Hæstiréttur íslands

Mál nr. 324/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Eignarnám
  • Stjórnvaldsákvörðun


Föstudaginn 22

 

Fimmtudaginn 21. september 2000.

Nr. 324/2000.

Sveitarfélagið Hornafjörður

(Sveinn Sveinsson hrl.)

gegn

Ómari Antonssyni og

Rein sf.

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

                                              

Kærumál. Innsetningargerð. Eignarnám. Stjórnvaldsákvörðun.

Sveitarfélagið H krafðist þess að fá með aðför umráð yfir 30.000 m³ af grjóti úr námu Ó. Byggðst krafan á að matsnefnd eignarnámsbóta hefði heimilað umráðin í maí 2000, þrátt fyrir að kröfu H um eignarnám á grjótinu væri ekki lokið. Ó og R, sem hafði fengið leigðan af Ó allan rétt til töku grjóts úr umræddri námu, höfnuðu að hlíta úrskurði nefndarinnar nema að undangenginni aðför. Talið var að ákvörðun um eignarnám væri stjórnvaldsákvörðun, sem sveitarstjórn færi með vald til að taka og bæri ábyrgð á. Í málinu lá fyrir að Siglingastofnun Íslands hafði frumkvæði að því að gera Ó og R tilboð í jarðefni og átti önnur samskipti við þá vegna málsins. Þá tók stofnunin ákvörðun um eignarnámið og sendi beiðni til matsnefndar eignarnámsbóta í umboði hafnarsjóðs H í júní 1999. Eftir það fjallaði hafnarstjórn H um málið og tók ákvörðun um eignarnámið og staðfesti bæjarstjórn H þá ákvörðun í september 1999. Var því talið að í málinu hefði ekki verið gætt fyrir réttu stjórnvaldi þeirra reglna, sem fylgja bæri við töku slíkrar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar og hefði ekki verið unnt að framselja vald H í þessum efnum. Var krafa H um umráð jarðefna í námu Ó ekki talin styðjast við gilda ákvörðun um eignarnám og staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu hans um að fá umráðin með aðför.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 11. ágúst 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá með innsetningargerð umráð yfir grjótnámu varnaraðila í landi Horns til að taka þar 30.000 m3 af grjóti. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess sér verði heimiluð innsetningargerðin, svo og að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði leitar sóknaraðili eftir því að fá með aðför umráð yfir 30.000 m3 af grjóti úr námu varnaraðilans Ómars Antonssonar í svokölluðu Litla Horni í landi jarðarinnar Horns. Grjótið hyggst hann nýta til að gera grjótvarnargarð á Austurfjörutanga við Hornafjarðarós. Er krafan reist á því að matsnefnd eignarnámsbóta hafi 15. maí 2000 heimilað honum umráðin þrátt fyrir að ekki sé lokið meðferð kröfu sóknaraðila um eignarnám á grjótinu. Með bréfi 16. sama mánaðar höfnuðu varnaraðilarnir að hlíta úrskurði nefndarinnar nema að undangengnum úrskurði um aðför. Í úrskurði héraðsdómara er gerð grein fyrir þeim málsástæðum, sem aðilarnir reisa kröfur sínar á.

II.

Meðal málsgagna er bréf Siglingastofnunar Íslands til varnaraðilans Ómars 8. febrúar 1999. Er þar leitað eftir kaupum á 25.000 m3 af grjóti úr áðurnefndri námu varnaraðilans gegn ákveðnu verði. Var tekið fram í niðurlagi bréfsins að tilboðið gilti til 1. mars sama árs. Tilboðinu var ekki svarað.

Lögmaður sóknaraðila sendi þessum varnaraðila bréf 19. apríl 1999. Segir þar  meðal annars að þar eð varnaraðilinn hafi ekki svarað áðurnefndu bréfi frá 8. febrúar sama árs hafi Siglingastofnun Íslands falið lögmanninum að gera nýtt tilboð í umrætt grjót. Það tilboð, sem síðan var gert í bréfinu, var að mestu leyti samhljóða fyrra tilboði Siglingastofnunar Íslands. Þá segir í bréfinu að umbjóðandi lögmannsins hafi fulla heimild til að taka grjót úr námunni gegn gjaldi til að reisa fyrirhugaðan varnargarð. Gangi varnaraðilinn ekki að tilboðinu eða geri gagntilboð fyrir 1. maí sama árs eigi umbjóðandi lögmannsins ekki annan kost en að leita eftir úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta um verðmat vegna eignarnáms á grjótinu. Sóknaraðila er að engu getið í bréfinu eða að hann eigi hlut að máli við tilboðsgerðina. Í svari varnaraðilans 29. apríl 1999 segir að hann hafi leigt varnaraðilanum Rein sf. allan rétt til töku grjóts úr umræddri námu og víðar í landi jarðarinnar Horns. Samningur sá, sem þar er vísað til, er dagsettur sama dag og bréf varnaraðilans. Í málinu hefur hann lagt áherslu á að bergið í umræddri námu sé gabbró, sem nýta megi með mun arðvænlegri hætti en þeim, sem sóknaraðili hyggst gera. Það sjáist skýrt af því gjaldi, sem Rein sf. hafi skuldbundið sig með samningnum til að greiða fyrir hvern rúmmetra af efninu og sé verulega hærra en tilboð Siglingastofnunar Íslands.

Af þessu tilefni beindi lögmaðurinn fyrir hönd Siglingastofnunar Íslands sama tilboði að varnaraðilanum Rein sf. með bréfi 7. maí 1999. Eftir að varnaraðilinn hafði svarað bréfinu var haldinn fundur forráðamanna hans og fulltrúa Siglingastofnunar Íslands 15. júní 1999. Í minnispunktum um fundinn segir meðal annars að fundarmenn hafi lýst sjónarmiðum sínum og áformum vegna efnistöku í Litla Horni. Þar segir einnig að niðurstaða fundarmanna hafi verið sú að efnistaka og sprengingar Siglingastofnunar Íslands í námunni geti ekki farið fram meðan Rein sf. vinni efni þar.

Lögmaðurinn ritaði Rein sf. bréf degi síðar þar sem vísað var til þess, sem fram hafi komið á fundinum. Segir síðan í bréfinu: „Siglingastofnun er ekki reiðubúin til að greiða kr. 200 fyrir hvern rúmmetra af föstu grjóti úr námunni og hefur því sú ákvörðun verið tekin að fá Matsnefnd eignarnámsbóta til að ákvarða um verðmæti grjótsins. Verður málinu beint að leigusalanum og eiganda jarðarinnar, Ómari Antonssyni.“

Hinn 18. júní 1999 skrifaði lögmaðurinn varnaraðilanum Ómari bréf, þar sem greint var frá samskiptum Siglingastofnunar Íslands og Reinar sf. Þess er getið í upphafi bréfsins að Hornafjarðarbær ætli fljótlega að reisa grjótgarð frá Austurfjörutanga. Ítrekaði lögmaðurinn fyrra boð um gjald fyrir grjót úr námunni. Síðan segir: „Umbjóðendur mínir hafa ekki svigrúm til að bjóða hærri fjárhæðir ... Takir þú ekki tilboði þessu mun verða leitað til Matsnefndar eignarnámsbóta um verðlagningu grjótsins.“

Í bréfi lögmannsins 28. júní 1999 til matsnefndar eignarnámsbóta segir að fyrir hönd umbjóðanda síns, Hafnarsjóðs Hornafjarðar, óski hann eftir að verðmat fari fram vegna eignarnáms á 30.000 m3 grjóts í Litla Horni. Þar segir einnig: „Í þeim samningaviðræðum sem í gangi hafa verið um verðlagningu grjótsins hefur Siglingastofnun komið fram fyrir hönd Hafnarsjóðs Hornafjarðar sem kosta mun að hluta til það verk sem fyrirhugað er að nota grjótið í, í samræmi við gildandi lög.“

Við meðferð málsins fyrir matsnefndinni 23. júlí 1999 krafðist varnaraðilinn Ómar þess að nefndin vísaði því frá sér, þar sem ekki hafi verið tekin lögmæt ákörðun um eignarnám. Málinu var þá frestað til 9. ágúst sama árs. Áður en sá fundur var haldinn var boðað til fundar í hafnarstjórn Hornafjarðar 26. júlí 1999, þar sem samþykkt var að „taka grjót úr fyrrgreindri námu eignarnámi gegn bótum að mati matsnefndar eignarnámsbóta.“ Á fundi matsnefndarinnar 9. ágúst sama árs var lögmæti ákvörðunarinnar enn mótmælt af varnaraðilanum Ómari og borið við að með réttu hljóti að eiga undir sveitarstjórn að taka ákvörðun um eignarnám samkvæmt 16. gr. hafnalaga nr. 23/1994. Var í kjölfarið haldinn fundur í sveitarstjórn sóknaraðila 2. september 1999, þar sem áðurnefnd bókun hafnarstjórnar um eignarnám var borin upp og samþykkt. Vegna stjórnsýslukæru varnaraðilans Ómars til samgönguráðherra 3. september 1999 frestaði matsnefnd eignarnámsbóta meðferð málsins þar til niðurstaða ráðherra lá fyrir 24. mars 2000, en þar var hafnað sjónarmiðum varnaraðilans um að annmarkar væru á meðferð málsins. Tók nefndin í kjölfarið málið á ný til meðferðar og kvað þá meðal annars upp þann úrskurð 15. maí sl., sem áður er getið og er tilefni máls þessa.

III.

Varnaraðilar reisa kröfu sína meðal annars á því að lögmæt ákvörðun um að taka eignarnámi grjót úr námu varnaraðilans Ómars hafi ekki verið tekin. Hafnarstjórn sóknaraðila hafi tekið slíka ákvörðun 26. júlí 1999, en til þess hafi hún ekki verið bær. Sveitarstjórnin hafi ekki tekið neina sjálfstæða ákvörðun, heldur einungis staðfest 2. september 1999 ákvörðun hafnarstjórnar. Þá halda varnaraðilar fram að réttur til andmæla hafi ekki verið virtur meðan Siglingastofnun Íslands leitaði eftir samningnum um kaupin og að þeim hafi ekki verið gert ljóst að þeir ættu rétt á að tjá sig um hvort skilyrði eignarnáms væru fyrir hendi. Í því sambandi halda þeir fram að mótmæli, sem höfð hafi verið uppi fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, hafi einungis lotið að þeirri málsmeðferð, sem hafi verið undanfari þess að ákvörðun var tekin um eignarnám, en ekki að því hvort skilyrði væru til að beita eignarnámi. Þá hafi rannsóknarskylda ekki verið virt áður en ákvörðun um eignarnám var tekin, en enga nauðsyn hafi borið til að taka eignarnámi hið verðmæta grjót í námunni á Litla Horni. Sjónarmið varnaraðila hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu hefðu þeir getað skýrt sína hlið málsins áður en ákvörðun var tekin. Þá hafi málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar verið brotnar á varnaraðilum í fleiri greinum.

IV.

Um heimild til eignarnáms vísar sóknaraðili til 16. gr. hafnalaga með áorðnum breytingum. Er ekki ágreiningur í málinu um að í þeirri lagagrein felist fullnægjandi heimild fyrir sóknaraðila til að taka jarðefni eignarnámi í þágu þeirra framkvæmda, sem hann hyggst ráðast í við Austurfjörutanga. Samkvæmt 3. gr. sömu laga eru sveitarfélög eigendur hafna og samkvæmt 4. gr. skal hafnarstjórn, sem kosin er af eigendum hafnar, hafa á hendi stjórn hennar og hafnarsjóðs. Þá er í 2. mgr. 13. gr. laganna ákvæði þess efnis að engin mannvirki megi gera á hafnarsvæðinu nema með samþykki viðkomandi hafnarstjórnar.

Hafnarframkvæmdir, er njóta ríkisstyrks, skulu samkvæmt 17. gr. hafnalaga unnar undir tæknilegu og fjárhagslegu eftirliti Siglingastofnunar Íslands, auk þess sem allar áætlanir og uppdrættir skulu sendar stofnuninni til samþykktar. Þá annast Siglingastofnun framkvæmd frumrannsókna í samráði við viðkomandi hafnarstjórn. Fari hafnarstjórn þess á leit annast Siglingastofnun auk frumrannsókna meðal annars framkvæmdir eftir því, sem við verður komið. Loks er í 21. gr. laganna fjallað um þátttöku ríkisins í greiðslu kostnaðar við hafnarframkvæmdir. Er hluti þess allt að 60% stofnkostnaðar við nánar tilteknar framkvæmdir, en allt að 90% stofnkostnaðar við aðrar framkvæmdir. Kostnað við frumrannsóknir greiðir ríkið allt að 100%.

V.

