Hæstiréttur íslands
Mál nr. 459/2011
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Kröfulýsingarfrestur
- Vanlýsing
- Nauðasamningur
|
|
Fimmtudaginn 10. maí 2012. |
|
Nr. 459/2011.
|
ALMC hf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Stapa lífeyrissjóði (Garðar Garðarsson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Kröfulýsingarfrestur. Vanlýsing. Nauðasamningur.
S höfðaði mál gegn fjármálafyrirtækinu A hf. og krafðist greiðslu á kröfu sem S taldi sig eiga í samræmi við nauðasamning sem staðfestur hafði verið fyrir A hf. eftir að síðarnefnda félagið hafði verið tekið til slitameðferðar. Kröfu S hafði ekki verið lýst innan kröfulýsingarfrests og var því talið að hún hefði fallið niður gagnvart A hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Fjármálaeftirlitið ákvað 9. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar áfrýjanda, sem þá hét Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf., og víkja stjórn félagsins frá störfum. Fjármálaeftirlitið skipaði félaginu jafnframt skilanefnd sem taka skyldi við öllum heimildum stjórnar þess samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Ákvörðunin var reist á 100. gr. a. í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Áfrýjanda var veitt heimild til greiðslustöðvunar 19. mars 2009, sem standa átti til 11. júní sama ár. Lögum nr. 161/2002 var breytt með lögum nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl það ár. Í ákvæði til bráðabirgða II með breytingalögunum sagði svo í 1. mgr.: ,,Um fjármálafyrirtæki sem njóta heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku þessara laga skulu eftirfarandi sérreglur gilda: 1. Heimild til greiðslustöðvunar skal haldast þrátt fyrir gildistöku laga þessara og má framlengja hana samkvæmt þeim reglum sem um ræðir í 2. mgr. 10. gr. 2. Við greiðslustöðvunina skal beitt ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a ..., eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lög þessi öðlast gildi, en slitameðferðin skal þó allt að einu kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem sú heimild stendur, sbr. 1. tölul. Þegar sú heimild rennur sitt skeið á enda skal fyrirtækið án sérstaks dómsúrskurðar sjálfkrafa teljast vera til slitameðferðar eftir almennum reglum, sbr. þó 3. og 4. tölul. Ákvæði IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda ekki um slíka greiðslustöðvun sem hér um ræðir, ... 3. Skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, skal með óbreyttu heiti halda áfram störfum ... 4. Til annarra verka slitastjórnar en um ræðir í 3. tölul. skal héraðsdómari eftir skriflegri beiðni skilanefndar skipa fyrirtækinu slíka stjórn samkvæmt fyrirmælum 1. og 3. málsl. 4. mgr. 101. gr. laganna, ...“
Ekki er um það deilt að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi að beiðni skilanefndar áfrýjanda skipað félaginu slitastjórn 11. maí 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til lánardrottna, sem birt var fyrra sinni í Lögbirtingablaði 18. maí 2009. Í henni var tekið fram að frestur til að lýsa kröfum fyrir slitastjórn félagsins væri tveir mánuðir frá fyrri birtingu innköllunarinnar. Þá sagði: ,,Sé kröfu ekki lýst innan framangreinds frests gilda um það sömu réttaráhrif og um vanlýsingu kröfu samkvæmt 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og telst hún þá fallin niður gagnvart [áfrýjanda] nema undantekningar í 1.-6. tölulið lagagreinarinnar eigi við.“
Stefndi, sem átt hafði umtalsverð viðskipti við áfrýjanda um skeið, átti kröfu á hendur áfrýjanda samkvæmt skuldabréfum, sem stefndi hafði keypt. Voru skilmálar skuldabréfanna mismunandi. Samkomulag mun hafa orðið með þeim haustið 2008 um að áfrýjandi greiddi upp kröfu stefnda samkvæmt skuldabréfunum gegn því að greiðslan yrði lögð á innlánsreikninga í eigu stefnda hjá áfrýjanda og stefndi myndi einnig leggja inn á bankareikning nokkra fjárhæð til viðbótar. Var samið um vaxtakjör á innstæðunum. Stefndi lýsti kröfu á grundvelli innlánsreikninganna við slit áfrýjanda og barst kröfulýsing hans 24. júlí 2009. Fresti til að lýsa kröfum hafði lokið 18. sama mánaðar. Áfrýjandi hafnaði kröfu stefnda þar sem hann taldi kröfulýsinguna hafa borist eftir lok kröfulýsingarfrests.
Slitastjórn áfrýjanda ákvað með heimild í 3. mgr. 103. gr. a. í lögum nr. 161/2002 að leita nauðsamnings við kröfuhafa félagsins til að ljúka slitameðferðinni. Auglýsing um nauðsamningsumleitanir áfrýjanda var birt í Lögbirtingablaði 1. júlí 2010, en samkvæmt henni var boðað til kröfuhafafundar í félaginu 13. sama mánaðar til að fjalla um frumvarp að nauðasamningi. Á fundinum var frumvarpið samþykkt af tilskildum fjölda atkvæðismanna. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti nauðasamninginn með úrskurði 18. ágúst 2010. Úrskurðurinn varð endanlegur að liðnum kærufresti 25. sama mánaðar, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991.
