Hæstiréttur íslands

Mál nr. 691/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Málsvarnarlaun
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu


Mánudaginn 19

 

Mánudaginn 19. janúar 2009.

Nr. 691/2008.

Jóhannes G. Bjarnason

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Sýslumanninum á Blönduósi

(Þorsteinn Pétursson hdl.)

Kærumál. Fjárnám. Málsvarnarlaun. Mannréttindasáttmáli Evrópu.

J krafðist að árangurslaust fjárnám, sem gert hafði verið hjá honum vegna vangreidds sakarkostnaðar í opinberu máli, yrði fellt úr gildi. Reisti hann kröfu sína meðal annars  á c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að hafi sakborningur ekki nægt fé til að greiða lögfræðiaðstoð skuli hann fá hana ókeypis sé það nauðsynlegt vegna réttvísinnar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þetta ákvæði gæti aðeins leyst J undan greiðslu málsvarnarhluta sakarkostnaðarins. Fyrir lá að tekjur J fyrir árið 2007 voru samtals 1.563.002 krónur. Ekki var fallist á að tekjur J væru það lágar að hann hefði ekki nægar tekjur til að standa straum af greiðslu þess hluta sakarkostnaðar sem laut að greiðslu málsvarnarlauna. Var aðfarargerðin því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008, þar sem staðfest var aðfarargerð  sýslumannsins í Reykjavík, sem fram fór hjá sóknaraðila 28. maí 2008, fyrir kröfu að fjárhæð 183.574 kr. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og fyrrgreind aðfarargerð felld úr gildi.  Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem hann nýtur fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, Jóhannesar G. Bjarnasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 28. október 2008. Málið var endurupptekið 5. desember 2008 og tekið til úrskurðar á ný.

Sóknaraðili er Jóhannes G. Bjarnason, Njálsgötu 65, Reykjavík

Varnaraðili er Sýslumaðurinn á Blönduósi.

Sóknaraðili gerir þær dómkröfur að aðfarargerð nr. 011-2007-11658 verði ómerkt og felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Varnaraðili krefst þess að árangurslaust fjárnám sem gert var þann 28. maí 2008 hjá Sýslumanninum í Reykjavík í aðfararmáli nr. 011-2007-11658, fyrir kröfu að fjárhæð kr. 183.574 verði staðfest. Jafnframt er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins.

Með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 13. ágúst 2008 fékk sóknaraðili gjafsókn í málinu.

I

          Með bréfi sem móttekið var í dóminum 18. júní 2008 kærði sóknaraðili að­farar­gerð Sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2007-11658, sem fram fór 28. maí 2008. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt endurriti úr gerðarbók Sýslumannsins í Reykjavík hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila hinn 28. maí 2008 fyrir kr. 183.574. Aðfararheimildin hafi verið dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-492/1997: Ákæruvaldið gegn Jóhannesi Guðmundi Rúnari Bjarnasyni, uppkveðinn 14. október 1997, en með dóminum hafi sóknaraðila verið gert að greiða sakarkostnað samtals að fjárhæð kr. 150.000.

Fangelsismálastofnun ríkisins hafi úrskurðað um sakarkostnað þann 10. desember 1997 með stoð í þágildandi 3. mgr. 168. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 2. tl. 2. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48/1988. Í úrskurðinum sé sakarkostnaður sundurliðaður þannig: Málsvarnarlaun í héraði 93.375 krónur, máls­sókn­arlaun í héraði 75.000 krónur og annar kostnaður í héraði 15.199 krónur. Samtals 183.574 krónur

Lögreglustjórinn í Reykjavík, sem þá hafi farið með innheimtu sakarkostnaðar í umdæmi sínu, hafi þann 16. ágúst 1999 sent greiðsluáskorun til sóknaraðila vegna inn­heimtu sakarkostnaðar og ítrekun 25. janúar 2000. Þann 28. febrúar s.á. hafi að­far­ar­beiðni verið send til Sýslumannsins í Reykjavík og þann 1. nóvember 2001 hafi sókn­araðili mætt við fyrirtöku fjárnámsins. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók Sýslu­manns­ins í Reykjavík hafi sóknaraðili sagst ekkert hafa við kröfu gerðarbeiðanda að athuga en ekki orðið við áskorun um að greiða hana og sagst engar eignir eiga. Fjár­námi hafi því lokið án árangurs.

Aðfararbeiðni, dags. 20. júní 2007, hafi verið send Sýslumanninum í Reykja­vík og móttekin af hans hálfu 25. júní 2007.

