Hæstiréttur íslands

Mál nr. 262/2004


Lykilorð

  • Kröfugerð
  • Sakarefni
  • Vátryggingarsamningur
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004.

Nr. 262/2004.

Sveinn Lárus Ólafsson

(Jónatan Sveinsson hrl.)

gegn

ACE Insurance S.A.N.V.

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

 

Kröfugerð. Sakarefni. Vátryggingarsamningur. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

 

S hafði keypt slysatryggingu fyrir áhöfn báts síns hjá A í júní 2001. Þegar skipverji á bátnum höfðaði mál á hendur S vegna slyss sem skipverjinn varð fyrir um borð í ágúst sama ár, höfðaði S sjálfstætt mál gegn A í stað þess að stefna honum til réttargæslu og skora á hann um meðalgöngu í máli skipverjans. Var fallist á kröfu S um að vátryggingarsamningur milli A og S hafi verið í gildi þegar slysið varð. Á skorti að kröfugerð og málsástæður væru skýrt greindar í sóknar- og varnargögnum og enn var óljóst um inntak bótaskyldu. Í héraðsdómi var skírskotað til sönnunarfærslu í máli skipverjans gegn S, sem enn var ekki dæmt. Bar því að ómerkja héraðsdóm að því er varðaði inntak ábyrgðar A og vísa frá héraðsdómi kröfu S um það efni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2004. Endanlegar dómkröfur hans eru „að fallist verði á þá kröfu áfrýjanda, að bótaábyrgð stefnda samkvæmt umræddum vátryggingarsamningum við stefnda frá 14. júní og 1. ágúst 2001 um líf- og slysatryggingu áhafnarinnar á vs. Reyni GK-177 (1105) markist af ákvæðum greinar 1.22 í gildandi kjarasamningi sjómanna á slysdegi, svo sem þau voru ákvörðuð af gerðardómi skv. lögum nr. 34/2001, um kjaramál fiskimanna og fleira, sem upp var kveðinn þann frá 30. júní 2001.“ Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í héraðsdómi gerði áfrýjandi endanlega þá aðalkröfu að stefndi bætti honum tjón það sem hann kynni sem útgerðarmaður og eigandi að verða dæmdur til að greiða einum skipverja Reynis GK-177 vegna slyss, sem hann hefði orðið fyrir um borð í bátnum 14. ágúst 2001, en mál til heimtu bóta væri rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Til vara krafðist hann að viðurkennt yrði að um bótaábyrgð stefnda vegna slyssins færi að ákvæðum 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, svo sem ákveðið væri í gildandi ákvæðum kjarasamnings sjómanna á slysdegi samkvæmt gerðardómi frá 30. júní 2001. Í kröfugerðinni var ekki vitnað til vátryggingasamnings aðilanna, svo sem gert er fyrir Hæstarétti, og þar er skírskotað til dóms sem ekki er fallinn. Í niðurstöðu héraðsdóms er aðal- og varakröfu áfrýjanda gerð skil í einu lagi og í dómsorði er á sama hátt og í kröfugerð áfrýjanda skírskotað um bótarétt til sönnunarfærslu í dómi sem ekki er enn fallinn. Dómkröfur áfrýjanda uppfylltu þannig ekki kröfur 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýrleika og niðurstaða héraðsdóms fær ekki samrýmst ákvæði 4. mgr. 114. gr. sömu laga.

Samkvæmt kröfugerð stefnda og málsreifun fyrir Hæstarétti hefur hann hins vegar fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, að honum sé skylt að bæta tjón áfrýjanda sem hann kunni að verða dæmdur til að greiða vegna slyssins 14. ágúst 2001. Í því hlýtur að felast að hann viðurkennir að í gildi hafi verið vátryggingarsamningur milli aðila málsins um slysatryggingu og að um vátryggingaverndina fari að ákvæðum 172. gr. siglingalaga. Óljósara er hins vegar hvort stefndi telur verndina takmarkast af lagaákvæðinu einu eða hvort skýra eigi ákvæðið með hliðsjón af kjarasamningi, sem í gildi var fyrir gildistöku laga nr. 34/2001. Ljóst er þó að hann fellst ekki á að um hana gildi ákvæði kjarasamnings sjómanna samkvæmt gerðardómi frá 30. júní 2001. Stefndi fellst á að greiða áfrýjanda málskostnað eins og í héraðsdómi greinir.

Í héraðsdómi er lýst atvikum að því þegar Ásgeir Jónsson skipverji slasaðist 14. ágúst 2001 um borð í bátnum. Þar er einnig lýst tilraunum lögmanns Ásgeirs til að innheimta bætur úr hendi stefnda og bréfaskiptum hans við áfrýjanda þar um, sem lauk með því að Ásgeir höfðaði mál á hendur áfrýjanda fyrir Héraðsdómi Reykjaness um slysabætur án þess að stefnda væri einnig stefnt til varnar.

II.

