Hæstiréttur íslands

Mál nr. 348/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi


Föstudaginn 3. júní 2011.

Nr. 348/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. c. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti í máli ákæruvaldsins á hendur honum stendur, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 29. júní 2011, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi frá 4. febrúar 2011, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóma Hæstaréttar 8. febrúar 2011 í máli nr. 80/2011 og 15. febrúar 2011 í máli nr. 94/2011, en síðan vegna þess að ætla hafi mátt að hann héldi áfram brotum meðan máli hans væri ólokið sbr. c. lið 1. mgr. 95. gr. laganna. Gengu dómar um þetta í Hæstarétti 28. febrúar 2011 í máli nr. 113/2011 og 21. mars 2011 í máli nr. 164/2011 og síðan í Héraðsdómi Reykjaness 14. apríl og 12. og 27. maí 2011.

Með dómi, sem upp var kveðinn í Héraðsdómi Reykjaness 1. júní 2011, var varnaraðili dæmdur í 15 mánaða fangelsi vegna fjölmargra brota sem meðal annars urðu tilefni til gæsluvarðhalds hans samkvæmt því sem að framan er rakið. Svo sem fram kemur í dóminum hefur varnaraðili ekki áður sætt refsingu. Í hinum kærða úrskurði er vísað til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, þar sem segir meðal annars að dómari geti eftir kröfu ákæranda úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti stendur svo og meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Liggur ekki fyrir hvort varnaraðili áfrýi dóminum 1. júní 2011.

Samkvæmt framanrituðu hefur varnaraðili nú þegar sætt gæsluvarðhaldi í um fjóra mánuði og verða þeir nær fimm verði hinn kærði úrskurður staðfestur. Kjósi varnaraðili að nýta rétt sinn til áfrýjunar er ennfremur ljóst að dómur í máli hans mun ekki ganga í Hæstarétti fyrr en í fyrsta lagi í september 2011.

Þegar litið er til þess langa tíma sem liðinn er frá því varnaraðili var sviptur frelsi sínu, og með hliðsjón af framangreindum atvikum, verður ekki fullyrt á sama hátt og áður að ætla megi að hann muni halda áfram brotum, meðan máli hans er ekki lokið, þannig að nauðsyn sé á að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi, sbr. c. lið 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

 Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að dómfellda X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, á meðan áfrýjunarfrestur varir, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 29. júní 2011 kl. 16.00.

Dómfelldi krefst þess að kröfunni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafa er gerð um.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum í dag í máli nr. S-432/2011, hafi dómfelldi verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir stórfellt hylmingarbrot, þannig að varði við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn ákvæðinu varði fangelsi allt að fjórum árum. Frá refsingunni dragist óslitið gæsluvarðhald frá 4. febrúar 2011, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna og síðan á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í greinargerðinni segir að dómurinn sé ekki fullnustuhæfur þar sem dómfelldi hafi tekið sér frest til ákvörðunar um áfrýjun til Hæstaréttar Íslands.

Dómfelldi hafi nú hlotið dóm fyrir stórfellt brot gegn 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ítrekað tekið við þýfi af innbrotsþjófum, haft það í vörslum sínum og selt áfram og þannig tekið þátt í ávinningnum af fjölda innbrota. Að mati lögreglu séu yfirgnæfandi líkur fyrir því að hann muni halda áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna og því sé nauðsynlegt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.

Fyrir liggi fjölmargir dómar Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum um síbrotagæslu sé fullnægt í máli þessu.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafa þessi nái fram að ganga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á kröfu lögreglustjóra um að gæsluvarðhald dómfellda skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti í máli hans stendur, sbr. c-lið 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, allt eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðinn kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Dómfelldi, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti í máli hans nr. S-432/2011 stendur, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 29. júní nk. kl. 16.00.