Sóknaraðili hafi mætt við fyrirtöku fjárnáms þann 28. maí 2008 sem lokið hafi án árangurs sbr. 8. kafla laga um aðför nr. 90/1989. 

Sóknaraðili sé öryrki og einu tekjur hans örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði verslunarmanna. Tekjur hans á árinu 2007, skv. skattframtali 2008, hafi numið samtals 1.563.002 krónum. Þá sé hann eignalaus eins og framtal hans 2008 beri með sér.

II

          Sóknaraðili byggir á að það sé andstætt ákvæðum c. liðar 3. mgr. 6. gr. mann­rétt­inda­sáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994, að innheimta hjá sóknaraðila sakarkostnað með þeim hætti sem varnaraðili hafi gert. Þá vísar hann til 3. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála svo og fordæmis Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 248/2005: Lögreglustjórinn í Reykjavík gegn Kristínu K. Jónsdóttur, upp­kveðnum 21. september 2005.

          Sóknaraðili byggir ennfremur á því að dómskuldin hafi verið fyrnd þegar hið árang­urslausa fjárnám var gert skv. 1. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, þrátt fyrir ákvæði 52. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem að­farar­gerðinni var ekki fram haldið án ástæðulauss dráttar eftir að Sýslumaðurinn í Reykjavík móttók aðfararbeiðnina 25. júní 2007.

          Loks byggir sóknaraðili á því að fjárnámið hafi tekið til annarrar fjárhæðar en sóknar­aðili var dæmdur til að greiða samkvæmt aðfararheimildinni, þ.e. dóminum í málinu S-492/1997.

          Sóknaraðili vísar varðandi málskostnaðarkröfu til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt að því er varðar virðisaukaskatt á mál­flutningsþóknun, en sóknaraðila sé nauðsyn að fá þennan skatt tildæmdan úr hendi varnar­aðila, þar sem hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur.

III

          Varnaraðili byggir á að skattframtal sóknaraðila frá árinu 2008 liggi fyrir. Þar komi fram að heildartekjur ársins 2007 hafi verið samtals kr. 1.563.002 eða að jafnaði um 130.250 kr. á mánuði og verði því að telja að með tilliti til tekna, hafi gerðarþola verið unnt að greiða skuld sína með greiðslusamningi til tólf mánaða, sem honum hafi staðið til boða. Mál þetta sé ekki sambærilegt við mál, Hrd. nr. 248/2005, sem sóknar­aðili vísi til að því leyti að í því máli hafi sóknaraðili, sem vildi fá fellt úr gildi fjár­nám, haft rétt rúmlega 800 þúsund krónur í árstekjur, sem séu verulega lægri heldur en sókn­araðili í þessu máli. Fordæmi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 359/2007: Hulda Björk Þórisdóttir gegn Sýslumanninum á Blönduósi, uppkveðnu 10. ágúst 2007, eigi mun fremur við í þessu máli. 

          Í ákvörðun Fangelsismálastofnunar, dags. 10. desember 1997, sé sérstaklega til­greint að dæmdur sakarkostnaður muni fyrnast þann 14. október 2007, það sé í sam­ræmi við 4. gr. þágildandi laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Samkvæmt 6. gr. síðastgreindra laga þá lengist fyrningarfresturinn um 10 ár til viðbótar ef skuldunautur viðurkenni skuld sína við kröfueiganda annað hvort með berum orðum eða á annan hátt. Sóknaraðili hafi mætt við fyrirtöku fjárnámsgerðar þann 1. nóvember 2001 vegna sakarkostnaðarins og engar athugasemdir gert vegna gerð­arinnar. Þar að auki hafi sóknaraðili mætt í fyrirtöku kærðrar aðfarargerðar þann 28. maí 2008 og engar athugasemdir gert vegna gerðarinnar. Aðfarabeiðnin hafi verið send Sýslumanni í Reykjavík þann 20. júní 2007 og móttekin af hans hálfu 25. júní 2007 og því sé krafan um sakarkostnað ekki fyrnd.

