Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/2002


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Rannsókn


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. apríl 2002.

Nr. 39/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Birni Stefánssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Rannsókn.

B var einn til frásagnar um ætlaða líkamsárás, auk S sem bar hann sökum. Þótti S ekki hafa verið að fullu samkvæm sjálfri sér í lýsingu atvika, sem ekki hafði heldur að öllu leyti staðist framburð annarra og önnur gögn málsins. Auk þessa hafði orðið nokkur dráttur á rannsókn lögreglu. Þegar alls þessa var gætt var ekki talið að nægileg sönnun í skilningi 46. gr. laga nr. 19/1991 hefði verið færð fyrir sekt B. Var hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verð ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju, en til vara krefst hann sýknu. Verði á hvorugt fallist krefst hann vægari refsingar en honum var gerð í héraðsdómi.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 6. febrúar 2000 á veitingastaðnum LA café í Reykjavík slegið Stellu Björgvinsdóttur í höfuðið með þeim afleiðingum að gat kom á hljóðhimnu vinstra eyra hennar og hún hlaut mikið heyrnartap.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi hafði Stella Björgvinsdóttir farið á veitingastaðinn LA café umrætt kvöld með vinkonu sinni Maríu Lovísu Sigvaldadóttur. Þangað hafði ákærði, sem ekki þekkti konurnar fyrir, einnig lagt leið sína. Bar Stella fyrir héraðsdómi að hún hafi ásamt Maríu sest við borð á veitingastaðnum og ákærði komið þar að og gefið sig á tal við þær. María taldi sig fyrir héraðsdómi ráma í að ákærði hafi sest við borðið hjá þeim, en ákærði minntist þess ekki í skýrslu sinni. Öllum bar þeim saman um að ákærði hafi dansað nokkra dansa við Maríu, en misræmi er í framburði þeirra um hvað síðan gerðist.

 Stella bar að eftir þetta hafi ákærði gerst uppáþrengjandi og ágengur og hvað eftir annað komið að borði þeirra Maríu. Hafi þessi framkoma hans leitt til þess að þær ákváðu að yfirgefa veitingastaðinn. María hafi farið á undan til að ná í yfirhafnir þeirra, en þegar Stella hafi staðið upp til að fylgja Maríu hafi ákærði komið þar að og spurt hvað hún væri að gera. Þegar hún hafi svarað því til að hún væri að fara heim hafi ákærði brugðist illa við og tekið um tösku, sem hún hafði um öxl sér. Þegar hann hafi ekki sinnt ítrekaðri beiðni hennar um að sleppa hafi hún reynt að rífa sig lausa, en ákærði þá þrýst henni upp að vegg og slegið hana með krepptum hnefa á vinstra eyrað. María bar að eftir að hún hafi dansað við ákærða hafi hann orðið uppáþrengjandi og þær Stella því ákveðið að forða sér. Hafi hún gengið úr veitingasalnum og þá séð að ákærði hélt í veski eða handlegg Stellu. Hafi hún ekki séð hvað þeim fór frekar á milli, en á eftir hafi hún fylgt Stellu á slysavarðstofu og Stella þá sagt að ákærði hafi slegið sig á eyrað. Ákærði bar fyrir héraðsdómi að eftir að hann hafði dansað um hríð við Maríu hafi Stella komið þar að og viljað fá hana á brott með sér. Hafi þá komið til orðaskipta milli þeirra Stellu. Hún hafi reiðst út af tilteknum ummælum hans og klórað hann í andlitið. Hafi hann borið ósjálfrátt fyrir sig hendurnar, en þær ekki lent á Stellu svo hann viti. Hafi Stella að því búnu náð í dyraverði og ákærði beðið með þeim eftir lögreglunni.