Samkvæmt áðurröktum ákvæðum í 3. gr., 4. gr. og 13. gr. hafnalaga er ljóst að hafnarstjórn eru ætlaðar rúmar heimildir til að stjórna málefnum hafnar. Í málatilbúnaði sóknaraðila er því þó ekki haldið fram að endanlegt ákvörðunarvald um að beita eignarnámi hafi verið í höndum hafnarstjórnar, enda var fjallað um málið í sveitarstjórn með þeim hætti, sem áður var lýst og sóknaraðili telur fela í sér fullnægjandi ákvörðun hennar um eignarnám. Er ljóst að vald til að taka ákvörðun af þeim toga, sem hér um ræðir, gat ekki verið í höndum annars en sveitarstjórnarinnar sjálfrar, sem fer með æðsta vald um fjárhagsleg málefni sveitarfélagsins, auk þess sem slík ákvörðun er einatt verulega íþyngjandi fyrir þann, sem hún beinist gegn. Við þá ákvörðun varð að gæta réttra reglna um málsmeðferð.

Í  II. kafla að framan er lýst aðdraganda þess að ákvörðun var tekin um eignarnám. Eins og þar er rakið gerði Siglingastofnun Íslands varnaraðilunum tilboð í jarðefni og átti önnur samskipti við þá af þessu tilefni frá 8. febrúar 1999 til 16. júní sama árs. Í bréfi stofnunarinnar þann dag til varnaraðilans Reinar sf. segir jafnframt að ákvörðun hafi verið tekin um að fela matsnefnd eignarnámsbóta að meta verðmæti grjótsins. Ekkert annað er fram komið en að Siglingastofnun Íslands hafi tekið þá ákvörðun um eignarnám, sem til er vísað. Aðildar sóknaraðila að málinu er fyrst getið í lokatilboði til varnaraðilans Ómars 18. júní 1999, en í niðurlagi þess bréfs segir að það sé ritað fyrir hönd Siglingastofnunar og Hornafjarðarbæjar. Í beiðni til matsnefndar eignarnámsbóta 28. sama mánaðar um að meta verðmæti hins eignarnumda grjóts segir að hún sé borin fram í umboði hafnarsjóðs Hornafjarðar.

Hafnarstjórn sóknaraðila fjallaði sem áður segir um málið 26. júlí 1999 og tók þá ákvörðun um eignarnám eftir að Siglingastofnun hafði þegar tekið sömu ákvörðun og vísað málinu til matsnefndar eignarnámsbóta. Bæjarstjórn staðfesti þá ákvörðun 2. september sama árs. Ekkert er fram komið um að hafnarstjórn eða bæjarstjórn hafi fjallað sjálfstætt um málið fyrr en þá. Ákvörðun um eignarnám eftir ákvæðum hafnalaga er stjórnvaldsákvörðun og fer sveitarstjórn með vald til að taka hana og ber ábyrgð á henni. Lögboðið hlutverk Siglingastofnunar við framkvæmdir samkvæmt 17. gr. hafnalaga felur ekki í sér heimild fyrir stofnunina til að fara með ákvörðunarvald um eignarnám. Hefur samkvæmt þessu í engu verið gætt í málinu fyrir réttu stjórnvaldi þeirra reglna, sem ber að fylgja við töku slíkrar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar. Vald sóknaraðila í þessum efnum varð ekki framselt neinum öðrum. Sú viðbára hans í greinargerð til Hæstaréttar að hafnarstjórn og bæjarstjórn hafi fylgst vel með samningatilraunum Siglingastofnunar getur ekki leyst hann undan þeirri skyldu að taka sjálfur ákvörðun um hvort og þá með hvaða hætti eignarnámi skyldi beitt og tryggja að réttum reglum yrði fylgt við meðferð málsins á öllum stigum.

Samkvæmt framanröktu styðst krafa sóknaraðila um að fá umráð jarðefna í námu varnaraðilans Ómars ekki við gilda ákvörðun um eignarnám. Verður kröfu hans því hafnað og úrskurður héraðsdómara staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili, Sveitarfélagið Hornafjörður, greiði hvorum varnaraðila, Ómari Antonssyni og Rein sf., samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 11. ágúst 2000.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. júlí sl., var þingfest 14. júní sl.

Sóknaraðili er Sveitarfélagið Hornafjörður, kt. 590169-4639, Hafnarbraut 27, Höfn.

Varnaraðilar eru Ómar Antonsson, kt. 150853-2739, Hlíðartúni 15, Höfn, og Rein sf., kt. 620374-0409, Esjuskála, Kjalarnesi.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að heimiluð verði með dómsúrskurði samkvæmt 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 innsetning sóknaraðila í grjótnámu varnaraðila í sunnanverðu Litla-Horni, í svokölluðum Hálsi eða Hálsenda í landi Horns, Austur Skaftafellssýslu, til töku á 30.000 rúmmetrum af grjóti til hleðslu grjótvarnargarðs á Austurfjörutanga.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins auk þess sem fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Dómkröfur varnaraðila eru þær aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og til vara að einungis verði heimiluð innsetning í 25.000 rúmmetra grjóts úr námunni.

Telji dómurinn efni standa til þess að taka kröfur sóknaraðila til greina að einhverju leyti er þess krafist af hálfu varnaraðila að úrskurðaður verði 14 daga aðfararfrestur og að kæra úrskurðarins fresti framkvæmdum á grundvelli hans.

Í öllum tilvikum er þess krafist að varnaraðilum verði úrskurðaður málskostnaður að skaðlausu úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts.

I.

Með aðfararbeiðni dagsettri 17. maí sl., sem barst dóminum 22. s.m., krafðist sóknaraðili dómsúrskurðar samkvæmt 78. gr. aðfararlaga eins og að framan greinir.  Í beiðninni sagði að með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta upp kveðnum 15. maí sl. hafi nefndin heimilað sóknaraðila umráð eignarnumins grjóts úr landi eignarnámsþola, enda þótt mati væri ekki lokið.  Hafi það skilyrði verið sett fyrir afhendingu grjótsins að sóknaraðili setti 5.000.000 króna tryggingu fyrir væntanlegum bótum og kostnaði vegna eignarnámsins.  Umráðaafhendingin hafi farið fram með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. 

Í aðfararbeiðninni voru nánari atvik sögð vera þau að þann 28. júní 1999 hafi sóknaraðili óskað eftir því við matsnefnd eignarnámsbóta að fram færi mat vegna eignarnáms á umræddu grjóti.  Varnaraðilar hafi mótmælt eignarnáminu og með stjórnsýslukæru hafi þeir skotið þeirri ákvörðun til samgönguráðuneytisins þar sem þeir hafi talið að ekki hefði verið staðið rétt að eignarnáminu.  Matsnefnd eignarnámsbóta hafi frestað störfum sínum meðan beðið var úrskurðar ráðuneytisins.  Þann 24. mars sl. hafi ráðuneytið kveðið upp úrskurð sinn þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að ákvörðun sóknaraðila um eignarnám stæðist.  Varnaraðilar hafi þingfest mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness til að hnekkja þeirri ákvörðun.

Eftir niðurstöðu samgönguráðuneytisins hafi sóknaraðili ítrekað við matsnefnd eignarnámsbóta að fá námuna afhenta til vinnslu þó svo að matið hefði ekki farið fram.  Hafi nefndin sem fyrr segir kveðið upp úrskurð sinn 15. maí sl.

Með bréfi dagsettu 16. maí sl. hafi lögmaður varnaraðila sent lögmanni sóknaraðila bréf það sem hann hafi lýst því yfir að varnaraðilar litu á úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta sem ógildan og myndu þeir ekki afhenda sóknaraðila umráð grjótsins án undangenginnar aðfarar.  Jafnframt hafi því verið lýst yfir að haldið yrði uppi vörnum ef slíkt mál yrði tekið fyrir.

II.

Í greinargerð sinni lýsir sóknaraðili málavöxtum nánar svo að á Hornafirði sé innsiglingunni inn til hafnarinnar þannig háttað að hún sé á milli tveggja sandtanga, Suðurfjörutanga og Austurfjörutanga.  Í miklu suð-vestan óveðri í ársbyrjun 1990 hafi rofnað stórt skarð í Suðurfjörutanga og hafi sandurinn borist inn í innsiglinguna með þeim afleiðingum að innsiglingin lokaðist með öllu.  Hafi  Hornafjörður orðið sambandslaus af sjó um nokkra vikna skeið eða þar til að dælt hafði verið upp úr innsiglingunni.

Fljótlega eftir hamfarirnar hafi verið tekin sú ákvörðun að styrkja þyrfti sandtangana til að tryggja að áfram yrði hægt að halda uppi atvinnu á Hornafirði og búseta væri þar bærileg.  Hafi fyrst verið hafist handa við að byggja upp Suðurfjörutanga með miklum grjótvarnargörðum og á sama tíma hafi hafist miklar tilraunir með líkönum hjá Siglingastofnun til þess að finna út hvernig varnargörðum yrði endanlega best fyrir komið.

Þegar kom að því að byggja Austurfjörutanga upp hafi verið ákveðið að óska eftir því að fá keypt grjót úr námum varnaraðilans Ómars við Horn, enda hafi það verið sá staður sem náttúruverndarmenn hefðu fyrst og fremst mælt með.  Enn fremur hafi gabbrógrjótið verið talið henta í varnargarða og fjarlægð þess frá hleðslustað væri hagkvæm.  Ekki hafi náðst samningar við Ómar og hafi málið farið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.  Áður en úrskurður var kveðinn upp um eignarnámsbæturnar hafi matsnefndin úrskurðað um afhendingu námunnar til eignarnema, en hafi síðar kveðið upp bótaúrskurð sinn 23. september 1994 og úrskurðað eignarnámsþola bætur, 27 krónur á rúmmetra í fastri klöpp með virðisaukaskatti.

Varnaraðilinn Ómar hafi ekki unað þeirri niðurstöðu, en skotið málinu til Héraðsdóms Austurlands jafnframt því að dómkveðja matsmenn til að meta verðmæti grjótsins. Dómkvaddir matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrir grjótið skyldi greiða 25 krónur á rúmmetra auk virðisaukaskatts.

­Héraðsdómur, skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrir grjótið skyldi greiða 30 krónur á rúmmetra án virðisaukaskatts.  Dómurinn hafi verið kveðinn upp 30. apríl 1996 og honum hafi ekki verið áfrýjað.

Við ósk sóknaraðila um viðbótargrjót nokkru síðar hafi orðið að samkomulagi milli aðila fyrir matsnefnd eignarnámsbóta að viðbótargrjóttaka úr námunni fengist á sama verði og dómur Héraðsdóms Austurlands hljóðaði um.  Samtals hafi á þessum tíma verið greitt til varnaraðilans Ómars fyrir 70.000 rúmmetra af grjóti.

Þann 8. febrúar 1999 hafi þess verið farið á leit við varnaraðilann Ómar að hann seldi viðbótarmagn úr námu sinni til byggingar frekari varnargarða á Austurfjörutanga.  Fyrir grjótið hafi honum verið boðin sama fjárhæð og áður hafði verið dæmt um í Héraðsdómi Austurlands, auk verðtryggingar frá dómsuppkvaðningu til greiðsludags. Hafi sú fjárhæð numið um 33 krónum auk virðisaukaskatts.

Eftir ítrekað boð hafi Ómar hafnað tilboðinu og sagt að hann hefði ekki lengur forræði yfir námunni þar sem hann hefði leigt hana út.  Hafi hann þar vísað til varnaraðilans Reinar sf. sem væri leigutaki námunnar.  Eftir bréfaskrif og fund hafi Rein sf. ekki talið sig geta selt hvern rúmmetra af grjótinu fyrir lægra verð en 200 krónur þar sem það væri það gjald sem Rein sf. þyrfti að greiða til Ómars.  Eftir umfjöllun bæjaryfirvalda hafi niðurstaðan orðið sú að um væri ræða allt of hátt verð og hafi varnaraðilanum Ómari verið tilkynnt sérstaklega að samningar hefðu ekki tekist og eignarnámsleiðin yrði farin eins og áður hefði þurft að gera.

Matsbeiðni hafi verið send til matsnefndar eignarnámsbóta og hafi aðilar síðar verið boðaðir fyrir nefndina.  Lögmaður varnaraðilans Ómars hafi þar gert þá athugasemd að ekki lægi fyrir skrifleg ákvarðanataka bæjaryfirvalda.  Hafi þá á næsta fundi hafnarnefndar sérstaklega verið bókað um nauðsyn þess að eignarnámsleiðin yrði farin og hafi sú ákvörðun verið staðfest af bæjarstjórn nokkru síðar.  Báðar þessar ákvarðanir hafi sérstaklega verið tilkynntar báðum varnaraðilum.

Varnaraðilinn Ómar hafi ekki unað þessum framgangi málsins og sent stjórnsýslukæru til samgönguráðuneytisins.  Meðan kæran var til meðferðar í ráðuneytinu hafi matsnefnd eignarnámsbóta frestað frekari umfjöllun um málið.  Úrskurður ráðuneytisins hafi verið kveðinn upp 24. mars sl.  Hafi ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun bæjaryfirvalda um eignarnámið væri rétt og skyldi óbreytt standa.

