Hæstiréttur íslands

Mál nr. 367/2003


Lykilorð

  • Fiskveiðibrot
  • Vigtun sjávarafla


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. febrúar 2004.

Nr. 367/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Karli Óskari Geirssyni

(Andri Árnason hrl.)

 

Fiskveiðibrot. Vigtun sjávarafla.

K var sakfelldur fyrir brot gegn 9., sbr. 23. gr., laga nr. 57, 1996 um umgengni um nytjastofna sjávar með því að hafa vanrækt þá skyldu sína að halda afla aðgreindum og láta vigta hverja tegund sérstaklega. Þótti refsing K hæfilega ákveðin 450.000 króna sekt til ríkissjóðs.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði eins væg og lög leyfa.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og greiðslu sakarkostnaðar. Að virtu ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður jafnframt staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Karl Óskar Geirsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. júlí 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 2. júlí s.l., hefur lögreglustjórinn á Húsavík höfðað með ákæruskjali, útgefnu 3. desember 2002 á hendur Karli Óskari Geirssyni, [...]:

„Fyrir brot á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og reglugerð um vigtun sjávarafla nr. 522/1998, með því að hafa miðvikudaginn 11. desember 2001, þegar ker með afla úr skipi ákærða, Keili SI-145, ssnr. 1420, voru vigtuð á Húsavík, vanrækt þá skyldu sína að halda afla aðgreindum og láta vigta hverja tegund sérstaklega.  Gaf hann upp að aflinn samanstæði af sandkola og skrápflúru, en í ljós kom er starfsmenn Fiskistofu athuguðu kerin er þau höfðu verið flutt til Sandgerðis, að aflinn í þeim var ekki samkvæmt flutningsnótum.  Við vigtun á hafnarvog á Húsavík og samkvæmt flutningsnótum var aflinn:  Sandkoli 902 kg og skrápflúra 475 kg.  Hins vegar þegar aflinn var vigtaður í Sandgerði reyndist hann vera:  Sandkoli 612 kg, Skrápflúra 438 kg og Skarkoli 232 kg.  Hafði lag af sandkola verið lagt ofan á afla blandaðan með skarkola, í þeim tilgangi að komast hjá því, að skarkolinn reiknaðist með réttum hætti til aflamarks.

Telst þetta varða við 1. mgr. 9. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 57/1996, 1. mgr. 2. gr., sbr. 44. gr. reglugerðar nr. 522/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Af hálfu skipaðs verjanda er þess aðallega krafist að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdir til vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun.

 

I.

Málavextir.

1.          Samkvæmt rannsóknargögnum eru málsatvik þau að þann 11. desember 2001, landaði ákærði Karl Óskar úr báti sínum Keili SI-145 í Húsavíkurhöfn.  Samkvæmt gögnum frá Hafrannsóknarstofnun sem byggð eru á afladagbók skipstjórans, ákærða í máli þessu, var áætlaður afli úr veiðiferðinni sem hér segir:  Skata 826 kg, skarkoli 195 kg, sandkoli 1375 kg og skrápflúra 1213 kg. 

Samkvæmt vigtarnótum Húsavíkurhafnar hófst löndun úr Keili SI-145 nefndan dag laust eftir kl. 13:00 og var afli bátsins sem hér segir:

Skrápflúra 975 kg, (2 kör), þorskur 15 kg (1 kar), sandkoli 902 kg (2 kör), skarkoli 50 kg (2 kör) og tindaskata 873 kg (2 kör).

Á vigtar- og flutningsnótum Húsavíkurhafnar, er tiltekið að kaupendur aflans hafi verið fjögur nafngreind fyrirtæki.  Skiptist aflinn á milli þeirra, sem hér segir:

A h.f. á Húsavík:                     Skrápflúra 500 kg (1 kar) og þorskur 15 kg (1 kar), 2

                                                  vigtanir.

Umbrot ehf, Keflavík:             Sandkoli 902 kg (3 kör) og skrápflúra 475 kg (1 kar), 3

                                                  vigtanir.

                                                  Samtals 1377 kg.

B h.f. Reykjavík:                      Skarkoli 87 kg (2 kör), 1 vigtun.

C h.f. Dalvík:                            Tindaskata 873 kg (2 kör), 1 vigtun.