Stefndi ritaði slitastjórn áfrýjanda bréf 21. júní 2010 og lýsti þeirri skoðun að hann teldi sig eiga rétt til greiðslu kröfu sinnar í samræmi við þann nauðasamning, sem kynni að verða staðfestur. Hann krafði svo áfrýjanda 12. október 2010 um greiðslu skuldar á grundvelli þeirra skuldabréfa, sem hann hafði átt haustið 2008 og út voru gefin af áfrýjanda. Ráðstöfun sú, sem stefndi og áfrýjandi sömdu um og fólst í því að skuldabréfin yrðu greidd upp og greiðslunni ráðstafað á innlánsreikninga í nafni stefnda hjá áfrýjanda, auk viðbótargreiðslu stefnda á bankareikning, hafði verið látin ganga til baka eftir að sambærilegri ráðstöfun milli áfrýjanda og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins var rift, sbr. dóm Hæstaréttar 16. apríl 2010 í máli nr. 162/2010. Eftir að áfrýjandi hafnaði greiðslu kröfunnar höfðaði stefndi mál þetta.
II
Kröfu sína um greiðslu reisir stefndi einkum á tveimur röksemdum.
Í fyrsta lagi hafi krafa hans aldrei fallið niður þar sem áfrýjandi hafi ekki farið í formlega slitameðferð í skilningi laga nr. 161/2002 heldur hafi honum einungis verið veitt heimild til greiðslustöðvunar, sem framlengd hafi verið tvívegis og á greiðslustöðvunartímanum hafi hann gert nauðasamning þann er áður greinir. Þótt umsjón með greiðslustöðvun hafi verið falin hópi manna sem nefndur var slitastjórn leiði það ekki til þess að áfrýjandi teljist hafa verið í slitameðferð í skilningi laga nr. 161/2002.
Verði ekki á framangreind rök fallist telur stefndi í öðru lagi að jafnvel þótt litið yrði svo á að áfrýjandi hafi verið til slitameðferðar í skilningi laga nr. 161/2002, hafi greiðsluskylda hans á kröfu stefnda orðið virk þegar nauðasamningur áfrýjanda var staðfestur. Hann kveður vanlýsta kröfu, sem ekki komist á atkvæðaskrá, engu að síður gilda gagnvart þrotamanni. Þegar þrotamaður fái aftur umráð yfir búi sínu, eftir atvikum að gerðum nauðasamningi, rakni greiðsluskylda hans við jafnvel þótt krafan hefði ekki komið til álita við úthlutun úr búinu ef skiptum hefði lokið á þann veg.
Áfrýjandi krefst sýknu af kröfu stefnda. Hann kveður ekki leika vafa á að félagið hafi verið til slitameðferðar og telur kröfu stefnda hafa fallið niður við vanlýsingu hennar. Þar sem skilyrðum undantekningarreglna í 1. til 6. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991 hafi ekki verið fullnægt sé krafan endanlega niður fallin.
III
Fallist er á með héraðsdómi að upphafsregla bráðabirgðaákvæðis II með lögum nr. 44/2009 hafi átt við um áfrýjanda. Með því að áfrýjanda var að beiðni skilanefndar skipuð slitastjórn, sbr. 4. tölulið þessa bráðabirgðaákvæðis, sem birti innköllun til kröfuhafa, hófst slitameðferð á áfrýjanda. Verður því einnig fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að áfrýjandi hafi verið tekinn til slitameðferðar og þess vegna beri að hafna fyrri málsástæðu stefnda.
Kemur þá til athugunar síðari málsástæða hans um að krafan hafi raknað við er nauðsamningur fyrir áfrýjanda var staðfestur.
Um slitameðferð áfrýjanda giltu sem fyrr greinir 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a. í lögum nr. 161/2002, svo og þau ákvæði laga nr. 21/1991, sem þar er vísað til. Í 2. mgr. 102. gr. laganna er mælt fyrir um að beitt skuli sömu reglum og við gjaldþrotaskipti meðal annars um efni innköllunar og kröfulýsingarfrest. Í skýringum á þessari málsgrein í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum nr. 44/2009 kemur skýrt fram að innköllun eins og hér um ræðir hafi ,,það sem nefnt er ,,præklusiv“ áhrif, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. ef kröfu er ekki lýst innan kröfulýsingarfrests kemur hún ekki til álita við slitin og oftast þýðir það að kröfuhafinn glatar öllum möguleikum á að fá fullnustu hennar í heild eða að hluta af eignum fjármálafyrirtækis.“
Í 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 er kveðið á um að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess ,,þar á meðal um áhrif þess að kröfu sé ekki lýst.“ Um þetta segir í skýringum með ákvæðinu í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum nr. 44/2009: ,,Einnig er lagt til, eins og áður greinir, að sú regla gildi að sé kröfu ekki lýst innan kröfulýsingarfrests komi hún ekki til álita við greiðslu krafna við slitameðferðina.“
Vanlýsing kröfu við innköllun er eitt þeirra atvika sem bundið getur enda á tilvist kröfuréttinda. Brottfall kröfu vegna vanlýsingar er algert og endanlegt, nema lög mæli á annan veg. Innköllun kröfu með þeim réttaráhrifum að vanlýsing leiði til brottfalls hennar verður að eiga stoð í lögum. Í íslenskum rétti hafa verið í gildi reglur sem varða skipti á dánarbúum og reglur um gjaldþrotaskipti sem haft hafa að geyma ákvæði um brottfall krafna vegna vanlýsingar þeirra. Eitt þessara ákvæða er 118. gr. laga nr. 21/1991, en það er í XVIII. kafla laganna, sem gilti um slitameðferð áfrýjanda eins og fyrr greinir. Í upphafsákvæði 118. gr. segir: ,,Ef kröfu á hendur þrotabúi er ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 85. gr. og ekki er unnt að fylgja henni fram gagnvart því skv. 116. gr., þá fellur hún niður gagnvart búinu nema ...“ Óumdeilt er að 116. gr. laga nr. 21/1991 á ekki við í máli þessu. Tilvitnað ákvæði 118. gr. laganna veldur því að krafa fellur brott vegna vanlýsingar með tvenns konar takmörkunum, en þær felast annars vegar í því að hún fellur einungis niður ,,gagnvart búinu“ og hins vegar í ýmsum undantekningum, sem tilteknar eru í 1. til 6. tölulið greinarinnar. Var efni innköllunar slitastjórnar til lánardrottna við slit áfrýjanda í samræmi við framangreint.
