Print

Mál nr. 528/2013

Lykilorð
  • Ríkisstarfsmenn
  • Uppsögn
  • Stjórnsýsla
  • Kjarasamningur
  • Andmælaréttur
  • Rannsóknarregla
  • Skaðabætur

                                     

Fimmtudaginn 16. janúar 2014.

Nr. 528/2013.

Ólöf Guðmundsdóttir

(Karl Ó. Karlsson hrl.)

gegn

Alþingi

(Þórður Bogason hrl.)

Ríkisstarfsmenn. Uppsögn. Stjórnsýsla. Kjarasamningur. Andmælaréttur. Rannsóknarregla. Skaðabætur.

Ó höfðaði mál gegn A og krafðist skaðabóta eftir að henni var sagt upp störfum hjá A haustið 2009. Þegar Ó var sagt upp störfum hafði hún verið í veikindaleyfi í 360 daga og var réttur hennar til launa samkvæmt kjarasamningi þá  fallinn niður. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Ó hefði þá ekki verið fær sökum líkamlegrar vanheilsu að hefja að nýju vinnu hjá A í fullu starfi. Þótt Ó hefði verið búin að glata rétti sínum til launa hefði A ekki verið heimilt samkvæmt kjarasamningi að leysa Ó frá störfum vegna umrædds heilsubrests fyrr en í ágúst 2010, nema hún hefði sjálf óskað þess. Eins og atvikum var háttað hefði A borið að ganga úr skugga um hvort líkamleg heilsa Ó hefði þá enn staðið í vegi fyrir að hún gæti tekið við fyrra starfi sínu hjá A. Einnig hefði átt að gefa áfrýjanda kost á að tjá sig um fyrirhuguð starfslok á þeim tíma. Þótt Ó hefði ekki verið metin hæf til að hefja störf haustið 2009 af trúnaðarlækni A varð ekki talið ljóst af gögnum málsins að niðurstaðan hefði orðið sú sama í ágúst 2010. Þegar litið væri til ágalla á meðferð málsins af hálfu A yrði það að bera hallann af sönnunarskorti um þetta atriði. A var því dæmt til að greiða Ó skaðabætur sem metnar voru að álitum 1.200.000 krónur auk dráttarvaxta.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. ágúst 2013. Hún krefst þess að stefndi greiði sér 6.947.336 krónur með vöxtum samkvæmt  8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2009 til þingfestingardags, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hóf áfrýjandi störf hjá stefnda við ræstingar árið 1992. Að loknu sumarleyfi 14. ágúst 2008 lagði hún fram vottorð frá heimilislækni sínum þar sem fram kom að hún væri óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms um ótiltekinn tíma. Var áfrýjandi skráð í veikindaleyfi, en af hálfu stefnda var óskað frekari skýringa á hvað fælist í vottorðinu, svo sem nánar er gerð grein fyrir í dóminum. Í starfshæfnisvottorði trúnaðarlæknis stefnda 1. október 2008 sagði að hann teldi áfrýjanda færa um að sinna hálfu starfi, en rétt væri að endurmeta starfshæfni hennar að þremur mánuðum liðnum. Hóf áfrýjandi störf að nýju hjá stefnda í byrjun október 2008, þá í hlutastarfi. Trúnaðarlæknir stefnda gaf út nýtt vottorð 19. maí 2009 þar sem starfshæfni áfrýjanda var metin 24,5%, en tekið fram að hún yrði endurmetin upp úr miðjum ágúst.

Hinn 9. ágúst 2009 voru liðnir 360 dagar frá því að veikindaleyfi áfrýjanda hófst og féll þá niður réttur hennar til launa samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Eflingar-stéttarfélags. Í kjölfarið mun forstöðumaður rekstrar- og þjónustusviðs stefnda, sem var yfirmaður áfrýjanda, hafa haft samband við hana og tilkynnt að ekki yrði um endurkomu hennar að ræða til ræstingarstarfa nema sýnt væri fram á fulla starfshæfni. Í vottorði trúnaðarlæknis stefnda 24. september 2009 sagði að það væri mat hans, eftir að hafa skoðað áfrýjanda og rætt við hana, að hún væri „fær í hæsta lagi í 50% starf vegna þeirra stoðkerfisvandamála sem hún hefur átt við að etja.“ Hinn 7. október 2009 átti áfrýjandi fund með forstöðumanni rekstrar- og þjónustusviðs stefnda þar sem henni var gerð grein fyrir að síðastgreint starfshæfnisvottorð gæfi ekki tilefni til endurkomu hennar til starfa. Með bréfi stefnda 8. desember 2009 var áfrýjanda síðan sagt upp störfum frá og með 1. janúar 2010. Tekið var fram að greidd yrðu lausnarlaun ásamt orlofsuppgjöri í þrjá mánuði og yrðu starfslok 31. mars 2010. Stéttarfélag áfrýjanda mótmælti uppsögninni með bréfi til stefnda 18. desember 2009 og kvaðst líta á uppsögnina sem ólögmæta með skírskotun til greinar 12.4.2 í fyrrgreindum kjarasamningi. Var farið fram á að uppsögnin yrði dregin til baka og áfrýjanda veitt tækifæri til þess að sýna í verki hver raunveruleg vinnufærni hennar væri. Stefndi varð ekki við þeirri málaleitan.

Í hinum áfrýjaða dómi er lýst niðurstöðu matsgerðar tveggja sérfróðra lækna um starfshæfni áfrýjanda. Í matsgerðinni var því lýst að matsmenn hafi skoðað áfrýjanda á matsfundi 25. mars 2011. Sú skoðun hafi ekki leitt neitt óvenjulegt í ljós. Í dóminum er jafnframt gerð grein fyrir skýrslugjöf fyrir dómi. Til viðbótar því, sem þar greinir, kom meðal annars fram í vitnisburði forstöðumanns rekstrar- og þjónustusviðs stefnda að áfrýjandi hafi verið góður starfsmaður, verið vandvirk og sinnt starfi sínu ágætlega uns hún fór í veikindaleyfi. Aðspurð svaraði vitnið því að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu, að sínu áliti, að áfrýjandi hefði snúið aftur til vinnu við ræstingar í fullu starfi haustið 2009 ef fyrir hefði legið vottorð um óskerta starfshæfni hennar. Þá kom fram hjá vitninu að í hagræðingarskyni hafi verið gerðar verulegar breytingar á tilhögun ræstinga hjá stefnda allt frá árinu 2005.