 

Upplýst er í málinu að eftir að framangreindum afla hafði verið ekið yfir hafnarvogina á Húsavík og fiskkörunum raðað á hafnarsvæðið hafi sá hluti aflans sem fara átti til kaupanda í Reykjavík og á Suðurnesjum verið færður í flutningabifreið flutningafyrirtækisins A ehf. og aflanum í framhaldi af því ekið í Vöruflutningamiðstöðina í Reykjavík.  Þá hafi sá hluti aflans sem seldur hafði verið til Umbrots ehf. í Keflavík verið fluttur með flutningafyrirtækinu Lífæð til Fiskiþjónustunnar ehf. í Sandgerði þar sem stærðarflokkun aflans skyldi fara fram.  Samkvæmt gögnum málsins var aflinn kominn inn á gólf fyrirtækisins að kveldi 12. desember 2001.

Fyrir liggur að sama dag og Keilir SI-145 landaði framangreindum afla á Húsavík var einnig landað úr bátnum [Z] og hófst löndunin um kl. 16:20.  Var hluti aflans seldur áðurgreindu fyrirtæki Umbroti ehf. og var hann fluttur á sama hátt og afli Keilis SI-145.  Samkvæmt vigtunar- og flutningsnótum Húsavíkurhafnar var um að ræða sandkola 2240 kg (7 kör) og skrápflúru 630 kg (1 kör) samtals 2870 kg.

 

Samkvæmt skýrslu veiðieftirlitsmannanna AG og SH komu þeir í starfsstöð Fiskiþjónustunnar ehf. að Strandgötu 14 í Sandgerði þann 12. desember 2001 kl. 21:15.  Í skýrslu þeirra er greint frá því að framkvæmdastjóri fyrirtækisins, vitnið GG, hafi upplýst að afli frá áðurgreindum bátum, Keili SI-145 og [Z] hefði borist fyrirtækinu skömmu áður og voru veiðieftirlitsmönnunum sýndar áðurnefndar vigtar- og flutningsnótur frá Húsavíkurhöfn því til staðfestu.  Í skýrslu veiðieftirlitsmanna segir síðan:

„Þegar eftirlitsmenn fóru að skoða aflann í fiskkörunum kom fljótlega í ljós að í tveimur körum af afla [Z] var aðeins þunnt lag af sandkola efst, vel ísað og frágengið, en undir var eingöngu koli.  Sami háttur var á frágangi í einu kari af afla Keilis SI-145, þar var aðeins þunnt lag af sandkola efst, vel ísaður og frágenginn, en síðan eingöngu koli.  Kl. 21:35 var lögreglan í Sandgerði kölluð á vettvang.  Það var lögreglumaðurinn HÓ sem hafði orð fyrir þeim og JAK nr. 9020.  Þeim var sýnt hvernig frágangi aflans var háttað.  Að höfðu samráði við lögreglu og GG vigtarmann (framkvæmdastjóra) var það ákveðið að aflinn yrði vigtaður og flokkaður strax að morgni daginn eftir þar sem aðeins tveir menn voru að vinna þetta kvöld, en það tók sjö manns u.þ.b. klukkustund að handflokka aflann.  Ekki er um endurvigtun að ræða, aðeins flokkun og vigtun.  Í þessu umrædda tilviki var aflinn handflokkaður, þar sem afli var mjög blandaður í körunum.  Við eftirgrennslan á Húsavíkurhöfn upplýsti SS löggiltur vigtarmaður að lyftaramaður frá flutningafyrritæki A hefði ekið aflanum á hafnarvogina og gefið upplýsingar um innihald karanna eftir upplýsingum frá skipstjórum viðkomandi báta.“

Samkvæmt vigtunarvottorði Fiskiþjónustunnar ehf., sem samkvæmt gögnum málsins hafði leyfi til endurvigtunar, var framangreindur afli Keilis SI-145 vigtaður þann 13. desember 2001, líkt og lýst er í ákæruskjali, og var aflasamsetningin þannig:  Skrápflúra 438 kg, sandkoli 612 kg og skarkoli 232 kg.

Samkvæmt vottorði sama fyrirtækis reyndist afli bátsins [Z] við endurvigtun sem hér segir:  Skrápflúra 988 kg., sandkoli 1212 kg og skarkoli 317 kg.

 

Skýrsla HÓ lögreglumanns í Keflavík, sem dagsett er 12. desember 2001, er í samræmi við ofangreinda skýrslu fiskeftirlitsmanna Fiskistofu.