­Matsnefnd eignarnámsbóta hafi tekið málið upp að nýju að loknum úrskurðinum og tekið þá ákvörðun að afhenda námuna til eignarnema og að vinnsla gæti hafist í henni gegn 5.000.000 króna tryggingu.  Hafi sú trygging verið lögð fram og frumrit ábyrgðaryfirlýsingar Landsbanka Íslands hf. á Hornafirði þess efnis hafi verið sent matsnefnd eignarnámsbóta.  Í framahaldi af þeirri ákvörðun hafi lögmaður varnaraðilans Ómars sent bréf þess efnis að náman yrði ekki afhent til vinnslu nema að undangenginni aðför.

Grjótgarður sá sem fyrirhugað sé að reisa verði milli Austurfjörutanga og Þinganesskers.  Um sé að ræða garð sem í þurfi 30.000 rúmmetra af föstu grjóti.  Eigi garðurinn að draga úr sandburði inn í innsiglinguna.  Þegar unnið var að undirbúningi hafnargarðanna við innsiglinguna hafi verið gengið út frá því að garður sá sem nú á að byggja þyrfti að koma fyrr eða síðar.  Ekki hafi þótt ástæða til að byggja hann strax, enda hafi verið talið nauðsynlegt að nota hinn stöðuga sandburð til að fylla áður sandkrók nærri innsiglingunni til að styrkja Austurfjörutanga.  Ítarlegar mælingar hafi sýnt að fyrirhugaður varnargarður myndi draga verulega úr sandburðinum inn í innsiglinguna, en sandburður þangað sé nú stöðugur.  Þegar farið var af stað í upphafi árs 1999 til að ná samningum við varnaraðilann Ómar um kaup á grjóti hafi sandkrókurinn verið að fyllast og séð hafi verið fram á að sandurinn myndi eftirleiðis renna óheftur inn í innsiglinguna.  Hafi þá verið stefnt að því að garðurinn yrði reistur sumarið 1999.

Í greinargerð sinni lýsa varnaraðilar málsatvikum svo að með bréfi Siglingastofnunar til varnaraðilans Ómars dagsettu 8. febrúar 1999 hafi honum verið gert tilboð í grjót úr námu í landi Horns.  Tilboðið hafi verið sagt standa í tengslum við lagningu grjótgarðs við Þinganessker og hafi verið gert í u.þ.b. 25.000 rúmmetra miðað við fasta klöpp og verðið sem honum var boðið hafi verið 33 kr. á fastan rúmmetra án virðisaukaskatts. Þá skyldi uppgjör fara fram að verki loknu og grundvallast á yfirborðsmælingu fyrir og eftir vinnslu.  Tilboðið hafi verið sagt gilda til 1. mars 1999 og hafi fresturinn runnið út án þess að það væri samþykkt.

Við svo búið hafi Sveinn Sveinsson hrl. sent varnaraðilanum Ómari bréf f.h. Siglingastofnunar dagsett 19. apríl 1999 og ítrekað framangreint tilboð, reyndar með því fráviki að boðnar hafi verið 33,68 kr. á rúmmetra í stað 33 kr. áður.  Í niðurlagi bréfsins hafi verið boðað að yrði ekki orðið við tilboðinu eða Siglingastofnun gert gagntilboð fyrir fyrsta maí 1999 ætti stofnunin ekki annan kost en að óska eftir að matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðaði um verðmat vegna eignarnáms á grjótnáminu.

Þann 29. apríl 1999 hafi verið undirritaður kaup- og leigusamningur milli varnaraðilans Ómars og varnaraðilans Reinar sf.  Samkvæmt samningnum hafi Ómar heimilað Rein sf. að hefja námuvinnslu í Litla-Horni, Kambhorni og Brunnhorni og skyldi Rein sf. hafa einkarétt til námuvinnslunnar og gæti Ómar ekki ráðstafað grjóti til vinnslu af þessum stöðum.  Fyrir veitta heimild til námuvinnslu skyldi Ómar fá greiddar 1.000 kr. á rúmmetra fyrir gabbró og granófýr sem notað væri til slípunar, 500 kr. á rúmmetra fyrir basalt sem notað væri til slípunar og 200 kr. á rúmmetra fyrir steinefni sem færu til annarra nota.  Allar upphæðir í samningnum skyldu tengdar þeirri lánskjaravísitölu sem var í gildi við undirskrift hans.  Með gerð samningsins hafi af hálfu Reinar sf. verið stefnt að því að framleiða gluggakistur, borðplötur, veggklæðningarplötur, arinumgjarðir og arinhillur, leiðiskrossa, vaskaborð, skúlptúra og form af margvíslegum toga og margt fleira.  Þegar samningurinn var gerður hafi Rein sf. haft staðfesta eftirspurn eftir gabbrói bæði hérlendis og erlendis.  Rein sf. hafi í námavinnslu sinni notast við búnað til þess að saga út blokkir í námum.

Með bréfi varnaraðilans Ómars til Sveins Sveinssonar hrl., lögmanns Siglingastofnunar, dagsettu 29. apríl 1999 hafi Ómar upplýst að hann hefði gert framangreindan kaup- og leigusamning um gabbrónámur sínar í landi Horns og hafi Sveini verið vísað á Rein sf. vegna beiðni hans um gabbrógrjót úr landi Horns.

Sveinn Sveinsson hrl., lögmaður Siglingastofnunar, hafi ritað Rein sf. bréf dagsett 7. maí 1999.  Í bréfinu hafi verið vísað til bréfs varnaraðilans Ómars dagsetts 29. apríl 1999 og sagt að ekki væri annað að skilja en Rein sf. hefði eitthvað um það að segja hvort boði Siglingastofnunar yrði tekið.  Þá hafi þess verið getið að væri svo þá væri boði Siglingastofnunar beint til Reinar sf.  Loks hafi verið tekið fram í bréfinu að þess væri vænst að boðinu yrði svarað sem fyrst og eigi síðar en 20. maí 1999, eða 6 dögum eftir að bréfið barst.  Af hálfu Reinar sf. hafi bréfi Sveins verið svarað með bréfi dagsettu 19. maí 1999 þar sem tekið hafi verið fram að fullur og einlægur vilji væri til þess að ganga til samninga við Siglingastofnun.  Þá hafi verið gerð grein fyrir því að Rein sf. gerði ráð fyrir að fara austur um sumarið 1999 og hefja mikla efnistöku, en bent hafi verið á að tími hér á landi til jarðvinnu væri mjög stuttur.  Af hálfu Reinar sf. hafi verið óskað frekari upplýsinga um hvar Siglingastofnun hygðist taka efnið, hver stærð flekans væri í fermetrum sem Siglingastofnun þyrfti til að ná þessum u.þ.b. 25.000 rúmmetrum, hver væri stærð athafnarýmisins sem stofnunin þyrfti til vinnslu á efninu, eftir að það væri tekið sprengt úr stálinu, svo og hvar það yrði, hvenær ráðgert væri að hefja framkvæmdir, ef af yrði, og hvenær þeim lyki og hver yrði í forsvari fyrir framkvæmdunum og hvar sá aðili yrði staðsettur meðan á þeim stæði.  Í lok bréfsins hafi verið tekið fram að Rein sf. hefði lagt mikla fjármuni í tæki og annan búnað til að vinna gegnheilt grjót úr námu, sem síðan væri fullunnið á verkstæði.  Með samningnum við Ómar væri fengin mikilvæg lausn á efnisöflun til starfsemi félagsins og tryggði hún fulla nýtingu tækja þess og búnaðar og framleiðsluna í heild.

Í kjölfar svara Reinar sf. hafi verið haldinn fundur 15. júní 1999 hjá Siglingastofnun þar sem rætt hafi verið um málið.  Á þeim fundi hafi m.a. komið fram að Siglingastofnun teldi sig þurfa fimm til sex mánuði til þess að vinna efni úr námunni og telja mætti að efnistaka og sprengingar Siglingastofnunar gætu ekki farið fram á sama tíma og Rein sf. væri með efnistöku.  Engin tilboð hafi verið sett fram af hálfu Reinar sf. á þessum fundi heldur hafi fyrst og fremst verið rætt um málið og aðstöðu aðila.  Á fundinum hafi legið fyrir að Rein sf. myndi greiða 200 krónur fyrir hvern rúmmetra mulnings úr námunni, en meira fyrir aðra framleiðslu úr námunni.  Í kjölfar fundarins hafi Sveinn Sveinsson hrl. ritað bréf til Reinar sf. dagsett 16. júní 1999 þar sem þeirri afstöðu Siglingastofnunar hafi verið lýst að stofnunin væri ekki tilbúin að ganga til samninga við Rein sf. um kaup á efni úr námunni og yrði matsnefnd eignarnámsbóta fengin til að ákvarða verðmæti grjótsins.  Tekið hafi verið fram að því máli yrði beint að leigusalanum og eiganda jarðarinnar, varnaraðilanum Ómari.

Í bréfinu hafi að öðru leyti verið lýsing á því sem fram fór á fundinum og hafi þess verið óskað að Rein sf. staðfesti með áritun sinni á bréfið að frásögn bréfsins væri rétt.  Þar sem rangt hafi verið með farið hvað hafði farið manna á milli á fundinum hafi engin slík staðfesting verið veitt.

Með bréfi Sveins Sveinssonar hrl. 18. júní 1999 til varnaraðilans Ómars hafi tilboðið um greiðslu á 33,68 kr. fyrir hvern rúmmetra af fastri klöpp úr námunni verið ítrekað.  Þá hafi lögmaðurinn tekið fram að umbjóðendur hans hefðu ekki svigrúm til að bjóða hærri fjárhæð en þá og tók fram að það væri sú fjárhæð ásamt verðbótum sem áður hafði verið dæmd af Héraðsdómi Austurlands vegna eignarnáms sem tekið hafði verið á grjóti úr námunni.  Tekið hafi verið fram að yrði þessu tilboði ekki tekið yrði leitað til matsnefndar eignarnámsbóta um verðlagningu grjótsins.  Vegna tilvísunar lögmannsins til umbjóðenda sinna taki varnaraðilar fram að á þessum tíma hafi hann einungis komið fram sem umboðsmaður Siglingastofnunar, en ekki annarra aðila.  Bréfinu frá 18. júní 1999 hafi ekki verið svarað af hálfu Ómars.

Héraðsdómurinn sem vitnað sé til sé frá 30. apríl 1996 og varði eignarnámsmat matsnefndar eignarnámsbóta frá 23. september 1994, en varnaraðilinn Ómar hafi í málinu gert ágreining um það verð sem matsnefndin hafði metið honum sem bætur fyrir eignarnám á grjóti úr umræddri námu.  Ágreiningur aðila á þeim tíma hafi verið leiddur til lykta með dóminum.  Eftir uppkvaðningu dómsins hafi komið upp ágreiningur um matsverð vegna viðbótarmagns grjóts sem tekið var úr námunni.  Sá ágreiningur hafi verið leiddur til lykta, með tilliti til dómsins, með sátt fyrir matsnefnd eignarnámsbóta 19. ágúst 1996.  Eftir að grjót var tekið úr námunni á grundvelli sáttarinnar hafi ekki verið um frekara grjótnám að ræða og engar ákvarðanir hafi verið teknar þá um eignarnám á meira grjóti úr námunni.  Telji varnaraðilar augsýnilegt að umræddur héraðsdómur hafi ekki þýðingu fyrir úrlausn þessa máls.

Sveinn Sveinsson hrl. hafi sent matsnefnd eignarnámsbóta bréf dagsett 28. júní 1999 f.h. hafnarsjóðs Hornafjarðar og farið þess á leit að fram færi verðmat vegna eignarnáms á grjótnámi úr klöpp á landsvæði því í landi Horns, Austur-Skaftafellssýslu, sem sögð hafi verið vera í sunnanverðu Litla-Horni í svokölluðum Hálsi eða Hálsenda.  Varnaraðilinn Ómar hafi verið boðaður til fyrstu fyrirtöku máls vegna beiðninnar hjá matsnefnd eignarnámsbóta 23. júlí 1999.  Á fundinum hafi því verið mótmælt af hálfu Ómars að beiðnin yrði tekin fyrir og krafist frávísunar málsins frá nefndinni.  Þessu til stuðnings hafi verið vísað til þess að engri ákvörðun væri til að dreifa um eignarnám, eða a.m.k. engri gildri ákvörðun.  Við svo búið hafi af hálfu hafnarsjóðs Hornafjarðar verið óskað eftir fresti til framlagningar gagna er sýndu að aðdragandann að eignarnámsákvörðuninni, sem síðar hafi komið í ljós að hafði ekki verið tekin þegar fundur matsnefndarinnar var haldinn.  Fallist hafi verið á frestbeiðni hafnarsjóðs Hornafjarðar og málinu verið frestað til 9. ágúst 1999.