Samkvæmt grein 17.1.2 í fyrrgreindum kjarasamningi er gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir að loknum þriggja mánaða reynslutíma. Í grein 12.3.1 í kjarasamningnum er kveðið á um starfshæfnisvottorð og segir þar: „Starfsmaður sem verið hefur óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í 1 mánuð eða lengur, má ekki hefja starf að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi. Krefjast má vottorðs trúnaðarlæknis hlutaðeigandi stofnunar.“ Ennfremur er svofellt ákvæði að finna í grein 12.4.2: „Þegar starfsmaður hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni ... má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests.“ Þó skal síðastgreint ákvæði ekki vera því til fyrirstöðu samkvæmt grein 12.4.3 „að starfsmaður láti af störfum er hann óskar þess ef hann er samkvæmt læknisvottorði orðinn varanlega ófær um að gegna starfi vegna vanheilsu.“

II

Áfrýjandi hóf sem fyrr segir störf hjá stefnda árið 1992 og naut því réttinda og bar skyldur samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra. Í 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um að nauðsynleg heilbrigði, andleg og líkamleg, til þess að gegna þeim starfa, sem hverju sinni er um að ræða, sé skilyrði til þess að fá ráðningu í starf. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. sömu laga hefur forstöðumaður stofnunar eða sá, sem hann hefur framselt vald sitt til, sbr. 1. mgr. 50. gr. þeirra, rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Þá segir í 12. gr. laganna að starfsmenn skuli eiga rétt til launa í veikindaforföllum eftir því sem fyrir er mælt í lögum og, eftir atvikum, ákveðið eða um samið með sama hætti og laun. Óumdeilt er að um ráðningu áfrýjanda og rétt hennar til launa, þar á meðal launa í veikindaforföllum, fór eftir kjarasamningi fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Eflingar-stéttarfélags sem áður hefur verið vísað til. Þótt stjórnsýslulög nr. 37/1993 taki ekki til starfsemi stefnda, eins og tekið var fram í athugasemdum með frumvarpi til laganna, verður að líta svo á að um uppsögn starfsmanns, sem ráðinn hefur verið til starfa hjá stefnda og fellur undir lög nr. 70/1996, gildi eftir því sem við getur átt sömu réttarreglur og er að finna í III. kafla stjórnsýslulaga þótt óskráðar séu.

Samkvæmt grein 12.3.1 í fyrrgreindum kjarasamningi má starfsmaður, sem verið hefur óvinnufær vegna veikinda samfellt í einn mánuð eða lengur, ekki hefja starf að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi. Í niðurlagi greinarinnar er tekið fram að krefjast megi vottorðs trúnaðarlæknis hlutaðeigandi stofnunar. Verður að túlka það ákvæði svo, meðal annars með hliðsjón af öðrum ákvæðum kjarasamningsins, að stofnuninni sé heimilt að afla einhliða vottorðs trúnaðarlæknis síns um hæfni starfsmanns til að gegna starfi telji hún ástæðu til. Að því virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að áfrýjandi hafi ekki verið fær til þess haustið 2009 sökum líkamlegrar vanheilsu að hefja að nýju vinnu við ræstingar hjá stefnda í fullu starfi.

Ekki er ágreiningur um að áfrýjandi hafði áunnið sér rétt til að halda launum fyrir starf sitt hjá stefnda í 360 daga vegna veikinda frá því að hún fór í veikindaleyfi 14. ágúst 2008. Eins og áður greinir lauk því tímabili 9. ágúst 2009. Þótt áfrýjandi hafi við það glatað rétti til launa var stefnda ekki heimilt samkvæmt grein 12.4.2 í fyrrgreindum kjarasamningi að leysa hana frá störfum vegna umrædds heilsubrests fyrr en að 360 dögum liðnum eða 4. ágúst 2010, nema hún hefði sjálf óskað þess, svo sem skýrt er kveðið á um í grein 12.4.3 í samningnum. Eins og atvikum var háttað hefði stefnda borið, með vísan til óskráðrar rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, að láta ganga úr skugga um hvort líkamleg heilsa áfrýjanda hefði þá enn staðið í vegi fyrir að hún gæti tekið við fyrra starfi sínu hjá stefnda, til dæmis með því að afla álits trúnaðarlæknis hans, sbr. áðurnefnda grein 12.3.1 í kjarasamningnum. Einnig hefði átt að gefa áfrýjanda kost á að tjá sig um fyrirhuguð starfslok á þeim tíma samkvæmt óskráðri reglu stjórnsýsluréttar um andmælarétt.

Áfrýjandi heldur því fram að hún hafi verið fullfær um að taka við fyrra starfi sínu hjá stefnda hvenær sem var frá hausti 2009. Þótt hún hafi ekki verið metin hæf til þess af trúnaðarlækni stefnda á þeim tíma og fallist hafi verið á með héraðsdómi, að ekki sé ástæða til að draga það mat í efa, verður ekki talið ljóst af gögnum málsins að niðurstaðan hefði orðið sú sama í byrjun ágúst 2010. Styðst sú ályktun við skoðun sérfróðra matsmanna á áfrýjanda sem fram fór 25. mars 2011 og gerð hefur verið grein fyrir að framan. Þegar litið er til fyrrgreindra ágalla á meðferð málsins af hálfu stefnda verður hann að bera hallann af sönnunarskorti um þetta atriði, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. desember 2012 í máli nr. 236/2012. Þar með telst ósannað að heilsu áfrýjanda hafi verið svo farið 4. ágúst 2010 að hún hafi verið ófær um að taka við fyrra starfi sínu hjá stefnda.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið var uppsögn áfrýjanda ólögmæt. Af þeim sökum ber stefndi fébótaábyrgð á henni eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

III

Við ákvörðun bóta til áfrýjanda verður litið til þess að hún var ráðin ótímabundið til starfa með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti og fékk greidd laun á umsömdum uppsagnarfresti. Af því sem fram hefur komið í málinu liggur jafnframt fyrir að haustið 2010 voru fyrirhugaðar frekari breytingar á tilhögun ræstinga hjá stefnda sem hefðu getað leitt til þess að áfrýjanda yrði sagt upp störfum, óháð heilsu hennar. Að þessu virtu og að teknu tilliti til þeirra atvinnuleysisbóta, sem áfrýjandi hefur þegið, verða bætur til hennar vegna fjártjóns metnar að álitum 1.200.000 krónur. Verða dráttarvextir af þeirri fjárhæð dæmdir frá þingfestingu málsins í héraði eins og nánar greinir í dómsorði.

Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að stefndi hafi komið fram af sanngirni gagnvart áfrýjanda í veikindum hennar ef frá er talin hin ótímabæra uppsögn hennar úr starfi sem gera má ráð fyrir að stafi af ónákvæmu orðalagi í dreifibréfi fjármálaráðuneytisins nr. 1/2007 um veikindarétt starfsmanna ríkisins. Þannig kom fram í vitnisburði forstöðumanns rekstrar- og þjónustusviðs stefnda fyrir dómi að áfrýjandi hafi verið góður starfsmaður og ekkert verið því til fyrirstöðu að hún hefði snúið aftur til starfa ef fyrir hefði legið vottorð um óskerta starfshæfni hennar. Meðal annars af þessum sökum verður krafa áfrýjanda um miskabætur ekki tekin til greina.

Eftir úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Alþingi, greiði áfrýjanda, Ólöfu Guðmundsdóttur, 1.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júní 2012 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. apríl 2013, er höfðað 5. júní 2012.

Stefnandi er Ólöf Guðmundsdóttir, Vættarborgum 95, Reykjavík.

Stefndi er Alþingi, Kirkjustræti, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.947.336 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. september 2009 til 19. júní 2012, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og vaxtakrafa felld niður eða lækkuð verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Málavextir

Stefnandi hóf störf við ræstingar hjá stefnda árið 1992. Í málinu liggja fyrir ítarleg læknisfræðileg gögn um heilsufar hennar, allt aftur til ársins 1994. Þar kemur fram að hún hafi fundið fyrir verkjum frá stoðkerfi um árabil og hafi greinst með vefjagigt. Þá hafi stefnandi lent í bílslysi árið 2004 og fundið fyrir verkjum eftir það. Samkvæmt matsgerð, dagsettri 10. júní 2008, sem stefnandi aflaði um afleiðingar slyssins, var varanleg örorka hennar metin 3%.

Að afloknu sumarleyfi 14. ágúst 2008 lagði stefnandi fram læknisvottorð frá heimilislækni sínum, dagsett 11. sama mánaðar, þar sem kom fram að hún væri óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms um ótiltekinn tíma. Stefnandi var skráð í veikindaleyfi, en af hálfu stefnda var óskað frekari skýringa á því hvað fælist í vottorðinu. Í vottorði Hjördísar Harðardóttur heimilislæknis, dagsettu 26. ágúst 2008, kom fram að stefnandi væri með króníska verki, hún væri þreytt, orkulaus og hefði svefntruflanir. Síðan segir: „Ljóst er að hún veldur ekki lengur vinnu sinni við ræstingar, enda um erfiða vinnu að ræða líkamlega.“ Þá gaf heimilislæknir út vottorð, dagsett 23. september 2008, þar sem kemur fram að stefnandi sé talin óvinnufær með öllu frá 14. ágúst til 2. október 2008. Í starfshæfnisvottorði Magnúsar Böðvarssonar, trúnaðarlæknis stefnda, dagsettu 1. október 2008, kemur fram að eftir að hafa metið stefnanda og vottorð heimilislæknis hennar, telji hann hana færa um að sinna hálfu starfi, en rétt sé að endurmeta starfshæfni hennar að liðnum þremur mánuðum. Stefnandi hóf störf að nýju í byrjun október 2008, þá í hlutastarfi. Með bréfi lögmanns hennar, dagsettu 17. sama mánaðar, var óskað endurskoðunar á matsgerð um varanlegar afleiðingar umferðarslyssins sem hún varð fyrir árið 2004. Í endurskoðaðri matsgerð Sigurðar Thorlacius læknis og Birgis G. Magnússonar héraðsdómslögmanns, dagsettri 12. janúar 2009, kemur fram að af fyrirliggjandi gögnum og því sem komið hafi fram á matsfundi verði ekki ráðið að ný einkenni hafi komið fram í kjölfar slyssins. Vitnað er til vottorðs heimilislæknis frá 26. ágúst 2008. Síðan segir: „Einkennin sem heimilislæknirinn lýsir þarna eru dæmigerð einkenni vefjagigtar. Þrátt fyrir vefjagigt sína vann hún fullt starf við ræstingar fyrir slysið. Versnun einkenna nú hafa orðið til þess að hún treystir sér ekki lengur til að sinna fullu starfi við ræstingar.“ Var varanleg örorka stefnanda vegna umferðarslyssins metin 10%. Trúnaðarlæknir stefnda gaf út nýtt vottorð vegna stefnanda, dagsett 19. maí 2009, og var starfshæfni hennar nú metin 24,5%. Stefnandi var skráð í veikindaleyfi frá 18. júní til 9. ágúst 2009, en þann dag féll niður 360 daga veikindaréttur sem hún naut samkvæmt kjarasamningi aðila. Í kjölfarið tilkynnti forstöðumaður rekstrar- og þjónustusviðs stefnda stefnanda að ekki yrði um endurkomu hennar að ræða til ræstingarstarfa nema sýnt væri fram á fulla starfshæfni. Áður hafði stefnanda verið tilkynnt um uppsögn á mælingu á 3. hæð Alþingishússins, með bréfi forstöðumannsins dagsettu 23. júní 2009, en af hálfu stefnda hefur komið fram að uppsögnin hafi tengst því að tekin var upp ný mælingaraðferð vegna ræstingar. Hafi „stykkjum“ verið sagt upp og þau síðan mæld eftir flatarmáli, en höfðu áður verið tímamæld. 

