Hæstiréttur íslands
Mál nr. 292/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Þriðjudaginn 6. júní 2006. |
|
Nr. 292/2006. |
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði(enginn) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X sætti nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. maí 2006, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann „málsvarnarlauna“.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða allan kostnað af kærumáli þessu eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Varnaraðili, X, greiði allan kostnað af kærumáli þessu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. maí 2006.
I.
Sóknaraðili, Lögreglustjórinn í Hafnarfirði, lagði fram á dómþingi kröfu um að varnaraðila, X, [kt. og heimilisfang] verði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í þrjá mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [kt.], [að B], nánar tiltekið að varnaraðila sé óheimilt að vera staddur innan svæðis sem afmarkast við lóðarmörk og bifreiðastæði hússins. Jafnframt að lagt verði bann við því að varnaraðili veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma hans eða setji sig á annan hátt beint í samband við hann.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að synjað verði um framgang kröfunnar. Varnaraðili kveðst hvortki hafa hitt A né talað við hann í síma á þessu ári.
Skipaður verjandi krefst málsvarnalauna úr hendi ríkissjóðs.
II.
Af hálfu sækjanda er því lýst að upphaf máls þessa megi rekja til þess að varnaraðili ætlaði A að taka á sig sök vegna ölvunaraksturs þann 28. janúar 2005. Við rannsókn málsins hjá lögreglu upplýstist að varnaraðili sjálfur hafi ekið bifreið sinni og verið ölvaður er hann lenti í óhappi og bifreið hans auk annarra skemmdust mikið. Skömmu fyrir áramót 2005-2006 hafi þrír félagar varnaraðila, þar á meðal C, [kt.], komið að vinnustað A og haft í frammi hótanir við hann, sparkað í hann og lamið, bæði í andlit og líkama. Eftir áramót hafi varnaraðili og C farið að hringja í A með hótunum og sagt honum að greiða tvær milljónir vegna tjóns þess er varnaraðili olli við áðurnefnt umferðaróhapp og hann hafði ætlað A að taka á sig. Hefði A neitað því og varnaraðili og C haldið áfram að hringja margsinnis í hann með hótunum og fylgst með heimili hans í því skyni að hafa upp á honum. Hefði síðasta leit þeirra varnaraðila og C að A verið þann 13. maí sl. er móðir A hafði samband við lögreglu og óskaði eftir aðstoð hennar að B, því þangað væri varnaraðili kominn í því skyni að ganga í skrokk á A sem þá var í felum og þorði ekki heim til sín. Þá bar hún jafnframt hjá lögreglu að varnaraðili og C væru að hóta A líkamsmeiðingum. Hefðu þeir, varnaraðili, C og annar félagi í framhaldi náð símasambandi við A í gegnum sameiginlegan kunningja þeirra en hann ekki sagt þeim hvar hann væri. Þeir hafi svo komið að heimili vinar hans, D, þar sem hann var þá staddur, fengið hann út í bifreið sem þeir komu á ásamt þriðja félaga sínum í því skyni að fá upplýsingar um hvar A væri að finna en er hann vildi ekki veita þeim þær upplýsingar hefðu þeir numið hann á brott og gengið í skrokk á honum með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega áverka, en að því búnu skilið hann eftir við Guðmundarlund, Kópavogi. Eftir þá árás var varnaraðila og C gert að sæta gæsluvarðhaldi eða frá 16. maí til 23. maí er þeir voru látnir lausir.
Eftirgreind tilvik hafa sætt lögreglurannsókn:
1. Mál nr. 036-2005-[...]
Laust fyrir miðnætti þann 28. janúar 2005 ók varnaraðili bifreið sinni frá E, með þeim afleiðingum að hún hafnaði á bjargi framan við E og bjargið auk braks úr bifreið varnaraðila kastaðist á tvær kyrrstæðar bifreiðar framan við húsið sem skemmdust mikið. Hljóp varnaraðili strax á brott en mun hafa hringt í A og boðið honum greiðslu fyrir að segja lögreglunni að hann hefði ekið bifreiðinni. Kom A á vettvang og kvaðst hafa verið ökumaður umrætt sinn og var í kjölfar þess handtekinn ásamt varnaraðila sem vitni bentu á að hefði verið ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn. Morguninn eftir voru teknar framburðarskýrslur af hinum handteknu eftir vistun í fangageymslum. Kvaðst A þá ekki hafa verið ökumaður umrætt sinn heldur hafi varnaraðili hringt í hann og sagt honum að taka sökina á sig. Hefði varnaraðili haft í frammi hótanir við hann, hann hafi því óttast um líf sitt og því samþykkt að taka sökina á sig.