Ekki voru vitni að því hvað ákærða og Stellu fór á milli og eru þau ein til frásagnar um það. Til stuðnings framburði Stellu er það óumdeilt að til ýfinga kom milli hennar og ákærða, sem leiddu til þess að lögreglan var kvödd til. Stella hélt síðan rakleitt á slysavarðstofu, þar sem í ljós kom mikið gat á hljóðhimnu vinstra eyra hennar. Verður að fallast á með héraðsdómi að langlíklegast sé að hún hafi hlotið gatið á hljóðhimnuna þetta kvöld. Á hinn bóginn hefur Stella ekki verið að fullu samkvæm sjálfri sér í lýsingu atvika, sem hefur heldur ekki að öllu leyti staðist framburð annarra og önnur gögn málsins. Þannig var í frumskýrslu lögreglunnar haft eftir Stellu að maður, sem hún kvaðst kannast við, hafi ráðist á sig og slegið í höfuðið, en óumdeilt er að hún og ákærði þekktust ekki fyrir. Í frumskýrslunni kom einnig fram að ákærði hafi verið klóraður á hægri kinn á tveimur eða þremur stöðum og getur það samræmst frásögn hans af atburðinum, en Stella hefur bæði við skýrslutöku hjá lögreglunni og fyrir dómi eindregið neitað því að hafa klórað ákærða. Þá kom fram í skýrslu Stellu hjá lögreglunni 11. febrúar 2000, fimm dögum eftir atburðinn, að eftir að ákærði hafi veitt henni höfuðhöggið hafi komið að tveir menn og haldið ákærða þangað til dyraverðir komu að. Hafi hún þekkt annan þeirra, er heiti Egill. Framburður hennar fyrir héraðsdómi við fyrri aðalmeðferð málsins var í samræmi við þetta. Í skýrslu sinni við síðari aðalmeðferð gat hún hins vegar ekki um tök Egils og félaga hans á ákærða, en sagðist hafa rætt við Egil eftir atburðinn. Egill Hilmar Jónasson kvaðst fyrir héraðsdómi ekki muna eftir að hann hafi gengið á milli ákærða og Stellu, en hann kannaðist við að hún hafi rætt við sig eftir atburðinn og sagt að ákærði hafi slegið hana. Í frumskýrslu lögreglunnar var haft eftir ákærða að hann hafi slegið konu með flötum lófa hægri handar. Fyrir héraðsdómi taldi ákærði þetta ranglega eftir sér haft. Hefur framburður ákærða um atburðinn alla tíð verið stöðugur.

Eins og að framan er rakið eru ekki aðrir til frásagnar um atburðinn en ákærði og Stella Björgvinsdóttir. Til þess verður að líta að hún kom fyrir lögreglu fimm dögum eftir atvikin, sem um ræðir í málinu, og bar þá fram kæru á hendur ákærða, jafnframt því að gefa skýrslu um þau. Kom þá meðal annars fram að hún kvaðst vera nánast heyrnarlaus á vinstra eyra vegna gats, sem komið hafi á hljóðhimnu. Þrátt fyrir þetta verður ekki séð af gögnum málsins að lögreglan hafi nokkuð aðhafst um rannsókn þess fyrr en tekin var skýrsla af Maríu Lovísu Sigvaldadóttur 16. nóvember 2000, eða rúmum níu mánuðum eftir að Stella gaf áðurnefnda skýrslu sína. Í framhaldi af því átti lögreglan símaviðtal við Egil Hilmar Jónasson 21. nóvember 2000, en skýrsla var fyrst tekin af ákærða 27. sama mánaðar. Þegar svo var komið má ljóst vera að dregið hafði verulega úr líkum á því að aflað yrði frekari framburðar vitna um atvik málsins, enda virðist lögreglan heldur ekki hafa reynt það. Þegar alls þessa er gætt er ekki unnt að fallast á að fram sé komin nægileg sönnun í skilningi 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála fyrir sekt ákærða. Verður því að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum skal greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Björn Stefánsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 250.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2001

          Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 1. febrúar 2001, á hendur Birni Stefánssyni, kt. 250456-4099, Njálsgötu 34, Reykjavík, “fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 6. febrúar 2000, á skemmtistaðnum LA-kaffi, Laugavegi 45, Reykjavík, slegið Stellu Björgvinsdóttur, kennitala 200366-3959, í höfuðið með þeim afleiðingum að gat kom á hljóðhimnu vinstra eyra hennar og hlaut hún mikið heyrnartap.”

          Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

          Ákæruvald krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

          Ákærði krefst sýknu og verjandi hans hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

 

          Mál þetta var dæmt á grundvelli sömu ákæru 2. mars 2001.  Með dómi Hæstaréttar 31. maí 2001 var héraðsdómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til frekari meðferðar og dómsálagningar að nýju.  Vegna forfalla vitna fór aðalmeðferð fram í þremur áföngum og var málið loks dómtekið 4. þessa mánaðar.