Stefnandi leitaði til Sigurbjörns Sveinssonar heimilislæknis og liggur fyrir vottorð hans, dagsett 1. september 2009, þar sem kemur fram að engir læknisfræðilegir meinbugir séu taldir vera á því að leyfa stefnanda að reyna sig við fullt starf, sem hún hafi áður gegnt við ræstingar. Ekki verði með öðru móti sannreynt hvort full vinnugeta sé til staðar og teljist hún því í raun óvinnufær að fullu, þar til það hafi verið leitt í ljós. Í vottorði trúnaðarlæknis stefnda, dagsettu 24. september 2009, kemur fram að hann meti stefnanda færa um að gegna í mesta lagi 50% starfi vegna þeirra stoðkerfisvandamála sem hún hafi átt við að etja. Stefnandi gekkst undir sérhæft mat hjá Gunnari K. Guðmundssyni endurhæfingarlækni hjá Starfsendurhæfingarsjóðnum VIRK og liggur fyrir skýrsla hans, dagsett 9. október 2009, þar sem kemur fram að stefnandi hafi frá árinu 2004 haft stoðkerfisverki, sem hafi farið versnandi síðastliðið rúmt ár. Við skoðun komi ekkert fram sem hefti stefnanda í að fara í vinnu. Spurning sé hvort vinna ýfi upp einhverja af þeim þáttum, en tíminn verði að leiða það í ljós.  

                Hinn 7. október 2009 átti stefnandi fund með forstöðumanni rekstrar- og þjónustusviðs stefnda, sem gerði henni grein fyrir því að starfshæfnisvottorð hennar þætti ekki gefa tilefni til endurkomu þar sem trúnaðarlæknir hefði metið starfsgetu hennar í mesta lagi 50%. Með bréfi stefnda, dagsettu 8. desember 2009, var stefnanda síðan sagt upp störfum frá og með 1. janúar 2010. Í uppsagnarbréfi er vísað til ákvæða í ráðningarsamningi og 43. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Kemur fram að á uppsagnartíma verði greidd lausnarlaun í þrjá mánuði ásamt orlofsuppgjöri og miðist starfslok við 31. mars 2010. Stéttarfélag stefnanda fór fram á það við stefnda að uppsögnin yrði dregin til baka og að henni yrði veitt tækifæri til þess að sýna í verki hver vinnufærni hennar væri. Stefndi varð ekki við þeirri umleitan.

                Samkvæmt beiðni stefnanda voru Árni Tómas Ragnarsson gigtarlæknir og Sveinbjörn Brandsson bæklunarskurðlæknir dómkvaddir til að meta hvort hún hefði verið að fullu fær um að starfa við ræstingar haustið 2009. Í niðurstöðum matsgerðarinnar, sem dagsett er 18. maí 2011, kemur fram að matsmenn telji ekki unnt að staðfesta með vissu hvort stefnandi hafi verið fær eða ófær um að snúa aftur til fullra starfa haustið 2009 og að rétt hefði verið á þeim tíma að láta reyna á starfsgetu hennar til að fá úr því skorið. Þá hafi ekkert komið fram við skoðun matsmanna sem mæli gegn því að stefnandi geti stundað alla almenna vinnu, þ.m.t. ræstingarstörf. 

                Vitnin, Sveinbjörn Brandsson bæklunarskurðlæknir, Árni Tómas Ragnarsson gigtarlæknir, Gunnar Kr. Guðmundsson endurhæfingarlæknir og Magnús Böðvarsson, fyrrverandi trúnaðarlæknir, komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfestu matsgerðir sínar og læknisvottorð. Kom fram hjá matsmanninum Árna Tómasi Ragnarssyni að hann teldi að sjúklingur, sem ætti við verkjasjúkdóm að stríða, gæti einn skorið úr um vinnugetu sína. Magnús Böðvarsson kvað starfshæfnisvottorð byggð á viðtölum við starfsfólk, líkamsskoðun, einföldu færnismati og skoðun gagna frá heimilislækni, auk annars. Vitnið kvaðst hafa kynnt sér gögn sem lágu fyrir um sjúkrasögu stefnanda og rætt við heimilislækni hennar. Hann hefði rætt við stefnanda og skoðað hana í nokkur skipti. Niðurstaða hans hefði verið sú að stefnandi ætti við langvinn heilsufarsvandamál að stríða og væri ekki fær um að gegna fullu starfi.

                Vitnið, Ólöf Þórarinsdóttir, forstöðumaður rekstrar- og þjónustusviðs stefnda, kvað stefnanda hafa skilað veikindavottorði þegar hún var væntanleg úr sumarleyfi í ágúst 2008. Vottorðið hefði verið ótímabundið og engar skýringar gefnar á veikindum. Vitnið kvaðst hafa haft samband við stefnanda til að kanna hvað hún yrði lengi fjarverandi, en hún hefði engar upplýsingar gefið um það. Hefði vitnið þá beðið trúnaðarlækni um að kanna málið. Í kjölfarið hefði stefnandi fengið svokölluð hlutaveikindi, samkvæmt heimild í kjarasamningi, en trúnaðarlæknir hefði gefið út starfshæfnisvottorð miðað við 50% starfshlutfall. Stefnandi hefði áður annast þrif í tveimur „stykkjum“ í húsnæði stefnda og hefði henni verið heimilað að koma til baka í október 2008 til að ræsta minna „stykkið“, sem hafi numið 24,5 af hundraði samkvæmt tímamælingu. Vitnið kvaðst hafa haft töluverð samskipti við stefnanda eftir að hún sneri til baka í hlutastarf og hefði hún greinilega átt erfitt. Hún hefði kvartað undan verkjum og ekki treyst sér til að bera ryksugu á milli hæða. Hún hefði aftur verið skoðuð af trúnaðarlækni í maí 2009 og þá hefði starfshæfni hennar aðeins verið metin 24,5%. Hún hefði farið í veikindaleyfi í júní 2009 og hefði trúnaðarlæknir metið starfshæfni hennar í mesta lagi 50% að því loknu. Vitnið kvað ekkert hafa verið því til fyrirstöðu að stefnandi kæmi aftur til starfa ef hún hefði fengið fullt starfshæfnisvottorð haustið 2009. Miðað við þær upplýsingar sem legið hefðu fyrir frá trúnaðarlækni hefði hins vegar enginn grundvöllur verið fyrir endurkomu hennar. Vitnið, Saga Steinþórsdóttir, sérfræðingur á rekstrar- og þjónustusviði, bar á sama veg um líðan stefnanda eftir að hún kom til starfa í hlutastarf í október 2008. Vitnið kvað það hafa komið fram hjá stefnanda að hún væri kvalin af verkjum við vinnu sína.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að uppsögn hennar úr starfi hafi verið ólögmæt og telur stefnda bera ábyrgð á tjóni sem hún hafi orðið fyrir af þeim sökum samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Jafnframt hafi þeir annmarkar verið á meðferð málsins að brotið hafi verið gegn meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

