hafi verið af hermönnum ISAF frá öðrum þjóðum. Íslendingar hefðu því ekki haft hlutverk við gæslustörf eða varnir, annað en  til sjálfsvarnar og til þess að tryggja öryggi sitt þegar á þyrfti að halda við ferðir milli bækistöðva ISAF eða út fyrir vallarsvæðið. Hins vegar hefði ekkert í starfi stefnanda kallað á ferðir út fyrir flugvöllinn.

Stefndi leggur áherslu á að þegar árásin var gerð hafði stefnandi unnið á flugvellinum í u.þ.b. fimm mánuði og hafði áður reynslu af sambærilegum störfum á átakasvæði í Kosovo. Því hafi hann bæði haft reynslu af stríðshrjáðum svæðum, svo og tækifæri til þess að afla sér fræðslu og kynna sér aðstæður eftir að til Afganistans var komið. Þá telur stefndi það ótrúverðugt að stefnandi hafi ekki sökum annríkis getað þjálfað sig í notkun þess búnaðar sem honum var úthlutað við komuna til Afganistans. Hann mótmælir einnig fullyrðingu stefnanda um þjálfunarleysi annarra starfsmanna stefnda og samstarfsmanna stefnanda. Sprengjuárásin hafi verið ófyrirséð og fyrirfram ekki unnt að koma í veg fyrir hana. Hins vegar verði ekki annað séð en að óaðfinnanlega hafi verið staðið að öryggisgæslu í umrætt sinn og hárrétt brugðist við til þess að takmarka frekara tjón á vettvangi. Viðbrögð íslensku friðargæsluliðanna hafi því hvorki borið vott um þjálfunar- né undirbúningsleysi. Loks bendir stefndi á að af hálfu íslenskra stjórnvalda hafi engar reglur legið fyrir um ferðir friðargæsluliða utan flugvallar í Kabúl, einungis almenn fyrirmæli, og að farið skyldi eftir reglum ISAF. Fyrirmæli hafi þó verið um að ekki skyldi farið út af flugvellinum nema brýna nauðsyn bæri til og skyldu þá ferðir undirbúnar með hliðsjón af öryggisástandi og í samvinnu við lögreglu og njósnadeildir.

Stefndi byggir sérstaklega á því að stefnandi hafi sjálfur kosið að fara í hina örlagaríku ferð, af fúsum og frjálsum vilja, og án þess að hafa á nokkurn hátt verið þvingaður til þess. Ferðin hafi ekki verið starfstengd, heldur farin sem verslunarleiðangur samstarfsmanna, sem stefnandi tók þátt í. Mótmælir stefndi algerlega þeim rökum stefnanda að hann hafi nánast neyðst til þess að fara með til þess að greiða hugsanleg kaup yfirmanns hans á teppum, en tekur fram að stefnandi hefði hæglega getað lánað yfirmanni sínum peninga úr sjóði friðargæslunnar, án þess að fylgja honum í leiðangurinn. Þá hafnar stefndi því að hann geti borið á því ábyrgð að dvöl samstarfsmanna stefnanda dróst í teppaversluninni, þannig að virt verði honum til sakar. Með ofanritað í huga hljóti stefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því að hafa tekið ákvörðun um að fara í umræddan leiðangur.

Munnlegar skýrslur fyrir dómi

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dóminum, svo og vitnin Steinar Örn Magnússon og Ásgeir Þór Ásgeirsson. Þá var tekin símaskýrsla af Hallgrími Sigurðssyni.

Í máli stefnanda kom fram að vegna starfs síns sem flugumferðarstjóri í Afganistan hefði hann vikulega eða oftar þurft að fara á fundi í Kabúl með Hallgrími Sigurðssyni, yfirmanni flugvallarins. Hins vegar hefði hann aldrei farið í einkaerindum inn í borgina. Stefnandi sagði Hallgrím hafa sagt sér frá því að hann hefði áhuga á að kaupa afganskt teppi áður en hann héldi heim á leið, og ætlaði í fyrstu að fá teppasölumenn inn á flugvöllinn. Jafnframt hefði Hallgrímur þá sagt sér að hann væri auralítill og þyrfti líklega að fá lán úr sjóði friðargæslunnar, sem stefnandi bar ábyrgð á. Kvaðst stefnandi hafa tekið erindinu vel og hefði hann einnig lýst áhuga á teppakaupum. Ekkert hefði þó orðið af því að teppasölumenn kæmu á flugvöllinn. Þess í stað var ákveðið að halda í verslunarleiðangur í Chicken Street í Kabúl.