Við vanlýsingu kröfu stefnda féll hún niður ,,gagnvart búi“ áfrýjanda sem var til slitameðferðar. Slitastjórn ákvað að leita eftir nauðasamningi við lánardrottna eftir upphaf slitameðferðar. Um þær nauðasamningsumleitanir fór samkvæmt tilgreindum ákvæðum XXI. kafla laga nr. 21/1991 eins og mælt var fyrir um í 3. mgr. 103. gr. a. í lögum nr. 161/2002 og áréttað í skýringum með 9. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 44/2009. Regla 3. mgr. 45. gr. laga nr. 21/1991 á því ekki við í málinu. Þegar leitað er nauðasamnings við lánardrottna samkvæmt XXI. kafla laga nr. 21/1991 er það gert vegna þrotabús eða slitameðferðar fjármálafyrirtækis. Takist nauðasamningur og verði hann staðfestur, eins og við á um áfrýjanda, heldur fjármálafyrirtækið áfram að vera til, en kröfur á hendur því og efndir þeirra breytast í samræmi við efni nauðasamnings. Samkvæmt þessu og með vísan til orðalags upphafsákvæðis 118. gr. laga nr. 21/1991 hefur krafa stefnda fallið niður vegna vanlýsingar við slitameðferð á áfrýjanda og hefur eftirfarandi nauðsamningur engin áhrif á þau lok kröfuréttindanna. Lokamálsliður 1. mgr. 152. gr. laga nr. 21/1991 rennir einnig stoðum undir þessa niðurstöðu. Upplýst er að skilyrðum 1. töluliðar 118. gr. um að afla samþykkis nægilega margra lánardrottna til þess að krafa stefnda mætti komast að varð ekki fullnægt og stofnaðist hún því ekki að nýju af þeim ástæðum. Þá er eins og áður segir ekki um það deilt í málinu að aðrar undantekningar, sem er að finna í 2. til 6. tölulið greinarinnar, eiga ekki við í málinu.
Samkvæmt þessu er krafa stefnda, sem hann lýsti við slitameðferð áfrýjanda, niður fallin fyrir vanlýsingu og verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hvor aðila látinn bera sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, ALMC hf., er sýkn af kröfu stefnda, Stapa lífeyrissjóðs, í máli þessu.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2011.
Mál þetta höfðaði Stapi lífeyrissjóður, kt. 601092 2559, Strandgötu 3, Akureyri, með stefnu birti 17. febrúar 2011 á hendur ALMC hf., kt. 701086 1399, Borgartúni 25, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 5.195.648.045 krónur, en til vara 4.785.651.269 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. apríl 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, til vara lækkunar stefnukrafna. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
Málið var dómtekið 15. júní sl. Dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan, þó að dómur sé nú kveðinn upp fimm vikum eftir aðalmeðferð.
Stefndi ALMC hét áður Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki. Hafði stefnandi átt viðskipti við bankann. Þann 9. mars 2009 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar stefnda í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Eftirlitið vék stjórn félagins frá og skipaði félaginu skilanefnd.
Þann 17. mars 2009 ákvað Fjármálaeftirlitið að innistæður hjá stefnda yrðu fluttar til Íslandsbanka hf. Þetta var þó ekki látið gilda um innlán sem hefðu orðið til sem greiðsla til eigenda skuldabréfa skömmu fyrir gjalddaga bréfanna.
Stefnda var veitt heimild til greiðslustöðvunar 19. mars 2009, sem standa átti til 11. júní sama ár. Þann 11. maí 2009 var skipuð slitastjórn samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Greiðslustöðvun stefnda var framlengd tvívegis, fyrst til 11. desember 2009 og síðan til 10. september 2010. Er sá dagur rann hafði verið gerður nauðasamningur fyrir félagið eins og síðar verður gerð grein fyrir.
Haustið 2008 átti stefnandi ýmsar kröfur, m.a. skuldabréfakröfur, á hendur stefnda. Allar þessar kröfur voru greiddar upp og andvirði lagt á innlánsreikninga hjá stefnda. Stefnandi lagði nokkurt fé til viðbótar þessu inn á reikning hjá stefnda.
Slitastjórn stefnda lýsti því í bréfi til stefnda, dags. 19. júní 2009, að hún teldi þá ráðstöfun sem fólst í uppgreiðslu skuldabréfanna og innleggi á innlánsreikninga vera riftanlega. Var jafnframt óskað eftir svari stefnanda því hvort hann samþykkti riftun þessarar ráðstöfunar.
Stefnandi svaraði fyrirspurn stefnda með bréfi 14. júlí 2009. Ítrekaði hann að innistæður sínar hjá stefnda væru forgangskröfur samkvæmt gildandi lögum. Er þá byggt á 6. gr. laga nr. 125/2008. Stefnandi lýsti síðan kröfum sínum með bréf til slitastjórnar stefnda, dags. 24. júlí 2009. Lýsti hann öllum kröfum sínum sem forgangskröfum.
Kröfulýsing stefnanda barst of seint, en kröfulýsingarfrestur rann út 18. júlí 2009. Stefnandi náði ekki að afla samþykkis nægilega margra kröfuhafa til að krafa hans kæmist að við slit stefnda.