                Stefnandi vísar til vottorðs Sigurbjörns Sveinssonar heimilislæknis, dagsetts 1. september 2009, og skýrslu Gunnars K. Guðmundssonar endurhæfingarlæknis, dagsettrar 9. október 2009, um starfshæfni hennar. Niðurstöður læknanna tveggja hafi byggt á ítarlegum læknisfræðilegum gögnum og skoðunum. Heimilislæknir stefnanda hafi haft aðgang að sjúkraskrá hennar allt frá árinu 1994. Þá hafi endurhæfingarlæknir vegna sérþekkingar sinnar verið hvað hæfastur til að meta starfshæfni hennar. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 20. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 eigi sjúklingur rétt á að leita til þess læknis sem honum hentar best.

Stefnandi hafi einnig gengist undir starfshæfnismat hjá Magnúsi Böðvarssyni, trúnaðarlækni stefnda. Samkvæmt vottorði hans, dagsettu 24. september 2009, hafi starfshæfni stefnanda verið metin í mesta lagi 50%. Þessi niðurstaða hafi komið stefnanda á óvart, en hún hafi talið að hún myndi snúa aftur í fullt starf hjá stefnda. Bendir stefnandi á að niðurstaða trúnaðarlæknisins sé órökstudd og komi ekki fram í vottorði hans hvaða læknisfræðileg gögn hafi legið til grundvallar henni. Telur stefnandi að trúnaðarlæknir geti ekki talist hlutlaus í áliti sínu þar sem hann starfi á vegum atvinnurekanda. Vísar stefnandi í því sambandi til viðmiðunarreglna Læknafélags Íslands um trúnaðarlækningar. Telur stefnandi að almennt verði að taka vottorðum trúnaðarlækna með nokkrum fyrirvara.

                Að beiðni stefnanda hafi Árni Tómas Ragnarsson gigtarlæknir og Sveinbjörn Brandsson bæklunarskurðlæknir verið dómkvaddir matsmenn hinn 10. september 2010, til að skoða og meta vinnufærni hennar vegna þess ágreinings sem kominn hefði verið upp milli hennar og stefnda. Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna hafi verið sú að stefnandi hefði verið full fær um að sinna 100% starfi við ræstingar hjá stefnda haustið 2009. Telji stefnandi að hún hafi átt skýlausan rétt á því að fá að snúa aftur í fullt starf, enda hafi enn verið í gildi gagnkvæmt ráðningarsamband milli hennar og stefnda. Stefndi hafi sagt stefnanda upp störfum á þeim grunni að hún væri ekki að fullu vinnufær og ætti því ekki rétt á að snúa aftur til starfa. Ljóst sé af niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta uppsögn. Bendir stefnandi á að niðurstöðu matsmannanna hafi ekki verið hnekkt.

                Þá bendir stefnandi á að hún hafi verið með öllu óvinnufær um tveggja mánaða skeið síðla árs 2008, en eftir það sinnt 50% starfi í átta mánuði og tekið tveggja mánaða sumarorlof. Ætla megi að hún hafi á þessu tímabili komist til heilsu á ný og öðlast fulla vinnufærni haustið 2009. Auk þess hafi stefnandi stundað sjúkraþjálfun og heilsurækt og leitað sérhæfðrar meðferðar sem fólst í nálastungum, höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun, partanuddi og sogæðanuddi svo að eitthvað sé nefnt. Þá hafi hún fylgt starfsendurhæfingaráætlun á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Stefnandi bendir jafnframt á að hún hafi verið óvinnufær vegna stoðkerfisvandamála haustið 1995, en sjúkrameðferð þá hafi skilað góðum árangri og hafi hún náð fullri vinnugetu á ný.

                Stefnandi vísar til þess að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur frá því hún hætti að fá greidd laun frá stefnda og hafi vinnufærni hennar ekki verið rengd af Vinnumálastofnun. Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 sé það skilyrði atvinnuleysistrygginga að launamaður sé í virkri atvinnuleit, en samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 14. gr. laganna teljist launamaður vera í virkri atvinnuleit ef hann er fær til flestra almennra starfa og hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum.

                Stefnandi telur að úrræði um hlutastarf á grundvelli kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hafi ekki verið notað til fullnustu, eins og stefndi haldi fram. Vísar stefnandi í því sambandi til dreifibréfs fjármálaráðuneytisins um veikindarétt nr. 1/2007, þar sem komi fram að með heimild til að sinna skertu starfi sé stefnt að því að starfsmaður sem verið hefur frá starfi vegna veikinda eða slyss fái aðlögunartíma þegar hann kemur aftur til starfa og geti í áföngum tekið upp fullt starf að nýju. Stefnandi hafi nýtt sér slíka heimild með þeim árangri að hún hafi treyst sér til að takast á við fullt starf á ný. Því hafi úrræðið borið tilætlaðan árangur, þ.e. að veita stefnanda þá aðlögun sem hún hafi þarfnast til að ná fullri vinnufærni.

                Þá telur stefnandi að stefnda hafi skort heimild til að greiða stefnanda lausnarlaun við starfslok. Samkvæmt grein 12.4.2 í kjarasamningi megi leysa starfsmann frá störfum vegna heilsubrests þegar hann hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni. Stefnandi hafi ekki verið launalaus í 360 daga vegna veikinda er stefndi gerði upp við hana lausnarlaun.  

Uppsögn stefnanda hafi verið afar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Með því að henni hafi ekki verið leyft að reyna sig í starfi svo að hún fengi sýnt fram á vinnufærni sína hafi rannsóknarregla stjórnsýsluréttar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki verið virt. Þá hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu samkvæmt 11. gr. laganna með því að ekki hafi verið gripið til vægari úrræða en uppsagnar til að útkljá ágreining málsaðila.

                Stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta uppsögn. Með því að meina stefnanda að mæta aftur til starfa hafi hann brotið gegn lög- og kjarasamningsbundnum réttindum hennar. Krafist sé skaðabóta vegna fjártjóns og miska sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þessa. Við ákvörðun bóta verði að líta til þess að stefnandi naut réttinda og bar skyldur samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Þótt stefnandi hafi verið ráðin með gagnkvæmum uppsagnarfresti hafi hún almennt mátt treysta því að hún fengi að gegna starfi sínu áfram, nema einhverjar sérstakar ástæður kæmu til, sem gerðu að verkum að 43. gr. eða 44. gr. starfsmannalaga yrði réttilega beitt um uppsögn hennar. Stefnandi hafi verið 48 ára að aldri er hún missti starf sitt og hafi hún unnið við ræstingar hjá stefnda um nærfellt 17 ára skeið. Hún hafi ekki lokið menntun umfram gagnfræðapróf og hafi verið atvinnulaus frá því henni var sagt upp störfum. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar beri að taka tillit til alls þessa við mat á bótafjárhæð. Þá telur stefnandi að með uppsögninni hafi hún verið útilokuð frá vinnu hjá ríkinu og hafi aðstæður hennar til að finna sér nýja vinnu því verið erfiðar.

                Fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda miðast við laun sem hún telur að sér hefði borið næstu 24 mánuði eftir að veikindarétti hennar lauk, eða frá september 2009 að telja. Miðað er við heildarlaun samkvæmt launaseðli vegna desember 2008 að frádregnum launum vegna orlofs, uppbóta, fatapeninga og akstursgjalds, samtals að fjárhæð 346.837 krónur. Laun stefnanda hafi numið 2.640.550 krónum og hafi meðaltalslaun hennar því verið 220.046 krónur á mánuði árið 2008. Er við það miðað í kröfunni. Við þá fjárhæð bætist 13,04% orlof og töpuð lífeyrisréttindi, en mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð hafi verið 8%. Stefnandi telur bótakröfu sína það hóflega að hvorki eigi að koma til frádráttar fjárhæð atvinnuleysisbóta né lausnarlauna, sem hún hafi fengið greidd á tímabilinu.

                Stefnandi krefst jafnframt miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur og byggir kröfu sína á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur að eins og staðið hafi verið að uppsögn hennar hafi verið vegið að æru hennar, starfsheiðri og persónu. Ákvörðunin hafi verið reist á rakalausum fullyrðingum um veikindi hennar og hafi með því verið vegið að friðhelgi einkalífs hennar, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Verði ekki fallist á bótakröfu stefnanda að öllu leyti felst í henni varakrafa um lægri bætur að álitum samkvæmt mati réttarins.

                Nánar um lagarök er vísað til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar um að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta samkvæmt gildandi ráðningar- og/eða kjarasamningi. Vísar stefnandi einkum í því sambandi til 1., 2., 3., 4., 12. og 17. kafla kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Jafnframt vísar stefnandi til laga um starfskjör launafólks o.fl. nr. 55/1980, einkum 1. gr., laga um greiðslu verkkaups nr. 28/1930, laga um orlof nr. 30/1987, einkum 1., 7., og 8. gr., laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944.

Stefnandi krefst skaðabótavaxta með vísan til ákvæða 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi er fyrst hefði átt að greiða laun eftir að veikindarétti lauk til þingfestingardags, en dráttarvaxta frá þeim degi samkvæmt III. og V. kafla sömu laga.

Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Um varnarþing er vísað til 33. gr. laga um meðferð einkamála, en um aðild til 51. gr. starfsmannalaga.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi andmælir því að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt og bótaskyld. Stefndi byggir á því að gagnkvæmur uppsagnarréttur hafi gilt milli aðila. Samkvæmt 43. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 hafi forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í kjarasamningi. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir samkvæmt grein 17.1.2 í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Hafi stefnandi fengið greidd þriggja mánaða laun í kjölfar uppsagnar. Málefnalegar ástæður hafi legið til grundvallar uppsögn stefnanda. Stefnda hafi verið rétt og skylt að segja stefnanda upp störfum þar sem hún hafi ekki fullnægt almennum hæfisskilyrðum 3. töluliðar 1. mgr. 6. gr. starfsmannalaga um nauðsynlegt heilbrigði til þess að gegna starfinu.

                Samkvæmt grein 12.3.1 í kjarasamningi hafi verið óheimilt að láta stefnanda hefja störf að nýju haustið 2009 nema að fengnu vottorði læknis um að hún væri fær um að gegna starfinu. Trúnaðarlæknir stefnda hafi metið stefnanda færa um að sinna 50% starfi. Ekki hafi verið fullyrt um fulla starfhæfni stefnanda í öðrum læknisvottorðum sem lágu fyrir. Þá hafi stefnandi verið metin með 10% varanlega örorku í janúar 2009. Stefndi hafi ekki fengið vitneskju um örorkumatið og ekki verði ráðið af gögnum málsins að læknar sem lögðu mat á starfshæfni stefnanda hafi haft upplýsingar um það.

Stefndi bendir á að í málinu liggi fyrir gögn um sjúkrasögu stefnanda allt frá árinu 1994, þar sem komi fram að hún hafi glímt við veruleg stoðkerfisvandamál með verkjum til fjölda ára. Þá hafi hún verið talin haldin vefjagigt í kjölfar bílslyss árið 2004. Vísað er til forsendna örorkumats, sem að framan er rakið. Af matsgerðinni verði ráðið að örorkumatsmenn, stefnandi sjálf og heimilislæknir hennar hafi ekki talið hana færa um að sinna fullu starfi við ræstingar, enda um líkamlega erfitt starf að ræða. Hafi matsmenn fallist á að hækka örorkumat úr 3% í 10% varanlega örorku. Með vísan til forsendna örorkumats og gagna sem liggja fyrir um sjúkrasögu stefnanda telur stefndi ósannað að stefnandi hafi verið fær um að sinna fullu starfi haustið 2009.