Þar sem engin ákvörðun hafði verið tekin um eignarnám hafi í skyndi verið boðað til fundar í hafnarstjórn Hornafjarðar 26. júlí 1999.  Á þeim fundi hafi verið tekin ákvörðun um að taka grjót úr námu varnaraðilans Ómars í sunnanverðu Litla-Horni eignarnámi gegn bótum að mati matsnefndar eignarnámsbóta.  Taki varnaraðilar fram að þeim hafi enginn kostur verið gefinn á því að tjá sig um málið eða skýra það frá sinni hlið áður en hafnarstjórnin tók ákvörðun sína.  Þessi háttur hafi verið hafður á jafnvel þótt varnaraðilar hefðu bent á að þeir ættu rétt til þess.  Hafi varnaraðilar höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness til viðurkenningar á ógildi þessa úrskurðar.

Við næstu fyrirtöku málsins hjá matsnefnd eignarnámsbóta 9. ágúst 1999 hafi verið mætt af hálfu hafnarsjóðs Hornafjarðar og lagt hafi verið fram afrit fundargerðar frá fundi hafnarstjórnarinnar.  Auk þess hafi verið lögð fram ljósrit fyrrnefndra bréfaskrifa varnaraðila við Siglingastofnun og Svein Sveinsson hrl., f.h. stofnunarinnar.  Á þessum fundi hafi verið lögð fram bókun af hálfu varnaraðilans Ómars.  Í henni hafi kröfur um frávísun málsins frá nefndinni verið ítrekaðar og bent á að hafnarstjórn Hornafjarðar hefði engar heimildir til töku ákvarðana um eignarnám, þýðingarmiklar málsmeðferðarreglur hefðu verið brotnar við töku ákvörðunar hafnarstjórnar og efnisskilyrði hafi ekki verið fyrir hendi sem réttlætt gætu eignarnám.  Við svo búið hafi matsnefnd eignarnámsbóta tekið málið til úrskurðar.  Með úrskurði nefndarinnar 20. ágúst 1999 hafi, aðallega með vísan til þröngs hlutverks nefndarinnar, kröfu um frávísun málsins frá nefndinni verið hafnað.  Byggi varnaraðilar á því að þessi úrskurður matsnefndarinnar sé ógildur, enda sé augljóst, með hliðsjón af framangreindum atvikum, að vísa hefði átt málinu frá nefndinni þegar í stað.

Þann 2. september 1999 hafi verið haldinn fundur í sveitarstjórn Hornafjarðar.  Á fundinum hafi ákvörðun hafnarstjórnar Hornafjarðar frá 26. júlí 1999 verið borin upp til staðfestingar.  Tilefni þess að þetta var gert hafi verið mótmælin sem fram höfðu komið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, þar sem m.a. hafði verið bent á að hafnarstjórn hefði að lögum enga heimild til töku ákvarðana um eignarnám í þágu hafnargerðar. Varnaraðilum hafi ekki verið tilkynnt að fyrirhugað væri að taka þessa ákvörðun og enn síður hafi þeim verið gefinn kostur á að skýra sjónarmið sín fyrir sveitarstjórn.  Reyndar hafi engin málsmeðferð yfirleitt farið fram áður en ákvörðun hafnarstjórnar var staðfest. Varnaraðilum hafi ekki verið kynnt þessi ákvörðun fyrr en nokkru síðar.  Geri varnaraðilar kröfu um viðurkenningu ógildis þessarar ákvörðunar í málinu sem höfðað hafi verið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Með bréfi dagsettu 3. september 1999 hafi af hálfu varnaraðilans Ómars verið kærð til samgönguráðherra ákvörðun hafnarstjórnar Hornafjarðar frá 26. júlí 1999.  Hafi kæran byggt á því að hafnarstjórn hafi brostið vald til töku ákvörðunarinnar, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hefðu verið brotnar, brotið hefði verið gegn meðalhófi og samningaumleitanir hafi ekki verið til lykta leiddar.  Þegar kæran var send ráðherra hafi varnaraðilum verið ókunnugt um framangreinda staðfestingu sveitarstjórnarinnar.  Matsnefnd eignarnámsbóta hafi þann 15. september 1999 ákveðið að fresta matsmálinu meðan stjórnsýslukæran væri til meðferðar samgönguráðherra.  Í bréfi matsnefndarinnar komi m.a. fram að ekki hefði verið gerð krafa um að sóknaraðila yrðu fengin umráð grjótsins.  Sveinn Sveinsson hrl. hafi skilað sameiginlegri greinargerð f.h. sveitar- og hafnarstjórnar sóknaraðila og Siglingastofnunar til samgönguráðherra sem væri dagsett 24. september 1999.  Af hálfu varnaraðilans Reinar sf. hafi verið skilað athugasemdum í tilefni af kærunni með bréfi dagsettu 30. september 1999.  Í tilefni af sameiginlegri greinargerð bæjar- ­og hafnarstjórnar sóknaraðila og Siglingastofnunar til samgönguráðherra hafi af hálfu varnaraðilans Ómars verið gerðar stuttar athugasemdir með bréfi til samgönguráðherra dagsettu 6. október 1999.  Ráðherra hafi kveðið upp úrskurð í málinu 24. mars sl. og samkvæmt honum skyldi ákvörðun hafnarstjórnar Hornafjarðar frá 26. júlí 1999 óbreytt standa.

Með bréfi dagsettu 4. apríl 2000 hafi Sveinn Sveinsson hrl. krafist þess f.h. hafnar- og bæjarstjórnar sóknaraðila að framhald yrði á meðferð málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og sem allra fyrst yrði tekin ákvörðun um að afhenda eignarnámsbeiðanda námuna gegn viðunandi tryggingu.  Matsnefnd eignarnámsbóta hafi boðað til fyrirtöku málsins og hafi það verið tekið fyrir 2. maí sl.  Þá hafi sóknaraðili lagt fram greinargerð til stuðnings kröfu sinni um afhendingu námunnar dags. 29. apríl sl.  Af hálfu varnaraðilans Ómars hafi kröfum sóknaraðila verið mótmælt og hafi málinu verið frestað til 11. maí sl. í því skyni að gefa Ómari kost á að skila greinargerð af sinni hálfu um þennan þátt málsins.  Í greinargerðinni hafi m.a. verið vakin athygli á því að aldrei hefði verið gerð glögg grein fyrir því af hálfu sóknaraðila, t.d. með uppdrætti, hvaða hluta námunnar sóknaraðili vildi fá umráð yfir.  Þá væri ekki gerð glögg grein fyrir því samhliða kröfu sóknaraðila hvort hann ætlaði varnaraðilanum Rein sf., rétthafa námunnar skv. leigu- og kaupsamningi frá 29. apríl 1999, athafnasvæði í námunni samhliða sér.  Á það hafi verið bent að þessi óskýra framsetning skerti rétt varnaraðilans Ómars til andmæla líkt og hann ætti rétt til á grundvelli IV. kafla stjórnsýslulaga.  Yrði að leita skýringa á kröfum gerðarbeiðanda eða vísa þeim frá. 

Matsnefnd eignarnámsbóta hafi úrskurðað um kröfu gerðarbeiðanda og liggi úrskurður hennar fyrir á dómskjali nr. 2.  Athygli sé vakin á því að eftir að varnaraðilinn Ómar skilaði greinargerð sinni hafi matsnefnd eignarnámsbóta lagt í gagnaöflun vegna málsins.  Eins og fram komi í úrskurðinum hafi verið aflað staðfestingar á því að hin fyrirhugaða efnistaka myndi verða úr námu Ómars í sunnanverðu Litla-Horni í svokölluðum Hálsi eða Hálsenda.  Þetta verði ekki skilið á annan veg en þann að matsnefndin hafi aflað gagna frá sóknaraðila eftir að málið var tekið til úrskurðar.  Enn fremur komi fram að ljósmynda hafi verið aflað úr námunni.  Ekkert þessara gagna hafi verið kynnt varnaraðilanum Ómari þrátt fyrir að sérstök tilmæli hafi komið fram af hans hálfu í greinargerðinni um að málið yrði a.m.k. skýrt hvað þetta varðar og annað lýst brot á andmælarétti hans.

III.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Af hálfu sóknaraðila er lögð á það áhersla að innsiglingin inn til Hornafjarðar sé lífæð byggðarlagsins.  Hún sé byggðarlaginu svo mikilvæg að án hennar þrífst byggðarlagið ekki.  Auknu fjármagni sé veitt í hafnarmannvirkin til þess að halda siglingaleið opinni.  Vegna óhjákvæmilegrar þróunar í sjávarútvegi séu stöðugt stærri skip keypt, sem kalli á betri og dýpri innsiglingar, m.a. með tilliti til djúpristu skipa.  Megi þar nefna að nýjasta og stærsta skip Hornfirðinga, Ásgrímur Halldórsson, sé af þeirri stærð að tvísýnt sé að skipið komist inn til Hornafjarðar með góðu móti nema stemmt verði stigu við sandburðinum sem allra fyrst.

Þannig megi ekkert út af bera úr því sem komið er að siglingar stærri skipa inn til Hornafjarðar geti stöðvast og sé alvara málsins því mjög mikil og megi engan tíma missa til að væntanlegur garður verði settur upp.  Þá séu grynningar af völdum sandstreymis stórhættulegar öllum sjófarendum. Nú sé að koma sá tími að hægt verði að vinna við byggingu varnargarðsins og því sé lífsnauðsyn á að hægt verði að nota sumarið til verksins.

Sóknaraðili bendir á að nákvæmar vísindalegar rannsóknir hafi farið fram á grjótnámu þeirri sem óskað sé afhendingar á.  Samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna tiltaki þeir í matsgerð þeirri sem lögð var fyrir Héraðsdóm Austurlands í málinu nr. E 117/1994:  Ómar Antonsson gegn Siglingastofnun að gert sé ráð fyrir að í Litla-Horni sé gabbrómagnið 0,02 rúmkílómetrar og í Kambhorni 0,10 rúmkílómetrar.

Þá hafi matsmennirnir komist að þeirri niðurstöðu að þeir 50.000 rúmmetrar af klöpp sem deilt var um í því máli næmu aðeins um 0,25% af heildarmagni klapparinnar.  Því sé ljóst að þeir 30.000 rúmmetrar í klöpp sem nú sé beðið um eignarnám á sé mjög lág prósenta þegar litið sé til heildarmagnsins í klöppinni.

Matsmennirnir hafi einnig komist að þeirri niðurstöðu að sprungumyndun vegna sprenginganna geti náð tvo metra inn í bergið m.v. ákveðið uppgefið sprengimagn.  Í matinu hafi þeir þó gert ráð fyrir að sprungumyndun gæti orðið tvöfalt meiri, þannig að sprungurnar næðu fjóra metra inn í bergið.  Að þessu gefnu hafi þeir komist að þeirri niðurstöðu að við sprengingu á 50.000 rúmmetra af klöpp myndu um 3.600 rúmmetrar af klöpp ónýtast til vinnslu til slípunar.

Af framangreindum niðurstöðum matsmannanna komi skýrt fram að taka á þeim 30.000 rúmmetrum af klöpp til viðbótar úr námunni nú komi til með að hafa sáralítil áhrif á námuna sjálfa og verði hún á eftir að nær öllu leyti nýtanleg til þeirra verkefna sem varnaraðilar ætla hana til.  Hér sé um svo lítið magn að ræða að það breyti nánast engu hvort það sé tekið eða ekki miðað við ætluð framtíðarnot á námunni.

Sóknaraðili undirstriki sérstaklega og leggi áherslu á að þau verðmæti sem felast í því magni af grjóti sem ætlað er að taka úr námunni nemi rúmri einni milljón króna, án virðisaukaskatts, sé tekið mið af niðurstöðu þeirri sem Héraðsdómur Austurlands komst að í áðurnefndu dómsmáli.

Því sé haldið fram að mál það sem varnaraðilar hafa höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness til ógildingar á ákvörðun bæjaryfirvalda um eignarnámið hafi engin áhrif á aðfararbeiðni sóknaraðila.  Helstu málsástæður varnaraðila í því máli séu þær að hafnarstjórn með síðari ítrekun og staðfestingu bæjarstjórnar hafi ekki verið bært stjórnvald til að taka ákvörðun um eignarnámið, þrátt fyrir skýr ákvæði í hafnalögum. Þá bendir sóknaraðili á að samgönguráðuneytið hafi sérstaklega fjallað um hvernig staðið var að eignarnáminu og komist að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun hafi réttilega verið tekin.  Einnig hafi matsnefnd eignarnámsbóta komist að sömu niðurstöðu, en í úrskurði sínum frá 20. ágúst 1999 hafi hún komst að eftirfarandi niðurstöðu:  “Í því máli sem hér er til meðferðar liggur fyrir að eignarnámsheimild í 16. gr. hafnalaga er fyrir hendi.  Einnig liggur fyrir að hafnar­stjórn, sem fer með málefni hafnarinnar í umboði sveitarstjórnar, sbr. 4. gr. hafnalaga, er til þess bær að taka ákvörðun um eignarnám samkvæmt þessari heimild.”

