Hæstiréttur íslands

Mál nr. 300/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 3

 

Þriðjudaginn 3. júní 2008.

Nr. 300/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júní 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                            

                                        Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júní næstkomandi, kl. 16. 

Kærði mótmælir kröfu lögreglu. 

Lögreglan hefur rannsakað ætluð fíkniefnabrot kærða um skeið. Sími hans hefur verið hleraður frá 16. apríl.  Fram hafi komið vísbendingar um að kærði tengist innflutningi fíkniefna, en rannsókn sé skammt á veg komin.  Kærði var handtekinn í gærkvöldi og segir lögregla að hjá honum hafi fundist 110 g af kókaíni, en kærði kveðst hafa verið með um 90 g. 

Lögregla segir í greinargerð sinni frá fjórum tilvikum undanfarnar vikur er kærði hefur verið handtekinn með fíkniefni og segir lögregla atvik benda til að hann hafi selt aðilum efni. 

X hafi neitað því hjá lögreglu að hafa selt fíkniefni og hafi sagt grun lögreglu rangan.

Kærði hefur verið staðinn að vörslum nokkurs magns af kókaíni og atvik sem lýst er í greinargerð lögreglu benda til að hann hafi um skeið stundað sölu efna.  Þrátt fyrir neitun kærða er grunur lögreglu rökstuddur.  Beinist hann að broti gegn lögum nr. 65/1974, sem kann að varða fangelsisrefsingu ef sannast.  Fallast ber á að nauðsynlegt sé að hindra að kærði geti spillt rannsókn málsins með því að hafa samband við aðra aðila er því kunna að tengjast.  Standa því ríkir rannsóknarhagsmunir til þess að honum verði nú gert að sæta varðhaldi.  Verður fallist á kröfu lögreglu samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.  Er varðhaldinu markaður hæfilegur tími í kröfu lögreglu. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                                Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júní næstkomandi, kl. 16.