Fleiri aðilar höfðu fengið greidd skuldabréf og önnur verðbréf gegn greiðslu inn á innlánsreikninga. Var rekið ágreiningsmál gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem lauk með dómi Hæstaréttar 16. apríl 2010. Þar var fallist á riftun ráðstöfunarinnar og tekið fram í dóminum að með riftuninni raknaði við það réttarsamband sem hefði verið við lýði áður en ráðstöfunin hefði verið gerð.
Stefnandi kveðst hafa fallist á að niðurstaða Hæstaréttar í máli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ætti einnig við um sína kröfu. Því telji hann sig eiga kröfu á hendur stefnda á grundvelli þeirra skuldaskjala sem hann átti áður en til innlánanna var stofnað. Segir hann að ráðstöfuninni hafi verið rift 19. júní 2009.
Í lok júní 2010 auglýsti slitastjórn stefnda nauðasamningsumleitanir félagsins og boðaði til fundar með kröfuhöfum til að fjalla um frumvarp að nauðasamningi. Lauk þeim tilraunum með því að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti nauðasamning fyrir stefnda með úrskurði 18. ágúst 2010.
Í kjölfar þess að staðfesting nauðasamningsins var auglýst krafði stefnandi stefnda um greiðslu krafna sinna. Stefndi svaraði með bréfi dags. 17. nóvember 2010 og hafnaði greiðsluskyldu sinni með þeim rökum að kröfur stefnanda hefðu fallið niður fyrir vanlýsingu. Stefnandi kveðst hins vegar telja kröfurnar í fullu gildi. Um þetta atriði snýst ágreiningur aðila.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Í greinargerð stefnanda eru rakin nákvæmlega þau lagaákvæði sem giltu og þau sem síðar hafa verið sett frá því að stefnda var veitt heimild til greiðslustöðvunar 19. mars 2009. Á þeim degi hafi verið í gildi XII. kafli laga nr. 161/2002 eins og honum hafði verið breytt með neyðarlögunum svonefndu nr. 115/2008 og lögum nr. 129/2008. Í 2. ml 1. mgr. 98. gr. hafi sagt að með endurskipulagningu fjárhags sé átt við heimild til greiðslustöðvunar og heimild til að leita nauðasamnings samkvæmt gjaldþrotalögum. Þau lög hafi gilt um heimild til að óska greiðslustöðvunar og leita nauðasamnings, sbr. 2. mgr. 98. gr.
Þá segir stefnandi að ráða megi af niðurlagi 1. mgr. 100. gr. a að stigsmunur sé á aðgerðum samkvæmt þeirri grein. Skilið sé á milli þess hvort fjármálastofnun hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings, eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Í 1. mgr. 101. gr. þágildandi laga hafi sagt að fjármálafyrirtæki yrði ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum. Gerður hafi verið í 102. gr. munur á gjaldþrotaskiptum annars vegar og slitum hins vegar, en við slit sé gjaldfært fjármálafyrirtæki leyst upp. Þegar tiltekin skilyrði hafi verið uppfyllt hafi Fjármálaeftirlitinu borið að óska eftir því að bú fjármálafyrirtækis yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en ef það ætti fyrir skuldum hafi átt að krefjast slita. Um skipti á búi fjármálafyrirtækis áttu samkvæmt 2. mgr. 103. gr. þágildandi laga að gilda almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti, eftir því sem við gat átt. Því hafi stefndi sótt um heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt 1. mgr. 10. gr. gjaldþrotalaga þann 18. mars 2009 og hún hafi verið veitt samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laganna þann 19. mars.
Eftir að stefnda var veitt greiðslustöðvun hafi verið sett lög nr. 44/2009, sem hafi tekið gildi 22. apríl 2009. Þar hafi XII. kafla áðurnefndra laga um fjármálafyrirtæki verið breytt. Tilgangur með breytingunum hafi verið sá að um endurskipulagningu og slit fjármálastofnana skyldu gilda hliðstæðar reglur og um önnur fyrirtæki og einstaklinga.
Nú skyldi fjármálafyrirtæki ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum, heldur til slita. Ýmsu hafi verið breytt. Þannig skyldi fjármálafyrirtæki ekki sækja um heimild til greiðslustöðvunar, heldur skyldu sömu takmarkanir á fullnustugerðum gilda á meðan bráðabirgðastjórn réði félaginu. Þá hafi sagt í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009 að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar gjaldþrotalaga skyldi gilda um meðferð krafna, einnig um áhrif þess að kröfu sé ekki lýst.
Um fjármálafyrirtæki sem höfðu heimild til greiðslustöðvunar þegar lög nr. 44/2009 tóku gildi var sett sérregla í ákvæði II til bráðabirgða. Heimild þeirra til greiðslustöðvunar skyldi haldast og heimilt vera að framlengja hana eftir eldri reglum. Um greiðslustöðvunina skyldi beitt að hluta til reglum nýju laganna, eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með úrskurði þann dag sem lögin tóku gildi. Slitameðferðin skyldi hins vegar áfram kennd við heimild til greiðslustöðvunar. Í greinargerð með lögunum hafi sagt að þegar heimild til greiðslustöðvunar félli niður, teldist fjármálafyrirtækið sjálfkrafa og án sérstaks dómsúrskurðar vera í slitameðferð.