Þegar lögskráð var á skipið 18. júní 2001 höfðu lög nr. 34/2001 verið samþykkt, en þau bönnuðu verkföll sjómanna og kváðu á um skipun þriggja manna gerðardóms, sem skera átti úr um ágreiningsefni vinnudeilunnar. Samkvæmt d-lið, 1. mgr. 2. gr. laganna voru slysatryggingar sjómanna meðal þeirra atriða sem gerðardómurinn átti að fjalla um. Í 2. mgr. 3. gr. gerðardómslaganna var kveðið á um að nýr kjarasamningur skyldi gilda frá gildistöku þeirra 16. maí 2001, en gerðardómurinn átti að ljúka störfum  fyrir 1. júlí sama árs.

Áfrýjandi kveðst hafa keypt slysatryggingu fyrir áhöfn bátsins hjá stefnda 14. júní 2001 og afhent lögskráningarstjóranum í Keflavík staðfestingu fyrir því þegar lögskráð var á skipið, sbr. 6. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna. Í fyrsta málslið ákvæðisins segir að framvísa eigi við lögskráningu í skiprúm yfirlýsingu frá viðkomandi tryggingarfélagi um líf- og slysatryggingu skipverja og skuli skráningarstjóri ganga úr skugga um að þær séu í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga. Í framvísaðri staðfestingu á slysatryggingu frá stefnda stóð að vátryggjandi greiddi dánarbætur, örorkubætur og dagpeninga samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Þar var einnig vísað til meðfylgjandi vátryggingarskilmála fyrir slysatryggingu sjómanna, en skilmálarnir eru samdir fyrir Landssamband smábátaeigenda.

Gerðardómurinn kvað upp úrskurð sinn 30. júní 2001 og komst þar með á nýr kjarasamningur fyrir sjómenn sem gilda átti til 31. desember 2003. Ákvæði nýs kjarasamnings varðandi slysatryggingu sjómanna samkvæmt gerðardóminum er í grein 1.22 en þar segir meðal annars: „Útgerðin skal tryggja hvern þann mann sem samningur þessi nær til og slasast um borð í skipi eða í vinnu í beinum tengslum við rekstur skips í samræmi við ákvæði 172. gr. laga nr. 34/1985. Bætur úr vátryggingu þessari skulu ákvarðast á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. laga nr. 34/1985. Bætur úr vátryggingu þessari dragast frá skaðabótum frá útgerð. ...“.

III.

Áfrýjandi segir að hvorki við kaup tryggingarinnar né hjá lögskráningarstjóra hafi verið rætt um inntak tryggingarinnar og hafi hann gengið út frá því að hún hefði að geyma fullnægjandi tryggingarvernd. Þegar Ásgeir Jónsson höfðaði mál á hendur áfrýjanda fyrir Héraðsdómi Reykjaness greip hann til þess ráðs að höfða sjálfstætt mál gegn stefnda í stað þess að stefna honum til réttargæslu og skora á hann um meðalgöngu í mál Ásgeirs, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991. Fram kom við flutning málsins fyrir Hæstarétti að enn hafi ekki verið dæmt í máli Ásgeirs á hendur áfrýjanda og þannig ekki ljóst hvort og hvernig reynir á ábyrgð áfrýjanda á slysinu. Liggur því ekki fyrir hvort áfrýjandi á lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr efni réttinda hans á hendur stefnda. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 verða dómsstólar ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem nauðsynlegt er til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Að framan er því lýst að kröfugerð áfrýjanda í héraði var óljós og þar skírskotað til sönnunar í máli sem enn er ekki dæmt. Ekki er skýrt hvort krafa hans hér fyrir dómi um inntak vátryggingarverndar stefnda rúmist innan þeirrar kröfugerðar. Málflutningsyfirlýsingar stefnda fyrir Hæstarétti eru einnig óljósar um viðurkennt inntak vátryggingarábyrgðar hans. Á skortir því að kröfugerð og málsástæður séu skýrt greindar í sóknar- og varnargögnum og enn er óljóst um inntak bótaskyldu. Í héraðsdómi er skírskotað til sönnunarfærslu í máli sem enn er ekki dæmt. Af framangreindu leiðir og með vísan til 4. mgr. 114. gr., 80. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að ómerkja ber héraðsdóm að því er varðar inntak ábyrgðar stefnda og vísa frá héraðsdómi kröfu áfrýjanda um það efni. Að öðru leyti hefur stefndi fallist á héraðsdóm.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um að 14. ágúst 2001 hafi verið í gildi vátryggingarsamningur milli áfrýjanda, Sveins Lárusar Ólafssonar, og stefnda, ACE Insurance S.A.N.V.

Kröfu áfrýjanda að öðru leyti er vísað frá héraðsdómi.

Málkostnaðarákvæði héraðsdóms skal vera óraskað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 26. september 2003.

Stefnandi er Sveinn Lárus Ólafsson, Klapparstíg 4, Sandgerði.