 

2.          Samkvæmt bréfi Fiskistofu, sem dagsett er 11. janúar 2002, var ákærða í máli þessu svo og útgerðaraðila Keilis SI-145, gerð grein fyrir ofangreindum málsatvikum.  Er í bréfinu það álit látið í ljós að með nefndu athæfi hafi verið ætlunin að skjóta:   „… skarkola framhjá vigt, í þeim tilgangi að skarkolaafli Keilis SI-145 yrði ekki skráður í aflaskráningakerfi Fiskistofu og dragist þar með frá aflamarki skipsins í skarkola.“  Í bréfinu er tekið fram að áður en ákvörðun yrði tekin „hvort að málið yrði kært til lögreglu og/eða hvort og þá til hvers langs tíma Keilir SI-145 yrði sviptur leyfi til að veiða í atvinnuskyni, væri útgerðaraðila gefinn kostur á að koma fram með athugasemdir.“  Samkvæmt gögnum málsins svaraði ákærði og andmælti ályktunum Fiskistofu og staðhæfði að hann hefði enga vitneskju haft um blandaðan afla í fiskkörum, en vísaði til þess að hugsanlega hefðu orðið mistök við flutning aflans og/eða við merkingu fiskkaranna.  Með bréfi dagsettu 6. febrúar 2002 tilkynnti Fiskistofa útgerðarfélagi ákærða þá ákvörðun að svipta Keili SI-145 leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur frá og með 13. febrúar 2002.

Samkvæmt gögnum málsins var áðurgreind skýrsla lögreglunnar í Keflavík send lögreglustjóranum á Húsavík og var ákærði í framhaldi af því yfirheyrður um kæruefnið þann 29. janúar 2002.  Ákærði neitaði kæruefninu, líkt og fyrir dómi.  Við rannsókn málsins hjá lögreglu voru yfirheyrðir sem vitni, GS bifreiðastjóri og BB lyftaramaður, báðir starfsmenn flutningafyrirtækisins A ehf. á Húsavík.

 

3.          Framburður ákærða og vitna.

Ákærði, Karl Óskar Geirsson, skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði gert út dagróðrabátinn Keili SI-145 árið 2001 og jafnframt verið skipstjóri.  Kvaðst hann hafa leigt bátinn, ásamt kvóta, og bar að þ.ám. hefðu verið 15 tonn af skarkola.  Ákærði bar að sandkoli og skrápflúra hefðu verið utan kvóta og af þeim sökum hefði hann lagt áherslu á að veiða þær tegundir, en reynt að hafa skarkolann sem meðafla.  Ákærði staðhæfði að yfirleitt hefðu aðeins veiðst um 30-40 kg af skarkola í veiðiferð og af þeim sökum hefði það stundum gerst að skarkolaaflinn hefði verið geymdur um borð í bátnum á milli veiðiferða.  Vísaði ákærði til þess að mun hærra verði hefði fengist fyrir skarkolann heldur en áður nefndar fisktegundir.

Fyrir dómi lagði ákærði á það áherslu að hann hefði brýnt fyrir áhöfn sinni að halda fisktegundum aðgreindum og lýsti almennum vinnubrögðum um borð.  Vísaði ákærði til þess að vegna smæðar bátsins hefði aflinn strax verið aðgreindur á dekki og settur í körfur, sem síðan hefði verið hellt niður um rennur og í viðeigandi fiskkör „og það var alltaf maður niðri í lest sem tekur við og gengur frá og ísar“.  Ítrekaði ákærði að hann hefði aldrei haft vitneskju um að mistök hefðu orðið á frágangi aflans í lestinni.

Ákærði bar að við löndun aflans í Húsavíkurhöfn þann 11. desember 2001, hefði hann verið á bryggju og tekið við fiskkörunum jafnóðum og þau komu upp úr lestinni og því heyrt í hverju tilviki um hvaða fisktegund væri að ræða.  Lýsti hann þessu þannig:  „Við erum kannski með tvö kör í einu sem við hífum og þá merkir maður bara efra karið, það stóð bara Keilir og stafirnir á bátnum og svo kannski kaupandinn, Umbrot ehf., fyrir neðan og ekkert annað og ég sagði bara þeim sem var á lyftaranum hvaða tegund fiskjar um var að ræða, það stendur aldrei á miðunum hvaða tegund er í karinu … vigtarmaður fer aðeins með eina fisktegund í kari í einu yfir hafnarvigtina og þá stundum með 2-3 kör, ef um sömu tegund fiskjar er að ræða … ég bara segi lyftaramanninum hvað er í hverju kari og hann þarf að segja það á hafnarvog þegar hann keyrir körin yfir vigt og ef það eru margir bátar að landa þá raðar hann þeim þangað til að það er búið að landa úr þeim … og í þessu tilfelli var skipið [Z] að landa afla … og síðan fer hann að græja bílinn ásamt bílstjóranum.  Bifreiðin losar síðan farminn á Umferðarmiðstöðinni og þá kemur einhver bíll frá Keflavík og tekur þessi kör og í þessu tilfelli suður í Sandgerði.“

Fyrir dómi skýrði ákærði frá því að við framangreinda löndun hefði hann sjálfur merkt körin með tússi, en aðeins merkt efsta fiskkarið ef um fleiri kör var að ræða með sömu fisktegund, neðri körin hefðu því verið ómerkt.  Ákærði kvaðst ekki hafa fylgst með meðferð fiskkaranna eftir að hann hafði tilkynnt lyftaramanni um innihald þeirra.