Stefnandi kvaðst fyrst hafa frétt af fyrirhugaðri verslunarferð að morgni laugardagsins, og hefði Hallgrímur spurt hvort hann hefði áhuga á að koma með. Játaði hann því, enda hafði hann sjálfur bæði lýst áhuga á að kaupa teppi og lofað Hallgrími að lána honum fé. Ítrekað aðspurður sagðist stefnandi hafa litið á orð Hallgríms sem boð um að koma með, ekki sem skipun, og hefði hann sjálfur tekið ákvörðun um að koma með í ferðina. Fullyrti hann að ekkert hefði verið farið yfir öryggismál áður en lagt var að stað og hefði hann ekki fyrr en löngu síðar komist að því að Ásgeir Þór Ásgeirsson hefði varað Hallgrím við því að fara í leiðangurinn. Fram kom hjá stefnanda að þegar fyrsta sprengingin kvað við, hafi hann, ásamt Hallgrími, Doug Wise og Faruk Kaymakci, setið á lágum kollum í versluninni og verið að skoða teppi, sem lögð höfðu verið á gólfið. Bæði hann og aðrir íslensku friðargæsluliðarnir hefðu verið í skotheldu vesti og borið skammbyssu.

Steinar Örn Magnússon sagðist hafa farið í könnunarleiðangur með Ásgeiri Þór Ásgeirssyni í Chicken Street tveimur dögum áður en farið var í umræddan verslunarleiðangur. Hefði tilgangurinn verið að kanna öryggi leiðarinnar og aðstæður á vettvangi. Var það samdóma álit þeirra beggja að ekki væri óhætt að fara í fyrirhugaða ferð, gatan væri þröng og mikill mannfjöldi þar, og hefði Hallgrími verið tjáð að þeir legðust gegn ferðinni. Engu að síður hefði Hallgrímur fyrirskipað að farið yrði í leiðangurinn. Í ljósi þess hefði verið lagt upp með að dvölin í versluninni yrði ekki lengri en 10–15 mínútur. Reyndin hefði þó orðið sú að dvölin þar varð um 50 mínútur. 

Aðspurður sagðist Steinar Örn ekki sjálfur hafa fengið skipun frá Hallgrími um að fara í ferðina. Þrátt fyrir áhyggjur hefði hann þó ekki neitað að fara, enda verið í því starfsumhverfi að hann hafi hlýtt fyrirmælum yfirmanna. Fram kom í máli hans að áður en haldið var af stað hefði verið farið yfir vopn og búnað samferðarmanna og mönnum raðað í bílana tvo. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð árásármanninn koma, hann hefði verið í mannþrönginni án þess að eftir honum yrði tekið, og gengið í átt að versluninni. 