Sóknaraðili vísi til þess að varnaraðilar hafi lýst því yfir að þeir muni nota öll þau úrræði sem tiltæk eru til að koma í veg fyrir að grjót verði tekið úr námunni og verðmæti þess metið af matsnefnd eignarnámsbóta.  Virðist óánægja varnaraðila beinast gegn því verði sem þeir óttist að matsnefnd eignarnámsbóta komist að niðurstöðu um.  Grjótið sé falt fyrir sex sinnum hærri fjárhæðir en hingað til hafi verið boðnar fyrir það af hálfu sóknaraðila.

Loks leggi sóknaraðili áherslu á að þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru við Austurfjörutanga fari sem allra fyrst af stað.  Innsiglingin til Hornafjarðar sé lífæð byggðarlagsins og að halda henni opinni varði almannahagsmuni og sé lífsspursmál fyrir fólkið í héraðinu.

Um lagarök vísar sóknaraðili til 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.  Enn fremur vísar hann til 5. tl. 1. mgr. 1. gr. og 78. gr. og 79. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Af hálfu varnaraðila er á það bent að náman sem mál þetta snýst um sé gabbrónáma sem liggi í landi varnaraðilans Ómars.  Gabbró sé verðmætt byggingarefni og hægt sé að hafa það til margvíslegra nota.  Varnaraðilinn Rein sf. hafi sérhæft sig í steinsmíði og þann 29. apríl 1999 hafi hann gert kaup- og leigusamning vegna námunnar.  Það sé ljóst að réttur beggja varnaraðila til námunnar og þess verðmæta grjóts sem þar er að finna njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins.

Sóknaraðili hafi af óútskýrðum ástæðum metið aðstæður svo að ekkert annað grjót geti nýst í fyrirhugaðan grjótvarnargarð en hið fágæta og verðmæta grjót í námu varnaraðilans Ómars sem Rein sf. hafi gert samning um.  Sóknaraðili virðist sjá fyrir sér að grjótið verði tekið úr námunni með sprengingum ásamt tilheyrandi sprungumyndunum í námunni.  Þetta geti varnaraðilar engan veginn sætt sig við.  Komi þetta illa við atvinnurekstur þeirra beggja og framtíðarhagsmuni af nýtingu námunnar, enda fari efnistaka úr námunni á þann hátt sem sóknaraðili virðist sjá fyrir sér á engan hátt saman við afnot varnaraðila af námunni.  Að því frátöldu sé aðstaðan sú að hér á landi hafi grjót aldrei skort, en þrátt fyrir það hafi sóknaraðili ekki svo mikið sem leitað boða frá öðrum aðilum í grjót í grjótvarnargarðinn.  Samskipti aðila hafi síðan verið með þeim hætti, að af hálfu sóknaraðila hafi ekki verið tekið tillit til stjórnsýslulaga, andmælaréttur hafi ítrekað verið brotinn á varnaraðilum og sjónarmið þeirra fyrir borð borin.

Með aðfararmáli þessu hyggist sóknaraðili svipta varnaraðilann Ómar eigum sínum og varnaraðilann Rein sf. rétti sínum samkvæmt kaup- ­og leigusamningnum frá 29. apríl 1999.  Sé því af hálfu varnaraðila mótmælt að kröfur sóknaraðila verði teknar til greina. Þann 10. maí sl. hafi verið þingfest mál í Héraðsdómi Reykjaness sem varnaraðilar hafi höfðað til viðurkenningar á ógildi eignarnámsákvarðana sóknaraðila.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að hafna beri kröfu sóknaraðila vegna þess hvernig hann hafi kosið að leggja málið fyrir dóminn, en málatilbúnaðurinn sé í andstöðu við aðfararlög nr. 90/1989.  Því til stuðnings sé byggt á eftirtöldum atriðum:

Sóknaraðili geri kröfu um innsetningu í námuna til töku á 30.000 rúmmetrum grjóts úr henni.  Í því felist að sóknaraðili geri ekki kröfu til þess að varnaraðilar, sem nú hafi vörslur námunnar verði bornir af henni.  Með öðrum orðum sé um að ræða kröfu um innsetningu, en ekki útburð.  Virðist krafan samkvæmt þessu miðast við það eitt að sýslumaður fjarlægi 30.000 rúmmetra grjóts úr námunni og afhendi það sóknaraðila.  Það verði hins vegar að teljast vafasamt að grjótið í námunni sé þess eðlis, að það teljist hlutir sem verði fjarlægðir í skilningi 72. gr. aðfararlaga, enda sé um óaðskiljanlegan hluta fasteignarinnar að ræða.  Reyndar sé fullvíst að sýslumaður ljái ekki atbeina sinn til innsetningargerðar af þessu tagi, enda sé ljóst að það fæli í sér verulegar verklegar framkvæmdir af hálfu sýslumanns, sem aðfararlög geri ekki ráð fyrir að ráðist sé í.  Sé því ljóst að það eitt stæði eftir, ef fallist yrði á kröfu sóknaraðila, að meta grjótið til fjár samkvæmt ákvæðum 77. gr. aðfararlaga.  Á hinn bóginn sé ljóst að markmið aðfararbeiðninnar sé allt annað og þar með beri að hafna henni.

Þá sé ljóst að lýsing á umbeðinni gerð sé ekki eins nákvæm og gera verði kröfu til samkvæmt 10. gr. aðfararlaga.  Í þeim efnum sé bent á að sóknaraðili geri kröfu til þess að heimiluð verði innsetning í grjótnámu varnaraðilans Ómars í sunnanverðu Litla-Horni, í svokölluðum Hálsi eða Hálsenda í landi Horns, Austur Skaftafellssýslu, til töku á 30.000 rúmmetrum af grjóti til hleðslu grjótvarnargarðs á Austurfjörutanga.  Sóknaraðili geri ekki viðhlítandi grein fyrir því hvaðan eigi að afla grjótsins, t.d. með uppdrætti.  Enn fremur sé ekkert upplýst um það hvernig mæla skuli það grjót sem afla eigi eða hvernig tryggja eigi rétt gerðarþola við þær mælingar.  Þá sé það magn grjóts sem krafist sé innsetningar fyrir, 30.000 rúmmetrar, allt annað og meira en reynt hafi verið að ná samningum um kaup á.  Loks sé orðalag beiðninnar tvírætt að því leyti að þrátt fyrir að innsetningar sé krafist, sem feli í sér að sýslumaður afhendi sóknaraðila tiltekna hluti, megi skilja orðalagið svo að sóknaraðili ætli sér sjálfur að fjarlægja hlutina.  Ljóst sé að öll framangreind atriði verði að vera svo nákvæm að ekki verði hafið yfir vafa hvernig standa skuli að aðgerðum á grundvelli dómsúrskurðarins.  Tilgreiningu sóknaraðila bresti samkvæmt þessu þann skýrleika sem lög áskilji.

Enn fremur sé vísað til þess að á sóknaraðila sem handhafa opinbers valds, hvíli sérstakar skyldur.  Beri honum á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttarins að sýna málstað gagnaðila síns virðingu.  Þegar aðfararbeiðnin var sett fram hafi í megindráttum legið fyrir sjónarmið varnaraðila um það í hvaða atriðum hefði verið brotinn réttur á þeim við meðferð málsins.  Sóknaraðili hafi kosið að leggja þessi skjöl ekki fram né önnur skjöl sem varða málið.  Sé ekki annað að sjá en að með þessu hafi sóknaraðili brotið gegn hlutlægnisreglu stjórnsýsluréttarins.  Ef útivist hefði orðið hefði dómurinn kveðið upp úrskurð á grundvelli fram kominna gagna.  Ef svo hefði farið hefði niðurstaðan orðið sú að dómsúrskurðar hefði verið aflað án þess að atvik málsins hefðu verið kynnt dóminum af hlutlægni.  Megi telja að þessi aðferð sóknaraðila við að leggja málið fyrir dóminn leiði til þess að hafna verði beiðninni.  Sóknaraðili geti svo lagt málið fyrir dóminn að nýju og þá af hlutlægni, telji hann yfirleitt ástæðu til þess. Að öðru leyti sé það að segja um málið að kröfu sóknaraðila beri að hafna ef varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli fyrirliggjandi sönnunargagna, sbr. 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga.  Þetta feli í sér að leiki vafi á heimildum sóknaraðila til umþrætts grjóts, þá beri að virða þann vafa varnaraðilum í hag og hafna aðfararbeiðninni.

Af hálfu varnaraðilans Reinar sf. sé bent á að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta sem sóknaraðili byggir mál sitt á, beinist ekki gegn Rein sf. sem hafi þó rétt til námunnar samkvæmt kaup- og leigusamningi við varnaraðilann Ómar frá 29. apríl 1999.  Það hafi verið sóknaraðila ljóst strax frá því samningurinn var gerður að Rein sf. ætti rétt til námunnar samkvæmt samningnum.  Engu að síður hafi af hálfu sóknaraðila verið kosið að beina málinu gegn varnaraðilanum Ómari einum.   Ljóst sé að þegar af þessari ástæðu sé úrskurðurinn ekki nægjanlegur grundvöllur aðfarargerðar. Beri þegar af þessari ástæðu að hafna kröfu sóknaraðila.

Verði ekki á þetta fallist bendi varnaraðilar sameiginlega á eftirtalin atriði til stuðnings kröfum sínum:

Byggt sé á því að gildri eignarnámsákvörðun, sem geti verið grundvöllur meðferðar málsins hjá matsnefnd eignarnámsbóta, sé ekki til að dreifa.  Hafi matsnefndinni því borið að vísa málinu frá sér í öndverðu líkt og krafa hafi verið gerð um af hálfu varnaraðilans Ómars.  Í þessu samhengi skuli bent á að í 72. gr. stjórnarskrárinnar sé kveðið á um að eignarrétturinn sé friðhelgur.  Þá segi að enginn verði skyldaður til að láta eign sína af hendi nema almenningsþörf krefji, en að auki þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.  Bent sé á að stjórnarskrárákvæðið geri gild lagafyrirmæli að skilyrði þess að eignarnám nái fram að ganga.  Nú hafi reyndar verið talið heimilt að framselja stjórnvöldum vald til að taka ákvarðanir um eignarnám á grundvelli lagafyrirmæla.  Engu að síður felist í ákvæði stjórnarskrárinnar að stjórnvöld verði að gæta ítrustu varkárni þegar slíkar ákvarðanir eru teknar, virða gildandi málsmeðferðarreglur, leita samninga um verð til hins ítrasta, sýna fyllstu sanngirni þegar metið er hvort almenningsþörf geri kröfu til eignarnáms og gæta að því að efnisreglur stjórnsýsluréttarins séu ekki brotnar við töku ákvörðunar.

Hafa verði í huga að ákvæði laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms séu sett til að tryggja réttaröryggi við framkvæmd eignarnáms.  Það sé því ljóst að matsnefnd eignarnámsbóta sé m.a. ætlað að vísa frá sér málum, þar sem mats er óskað vegna eignarnáms sem byggist á ógildri stjórnvaldsákvörðun.  Ljóst sé að þegar málið kom til kasta matsnefndar eignarnámsbóta í öndverðu hefði nefndinni borið að vísa því frá, enda hafi þá ekki verið tekin ákvörðun um eignarnámið.  Þá sé jafnframt ljóst, hvað sem því líður, að ákvarðanir hafnarstjórnar og bæjarstjórnar sóknaraðila sem teknar voru eftir að meðferð málsins hófst hjá matsnefnd eignarnámsbóta séu ógildar og sama megi segja um úrskurð samgönguráðherra.  Af þessu leiði að málinu hefði borið að vísa frá nefndinni og hefði aldrei átt að geta komið til þess að ákvörðunin, sem sóknaraðili byggir mál sitt á, var tekin.  Beri af þessum sökum þegar í stað að taka kröfur varnaraðila til greina.