Stefndi er ACE Insurance S.A. N.V.,  Stortorvet 3, 0155 Oslo, Noregi.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

Aðallega:

Að viðurkennt verði með dómi, að stefnda sé skylt að bæta stefnanda það tjón, sem hann sem útgerðarmaður og eigandi vs. Reynis GK-177 (1105) kann að verða dæmdur til að greiða einum skipverja skipsins, Ásgeiri Jónssyni, kt. 290773-4589, vegna slyss sem hann varð fyrir við störf sín um borð í skipinu þann 14. ágúst 2001, en mál til heimtu bótanna rekur skipverjinn nú fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Til vara er sú krafa gerð, að viðurkennt verði með dómi, að bótaábyrgð stefnda vegna slyssins verði eigi ákveðin takmarkaðri en sem nemi bótarétti skipverjans samkvæmt ákvæðum 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, svo sem hann var ákveðinn í gildandi ákvæðum kjarasamnings sjómanna á slysdegi samkvæmt gerðardómi frá 30. júní 2001.

Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnda með sama hætti og greinir í aðalkröfu.

 

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að bótaábyrgð stefnda verði takmörkuð við bótafjárhæðir skv. ákvæðum 172. gr siglingalaga nr. 34/1983 eins og þær fjárhæðir voru ákvarðar á slysdegi þann 14. ágúst 2001.

Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu.

 

Stefnandi málsins er eigandi og útgerðarmaður fiskiskipsins Reynis GK-177 (1105), sem er 50,91 brúttórúmlesta eikarskip, byggt í Stykkishólmi árið 1970.

Stefndi er norskt tryggingafélag, sem fyrir milligöngu vátryggingamiðlarans Alþjóðlegrar Miðlunar ehf., áður að Tryggvagötu 8, Reykjavík, nú með starfsstöð að Klapparstíg 25-27, Reykjavík, hefur á undanförnum árum selt í nokkrum mæli hér á landi lög- og samningsbundnar slysatryggingar sjómanna (áhafnatryggingar) til eigenda minni fiskiskipa. Stór hluti viðskiptamanna stefnda hér á landi eru félagar í Landssambandi smábátaeigenda, sem stefnandi á aðild að.

Í beinu framhaldi af því að stefnandi festi kaup á vs. Reyni GK-177 keypti hann af stefnda slíka áhafnatryggingu fyrir væntanleg skipverja á skipinu fyrir milligöngu Alþjóðlegrar Miðlunar ehf. Tyggingarsamningur stefnanda og stefnda um slysatrygginguna hafi komist á þann 14. júní 2001 og gilt samkvæmt efni sínu til 13. júní 2002.

Upphaflega voru tryggðir fjórir skipverjar á skipinu en frá 1. ágúst 2001 voru tryggðir sex skipverjar á skipinu. Um slysatrygginguna giltu hinir almennu vátryggingaskilmálar stefnda fyrir slíkar tryggingar með gildistíma frá 1. janúar 2001 Tryggingaskilmála þessa hafði stefndi sérstaklega samið um við Landsamband smábátaeigenda, sem eru samtök eigenda fiskiskipa allt að 100 brúttórúmlestum. Hinir sérprentuðu ábyrgðarskilmálar slystryggingarinnar hafa einnig að geyma úrdrátt úr bótareglu 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og skyldu útgerðarmanna til að kaupa slysatryggingu fyrir skipverja til verndar þessum bótarétti þeirra. Samsvarandi ákvæði er að finna í gildandi kjarasamningum sjómanna, sem komst á með gerðardómi skv. 2. grein laga nr. 34/2001 í lok júnímánaðar 2001.

Stefndi hefur ekki útibú eða sérstaka starfsstöð hér á landi, en rekur hér vátryggingastarsemi á grundvelli heimilda í 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með milligöngu ofangreinds vátryggingamiðlara, sbr. IX. kafla laga nr. 60/1994.

Stefndi hefur jafnframt gert þjónustusamning við firmað Tjónamat & Skoðun ehf, kt. 410300-3380, áður að Tryggvagötu 8, Reykjavík, en nú með starfsstöð að Klapparstíg 25-27, Reykjavík, um að félagið taki að sér hverskonar þjónustu við mat á bótaskyldu og uppgjör tjóna.

Má1 þetta á hendur stefnda er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli heimilda í vátryggingarskilmálum slysatryggingarinnar, sbr. ákvæði in fine um varnarþing.

Atvik að slysi skipverjans:

Lögskráð var á vs. Reyni GK-177 til veiða með þorskanetum þann 18. júní 2001. Upphaflega voru lögskráðir á skipið fjórir skipverjar og var skipinu haldið úti frá Sandgerði og Keflavík, þar sem aflanum var landað. Frá 1. ágúst 2001 var skipverjum fjölgað úr fjórum í sex. Stefnda var tilkynnt um þá fjölgun og staðfesti starfsmaður stefnda við lögskráningarstjórann í Keflavík, að sex skipverjar væru tryggðir frá og með 1. ágúst 2001.