                Stefndi hafnar því að matsgerð Árna Tómasar Ragnarssonar gigtarlæknis og Sveinbjörns Brandssonar bæklunarskurðlæknis verði lögð til grundvallar í málinu sem sönnun þess að stefnandi hafi verið fær um að gegna fullu starfi á fyrrgreindu tímamarki. Takmarkaðan rökstuðning sé að finna í matsgerðinni fyrir þeirri niðurstöðu. Matsmenn hafi ekki tekið afstöðu til heilsufarssögu stefnanda, sjúkdómsgreiningar og örorkumats, sem hafi legið fyrir. Niðurstaða matsmanna hafi verið sú að ekki væri unnt að staðfesta með vissu hvort stefnandi hefði haft fulla starfsgetu, en rétt hefði verið að láta á það reyna. Stefndi bendir á að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði til að gefa út vottorð um fulla hæfni stefnanda til að gegna því starfi sem hún hefði verið ráðin til, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. starfsmannalaga og grein 1.2.3.1 í kjarasamningi. Þá verði ráðið af matsgerðinni að læknisskoðun á stefnanda hafi farið fram á einum matsfundi. Að mati stefnda hefði verið mikilvægt að matið tæki til þess hvort stefnandi hefði úthald til vinnu eða hvort hún fengi verki við áreynslu. Þá hafi matsmenn ekki tekið rökstudda afstöðu til þess hvaða þýðingu 10% starfsorkutap hafi á vinnugetu stefnanda. Samkvæmt framansögðu mótmælir stefndi því sem ósönnuðu að stefnandi hafi náð fullri starfshæfni er henni var sagt upp störfum.

                Stefndi mótmælir því að við ákvörðun um uppsögn stefnanda hafi verið brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga. Stefndi hafi aflað læknisvottorðs um starfshæfni stefnanda frá trúnaðarlækni í samræmi við grein 12.3.1 í kjarasamningi. Ekki hafi verið fjallað um fulla starfshæfni í vottorði heimilislæknis og niðurstaða sérhæfðs mats sem stefnandi aflaði hafi ekki verið ótvíræð í því efni. Þá hafi stefnandi fengið færi á að gegna skertu starfi um lengri tíma í samræmi við grein 12.2.10 í kjarasamningi, eða þar til sá réttur var tæmdur. Hafi stefndi með þessu gætt að meginreglum stjórnsýslulaga um að upplýsa málið og gæta meðalhófs.

                Þriggja mánaða uppsagnarfrestur hafi gilt um ráðningarsamband aðila, sbr. 43. starfsmannalaga og grein 12.2.1 í kjarasamningi. Uppsögn stefnanda hafi verið á málefnalegum grunni, enda hafi legið fyrir að stefnanda hefði ekki tekist að sýna fram á starfshæfni sína með læknisvottorði. Síðar hafi komið í ljós að stefnandi hefði verið metin með 10% varanlega örorku, en hún hefði ekki upplýst stefnda um það. Þegar af þeirri ástæðu sé sýnt fram á að stefnandi hafi ekki verið fær um að gegna fullu starfi við ræstingar. 

                Stefndi mótmælir þeirri túlkun stefnanda á ákvæði kjarasamnings um lausnarlaun að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum, sem hefur tæmt veikindarétt sinn. Stefndi telur ákvæðið verða túlkað svo að það tryggi starfsmanni lágmarks réttindi sem nemi þriggja mánaða launum ef starfsmaður getur ekki innt vinnuskyldu sína af hendi í uppsagnarfresti, enda sé það meginregla vinnuréttar að laun greiðist ekki í uppsagnarfresti nema vinnuframlag komi á móti. Vísar stefndi í þessu efni til greinar 11.1 í dreifibréfi fjármálaráðuneytisins um veikindarétt nr. 1/2007. Stefnandi hafi fengið greidd lausnarlaun þar sem ljóst hafi verið að hún hafi verið ófær um að gegna því starfi sem hún var ráðin til.

                Stefndi byggir á því að í hvívetna hafi verið farið að ákvæðum laga og kjarasamnings við mat á heilsufarsástandi stefnanda. Um stöðu trúnaðarlæknis vísar stefndi til 6. gr. viðmiðunarreglna Læknafélags Íslands um trúnaðarlækningar frá árinu 2009, þar sem kveðið er á um faglegt sjálfstæði. Trúnaðarlæknir stefnda hafi gefið út starfshæfnisvottorð í samræmi við fyrirkomulag sem stéttarfélag stefnanda og fjármálaráðherra hafa samið um. Þá hafnar stefndi því að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn ákvæði 20. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.

                Stefndi andmælir málatilbúnaði stefnanda að öðru leyti og telur ákvæði kjarasamnings og önnur lagarök sem hún byggir á ekki styðja kröfur hennar. Að endingu byggir stefndi á því að ekki verði séð að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni. Hún hafi átt þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi. Starfsmaður sem fær lausn frá störfum vegna heilsubrests eigi rétt á greiðslu lausnarlauna í þrjá mánuði og sé ágreiningslaust að stefnandi fékk greidd lausnarlaun. Hafi lausnarlaun verið greidd of snemma breyti það ekki því að stefnda hafi verið heimilt að segja stefnanda upp með þriggja mánaða fyrirvara. Því hafi stefnandi ekki orðið fyrir fjártjóni.

                Stefndi mótmælir skaðabótakröfu stefnanda, fjárhæð hennar og þeim grunni sem hún er reist á. Þá hafnar stefndi miskabótakröfu stefnanda.

                Stefndi byggir á því að krafa um bætur sem nemi launum í 24 mánuði sé verulega úr hófi fram, auk þess sem krafa um að tekjur og aðrar bætur á tímabilinu komi ekki til frádráttar sé í ósamræmi við meginreglur skaðabótaréttarins. Verði talið að stofnast hafi bótaskylda vegna uppsagnar stefnanda sé á því byggt að við útreikning bótafjárhæðar eigi allar tekjur, bætur og styrkir að koma að fullu til frádráttar bótakröfu, þ.m.t. lausnarlaun og orlofsuppgjör. Þá hafi ekki verið skýrt hvers vegna stefnanda hafi ekki tekist að fá starf við sitt hæfi á þeim tíma sem liðinn er frá uppsögninni. Stefnanda hafi borið að takmarka tjón sitt og beri að taka tillit til þess við ákvörðun bótafjárhæðar.