Ásgeir Þór Ásgeirsson kvaðst hafa komið til starfa í Afganistan í septembermánuði 2004 og hafi starf hans m.a. falist í því að tryggja öryggi yfirmanns flugvallarins, Hallgríms Sigurðssonar. Í október hefði Hallgrímur falið sér og Steinari Erni að meta aðstæður á nokkrum stöðum í Kabúl, með tilliti til öryggis, og einnig þar sem hann hefði í hyggju að kaupa teppi af afgönskum kaupmanni í Chicken Street. Fóru þeir um Chicken Street og taldi hvorugur að ráðlegt væri að fara þangað í verslunarleiðangur, bæði vegna aðstæðna, svo og með hliðsjón af því að almennt var svæðið talið „heitt svæði“, þ.e. svæði þar sem helst mátti búast við óvæntum atburðum. Hefði hann lýst áhyggjum sínum við Hallgrím og talið ráðlegra að kaupmaðurinn kæmi til flugvallarins og sýndi þar teppi sín. Þrátt fyrir varnaðarorð sín hefði Hallgrímur ákveðið að ferðin yrði farin og falið honum að skipuleggja hana. Hefði Hallgrímur haft á orði að ferðin yrði stutt, 10–15 mínútur, enda væri kaupmaðurinn búinn undir komu hans. Sérstaklega aðspurður hvers vegna hann hefði ekki neitað að fara í leiðangurinn, í ljósi þess að hann hefði talið það varhugavert, sagðist Ásgeir líklega hafa getað það, en leit svo á að með því væri hann að óhlýðnast skipun yfirmanns síns. Þegar teygðist á dvölinni í versluninni kvaðst hann ítrekað hafa bent Hallgrími á það, en hann þá aðeins fengið þau viðbrögð hvort hann sjálfur væri eitthvað stressaður. Ekki kvaðst hann vita hvers vegna stefnandi hefði farið með í leiðangurinn. Hefði Hallgrímur aðeins sagt honum hverjir færu í ferðina og hefði hann skipulagt hana með hliðsjón af því.

Hallgrímur Sigurðsson var að því spurður hvers vegna stefnandi hefði verið með í verslunarleiðangrinum í Chicken Street, og svaraði hann því til að stefnandi hefði einnig haft áhuga á teppakaupum. Sjálfur hefði hann ekki óskað eftir því að stefnandi kæmi, þvert á móti hefði stefnandi óskað eftir því að koma með. Hann sagðist ekki muna hvort hann hafi verið orðinn peningalaus, en bætti því við að lítill sjóður fyrir friðargæsluna hefði verið geymdur í peningaskáp í herstöðinni, sem stefnandi hafði einn aðgang að. Vel gæti hins vegar verið að hann hafi þurft á láni að halda vegna teppakaupanna.

Hallgrímur kvaðst ekki minnast þess að Ásgeir Þór eða Steinar Örn hefðu sagt sér að óráðlegt væri að fara í leiðangurinn, og tók fram að hefði Ásgeir Þór ákveðið lagst gegn því að fara hefði hann ekki farið, enda hefði Ásgeir Þór verið yfirmaður öryggismála og átt síðasta orðið um þau mál. Kannaðist hann heldur ekki við að hafa gefið fyrirmæli um að farið skyldi í leiðangurinn. Ítrekað aðspurður þvertók Hallgrímur fyrir að Ásgeir Þór eða einhver annar hefði rekið á eftir honum í versluninni eða bent á að dvölin þar væri orðin of löng. Fram kom einnig í máli hans að á þeim tíma sem árásin var gerð var ástandið í Kabúl talið öruggt og hefðu friðargæsluliðar verið hvattir til að vera á ferð um borgina. 

Hallgrímur var að lokum spurður um þjálfun sína og reynslu af friðargæslustörfum, og svaraði hann því til að hann hefði fengið þjálfun hér á landi, en einnig í herskóla á vegum bandarísku strandgæslunnar. Þá hefði hann til margra ára starfað með herjum víða um heim.  

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um hvort stefndi beri ábyrgð á því heilsutjóni sem stefnandi varð fyrir í kjölfar sprengjuárásar í Kabúl laugardaginn 23. október 2004. Ekki er hins vegar ágreiningur um að stefnandi hafi orðið fyrir heilsutjóni sem rakið verður til árásarinnar.

Meðal gagna málsins eru skýrslur sem stefnandi, Ásgeir Þór Ásgeirsson og Hallgrímur Sigurðsson, rituðu til Íslensku friðargæslunnar skömmu eftir umrædda sprengjuárás, svo og samantekt utanríkisráðuneytisins um sama efni. Einnig liggur frammi álitsgerð tveggja fyrrverandi hæstaréttardómara um sprengjuárásina, dagsett 15. ágúst 2008, sem samin var að ósk utanríkisráðuneytisins. Öll þessi gögn veita mikilsverðar upplýsingar um aðdraganda og undirbúning ferðar íslensku friðargæsluliðanna í Chicken Street, svo og um sjálfa sprengjuárásina. Verður vísað til þeirra svo sem tilefni þykir til. 