Helstu ástæður þess að varnaraðilar telji ákvarðanir sóknaraðila og úrskurð ráðuneytisins ógildar séu þessar:

Að því er varðar ákvörðun hafnarstjórnar Hornafjarðar frá 26. júlí 1999 um að taka grjót úr námu varnaraðilans Ómars í sunnanverðu Litla-Horni eignarnámi, sé á því byggt að hafnarstjórn hafi ekki verið valdbær til töku ákvörðunarinnar, brotið hafi verið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu sömu laga auk þess sem samningaumleitanir um frjáls kaup á grjóti úr námunni hafi ekki verið leiddar til lykta.  Nánar tiltekið sé byggt á eftirfarandi:

Um valdbærni hafnarstjórnar sé bent á að samkvæmt 14. gr. hafnarlaga nr. 23/1994, sbr. 26. gr. laga nr. 7/1996, sé frumkvæði að hafnargerð hjá eiganda hafnar og framkvæmdir á ábyrgð hans.  Af 3. gr. sömu laga verði ráðið að sveitarfélög teljast eigendur hafna samkvæmt lögunum.  Ákvörðun um eignarnám í þágu hafna sé meiriháttar og sérstök ákvörðun, sem ætlað sé að skerða stjórnarskrárvarin eignarréttindi borgaranna.  Því sé mótmælt að í almennu umboði undirnefnda sveitarstjórna geti falist vald til að taka slíka ákvörðun.  Af þessu leiði að viðkomandi sveitarstjórn sé sá aðili, sem taki ákvörðun um eignarnám skv. 16. gr. laganna.  Beri þegar af þessari ástæðu að telja eignarnámsákvörðun hafnarstjórnar Hornafjarðar ógilda.

Að því er varðar brot á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé vísað til þess sem þegar hafi verið rakið um aðdraganda ákvörðunarinnar.  Svo ekki sé meira sagt verði að telja að tildrög hennar hafi verið með undarlegasta móti.  Fyrst virðist sem Siglingastofnun hafi ætlað að framkvæma eignarnám, síðan hafi hafnarsjóður Hornafjarðar gert sig líklegan til þess að taka ákvörðun og loks hafi hafnarstjórn Hornafjarðar tekið eignarnámsákvörðun eftir að bent hafði verið á að engin ákvörðun hefði yfirleitt verið tekin.  Nú sé því jafnvel haldið fram í greinargerð sóknaraðila, sem fái reyndar enga stoð í gögnum málsins og hafi ekki verið haldið fram áður, að bæjaryfirvöld hafi fjallað um málið og tekið ákvörðun áður en ákvörðun hafnarstjórnar var tekin.  Væri þetta rétt, sem ekkert liggi fyrir um, þá hafi varnaraðilum a.m.k. aldrei verið gert ljóst að umfjöllun um efnisskilyrði eignarnáms ætti sér stað né hjá hvaða yfirvöldum bæjarins.  Enn síður hafi varnaraðilum verið gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum hvað þetta varðar.  Ljóst sé að við þessa meðferð alla hafi helstu málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga verið þverbrotnar.  Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.  Ekkert liggi fyrir í málinu sem veiti vísbendingu um að raunveruleg rannsókn hafi farið fram á því hvort t.d. hafi verið hægt að fá ódýrara grjót til uppfyllingarinnar annars staðar frá en að Horni.  Þá verði stjórnvaldsákvörðun ekki bindandi að lögum fyrr en hún hafi verið birt aðila, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Enn fremur beri að gæta andmæla- og upplýsingaréttar þess sem ákvörðun beinist gegn, sbr. 13. og 14. gr. sömu laga.  M.a. þurfi að gefa aðila kost á að tjá sig um hvort skilyrði eignarnáms séu fyrir hendi, hvort réttur aðili taki ákvörðun o.fl.  Þá verði við stjórnvaldsákvörðun af þessu tagi að greina með skýrum hætti hvað sé tekið eignarnámi.  Í þessu tilviki hafi t.d. verið óhjákvæmilegt að sýna nákvæmlega með uppdrætti hvar taka eigi umrætt grjót.  Varnaraðilum hafi ekki gefist færi á að gæta andmælaréttar síns.  Ákvörðun um eignarnám sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun.  Þegar svo sé ástatt séu gerðar enn strangari kröfur til stjórnvalda að gæta ítrustu málsmeðferðarreglna.  Brot stjórnvalda á skýrum fyrirmælum stjórnsýslulaga, sett til verndar borgurunum gegn stjórnvöldum geti ekki leitt til annars en að ákvörðun hafnarstjórnar teljist ógild.  Auk alls þessa verði að benda á að ekki hafi verið gætt reglna stjórnsýslulaga um rökstuðning.  Sé í því sambandi sérstaklega vísað til 2. ml. 22. gr. stjórnsýslulaga þar sem segi að að því marki sem ákvörðun byggist á mati, skuli í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.  Í máli þessu snúist matið um nauðsyn þess að taka gabbrónámur varnaraðilans Ómars eignarnámi til byggingar grjótgarðs við Þinganessker.  Eini rökstuðningurinn sem fram komi í þessu efni af hálfu hafnarstjórnarinnar sé að samningatilraunir hafi ekki tekist. Teljist sá rökstuðningur ófullnægjandi þegar um jafn íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun er að ræða og í þessu máli.

Leiði framangreindar ástæður ekki til þess að ákvörðun hafnarstjórnar teljist ógild sé byggt á sjónarmiðum meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sem fram komi í 12. gr. laganna.  Þar segi m.a. að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Verði að telja það fráleitt dýrt byggingagrjót sé tekið eignarnámi til uppfyllingar í höfnum, þegar nóg sé til í landinu af grjóti sem ekki hafi þá fágætu eiginleika til byggingar húsa og grjótið úr námu varnaraðilans Ómars.  Megi í þessu sambandi benda á leigu- og kaupsamning Ómars við Rein sf. sem sýni vel að grjótið sé til margra hluta nytsamlegt.

Að lokum sé hvað þetta varðar og ef ekki verði fallist á framangreint byggt á því að eignarnámsákvörðun hafnarstjórnarinnar sé ógild þar sem ekki hafi verið reynt til þrautar að semja við gerðarþola.  Varnaraðilum máls þessa hafi verið send bréf frá Siglingastofnun sem reyndar telji sig enga aðild eiga að málinu þrátt fyrir umfangsmikil afskipti af því.  Þau bréf hafi verið í hálfgerðu hótunarformi þar sem tekið hafi verið fram að ef ekki yrði gengið að tilboði stofnunarinnar yrði gripið til eignarnáms.  Það sé ljóst að af hálfu Siglingastofnunar hafi verð og önnur kjör aldrei verið til umræðu, heldur hafi stofnunin, og á sinn hátt sóknaraðili, ætlað sér einhliða ákvörðun um þau atriði.  Verði að telja fjarri lagi að reynt hafi verið til þrautar að ná samkomulagi um verð á grjóti úr gabbrónámum varnaraðilans Ómars.  Leiði þetta til þess að ákvörðun hafnarstjórnar sé ógild.  Myndi það gera eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar að engu ef stjórnvöld gætu beitt eignarnámi til þess að komast hjá því að greiða fullt verð sem þar er kveðið á um.  Í þessu sambandi sé rétt að benda á að leigu- og kaupsamningur sá sem Ómar hefur gert við Rein sf. sýni fram á hve fjarri lagi verðhugmyndir Siglingastofnunar og sóknaraðila séu hinu stjórnarskrárverndaða fulla verði.

Að því er varðar staðfestingu sveitarstjórnar sóknaraðila 2. september 1999 á ákvörðun hafnarstjórnar frá 26. júlí 1999 byggi varnaraðilar á því að hún sé ógild af eftirtöldum ástæðum:

Ljóst sé að staðfesting á borð við þessa af hendi æðra stjórnvalds geti aldrei ljáð ákvörðun sem er ógild gildi.  Í staðfestingu felist ekki sjálfstæð afstaða þannig að ef ákvörðun sem er staðfest sé ógild gildi hið sama um staðfestinguna.  Með vísan til þess sem rakið var að framan leiði þetta þegar í stað til ógildis staðfestingar sveitarstjórnarinnar.

Þar fyrir utan sé staðfesting sveitarstjórnar sem stjórnvaldsákvörðun háð öllum þeim annmörkum sem gert hafi verið grein fyrir að framan, þ.e.a.s. að með töku ákvörðunarinnar hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu sömu laga auk þess sem samningaumleitanir um frjáls kaup á grjóti úr námunni hafi ekki verið leiddar til lykta.  Leiði það að breyttu breytanda til ógildis staðfestingarinnar.

Að því er varðar úrskurð samgönguráðherra frá 24. mars 2000 um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar sóknaraðila frá 2. september 1999, leiði eftirtalin atriði til þess að úrskurðurinn hafi enga þýðingu við úrlausn málsins:

Ljóst sé að ráðherra komist að rangri niðurstöðu um gildi ákvarðana sveitarstjórnar.  Í úrskurðinum sé m.a. komist að þeirri niðurstöðu að sveitar- og hafnarstjórn hafi ekki brotið málsmeðferðarreglur, ekki brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslunnar, ekki brotið gegn skyldu sinni til að leiða samningaviðræður til lykta, auk þess sem ráðuneytið hafi talið valdbært stjórnvald hafa tekið ákvörðun.  Niðurstaða ráðuneytisins fái ekki staðist með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin hafi verið að framan.  Samkvæmt þessu sé ljóst að ráðherra hefði átt að lýsa ákvarðanirnar ógildar.  Leiði þetta til þess að úrskurður ráðuneytisins hafi enga þýðingu við úrlausn málsins.

Enn fremur gæti torkennilegra sjónarmiða í úrskurði ráðherra.  Af annars óskýrum forsendum úrskurðarins sé helst að skilja að ráðherra telji að ákvörðun um eignarnám hjá varnaraðilum hafi verið tekin á árinu 1994.  Þetta megi telja hreina fjarstæðu.  T.d. megi benda á að engum aðila málsins hafi dottið í hug að svo kynni að vera og reyndar sé ákvörðun hafnarstjórnar sóknaraðila frá 26. júlí 1999 ein og sér sönnun hins gagnstæða.  Hið rétta sé að á árinu 1994 hafi áður verið tekið eignarnám hjá varnaraðilanum Ómari.  Framkvæmdum á grundvelli þess eignarnáms hafi hins vegar verið löngu lokið þegar þetta mál kom upp 1999.  Það fá ekki staðist að menn sem hafa eitt sinn þurft að sæta eignarnámi á landi sínu teljist þar eftir hafa rýrari rétt en aðrir til þess að farið sé að lögum um málefni þeirra.  Þar fyrir utan sé ekki annað að sjá á úrskurði ráðherra en að hann telji að í hafnaáætlun fyrir 1999-2002, sem ráðherrann lagði fyrir Alþingi hafi falist ráðagerð um eignarnám hjá varnaraðilanum Ómari.  Reyndar sé ekki stafkrók um slíka ráðagerð að finna í hafnaáætluninni, en úr því að það hafi verið skilningur ráðherrans og ráðuneytis hans, að um slíkt hafi verið að ræða hafi þeim verið skylt að víkja sæti við meðferð stjórnsýslukærunnar, sbr. 4. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga.  Það sé augljóst að úrskurður samgönguráðherra hafi ekkert gildi í skiptum aðila.

Þá sé byggt á því, sérstaklega hvað varðar úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta 15. maí sl. og hvað sem öllu öðru líður, að hann sé ógildur og leiði það til þess að synja beri kröfu sóknaraðila.  Í þeim efnum sé bent á það sem fram kemur í greinargerð varnaraðilans Ómars til matsnefndar eignarnámsbóta.  Enn fremur sé bent á þá annmarka ákvarðana hafnar- og sveitarstjórnar sóknaraðila og úrskurðar samgönguráðherra sem grein var gerð fyrir að framan.  Vísað sé til þess að umráðasvipting eignar sé verulega íþyngjandi aðgerð.  Það hljóti að vera viðurhlutamikið að taka slíka ákvörðun nema það sé algjörlega skýrt að skilyrði séu fyrir töku slíkrar ákvörðunar.  Ljóst megi vera að eins og atvikum háttar hér fari því fjarri að skilyrði séu fyrir umráðasviptingu.  Leiði þetta til ógildis úrskurðarins.

Þar fyrir utan sé bent á að við meðferð matsnefndar eignarnámsbóta hafi verið aflað gagna eftir að málið var tekið til úrskurðar.  Varnaraðilanum Ómari hafi hvorki verið gefinn kostur á að tjá sig um þau gögn sem aflað var né að fylgjast með öflun þeirra.  Þetta hafi verið gert þrátt fyrir að hann hafi bent á að hann teldi sig þurfa m.a. umræddar upplýsingar til þess að geta komið andmælum sínum á framfæri á fullnægjandi hátt.  Í því hafi vitaskuld falist sérstök ósk um að fá að tjá sig um gögn sem aflað yrði um umrædd atriði.  Með þessu hafi við meðferð matsnefndar eignarnámsbóta verið brotið á andmælarétti hans, sem njóti lögverndar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga.  Leiði þetta jafnframt til ógildis úrskurðarins.