Stefnandi telur greinilegt að fjármálafyrirtæki sem hafi haft heimild til greiðslustöðvunar gætu óskað framlengingar hennar í allt að tvö ár og væri fyrst að þeim tíma liðnum komið í slitameðferð. Bendir hann sérstaklega á að ákvæðin um greiðslustöðvun séu í þeim hluta XII. kafla laganna sem fjalli um endurskipulagningu fjárhags, en ekki í þeim hluta sem fjalli um slitameðferð. Stefndi hafi enn verið í greiðslustöðvun þegar nauðasamningurinn var samþykktur á fundi atkvæðismanna og síðan staðfestur með úrskurði 18. ágúst 2010. Þannig hafi aldrei komið til þess að stefndi væri sjálfkrafa til slitameðferðar.
Áðurnefndu bráðabirgðaákvæði hafi loks verið breytt 16. nóvember 2010, eftir að nauðasamningur stefnda var staðfestur. Þá hafi verið sett sú regla að slitastjórna og skilanefnd gætu sameiginlega krafist úrskurðar um að fyrirtæki yrði tekið til slitameðferðar. Heimild til greiðslustöðvunar lyki sjálfkrafa þegar úrskurður um slitameðferð væri kveðinn upp, en ekki fyrr eins og virtist hafa verið gengið út frá.
Stefnandi telur að af framangreindu megi sjá að aðgerðir til endurskipulagningar á fjárhag stefnda hafi eingöngu falist í því að félaginu hafi verið veitt heimild til greiðslustöðvunar. Slitastjórn hafi ákveðið án dómsúrskurðar að félagið leitaði nauðasamnings. Í innköllun til kröfuhafa segi slitastjórnin að hún hafi með höndum meðferð krafna á hendur stefnda meðan greiðslustöðvun stendur og eftir að slitameðferð hefst að lokinni greiðslustöðvun.
Vegna þessa hafi félagið aldrei farið í formlega og löglega slitameðferð á grundvelli laga nr. 44/2009. Félagið hafi haft greiðslustöðvun samkvæmt dómsúrskurði allt þar til nauðasamningurinn hefði verið staðfestur.
Með tilliti til þessa heldur stefnandi því fram að það ferli sem endurskipulagning fjárhags stefnda hafi verið sett í sé efnilega hið sama og önnur fyrirtæki en fjármálafyrirtæki gangi í gegnum, þ.e. greiðslustöðvun og nauðasamningur í skilningi gjaldþrotalaga. Framkvæmdin sé lítillega frábrugðin. Af þessu leiði að krafa stefnanda sé ekki fallin niður fyrir vanlýsingu og beri að taka hana til greina að fullu samkvæmt 3. mgr. 45. gr. gjaldþrotalaga.
Verði ekki fallist á framangreinda málsástæðu, byggir stefnandi á því að þegar stefndi leitaði eftir og fékk samþykktan nauðasamning og í framhaldinu full umráð yfir búi sínu, hafi greiðsluskylda hans orðið virk.
Hann vitnar enn til þess að sérreglur gildi samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um þau fyrirtæki sem voru í greiðslustöðvun þegar lögin tóku gildi. Eldri reglur eigi að gilda um meðferð þeirra eftir því sem mælt hafi verið fyrir um í lögum nr. 161/2002 og nr. 21/1991. Þó skyldi samkvæmt 2. tl. bráðabirgðaákvæðisins beita ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102 gr., 103. gr. og 103. gr. a laga nr. 161/2002, eins og þeim var breytt með lögum nr. 44/2009. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga nr. 161/2002 skyldu gjaldþrotalög gilda um heimild til að leita greiðslustöðvunar og nauðasamnings og um framkvæmt þeirra ráðstafana, enda væri ekki á annan veg mælt í lögum nr. 161/2002. Því séu það þau lagaákvæði ein sem talin séu upp í bráðarbirgðaákvæðinu, sem við sé átt í 2. mgr. 98. gr.
Stefnandi segir að í 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 segi að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar gjaldþrotalaga gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess, þar á meðal um áhrif þess að kröfu sé ekki lýst. Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. ráðstafi slitastjórn hagsmunum á sama hátt og skiptastjóri við gjaldþrotaskipti, með ákveðnum undantekningum. Samkvæmt 3. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 8. gr. laga nr. 44/2009, geti slitastjórn ákveðið að leita nauðasamnings þegar hún telji það tímabært, til að ljúka slitameðferð. Skuli þá gert frumvarp að nauðasamningi eftir reglum 36. gr. gjaldþrotalaga og það borið undir kröfuhafafund. Um nauðasamningsumleitanir fari að öðru leyti eftir 2. mgr. 149. gr. og 151.-153. gr. sömu laga.
Stefnandi bendir á að ljúki gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi fái þrotamaður, eða stjórn félags, aftur forræði á hagsmunum sínum og þeim eignum sem ekki hafi verið ráðstafað. Lög nr. 161/2002 vísi til 2. mgr. 149. gr. gjaldþrotalaga, sem segi að þegar þrotamaður leiti nauðasamnings við gjaldþrotaskipti, þá skuli 3. þáttur laganna gilda með þeim frávikum sem mælt sé fyrir um í XXI. kafla eða leiði af eðli máls. Í 3. þætti sé að finna 3. mgr. 45. gr. sem segi að krafa falli ekki niður, þótt henni sé ekki lýst við nauðasamningsumleitanir. Stefnandi kveðst telja þetta eiga við um sína kröfu. Samkvæmt 3. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 8. gr. laga nr. 44/2009, skuli slitastjórn efna skuldbindingar við kröfuhafa samkvæmt nauðasamningi og ljúka svo slitameðferð samkvæmt 1. og 2. mgr., þ.e að afhenda hluthöfum eða kröfuhöfum félagið aftur. Framkvæmdin sé því sú sama hvort sem það sé skiptastjóri í þrotabúi eða slitastjórn sem stýri málum.