Fram er komið að stefnandi réðst til starfa í maí 2004, sem flugumferðarstjóri á vegum Íslensku friðargæslunnar, og var starfsvettvangur hans á flugvellinum í Kabúl í Afganistan. Stefnandi hafði áður starfað á vegum Íslensku friðargæslunnar á Pristinaflugvelli í Kosovo, og þá einnig sem flugumferðarstjóri. Verkefni stefnanda í Afganistan voru borgaralegs eðlis og einskorðuðust við störf í flugturninum í Kabúl. Starfs síns vegna þurfti hann þó vikulega eða oftar að sækja fundi í Kabúlborg með yfirmanni flugvallarins, Hallgrími Sigurðssyni, oftast í samgönguráðuneytinu, en einnig í öðrum stofnunum. Þá bar stefnandi ábyrgð á sjóði, sem ætlaður var sem skotsilfur fyrir friðargæsluliðana og til kaupa á ýmsum smávarningi. Óumdeilt er að stefnandi fékk lágmarksþjálfun í meðhöndlun skammbyssu áður en hann hélt til Afganistans, en til þess var ætlast að hann héldi þeirri þjálfun við meðan á dvöl hans þar stæði. Aðeins einu sinni sótti hann þó vikulegar skotæfingar, og bar við tímaskorti. Í skýrslu Arnórs Sigurjónssonar, fyrrverandi skrifstofustjóra Íslensku friðargæslunnar, sem liggur frammi í málinu, er fullyrt að yfirmaður öryggismála á flugvellinum hafi upplýst stefnanda um staðhætti og þær hættur sem bæri að varast, m.a. af völdum jarðsprengja, þegar til Afganistans var komið. Jafnframt segir þar að miðað við aðstæður, eins og þær voru í Kabúl á þessum tíma, hafi þjálfunin verið talin fullnægjandi þar eð störf stefnanda einskorðuðust við flugturninn, innan girðingar á flugvellinum, og stefnanda engin þörf vinnu sinnar vegna að fara út fyrir það svæði. Fram kemur þar einnig að aðrir friðargæsluliðar hafi verið sendir á sérstakt námskeið í Noregi og hafi þjálfun þeirra tekið mið af því að klæðast einkennisbúningum og bera vopn sér til sjálfsvarnar við störf á flugvellinum og utan hans, ef með þyrfti vegna vinnutengdra ferða.

Þótt taka megi undir það með stefnanda að þjálfun fyrir dvöl hans í Afganistan hafi verið af skornum skammti verður þó ekki á það fallist að sú þjálfun hafi verið ónóg til þess að stefnandi gæti tryggt öryggi sitt og sinnt því starfi sem hann var ráðinn til. Lítur dómurinn þá sérstaklega til þess að starf stefnanda var borgaralegs eðlis og starfsvettvangur hans innan afgirts og varins flugvallarsvæðis. Því verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til þess að stefnandi hlyti hernaðarlega þjálfun. Breytir hér engu þótt stefnandi hafi oftsinnis farið á fundi með yfirmanni flugvallarins út fyrir flugvallarsvæðið, enda voru þær ferðir vel undirbúnar og öryggis þeirra gætt, ýmist af hermönnum eða íslenskum friðargæsluliðum sem fengið höfðu til þess þjálfun. Þá átti stefnandi þess kost að auka við færni sína í meðferð skotvopna þegar til Afganistans var komið, en gerði það ekki, og verður stefndi ekki talinn bera ábyrgð á því.