 

          Aðfaranótt sunnudags 6. febrúar 2000 var óskað eftir því að lögregla yrði send á veitingastaðinn LA café, Laugavegi 45 hér í borg.  Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafði verið tilkynnt um að dyraverðir væru með aðila í tökum.  Hittu þeir á staðnum dyravörð sem sagði þeim að maður þessi hefði slegið konu í andlitið.  Þar hittu þeir einnig kæranda málsins, Stellu Björgvinsdóttur.  Sagði hún frá því að maður sem þarna var staddur, ákærði í málinu, hefði slegið hana í höfuðið og að hún heyrði ekkert með vinstra eyranu.  Segir í skýrslunni að ekki hafi séð á konunni annað en roða á vinstri kinn.  Kvaðst hún ætla að fara sjálf á slysadeild.  Þá segir að ákærði hafi verið allölvaður og frásögn hans ruglingsleg.  Hafi hann viðurkennt að hafa slegið konuna í höfuðið úti á dansgólfi.  Hefði hann verið að dansa við konu nokkra og önnur kona komið þar að og farið að reyna við þá sem hann var að dansa við.  Hefði hann reiðst við þetta og ýtt við þeirri sem var að trufla þau en hún þá klórað hann á móti.  Við það hefði hann slegið konuna með flötum lófa hægri handar.  Segir í skýrslunni að ákærði hafi verið klóraður á hægri kinn. 

          Stella Björgvinsdóttir leitaði þegar um nóttina til slysadeildar Landspítalans.

          Theódór Friðriksson, læknir, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði að Stella hefði fyrst verið skoðuð af aðstoðarlækni, Hrönn Garðarsdóttur.  Hrönn hefði kallað sig til og kvaðst hann hafa séð að það var gat á hljóðhimnunni.  Því hafi ekki verið um annað að ræða en að vísa Stellu til sérfræðings í háls-, nef- og eyrnalækningum.  Hann taldi að hringt hefði verið í vakthafandi sérfræðing og haft samráð við hann um að beðið skyldi næsta dags.  Gatið hafi verið talsvert stór hluti af hljóðhimnunni. 

          Theódór sagði að lýsing atvika í vottorði sínu væri eftir því sem skráð hefði verið eftir Stellu þegar hún kom.  Hann kvað ekki getið um sjáanlega ytri áverka í vottorðinu og hann myndi ekki eftir neinum frekari áverkum. 

          Fram hefur verið lagt vottorð Friðriks Kristjáns Guðbrandssonar, læknis á háls-, nef- og eyrnadeild spítalans, dagsett 2. október 2000.  Segir þar m. a.:

          “Við skoðun á slysadeild sást að vinstri hljóðhimnan var sprungin og lýst risastóru gati á hljóðhimnunni.  Í ljósi þessa var sjúklingur skoðaður þann 7. febrúar á háls-, nef og eyrnadeild og við smásjárskoðun sást gat á vinstri hljóðhimnu.  Heyrnarmæling sýndi verulega mikið heyrnartap á vinstra eyra.  Áætluð er skoðun eftir 6-8 vikur til eftirlits og staðfestingar á gróanda og kom Stella á nýjan leik þann 02.03. árið 2000.  Var þá um að ræða áfram stórt rof á hljóðhimnu og mikið heyrnartap á vinstra eyra og vaknaði spurning hvort beinkeðja miðeyrans hefði skaddast við höggið.  Í framhaldi af þessu kom hún til skoðunar hjá undirrituðum 08.03.00 og var þá enn um að ræða verulegt gat á vinstri hljóðhimnu sem hefur ekki enn gróið.  Það var sett pappírsbót yfir hljóðhimnuna og fannst Stellu heyrnin aukast við það.  Áætlað er að leyfa pappírnum að vera næstu 6 vikur og meta ástandið þá aftur, hvort hljóðhimnan hafi náð að gróa.  Annars stæði hún frammi fyrir því að gera þyrfti viðgerð á hljóðhimnu með vöðvahimnu síðar.

          Í samantekt er um að ræða slæmt gat og stórt á vinstri hljóðhimnu af völdum hnefahöggs.  Nokkrar líkur eru á að gatið muni ekki gróa af sjálfsdáðum og þurfi því að gera aðgerð síðar til að loka gatinu og í heyrnarbætandi skyni. Hugsanlega getur verið um að ræða varanlegan skaða á hljóðhimnu og heyrnarkerfi.”