Fyrir dómi hafði ákærði ekki uppi athugasemdir við þann mismun á kílóafjölda er fram kom við vigtun á hafnarvog á Húsavík þann 11. desember 2001, miðað við vigtun Fiskiþjónustunnar 13. sama mánaðar og vísaði til þess að skýringin gæti verið ís.

Ákærði staðhæfði fyrir dómi að það hefði margoft gerst að kör hefðu ruglast við flutning og var það ætlan hans að það hefði einmitt gert í þessu tilviki.  Vísaði ákærði til þess að nefndan dag hefðu fiskkör frá bátnum [Z] farið í sömu sendingu og kör úr hans báti.  Ákærði hafði hins vegar enga skýringu á skýrslu veiðieftirlitsmanna um að fiskkar með blönduðum afla hefði verið merkt Keili SI-145, en bar að eftir að mál þetta kom upp hefði hann bætt merkingu karanna.

 

Vitnið BB lyftaramaður, fæddur 1966, greindi frá því fyrir dómi að það hefði haft þann starfa við Húsavíkurhöfn að aka fiskkörunum á lyftara eftir að þau höfðu verið hífð úr bátum á hafnarvogina.  Vitnið lýsti starfi sínu á þann veg að hann tæki við fiskkörunum á bryggjunni og raðaði þeim upp eftir fisktegundum, allt eftir frásögn skipstjóra „það eru ekki alltaf öll körin sem koma á bryggjuna af sömu sort … og þeir hafa merkt körin sjálfir, kaupanda og nafni bátsins … þeir skrifa ekki hvaða tegund er í hverju kari á miðana, heldur bara hver er kaupandi og bátsnafnið … eins og þetta var þarna þá stingur skipstjórinn miðanum ofan í karið og ég raða þeim upp eftir sortum af því að ég klára alltaf hverja (fisk) sort áður en ég byrja á næstu … og eins og í þessu tilfelli er ég alltaf í beinu sambandi við (ákærða) Karl, hann segir til um hvaða tegund er að ræða og ég skoða því ekki sjálfur aflann í körunum“.

Vitnið skýrði frá því að eftir að hafa fengið framangreindar upplýsingar hefði það ekið hverri fisktegund fyrir sig yfir hafnarvigtina og tilkynnt um leið vigtarmanni í talstöð um hvaða tegund var að ræða, en síðan raðað körunum til hliðar.  „Eftir kaupendum og bátum … og svo erum við með vigtarnótur og gerum fylgibréf eftir vigtarnótunum, hvað það eru mörg kör á þennan og þennan kaupanda og við röðum inn (flutninga) bílinn eftir þessu, eftir hverjum stað fyrir sig og bílstjórinn er á staðnum og er meðvitaður um það sem við erum að gera … og við göngum frá þeim  inn í bílinn eftir kaupendum og bátum, alltaf með skil á milli, röðum þeim alltaf þannig upp að það eigi ekki að geta ruglast.“

Vitnið ítrekaði að venjan hefði verið sú að skipstjórinn merkti öll körin, en ekki aðeins efsta karið ef 2-3 kör voru í stæðu.  Vitnið minntist þess ekki að kör hefðu „ruglast á milli kaupanda og ég hef ekki fengið kvörtun um það“.

 

Vitnið SS, hafnarvörður, fæddur 1955, lýsti fyrir dómi uppskipun á afla í Húsavíkurhöfn á þá leið að lyftari æki fiskkörum á hafnarvogina og þaðan að flutningabifreið.  Vitnið bar að á þeim tólf árum sem það hefði starfað við hafnarvogina hefði í tvígang komið fram misræmi við vigtun afla.  Vitnið bar að í bæði skiptin hefði það strax verið leiðrétt við höfnina með samanburði á vigtunarnótum.  Vitnið kannaðist við að í eitt skipti hefði orðið ruglingur á milli báta vegna fiskkars með skarkolaafla, en bar að það hefði verið leiðrétt um síðir.

Vitnið kvað það hafa verið vinnureglu í desember 2001 að fiskkör fiskibáta hefðu verið merkt með því að setja sérstaka miða ofan í körin, en bar að það hefði oft gerst að miðarnir féllu út úr körunum.  Með hertu eftirliti hefði því verið tekinn upp sá háttur að merkja körin með límmiðum.