Stefnandi bendir á að á skrá um atkvæðisrétt skuli aðeins taldar kröfur sem viðurkenndar hafi verið við gjaldþrotaskiptin og atkvæðisréttur fylgi að mati skiptastjóra, sbr. 2. mgr. 151. gr. gjaldþrotalaga. Umdeildar kröfur séu því ekki teknar á skrána og því geti afstaða til kröfu stefnanda ekki byggst á því einu að hún hafi ekki verið á atkvæðaskrá.
Stefnandi vísar til 118. gr. gjaldþrotalaga sem gildi eins og áður segir við slit fjármálafyrirtækja, Þar segir að krafa sem ekki sé lýst falli niður gagnvart búinu. Annað sé ekki að finna um vanlýsingu í lögunum og þessi orð séu tengd við búið. En þó krafa falli niður gagnvart búinu beri þrotamaður áfram ábyrgð á skuldum sínum sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrotaskipti, sbr. 2. mgr. 165. gr. laganna, einnig þeim kröfum sem ekki hafi verið lýst. Stefnandi vill draga þá ályktun af þessu að þegar einstaklingur sé undir gjaldþrotaskiptum rofni fyrning á lýstri og ógreiddri kröfu, sem verði þá sótt á hendur honum eftir lok skipta. Fyrning rofni því aðeins að kröfu hafi verið lýst. Ljúki gjaldþrotaskiptum félags með því að það taki aftur upp starfsemi, eftir atvikum að gerðum nauðasamningi, þá leiði þetta samspil 118. og 165. gr. til þess að vanlýst krafa lifi áfram gagnvart félaginu, en án þess að fyrningu hafi verið slitið. Krafan komist ekki að gagnvart búinu, en hún falli ekki niður. Stefnandi segir að þessi regla gildi gagnvart stefnda, ef ekki beint, þá fyrir lögjöfnun. Hann segir að reglur um brottfall kröfu séu íþyngjandi. Beri að skýra þær þröngt og þær hljóti að styðjast við bein og ótvíræð lagafyrirmæli.
Stefndi hafi einungis fengið heimild til greiðslustöðvunar og til að leita nauðasamnings. Hvort tveggja hafi farið eftir reglum gjaldþrotalaga. Í áðurnefndu bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009, sem gilt hafi um stefnda, hafi verið taldar nokkrar greinar sem skyldi beita við framkvæmdina. Þessi ákvæði laga nr. 161/2002 vísi svo aftur til nokkurra ákvæða í gjaldþrotalögum, sem mæli fyrir um framkvæmd greiðslustöðvunar og nauðasamningsumleitana. Engin ákvæði gjaldþrotalaga um framkvæmd nauðasamnings hafi verið undanskilin, en það hefði verið nauðsynlegt þar sem í 2. mgr. 98. gr. laga nr. 161/2002 hafi sagt að framkvæmdin skyldi fara eftir gjaldþrotalögum. Undantekningar frá meginreglu beri að skýra þröngt. Engar reglur gjaldþrotalaga hafi verið undanskildar nema þær hafi verið taldar upp í bráðabirgðaákvæðinu. Nauðsynlegt hefði verið að taka fram frávik frá skýrum fyrirmælum 98. gr. laga nr. 161/2002. Því hafi 165. gr. gjaldþrotalaga ekki verið undanskilin og heldur ekki 3. mgr. 45. gr. Þar sem stefndi hafi nú fengið full umráð yfir búi sínu, beri honum að efna skuldbindingar sínar við stefnanda.
Þetta telur stefnandi einnig eiga við þó svo að talið yrði að stefndi hafi verið í formlegri slitameðferð.
Stefnandi reiknar kröfu sína án tillits til ákvæða nauðasamningsins. Vísar hann til ummæla Hæstaréttar í forsendum dóms í máli nr. 256/2002.
Fjárkröfu sína byggir stefnandi á því að kröfur samkvæmt skuldabréfum hafi raknað við aftur er slitastjórn rifti greiðslu til stefnanda samkvæmt bréfi dags. 19. júní 2009.
Kröfurnar eru nánar sundurliðaðar í stefnu. Þar er um að ræða lið A (með undirliðum a-f), sem byggir á rafrnum skuldabréfum í nokkrum flokkum, lið B, vegna skuldabréfaflokksins „Straumur Global Warming“, og loks lið C, sem eru skuldabréf um víkjandi lán. Um lið C segir stefnandi að þar sem ekki liggi fyrir upplýsingar frá stefnda um það með hvaða hætti hann hafi gert upp við kröfuhafa sína í framhaldi af nauðasamningnum, vilji hann halda inni kröfu samkvæmt þessum bréfum. Stefndi hafi neitað að fjalla efnislega um kröfur stefnanda.
Í aðalkröfu er krafist greiðslu á öllum kröfum í liðum A, B og C. Í varakröfu er víkjandi láni samkvæmt lið C sleppt. Stefnandi reiknar vexti, og af einni kröfu dráttarvexti, til 22. apríl 2009, sem var upphafsdagur kröfumeðferðar. Þá krefst hann dráttarvaxta frá þeim degi.