          Friðrik Kristján Guðbrandsson gaf skýrslu er aðalmeðferð hófst þann 7. fyrra mánaðar.  Hann sagði að Stella hefði komið til skoðunar á ný daginn áður, þann 6. nóvember 2001.  Þá hafi komið fram að hún er með suð og hljóð og óþægindi í eyranu, hávaðaóþol, heyri illa, þó betur heldur en hún gerði fyrir ári.  Við skoðun sjáist að gatið sé gróið, en ummerki þess séu greinileg, hljóðhimna sé þunn og viðkvæm.  Heyrn hafi verið mæld og sýndi mælingin skerta heyrn á báðum eyrum.  Sé um að ræða nokkra heyrnaskerðingu sem geti hamlað fólki í daglegum tjáskiptum, það fari þó eftir umhverfi, en fólk viti af svona heyrnatapi.  Sé fólk á hávaðasömum stöðum eða vinnustað þar sem ys og þys eða kliður er, eða utanað komandi hávaði hvort sem það er á vinnustað eða heimili eða skemmtistöðum, þá hamli þetta.  Viðkomandi heyri ágætlega þegar talað er við einn mann. 

          Læknirinn sagði að áverkinn hefði litið út fyrir að vera tiltölulega ferskur er hann sá Stellu fyrst 8. mars 2000.  Sagði hann að deildarlæknar hefðu verið sammála honum í því mati.  Hann sagði að slíkt gat geti komið við högg, við náttúrulega hljóðbylgju eða sprengingu.  Þá geti slíkt gat myndast við að nál eða prjóni sé stungið í eyrað og rekist á hljóðhimnuna. 

          Verður nú gerð grein fyrir skýrslum annarra vitna og ákærða við aðalmeðferð málsins. 

          Ákærði neitar sök.  Hann segist hafa komið á veitingastaðinn upp úr miðnætti og um klukkustund síðar hafi hann boðið konu upp í dans.  Höfðu þau dansað nokkra dansa þegar Stella Björgvinsdóttir kom og fór að spjalla við konuna sem hann var að dansa við.  Virtist ákærða eins og hún vildi fá hana á brott með sér.  Ákærði segist hafa spurt hana hvort hún væri lesbía.  Konan hafi þá reiðst og klórað hann.  Kveðst hann hafa borið fyrir sig hendurnar og úr því orðið smá ryskingar.  Neitar ákærði því að hafa slegið til Stellu.  Hann kveðst ekki minnast þess að hafa viðurkennt fyrir lögreglumönnunum sem komu á vettvang að hann hefði slegið konuna.  Hann segist ekki hafa séð neina áverka á Stellu.  Ákærði segist hafa verið búinn að drekka um fjóra bjóra þegar þetta gerðist.  Hann neitar því að hann hafi verið ofurölvi.  Hann kvaðst vera um 183 cm á hæð, 88 kg að þyngd og rétthentur.

          Fram kemur í fyrri skýrslum að ákærði er fráskilinn, lærður húsasmiður og starfar við iðn sína. 

          Stella Björgvinsdóttir skýrði svo frá að hún og María Lovísa Sigurðardóttir hafi farið saman á umræddan veitingastað.  Þær hafi sest einar við sex manna borð nálægt dansgólfinu og farið að tala saman.  Segist hún aðeins hafa drukkið einn bjór í þetta sinn.  Ákærði hafi komið þarna að og spurt hvort hann mætti setjast við borðið og þær samþykkt það, enda væri þetta sex manna borð.  Maðurinn hafi komið eðlilega og þægilega fyrir og spjallað við þær smástund.  Hann hafi boðið þeim í glas en þær ekki þegið.  Hann hafi boðið Maríu Lovísu upp og dansað við hana tvo eða þrjá dansa.  Hann hafi svo farið að vera ágengur við hana en María Lovísa gert honum ljóst að hún kærði sig ekki um það.  Hann hafi sífellt gerst ágengari við þær og ekki sinnt því þótt þær bæðu hann að láta þær í friði.  Þær tvær hafi farið út á gólf að dansa og hafi hann komið þangað og áreitt þær þar og gengið á milli þeirra.  Hann hafi sest hjá þeim aftur, svo staðið upp en komið aftur.  Loks hafi þær ákveðið að fara.  María Lovísa hafi farið að fatahengi til að ná í jakka þeirra.  Er hún sjálf hafi staðið upp hafi ákærði þrifið í hana og spurt hana hvert hún ætlaði og hún þá svarað að hún væri á förum. Hafi hann þá sagt að hún væri ekki að fara neitt, hafi tekið í ólina á tösku hennar og haldið henni.  Hún hafi marg oft beðið hann að sleppa sér hann ekki sinnt því.  Hún hafi þá reynt að rífa sig lausa en þá hafi hann brugðist illa við og þrýst henni upp að vegg, tekið með annarri hendi fyrir aftan hnakka hennar og kýlt hana með krepptum hnefa á vinstra eyra.  Hún bar að Egill Hilmar Jónasson hefði verið nærstaddur og hefði hann gengið á milli þeirra. 