Vitnið staðfesti fyrir dómi að þann 11. desember 2001 hefðu tveir bátar landað í Húsavíkurhöfn, Keilir SI-145 og báturinn [Z].

 

Vitnið GB flutningabílstjóri, fæddur 1964, kvaðst fyrir dómi ekki sérstaklega minnast löndunar á umræddum afla í Húsavíkurhöfn þann 11. desember 2001.  Vitnið staðhæfði hins vegar að vinnubrögð á þeim tíma hefðu verið á þá leið að það hefði tekið á móti fiskkörum frá lyftaramanni eftir vigtun á hafnarvog.  Vitnið staðhæfði að ávallt hefði verið miði á hverju kari „með nafni bátanna og kaupanda“.  Vísaði vitnið til þess að oft hefðu margir kaupendur að afla verið í hverri ferð og því hefði körunum verið raðað í bílana í samræmi við það.  Vitnið minntist þess ekki að ruglingur hefði komið upp varðandi fiskkör eða einstaka fiskkaupendur.  Vitnið kvaðst heldur ekki hafa heyrt að ruglingur hefði komið fram hjá öðrum flutningabílstjórum fyrirtækisins A ehf. og þ.á m. ekki frá vitninu SK.  Við affermingu fiskfarma í Reykjavík kvað vitnið það ýmist að aflanum hefði verið ekið beint á markað eða að kaupendur hefðu komið og sótt þau fiskkör sem þeir höfðu keypt.

 

Vitnið SK flutningabílstjóri, fæddur 1947, kvaðst hafa haft þann starfa árið 2001 að flytja fiskfarma frá Húsavík til kaupanda, m.a. í Reykjavík og á Suðurnesjum.  Vitnið bar að það fyrirkomulag hefði verið á þessum flutningum að skipstjórar á Húsavík hefðu sett miða með nafni bátanna ofan í fiskkörin „miðinn aðeins fargaður, settur undir ís eða einhvern fisk, með nafni viðkomandi báts og kaupanda“.  Vitnið kvað hvert kar auk þess hafa verið með sérstaka merkingu, þá hefðu fylgibréf verið með aflanum.  Vitnið kvaðst þekkja dæmi þess að þrátt fyrir nefnt vinnulag hefði komið fram ruglingur við farmflutninga og nefndi eitt dæmi um kar er hefði týnst um tíma en síðan fundist í Þorlákshöfn.  Varðandi flutning á fiskkörum Keilis SI-145 þann 11. desember 2001 bar vitnið, eftir að hafa gætt að dagbók, að það hefði ekki komið að framhaldsflutningi aflans í Reykjavík, enda hefði flutningafyrirtækið Lífæð venjulega annast flutning fiskjar til Suðurnesja.

 

Vitnið EJ framkvæmdastjóri Umbrots ehf. kvaðst hafa hafið viðskipti við ákærða vorið 2001 og aðallega keypt tindabikkju, sandkola, skrápflúru, en stundum skarkola.  Vitnið kvað þann hátt hafa verið á þessum viðskiptum, að þar sem ákærði hefði verið með bátinn Keili SI-145 á leigu, að er hann veiddi kvótatengdar tegundir hefði það keypt kvóta fyrir eiganda bátsins, en síðan innheimt kvótaleiguna og skráð það á svokallaða afreikninga.

Vitnið kvaðst hafa keypt hluta af afla Keilis SI-145 þann 11. desember 2001, en einnig hluta af afla bátsins [Z], alls um 15-20 kör.  Vitnið kvaðst hafa samið við Fiskþjónustuna ehf. í Sandgerði um að stærðarflokka aflann og endurvigta ef á þyrfti að halda.  Vitnið kvaðst aldrei hafa séð fiskkör Keilis SI-145 og því ekki haft vitneskju um merkingu þeirra.  Vísaði vitnið til þess að það hefði treyst flutningafyrirtækjum til að koma aflanum til skila.  Vitnið minntist þess ekki að hafa heyrt af því að afli hefði verið blandaður í kerjum, og þ.á.m. ekki frá Keili SI-145.

Vitnið greindi frá því fyrir dómi að yfirleitt hefði sandkoli verið ódýrari fiskur en skarkoli og munaði þar 20-30 kr. á kíló.  Vitnið bar að þetta hefði þó verið árstíðarbundið og minntist þess að í desember 2002 hefði verðið verið nokkuð jafnt, en á árinu 2001 hefði verð á skarkola verið frekar lágt.