Þá sé bent á að úrskurðuð trygging hjá matsnefnd eignarnámsbóta sé alltof lág. Samkvæmt kaup- og leigusamningnum frá 29. apríl 1999 sé verð rúmmetra ákveðið mest 1.000 krónur.  Það sé ljóst að sú trygging sem matsnefnd eignarnámsbóta ákveður samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 hljóti að taka mið af því verði.  Auk þess hljóti að vera ljóst að matsnefnd eignarnámsbóta hljóti að þurfa að meta hugsanlegt tjón vegna sprungumyndunar í bergið.  Það grundvallarsjónarmið hljóti að liggja til grundvallar ákvörðun tryggingar að hún sé ákveðin með hliðsjón af því hvert hugsanlegt matsverð vegna eignarnámsins geti hæst orðið.  Í afstöðu matsnefndar eignarnámsbóta felist ráðagerð um að samningurinn milli varnaraðila sé að engu hafandi.  Þessi afstaða, sem hljóti að teljast viðurhlutamikil, sé ekki studd neinum viðhlítandi gögnum eða sjónarmiðum. Meira að segja, sé litið til lágmarksverðs samkvæmt samningnum, 200 krónur á rúmmetra, sé ákveðin trygging of lág.  Ekkert komi fram um það í úrskurði matsnefndarinnar hvernig tekið sé tillit til sprungumyndunar í bergi vegna þess sem virðist fyrirhugaðar sprengingar í námunni.  Allt þetta leiði til þess að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta teljist ógildur.

Ástæða sé til að víkja að nokkrum atriðum í málatilbúnaði sóknaraðila.  Helst sé þar að nefna að sóknaraðili geri í löngu máli að umfjöllunarefni þá miklu hagsmuni sem hann hafi af byggingu grjótvarnargarðsins sem framkvæmdir hans lúta að.  Bent sé á að staðhæfingar sóknaraðila í þessum efnum séu ekki studdar gögnum.  Af hálfu varnaraðila sé þessum staðhæfingum mótmælt sem ósönnuðum, en í öllu falli sé ljóst að hér sé allt orðum aukið um hina meintu miklu hagsmuni.  Því fari fjarri að framtíð byggðarlagsins eða einhverjir meiri háttar hagsmunir séu í húfi verði ekki af byggingu grjótvarnargarðsins þegar í stað líkt og sóknaraðili byggi á.

Þar fyrir utan hafi þessi sjónarmið enga þýðingu við úrlausn málsins.  Ástæða þess sé sú að það sé augljós munur á nauðsyn þess að byggja grjótvarnargarð og nauðsyn þess að nota til þeirrar byggingar verðmætt og fágætt grjót úr gabbrónámu varnaraðila.  Þetta tvennt séu tvö aðskilin atriði.  Ljóst megi vera að sóknaraðila sé mögulegt að nota annað ódýrara grjót til framkvæmdanna, sem hafi ekki hina fágætu eiginleika.  T.d. sé mögulegt að leita til annarra aðila og á aðra staði til grjótnáms, enda sé ljóst að ekki sé um neinn grjótskort að ræða annars staðar.  Í raun sé sá áhugi sem sóknaraðili sýni námu varnaraðila algjörlega óútskýrður þegar það liggi fyrir að nóg sé til af grjóti í grjótvarnargarðinn sem sækja megi annað.  Gangi áhugi sóknaraðila meira að segja svo langt að ekki verði séð að hann hafi yfirleitt beint fyrirspurnum til annarra aðila um verð á grjóti.  Það geti ekki verið nauðsynlegt að fremja þau verk í verðmætri námu varnaraðila sem sóknaraðili leggi á ráðin með.  Þannig megi vera ljóst, að algjörlega óháð nauðsyn sóknaraðila fyrir grjótvarnargarð, beri enga nauðsyn til að taka grjót úr námu varnaraðila í þágu framkvæmdanna.


Bent sé á að ef framkvæmdir við grjótvarnargarðinn séu komnar í sjálfheldu, sem raunar sé ósannað í málinu, sé þar fyrst og fremst við sóknaraðila sjálfan að sakast.  Svo virðist sem hann hafi ekki leitað fanga annars staðar um grjót í grjótvarnargarðinn.  Hefði það verið gert myndi væntanlega ekki vera um neinn vanda að ræða um þessar mundir vegna framkvæmdanna.  Vilji svo til að litið verði svo á að framkvæmdirnar séu komnar í sjálfheldu, sem eins og fyrr segir sé alls ósannað, sé það vegna sinnuleysis og vanrækslu sóknaraðila sjálfs sem hann verði sjálfur að axla ábyrgðina af.

Því sé mótmælt að fyrri dómsúrlausnir og matsgerðir hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins.  Frá því ágreiningur aðila vegna fyrra eignarnáms var til lykta leiddur hafi aðstæður um margt breyst.  Um það megi t.d. vísa til kaup- og leigusamnings varnaraðila.  Það sé ljóst að sprungumyndun í bergið vegna efnistöku sóknaraðila nú myndi stórskaða öll viðskipti varnaraðilans Ómars við varnaraðilann Rein sf. og hugsanlega útiloka töku efnis úr námunni til byggingaframkvæmda um ókomna tíð.  Þá sé ljóst að þær aðferðir sem varnaraðilinn Rein sf. beiti við efnistöku geti ekki farið saman við sprengingar í námunni og slíkar sprengingar skaði verulega möguleika Reinar sf. til hagnýtingar námunnar.  Staðhæfingum sóknaraðila um hið gagnstæða sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Í málatilbúnaði sóknaraðila komi fram að óánægja varnaraðila beinist gegn því verði sem þeir óttist að matsnefnd eignarnámsbóta komist að niðurstöðu um.  Þetta sé alrangt og reyndar ómögulegt að átta sig á af hverju sóknaraðili dragi þá ályktun. Óánægja varnaraðila beinist fyrst og fremst gegn því, sem ítrekað hafi komið fram, að hafin verði sprengivinna í námunni á grundvelli ógildra eignarnámsákvarðana, meðan sóknaraðili geti hæglega sótt grjót til framkvæmdanna annars staðar frá.  Hitt sé svo annað mál að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta þar sem trygging var ákveðin vegna umráðasviptingarinnar sýni svo ekki verður um villst að veruleg hætta sé á því að matsnefndin muni ekki fallast á réttmæt sjónarmið varnaraðila um matsverð grjóts, ef svo kynni að fara að sóknaraðila auðnaðist að taka það úr námunni.

Varðandi varakröfuna benda varnaraðilar á að í upphafi hafi þeim verið gerð tilboð af hálfu Siglingastofnunar um kaup á 25.000 rúmmetrum af grjóti.  Af einhverjum óútskýrðum ástæðum hafi sú tala breyst og sé hún nú orðin 30.000 rúmmetrar.  Ekki verði séð að nein ákvörðun hafi verið tekin um þessa magnaukningu. A.m.k. hafi aldrei verið gerð tilraun til að leita samninga vegna þessa aukamagns.  Hvernig sem málið fari að öðru leyti komi ekki til álita að úrskurða um heimild til meira en 25.000 rúmmetra grjóts.

Vilji svo til að dómurinn fallist á einhverjar kröfur sóknaraðila krefjist varnaraðilar þess að aðfararfrestur verði ákveðinn 14 dagar, eða sami frestur og þeir hafi til að kæra úrskurð í málinu til Hæstaréttar.  Einnig sé þess krafist að úrskurðað verði að kæra fresti framkvæmdum á grundvelli úrskurðarins.  Varnaraðilar telji ljóst að rétturinn sé þeirra megin í þessu máli. Málið varði mikilvægan eignarrétt þeirra sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Það sé eðlilegt að eign þeirra verði ekki af þeim tekin með aðför meðan þeir leiti leiða til að fá úrskurði í þessu máli hnekkt, gangi hann þeim í óhag.  Sérstaklega beri að hafa í huga í þessu samhengi þann stutta tíma sem rekstur kærumála fyrir Hæstarétti tekur almennt.

Um lagarök vísa varnaraðilar til aðfararlaga nr. 90/1989, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, 72. gr. stjórnarskrárinnar og almennra efnisreglna stjórnsýsluréttarins.  Um málskostnað vísa varnaraðilar til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989.  Loks vísa varnaraðilar um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV.

Niðurstaða

Af hálfu varnaraðila er í fyrsta lagi á því byggt að hafna beri kröfu sóknaraðila vegna þess hvernig hann hefur kosið að leggja málið fyrir dóminn.  Málatilbúnaður hans sé í andstöðu við aðfararlög nr. 90/1989.  Benda þeir m.a. á að lýsing á umbeðinni gerð sé ekki eins nákvæm og gera verði kröfu til samkvæmt 10. gr. aðfararlaga.  Tilgreining sóknaraðila á því hvar taka eigi grjótið bresti þann skýrleika sem lög áskilji.  Sóknaraðili hafi ekki gert varnaraðilum viðhlítandi grein fyrir hvaðan afla eigi grjótsins, t.d. með uppdrætti, heldur láti hann nægja að segja að krafist sé innsetningar í grjótnámu varnaraðilans Ómars til töku á nánar tilteknu magni af grjóti.  Ekki verður fallist á þessa málsástæðu varnaraðila þegar litið er til framsetningar kröfunnar á dómskjali nr. 1 og í ljósi þess að af gögnum málsins er ótvírætt að aðfararbeiðnin lýtur að því að sóknaraðila verði fengin umráð grjóts úr sömu námu og hann hafði áður tekið um 70.000 rúmmetra úr.  Getur varnaraðilanum Ómari ekki dulist við hvaða stað nákvæmlega átt auk þess sem gera verður þá kröfu til hans að hann upplýsi viðsemjanda sinn, varnaraðilann Rein sf., í hvívetna um að leitað hafi verið hófanna um frekari kaup á grjóti úr þessari tilteknu námu.  

Í annan stað benda varnaraðilar á að krafa sóknaraðila sé um innsetningu en ekki útburð og samkvæmt því virðist krafan miðast við það eitt að sýslumaður fjarlægi umbeðið magn grjóts úr námunni og afhendi það sóknaraðila.  Vafasamt verði að teljast að grjótið í námunni sé þess eðlis að það teljist hlutir sem verði fjarlægðir í skilningi 72. gr. aðfararlaga, enda um óaðskiljanlegan hluta fasteignarinnar að ræða.  Sóknaraðili byggir kröfu sína á 1. mgr. 78. gr. og 79. gr. aðfararlaga þar sem fram koma sérstök fyrirmæli um útburðar- og innsetningargerðir.  Í 72. gr. laganna er svo að finna reglur um útburð og 73. gr. sömu laga hefur að geyma reglur um innsetningargerðir.  Um skilin milli þessara greina er þess að geta að þau eru ekki einhlít því stundum er rætt um innsetningargerð og þar með tilvísun til 73. gr. þótt hún varði umráð yfir fasteign.  Virðist þetta helst geta komið upp í tilvikum þar sem ekki hefur beinlínis þurft að bera gerðarþola eða muni hans af eigninni.  Ljóst er að náman sem krafist er umráða yfir er hluti fasteignar og ekki er einboðið að við framkvæmdirnar, komi til þeirra, þurfi að koma til þess að bera þurfi varnaraðila eða lausafé þeirra af eigninni.  Að þessu aðgættu verður ekki séð að sóknaraðili hafi átt að setja kröfuna fram með öðrum hætti en hann hefur gert.  Verður kröfu sóknaraðila því ekki hafnað af þessari ástæðu.

Af hálfu varnaraðilans Reinar sf. hefur verið á það bent að sóknaraðili hafi kosið að beina aðfararbeiðninni gegn honum, enda þótt úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta frá 15. maí sl. hafi ekki beinst gegn honum og því beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu sóknaraðila.  Ljóst er að varnaraðilinn Rein er ekki aðili  því máli sem rekið er fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, enda lá það fyrir í bréfi til hans dagsettu 16. júní 1999 að matsmálinu yrði einungis beint að varnaraðilanum Ómari.  Í ljósi réttarsambands varnaraðilanna var sóknaraðila að mati dómsins rétt að beina aðfararbeiðni sinni einnig gegn varnaraðilanum Rein sf.  Verður kröfu sóknaraðila því ekki hafnað af framangreindri ástæðu.

Eins og að framan greinir byggir sóknaraðili kröfu sína á því að matsnefnd eignarnámsbóta hafi með úrskurði upp kveðnum 15. maí sl. heimilað honum umráð hins eignarnumda grjóts, enda þótt mati væri ekki lokið.  Ágreiningslaust er að eignarnámsheimild samkvæmt 16. gr. hafnalaga nr. 23/1994 er fyrir hendi.  Lýtur ágreiningur aðila einkum að því hvort skilyrði séu til að gerðin nái fram að ganga.  Deila þeir m.a. um hvort löglega hafi verið staðið að eignarnámsákvörðuninni af hálfu sóknaraðila og um gildi úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta frá 15. maí sl.  Kemur þar til skoðunar annars vegar hvort sóknaraðili hafi reynt til nægilegrar hlítar að ná samningum við varnaraðila um verð á því grjóti sem hann hugðist fá keypt eins og áskilið er í 16. gr. hafnalaga og hins vegar hvort sóknaraðili hafi staðið rétt að ákvörðun sinni um eignarnámið.