Þann 14. ágúst 2001 var Ásgeir Jónsson, Melagötu 12, Neskaupstað, lögskráður sem háseti á vs. Reyni GK-177. Ásgeir var um þessar mundir skipverji á öðrum bát sem stefnandi gerði út, Baddý GK-277. Ásgeir varð þarna við beiðni stefnanda um að fara nokkra lausaróðra á vs. Reyni GK-177.

Þegar verið var að draga net þann 14. ágúst 2001, NV af Eldey vildi það óhapp til, að fiskikar, sem stóð miðskips á dekki skipsins, rann óvænt út í síðu þess, þar sem Ásgeir varð fyrir því og klemmdist. Í dagbók skipsins er óhappinu lýst með svofelldum hætti, "Þegar við vorum að draga net NWafEldey, ca. 7 m., rann fiskkar til á dekkinu með þeim afleiðingum að Ásgeir Jónsson varð fyrir karinu og meiddist á hné, þegar komið var í land var strax farið með Ásgeir á Heilsugæslu Suðurnesja Keflavík. " Bókun þessa undirritar skipstjóri skipsins, Grétar Mar Jónsson. Við slysið fékk Ásgeir áverka á hægra hné, sem nánar er lýst í áverkavottorðum, sem frammi liggja í málinu.

Stefnanda kveðst fljótlega eftir slysið hafa tilkynnt um það símleiðis til sameiginlegrar skrifstofu Alþjóðlegrar Miðlunar ehf. og Tjónamats & Skoðunar ehf. Var tilkynningin tekin þar niður en stefnanda sagt að skila inn sem fyrst skriflegri tilkynningu um slysið. Stefnandi er ekki viss um að af því hafi orðið en í millitíðinni tilkynnti lögmaður hins slasaða skipverja stefnda að hann hefði tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hinn slasaða vegna slyssins. Hins vegar tilkynnti stefnandi skriflega um slysið til Verkalýðs- og sjómannafélagsins í Sandgerði þann 29. september 2001 og þann 2. október 2001 tilkynnti stefnandi slysið skriflega til Tryggingastofnunar ríkisins.

Þann 28. September 2001 óskaði lögmaður hins slasaða, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl., eftir því við stefnda, að honum yrði látin í té gögn, ef einhver væru, varðandi slysið. Með bréfi, dags. 8. október 2001, er því svarað á þann veg, að ekkert væri skráð hjá stefnda um slysið. Með bréfi, dags. 26.jú1í 2002, óskaði greindur lögmaður Ásgeirs Jónssonar eftir því við stefnda að fá bréflega staðfestingu á því, "... hvort áhafnartrygging samkvæmt siglingalögum nr. 34/1985 og gerðadómi skv. 2. grein lags nr. 34/ 2001 var í gildi á slysdegi. ".

Með bréfi, dags. sama dag, var þessu bréfi lögmannsins svarað af lögmanni Tjónamats & Skoðun ehf., þar sem staðfest var "..: að vátryggingaskírteini vegna slysatryggingar sjómanna var gefið út til handa útgerðarmanni Reyni GK-177 þann 1. ágúst 2001, sem jafnframt var gjaldagi iðgjaldsins. ". Síðan segir í bréfinu orðrétt: "Þrátt fyrir ítrekanir um greiðslu, var iðgjaldið enn ógreitt þremur mánuðum eftir að þess var fyrst krafist og í samræmi við ákvæði 13. - 15. gr. VSL nr. 20/1954, féll samningurinn úr gildi án frekari aðgerða af hálfu vátryggjanda. Það er því mat vátryggjanda, að ekki hafi verið í gildi trygging á þeim tíma sem getið er í bréfi yðar. "

Stefnandi fékk ekki afrit af bréfi þessu og fékk fyrst vitneskju um efni þess hjá greindum lögmanni hins slasaða skipverja. Þegar hér var komið sögu hafði stefnandi aldrei fengið um það tilkynningu frá stefnda eða fyrrgreindum þjónustuaðilum hans, að áhafnartrygging á vs. Reyni GK-177 hefði verið felld niður eða til stæði að fella hana niður vegna vanskila á iðgjöldum. Starfsmenn stefnda höfðu aftur á móti ítrekað staðfest við lögskráningarstjórann í Keflavík, að áhafnartryggingin væri í gildi við upphaflegu lögskráninguna á skipið í júní 2001 og við fjölgun skipverja frá og með 1. ágúst 2001 og í mörg skipti endranær við mannabreytingar á árinu 2001. Sama máli hafi gegnt um fyrstu lögskráningu á skipið í byrjun janúar 2002, og síðan áfram á meðan það var gert út á árinu 2002.

