Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-229
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Refsilögsaga
- Sönnunarmat
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 5. júlí 2019 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. júní sama ár í málinu nr. 534/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við brotaþola sem hafi ekki getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola skaðabætur. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Byggir hann á því að meðferð málsins hafi verið stórlega ábótavant og vísar í þeim efnum til þess að héraðsdómari hafi fyrst aflað upplýsinga um austurríska löggjöf eftir dómtöku málsins í þeim tilgangi að staðreyna hvort skilyrði 5. gr. almennra hegningarlaga hafi verið uppfyllt en atvik málsins hafi gerst í Austurríki. Það hafi með réttu verið hlutverk ákæruvaldsins og hafi leyfisbeiðandi því ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir héraðsdómi. Að þessu leyti telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en í því reyni einnig á inntak réttar sakbornings til að fella ekki á sig sök samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að ekki hafi verið tekin afstaða til allra varna hans í dómi Landsréttar sem þannig sé bersýnilega rangur að efni til.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og nafngreindra vitna, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.