Ekki er nauðsynlegt að fjalla nánar um sundurliðun eða grundvöll krafnanna, en eftir að stefnandi lækkaði kröfu sína við aðalmeðferð málsins var ekki haldið uppi mótmælum við fjárhæð.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi gerir athugasemd við þá málsútlistun stefnanda að hann hafi fallist á að úrlausn Hæstaréttar í máli nr. 162/2010 eigi einnig við um innistæðukröfur stefnanda. Það hafi ekki komið til þess að slitastjórn þyrfti að taka afstöðu til þess hvort stefnandi ætti innistæður hjá stefnda. Það réttarsamband sem stefnandi telji að hafi raknað við sé ekki annað en það að stefnandi eigi vanlýsta kröfu samkvæmt skuldabréfum. Stefnandi telji að hún hefði átt að fást viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð stefnda ef henni hefði verið réttilega lýst.
Stefndi fellst á að stefnandi geri kröfur sínar án tillits til nauðasamningsins. Efnisdómur fjalli ekki beint um hver afdrif þeirra yrðu við aðför. Þannig bendir hann á að krafan í lið C myndi falla niður, þar sem hún byggi á skuldabréfi sem sé víkjandi lán.
Stefndi telur útlistun stefnda á lagareglum ekki hafa þýðingu. Líta beri til þeirra laga sem í gildi voru þegar slitameðferð félagsins hófst. Lögum nr. 161/2002 hafi verið breytt verulega með lögum nr. 44/2009. Þau hafi tekið gildi 22. apríl 2009. XII. kafli laganna um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja hafi verið endurskrifaður að verulegu leyti. Slitameðferðin hafi hafist eftir að þessar breytingar tóku gildi. Í ákvæði II til bráðabirgða í lögunum hafi verið sérákvæði um fjármálafyrirtæki sem höfðu heimild til greiðslustöðvunar er lögin tóku gildi. Í 103. gr. a sé mælt fyrir um lok slitameðferðar. Í 3. mgr. sé slitastjórn heimilað að leggja frumvarp að nauðasamningi fyrir kröfuhafa ef eignir fjármálafyrirtækis nægi ekki til fullrar greiðslu krafna. Frumvarpið skuli gert eftir reglum 36. gr. gjaldþrotalaga og borið undir atkvæði á kröfuhafafundi. Síðan tekur stefndi orðrétt upp úr ákvæðinu:
Eftir því sem átt getur við fara nauðasamningsumleitanir að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr. 149. gr. og 151. 153. gr. sömu laga, en slitastjórn gegnir þá því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi og heldur hún kröfuhafafundi við þessar umleitanir. Fáist frumvarp að nauðasamningi samþykkt skal slitastjórn leita staðfestingar hans eftir reglum IX. kafla sömu laga. Ef nauðasamningur er staðfestur efnir slitastjórn eftir þörfum skuldbindingar við kröfuhafa samkvæmt honum og lýkur svo slitameðferð eftir því sem segir í 1. og 2. mgr. greinar 103 a.
Stefndi segir að XVIII. kafli og 5. þáttur gjaldþrotalaga gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess, þar á meðal um áhrif þess að kröfu er ekki lýst, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Af 118. gr. gjaldþrotalaga leiði að krafa falli niður sé henni ekki lýst. Undantekningar sem gerðar séu í ákvæðinu eigi ekki við hér.
Stefndi segir að þegar nauðasamningsfrumvarp sitt hafi verið samþykkt, hafi kröfur stefnanda verið fallnar niður.
Stefndi telur að skilningur stefnanda á samspili 118. og 165. gr. gjaldþrotalaga fái ekki staðist. 165. gr. sé í XXII, kafla laganna sem fjalli um úthlutun og lok gjaldþrotaskipta. Ákvæðið sé ekki á meðal þeirra réttarheimilda sem vísað sé til um meðferð krafna og nauðasamningsumleitanir fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum nr. 161/2002. Á sama hátt sé útilokað að beita ákvæði 45. gr. gjaldþrotalaga í þessu tilviki. Ákvæðið sé í 3. þætti laganna sem fjalli um nauðasamningsumleitanir án undanfarandi skipta. Ekki sé heldur vísað til þess kafla í lagaákvæðum um nauðasamningsumleitanir fjármálafyrirtækja, nema hvað beint sé tekið fram í 103. gr. a laga nr. 161/2002 að nauðasamningsfrumvarp skuli gert í samræmi við 36. gr. Stefndi segir augljóst að ef löggjafinn hefði viljað að 45. eða 165. gr. gjaldþrotalaga gilti um vanlýstar kröfur við slitameðferð fjármálafyrirtækja hefðu fyrirmæli um það verið tekin upp í lög. Það hafi ekki verið gert.
Stefndi mótmælir því að lögskýringargögn með lögum nr. 75/2010 og 132/2010 renni stoðum undir þá fullyrðingu að félagið hafi ekki verið í raunverulegri slitameðferð, heldur einungis í greiðslustöðvun. Hann segir að með lögum nr. 44/2009 hafi skilanefndum fyrirtækja sem þá voru í greiðslustöðvun verið gefin bein fyrirmæli um að óska eftir skipun slitastjórnar. Öll framkvæmd og dómafordæmi sýni að engum hafi dottið í hug að véfengja að félagið hafi verið í slitameðferð. Um þetta geti lögskýringargögn í tengslum við lagasetningu eftir að störfum slitastjórnar félagsins var lokið ekki haft neina þýðingu. Mótmælir stefndi því að félagið hafi ekki verið í slitameðferð og að sú meðferð hafi brotið í bága við tilskipun 2001/24/EB. Álitaefni um slitameðferðina beri að leysa samkvæmt lögum nr. 161/2002 eins og þau voru á þeim tíma sem nauðasamningsumleitanir stóðu yfir.
Stefndi mótmælir loks vaxtakröfu stefnanda og telur að kröfur hans geti ekki borið dráttarvexti fyrr en frá þeim degi sem dómur verði kveðinn upp.