                Stefndi telur hvorki efnis- né lagaskilyrði til þess að dæma stefnanda miskabætur. Stefndi hafi nýtt kjarasamningsbundin úrræði um tímabundið hlutastarf vegna veikinda í þágu stefnanda, uns það úrræði var fullnýtt og veikindaréttur tæmdur. Á því tímabili hafi verið aflað vottorða lækna og trúnaðarlæknis um starfshæfni stefnanda í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á starfshæfni sína og hafi verið óhjákvæmilegt að segja henni upp störfum.

                Af hálfu stefnda er vaxtakröfu stefnanda mótmælt, einkum kröfu um upphafstíma skaðabótavaxta.

                Nánar um lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfuréttar, vinnuréttar og skaðabótaréttar, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, einkum 72. gr., skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr., laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, laga um réttindi sjúklinga nr. 20/1997 og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988

Niðurstaða

Stefnandi starfaði við ræstingar hjá stefnda. Hinn 14. ágúst 2008 lagði hún fram læknisvottorð frá heimilislækni sínum, þar sem kom fram að hún væri óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms. Hófst þá 360 daga veikindaréttur stefnanda samkvæmt grein 12.2.1 í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Stefnandi hóf þó störf að nýju 3. október 2008 í hlutastarfi, en samkvæmt mælingum stefnda nam starfshlutfall hennar þá 24,5%. Hún var skráð í veikindaleyfi frá 18. júní 2009, uns 360 daga veikindaréttur féll niður 9. ágúst 2009. Var stefnanda tilkynnt að ekki yrði um endurkomu að ræða til ræstingarstarfa hjá stefnda, nema sýnt væri fram á að hún hefði fulla starfshæfni. Stefnandi lýsti sig reiðubúna til að snúa aftur í fullt starf. Henni var hins vegar sagt upp störfum frá og með 1. janúar 2010. Stefnandi telur að ákvörðun um uppsögn hafi verið ólögmæt stjórnvaldsákvörðun, sem hafi bakað henni tjón sem stefndi beri bótaábyrgð á.   

                Með bréfi forstöðumanns rekstrar- og þjónustusviðs stefnda, dagsettu 8. desember 2009, var stefnanda sagt upp störfum með vísan til ákvæðis ráðningarsamnings og 43. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. starfsmannalaga hefur forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem mælt er fyrir um í ráðningarsamningi. Þá þarf starfsmaður, samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að fullnægja kröfum um nauðsynlegt heilbrigði til þess að gegna starfinu. Í málinu liggja fyrir ítarleg læknisfræðileg gögn frá heilsugæslu og sérfræðingi í gigtarlækningum um heilsufar stefnanda, allt frá árinu 1994. Kemur þar fram að hún hafi fundið fyrir verkjum frá stoðkerfi um árabil og greinst með vefjagigt. Segir í vottorði heimilislæknis, dagsettu 26. ágúst 2008, að stefnandi valdi ekki lengur vinnu sinni við ræstingar, enda um erfiða vinnu að ræða líkamlega. Á grundvelli framangreindra gagna, viðtala við heimilislækni, viðtölum við og skoðun á stefnanda, gaf Magnús Böðvarsson trúnaðarlæknir út þrjú vottorð um starfshæfni stefnanda, síðast 24. september 2009, þar sem hann mat hana færa um að gegna í mesta lagi 50% starfi. Eru ekki efni til að ætla að trúnaðarlæknir hafi ekki gætt hlutlægni við mat sitt. Ákvörðun um uppsögn stefnanda var byggð á starfshæfnisvottorðum trúnaðarlæknis og þeim læknisfræðilegu gögnum sem lágu þeim til grundvallar. Samkvæmt þeim gögnum var stefnandi ekki fær um að sinna fullu starfi við ræstingar. Vottorð, sem stefnandi framvísaði frá Sigurbirni Sveinssyni heimilislækni og Gunnari K. Guðmundssyni endurhæfingarlækni, og matsgerð Árna Tómasar Ragnarssonar gigtarlæknis og Sveinbjörns Brandssonar bæklunarlæknis, sem síðar lá fyrir, skáru ekki úr um starfshæfni hennar. Þá verður ekki talið sýnt fram á fulla starfshæfni stefnanda með því að hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur að loknum uppsagnarfresti. Verður ekki fallist á það með stefnanda að stefnda hafi borið að leyfa henni að reyna sig við fullt starf, enda kom fram hjá forstöðumanni stefnda að upplýsingar frá trúnaðarlækni hefðu ekki gefið tilefni til þess.

Stefnda var heimilt að segja stefnanda upp störfum samkvæmt 1. mgr. 43. gr. starfsmannalaga og grein 17.1.2 í kjarasamningi, þar sem kveðið er á um þriggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest. Á uppsagnartíma fékk stefnandi greidd lausnarlaun samkvæmt kafla 12.4 í kjarasamningi. Hafa ákvæði kjarasamnings um lausn frá störfum vegna heilsubrests verið túlkuð svo, að ekki sé nauðsynlegt að bíða með lausn þar til starfsmaður hefur verið fjarverandi launalaust í jafnlangan tíma og hann átti rétt á að halda launum, ef ljóst er samkvæmt vottorði læknis að starfsmaðurinn fullnægir ekki lengur kröfum um nauðsynlegt heilbrigði, sbr. grein 11.1 í dreifibréfi fjármálaráðuneytisins um veikindarétt nr. 1/2007. Sem að framan er rakið lágu ítarleg læknisfræðileg gögn til grundvallar ákvörðun um uppsögn. Þá hafði stefndi heimilað stefnanda að vinna skert starf um lengri tíma, samhliða greiðslu veikindalauna, sbr. grein 12.2.10 í kjarasamningi. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á það með stefnanda að stefndi hafi ekki gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar um að upplýsa mál og gæta meðalhófs, sbr. 10. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá var ákvörðun um uppsögn byggð á málefnalegum grunni.

Samkvæmt framansögðu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að ákvörðun stefnda um að segja henni upp störfum hafi verið án lögmæts tilefnis eða að hún hafi brotið í bága við ákvæði stjórnsýslulaga. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Stefndi, Alþingi, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Ólafar Guðmundsdóttur.

                Málskostnaður fellur niður.