          Krafa varnaraðila sé á því byggð að ákvörðun um skyldu til greiðslu sakar­kostn­aðar liggi fyrir með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-492/1997. Endanleg ákvörðun um upphæð sakarkostnaðar hafi verið tekin af Fangelsismálastofnun dags. 10. desember 1997. Dómur ásamt heildarreikningi, úrskurðuðum af Fangelsis­mála­stofnun, sé lögleg heimild til aðfarar sbr. 1. og 5. tl. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 og 3. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

          Auk málsvarnarlauna teljist til sakarkostnaðar, samkvæmt ákvörðun Fangels­is­mála­stofnunar, útlagður kostnaður lögreglu af rannsókn máls auk málssóknarlauna. Hvorki í lögum um meðferð opinberra mála né mannréttindasáttmála Evrópu sé að finna ákvæði sem leysi mann undan endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna málsóknar né kostnaðar vegna rannsóknar sakamáls sem hann hefur verið dæmdur til að greiða. Beri þess vegna að hafna kröfum sóknaraðila um að fjárnámið verði fellt úr gildi.

          Varðandi kröfu um málskostnað vísar varnaraðili til ákvæða 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Í c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 62/1994 um manréttindasáttmála Evrópu, er m.a. kveðið á um að hafi sakborningur ekki nægt fé til að greiða lögfræðiaðstoð skuli hann fá hana ókeypis sé það nauðsynlegt vegna réttvísinnar.

          Í forsendum dóms Hæstaréttar í málinu nr. 248/2005 kemur fram að samkvæmt til­vitnuðum c. lið 3. mgr. 6. gr., svo sem mannréttindadómstóll Evrópu hafi skýrt það ákvæði, beri íslenska ríkinu að sjá svo um að þegnum þess sé unnt að sanna vanhæfni til greiðslu málsvarnarlauna í opinberu máli við innheimtu slíks kostnaðar. Þótt dómar mann­réttindadómstólsins séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti sé rétt að líta til skýringa hans á áðurgreindu ákvæði.

          Í forsendum dóms Hæstaréttar í málinu nr. 359/2007 er sérstaklega tekið fram að til­vitnað ákvæði mannréttindasáttmálans geti ekki leitt til þess að sakborningur verði með öllu laus undan greiðslu þess sakarkostnaðar sem kveðið sé á um í dómi heldur aðeins málsvarnarhluta hans.

          Í máli þessu neytir sóknaraðili heimildar í V. þætti laga nr. 90/1989 um aðför til að bera gildi fjárnáms, sem gert var hjá honum, fyrir ógreiddum sakarkostnaði, samtals kr. 183.574, þann 28. maí 2008 og lauk án árangurs, undir dóm.

          Fyrir liggur að tekjur sóknaraðila fyrir árið 2007 skv. skattframtali 2008 voru sam­tals 1.563.002 krónur. Þykir ekki unnt að fallast á að tekjur sóknaraðila séu það lágar að hann hafi ekki nægar tekjur til að standa straum af greiðslu þess hluta sakar­kostn­aðar sem laut að greiðslu málsvarnarlauna.

           Sýslumaðurinn í Reykjavík móttók aðfararbeiðni þá sem hin umdeilda að­far­ar­gerð byggist á þann 25. júní 2007. Í 52. gr. laga um aðför segir að fyrningu að­far­ar­hæfrar kröfu sé slitið, ef aðfararbeiðni berst héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrn­ingartíma og gerðinni er síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar. Fyrir liggur að hin umþrætta aðfarargerð fór síðan ekki fram fyrr en 28. maí 2008 eða tæpum 11 mán­uðum eftir móttöku beiðninnar.

          Þykir dráttur sá sem varð á framkvæmd gerðarinnar ekki svo verulegur að hann valdi því að móttaka beiðninnar rjúfi ekki fyrningu kröfunnar, sbr. 52. gr. laga um að­för. Er krafan því ófyrnd.

          Með dómi þeim sem aðförin grundvallaðist á, og var kveðinn upp 14. október 1997, var sóknaraðila gert að greiða sakarkostnað samtals að fjárhæð kr. 150.000.

          Fangelsismálastofnun ríkisins úrskurðaði um sakarkostnað sóknaraðila þann 10. desember 1997 með stoð í þágildandi 3. mgr. 168. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 2. tl. 2. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48/1988.

          Fullnægjandi lagastoð er þannig fyrir kröfu varnaraðila um fjárnám á grundvelli fyrr­nefnds úrskurðar Fangelsismálastofnunar.

          Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er fallist á kröfur varnaraðila um stað­festingu aðfarargerðarinnar.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði. 

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

    Aðfarargerð nr. 011-2007-11658, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Reykjavík 28. maí 2008, fyrir kröfu að fjárhæð 183.574 kr., er staðfest.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.