 

Vitnið GG, fyrrverandi framkvæmdastjóri Fisk-þjónustunnar ehf., greindi frá því fyrir dómi að fiskieftirlitsmenn hefðu komið á starfstöð fyrirtækisins að kveldi 12. desember 2001 „og vildu fá að sjá afla af tveimur bátum Keili og [Z], og þeir fara að gramsa í aflanum og sáu þá að það var skrápflúra efst og skarkoli undir, þeir kölluðu til lögreglu og létu okkur síðan hella úr körunum til að skoða betur hvernig aflasamsetningin væri … það var svona 15-20 cm. lag af skrápflúru ofan á 3-4 körum af skarkola, en samkvæmt vigtarnótum átti þetta bara að vera skrápur og eitthvað pínulítið af sandkola, en það reyndist vera skrápur, sandkoli og skarkoli … þetta var ekki venjan.  Í körunum voru miðar frá bátunum, þannig að það fór ekkert á milli mála og kílóafjöldinn stemmdi við vigtarnóturnar frá höfninni … það voru öll körin nema  tvö merkt Keili SI-145 og bátnum [Z], og í öðru karinu var slatti, það var skrápur eða sandkoli og það var alveg hreint og ekkert blandað í því, en hitt karið var blandað.“

Vitnið kvað umrædd fiskkör bátanna Keilis SI-145 og [Z] hafa komið með flutningabifreið í starfsstöð fyrirtækisins og bar að þau hefði verið færð inn á mitt gólf, um tveimur til þremur klukkustundum fyrir komu fiskieftirlitsmannanna.  Vitnið staðhæfði að ekkert hefði verið átt við körin áður en þeir hófu athugun sína.  Vitnið bar að fyrir í húsinu hefði einungis verið lítið magn af þorski.  Vitnið kvað verkefni fyrirtækisins hefði aðeins átt að vera að stærðarflokka aflann fyrir kaupanda, en ekki að endurvigta hann og vísaði til þess að vigtunarnótur frá hafnarvog hefðu fylgt aflanum, … „en þegar það kom í ljós að það var skarkoli í körunum þá fór Fiskistofa fram á það að við myndum endurvigta fiskinn til að vita nákvæmlega hvað væri mikið af fiski í körunum og af hverri tegund fyrir sig.“  Vitnið bar að endurvigtun aflans hefði farið fram daginn eftir, 13. desember, en um þann mismun sem þá kom fram miðað við vigtun aflans á hafnarvog á Húsavík, vísaði það til þess að ísprósentan gæti verið allt frá 3% og upp í 20%.

 

Vitnið KK, kvaðst hafa verið á sjó með föður sínum, ákærða í máli þessu, í desember 2001.  Vitnið kvaðst m.a. hafa unnið í lest Keilis SI-145 og andmælti því að sandkoli eða skrápflúra hefði verið sett yfir skarkola.  Vitnið bar að útilokað hefði verið að slíkt hefði getað gerst fyrir handvömm.

 

Vitnið GR, fæddur 1970 kvaðst hafa verið á sjó með ákærða í desember 2001 og bar að allur fiskur um borð hefði verið flokkaður eftir tegundum.  Vitnið kvaðst stundum hafa verið að störfum í lestinni og bar að þar hefðu verið mikil þrengsli og erfið vinnuaðstaða.  Fyrir dómi kannaðist vitnið ekki við að sandkoli eða annar fiskur hefði verið settur yfir skarkola í fiskkörum bátsins.

 

Vitnið ÞB, skipstjóri fæddur 1972, kvaðst hafa verið með ákærða til sjós á Keili SI-145 í desembermánuði 2001.  Vitnið bar að ákærði hefði haft strangar reglur um að halda fisktegundum aðskildum í körfum á dekki.  Vitnið bar að einn háseti hefði verið hafður í lest til að taka við aflanum, er hefði verið hellt niður um rennu og ofan í kör „það voru settar tvær körfur og svo ís yfir, það var reglan.“  Vitnið bar að tilteknir erfiðleikar hefðu skapast þegar mikill afli kom um borð og lýsti það ástandinu þannig:  „Það er kannski búið að fylla kar af skráp og það er sandkoli þar fyrir framan, þetta getur alltaf sullast til fram og til baka á milli kerja ef það er veltingur, þetta gerist á öllum skipum, það er aldrei hægt að koma í veg fyrir þetta, að maður tali nú ekki um ef þetta er flatfiskur.  Maður náttúrulega reynir að halda þessu aðgreindu eins og mögulegt er, en þetta er bara ekki hægt á svona bátum sem að velta svona eins og Keilir, það eru alltaf einhverjir tittir sem lenda á milli kara og lestin á Keili er mjög þröng.“

Vitnið bar að sáralítið hefði veiðst af skarkola og staðhæfði að þeim afla hefði ávallt verið landað eftir hverja veiðiferð og því aldrei geymdur í kassa.  Vitnið bar að við löndun hefðu öll körin verið merkt á bryggjunni með lausum miðum, en stundum þó heil karastæða, enda hefði fisktegundum þá verið haldið aðskildum.