Með stefnu, útgefinni 30. jú1í 2002, höfðaði lögmaður Ásgeirs Jónssonar má1 á hendur stefnanda einum sem eiganda og útgerðarmanns vs. Reynis GK-177 og krafðist skaðabóta vegna slyssins að fjárhæð 15.000.000 króna auk vaxta og kostnaðar úr hendi stefnanda. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness þann 11. september 2002 og er þar enn á gagnaöflunarfresti að tilhlutan lögmanns skipverjans. Með málssókn þessari hafi stefnanda fyrst orðið ljóst, að stefndi hafi ekki ætlað að gangast við bótaskyldu vegna slyssins á skipverjanum.

Með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns hins slasaða, dags. 16. október 2002, sem lögmanni stefnda var sent afrit af, er þeim viðhorfum stefnda að ekki hafi verið í gildi slysatrygging áhafnar skipsins á slysdegi mótmælt. Staðhæfing stefnda um að slysatryggingin sé niður fallin fái með engu móti staðist. Jafnframt var skorað á lögmann hins slasaða að framhaldsstefna stefnda inn í málið til réttargæslu og viðurkenningu á bótaskyldu sinni. Lögmaðurinn taldi sér ekki fært að verða við þessum tilmælum stefnanda vegna framangreindra yfirlýsinga stefnda.

Með bréfi til lögmanns hins slasaða, dags. 26. maí 2003, áréttaði lögmaður stefnda áðurgreinda afstöðu sína um gildi slysatryggingar áhafnarinnar á slysdegi. Hefur stefnda ekki verið þokað í þeim efnum þrátt fyrir ítrekuð tilmæli þar að lútandi. Af þeim ástæðum telur stefnandi óhjákvæmilegt að höfða má1 þetta til öflunar á viðurkenningu á því, að slysatrygging áhafnarinnar á vs. Reyni GK-177 (1105) hafi verið í gildi þegar einn skipverjanna á skipinu, Ásgeir Jónsson, varð fyrir slysi við störf síns um borð í skipinu þann 14. ágúst 2001, og stefnda beri því á grundvelli slysatryggingarinnar áhafnarinnar að bæta stefnanda það tjón, sem hann kynni að verða dæmdur til að greiða í framangreindu bótamáli skipverjans á hendur honum.

 

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK:

Af hálfu stefnanda er til þess vitnað að útgerðarmönnum skips sé skylt að lögum, sbr. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum (áhafnartrygging) sem á þá kunni að falla samkvæmt ákvæðum 171. gr. og 1. mgr.172. gr. siglingalaga. Þessi tryggingaskylda sé einnig áréttuð í kjarasamningum sjómanna, nú síðast í kjarasamningum sem komust á með sérstökum gerðardómi skv. 2. gr. laga 34/2001 í maímánuði 2001.

Til þess að tryggja að þessi mikilvægu réttindi sjómanna séu meiri en orðin tóm hafi löggjafinn komið því svo fyrir, að lögskráningu sjómanna á skip sé bundin því skilyrði, að sýnt sé fram á með yfirlýsingu frá viðkenndu tryggingarfélagi að útgerðarmaður skipsins hafi keypt slíka áhafnartrygging fyrir þá skipverja sem standi til að lögskrá á viðkomandi skip. Vísar stefnandi í þessum efnum til 6. tl. 1. mgr. 7. gr. laga lögskráningu sjómanna nr. 43/1987.

Þá hafi löggjafinn einnig hlutast til um það, að þessum tryggingarréttindum sjómanna væri tryggilega við haldið með því að binda í lög að hluti af andvirði landaðs afla skips sé lagt í sérstakan tryggingasjóð í vörslu Landsambands íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ), sem síðan sjái um að greiða úr sjóðnum til þeirra tryggingafélaga sem húftryggt hafi viðkomandi skip og/eða selt útgerðarmanni skips þessar lögboðnu áhafnartryggingar (slysatryggingar) sbr. lög nr. 43/1987, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, einkum 5.-8. greina þeirra.

Dómkröfur stefnanda séu aðallega byggðar á þeirri málsástæðu, að á slysdegi greinds skipverja þann 14. jú1í 2001 hafi verið í gildi hjá stefnda hin lög- og samningsbundna áhafnartrygging fyrir sex skipverja á vs. Reyni GK-177, sem stefnanda hafi sem eiganda og úrgerðarmanni skipsins verið skylt að kaupa skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 til tryggingar dánar- og slysabótum skipverja, sem fallið gætu á útgerðarmann skv. 171. gr. og/eða 1. mgr. 172. gr. siglingalaga, og tilsvarandi ákvæða í þágildandi kjarasamningi sjómanna. Stefnda beri því að bæta stefnanda tjón það sem hann standi frammi fyrir vegna slyssins á skipverjanum.