Stefnandi heldur því einnig fram að hann hafi enga fræðslu eða kynningu fengið á aðstæðum í Afganistan, hvers þar væri að vænta og hvað helst bæri að varast, hvorki áður en hann hélt þangað til starfa, né eftir það. Þessi fullyrðing stefnanda fer í bága við staðhæfingu Arnórs Sigurjónssonar, fyrrverandi skrifstofustjóra Íslensku friðargæslunnar, í ofannefndri skýrslu hans. Hins vegar dregur það óneitanlega úr vægi þessarar málsástæðu stefnanda að hann hafði dvalið í Afganistan í rúma fimm mánuði áður til þess atburðar dró, sem er tilefni málsóknar. Á þeim tíma hlýtur hann af eigin raun að hafa kynnst aðstæðum og gert sér grein fyrir þeim hættum sem víða leyndust þar. Það eitt að flugvöllurinn var rammlega afgirtur og varinn, svo og að fjölmennt alþjóðlegt herlið og friðargæslusveit var í Kabúl, hlaut og að gefa ótvíræða vísbendingu um að nauðsynlegt væri að gæta ýtrustu varkárni.

Eins og áður er lýst var haldið í verslunarleiðangur í Chicken Street laugardaginn 23. október 2004, og var stefnandi með í för. Tveimur dögum áður höfðu tveir íslenskir friðargæsluliðar, Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirmaður öryggismála á flugvellinum, og Steinar Örn Magnússon, farið í könnunarferð um Kabúl, að ósk Hallgríms Sigurðssonar, m.a. í því í því skyni að meta áhættu af fyrirhugaðri ferð. Þrátt fyrir að hvorugum íslensku friðargæsluliðanna hafi litist sérlega vel á aðstæður í götunni, með tilliti til öryggis, hefur ekki verið sýnt fram á að þeir hafi berum orðum lagst gegn því við Hallgrím Sigurðsson að ferðin yrði farin, enda hefur Hallgrímur neitað því fyrir dómi. Hins vegar benda önnur gögn málsins, þ.á m. skýrsla Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar til Íslensku friðargæslunnar frá 1. nóvember 2004, til þess að hann hafi upplýst Hallgrím um staðhætti í Chicken Street og um leið greint honum frá mati sínu á öryggi svæðisins. Það, að ákveðið skyldi að viðdvöl í teppaversluninni yrði mjög stutt, aðeins 10–15 mínútur, og vörur tilbúnar til afhendingar þegar þangað kæmi, bendir einnig eindregið til þess að bæði Ásgeir Þór og Hallgrímur hafi talið áhættu því samfara að fara í ferðina. Ekkert liggur fyrir um að stefnanda hafi hins vegar verið kunnugt um áhyggjur Ásgeirs Þórs né Steinars Arnar af öryggi leiðangursmanna, né um hinn skamma tíma sem átti að dvelja í versluninni.

Óumdeilt er að á þessum tíma lágu ekki fyrir ákveðnar reglur af hálfu yfirmanna Íslensku friðargæslunnar um ferðir út af flugvellinum og var ekki fortakslaust bannað að menn færu inn í borgina í einkaerindum. Þó virðist sem almennt hafi ekki verið ætlast til þess að menn færu þangað nema brýna nauðsyn bæri til, og þá að höfðu samráði við lögreglu og njósnadeildir. Í ofangreindri samantekt utanríkisráðuneytisins, sem samin var skömmu eftir sprengjuárásina, kemur fram að á þessum tíma hafi öryggisástand verið tiltölulega gott í Kabúl. Þannig var umferð bifreiða á vegum friðargæsluliðsins metin sem flokkur 1, það er einni bifreið var heimilt að fara um borgina með tveimur vopnuðum mönnum innanborðs, einkennisbúningar voru í flokki 2, það er að viðkomandi átti að hafa skothelt vesti á sér og hjálm nálægt, og vopnaflokkur var metinn svo að bera ætti hlaðin vopn, en ekki skot í hlaupi. Engar sérstakar takmarkanir eða hindranir voru á vegum eða í hverfum borgarinnar og var ástandið almennt metið sem „grænt“ af hálfu öryggisvarða friðargæsluliðsins, en það mun vera lægsta viðbúnaðarstig friðargæsluliðsins. Í samantektinni segir enn fremur að tvær merktar bifreiðir frá flugvellinum hafi verið notaðar til ferðarinnar í Chicken Street, og hafi báðar verið sérstaklega styrktar með „Kevlar-efni“ í hurðum til að verjast sprengjubrotum. Þá er þar tekið fram að ein ástæða þess að Ásgeir Þór Ásgeirsson leitaði frekar eftir aðstoð Íslendinga við öryggisgæslu í ferðinni, fremur en annarra friðargæsluliða, hafi verið sú að hann taldi Íslendingana hæfari til að sinna því hlutverki. Reynslan hefði sýnt að ekki aðeins væru þeir betri og varkárari ökumenn, heldur töluðu þeir bæði ensku og íslensku, en málakunnáttu og þjálfun margra alþjóðlegra friðargæsluliða væri verulega ábótavant. 