Í skýrslutöku vegna málsins játaði varnaraðili að hafa ætlað A að taka á sig akstur bifreiðarinnar umrætt sinn en neitaði því að hafa hótað honum.
2. Mál nr. 36-2006-[...].
Þann 13. maí sl., um kl. 20:21, óskaði móðir A eftir aðstoð lögreglu að B, því þangað væri varnaraðili kominn í því skyni að ganga í skrokk á A sem þá var í felum og þorði ekki heim til sín. Hefðu lögreglumenn á leið að B mætt svartri bifreið sem ekið var vestur [...] þvert á [...]. Hefði móðir hans sagt að varnaraðili og C væru að hóta syni hennar líkamsmeiðingum vegna máls þar sem sonur hennar hafi ekki náð að segja lögreglu ósatt um hver hafi verið ökumaður bifreiðar varnaraðila, sbr. mál nr. 36-2005-[...].
3. Mál nr. 37-2006-[...].
Þann 13. maí sl., um kl. 20:30, eða fljótlega eftir umbeðna aðstoð sbr. mál nr. 36-2006-[...] komu varnaraðili, C auk þriðja manns, F, að heimili vinar A, D, þar sem A var þá staddur, og báðu varnaraðili og C D um að fylgja sér út í bifreið er þeir komu á. Gerði hann svo en er þangað kom fór varnaraðili að spyrja hann um hvar A væri að finna og biðja hann um að hafa samband við hann. Er hann vildi ekki veita þeim þær upplýsingar hefðu þeir numið D á brott, sett hann í farangursgeymslu bifreiðarinnar og gengið í skrokk á honum með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega áverka, en að því búnu skilið hann eftir við Guðmundarlund, Kópavogi.
Við skýrslutökur í málinu hefur varnaraðili játað að hafa ráðist að D ásamt C og sett hann í farangursgeymslu bifreiðarinnar umrætt sinn en vildi ekki tjá sig um ástæðu þess að hann hafði samband við D greint sinn. Þá hefur F játað í skýrslutökum hjá lögreglu að atburðarásin hafi verið með þeim hætti sem að framan er lýst en hann hafi ekki haft vitneskju um nákvæm atvik er ráðist var að D. C hefur játað að hafa komið að heimili D og hann hafi haldið á brott með þeim í bifreið en hefur neitað að hafa átt þátt í átökum eða valdið D þeim áverkum er hann hlaut, varnaraðili hafi aðeins greitt honum eitt högg og hefði það verið í kviðinn.
Lögregla telur að rannsóknargögn framangreindra mála beri með sér að varnaraðili hafi með háttsemi sinni raskað mjög friði og daglegu lífi A og valdið honum miklum ótta og ónæði. Líklegt má telja að ónæðistilvikin séu mun fleiri en að framan greinir, ekki sé allt komið fram í þeim efnum og að mati lögreglu verður að leggja heildstætt mat á framangreinda atburði og virða þá í samhengi. Um er að ræða langvarandi og þrúgandi ástand og nokkuð sveiflukennt. Þá eru afskipti varnaraðila af A algerlega að tilefnislausu og án samþykkis hans.
III.
Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að vitni staðhæfa að varnaraðili hafi á undanförnum mánuðum leitað A og hafi haft í hótunum við hann símleiðis. Eins og áður er rakið átti varnaraðili þátt í því ásamt öðrum að ráðast á mann sem hefur staðhæft að varnaraðili hafi leitað A og hótað honum. Afleiðingar árásarinnar voru lífshættulegar. Þá er komið fram að A hefur reynt að fela sig fyrir varnaraðila og félögum hans af ótta við þá.
Dómari telur að rökstudd ástæða sé til þess að ætla að varnaraðili muni halda leit sinni að A áfram sem og símtölum og hótunum og þannig raska friði hans og jafnvel brjóta gegn honum verði ekkert að gert. Ber með heimild í 110. gr a. laga nr 19/1991 að fallast á kröfu Lögreglustjórans í Hafnarfirði eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorðum Samkvæmt greindum málsúrslitum ber varnaraðila og að greiða allan sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur, að viðbættum virðisaukaskatti.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í þrjá mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa. Er honum óheimilt að koma á eða í námunda við heimili A, [kt.], [að B], þannig að varnaraðila er óheimilt að vera staddur innan svæðis sem afmarkast við lóðarmörk og bifreiðastæði hússins. Jafnframt er honum óheimilt að veita A eftirför, nálgast hann á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- og farsíma hans eða setja sig á annan hátt beint í samband við hann.
Varnaraðili greiði allan sakarkostnað, þar með talda 50.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.