Á því er byggt að samningurinn um áhafnartrygginguna milli aðila hafi komist á þann 14. júní 2001 með gildistíma til 13. júní 2002, þar sem fjórir skipverjar hafi fyrst verið tryggðir og síðan sex skipverjar frá 1. ágúst sama árs á skipið. Vísist í þessum efnum til staðfestingar stefnda sjálfs á dskj. 7 og 18. Til enn frekari staðfestingar á tilvist þessara trygginga vísist til bréfs Alþjóðlegrar Miðlunar ehf. til stefnanda, dags. 25. mars 2003, þar sem hann geri stefnanda tvo reikninga fyrir iðgjöldum af áhafnartryggingunni, annarsvegar fyrir 4 menn á tímabilinu 14. júní 2001 til 13. júní 2002 og hins vegar fyrir 2 menn fyrir tímabilið 1. ágúst 2001 til 13. júní 2002. Þannig er á því byggt, að áhafnartryggingin fyrir allt að sex skipverja hafi verið í gildi frá 14. júní 2001 og út árið 2001 og síðan frá fyrstu lögskráningu á skipið þann 2. janúar 2002 fram til 5. september 2002, þegar útgerð skipsins var hætt og skipverjar voru afskráðir vegna sjótjóns sem orðið hafi á skipinu.

Þá er á því byggt að þessum samningum við stefnda um áhafnartryggingar hafi sannanlega aldrei verið sagt upp af hálfu stefnda né þeir fallið niður, hvorki vegna vanskila á greiðslu iðgjaldsins á grundvelli heimilda í 13. og 14. gr. laga nr. 20/1954, né af öðrum ástæðum. Enn fremur er á því byggt að lagaskilyrði hafi skort fyrir því að stefndi gæti lýst sig óbundinn af tryggingasamningnum á grundvelli ákvæða 15. gr. laga nr. 20/1954. Sú heimild sé meðal annars bundin við að liðnir séu 3 mánuðir frá því "að greiðslu iðgjaldsins var krafist". Sé við það miðað að iðgjaldið væri kræft er tryggingin var keypt þann 14. júní 2001 hafi sá 3ja mánaða frestur ekki verið útrunnin fyrr en 14. september 2001, eða einum mánuði eftir að slysið átti sér stað.

Á því byggt, að vátryggingafélagi því sem selur slíkar áhafnartryggingar sé skylt með vísan til 87. gr. laga nr. 20/1954, að tilkynna það skriflega og með 14 daga fyrirvara til útgerðarmanns skips, áhafnar þess og/eða lögskráningastjóra þess umdæmis, þar sem skipið er skráð í eða það gert út frá, hyggist félagið nýta sér heimildir í 13.-15. gr. laga um vátryggingasamning til að fella úr gildi slíkar lög- og samningsbundnar áhafnatryggingar sökum þess að iðgjald af þeim hafi ekki verið greitt. Að mati stefnanda sé eðlilegt að túlka 87. gr. laga sem meginreglu, þegar líkt standi á og þar greinir, að þeir sem allt eigi undir því að áhafnartrygging haldi gildi sínu meðan skipverjar eru lögskráðir á skip fái ráðrúm til að gera þær ráðstafanir sem líklegar væru til að viðhalda tryggingunni en ella að segja skiprúmi sínu lausu.

Ósannað sé með öllu, að samningnum hafi verið sagt upp fyrir slysdag eða endranær á samningstímanum svo sem stefndi heldur fram. Þá sé einnig ósannað að sérstakar kröfur hafi verið gerðar á hendur stefnanda um greiðslu iðgjaldsins að viðlagðri niðurfellingu ábyrgðar félagsins samkvæmt áhafnartryggingunni. Sérstaklega er mótmælt að slík áskorun hafi verið send stefnanda á tímabilinu frá gildistöku samningsins þann 14. júní 2001 fram til slysdags þann 14. ágúst 2001.

Á því er einnig byggt, að 12. gr. laganna um vátryggingarsamninga um gjalddaga og greiðslu iðgjalda, sbr. ákvæði ábyrgðarskilmálanna um sama, hafi í framkvæmd verið framfylgt á þann veg, að ekki hafi við gerð vátryggingarsamningsins verið gengið eftir iðgjaldi vegna tryggingarinnar. Á það hefur verið treyst, að iðgjaldagreiðslurnar bærust frá tryggingasjóði LÍÚ, svo sem ákvæði laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, geri ráð fyrir. Þetta komi glögglega fram í því, að stefndi krefji stefnanda sannanlega ekki um greiðslu iðgjaldsins fyrr en með bréfi, dagsettu 25. mars 2002, eða rúmum 9 mánuðum eftir að vátryggingarsamningurinn hafi komist á þann 14. júní 2001. Til skýringar á þessu bréfi þyki rétt að benda á að greiðslur skv. lögum nr. 24/1986 fyrir vs. Reyni GK-177 hafi á seinni hluta ársins 2001 fyrir mistök verið færðar inn á vs. Reyni AK-18, svo sem skýrist nánar á viðskiptayfirlitum tryggingasjóðs L1Ú.