Fram er komið að stefnandi hafði lýst áhuga á að kaupa teppi í Afganistan og tók boði Hallgríms Sigurðssonar þegar sá síðarnefndi bauð honum að koma með í hina örlagaríku verslunarferð í Chicken Street. Stefnandi hefur haldið því fram að áhugi hans á teppum hafi ekki aðeins ráðið þar úrslitum, heldur hafi hann einnig þurft að koma með til þess að geta lánað Hallgrími fé úr sjóði friðargæslunnar, ef á þyrfti að halda. Að áliti dómsins er síðarnefnd skýring stefnanda á tilgangi fararinnar haldlítil, enda verður ekki séð að nein nauðsyn hafi verið fyrir nærveru hans, hafi Hallgrímur talið sig skorta fé til teppakaupanna. Með þetta í huga getur dómurinn ekki fallist á þau óljósu rök stefnanda að ferðin í Chicken Street hafi verið hluti af starfsskyldum hans. Þvert á móti verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi verið í einkaerindum, til þess að kaupa teppi til eigin nota, og ber hann sjálfur ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni.

Í gögnum málsins er því ítarlega lýst hvernig bifreiðunum var stillt upp framan við teppaverslunina og hvar íslensku friðargæsluliðarnir tóku sér stöðu utandyra. Hvergi er þar að finna gagnrýni á hvernig staðið var að því verki, né nokkuð fram komið um að annað fyrirkomulag hefði hentað betur. Hins vegar er ljóst að viðdvölin í versluninni varð mun lengri en áætlað hafði verið, eða nálægt einni klukkustund. Fyrir dómi kvaðst  Ásgeir Þór ítrekað hafa bent Hallgrími á að dvölin væri orðin lengri en til stóð, en taldi sig þó ekki hafa vald til þess að skipa yfirmanni sínum að yfirgefa verslunina. Í framburði sínum fyrir dóminum þvertók Hallgrímur hins vegar fyrir það að Ásgeir Þór hefði rekið á eftir honum í versluninni. Þetta ósamræmi í framburði vitnanna birtist einnig í skýrslu hvors þeirra til Íslensku friðargæslunnar, sem rituð var skömmu eftir árásina. Hér stendur því orð gegn orði, og verður frekar upplýst um það atriði. Hins vegar hefur stefnandi ekki með neinu móti sýnt fram á að orsakasamband hafi verið milli sprengjuárásarinnar og þess að dvölin í versluninni varð lengri en áformað var. Í oftnefndri samantekt utanríkisráðuneytisins kemur raunar fram að hvorki liggi fyrir vísbendingar frá öryggisyfirvöldum friðargæslunnar um að lengd dvalarinnar hafi orsakað árásina, né að hún hafi ráðist af því að um tilviljanakennt skotmark var að ræða.

Auk þess sem áður greinir byggir stefnandi á því að íslensku friðargæsluliðarnir, sem gættu öryggis leiðangursmanna, hafi ekki búið yfir nægilegri þjálfun, og hefði Hallgrímur Sigurðsson fremur átt að velja þjálfaða hermenn til fararinnar. Jafnframt er því haldið fram að Hallgrímur hafi ekki haft næga reynslu eða þekkingu til að tryggja öryggi starfsmanna sinna með fullnægjandi hætti.