Niðurstaða
Með úrskurði dómsins 19. mars 2009 var stefnda, sem þá hét Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki, veitt heimild til greiðslustöðvunar. Þann 15. apríl 2009 voru samþykkt á Alþingi lög sem gefin voru út 21. apríl sem lög nr. 44/2009, og skyldu þegar öðlast gildi. Með bréfi 11. maí skipaði héraðsdómur félaginu slitastjórn að beiðni skilanefndar. Er um þá skipun vísað til 1. og 3. tl. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. og 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Slitastjórnin gaf út innköllun 12. maí og skoraði á kröfuhafa að lýsa kröfum sínum. Var tekið fram að yrði kröfu ekki lýst innan frests hefði það sömu réttaráhrif og vanlýsing kröfu samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991.
Áðurnefnt ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 gilti samkvæmt upphafsorðum sínum um stefnda. Í 2. tl. sagði að við greiðslustöðvun félagsins skyldi beita tilteknum ákvæðum laganna, eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lögin öðluðust gildi. Slitameðferðin skyldi kölluð greiðslustöðvun sem lengi sem sú heimild stæði, en þegar heimildin væri runnin út skyldi fyrirtækið sjálfkrafa teljast vera til slitameðferðar eftir almennum reglum.
Meðal þeirra ákvæða sem beita skyldi var 102. gr. og 103. gr. a. Af 102. gr., sbr. einkum 4. mgr. sem vísar til XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991, leiðir að stefndi var til meðferðar eins og félagið hefði verið tekið til slita með úrskurði 21. apríl 2009. Um innköllunina sem slitastjórnin gaf út gilti því regla 118. gr. gjaldþrotalaga. Ef kröfu væri ekki lýst, félli hún niður, gagnvart búinu. Krafan fellur hins vegar ekki niður gagnvart félaginu. Þessi regla gildir jafnt gagnvart einstaklingum og félögum með takmarkaðri ábyrgð. Yfirleitt skiptir þetta þó ekki máli við gjaldþrotaskipti á búum félaga, sem lýkur með úthlutun og þar með slitum félagsins.
Meðferð slitastjórnar á stefnda, hvort sem við nefnum hana slitameðferð eða meðferð sams konar og slitameðferð, lauk með því að staðfestur var nauðasamningur. Í 3. mgr. 103. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 8. gr. laga nr. 44/2009, er gert ráð fyrir því að slitameðferð megi ljúka með gerð nauðasamnings. Ekki verða dregnar víðtækar ályktanir af því að ákvæðið notar orðalagið að leita nauðasamnings til að ljúka [slitameðferðinni]. Ekki er unnt að líta svo á að um nauðsamning stefnda gildi aðrar reglur en um nauðasamninga sem gerðir eru samkvæmt XXI. kafla gjaldþrotalaga.
Nauðasamningur sem gerður er eftir að félag hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta leiðir til þess að fjárhæð krafna og skilmálar breytast eftir því sem samningurinn mælir fyrir um. Gjaldþrotaskiptunum er hætt og stjórn félagsins tekur aftur við forræði á hagsmunum þess og skuldbindingum. Kröfuhafi sem komst ekki að við skiptin vegna þess að hann lýsti ekki kröfu sinni, getur krafist greiðslu kröfu sinnar, en verður að sæta lækkun hennar í samræmi við skilmála nauðasamningsins.
Í 3. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 8. gr. laga nr. 44/2009, er vísað til 1. og 2. mgr. ákvæðisins um hvað skuli gert að staðfestum nauðasamningi. Í 1. mgr. segir að annað hvort verði fyrirtæki látið á ný í hendur hluthafa, sbr. 1. tl., eða hluthöfum er greiddur út eignarhlutur þeirra, sbr. 2. tl. Skýra verður 2. tl. svo með hliðsjón af 2. mgr. að sú leið verði ekki farin nema allar viðurkenndar kröfur hafi verið greiddar að fullu. Í tilviki stefnda var því einungis fær sú leið sem farin var, þ.e. að hluthafar tækju við félaginu á ný. Af því leiðir að kröfur sem komust ekki að við skiptin, hafa ef svo má segja vaknað til lífs á ný þar sem skuldari þeirra er ekki lagður niður. Engin heimild er í lögum til þess að telja kröfur falla alveg niður þó þeim hafi ekki verið lýst við gjaldþrotaskipti eða slitameðferð.
Verður samkvæmt framansögðu að fallast á kröfur stefnanda. Aðilar eru sammála um að dæma verði kröfu stefnanda án tillits til ákvæða nauðasamnings stefnda. Gildir það um allar kröfurnar, líka hið svonefnda víkjandi lán. Þá þarf ekki fjalla um það hvort um sé að ræða kröfur samkvæmt skuldabréfum eða innlánum, en fjárhæð er ekki umdeild. Verður því fallist á kröfu stefnanda, en eins og áður segir mótmælti stefndi ekki fjárhæðum eftir að stefnukröfur voru lækkaðar við aðalmeðferð málsins. Stefndi verður því dæmdur til að greiða stefnanda 5.195.648.045 krónur.
Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda. Fallast verður á að ekki séu skilyrði til að reikna dráttarvexti fyrr en slitameðferð hafði verið lokið með staðfestingu nauðasamnings. Ber að reikna dráttarvexti frá þeim degi sem nauðasamningur var staðfestur, 18. ágúst 2010.
Rétt er að stefndi greiði stefnanda málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 1.600.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, ALMC hf., greiði stefnanda, Stapa, lífeyrissjóði, 5.195.648.045 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. ágúst 2010 til greiðsludags og 1.600.000 krónur í málskostnað.