Loks er á því byggt, að þessa hafi ávalt verið gætt við lögskráningu á vs. Reyni GK-177 að til staðar væri gild áhafnartrygging fyrir hina skráðu skipverja. Hafi þetta verið sérstaklega kannað skömmu áður en skipverji sá sem seinna slasaðist var lögskráður þann 14. ágúst 2001 vegna fjölgunar á skipverjum úr fjórum í sex, sbr. staðfestingu lögskráningarfulltrúans í Keflavík þar að lútandi og áritana í lögskráningarbeiðnum. Þetta komi einnig heim og saman við reikningsgerð stefnda á hendur stefnanda á vegna iðgjalda af áhafnartryggingunni á árinu 2001.

Til viðbótar þeim lagarökum, sem að framan hafa verið greind, vísast til stuðnings dómkröfum stefnanda til ákvæða laga nr. 20/1954, um vátryggingasamninga, laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, reglna skaðabótaréttarins um bætir innan samninga og meginreglna samnings- og kröfuréttarins um skyldur til efnda á loforðum. Að því er málskostnaðarkröfuna varðar þá vísast til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Krafist sé viðurkenningar á bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda vegna þeirra bótakrafna, sem stefnandi standi frammi fyrir vegna þess slyss, sem skipverjinn Ásgeir Jónsson, hafi orðið fyrir um borð í vs. Reyni GK-177 (1105) þann 14. ágúst 2001.

Stefndi hafi talið sig hafa gilda lög- og samningsbundna áhafnartryggingu fyrir áhöfn skipsins hjá stefnda, þegar slysið átti sér stað, en stefndi hefur hafnað bótaskyldu sinni með þeim rökum, að vátryggingasamningurinn hafi verið fallin niður vegna vanskila á greiðslu iðgjaldsins af tryggingunni, þegar slysið átti sér stað. Í stefnu málsins til Héraðsdóms Reykjaness sé krafist skaðabóta að fjárhæð 15.000.000 króna, en endanleg bótafjárhæð ráðist af niðurstöðu þess máls. Auk viðurkenningar á bótaskyldunni er krafist málskostnaðar.

 

Aðalkröfu sína um sýknu byggir stefndi á því að þar sem greiðsla fyrir vátrygginguna hafi ekki borist hafi tryggingin fallið niður frá upphafi, sbr. 15. gr. 1. mlsl. laga 20/1954. Stefndi bendir á að skv. skýru ákvæði tryggingarinnar sé iðgjald gjaldfallið um leið og vátryggingin taki gildi. Útgáfa reiknings til handa vátryggingartaka jafngildi greiðsluáskorun í þessu efni. Stefndi bendir einnig á að sérstakri greiðsluáskorun hafi  verið beint til stefnanda þann 25. mars 2002, sem engin viðbrögð hafi borist við. Stefnda hafi því bæði verið rétt og eðlilegt að líta þannig á að tryggingin væri niður fallin frá upphafi vegna vanefnda stefnanda.

Stefndi hafnar því alfarið að honum hafi borið skylda til að upplýsa skráningarstjóra um brottfall vátryggingar, enda segi skýrt í 6 tl. 7. gr. 1. 43/1987 að gildi vátrygginga sé alfarið á ábyrgð útgerðarmanns. Vanefndir stefnanda sem vátryggingartaka geti ekki skapað vátryggðum betri rétt að þessu leiti.

Stefndi hafnar því jafnframt að unnt sé að líta á ákvæði 87. gr. vsl. nr. 20/1954 sem meginreglu, enda eigi hún við um allt aðra tegund trygginga. Ákvæði greinarinnar þrengi þær almennu reglur sem gildi um samskipti milli aðila vátryggingarsamnings og verði með engu móti lögjafnað frá henni yfir á aðrar gerðir vátrygginga. Varakröfu sína byggir stefndi á því að fari svo ólíklega að ekki verði fallist á framangreind rök stefnda, beri hann aldrei ríkari ábyrgð en samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 varðandi bótafjárhæðir. Stefndi bendir á að vátrygging sú sem um er deilt hafi verið tekin þann 14. júní 2001, er vátryggingarskírteini til fjögurra nafngreindra einstaklinga var gefið út. Með sérstakri beiðni í ágúst 2001 hafi verið aukið við ábyrgð vátryggjanda og vátryggingin látin ná til tveggja ónafngreindra skipverja til viðbótar þeim sem áður höfðu verið tryggðir.

Skilmálar vátryggingarinnar geri þannig ekki ráð fyrir að bætur til bótaþega séu ákveðnar á grundvelli skaðabótalaga, heldur eftir skilmálum vátryggingarinnar og með hliðsjón af fjárhæðum 172. gr. sigll. eins og þær hafi verið uppfærðar miðað við slysdag. Í þessu sambandi bendir stefndi á að gerðardómur sá sem vísað sé til í stefnu, varðandi kjarasamninga útgerðar og sjómanna hafi verið felldur þann 30. júní 2001. Niðurstaða gerðardóms geti aldrei bundið aðra en aðila hans. Krafa um bætur á grundvelli ákvæða skaðabótalaga, sem kveðið sé á um í umræddum gerðardómi, verði því aldrei reist á hendur stefnda með vísan til gerðardómsins.