 

Vitnið AG, veiðieftirlitsmaður hjá Fiskistofu, lýsti atvikum máls fyrir dómi í öllum aðalatriðum með sama hætti og áður var rakið í framangreindri skýrslu þess vegna komu þess í hús Fiskiþjónustunnar ehf. í Sandgerði að kvöldi 12. desember 2001.  Vitnið staðfesti þannig að vigtar- og fylginótur frá Hafnarvog hefðu fylgt fiskfarminum, en bar að við athugun hefði komið í ljós að í einu fiskkari frá Keili SI-145 og í tveimur fiskkörum frá bátnum Z, hefði skarkoli verið undir þunnu lagi af sandkola.  Vitnið bar að aflinn hefði verið vel ísaður, en lýsti nánar merkingum karanna þannig: 

„Körin voru merkt hvert um sig með miða, hvaða skip ætti karið og annað slíkt. … Þetta voru ca 3x5 tommu miðar og mig minnir að annar báturinn hafi verið með gulan miða en hinn báturinn með hvítan, og skilmerkilega merkt.  …  Þessir miðar voru ofan á aflanum í þeim körum sem voru með blönduðum afla.  …  Körunum var dreift um gólfið, nálægt miðju, og ekki í stæðum.  …  Það lék enginn vafi á að umrætt kar var með merki Keilis.“

Fyrir dómi bar vitnið að það hefði verið viðstatt endurvigtun aflans daginn eftir og staðfesti það áðurgreindar niðurstöðutölur í vigtunarvottorði Fiskiþjónustunnar ehf. um kílóafjölda.

Vitnið SH, veiðieftirlitsmaður Fiskistofu, lýsti í aðalatriðum atvikum máls fyrir dómi með sama hætti og rakið var í áður greindri skýrslu, en lýsti atvikum máls nánar þannig:

„Við skoðuðum þennan afla frá Keili og í keri sem var merkt Keili greinilega var lag ofan af sandkola, en undir reyndist vera skarkoli, þetta var ísað, aðgert og vel frá þessu gengið, þannig að fyrir okkur sem veiðieftirlitsmenn þá fannst okkur vera nokkuð ljóst að þarna var verið að reyna að landa afla undir röngu tegundarheiti til að sleppa við að þetta yrði skráð sem aflamark á bátinn, í tegund sem væri kvótaskyld.  …  Þessi kör voru mjög vel merkt.  …og á hefðbundinn hátt með þessum miðum, sem settir eru ofan á, sjálflímandi við fiskinn eða stungið undir afla eða undir ís.“

 

Vitnið HÓ lögreglumaður í Keflavík, lýsti fyrir dómi atvikum máls við komu þess í starfsstöð Fiskiþjónustunnar ehf. í Sandgerði þann 12. desember 2001 og bar að umrædd fiskkör hefðu verið í einum hnapp á gólfinu og að önnur kör í húsinu hefðu verið greinilega merkt öðrum bátum.  Vitnið bar að það hefði verið augljóst á vettvangi að það voru mismunandi fisktegundir í körunum.

 

Niðurstaða.

Fyrir liggur í málinu að ákærði landaði afla úr bátnum Keili SI-145 í Húsavíkurhöfn þann 11. desember 2001 og að hann stjórnaði sjálfur uppskipuninni og tilkynnti lyftaramanni, sem ók fiskkörum bátsins yfir löggilta vigt, hvaða fisktegundir var um að ræða hverju sinni.  Upplýst er að ákærði merkti sjálfur fiskkörin, a.m.k. hluta þeirra, með nafni bátsins og kaupanda aflans. 

Samkvæmt frásögn ákærða, sem er í aðalatriðum í samræmi við framburð skipverja hans, vitnanna KK, GR og ÞB var fisktegundum í hverri veiðiferð haldið aðskildum á dekki, en einnig í lestinni.  Af framburði síðast nefndu vitnanna verður ráðið að aðstaða í lest bátsins hefði verið þröng og vinnuaðstaðan því erfið, einkum í veltingi. 