Dómurinn getur ekki tekið undir þau sjónarmið stefnanda að Hallgrímur Sigurðsson hafi ekki haft næga þekkingu, þjálfun og reynslu til að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Nægir þar að vísa til áralangrar reynslu hans af friðargæslustörfum, svo og til þeirrar þjálfunar sem hann hafði hlotið hér  heima og erlendis, og lýst er nánar í skýrslu hans fyrir dóminum. Hins vegar var sérstakur starfsmaður sem hafði það hlutverk að tryggja öryggi Íslendinganna, þ.á m. yfirmanns flugvallarins. Eins og áður hefur komið fram gegndi Ásgeir Þór Ásgeirsson þessu starfi, en hann hafði mikla og víðtæka reynslu og þekkingu á friðargæslustörfum og öryggismálum, bæði hér heima og erlendis. Er engin ástæða til að draga í efa færni hans og þjálfun, enda benda gögn málsins ekki til annars en að hann hafi fyllilega verið starfi sínu vaxinn. 

Fyrir dómi sagði Steinar Örn Magnússon, sem var einn þeirra þriggja friðargæsluliða sem stóðu á verði utan við teppaverslunina í Chicken Street, að hann hefði ekki séð árásarmanninn fyrr en að árás lokinni, þá látinn, liggjandi á gangstéttinni utan við verslunina. Líklega hafi hann verið í mannþrönginni á götunni, án þess að hann veitti honum athygli. Er frásögn hans í samræmi við það sem haft er eftir hinum tveimur friðargæsluliðunum sem einnig stóðu á verði, og finna má í gögnum málsins, m.a. í  samantekt utanríkisráðuneytisins. Þar er einnig haft eftir þeim að við árásina hafi skapast mikið öngþveiti á staðnum, reykur og ryk hafi þyrlast upp og byrgt alla sýn. Engum vopnum hafi verið beitt til sjálfsvarnar, enda hafi þeir ekki talið það óhætt í mannfjöldanum.

Hér að framan hefur verið greint frá ástæðum þess að Ásgeir Þór valdi íslenska friðargæsluliða til fararinnar, fremur en erlenda. Hvergi er í gögnum málsins dregið í efa að sú ákvörðun hafi verið réttmæt og studd faglegu mati. Því verður ekki séð að gagnrýni stefnanda að þessu leyti og þær ályktanir sem hann dregur af því að hermenn hafi ekki verið valdir til að gæta öryggis hans og samferðarmanna eigi við nokkur rök að styðjast.

Í máli þessu bendir ekkert til annars en að sprengjuárásin í Kabúl, laugardaginn 23. október 2004, hafi verið ófyrirséð og að hending ein hafi ráðið því að íslensku friðargæsluliðarnir urðu fyrir henni. Í því ljósi, svo og með vísan til þess sem áður er rakið, verður að hafna, sem órökstuddum, öllum málsástæðum stefnanda þess efnis að árásina megi rekja til vanmats á aðstæðum og ófullnægjandi verndar, vanþekkingar og vanþjálfunar hans sjálfs og samstarfsmanna hans. Þótt benda megi á einstök atriði sem kunna að orka tvímælis, svo sem vafi um boðvald yfirmanns öryggismála gagnvart yfirmanni flugvallarins, ásamt hinni löngu viðdvöl í teppaversluninni í Chicken Street, liggja þó engar sannanir fyrir um að þau hafi nokkru ráðið um atburðarásina. Um leið er ítrekuð sú afstaða dómsins að stefnandi fór í hina örlagaríku ferð á eigin forsendum og ábyrgð, og án þess að ferðin væri hluti af starfsskyldum hans. Niðurstaðan er því sú að sýkna beri stefnda af kröfu stefnanda um að viðurkennd verði bótaábyrgð stefnda á heilsutjóni stefnanda á grundvelli sakarábyrgðar eða húsbóndaábyrgðar á verkum starfsmanna hans.

Eins og atvikum er hér háttað þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Friðriks Más Jónssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.