Um lagarök vísar stefndi til ákvæða vsl. nr. 20/1954, einkum 15 gr., 1. 34/1985 sbr. 172. gr., 1. 43/1987 5. - 7. gr. Þá vísar stefndi til 130. gr. sbr. 129 gr. eml. um málskostnað.

 

NIÐURSTAÐA

Meginmálsástæða stefnda er sú að þar sem greiðsla hafi ekki borist frá stefnanda á iðgjaldi hafi tryggingin fallið niður frá upphafi og ber fyrir sig 1. málslið 15. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasaminga en þar segir: “Nú eru liðnir 3 mánuðir frá því að greiðslu iðgjalds var krafist, og er það enn ógreitt, og fellur samningurinn þá úr gildi uppsagnarlaust, enda hafi félagið eigi byrjað lögsókn til heimtu iðgjaldsins.” Stefndi sendi bréf til stefnanda 25. mars 2002 þar sem hann krefur um greiðslu iðgjalda samkvæmt meðfylgjandi gíróseðli innan 30 daga. Bréfi þessu fylgir afrit tveggja reikninga. Er annar þeirra dagsettur 14. júní 2001 að fjárhæð 118.252 krónur og hinn dagsettur 1. ágúst sama árs að fjárhæð 42.202 krónur. Ekki liggur fyrir hvort og þá hvernig stefnandi hafi verið krafinn um greiðslu iðgjalds fyrr en með bréfinu 25. mars 2002. Þykir því ekki sýnt fram á að af ákvæði 15. gr. leiði að tryggingin hafi verið niður fallin er Ásgeir Jónsson slasaðist um borð í báti stefnanda þann 14. ágúst 2001.

 Samkvæmt 13. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga má vátryggjandi segja vátryggingunni upp sé fyrsta iðgjaldið eigi greitt á réttum tíma, og fellur samningurinn þá með öllu niður, sé iðgjaldið eigi greitt innan þriggja daga. Samkvæmt ákvæði í tryggingaskilmálum um gildistöku og iðgjaldagreiðslur skal uppsögn vera skrifleg. Ekki liggur fyrir að samningi aðila hafi verið sagt upp og hann fyrir þær sakir fallið niður.

Í 14. gr. laga um vátryggingarsamninga segir að verði hið fyrsta iðgjald eigi greitt, er þess er krafist, en þá kröfu megi í fyrsta lagi gera á gjalddaga, sé ábyrgð félagsins lokið. Það skilyrði ákvæðisins að iðgjalds hafi verið krafist telst ekki uppfyllt hér sbr.það sem að framan segir um að það hafi fyrst verið með bréfi dagsettu 25. mars 2002 að stefnandi hafi verið krafinn um greiðslu iðgjalds.

Af þessum ástæðum verður fallist á það með stefnanda, að er sjómaðurinn Ásgeir Jónsson varð fyrir slysi um borð í skipi stefnanda 14. ágúst 2001, hafi verið í gildi vátryggingarsamningur með aðilum. Að fenginni þeirri niðurstöðu þykir mega fallast á viðurkenningarkröfu stefnanda enda á hann lögvarða hagsmuni af því að fá úr sakarefni þessu leyst.

Kemur þá til úrlausnar hvort skilmálar tryggingarinnar hafi tekið breytingum í kjölfar gerðardóms þess sem upp var kveðinn 30. júní 2001 þar sem úrskurðað var að bætur samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 skuli ákvarðaðar á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Skilmálar þeir sem frammi liggja í máli þessu bera með sér að vera frá 1. janúar 2001. Til þess að fallist verði á það með stefnanda að bætur samkvæmt tryggingu þeirri er hann keypti hjá stefnda skuli ákvarðaðar á grundvelli reglna skaðabótalaga þarf hann að sýna fram á að um það hafi samist með aðilum. Svo er ekki hér og verður því fallist á það með stefnda, að um bætur samkvæmt tryggingarsamningi aðila fari samkvæmt ákvæðum 172. gr. siglingalaga.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Viðurkennd er sú krafa stefnanda, Sveins Lárusar Ólafssonar, að stefnda, ACE Insurance S.A. N.V.,  Stortorvet 3, Oslo, Noregi, sé skylt að bæta stefnanda það tjón, sem hann sem útgerðarmaður og eigandi vs. Reynis GK-177 (1105) kann að verða dæmdur til að greiða einum skipverja skipsins, Ásgeiri Jónssyni, kt. 290773-4589, vegna slyss sem hann varð fyrir við störf sín um borð í skipinu þann 14. ágúst 2001, en má1 til heimtu bótanna rekur skipverjinn nú fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Bótaábyrgð stefnda miðist við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.