          Stella neitaði því að hún hefði klórað ákærða í andlitið.  Hún sagði að á þessum tíma hefði hún ekki getað haft langar neglur vegna vinnu sinnar.  Eftir höggið kvaðst hún hafa kallað á dyraverði en síðan reynt að koma sér í burtu.  Hún hafi fundið fyrir miklum sársauka og síðan dofa í eyranu.  Hún hafi beðið eftir lögreglu og lögreglumennirnir hafi sagt henni að fara sjálfri upp á Slysadeild, sem hún hafi gert. 

          Stella kvaðst hafa haft miklar höfuðkvalir og verki í eyranu.  Verst hafi verið öryggisleysi sem hún hafi fundið fyrir er hún fór út.  Jafnvægisskynið hafi raskast.  Hún kvaðst enn eiga í vandræðum með að fylgjast með samræðum þegar fleiri en fjórir tali í einu.  Þá greini hún bara gauragang.  Hún kvaðst hafa verið með skerta heyrn á hægra eyra frá því hún var ungabarn.

          María Lovísa Sigvaldadóttir gaf skýrslu fyrir dómi.  Fram kom í máli hennar sem var staðfest með læknisvottorði að hún hafi einkenni um talsverðar minnistruflanir. 

          Hún kannaðist við að hafa farið með Stellu Björgvinsdóttur á þennan stað umrætt kvöld, að þær hefðu sest við borð og hún hefði sjálf dansað við einhvern mann.  Síðan hafi hún beðið Stellu að koma með sér, hún hafi ætlað að forða sér út því þessi maður hafi verið orðinn uppáþrengjandi og leiðinlegur.  Þá kvaðst hún muna eftir því að hafa verið komin fram og verið farin að bíða eftir Stellu, en þá hafi hún séð að maðurinn hélt í tösku hennar eða handlegg. 

          María kvaðst hafa farið með Stellu á Slysadeild.  Hún hafi ekki séð neitt á henni.  Tók hún hins vegar fram að hún sæi frekar illa. 

          Karl Eyjólfur Karlsson lögreglumaður, ritaði frumskýrslu lögreglu og staðfesti hann hana.  Fullyrti hann að þar kæmi ekkert fram sem honum hefði ekki verið sagt á staðnum.  Kvaðst hann hins vegar ekki muna eftir atvikinu nema eftir upprifjun með lestri skýrslunnar.  Er því ekki ástæða til að tíunda framburð hans fyrir dómi frekar. 

          Þórður Þórðarson, lögreglumaður, var annar þeirra lögreglumanna sem fóru á vettvang.  Hann mundi lítið eftir atvikinu, en benti á að félagi hans hefði skrifað skýrsluna og því rætt við aðila á vettvangi.  Við fyrri meðferð málsins fyrir dómi kom fram hjá þessu vitni að hann hefði á vettvangi haft afskipti af talsvert ölvuðum, en rólegum manni. 

          Egill Hilmar Jónsson, sem áður er getið, mætti til skýrslutöku á lögreglustöðinni í Grundarfirði og var skýrslan tekin af honum í gegnum síma.  Hann mundi eftir að hafa verið á LA-café umrætt kvöld og að hafa hitt þar Stellu Björgvinsdóttur og einhvern mann sem hann ekki þekkti.  Þau hafi farið inn á dansgólfið.  Seinna hafi hann séð hana frammi í anddyri og þá hafi hún verið eitthvað rauð á vinstri vanga.  Þá hafi hann ekki séð manninn.  Hún hafi þá sagt að hann hefði slegið hana.  Hann kannaðist ekki við að hafa gengið á milli Stellu og einhvers manns.  Hann kvaðst ekki treysta sér til að þekkja aftur þann mann sem hann sá með Stellu.  Minnti að hann hefði verið meðalmaður á hæð, ljóshærður.  Sjálfur kvaðst Egill hafa verið nokkuð ölvaður umrætt sinn.