Eins og áður er að vikið fóru eingöngu fram bréfaskriftir um málið við varnaraðilann Ómar. Þá fóru bréfaskriftir og einn samningafundur fram við varnaraðilann Rein sf.  Varnaraðilinn Ómar vísaði málinu til varnaraðilans Reinar sf. og sem fyrr segir átti sér einn fundur sér stað með forsvarsmönnum fyrirtækisins og tilboðsgjöfum.  Virðast tilboðsgjafar hafa metið stöðuna svo að ekki þjónaði tilgangi að reyna frekari samningaviðræður.  Heldur sóknaraðili því fram að varnaraðilinn Rein sf. hafi ekki verið til umræðu um lægra verð en 200 krónur fyrir rúmmetrann og því hafi borið svo mikið í milli að frekari samningaviðræður væru tilgangslausar.  Fallast þykir mega á það með sóknaraðila að samningaumleitanir þær sem raktar hafa verið hafi leitt nægjanlega í ljós að svo mikið bæri í milli um kaupverð á grjótinu að ólíklegt væri að frekari viðræður gætu leitt til niðurstöðu.  Þá þykir mega líta svo á að fyrri viðræður við varnaraðilann Ómar í tengslum við hið fyrra eignarnámsmál skipti máli í þessu sambandi.  Í ljósi þessa verður að telja að fullnægjandi samningaumleitanir hafi átt sér stað milli aðila eins og áskilið er í 16. gr. hafnalaga og því verði kröfu sóknaraðila ekki hafnað af þeirri ástæðu.

Sem fyrr greinir byggja varnaraðilar á því að ekki hafi verið tekin lögmæt ákvörðun um að taka umþrætt grjót eignarnámi og því geti sú ákvörðun sem tekin var ekki verið grundvöllur meðferðar málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.  Eru helstu ástæður þess að varnaraðilar telja að ákvarðanir sóknaraðila ógildar þær að hafnarstjórn Hornafjarðar hafi ekki verið bær til að taka ákvörðun um eignarnám auk þess sem brotið hafi verið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu sömu laga.

Áður er að því vikið að með bréfi til matsnefndar eignarnámsbóta dagsettu 28. júní 1999 fór Sveinn Sveinsson hrl. þess á leit f.h. hafnarsjóðs Hornafjarðar að fram færi verðmat vegna eignarnáms á hinu umþrætta grjóti.  Var í því sambandi vísað til 4. gr. laga um framkvæmd eignarnáms annars vegar og 21. gr. hafnalaga hins vegar.  Var beiðnin tekin fyrir hjá matsnefnd eignarnámsbóta 23. júlí 1999.  Ljóst er að þegar beiðni þessi var sett fram við matsnefndina hafði ákvörðun hafnarnefndar sóknaraðila um eignarnám ekki verið tekin.   Varnaraðilinn Ómar mótmælti því þá að beiðnin yrði tekin fyrir og krafðist frávísunar málsins frá nefndinni, enda væri ekki til að dreifa ákvörðun um eignarnám eða a.m.k. ekki gildri ákvörðun þar um.  Var við svo búið óskað eftir fresti til framlagningar gagna er sýndu aðdragandann að eignarnámsákvörðuninni.  Málinu var að svo búnu frestað til 9. ágúst s.á.  Eftir að frestur þessi hafði verið veittur var haldinn fundur í hafnarstjórn sóknaraðila 26. júlí 1999.  Á fundinum var samkvæmt því sem fram kemur í fundargerð tekin ákvörðun um að taka hið umþrætta grjót eignarnámi.  Þessi bókun var svo lögð fram á fundinum hjá matsnefnd eignarnámsbóta 9. ágúst 1999 ásamt frekari gögnum.  Á fundinum var einnig lögð fram bókun af hálfu varnaraðilans Ómars þar sem krafa um frávísun málsins frá nefndinni var ítrekuð og bent á að hafnarstjórn Hornafjarðar hefði engar heimildir til töku ákvörðunar um eignarnám, málsmeðferðarreglur hefðu verið brotnar við töku ákvörðunarinnar og fleira.  Beindust mótmælin m.a. að því að hafnarstjórn hefði að lögum enga heimild til töku ákvarðana um eignarnám í þágu hafnargerðar, varnaraðilum hefði ekki verið tilkynnt um að fyrirhugað væri að taka þessa ákvörðun og enn síður hafi þeim verið gefinn kostur á að skýra sjónarmið sín fyrir sveitarstjórn, engin málsmeðferð hafi yfirleitt farið fram áður en ákvörðun var tekin.  Þá hafi varnaraðilum ekki verið tilkynnt þessi ákvörðun fyrr en nokkru síðar.  Með úrskurði nefndarinnar upp kveðnum 20. s.m. var frávísunarkröfunni hafnað, einkum með vísan til þröngs hlutverks nefndarinnar.  Hið næsta sem gerðist í málinu er að þann 2. september 1999 var haldinn fundur í sveitarstjórn Hornafjarðar þar sem borin var upp og staðfest ákvörðun framangreind ákvörðun hafnarstjórnar.  Með stjórnsýslukæru dagsettri 3. s.m. kærði varnaraðilinn Ómar svo málsmeðferð hafnarstjórnarinnar til samgönguráðherra sem lauk upp úrskurði á stjórnsýslukæruna 24. mars 2000.

Að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að samningaumleitanir hafi verið fullreyndar.  Á hinn bóginn verða þær bréfaskriftir sem raktar hafa verið ekki skildar öðruvísi en svo að í þeim hafi falist fyrirætlun um að taka umþrætt grjót eignarnámi.  Má í því sambandi einkum vísa til bréfs Sveins Sveinssonar hrl. til varnaraðilans Reinar sf. á dómskjali nr. 19 og bréfs sama lögmanns til varnaraðilans Ómars á dómskjali nr. 20.  Þykir mega miða við að á þeim tímapunkti hafi legið fyrir að fyrirhugað væri að taka hið umþrætta grjót eignarnámi. 

Í 16. gr. hafnalaga nr. 23/1994, sbr. 26. gr. laga nr. 7/1996, er mælt fyrir um að náist ekki samkomulag skuli ákveða bætur með mati samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.  Ákvörðun um að beita eignarnámi í máli þessu er stjórnsýsluákvörðun sem heyrir undir stjórnsýslulög, enda er skýrt kveðið á um það í 1. gr. laganna að þau taki til stjórnsýslu sveitarfélaga.  Byggir sóknaraðili og á því að farið hafi verið að þeim lögum í hvívetna. 

Varnaraðilar halda því aftur á móti fram að ekki sé til að dreifa gildri eignarnámsákvörðun sem geti verið grundvöllur málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.  Er í því sambandi í fyrsta lagi bent á að ákvörðun hafnarstjórnar Hornafjarðar frá 26. júlí 1999 um að taka umþrætt grjót eignarnámi sé ógild sökum þess hún hafi ekki verið til þess að taka ákvörðun þessa.  Benda varnaraðilar á að samkvæmt 14. gr. hafnalaga sé frumkvæði að hafnargerð hjá eiganda hafnar og framkvæmdir á ábyrgð hans.  Af 3. grein sömu laga verði ráðið að sveitarfélög teljist eigendur hafna samkvæmt lögunum.  Ákvörðun um eignarnám í þágu hafna sé meiriháttar og sérstök ákvörðun sem ætlað sé að skerða stjórnarskrárvarin eignarréttindi borgaranna.  Í almennu umboði undirnefnda sveitarstjórna geti ekki falist vald til að taka slíka ákvörðun.  Af því leiði að viðkomandi sveitarstjórn sé sá aðili sem taki ákvörðun um eignarnám skv. 16. gr. laganna.  Staðfesting sveitarstjórnar sóknaraðila á ákvörðun sóknaraðila sé því ógild af tveimur ástæðum.  Í fyrsta lagi vegna þess að staðfesting af hendi æðra stjórnvalds geti aldrei ljáð ákvörðun sem er ógild gildi.  Í staðfestingunni hafi ekki falist sjálfstæð afstaða, þannig að ef ákvörðun sem er staðfest er ógild þá gildi hið sama um staðfestinguna.  Í annan stað sé staðfesting sveitarstjórnar sem stjórnvaldsákvörðun háð þeim annmörkum að með töku ákvörðunarinnar hafi m.a. verið brotið gegn málsmeðferðarreglu stjórnsýslulaga.

Í þessu sambandi kemur til skoðunar hlutverk hafnarstjórna.  Um það segir í 4. gr. laganna að hafnarstjórn sem kosin sé af eigendum hafnar skuli hafa á hendi stjórn hafnar og hafnarsjóðs í samræmi við reglugerð.  Í 3. gr. segir síðan að eigendur hafna samkvæmt lögum þessum séu sveitarfélög.  Í 14. gr. er svo mælt fyrir um að frumkvæði að hafnargerð sé hjá eiganda hafnar og framkvæmdir á ábyrgð hans.  Þá segir í 5. gr. að ráðherra setji samkvæmt lögum þessum og að fengnum tillögum eigenda hafna reglugerð fyrir hafnir þar sem m.a. skuli kveðið á um valdsvið hafnarstjórnar.  Núgildandi reglugerð um hafnamál nr. 232/1996.  Í 11. gr. hennar segir að hafnarframkvæmdir séu á ábyrgð eiganda hafnar.  Í II. kafla hafnarreglugerðar nr. 65/1970 fyrir Hafnarkauptún, sem enn er í gildi, er fjallað um stjórn hafnarinnar.  Þar segir í 2. gr. að hreppsnefnd Hafnarhrepps hafi á hendi stjórn hafnarmála undir stjórn þess ráðuneytis sem fer með hafnamál.  Í 3. gr. reglugerðarinnar er svo fjallað um hafnarnefnd.  Segir í 2. mgr. að hafnarnefnd annist alla framkvæmd hafnarmála og hafi á hendi eftirlit með höfninni, sjái um viðhald og umbætur og stýri framkvæmdum.   

Fallast ber á það með varnaraðilum að ákvörðun um eignarnám í þágu hafna sé meiriháttar og sérstök ákvörðun, enda felur hún í sér skerðingu stjórnarskrárvarinna eignarréttinda.  Verður að telja að í almennu umboði sveitarstjórna felist vald til töku slíkra ákvarðana.  Leiðir af þessu að viðkomandi sveitarstjórn sem eigandi hafnar er ein til þess bær að taka svo viðurhlutamikla ákvörðun.

Kemur þá til skoðunar hvort slík ákvörðun hafi verið tekin.  Eins og áður hefur komið fram kom málið til kasta sveitarstjórnar Hornarfjarðar á fundi 2. september 1999 að undangenginni ákvörðun hafnarstjórnar 26. júlí s.á.  Var málið lagt fyrir með þeim hætti að eftir að bæjarstjóri hafði gert grein fyrir þeirri ákvörðun hafnarstjórnar að fara fram á úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta varðandi efnistöku úr námu varnaraðilans Ómars var bókun hafnarstjórnar borin upp til staðfestingar og samþykkt.  Ekki liggur annað fyrir en þetta séu einu afskipti sveitarstjórnarinnar af eignarnáminu.  Samkvæmt því var ekki um eiginlega ákvörðun að ræða af hálfu sveitarstjórnarinnar, heldur einungis staðfestingu á ákvörðun undirnefndar hennar.  Í þessu sambandi verður að hafa í huga að ákvörðun um eignarnám er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og verður þegar svo er ástatt að gera enn strangari kröfur til viðkomandi stjórnvalds að gæta ítrustu málsmeðferðarreglna.  Gat staðfesting sveitarstjórnar sóknaraðila á ákvörðun hafnarnefndar því ekki ljáð henni gildi.  Að því frágengnu liggur fyrir að hvort heldur sem var sveitarstjórn eða hafnarstjórn sóknaraðila bar að tilkynna varnaraðilum um að hann hygðist taka ákvörðun um að taka grjótið eignarnámi og gefa þeim kost á að gæta andmælaréttar áður en ákvörðunin yrði tekin.  Þetta lét sóknaraðili hjá líða.  Áttu varnaraðilar þess því ekki kost að gæta hagsmuna sinna.  Braut sóknaraðili með því gegn 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt öllu framansögðu verður að telja að sóknaraðili hafi ekki gætt eðlilegs undirbúnings við jafn mikilvæga og íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og hér um ræðir.  Leiðir það til þess að sóknaraðili hefur lagt ógilda ákvörðun fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, en það leiðir aftur til þess að ákvörðun matsnefndarinnar um að heimila sóknaraðila umráð umþrætts grjóts er einnig ógild.  Verður niðurstaða málsins því sú að synja ber um framgang aðfararbeiðninnar.

Rétt þykir að sóknaraðili greiði varnaraðilum 400.000 krónur í málskostnað.

Júlíus B. Georgsson, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Úrskurðarorð:

Hin umbeðna gerð skal ekki ná fram að ganga.

Sóknaraðili, Sveitarfélagið Hornafjörður, greiði varnaraðilum, Ómari Antonssyni og Rein sf., 400.000 krónur í málskostnað.