Fyrir dómi hafa vitnin BB lyftaramaður, SS, hafnarvörður og löggiltur vigtarmaður, og GB flutningabílstjóri lýst uppskipun og vigtun á afla í Húsavíkurhöfn, en einnig flutningi aflans frá Húsavík til kaupanda.  Var frásögn þeirra að mati dómsins trúverðug og skilmerkileg, en auk þess í allgóðu samræmi við framburð ákærða.  Vitnin báru að venja hefði verið að merkja hvert fiskkar, en ekki aðeins fiskkarastæður væri um sömu fisktegund að ræða, þegar þeim væri ekið yfir hafnarvogina.  Að virtum framburði nefndra vitna svo og vitnisins SK verður ekki annað ráðið en að meðferð og flutningur á afla Keilis SI-145 og bátsins Z þann 11. desember 2001 hafi farið fram samkvæmt fyrirfram ákveðnum og tíðkanlegum vinnureglum.

Ágreiningslaust er í málinu að meiri hluti áðurgreinds afla Keilis SI-145 var fluttur til Reykjavíkur og að hluti hans, 4 fiskkör, fór síðan til Fiskþjónustunnar ehf. í Sandgerði.  Samkvæmt áðurgreindum vigta- og flutningsnótum var um að ræða fisk sem fyrirtækið Umbrot ehf hafði keypt.  Eins og áður var lýst hafði ákærði tilkynnt lyftaramanni, vitninu BB að um væri að ræða sandkola (3 kör) og skrápflúra (1 kar).  Samkvæmt nefndum nótum var nefndur afli færður yfir vigt í þremur ökuferðum.  Fyrir liggur að í sömu flutningsferð til Reykjavíkur var hluti af afla bátsins [Z], alls 8 kör, fluttur til nefnds fyrirtækis í Sandgerði.  Samkvæmt áður nefndum vigtunar- og flutningsnótum Húsavíkurhafnar var þar einnig um að ræða sandkola og skrápflúru.

Með afdráttarlausum og trúverðugum vitnisburði eftirlitsmannanna SG og SH og lögreglumannsins HH, sem einnig hefur nokkra stoð í vætti GG, er að mati dómsins sannað að í þeim fiskkörum sem bárust Fiskþjónustunni ehf. að kvöldi 12. desember með áður lýstum hætti voru þrjú þeirra með blönduðum afla.  Var eitt þessara kara skilmerkilega merkt bátnum Keili SI-145.  Samkvæmt skýrslu eftirlitsmannanna var aflinn í karinu vel ísaður og frágenginn en blandaður, þ.e. sandkoli og skarkoli og reyndist síðari tegundin 232 kíló.

 

Í III. kafla laga Alþingis nr. 57, 1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og í reglugerð nr. 522, 1998 um vigtun sjávarafla eru skýrar og nákvæmar reglur um vigtun sjávarafla.  Í 9. gr. laganna og 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er þannig mælt fyrir um ábyrgð skipstjóra að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum, og verði slíku ekki við komið vegna smæðar báts, ber honum við löndun að halda aflanum aðgreindum.  Þá er mælt fyrir um að skipstjóra sé skylt að láta vigta hverja fisktegund sérstaklega.  Í lögunum er því lýst að skipstjóra fiskiskips verði gert að sæta refsiábyrgð hvort sem að brot hans á reglunum séu framin af ásetningi eða gáleysi.

 

Þegar ofangreint er virt í heild er að áliti dómsins nægjanlega sannað að við löndun úr Keili SI-145 á Húsavík þann 11. desember 2001 hafi við vigtun afla eigi verið nægjanlega tryggt að réttar og fullnægjandi upplýsingar bærust til vigtunarmanns á hafnarvog.  Að virtum framburði ákærða og öðrum gögnum málsins þykir á hinn bóginn varhugavert að telja sannað af hálfu ákæruvalds að þessi vanræksla hans hafi verið unnin af ásetningi.

Brot ákærða eins og því er lýst í ákæruskjali þykir að öllu ofangreindu virtu nægilega sannað og er háttsemi hans rétt heimfærð til lagaákvæða.

II.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki áður hlotið refsingu sem áhrif hefur í máli þessu.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 57, 1996 varðar brot gegn ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim sektum, og eins og áður sagði, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.  Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að 6 árum.  Við fyrsta brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 400.000 krónum og eigi hærri fjárhæð en 4 milljónum eftir eðli og umfangi brots.

Refsing ákærða þykir að öllu framangreindu virtu hæfilega ákveðin 450.000 króna sekt til ríkissjóðs.  Skal ákærði greiða sektina innan 4 vikna frá birtingu dómsins, en ella sæti hann 45 daga fangelsi.

Með vísan til málsúrslita ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Berglindar Svavarsdóttur hdl., kr. 100.000.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Karl Óskar Geirsson, greiði 450.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem greiðast skal innan 4 vikna frá birtingu dómsins, en ella sæti hann fangelsi í 45 daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Berglindar Svavarsdóttur hdl., kr. 100.000.