          Eftir að fyrri héraðsdómur um sakarefni þetta hafði verið ómerktur í Hæstarétti kannaði lögreglan í Reykjavík hverjir hefðu verið dyraverðir á LA-café umrætt kvöld.  Sú eftirgrennslan bar ekki árangur. 

          Niðurstaða.

          Ákærði hefur neitað að hafa slegið Stellu Björgvinsdóttur á eyrað og þannig valdið henni þeim áverka sem greinir í ákæru.  Hann segir að Stella hafi ráðist á sig og klórað og hafi hann borið fyrir sig hendurnar, en hann hafi ekki slegið til hennar, hvorki með flötum lófa né krepptum hnefa.  Er framburður ákærða staðfastur um þessi atriði í skýrslugjöf hjá lögreglu 27. nóvember 2000 og fyrir dómi við aðalmeðferð 26. febrúar og 7. nóvember 2001.

          Stella Björgvinsdóttir hefur einnig verið staðföst í þeim framburði sínum að ákærði hafi haldið henni með því að halda í tösku sem hún hafði yfir axlirnar og síðan kýlt hana með hægri hendi á vinstra eyra.  Hafi hún og vinkona hennar, María Lovísa Sigvaldadóttir verið orðnar uppgefnar á ákærða og ætlað sér að fara af staðnum. 

          Stella Björgvinsdóttir leitaði á Slysadeild þá um nóttina og er með vottorði slysadeildar og framburði Friðriks Kristjáns Guðbrandssonar fyrir dómi sannað að hún hefur hlotið áverka á hljóðhimnu og er langlíklegast að hún hafi hlotið þá þetta kvöld. 

          Framburður Stellu er studdur af þeim framburði Maríu Lovísu Sigvaldadóttur að ákærði hafi verið að angra þær og að hún hafi séð þar sem ákærði hélt í tösku Stellu.  Þá kemur fram í frumskýrslu lögreglu að roði hafi sést á kinn Stellu á vettvangi, en það er einnig staðfest af vitninu Agli Hilmari Jónssyni.  Er þar fram komin næg vísbending til stuðnings því að Stella hafi hlotið áverka þarna á skemmtistaðnum.  Verður ekki lagt upp úr því litla misræmi sem fram kemur í því að Stella segir eyrað hafa verið eldrautt, sem ekki fær að öllu leyti stuðning.  Þá fær frásögn hennar um að Egill Hilmar Jónsson hafi gengið á milli ekki stuðning í framburði Egils Hilmars. 

          Þegar sönnunarfærslan er virt verður komist að þeirri niðurstöðu að með framburði Stellu Björgvinsdóttur, studdum af þeim atriðum sem að framan eru rakin, sé fram komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi framið það brot sem lýst er í ákæru.  Árás ákærða hefur leitt til umtalsverðrar skerðingar á heyrn á vinstra eyra sem telja verður stórfellt heilsutjón í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Brot ákærða er því réttilega heimfært til þess ákvæðis í ákæru.

          Við ákvörðun refsingar er ekki unnt að meta til refsimildunar þá fullyrðingu ákærða að Stella hafi klórað hann í andliti.  Sú fullyrðing hans er ósönnuð.

          Ákærði var dæmdur í 3ja mánaða skilorðsbundið fangelsi 11. júní 1999 fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Í þeim dómi var árás ákærða lýst sem ofsafenginni og sagt að afleiðingar hennar hefðu verið alvarlegar fyrir brotaþola.  Árás hans nú hefur einnig haft alvarlegar afleiðingar, þó ekki verði hún sögð ofsafengin. 

          Ákærði hefur rofið skilorð áðurgreinds dóms og ber að taka dóminn upp og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.

          Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, 90.000 krónur. 

          Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson, Auður Þorbergsdóttir og Eggert Óskarsson.

D ó m s o r ð

          Ákærði, Björn Stefánsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

          Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.